Færsluflokkur: Vísindi og fræði
12.1.2010 | 17:26
Loðnuskandallinn
Alveg er það merkilegt hvernig Hafró færa að halda loðnuflotanum í gíslingu meðan þeir rassskellast um Dumbshafið og reyna að telja loðnu. Þeir virðast trúa því sjálfir að unnt sé að telja loðnu af einhverju viti á Íslandsmiðum með nákvæmni upp á 1000 tonn.
Eftir margar ferðir út og suður hafa þeir nú mælt 355 þús tonn og vantar því enn 45 þús tonn upp á 400 þús. tonnin sem ákveðið var fyrir áratugum að skyldi vera nauðsynlegur til viðhalds tegundinni. Því skulu ekki hafnar veiðar að svo stöddu. Væntanlega verður beðið og beðið á meðan þeir reyna að mæla meira og meira, ef þeir finna 46 þús tonn í viðbót verður væntanlega dreginn hvítur fáni að húni og gefið út leyfi fyrir 1000 tonnum.
Segjum nú að hægt sé að mæla þá loðnu sem siglt er yfir með einhverri nákvæmni. Það sem snillingarnir hafa fundið á sínum ferðum eru nú orðin 355 þús. tonn. Að öllum líkindum hafa þeir siglt fram hjá eða ekki fundið nokkrar loðnutorfur, svo óvissan er í þá áttina, lágmarksmæling. Það er því alveg öruggt að það er meiri loðna en þeir finna. En það verður að bíða þar til snillingarnir hafa fundið það sem þeir hafa ekki fundið nú þegar. Þá, þegar þeir hafa legið á því og talið má fara af stað. Við þetta gauf og þennan fíflagang tapast tími, enda hefur það gerst í a.m.k. sl. 3 ár að komið hefur loðna sem hefur ekki fundist áður skýtur allt í einu upp kollinum, en of seint svo skipin ná ekki kvótanum. Í fyrra lágu þeir á torfu í heila viku og mældu og mældu, allir biðu, en þegar kallið kom var það of seint, kvótinn féll dauður niður.
Hvernig stendur á að mönnunum líðst það ár eftir ár að hafa milljarða af þjóðinni? Væri ekki nær að gefa út byrjunarkvóta strax til að koma flotanum í gang, og þannig finna meira af loðnu fyrr?
Önnur hlið á þessu máli er svo sú að þó alltaf hafi verið skilin eftir þessi heilögu 400 þús. tonn til hrygningar, er loðnustofninn í sögulegu lágmarki.
Vill ekki einhver stoppa þessa vitleysu?
Hrygningarstofn loðnu 355 þúsund tonn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 4.2.2010 kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.12.2009 | 11:25
Vísindavillur á fiskislóð
Nýlega var haldin ráðstefna í tengslum við "World fisheries day" sem haldinn var i Lorient í Frakklandi. Þar flutti erindi Menakhem Ben-Yami sem er reyndur fiskifræði- og sjómaður, sá sami sem vann álitsgerð fyir Færeyinga. Ég kynntist honum á N. Írlandi þegar við unnum þar fyrir sjómenn.
Í fyrirlestri sínum gagnrýnir hann nútíma fiskivísindi harðlega.
Sjá fyrirlestur á ensku: http://www.allcoast.com/discussion/ViewTopic.cfm?topic_ID=103700
Vísindi og fræði | Breytt 4.2.2010 kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.12.2009 | 17:08
Íslensk fiskveiðistjórn við hringborð í Póllandi
Ég var að koma frá Póllandi, en þangað var mér boðið til að taka þátt í hringborðs umræðum sem reglulega eru haldin til að ræða pólskan sjávarútveg. Þeir fengu mig til þess að segja frá reynslu Íslendinga af Kvótakerfinu, en nú er verið að reyna að þvinga framseljanlegt kvótakerfi upp á pólska sjómenn. Einnig flutti ég erindi um reynslu Færeyinga af sínu dagakerfi.
Ég fléttaði saman fiskveiðistjórn og árangur af henni, hvernig Kvótakerfið var innleitt til að setja meiri hömlur á veiðarnar í því skyni að byggja upp þorskstofninn, sem kominn hafði verið að fótum fram vegna ofveiði og græðgi sjómanna.
Árangursleysi stjórnunar, villukenningar og blindganga Hafró, getuleysi stjórnmálamanna til að breyta vonlausu og niðurrífandi kerfi, vegna þess að sægreifarnir hafa þá alla í vasanum, styðja þá og styrkja.
Ég reyndi að tala það mál sem menn skildu og dró ekkert undan, enda engin ástæða til að hlífa neitt kerfi sem er búið að leggja landið í rúst.
Skemmst er frá því að segja að ég fékk gríðarlega góð viðbrögð frá sjómönnum og græningjum, en kerfiskarlanir, sem vilja koma kerfinu á voru ekki eins hressir. Mér kom reyndar á óvart afstaða græningja, WWF og Greenpeace, en þeir líta á fiskveiðar og sjómenn sem hluta af náttúrunni og menningu sem þarf að viðhalda. Þeir hváðu ekki einu sinni þegar ég sagði þeim að við hefðum veitt 170 stórhveli s.l. sumar.
Kerfis/ríkis-karlarnir sögðu að með því að sneiða af helstu gallana væri rétt að prófa kvótakerfið í þrjú ár og sjá svo til.. Svona byrjaði þetta hjá okkur sagði ég, þið megið alls ekki rétta skrattanum litla fingurinn.
Þarna urðu miklar umræður og mikið gaman og ég fann að ég hafði gert mikið gagn með minni hreinskiptu frásögn af þessu hagræðingarkerfi andskotans.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.12.2009 | 18:04
Hlýnun jarðar af mannavöldum- tilbúin fjárkúgun og svindl?
Þann 23. nóvember sl. var eftirfarandi frétt lesin einu sinni á Bylgjunni. Síðan hefur ekki heyrst múkk, hvergi. Fréttin um að tölvuþrjótar hefðu brotist inn í tölvukerfi vísindamanna sem halda fram hnattrænni hlýnun:
"Þar kemur ýmislegt fram sem efasemdarmenn um hlýnun jarðar segja að sýni ljóslega að vísindamennirnir stundi blekkingar til þess að ýkja áhrif mannsins á loftslagsbreytingar."
sagði í fréttinni".
Fjölmiðlar heimsins hafa verið þöglir um þetta, enda loftslagsráðstefna SÞ að fara af stað í næstu viku, með þátttöku 100 þjóðarleiðtoga, Obama og co. - Skyldi Óli annars láta sjá sig?
Hér er slóð, sem tekur þetta mál fyrir, svindlið, peningaplokkið og þögn fjölmiðla. Hvenær verður fiskveiðistjórnarmafían með öllu sínu bixi tekin á beinið?
Hér er önnur slóð um málið. (Var að heyra að Spegillinn í útvarpinu taki málið fyrir núna, föstudag 4/14)
Vísindi og fræði | Breytt 7.12.2009 kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2009 | 20:40
Snurvoð, - listaveiðarfæri eða skaðræðisgripur?
Skipuð hefur verið nefnd til að athuga hvort snurvoð geti veri skaðlegt veiðarfæri, fari illa með botninn. Um þetta eru skiptar skoðanir, þess vegna var nefndin sett á laggirnar. Oft hefur verið sagt að voðin hafi tekið svo miklum breytingum að gömlu næturnar hafi verið eins og vasaklútar í samanburði.
Þetta er nú ekki alls kostar rétt, en nú eru notuð betri efni og gerð fótreipis hefur verið breytt því oft eru notaðar körtur eða hopparar, til að geta dregið á grófari botn, en í gamla daga voru notuð fótreipi út tógi.
Ég gróf upp bók frá 1939 eftir Árna Friðriksson þar sem hann skrifar um snurvoð, lýsir gerð hennar og áhrifum hennar á lífríkið. Þar má einnig finna mikinn fróðleik um áhrif veiðarfæra á fiskstofna almennt séð.
Ég skannaði það helsta úr bókinni og geta fróðleiksfúsir fundið það hér. Ef menn vilja fræðast betur, má finna þessa bók á safni.
Vísindi og fræði | Breytt 7.12.2009 kl. 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.11.2009 | 21:50
Reynslan sýnir að mikil sókn stækkar stofna – og öfugt
Vísindanefnd NAFO lagði til veiðibann á rækju á Flæmska hattinum 1996 og árin þar á eftir, eða að þar yrði sókn í algjöru lágmarki, en aflinn 1995 hafði verið um 25 þúsund tonn. Ekki var farið eftir þessu, 40 skip voru þarna að veiðum og aflinn varð 46 þús. tonn. Þeir héldu áfram að ákveða niðurskurð en lítið var eftir því farið enda afli á skip í stöðugum vexti. Alls voru veidd 100 þúsund tonn umfram ráðgjöf árin 1996-2001.
Afli skipa var góður en vegna lækkandi afurðaverðs og hækkandi olíuverð fækkaði skipum þarna ár frá ári og mátti telja þau á fingrum annarar handar 2008. Nú, árið 2009, hefur dregið mjög úr afla á skip og NAFO lagði til á fundi í september sl. að veiðar yrðu stöðvaðar að stofninn mælist svo lítill!
Eins og áður sagði hefur sókn verið í lágmarki síðustu ár. Þarna er komið að þeirri staðreynd að við auknar veiðar stækkar stofninn, gagnstætt því sem skrifstofuráðgjafarreiknimeistararnir fullyrða. Sé hinsvegar dregið úr veiðum minnkar stofninn. Það sem kemur út úr Kýrhausnum er öfugt við reynsluna. Þetta var reynslan af Hattinum og 15 ára veiði þar, en um þetta eru fjölmörg önnur dæmi, sem ég tek etv. fyrir síðar.
Þá er mjög merkilegt að á fundinum sem áður var getið er um þurfti atkvæðagreiðslu um veiðibannið.
Í viðtali við "Fiskifréttir" 26. nóvember sl. sagði Óttar Yngvason, sem gerir út rækjuskip, m.a. á Flæmska hattinum, að hann hann furðaaði sig á tillögu að veiðibanni:
...."þótt sóknin hafi minnkað á Flæmingjagrunni er enn nokkur veiði þar..... Kanadamenn og Bandaríkjamenn hafa alltaf viljað hrekja rækjuskipin burt, Kanadamenn vegna eigin hagsmuna og Bandaríkjamenn hafa verið í krossferð gegn veiðum í úthöfunum enda undir sterkum áhrifum frá græningjum. Norðmenn studdu tillöguna um bann og einnig Hafrannsóknastofnun sem þannig snérist gegn hagsmunum Íslendinga. Á fundi í London í september studdi EB ekki veiðibannið (!) og kom til atkvæðagreiðslu um tillöguna. Tillögunni var hafnað 6:4. Þeir sem voru á móti voru Kanadamenn, Kanar, Norðmenn og Íslendingar"!
Miklir menn erum við Hrólfur minn!
Vísindi og fræði | Breytt 28.11.2009 kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.11.2009 | 14:35
Meira salt! - Enn hækkar í síldartunnunni
Í fyrra var um 1/3 síldarstofnsins sýktur og þó þurfti ráðherraleyfi til að hreinsa Vestmannaeyjarhöfn af deyjandi síld. Þá var síldin með dökka bletti í holdi svo það hefði þurft að handflokka flök í vinnslu. Ekki hefur ástandið lagast, þriðjungur er nú sagður sýktur.
En kýrhausinn er ekki tómur; nú er síldin öll sögð hæf til manneldis, sýkingin sé ekki komin í holdið, hún sé bara í hjartanu.
Bíðum nú við. Hvar er sýkta, blettóta, síldin frá í fyrra? Læknaðist hún eða er hún öll dauð? Þá ætti stofninn að hafa minnkað sem því svarar, mínus vöxt og nýliðun. En hvað kemur út úr kýrhausnum?
Stofninn var ekki neitt minni í júni s.l. en hann var í fyrra og nýjasta mæling þeirra í kýrhausnum segir að hann hafi stækkað frá þeim tíma og það megi því veiða 40 þús tonn.
Henni hefur þá snjóað, ég fann nokkrar í garðinum í morgun.
(Kýrhausinn er fenginn að láni frá Ásgeiri Jakobssyni heitnum)
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.10.2009 | 14:03
Heilagir pestargemlingar
Síldarbátur "fann" mikla síld í Breiðafirði við Stykkishólm, en þangað hefur hún safnast til vetursetu síðustu ár. Hafró sendi rannsóknarskipið Dröfn á staðinn til að kanna málið.
Ekki verður leyft að veiða fyrr en gengið hefur verið úr skugga um hve stór hluti stofnsins sé sýktur. Hugmyndafræði Hafró hefur byggst á að ekki skuli veitt úr stofninum sé hann mikið sýktur, væntanlega vegna þess að sýkingin drepi stofninn svo hann verði það lítill að hann þoli ekki veiði (?).
Nú hefur verið greint frá því að um 30% stofnsins hafi drepist vegna sýkingar. Talið er að 30% hrygningarstofnsins sé sýktur en hann er talinn vera 340 þús. tonn. Hafró "vill" að hann sé 300 þús tonn til að tryggja viðhald hans og því ákvarðist veiðar á því hvort pestin drepi hann niður fyrir þau mörk: Eru menn ekki alveg með "fulle fem"? Jakob Jakobsson síldarsérfræðingur hélt því fram við mig á sjöunda áratugnum að ekki skipti máli hve hrygningarstofn síldar væri stór. Hún hrygndi á botninn, hverju laginu ofan á annað og það væri aðeins efsta lagið sem lifði. Ekki veit ég til þess að þetta hefði verið hrakið. En þá vorum við að leita að síld og vildum veiða sem mest, en það er önnur saga.
Á að láta pestina grassera til að eyðileggja síldarstofninn? Er ekki nær að nýta þá dauðadæmdu? Þarf ekki að slátra pestargemlingunum til að koma í veg fyrir frekara smit?
Mæðiveikirollum var slátrað, riðuveikifé er umsvifalaust lógað, allt til að koma í veg fyrir frekara smit. Vitað er að aukinn þéttleiki eykur líkur á smiti og því ættu viðbrögðin að vera þau að minnka stofninn, og nýta það sem annars fellur af sjúkdómi. En Hafró er trú reiknilíkunum og hugsar ekki eina hugsun til enda.
Skv. nýjustu fréttum er sýkingarhlutfallið enn 30%. Smitið er sem sé enn að breiðast út. Lítum aðeins nánar á pestina og skoðum handbók fiskeldismanna:
Sýkillinn, Ichthyophonus hoferi, er fyrst og fremst í fiskum í sjó og eru flestar tegundir þeirra næmar, einkum síld. Ef eldisfiskar eru fóðraðir á hráfiski úr sjó er hætta á að smitið berist í ferskvatnsfiska.
Einkenni: Gulir, ljósir bólgublettir sjást í innri líffærum og vöðvum. Súr lykt af holdi. Einkennum getur svipað til þeirra sem orsakast af Renibacterium salmoninarum, Mycobacterium- og Exophiala tegundum.
Meðferð: Engin.
Forvarnir: ''Hvíla'' eldisker. Gæta skal þess að ala eldisfiska ekki á hráum sjávarfiski.
Þar höfum við það. Líkindi eru á að fiskar sem éta sýkta síld smitist og deyi. Þar má telja þorsk og lax. Laxamenn hafa velt því fyrir sér hvort skýra mætti óvenju mikinn dauða laxa í sjó með því að þeir hafi smitast við að éta rauðátu sem ber smitið, eða síld sem hefur étið sýkta rauðátu (sjá nánar hér).
Allt ber að sama brunni: Það er klárlega rangt að friða pestarfé.
Hvenær verða Hafrómenn teknir til bæna? Hvenær verða þeir settir í steininn?
Mynd af sýktum laxi
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.10.2009 | 19:10
Er hann kominn til Færeyja?
Skv. frétt "Dimmaletting í gær er rífandi þorskveiði við Færeyjar:
http://fiski.blog.is/blog/fiski/entry/962222/
Hefur þorskurinn tekið á rás norðureftir? Varla svona snögglega. Þorskur er nefnilega fremur staðbundinn. Og þó, við Færeyjar getur hann nefnileg látið veiða sig, þar eru engin aflatakmörk þegar fiskur gefur sig til.
Hlýnun gæti aukið þorskgengd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.10.2009 | 17:52
Rífandi veiði í Færeyjum
Það fóru 83 tonn af þorski og mikið af öðrum tegundum um fiskmarkaðinn að Tóftum í Færeyjum í gær (7. okt.) skv. frétt úr "Dimmalætting". Alls voru seld 211 tonn af fiski fyrir 61 milljón ísl. króna.
Sl. mánudag (5. október) voru seld 172 tonn, þar af 70 tonn af þorski, á markaðinum fyrir rúmar 50 milljónir íslenskra króna. 42 tonn af ýsu seldust á um 10 milljónir.
Mikið hefur veiðst af keilu, 35 tonn fóru um markaðinn í gær. Af skötusel seldust 10 tonn, meðalverð 650 kr. kg.
-------
Haldið hefur verið fram að fiskur sé búinn við Færeyjar, hann hafi verið veiddur upp skv. mínum ráðum. Hvað segja þeir nú sem friða fiskinn en svelta fólkið?
Þetta myndi nú koma sér vel hér heima en við megum veiða. Hafró vill bíða og geyma en fólkið sveltur.
Þegar fiskur gefur sig til þurfa Færeyingar ekki að draga af sér. Þeim er úthlutað veiðidögum og mega landa eins öllu sem þeir geta veitt.
Slíkt er ekki hægt í íslenska kvótakerfinu. Þar verða menn yfirleitt að kaupa aflann af sægreifunum - óveiddan.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)