Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Skýrsla Hafró um erfðablöndun laxastofna. - Miklar ályktanir dregnar af fátæklegum gögnum

Mikil umræða hefur sprottið upp vegna fiskeldsisáforma víða um land. Takast þar á veiðiréttareigendur og stangveiðimenn annars vegar og fiskeldismenn hins vegar. Nýlega kom úr skýrsla frá Hafró um hættu af erfðamengun:

"Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi"

Þessi skýrsla hefur síðan verið notuð af báðum deiluaðilum til að styðja sitt mál. Minnir þetta mig á á deilur um smábátahöfn við Elliðaárósa á áttunda áratugnum. Veiðimálastjóri gaf umsögn um áhrif hafnarinnar á Elliðaárlaxinn og umsögnin var svo loðin að báðir deiluaðilar, sem voru annað hvort með eða á móti höfninni, notuðu umsögnina máli sínu til framdráttar. Höfnin var svo byggð en ekkert skelfilegt gerðist.

En aftur að skýrslu Hafró en þar segir:
"Í yfirstandandi rannsókn á vegum Hafrannsóknastofnunar (Leó Alexander Guðmundsson o.fl., óbirt gögn) hafa í fyrsta sinn fundist vísbendingar um erfðablöndun úr eldisfiski af norskum uppruna yfir í náttúrulega íslenska laxastofna. Verið er að vinna að skýrslu um þessar rannsóknir en helstu bráðabirgðaniðurstöður eru birtar hér með góðfúslegu leyfi höfunda. Í rannsókninni voru erfðagreind sýni úr 701 laxaseiði úr 16 vatnsföllum á tímabilunum ágúst 2015 og ágúst/október 2016. Auk þess voru erfðagreind sýni úr tveimur kynþroska eldislöxum sem veiddust í Mjólká í ágúst 2016."

Hér segir að verið sé að vinna úr rannsóknargögnum, 701 laxaseiði úr 16 ám, að meðaltali 43 seiðum frá hverri á, en ekki er getið í hvaða ám sýnin eru tekin, niðurstöður enn óbirtar, en ástæða þykir til að birta helstu niðurstöður, sem gefa sterkar vísbendingar um erfðablöndun norskra laxa og íslenskra. Það sem Hafró finnst bitastæðast birtist í kaflanum hér að neðan:

"Bráðabirgðaniðurstöður gefa sterkar vísbendingar um að strokulaxar af norskum eldisuppruna hafi sloppið úr eldiskvíum, hrygnt og blandast villtum löxum í nágrenni eldissvæða. Skýr merki um erfðablöndun mátti sjá í tveimur laxastofnum, í Botnsá í Tálknafirði og í Sunndalsá í Trostansfirði, sem er einn af innfjörðum Arnarfjarðar. Í Botnsá fundust fjórir blendingar og tvö hrein eldisseiði, öll af árgangi 2014. Sýnatakan var ekki umfangsmikil en það er athyglisvert að helmingur greindra seiða úr Botnsá reyndist vera af eldisuppruna. Höfundar skýra blendingana með því að eldislax hafi hrygnt í ánni og æxlast með villtum löxum (sennilega eldishrygnur og villtir hængar). Hrein eldisseiði hafa hugsanlega verið afrakstur innbyrðis æxlunar strokulaxa en einnig er mögulegt að þarna hafi verið um að ræða strokuseiði úr seiðastöðinni í botni Tálknafjarðar. Höfundar leiða að því líkur að þarna hafi verið um að ræða afkvæmi strokulaxa úr slysasleppingunni í Patreksfirði í nóvember 2013".

Hér eru miklar ályktanir dregnar af ákaflega takmörkuðum gögnum og það láist að geta aðstæðna við Botnsá.Svo virðist sem greind hafi verið 12 laxaseiði en enginn fullorðinn lax.

Botnsá er innst í Tálknafirði, stutt, köld, næringarsnauð með kvikulum malarbotni og ákaflega illa fallin, jafnvel óhæf, til uppeldis laxaseiða og viðhalds sérstaks laxastofns. Í ánni var ekki lax áður fyrr en í seinni tíð hafa veiðst í henni 5-6 laxar á ári. Í ósi árinnar hefur verið starfræk fiskeldisstöð í um 30 ár og þar framleitt laxaseiði ásamt eldi á regnbogasilungi í innikerjum og útitjörnum. Þar gætir flóðs og fjöru og óhjákvæmilega lekur fiskur út úr eldisstöðum.

Því verður að telja líklegt að seiðin sem fundust í Botnsá hafi komið úr eldisstöðinni og að þeir örfáu laxar sem þar hafa veiðst séu af svipuðum uppruna. Það er því nokkuð víst að í Botnsá hefur ekki verið neinn sérstakur laxastofn, sem hafi erfðablandast norskum laxi.

Enn fráleitari eru getgátur Hafró um að fjórir blendingar og tvö hrein eldisseiði séu afkvæmi strokulaxa úr slysasleppingunni í Patreksfirði í nóvember 2013. Þetta er ævintýraleg túlkun á fátæklegum gögnum og hrein ágiskun.

Þá er óskiljanlegt og óleyfilegt að höfundar þessara getgáta hafi ekki greint frá því að eldisstöð, með norskum seiðum, hafi verið staðsett í ósi Botnsár í 30 ár. Einnig gleyma þeir því að seiðaeldisstöð, og áframeldisstöð hefur verið starfrækt á Gileyri, um 2 km frá Botnsá í áratugi og þaðan hafa vafalaust lekið seiði. Þá voru kvíar í firðinum á níunda áratugnum auk þess sem laxeldisstöðin Sveinseyrarlax var fyrir utan oddann.

Að mínu mati er þessi rannsókn ákaflega rýr og miklar ályktanir dregnar af fátæklegum gögnum. Vaknar því sú spurning hvaða tilgangi slík vinnubrögð eiga að þjóna.

Botnsá

 

Hér er yfirlitsmynd af ósi Botnsár og fiskeldisstöðinni, sem nú er orðin miklu stærri en þegar myndin var tekin. 


Fiskveiðistjórnunarkerfin hafa hvergi leitt til aukins afla. - Eru þau svikin vara?

Birt í Brimfaxa 2. tbl 2016, desember 2016

Flestum er kunnugt um að á Íslandi, eftir 40 ára veiðistjórnun, er verið að veiða um helming þess þorskafla sem dreginn var á land áður en þessi stjórn veiðanna hófst. Svipuð minnkun er í öðrum botnfisktegundum. Þegar vegferðin hófst lofuðu fræðingar Hafró 500 þús. tonna jafnstöðuafla í þorski, yrði farið eftir tillögum þeirra. Það hefur að mestu verið gert, sérstaklega síðari hluta tímabilsins.

Eftir að fiskveiðilandhelgi varð almennt 200 sjómílur um miðjan áttunda áratuginn gátu þjóðir farið að stjórna eigin fiskveiðum en fram að því hafði verið erfiðara að stjórna vegna þess að útlendingar voru upp í kálgörðum og hirtu afrakstur af heimalöndunum. Loks var hægt að framkvæma það sem fiskifræðingar höfðu sagt árum saman en það var að koma þyrfti í veg fyrir ofveiði, ekki mætti veiða fiskinn of ungan hann þyrfti að fá að dafna, þá myndi afli aukast og hrygningarstofninn stækka, sem aftur þýddi að nýliðun ykist.

Dregið skyldi úr sókn í smáfisk og farið varlega í að veiða hrygningarfisk. Var það gert með stækkun möskva í veiðarfærum og lokun svæða til lengri eða skemmri tíma. Síðar voru almennt tekin upp kvótakerfi til að tryggja að ekki væri veitt of mikið. Eru þau nú alls ráðandi. Og enn ríkir þessi stefna, draga úr veiðum til þess að geta veitt meira seinna. En hver skyldi árangurinn vera? Það má sjá með því að skoða aflaþróun frá því að veiðar voru nokkurn veginn frjálsar og einu stjórntækin voru landhelgislínur og gerð veiðarfæra.

Ísland

1. ÍslandÞegar sókn var frjáls var þorskafli gjarnan 400-450 þús tonn. Virk stjórnun hófst 1976 þegar trollmöskvi var stækkaður úr 120 í 155 mm og skrapdagakerfi var innleitt. Árið 1983 féll aflinn í 300 þús. tonn, þá hafði fiskur lést eftir aldri vegna fæðuskorts, sem varð eftir að 3 ára þorskur hvarf að mestu úr veiðinni og bættist á jötuna. Það hafði ekki verið fæðugrundvöllur fyrir þessar friðun smáfisks. Í kjölfarið var sett á kvótakerfi til að auðvelda takmörkun veiða. Ellefu árum síðar, 1995, fór þorskaflinn í 169 þús. tonn og í 147 þús. tonn árið 2008. Nú er hann að skríða í 230 þús. tonn og Hafró hreykir sér af árangri. Það veiðist nú um helmingi minni þorskur eftir að virk stjórnun veiða hófst.

Eystrasalt

2. EystrasaltÞorskstofninn er í slæmu ástandi. Þyngd 3 ára fiska hefur fallið úr 1,7 kg 1997 í um 300 g 2015. Pólverjar voru löngum sakaðir um ofveiði og eftir að þeir gengu í Evrópusambandið var hægt að koma böndum á þá. Sett var á kvótakerfi og flotinn skorinn mikið niður undir mottóinu "Færri bátar meiri fiskur?" Nú þrífst þorskurinn ekki vegna hungurs, sem stafar af vanveiði en ráðgjöf vísindanna er að skera meira niður. Kvótinn var skorinn niður 56% fyrir komandi fiskveiðiár.

 

Norðursjór

6. NorðursjórBotnfiskafli í Norðursjó hefur dregist saman úr um milljón tonnum í 300 þús. tonn frá því farið var að stjórna. Á sama tíma hefur verið dregið gríðarlega úr sókn en árið 1991 var skoski botnfiskflotinn 590 skip en var kominn niður í 207 skip 2011. Svipað má segja um enska flotann en gríðarlegu fé hefur verið varið í að rífa skip, aðallega nýleg skip til að draga úr veiðigetu flotans.

 

Írska hafið

3. Írska hafiðÞar hefur verið stjórnað með kvótakerfi frá 1988. Þorskaflinn minnkaði stöðugt því kvótinn var sífellt skorinn niður og nú er þar veiðibann. Ég fór í túr með togara frá Kilkeel á N. Írlandi árið 2003 en þá voru 30-40 togarar á þorsk, ýsu og lýsuveiðum, hvítfiskveiðum sem þeir kalla. Nú eru þeir allir farnir. Svokallað "Cod saving plan" hefur verið í gildi frá árinu 2000 en það snérist eingöngu um verndun og niðurskurð með fyrrgreindum árangri.

 Færeyjamið

4. FæreyjarÞað sem hefur einkennt þorskaflann við Færeyjar eru miklar sveiflur. Fyrir fyrra stríð sveiflaðist aflinn frá 15-45 þúsundum tonna. Hann féll í 5000 tonn í síðari heimstyrjöld vegna brotthvarfs erlendra togara. Ekki er að sjá afli hafi aukist eftir friðunina í stríðinu. Það sem ekki hafði verið veitt tapaðist, það er óvarlegt að geyma fisk í sjó. Eftir því sem landhelgin fer að stækka, um miðjan sjötta áratuginn, fara sveiflur að dýpka og vara lengur. Kvótakerfi var sett á 1994 en breytt var yfir í dagakerfi 1996. Síðasta aflaárið var 2002, þá veiddust 38 þús. tonn. Árið eftir féll þorskaflinn í 24 þús. tonn en þá var ég við ráðgjöf í Færeyjum. Ég sá að þorskur var mjög farinn að horast og vaxtarrannsóknir sýndu að stóri fiskurinn, 60 cm og stærri var að mestu hættur að vaxa. Jafnframt fór að veiðast miklu meira af smáum ufsa. Ég lagði til að veiðidögum yrði fjölgað um 15% og að trollmöskvi við ufsaveiðar yrði smækkaður. Ekki var farið eftir þessu en dögum fækkað um 1%. Síðan hefur aflinn farið niður á við og ekki að sjá betri tíð fram undan. Þorskaflinn 1915 var 8 þús. tonn. Hér á landi hafa hagsmunaðilar kvótakerfisins haldið fram að Færeyingar hafi rústað fiskstofnum sínum með dagakerfinu. En er það svo?

5. Færeyjar dagarEins og áður sagði lagði ég til sóknaraukningu þegar ég sá að fiskur var að horast vegna ætisskorts. Færeyskir fiskifræðingar lögðu hins vegar til samdrátt og hafa gert það allar götur síðan. Er svo komið að veiðidögum hefur fækkað úr 41 þús. árið 2002 í 22 þús. 2016. Þetta er helmings niðurskurður á dögum. Þar með er ekki öll sagan sögð varðandi sóknina því margir eru komnir með svo fáa daga að þeir hafa tekið þann kost að leggja skipunum. Skipum hefur einnig fækkað á Færeyjamiðum. Árið 2008 voru 247 skip og bátar með veiðileyfi. Árið 2016 voru gefin út 102 leyfi en aðeins 72 þeirra notuð. Á venjulegum degi eru 26 skip og bátar við veiðar.

Stór hluti Færeyjamiða er friðaður. Færeyjabanki, sem gaf nokkur þúsund tonn af þorski, hefur verið lokaður fyrir togveiðum í 25 ár og fyrir öllum veiðum síðan 2008. Könnun í rallinu sýnir að þar er nú lítið annað en geirnyt, gulllax, urrari, skrápflúra og annar skítfiskur, en reyndar fékkst vel af ýsu í ár. Um 70% af heimamiðum eru lokuð hluta árs eða allt árið. Engar togveiðar eru leyfðar innan 12 mílna utan þess að litlir togbátar, sem eru 6 talsins, en voru 17 fyrir 8 árum, fá að fara inn að 6 mílum á sumrin til að veiða kola en mega ekki vera með meira en um 30% af ýsu og þorski sem meðafla. Stórir línubátar mega ekki fara inn fyrir 12 mílna mörkin. Og enn tala fiskifræðingar um ofveiði og samþykkt var í þinginu nýlega að fækka dögum um 15% næsta ár.

Ráðandi fræðimenn trúa því að friðun sé alltaf af því góða. En vanveiði getur oft verið hættulegri en ofveiði. Einkenni ofveiði eru mjög skýr: Þá er smáfiskur ríkjandi en hann er vel haldinn og vex vel, stærri fiskur einnig. Í vanveiði er ástandið þannig að fiskur er horaður og þrífst illa vegna fæðuskorts vegna þess að fiskafjöldinn er of mikill m.v. fæðuframboðið. Þetta er að vísu flóknara þar sem margar tegundir eru saman að bítast um fæðuna og sótt er meira í eina tegund en aðra. En við slíkar aðstæður vanþrífast oft allir. Mín skoðun er að færeyskir fiskifræðingar hafi stórskaðað fiskimiðin við Færeyjar með vanveiði.

Kolakassinn (e. Plaice Box)

Plaice Box Cut (Copy)Svo nefnist 38 þús. ferkílómetra svæði undan ströndum Hollands og Danmerkur. Þar voru bestu kolamið í Norðursjó en mikið veiddist af smáum kola og miklu var hent. Vísindamönnum fannst snjallræði að loka svæðinu svo smái kolinn fengi að vaxa og synda út fyrir svæðið þegar hann væri orðinn stór. Svæðinu var að mestu lokað fyrir veiðum 1994. Síðan hefur sigið á ógæfuhliðina. Fyrir lokun svæðisins var skarkolaafli í Norðursjó 170 þús. tonn en var kominn niður í 50 þús. tonn 2008. Nú hafa rannsóknir sýnt að skarkola hefur fækkað og hann smækkað á þessu friðaða svæði. Stofninn stækkaði ekki heldur minnkaði vöxtur kolans vegna fæðuskorts, sem væntanlega stafaði af ofbeit, því hann óx ágætlega á veiðislóðinni utan friðaða svæðisins og þar hefur veiði verið góð. Lítið fannst af fæðudýrum inni á lokaða svæðinu en miklu meira fyrir utan þar sem skipin voru að skarka. Sumir vildu túlka það þannig að veiðarfærin utan friðaða svæðisins rótuðu upp fóðrinu svo fiskurinn næði því. Ein skýring sem líka heyrðist var að hiti hefði hækkað og mengun aukist. Niðurstöður rannsóknanna voru sendar Evrópusambandinu árið 2010 til úrvinnslu og ákvörðunar um framhaldið. Nýjustu fréttir frá hollenskum sjómönnum herma að þar sé enn lokað og þar sé lítið af fiski en opinberlega sé þagað um þetta klúður.

Af þessar upptalningu má ráða að stjórn fiskveiða hefur hvergi leitt til þess að þorskafli hafi aukist. Sama má raunar segja um flestar aðrar tegundir botnfiska þó ekki sé farið nánar út í það hér.

Ráðandi vísindamenn eiga ákaflega erfitt með að sætta sig við það minna veiðiálag leiði ekki einungis til minnkandi afla heldur líka til minnkunar fiskstofna. En það er ekki erfitt að skýra það út. Þegar veitt er mikið er fiskstofni haldið í skefjum þannig að hann gengur ekki nærri fæðudýrunum, þau fá að vaxa og tímgast eðlilega og jafnvægi ríkir milli fiskanna og fæðudýranna. Þeir þrífast vel og afföll eru tiltölulega lítil. Vel haldinn fiskur hefur meiri mótstöðu gegn sjúkdómum og sníkjudýrum og á auðveldara með að flýja undan óvinum.

Sé dregið úr veiðum fjölgar fiski og samkeppni um fæðuna eykst. Fiski fjölgar, meira er étið, samkeppni eykst og afföll verða meiri. Fæðuframboð minnkar vegna þess að fæðudýrin eru upp étin og lífmassi fiska minnkar. Þegar svo er komið þarf miklu færri fiska til að viðhalda ástandinu svo stofninn helst áfram lítill. Svona atburðarás verður auðskilin ef hún er flutt upp á land:

Ákveðinn túnblettur þolir tíu kindur án þess að ganga nærri gróðri og allar þrífast vel. Sé kindunum fjölgað í 50 éta þær upp grasið og svörðurinn verður ber. Þó kindunum sé fækkað þarf ekki nema eina til tvær til þess að halda ástandinu við.

Kvótakerfi er ríkjandi sjórnunaraðgerð fiskveiða. Áhangandur þess eru tregir til að ræða ókostina svo ég lýk þessari grein með smá reynslusögu skosks sjómanns:

ArchieveÉg er á tveggja trolla 25 m togara sagði hann. Á veturna erum við með tvöfalt troll að veiða skötusel, stórkjöftu, smávegis ufsa, löngu og ýsu ef hún gefur sig. Við verðum að henda öllum þorski því við höfum ekki kvóta. Við höfum aðeins 15 tonna kvóta af löngu og 15 af ufsa á mánuði. Öllum smáfiski er hent, öllum smáum skötusel líka. Á sumrin þegar botnfiskkvótinn er búinn og fiskverð er lægra förum við á humar og frystum um borð. Við hendum nær öllum fiski í tveggja vikna túr þar sem fiskverð er lágt á sumrin og spörum kvótann þar til verðið hækkar á ný.


Söguskoðun: Ástand og horfur í íslensku matfiskeldi árið 2001

Í ljósi þeirra miklu áætlana sem eru í sjókvíaeldi er við hæfi að rifja upp hvernig staðan var árið 2001, en þá tók ég saman stöðuskýrslu fyrir Sjóvá Almennar tryggingar. Þá var ný bylgja að rísa og mikil ásókn var í að tryggja væntanlegt sjókvíaeldi.

Segja má að mikil bjartsýni hafi ríkt á þessum tíma, menn búnir að gleyma fyrra tímabili þar sem allt fór á hausinn. Nú átti að gera betur, búnaður var sagður orðinn betri, menn hefðu lært af reynslunni o.s. frv. Virtust menn búnir að gleyma að í fyrstu bylgjunni í kring um 1990 urðu stórfelld tjón vegna undirkælingar sjávar og stórviðra. Fiskur drapst vegna undirkælingar í Hvalfirði, Patreksfirði og Grundarfirði og mikið óveðurstjón varð í Vestmannseyjum, sundunum við Reykjavík, við Vatnleysuströnd og fleiri stöðum.

Tryggingarfélög urðu fyrir miklum áföllum og kusu að fara varlega í sakirnar varðandi þessa nýju áætlanir. Ein sú stærsta var í Mjóafirði en eftir nokkurra ára eldi þar fór allt á hliðina.

Nú eru enn komnar fram stórvaxnar eldisáætlanir á mörgum stöðum við landið. Eitt hefur breyst. Tíðarfar er almennt hagstæðara en það var um 1990. Þetta hefur orðið til þess að eldismenn hafa gleymt því að það geta komið harðir vetur þó svo að hitinn sé enn að dansa í kring um frostmarkið. Lítið má út af bera svo ekki verði stórtjón.

Hér fer á eftir samantekt skýrslunnar frá 2001, en skýrsluna í heild er að finna í skránni sem tengd er þessari færslu, sjá neðst á síðunni.

   Niðurstöður og samantekt úr stöðuskýrslu 2001

Fiskeldi það sem hafið var á níunda áratugnum gekk ekki sem skyldi. Allt eldi í sjókvíum, utan það sem enn er stundað í Eyjafirði, lagðist af. Ein kvíaeldisstöð, Rifós, er enn starfrækt í stöðuvatni.

Ein strandeldisstöð með kerjum á landi, Ísþór við Þorlákshöfn, er nú notuð til lúðueldis á vegum Fiskeldis Eyjafjarðar, önnur, Miklilax í Fljótum, hefur að hluta verið tekin til eldis á barra sem er hlýsjávarfiskur ættaður úr Miðjarðarhafi. Lax er enn alinn í þremur landstöðvum, Íslandslaxi á Stað við Grindavík, Silungi á Vatnsleysi og Silfurstjörnunni í Öxarfirði. Allar aðrar matfiskeldisstöðvar fyrir lax hafa verið lagðar niður.

Nokkrar seiðaeldisstöðvar starfa enn og þá í tengslum við matfiskstöðvar. Hólalax að Hólum í Hjaltadal, Norðurlax Laxamýri og Laxeyri að Hvítársíðu í Borgarfirði framleiða seiði til fiskræktar í laxveiðiám. Þá er seiðaeldisstöð Vogalax í Vogum á Vatnsleysuströnd notuð til eldis á sæeyra sem er snigill sem selst sem sælkerafæða.

Aðrar seiðastöðvar sem framleiddu hafbeitarseiði lögðust af þegar allri hafbeit var hætt fyrir um þremur árum.

Ástæður þess að áðurnefnum rekstri var hætt á sínum tíma voru annað hvort þær að laxeldið gekk ekki eða skilaði ekki arði.

Spurt hefur verið hvort áætlanir sem nú hafa verið gerðar séu raunhæfar. Því er að nokkru svarað í þessari skýrslu en almennt má segja að hæpið er að matfiskeldi á laxi verði arðbært. Sagt er að menn hafi lært af fyrri reynslu og að allur búnaður sé nú betri en hann var þá.

Náttúrulegar aðstæður við Ísland hafa hins vegar ekki breyst. Flestir staðir þar sem sjávarhiti er þolanlegur eru opnir fyrir veðrum. Þó búnaður sé nú orðinn það góður að hann standist verstu veður verður ekki það sama sagt um fiskinn, fiskur sem er í kvíum og getur ekki kafað niður úr öldurótinu lemst oft til bana í miklum sjógangi eða særist og getur verið lengi að ná sér. Þetta gerðist t.d. í stóru úthafskvíunum á Vatnsleysuvík um 1990. Kvíarnar héldu, en fiskurinn lamdist til bana.

Annars staðar, t.d. á Vesturlandi er hætta á undirkælingu á vetrum. Þar sem meira skjól er, eins og á fjörðunum fyrir austan, er hitabúskapur þess eðlis að gera verður ráð fyrir hægari vexti en í samkeppnislöndum eins og Færeyjum og Noregi. Þetta eru framleiðendur sem íslenskt laxeldi verður að keppa við og má því ætla að það geti orðið þungur róður. Þá er hér hætta á hafís, aðallega frá Norðurlandi suður til Austfjarða.

Skoða verður aðkomu Tryggingarfélaga með tilliti til allra þessara þátta. Margar núverandi fiskeldisstöðvar eru vel reknar og virðast ganga viðskiptalega séð. Ekkert er til fyrirstöðu að tryggja slíkar stöðvar.

Hvað varðar væntanlegar stöðvar, verður að skoða áhættuþætti og meta hvaða skilyrði þarf að uppfylla í hverju tilfelli og taka þá tillit til stærðar, staðarvals og þeirrar sérstöku áhættu sem fylgir hverjum stað. Líklegt er að ef ekki fáist tryggingar innanlands verði leitað annað. Rétt er því fyrir tryggingafélög hér að fylgjast með og undirbúa hvaða tryggingar verði hægt að bjóða væntalegum eldisstöðvum, með hvaða kjörum hvaða skilyrðum. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Er ráðgjöf um humarveiðar kolröng? Gæti verið.

Fróðlegt er að lesa ráðgjöf Hafró um humarveiðar á komandi fiskveiðiári. Aflinn hefur mest orðið um 2500 tonn, síðast árið 2010. Í fyrra var ráðlagt að veiða 1300 tonn en lækkað í 1150 tonn nú.

Í skýrslunni, sem var að koma út segir: "Veiðidánartala hefur verið metin lág undanfarin ár og er undir skilgreindum gátmörkum. Nýliðun hefur minnkað síðan 2005 og hefur aldrei verið metin eins lítil og nú. Viðmiðunarstofn hefur minnkað hratt undanfarin ár og hefur ekki verið lægri frá 1980. Hlutfall stórhumars er enn hátt en hefur minnkað frá 2009."

Humarnýliðun

Hér má sjá hvernig nýliðun hefur hrunið frá árinu 2008 en um það leiti var sett á 20% aflaregla í þorski og hrygningarstofninn stækkaði, vegna innkomu makríls og síldar og beitarálag á humar og fleiri fæðudýr jókst.

Hvað er að gerast?

Alþekkt er frá Skotlandi og Írlandi að humar étur undan sér. Tilraunir með að friða svæði í þeim tilgangi að stækka stofninn hafa reynst afar illa. Þegar svæði voru opnuð aftur eftir nokkurra ára friðun gripu menn í tómt, einungis veiddust nokkrir stórir humrar. Þar hafa menn lært að miðin þurfa stöðuga áníðslu til að hindra sjálfát en þessi mikla sókn leiðir auðvitað til þess að humarinn er almennt smærri en menn velja að sjálfsögðu marga smærri en örfáa stærri. Við bætist að mikið er af stórþorski, sem þekktur er fyrir að háma í sig humarinn. Humarinn er þannig sjálfur að éta upp ungviðið sitt og þorskurinn humarinn.

Ráðgjöfin

humarmassiRáðgjöfin er svo að veiða lítið af þorski til að hafa stóran fóðurfrekan hrygningarstofn og draga úr veiðum á humri. Já það verður víst að fara varlega segja þeir Hafróarnir.

Hér má sjá hvernig stórhumars jókst, væntanlega vegna samdráttar í leyfðum afla. Fjölgun stórra humra þýðir meira beitarálag á smáhumar, sjálfát. Hvort tveggja, aukning stórra þorska og stórra humra, minnkar nýliðun.

Mörg dæmi eru um að sóknarbreytingar hafi leitt til minnkandi afla þrátt fyrir að kvótar hefðu verið nægir. Veiðin á Fladen banka, SA af Shetlandseyjum í Norðursjó, hefur dregist saman úr 13.000 tonnum árið 2010 í 2.000 tonn 2015. Kvótinn 2015 var um 11.000 tonn en einungis 2.000 tonn voru veidd. Breytingar urðu á sókninni árið 2010 þegar möskvi var stækkaður úr 80-85 mm í meira en 100 mm til að vernda smáhumar. Auk þess var trollum breytt til þess að forðast meðveiði af þorski. Það þýðir að hætt var að veiða þorsk, sem var að andskotast í humrinum.

Ekki hef ég nægar upplýsingar til að tengja veiðimynstrið við aflaminnkunina en þetta virðist á þekktum nótum, sóknarminnkun leiðir til sjálfáts, aukinnar samkeppni og aflaminnkunar.

En það þarf að spyrja þeirrar spurningar hvort sóknarminnkun leiði til stofnaukningar. Við vitum að samdráttur leiðir til aflaminnkunar en hann kann einnig að hafa mun alvarlegri afleiðingar.

Ætla þessir ráðgefendur aldrei að skilja að sóknarminnkun gefur ekki aukinn afla, hvorki í bráð né lengd. Veiðarnar eru ekki það sem ákveður stærð og viðgang fiskstofna. Samkeppni og fæðuframboð ráða þar mun meiru. Sóknarminnkun þýðir einungis minni tekjur.

En ráðgjafarnir bregðast, enda er munurinn á manninum og hundinum sá að hundurinn lærir af reynslunni en maðurinn ekki.


Færeyski fiskiskipaflotinn siglir til Hafnar. Hundruð sjómanna mótmæla framan við þinghúsið

Hvað er nú í gangi? Ég spurði sundfélagana í morgun hvers vegna þetta væri, hvort þeir hefðu heyrt eitthvað um þetta. Enginn vissi neitt, engar fréttir hafa komið um þetta í fjölmiðlum hér.

Ástæða þess að siglt er í land er sú að þeir eru að mótmæla tillögu að nýjum fiskveiðstjórnarlögum, sem kemur til fyrstu umræðu Lögþingsins í dag.

Tillagan felur í sér að taka upp kvótakerfi í öllum veiðum, leggja þar með af dagakerfið, sem allir hafa verið ánægðir með og hefja uppboð á aflakvótum. Færeysku miðlarnir hafa verið fullir af fréttum um þessi mál í langan tíma þar sem m.a. er sagt frá því að gervöll fiskvinnslan frá veiðum til vinslu, sjómönnum til verkafólks er mjög á móti þessum breytingum.

Algjör þöggun ríkir um þetta í íslenskum fjölmiðlum. Það getur ekki verið tilviljun. Það ættu að þykja fréttir í nágrannaríkinu Íslandi að nær öll færeyska þjóðin mótmælir því fiskveiðikerfi, sem íslenskir ráðamenn hæla sem mest. Hverjir stjórna fjölmiðlum?

Nánari upplýsingar má m.a. finna hér 


16 milljarða mæliskekkja í loðnumælingum!

Nú er búið að fara í þriðju loðnumælinguna. Fyrsta mæling um miðjan janúar gaf 398. þús. tonn. Seinni janúarmælingin gaf 493 þús. tonn. Tekið var meðaltal af báðum, sem frægt er orðið, og stofninn sagður 446 þús. tonn. Gefinn var út 57 þús. tonna heildarkvóti, þar af komu 11 þús. tonn í hlut Íslendinga.

Nú er búið af mæla enn eina ferðina og "mældust" 815 þús. tonn, nær helmingi meira en menn héldu að væru í sjónum fyrir þremur vikum! Sé þetta nær sanni er ljóst að fyrstu tvær mælingarnar vanmátu stofninn mjög gróflega. Svo mjög að kvóti íslenskra skipa sextánfaldaðist.

Er einhver ástæða til að halda svona mælingum áfram? Því ekki að bíða þar til loðnan kemur og fara þá að veiða? Þessi fyrirfram kvóta/ hrygningarstofns útreikningar eru gervivísindi. Ekki hef ég enn heyrt fréttamenn spyrja neinna spurninga. - Hvaðan kom loðnan, úr loftinu?


mbl.is Sextánfalda loðnukvótann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mæla loðnuna enn og aftur. Verða fyrri mælingar notaðar til að styrkja stofnmatið?

Já nú á að fara að mæla loðnuna aftur. Það er í hið þriðja sinn, fyrsta mælingin gaf 398 þús. tonn, í annarri mælingunni fannst meira, 493 þús. tonn. Þá var stofnstærðin gefin út sem meðaltal af þessum tveimur mælingum, 466 þús. tonn!

Hvað gera þeir núna ef þeir mæla enn meira af loðnu? Þurfa þeir að dragast með gömlu mælingarnar, leggja allar saman og deila með þremur?

Ég bloggaði um þetta nýlega og líkti því skarfatalningu í Elliðavatni:

"Þetta er sambærilegt við að ég teldi 10 skarfa á Elliðavatni í þoku, færi svo daginn eftir í sólskini og teldi 30 og gæfi út niðurstöðuna: Það eru 20 skarfar á Elliðavatni núna."

Enn hef ég ekki heyrt neinn fréttamann spyrja Hafró út í þessa fáránlegu útreikninga. Þeir eru orðnir alveg ónýtir.

Áður fyrr spurðu menn hversu áreiðanlegar loðnumælingarnar væru, nú er ekki minnst á það og allar tölur teknar sem kórréttar. Endar þetta ekki með því að þeir hætta að fara á sjó og giska bara í landi?


mbl.is Mæla loðnustofninn á nýjan leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loðnutalning í hafinu. - Dæmalausir útreikningar Hafró

Sem kunnugt er verður leyfður loðnuafli í ár með minnsta móti , eða 57 þúsund tonn, þar af koma 11 þús. tonn í hlut íslendinga. Hafró mældi loðnustofninn, gaf út kvóta sem ráðherra samþykkti athugasemdalaust sama sólarhringinn.

Mældu loðnustofninn, það er nú það. Lítum á heimasíðu Hafró þar sem segir frá þessu:

"Gerðar voru 2 mælingar á veiðistofninum. Sú fyrri fór fram dagana 12. – 15. janúar og fannst loðna frá sunnanverðum Vestfjörðum norður um og austur að Kolbeinseyjarhrygg (mynd 1). Þar fyrir austan varð ekki vart við fullorðna loðnu. Þar sem veður var slæmt þegar mælingunni lauk biðu skipin á Siglufirði þar til veður batnaði. Síðari yfirferðin fór fram dagana 17. – 20. janúar á svæðinu frá Kolbeinseyjarhrygg og vestur um (mynd 2). Veður var viðunandi en ís hafði færst yfir hluta mælingasvæðisins í seinni yfirferðinni.

Um 398 þúsund tonn af kynþroska loðnu mældust í fyrri yfirferðinni og mæliskekkja (CV) var metin 0.2. Í síðari yfirferðinni mældust um 493 þúsund tonn og mæliskekkjan metin 0.23. Meðaltal þessara mælinga, 446 þúsund tonn, er mat á stærð veiðistofns."

Þetta er vægast sagt skrítið, ef ekki met í vitleysu. Fyrst eru mæld 398 þús. tonn, í seinni túrnum mælist meira eða 493 þús. tonn. Svo er tekið meðaltal af báðum tölunum!

Hvað ef hefðu mælst 7 þús. tonn í fyrstu mælingu? Hefði niðurstaðan þá orðið meðaltalið 250 þús. tonn? Takið einnig eftir því að þarna er talað um slæmt veður og að ís sé yfir hluta svæðisins.

Skarfar 26 jan ElliðavatnÞetta er sambærilegt við að ég teldi 10 skarfa á Elliðavatni í þoku, færi svo daginn eftir í sólskini og teldi 30 og gæfi út niðurstöðuna:

Það eru 20 skarfar á Elliðavatni núna.

Var verið að gefa út aflaheimildir á vísindalegum grunni?


Uppbygging þorskstofnsins með niðurskurði hefur leitt til aflaleysis

Árið 1975 lofaði Hafró árlegum 500 þús. tonna þorskafla yrði farið að þeirra ráðum. Þeir vildu draga úr veiðum, sérstaklega á smáfiski, svo fiskurinn fengi að stækka og gefa meira af sér. Það var farið eftir þerra ráðum í góðri trú. Þorskaflinn var minnkaður en óx aftur og fór í 480 þús. tonn 1982 og komst þá næst loforðinu. Svo féll aflinn snögglega í 300 000 tonn 1983. Fiskurinn hafði horast niður sennilega vegna offjölgunar og fæðuskorts. Þyngd sex ára fiska féll úr 4 kílóum í 3 eftir að smáfiskur var friðaður. Niðurstaða tilraunarinnar var sú að það var ekki fæðugrundvöllur fyrir stækkun stofnsins. Þarna hefði á að endurskoða þessa friðunartilraun en það var ekki gert. Í stað þess var sett var á kvótakerfi svo betur gengi að hemja aflann.

Síðan hefur gengið á ýmsu. Eftir nokkra aflaaukningu eftir botnárið 1983 fór að halla mjög undan fæti 1990 og aflinn fór í sögulegt lágmark 1994 og 95, 170 þús tonn. Þá var gripið til þess ráðs að setja aflareglu, nú skyldu veidd 25% af mældum veiðistofni. Aflinn jókst í 235 þús. tonn árið 2000 en féll svo í um 200 þús tonn 2002 og var sú skýring gefin að veiðistofninn hefði áður verið ofmetinn. Hin raunverulega ástæða var sú að fiskur hafði verið að horast frá 1998 vegna vanveiði, sem leiddi til aukinnar samkeppni og fæðuskorts. Var mikil rekistefna út af því á þeim tíma.

Enn hallaði undan fæti og 2007 gripu menn til þess ráðs að lækka aflaregluna og veiða einungis 20% úr stofninum. Þorskaflinn fór í nýtt sögulegt lágmark 2008, 146 þús. tonn. Síðan hefur hann þokast upp á við og er nú að skríða yfir 220 þús. tonnin. Að sögn Hafró er stofninn að stækka og sérstaklega er mikil aukning í stórum og gömlum þorski. Nýliðun er enn lítil þrátt fyrir að hrygningarstofninn hafi ekki verið stærri síðan 1964. Kvótatillögur urðu miklu minni fyrir fiskveiðiárið 2016/17 en menn höfðu vonast til og olli það miklum vonbrigðum. Ástæðan var sögð sú að fiskurinn væri farinn að léttast eftir aldri. Ekki eru það góðar fréttir.

Líklega er þorskstofninn að nálgast sín efri mörk eina ferðina enn og engar líkur til þess að þorskafli verði aukinn meðan haldið er í 20% aflaregluna. Á árum áður, þegar aflinn var 4-500 þús tonn, voru tekin 35-40% úr stofninum. Það er því fyrirséð að aflinn mun ekki aukast nema aflareglunni verði breytt. Aflaregla þjónar tölvunum vel en á lítið skylt við heilbrigða nýtingu dýrastofna. Hún er einföld í framkvæmd: Rallað á miðunum, stofninn "mældur" með óþekktri ónákvæmni, slegið inn í tölvu og kvótinn kominn. Ekkert tekið tillit til álits sjómanna á fiskgengd. Rallið gildir og ekkert rövl.

Síðustu árin hefur sú breyting orðið á að stofninn hefur stækkað langt umfram það sem hann var 1998 og hungrið fór að sverfa að vegna offjölgunar. Hvað hefur breyst sem leyfir stækkun stofnsins ? Jú, makríll fór að ganga á Íslandsmið upp úr 2006. Þá varð til aukin fæða fyrir stóran fisk. Þá hafa síldargöngur farið vaxandi svo enn hefur bæst í matarbúrið fyrir stóra fiskinn. Stór þorskur er miklu algengari í afla færabáta norðanlands en áður var, og hann er fullur af síld og makríl. Þetta er góð viðbótarfæða handa stórþorskinum yfir sumarið en makrílinn og síldin fara af okkar miðum þegar haustar. Þá er golþorskurinn enn svangur og leggst þá á stálpaðan fisk og fer að éta bæði undan sjálfum sér og öðrum tegundum.

Hr-Nýl-16Kemur þá að næsta kafla í röngum vísindum:

Ein af vísdómssetningunum í banka Hafró hefur löngum verið að stór hrygningarstofn gefi meiri nýliðun en lítill, þess vegna sé um að gera að hafa hann sem stærstan. Fyrir um 10 árum fór hrygningarstofn þorsks að stækka, þökk sé makrílnum. Og hann stækkaði og stækkaði. Árið 2015 var hann orðinn stærri en hann hafði verið frá 1963. Hann var um þrisvar sinnum stærri en hann var löngum á níunda og tíunda áratugnum. En nýliðunin lét standa á sér. Hvernig mátti það vera? Til þess að ungviðið komist upp verða að vera til þess skilyrði. Ef stofninn er stór er orðið þröngt á þingi og mikil samkeppni um mat. Þess vegna er erfitt fyrir ungviðið að komast á legg.

Taka má sem dæmi að auðvelt er að fylla vatnstunnu þegar hún er tóm með því að dæla í hana (nýliðun). Þegar hún er orðin full er ekki hægt að dæla meiru í hana nema tappað sé úr henni að neðan (veiða meira). Það verður því áfram léleg nýliðun í þorskstofninum þar til farið er að veiða svo mikið að þörf sé á ungviði til að fylla í skarðið. Þetta virðast fræðingar Hafró og móðurklíkunnar ICES eiga ákaflega erfitt með að skilja. En þeir hafa fengið svo mikil völd að enginn stjórnmálamaður þorir að taka sjálfstæðar ákvarðanir. ICES liðið ræður öllu, og engin breyting í sjónmáli.

Nú berast þær fréttir að svo lítið finnist af loðnu að veiðar verði ekki leyfðar á komandi vertíð. Það fylgir sögunni að sl. 10 ár hefði verið miklu minna af loðnu en þar á undan. Þar sem loðnan telst vera aðalfæða þorsksins er leyfilegt að álykta að samdráttur í þorskveiðum eftir tilkomu 20% aflareglunnar eigi þátt í fækkun loðnu. Þorskurinn étur loðnu þar til hún er 2 ára og heldur norður í ætisgönguna miklu til þess svo að ganga aftur heim til hrygningar 3 ára gömul. Með áti sínu skammtar hann það magn sem fer í þessa göngu.

Ég er þeirrar skoðunar að það verði að fara að brjóta á bak aftur trúarbrögð Hafró áður en stórslys verður vegna vanveiði á þorski. Nóg er nú allt tekjutapið, sem þessi friðunarstefna hefur haft í för með sér þó svo að framtíðinni sé ekki einnig stefnt í hættu.Bannfærði

Þessi skopmynd birtist í Morgunblaðinu 1. júní 2013. Hún á enn jafn mikinn rétt á sér og þá, það sem hefur bæst við er að farið er að draga úr vexti þorsks og loðnustofninn er upp étinn.


Lífseig villukenning um ofveiði - réttlæting kvótakerfisins - fölsun staðreynda

Hún er lífseig villukenningin um ofveiði á þorski þrátt fyrir að "ofveiði" hafi aldrei átt sé stað. Í Fréttablaðinu á fimmtudag 15/12 var grein eftir Þórólf Mattíasson hagfræðing úr háskólanum. Þar sagði hann:

"Í kjölfar útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 50 og 200 sjómílur fylgdi mikil fjárfesting í skuttogurum og hafnarmannvirkjum. Afli Íslendinga jókst og gjaldeyrir streymdi til landsins. Gengi krónunnar styrktist og góðæri ríkti. En að því kom að þorskstofninn þoldi ekki ofsóknina og var að hruni kominn upp úr 1982-3."

Staðreyndin er hins vegar sú að vegna friðunar smáfisks, þar sem 3 ára þorskur hvarf að mestu úr aflanum, og annara sóknartakmarkana varð fæðuskortur hjá þorski vegna ofmergðar fiska og hann fór að horast niður. Sjö ára þorskar t.d. léttust úr 5,5 kg í 4,1 kg frá 1978-1983. Sjá frekari gagnrýni sem var sett fram 1984 eftir að þetta gerðist og undirbúningur kvótakerfisins var í fullum gangi.

Í sama Fréttablaði er sagt frá nýrri greiningu þeirra Bjarka Vigfússonar og Hauks Más Gestssonar, hagfræðinga Íslenska sjávarklasans. Í greiningu sinni, Verstöðin Ísland – hagfræðileg og landfræðileg samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi 1993 til 2013, segja þeir Bjarki og Haukur Már frá því hvernig miðstýrð offjárfesting í togurum og fiskvinnslum á 8. áratug síðustu aldar leiddi til ósjálfbærrar nýtingar auðlindarinnar og sársaukafullri hagræðingu, eða endurskipulagningu í íslenskum sjávarútvegi. Mér lék forvitni á að athuga þetta nánar og skoðaði frumheimildina. Þar segja þessir kappar eftirfarandi:

"Skuttogaravæðingunni, nýju frystihúsunum og stækkun landhelginnar fylgdi aukin sókn í nytjastofnana. Þannig fór þorskaflinn úr 255 þúsund tonnum árið 1971 í 460 þúsund tonn árið 1981, en það er metár í þorskafla íslenskra skipa. Þessi stóraukna sókn í nytjastofnana kringum landið, og dreifða og mikla fjárfesting í togurum og frystihúsum, var hins vegar ósjálfbær til lengdar og bera fór á alvarlegum brestum á þessu fyrirkomulagi strax um 1980. Þorskstofninn þoldi engan veginn þennan ágang og hagur út gerðarinnar vænkaðist lítið, enda gekk rekstur togaranna og frystihúsanna víða brösuglega. Um miðjan 9. áratuginn var hagræðing í íslenskum sjávarútvegi því nauðsynleg eftir offjárfestingu ára tuganna á undan, útgerðin stóð illa fjárhagslega, umframveiðigeta fiskiskipastólsins var útgerðinni þungur kostnaðarbaggi, sókn var of mikil og þorsk stofninn stefndi í verulegt óefni."

Þá segja þeir félagar: "Slæmt ástand þorskstofnsins og aflasamdráttur á 9. og 10. áratugnum var einnig áhrifamikill drifkraftur sameininga og samþjöppunar. Frá met árinu 1981, þegar þorskaflinn var 460 þúsund tonn, dróst aflinn saman í rúm 300 þúsund tonn árið 1991. Næsta áratuginn á eftir dróst aflinn enn saman, var 240 þúsund tonn árið 2001 og var svo minnstur frá lokum seinni heimsstyrjaldar árið 2008 þegar hann var aðeins 151 þúsund tonn. Síðan þá hefur gengið ágætlega að byggja upp stofninn." (leturbreyting JKr)

Þorskafli skv VerstöðinTil þess að gefa orðum sínum vægi birta þeir línurit sem þeir segja að sýni þorskafla á Íslandi 1910-2014, þó svo þorskafli sé aldrei "á landi". Undir línuritinu segir í texta: "Sókn í þorskstofninn jókst gríðarlega á 8. áratugnum í kjölfar skuttogaravæðingarinnar". Þegar að er gáð sést að þetta er hrein della, því þeir eru að sýna afla íslenskra skipa en láta hjá líða að sýna eða segja frá afla útlendinga og þar með heildaraflanum. Þegar hann er tekinn með sést að fullyrðing þeirra um gríðarlega sóknaraukningu í þorskstofninn er hrein fölsun. Sóknin ver mest 1955 þegar veidd voru 550 þúsund tonn og fór svo að minnka í kjölfar útfærslu landhelginnar, sem varð 4 sjómílur 1952 og 12 mílur 1958 en talið er að þá hafi togaraflotinn tapað 70% af sínum miðum (Þorleifur Óskarsson 1991, Íslensk togaraútgerð 1945-1970, bls.178).

Það er í hæsta máta óeðlilegt, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, þegar fræðimenn fara með svona staðlausa stafi og birta þar að auki falsað línurit um þorskafla á Íslandsmiðum. Í áratugi hefur þessi vitleysa um ofveiði riðið húsum, þetta er étið upp aftur og aftur og ekkert verið að kynna sé mótrök og svo leyfa menn sér að kenna sig við háskólasamfélag.

ÞorskafliHér fylgir hið rétta línurit af heildar þorskafla við Ísland og er afli heimamanna táknaður með rauðri línu.

Hér má sjá að hámarksaflinn var 1955 og hefur verið fallandi síðan. Nú eru menn að hjakka í rúmum 200 þúsund tonnum, og þó þeir félagar segi að ágætlega hafi gengið að byggja upp stofninn, hefur aflinn, ekki aukist heldur minnkað um helming frá upptöku kvótakerfisins.

En áfram kveða menn öfugmælavísur: Fiskurinn hefur fögur hljóð, finnst hann oft á heiðum...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband