Stofnanamafían, blindingsleikurinn og þöggunin

Skýrslan góða er mikið verk og afskaplega vel og fagmannlega unnin. Stjórnvöld, ráðherrar og embættismenn, fá mikla ofanígjöf, falleinkunn, fyrir trassaskap og meðvirkni. Í Skýrslunni er sagt að kæruleysi ráðherra við að taka á málum, sem varða almannaheill varði við lög.


Allar viðvaranir voru hundsaðar, þeir sem vöruðu við verðandi hruni voru sakaðir um vanþekkingu, öfund og gerðir tortryggilegir á allan þátt. Frægt er þegar menntamálaráðherrann, sjálfur á kafi í bankasukki og kúlulánum, viðhafði þau ummæli um sérfræðing sem varaði við hættunni að hann ætti að fara í endurmenntun! Fjölmiðlar og háskólamenn, með örfáum undantekningum sungu kórinn með sigurliðinu. Forsetinn var besti vinur aðal og klappaði með. En nú hefur verið flett ofan af sinnuleysi stjórnmálamanna, hvernig þeir létu hafa sig að fíflum og þjónkuðu við bankaræningja og sægreifa.


Já sægreifa, þeir keyptu sér aðgang að HÍ til að reka sinn áróður, kennarar í hagfræðideild voru á þönum út um heim að breiða út ágæti kvótakerfisins sem reyndar var upphafið á endinum.

Ég hef gagnrýnt fiskveiðistjórnunina með faglegum rökum í 27 ár. Enginn ráðamanna hefur viljað hlusta, hvað þá að gera eitthvað í málinu. Ég hef boðið sjávarútvegsráðherrum, og flestum stjórnmálaflokkum að skýra mína gagnrýni og tillögur að betri veiðistjórnun með fyrirlestrum byggðum á vísindalegum rökum. Einungs Frjálslyndi flokkurinn tók þessu tilboði. Ég hef setið 3 fundi með sjávarútvegsnefnd Alþingis, í öll skiptin voru fulltrúar Hafró boðaðir til fundar næstir á eftir mér. Þeir hafa væntanlega verið spurðir álits á því sem ég var að segja. Viðbrögð í framhaldi fundunum hafa engin verið (www.fiski.com/raduneyti.html).

Sinnuleysi ráðamanna við að skoða til hlítar hvort hvort gagnrýni á fiskveiðistjórnunina hafi við rök að styðjast varðar við lög. Fiskveiðistjórn varðar almannaheill á Íslandi, þorskstofninn hefir verið kallaður "fjöregg" þjóðarinnar og á sínum tíma var honum komið í vörslu þeirrar stofnunar, sem nú kallast Hafró.

Fjöreggið hefur í vörslu Hafró rýrnað um tvo þriðju. Einkaaðilar eru, í samvinnu við vörslumennina, að sjúga út því rauðuna, spæla hana og éta. Man einhver eftir því að LÍÚ keypti skip handa Hafró og hefur nú meirihluta í stjórn stofnunarinnar?
Í stað þess að bregðast við, með því að sannreyna hvort eitthvað sé til í gagnrýninni líða ráðherrar og alþingismenn Hafróliðinu að afvegaleiða gagnrýnina og kasta skít í gagnrýnendur á tímum sem þjóðin þarf mest á fiskinum sínum að halda. Og enn eru fjölmiðlar meðvirkir. Þöggunin á fullu.


Ekki hefur gagnrýni minni verið hnekkt með haldbærum rökum eða hún verið afsönnuð með tilraunum. Ég hef oft stungið upp á við ráðamenn að gera tilraun með að afmarka ákveðið svæði, leyfa þar frjálsar veiðar til að sjá hvað myndi gerast, en megin þunginn í gagnrýni minni hefur verið að það þurfi að veiða meira, sérstaklega af smáfiski, svipað og gert var hér áratugum saman.

Með þessu ætti að vara einfalt að sýna fram á að ég hefði rangt fyrir mér. Þetta hefur enn ekki verið gert. Hvers vegna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Við erum að tala um pólitískar ákvarðanir sem lengi hefur leikið grunur á að stýrt sé af hagsmunasamtökum. Þessi orðrómur hefur ekki verið leyndarmál en stjórnvöld virðast aldrei hafa kært sig um eða þorað að hnekkja með neinum þeim leiðum sem vissulega væri hið auðveldasta mál.

Með því að fara þá leið sem þú bendir á og gera tilraun á afmörkuðu svæði kæmi fljótt hið sanna og rétta í ljós.

Og þá hlýtur að styrkjast enn sá grunur að líklega séu öflug hagsmunasamtök í atvinnu-og viðskiptalífi stjórnvöldum ofviða til viðfangs þótt í húfi séu þjóðarhagsmunir með örlagarík og hagstæð búsetuáhrif í ofanálag.

Og er þá ekki talað um bein mannréttindi og stjórnarskrárvarinn atvinnurétt.

Hún er ekki altæk eða tæmandi skýrsla rannsóknarnefndarinnar. 

Kannski var ekki ætlast til þess að svona djúpt yrði kafað í fjórflokkinn allan eins og þarna hefði þurft að gera.

Árni Gunnarsson, 13.4.2010 kl. 21:05

2 Smámynd: Atli Hermannsson.

Jón, sendu Fréttablaðinu þessa grein... og það strax

Atli Hermannsson., 13.4.2010 kl. 23:33

3 Smámynd: Grétar Mar Jónsson

Góð færsla Jón, ég tók mér það bessaleyfi að setja link á bloggið þitt á Facebook síðuna mína.

Grétar Mar Jónsson, 15.4.2010 kl. 09:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband