Færsluflokkur: Vísindi og fræði
16.7.2010 | 19:52
Endurskoða aflaregluna??
Fram kemur að ráðherra ætli að:
setja á laggirnar samráðsvettvang um nýtingarstefnuna sem í eigi sæti m.a. fulltrúar stjórnvalda, atvinnugreinarinnar og fiskifræðinga. Fyrsta verkefni samráðsvettvangsins verður að fara yfir aflaregluna í þorski og meta hvort ástæða er til að leggja til breytingu á henni með tilliti til breyttra aðstæðna og sterkari stöðu stofnsins. Verði lögð til breyting mun verða haft samráð við Alþjóða hafrannsóknaráðið, m.a. með tilliti til sjálfbærni veiðanna.
Aflareglan stangast á við alla líffræði: Ekki er hægt að ákveða fyrirfram hvað má taka úr dýrastofni. Auk þess er ekki sama hvernig er veitt, á að taka 20% af smáfiski, öllum fiski eða stórfiski. Allt fer þetta fram í tölvunum sem örugglega taka ekki með í reikninginn makrílgegndina sem nú er, flökkufiskur sem étur fiskafæðu og seiði og hverfur svo á braut með ránsfenginn eins og víkingarnir".
Svo þetta með sjálfbærni. Hvað er það? Veiða ekki neitt?
Þetta er versta hugtak sem fundið hefur verið upp og þjónar eingöngu málflutningi Græningja.Varðandi þess aflareglu: Það er barnalegt að miða nýtingu, aflahlutfall, við einhver prósent af stofni, sem er örugglega kolvitlaust mældur, stórlega vanmetinn. En ráðherrann vill nú breyta prósentinu, sem nefndir eru búnar að ákveða tvisvar, fyrst 22% svo 18% ! Enn skal reikna sig áfram.
Hvaða fiskifræðingar skyldu nú fá að vera með? Ekki ég, ekki aðrir sjálfstæðir fiskifræðingar sem eru allir sammála um að aflareglan, fasta prósentan af vitlausu stofnmati, sé della. Ég bíð spenntur að til mín verði leitað, eða þannig.
160 þúsund tonn af þorski | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 18.7.2010 kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.5.2010 | 11:50
„Verndun þorsksins ber ávöxt“, sagði Sigfús 1997
Nú er hart sótt að Hafró um að auka aflaheimildir en stofnunin harðneitar, það sé langtíma markmið að byggja upp stofninn með því að takmarka veiðar og ekki megi kvika frá því þó hart sé í ári. Það hefur verið stunduð væg ofveiði á stofninum í áratugi sagði forstjórinn í útvarpsviðtali fyrir skömmu.
Oft er fróðlegt að skoða gamlar blaðagreinar. Þær eru fljótar að gleymast enda er sagt að ekkert sé jafn gamalt og blaðið frá í gær. Þær eru heimild um hvað menn sögðu, eða voru að hugsa, á hverjum tíma. Heimildirnar mást ekki út þó höfundar kynnu að óska þess.
Hér að neðan er grein úr Mogga frá haustinu 1997, þegar Hafró var að hæla sér af árangri uppbyggingarstarfsins (Mbl. 14. 10. 1997).
Verndun þorsksins ber ávöxt
Á árunum 1986-1996 sýndu mælingar Hafrannsóknastofnunarinnar, að nýliðun í þorskstofninn var oftast langt undir meðallagi. Miðað við sóknarþungann framan af á þessu tímabili varð áframhaldandi minnkun stofnsins ekki umflúin. Sérstakar áhyggjur höfðu menn af þróun hrygningarstofnsins. Lagt var til að draga stórlega úr veiðum, til þess að snúa þróuninni við. Afleiðingarnar af slíkum takmörkunum þýddu mikla tekjuskerðingu fyrir sjávarútveginn og reyndar þjóðina alla auk þess sem hætta var á að markaðir töpuðust. Menn vonuðu í lengstu lög, að unnt yrði komast hjá miklum niðurskurði í afla og fjöregg þjóðarinnar myndi rétta við, nánast af sjálfsdáðum. Sú von brást og enn hélt stofninn áfram að minnka þrátt fyrir ýmsar veiðitakmarkanir.
Eftir útfærslu landhelginnar 1975 hafði árlegur þorskafli verið á bilinu 250-470 þúsund tonn fram til 1993. Nauðsynlegt reyndist að draga svo úr veiðum, að ársaflinn yrði ekki meiri en hann var á árum síðari heimsstyrjaldarinnar, þegar landsmenn voru helmingi færri. Þetta mikilvæga skref var stutt dyggilega af flestum hagsmunaaðilum sjávarútvegsins. Í kjölfar friðunaraðgerða varð aflinn tæp 200 þús. tonn fiskveiðiárið 1993/94. Lægst fór aflinn í 165 þús. tonn fiskveiðiárið 1994/95. Aflareglan svokallaða, sem tekin var upp í þorskveiðunum 1995 er þýðingarmikil við endurreisn þorskstofnsins. Árangurinn af þessum friðunaraðgerðum er nú óðum að koma í ljós:
1. Veiðidánartala hefur lækkað um tæplega helming undanfarin þrjú ár, sem þýðir m.ö.o. að mun fleiri fiskar í veiðistofni lifa úr hverjum árgangi en áður.
2. Bæði veiðistofn og hrygningarstofn eru nú aftur í vexti.
3. Afli á sóknareiningu hefur aukist verulega og þannig stuðlað að hagkvæmari veiðum.
4. Takmörkun sóknar hefur leitt til þess að frekar er sóst eftir stærri og verðmeiri þorski, þannig að dregið hefur úr smáfiskadrápi og skyndilokunum á smáfisk.
5. Í ár eru fyrstu merki um, að klak hafi heppnast bærilega um margra ára skeið. Hefur ekki fundist jafnmikið af seiðum síðan 1984.
Gott klak í ár eru langþráð og um leið ánægjulegustu tíðindin, því í raun fer fiskstofn ekki að rétta við að gagni, nema að klakið heppnist vel og helst sem oftast. Allt er þetta til vitnis um að friðunaraðgerðir undanfarinna ára eru farnar að bera ávöxt. Fleiru er verið að vinna að til verndar þorskinum. Í því sambandi má sérstaklega nefna smáfiskaskiljuna, sem verið er að taka smám saman í notkun. Miklar vonir eru bundnar við hana til þess draga enn frekar úr veiðum smáfisks.
Með stækkandi stofni hefur þorskaflinn aftur farið vaxandi og er kvótinn á yfirstandandi fiskveiðiári 218 þúsund tonn. Óskir um auknar þorskveiðiheimildir eru enn til staðar þótt þrýstingurinn sé ekki eins mikill og oftast áður. Í mikið hefur verið lagt til að ná þeim árangri, sem nú örlar á. Þótt útlitið sé bjartara nú en um langt skeið byggjum við ekki framtíð þorskveiða okkar á einum góðum þorskárgangi. Í kjölfar stækkandi hrygningarstofns markar klakið í ár vonandi, að betri nýliðun sé framundan, því það þarf nokkra góða árganga til að bera uppi auknar veiðar. Aflaregla sú, sem tekin var upp í þorskveiðunum á án efa eftir að skila góðum árangri er fram í sækir. Skynsamlegast er því að halda áfram á þeirri braut hófseminnar, sem þegar hefur verið mörkuð. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að það sem gert hefur verið og verið er að gera til verndar þorskinum, t.d. að taka upp aflareglu fyrir fleiri tegundir, eins og nú er unnið að, muni nýtast vel við friðun annarra fiskstofna í framtíðinni.
Þetta skrifaði Sigfús Schobka fiskifræðingur á Hafró haustið 1997, eftir að metafli hafði verið í seiðaleiðangri Hafró.
Skemmst er frá því að segja að þetta fór allt í vaskinn. Seiðin fóru í fiskafóður og árið 2000 varð horfellir í stofninum, nokkuð sem var kallað ofmat. "Ofmatið" var þrautaleið Hafró til að komast frá óþægilegri gagnrýni um að ráðleggingar þeirra væru della.
Mér er þetta vel kunnugt því ég varaði stjórnvöld við því að hungureinkenni væri í stofninum og að hann að dragast saman en ekki að stækka eins og Hafró hélt fram. Enginn hlustaði en spáin rættist
Enn lemur Hafró hausnum við steininn og reynir að þvinga náttúruna með stærðfræðilögmálum. Fer ekki að verða komið nóg?
Grein Sigfúsar ber með sér verið var að auka veiðar undir vísindalegu eftirliti. Var það þessi væga ofveiði? Bull er þetta.
Myndin að ofan sýnir þorskaflann frá 1988. Hringurinn sýnir bjartsýnistímabilið þegar árangur friðunarinnar var að koma í ljós.
Vísindi og fræði | Breytt 15.7.2010 kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.4.2010 | 13:56
Stofnanamafían, blindingsleikurinn og þöggunin
Skýrslan góða er mikið verk og afskaplega vel og fagmannlega unnin. Stjórnvöld, ráðherrar og embættismenn, fá mikla ofanígjöf, falleinkunn, fyrir trassaskap og meðvirkni. Í Skýrslunni er sagt að kæruleysi ráðherra við að taka á málum, sem varða almannaheill varði við lög.
Allar viðvaranir voru hundsaðar, þeir sem vöruðu við verðandi hruni voru sakaðir um vanþekkingu, öfund og gerðir tortryggilegir á allan þátt. Frægt er þegar menntamálaráðherrann, sjálfur á kafi í bankasukki og kúlulánum, viðhafði þau ummæli um sérfræðing sem varaði við hættunni að hann ætti að fara í endurmenntun! Fjölmiðlar og háskólamenn, með örfáum undantekningum sungu kórinn með sigurliðinu. Forsetinn var besti vinur aðal og klappaði með. En nú hefur verið flett ofan af sinnuleysi stjórnmálamanna, hvernig þeir létu hafa sig að fíflum og þjónkuðu við bankaræningja og sægreifa.
Já sægreifa, þeir keyptu sér aðgang að HÍ til að reka sinn áróður, kennarar í hagfræðideild voru á þönum út um heim að breiða út ágæti kvótakerfisins sem reyndar var upphafið á endinum.
Ég hef gagnrýnt fiskveiðistjórnunina með faglegum rökum í 27 ár. Enginn ráðamanna hefur viljað hlusta, hvað þá að gera eitthvað í málinu. Ég hef boðið sjávarútvegsráðherrum, og flestum stjórnmálaflokkum að skýra mína gagnrýni og tillögur að betri veiðistjórnun með fyrirlestrum byggðum á vísindalegum rökum. Einungs Frjálslyndi flokkurinn tók þessu tilboði. Ég hef setið 3 fundi með sjávarútvegsnefnd Alþingis, í öll skiptin voru fulltrúar Hafró boðaðir til fundar næstir á eftir mér. Þeir hafa væntanlega verið spurðir álits á því sem ég var að segja. Viðbrögð í framhaldi fundunum hafa engin verið (www.fiski.com/raduneyti.html).
Sinnuleysi ráðamanna við að skoða til hlítar hvort hvort gagnrýni á fiskveiðistjórnunina hafi við rök að styðjast varðar við lög. Fiskveiðistjórn varðar almannaheill á Íslandi, þorskstofninn hefir verið kallaður "fjöregg" þjóðarinnar og á sínum tíma var honum komið í vörslu þeirrar stofnunar, sem nú kallast Hafró.
Fjöreggið hefur í vörslu Hafró rýrnað um tvo þriðju. Einkaaðilar eru, í samvinnu við vörslumennina, að sjúga út því rauðuna, spæla hana og éta. Man einhver eftir því að LÍÚ keypti skip handa Hafró og hefur nú meirihluta í stjórn stofnunarinnar?
Í stað þess að bregðast við, með því að sannreyna hvort eitthvað sé til í gagnrýninni líða ráðherrar og alþingismenn Hafróliðinu að afvegaleiða gagnrýnina og kasta skít í gagnrýnendur á tímum sem þjóðin þarf mest á fiskinum sínum að halda. Og enn eru fjölmiðlar meðvirkir. Þöggunin á fullu.
Ekki hefur gagnrýni minni verið hnekkt með haldbærum rökum eða hún verið afsönnuð með tilraunum. Ég hef oft stungið upp á við ráðamenn að gera tilraun með að afmarka ákveðið svæði, leyfa þar frjálsar veiðar til að sjá hvað myndi gerast, en megin þunginn í gagnrýni minni hefur verið að það þurfi að veiða meira, sérstaklega af smáfiski, svipað og gert var hér áratugum saman.
Með þessu ætti að vara einfalt að sýna fram á að ég hefði rangt fyrir mér. Þetta hefur enn ekki verið gert. Hvers vegna?
Vísindi og fræði | Breytt 15.4.2010 kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.4.2010 | 14:08
Met í loðmælsku?
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra skrifar grein í Fréttablaðið í dag (1/4) og þar segir hún m.a:
"Ég hef góðar vonir um að atvinnuástand glæðist með vorinu þar sem mikill gangur er í ferðamennsku og tækniiðnaði svo og í sjávarútvegi og áliðnaði. Skortur á aflaheimildum í sumar er áhyggjuefni og hlýtur að verða til þess að gerð verði sérstök athugun á því hvort hægt sé að auka aflaheimildir tímabundið til að kljást við þann vanda innan forsvaranlegra marka".
Þessi - kannski, gæti verið, ef til vill - loðmælska er ótrúleg. Hér er allt vaðandi í fiski, því ekki að veiða verulega meira og það strax? Jón Bjarnason sagði reyndar í viðtali við Fréttablaðið: "Ég ræð þessu". Gaman gaman, ég ræð, um það snýst málið. Einn maður hefur í hendi sér að ráða örlögum fólksins í landinu, og hann þorir ekki að gera neitt.
Er verið að gæta hagsmuna annarra en þjóðarinnar sem á miðin? Hvers vegna vilja stjórnendur landsins ekki auka aflaheimildir. Mér detta í hug tvær skýringar:
1. Þegar til stóð fyrir nokkrum árum að auka aflaheimildir í þorski um 30 þús. tonn mætti ég hátt settum sægreifa niður við höfn. Hann sagði við mig að vitlausasta sem hægt væri að gera væri að auka aflaheimildir, það myndi einungis leiða til þess að fiskverð (lesist: útleiguverð á kvóta) lækkaði.
2. Ef aflaheimildir yrðu auknar kæmi í ljós að það væri allt í lagi og leiddi jafnvel til enn meiri aukningar síðar. Þar með væri ofveiðistjórnunin sett í voða, og einokunarvald sægreifanna komið í uppnám.
Getuleysi stjórnmálamanna til að brjóta upp ofurvald ofveiðistjórnarinnar er hryðjuverk. Svo segir ráðherrann með stolti: "Ég ræð"! (lesist: ég hef gjaldeyrisöflun þjóðarinnar í hendi mér)
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
16.3.2010 | 17:46
Ofveiðistjórnun- stjórntæki blekkingarinnar
Stjórn fiskveiða felst ekki lengur í að hámarka afrakstur fiskistofna heldur að halda vinnunni og blekkja almenning. Með því að halda fram að fiskstofnar séu ofveiddir þá blæs rannsóknarapparatið (Hafró) út, það verður að efla rannsóknir, segja menn. Eftirlitsapparatið (Fiskistofa) stækkar, það verður að passa upp á reglurnar, smáfiskavernd, aflahámörk og hvað þetta allt heitir, - til að koma í veg fyrir ofveiðina. Til þess að halda vinnunni má ofveiðin aldrei hætta. Hver kannast ekki við: Það þarf að auka fé til rannsókna?
Ef ekki væri ofveiðin þyrfti ekki alla þessa menn. Athyglisvert er að svo lengi sem ég man eftir hefur þorskstofninn verið ofveiddur. Þegar veiddust 500 þús tonn á sjötta áratugnum var hann ofveiddur, þá voru innan við 10 menn að vinna við fiskirannsóknir. Hann var enn ofveiddur 1970 þegar aflinn var um 400 þús tonn, og áfram og áfram. Í dag eru veidd 150 þús tonn og enn er þorskurinn ofveiddur. Útlendingarnir eru farnir, togaraflotinn helmingaður, netaveiðiflotinn ónýtur, trilluflotinn laskaður og 2 trillur róa nú með net í Faxaflóa. Og enn er ofveiði!
Þetta ofveiðikjaftæði er alheims vandamál: Hver kannast ekki við ofveiðina í Norðursjó, við Kanada, í Eystrasalti og reyndar í Barentshafi, en það er eini staðurinn þar sem stunduð er veiði langt umfram tillögur um sjálfbæra veiði. En þar er afli stöðugt vaxandi, vegna ofveiðinnar.
Síðustu daga hefur LÍÚ notað ofveiðina í áróðursskini til þess að verja kvótakerfið illræmda: Stjórnvöld ætla að ofveiða skötusel, 80% umfram tillögur Hafró. Það stefnir í áliti Íslands sem ábyrgri fiskveiðiþjóð í hættu, segir LÍÚ!
Farið er að ræða þetta á alþjóða grundvelli og hér eru tvær áhugaverðar slóðir:
http://www.savingseafood.org/columns/the-times-they-are-a-changin-by-nils-stolpe-2.html
http://www.gloucestertimes.com/puopinion/local_story_356094301.html?keyword=topstory
Vísindi og fræði | Breytt 17.3.2010 kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.3.2010 | 14:18
Ekkert brottkast, allt hráefni að landi
Nú í hallærinu eru þeir í Sjávarútvegsráðuneytinu að dunda sér við að færa í reglur að allt hráefni sem fellur í togaratroll skuli fært að landi. Hausa, dálkar, innyfli og annað, allt skal þetta heim og þar í gúanó. Ráðherra segir að þetta "snúi að siðlegri umgengni við sjávarauðlindina".
Á meðan við búum við handónýtt fiskveiðikerfi sem hvetur til brottkasts, vannýtir miðin, flytur sjósókn frá fólkinu til sægreifa, þá eru pappírsdýrin að vinna í því að koma slorinu í land - með tapi. Allt í einhverri ímyndaðri "virðingu" við náttúruna.
Nær væri að skylda þá á skipunum til að kurla niður hausa og beinagarða áður en þeir fara í hafið svo "hráefnið" verði aðgengilegra fyrir horfiskinn, sem ekki má veiða.
Sami ráðherra, landbúnaðar- og sjávarútvegs, skiptir sér hins vegar ekki af því að "veiðimenn" séu að skemmta sér við að kvelja laxa, þreyta þá til ólífis og sleppa þeim aftur. Þetta er þó hreint lögbrot, það er í trássi við dýraverndunarlög, sem segja að veiðidýr skuli aflífað svo fljótt sem auðið er og að bannað sé að kvelja dýr sér til skemmtunar. Hvar er virðingin við lífríkið?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
4.3.2010 | 18:18
Hjakkað í sama farinu
Það getur verið gaman að rifja upp gamalt. Myndir verða skemmtilegri þegar árin líða, eins er með gamlar greinar, þá segir maður við sjálfan sig: Já, skrifaði ég þetta þá?
Hafróliðið lagði af stað í rall í vikunni og verður á sjó í þrjár vikur á þremur togurum. Góð búbót í formi yfirvinnu og sjópeninga í kreppunni.
Niðurstaðan verður sú að annað hvort veiða þeir minna eða meira en í fyrra, en þá veiddu þeir 25 tonn í úthaldinu. Ef þeir veiða minna þá láta þeir draga meira saman, ef þeir veiða meira, þá segja þeir ekki alveg að marka það, bíða verði eftir næstu "mælingu" og ekki megi slaka á uppbyggingunni. Sannið til, svona verður niðurstaðan, sama gamla tuggan.
Ég rakst á grein úr Pressunni en þar eru nokkrir lykilmenn spurðir álits á ráðgjöf Hafró um stóra samdráttinn 1993, þegar ráðlagt var að fara niður í 150 þús. tonn. Hver varð svo reynslan? Við erum enn að hjakka í sama farinu!
(Smella á myndina til að velja, smella aftur til að stækka)
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2010 | 18:07
Ráðherra sjávarútvegs skríður fyrir Klíkunni
Jón Bjarnason lét það verða sitt fyrsta verk sem ráðherra sjávarútvegs að skrifa eitt lítið lettersbréf til ICES og lofa statt og stöðugt að hann skyldi í einu og öllu eftir fiskveiðiráðgjöf Hafró næstu 5 ár (!) svo tryggja mætti ábyrga nýtingu og stuðla að uppbyggingu þorskstofnsins.
-Risaþorskur við hafnarkjaftinn í Reykjavík-
En hann gerði meira, hann bað ICES að taka út nýtingarstefnu Hafró næstu árin og nú hefur borist svar eins og segir í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu:
Þann 20. janúar sl. barst sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóni Bjarnasyni, hjálagt svar Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), sem íslenska Hafrannsóknarstofnunin á aðild að, þar sem gerð er grein fyrir úttekt sérfræðinganefndar sem kölluð var sérstaklega til að taka út nýtingarstefnu þá sem Hafrannsóknastofnunin lagði til vorið 2009 að fylgt verði á næstu fimm árum. Í svari ICES kemur m.a. fram það álit á mati Hafrannsóknastofnunarinnar, að þessi nýtingarstefna muni leiða til þess, með yfirgnæfandi líkum, að hrygningarstofnar þorsks fari vaxandi og verði stærri árið 2015 en þeir voru í ársbyrjun 2009. Jafnframt kemur fram að nýtingarstefnan sé í samræmi við alþjóðleg varúðarsjónarmið og viðmið um afrakstur fiskistofna sem leiði til betri afkomu til lengri tíma litið.
Er hægt að leggjast lægra, eða er þetta brandari? Hvernig dettur ráðuneytinu í hug að spyrja ICES? Vita þeir ekkert hvað ICES er?
Ég get upplýst þá um hvernig ráðgjafanefnd N-Atlantshafsins var samsett árið 2004, þegar ég var að vinna í Færeyjum og með verkefni fyrir Grænlendinga:
ICES- North Western Working Group 27 April - 6 May 2004, Copenhagen.
1.1 Participants
Einar Hjörleifsson (chair) Iceland
Bjorn Ævarr Steinarsson Iceland
Torsteinn Sigurdsson Iceland
Höskuldur Björnsson Iceland
Sigurdur Jónsson Iceland
Kristján Kristinsson Iceland
Jákup Reinert Faroe Islands
Petur Steingrund Faroe Islands
Jean-Jacques Maguire Faroe Islands
Lise Helen Ofstad Faroe Islands
Luis Ridao Cruz Faroe Islands
Jesper Boje Greenland
Marie Storr-Paulsen Greenland
Kay Panten Germany
Hans Joachim Rät Germany
Jolyon Chesworth JRC, Italy
Sergei Melnikov Russia
ICES, Hafró, Fiskirannsóknastovan í Færeyjum og Náttúrufræðistofa Grænlands, er allt sama bixið! Bara skipt um hatt eftir því hvort þeir eru heima hjá sér eða að drekka saman öl í Kaupinhöfn.
Ekki að furða þó heitt hafi verið í kring um mann á þessum tíma!
Vísindi og fræði | Breytt 21.3.2010 kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.2.2010 | 18:39
Drap ofveiði þorskstofninn við Nýfundnaland?
Enn er staðfastlega haldið fram að þorskstofninn við Nýfundnaland hafi verið veiddur upp á árunum 1980-1990. Þá er fullyrt að hann hafi enn ekki náð sér eftir 20 ára friðun. Sú fullyrðing segir óbeint að honum hefði sem sagt verið útrýmt með veiðum.
Þrátt fyrir að lögð hafi verið fram gögn sem sanna að hann hafi fallið úr hungri er ofveiðinni enn kennt um, þó svo að erlendi flotinn, sem hafði verið þarna að veiðum áratugum saman, hafi verið reknir úr landhelginni 1976.
Þrátt fyrir lögð séu fram gögn, frásagnir sjómanna og ljósmyndir, er enn fullyrt að þarna sé fisklaust. Að mínu mati er þetta gert til að halda lífinu í ofveiðinni sem stjórntæki, skapa ótta, þar með skortstöðu, sem viðheldur kvótakerfum og sægreifaveldi.
Ég setti saman glærusýningu sem sýnir að ekki var um ofveiði að ræða og að þorskurinn hafi komið sterklega til baka fyrir a.m.k. 5 árum síðan.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2010 | 17:58
Brussel vill stjórna öllum fiskveiðum
Ég fékk nýlega fréttabréf FAL, sem er eitt af sjómannafélögunum í Skotlandi. Þar er m.a. fjallað um væntanlegan niðurskurð á aflakvótum í Norðursjó, viðbrögð FAL við Grænplaggi Evrópusambandisins, en þar er fjallað um framtíðarstefnu EB í fiskveiðimálum. Hún er m.a. sú að öll stjórnun sjávarauðlinda fer til Brussel. Barátta Skota til að hafa eitthvað að segja um nýtingu eigin fiskstofna virðist vonlaust og hefur engu skilað. Þá er grein eftir David Tompsson um einræðið sem Brussel fær skv. Lissabon sáttmálanum.
Meðal annars efnis er uppskrift að girnilegum síldarrétti, sem kemur okkur lítið að gagni þar sem fersk síld er ófáanleg í Fisklandinu.
Væntanlegur niðurskurður í Norðursjó er mikill, 15% í ýsu, 15% í ufsa og 61% í lýsu. Enn er óvíst með þorskinn því EB hefur ekki samið enn við Noreg.
Sem dæmi um niðurskurðinn má taka að 1994 var úthlutað til SFO, eins sjómannasambandanna, rúmum 14000 tonnum af þorski en 2008 var skammturinn kominn í 1800 tonn. Þess ber að geta að flotinn hefur verið skertur um 50% á tímabilinu en sjómenn segja að grjótnógur fiskur sé á slóðinni. Það er ekki bara hér sem reiknikúnstirnar og dellan ráða ferðinni.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)