Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Svindlið og subbuskapurinn í kvótakerfinu

Loksins tók sjónvarpið sig saman, rauf þöggunina um kvótakerfið og gerði ágætan þátt um brottkastið. Tíu ár eru liðin síðan Kompásþátturinn, sem fjallaði um sama efni, var gerður. Þá urðu viðbrögð undir væntingum og hefur lítið verið fjallað um málið í fjölmiðlum undanfarinn áratug. Umgengnin og subbuskapurinn hefur lítið hefur breyst frá því að Kompásþátturinn var gerður.

Viðbrögð við þættinum núna eru af ýmsum toga. Talsmenn útgerðar segja að þetta sé ekki lengur svona, menn umgangist fiskimiðin af virðingu. Guðmundur í Brimi var tekinn í bólinu eftir að hann sagði að löngu væri búið að kippa málunum í liðinn, myndböndin væru gömul og nú væri allt komið í lag. Þá dró Helgi Seljan, sem nú getur gleymt því að komast í skipsrúm, upp ársgamalt myndband um brottkast úr Kleifaberginu og mátaði Guðmund. Hann bregst við með því að biðja um lögreglurannsókn á því hvernig myndbandið hafi orðið til og hver sé svikarinn.

Ráðherra sagði að það þyrfti að efla Fiskistofu svo hún gæti hert eftirlit. Reyndar sýndi umfjöllun sjónvarpsins að stjóri Fiskistofu reynist vera algjör auli og vanrækir starf sitt vegna þrýstings utan frá, af yfirvöldum eða hagsmunaaðilum, sægreifunum. Framburður fyrrverandi starfsmanna benti til þess að umkvartanir þeirra hefðu ekki fengið mikil viðbrögð frá stjóranum eða hærri yfirvöldum. Spurning er hver sé undir hælnum á hverjum og hver ráði málunum í raun.

Ráðandi aðilar halda áfram að dásama kvótakerfið, afneita öllum göllum þess og segja að það þurfi að laga það, herða tökin í eftirlitinu. Ekkert er rætt um aðalatriðið:

Fiskveiðikerfi sem byggist á því að hámarka verð þess afla sem komið er með að landi og magn þess sem veiða má er takmarkað, leiðir alltaf til þess að verðmætasti fiskurinn er valinn úr og afganginum hent. Eina lausnin á vandamálinu er að taka upp sóknarkerfi þar sem úthlutað er ákveðinn sókn, veiðidögum, þar sem menn mega landa öllum veiddum afla án tillits til magns eða tegunda. Þá hverfur brottkastið og skráning afla verður rétt. Til þessa þarf hugarfarsbreytingu hjá þeim aðila sem sjaldan er minnst á, Hafró.

Þeim er haldið utan við umræðuna er þeir eru fylgjandi þessu kerfi vegna þess hve það er þægilegt: Fara á sjó í rall, mæla stofninn, með réttu eða röngu, og gefa svo út ákveðna prósentu af þessum mælda stofni sem aflaheimild eða kvóta.

Sá sem ekki skilur að kvótakerfi þar sem aflaheimildir eru takmarkaðar og útgerðarmaðurinn gerir allt til að hámarka verðmæti þeirra leiðir til brottkast, sorteringar og svindls, hann er ekki hæfur til að stjórna nýtingu fiskstofna. Þegar heil stofnun með öllum sínum starfsmönnum leggur blessun sína yfir kvótakerfið er eitthvað mikið að og krefst rannsóknar.

Enn er svo ótalið að á meðan landsmönnum flestum er óheimilt að sækja sjó og þurfa að búa við skert kjör og fallandi fasteignaverð leyfist nokkrum útvöldum, sægreifum, að ganga um eins og sóðar og svindlarar, henda og stela fiski, sem öðrum er ekki heimilað að veiða. Þar að auki lifa starfsmenn þessara greifa við stöðuga ógn um brottrekstur ef þeir voga sér að segja frá, sbr. kæru Guðmundar í Brimi, sem minnst er hér að ofan.

Er ekki kominn tími til að taka á þessu máli af alvöru?


Það sem ekki var sagt frá í umfjöllun um veiðar Færeyinga

Ekkert minntist Höskuldur á að fiskidögum hefur verið fækkað úr 40.000 í 18.000 frá 2003, né heldur að skipum sem haldið er út til veiða hefur fækkað um 60% á 8 árum, úr 247 í 72. Litlum trollbátum hefur fækkað úr 17 niður í 5.

Ekki minntist hann heldur á að 60% af landgrunninu eru lokuð fyrir veiðum meir og minna allt árið og að Færeyjabanki, sem áður var ein besta togslóðin, hefur verið lokuð togurum í 25 ár og öllum veiðum frá 2008. Væntanlega er þessum staðreyndum leynt til fá lesandann til að halda að minnkandi afli stafi af ofveiði - og lélegu fiskveiðistjórnarkerfi.

Þá er honum alveg ókunnugt um núverandi ástand á Færeyjamiðum en það er þannig að mjög mikið finnst af ýsuseiðum og mikill uppgangur er í þorski. Afli er góður í troll en lélegur á línu enda fiskurinn í góðu fóðri og í góðum holdum. Ekki er samt slakað á friðun og veiðitakmörkunum og því hætta á að þorskurinn éti sig út á gaddinn og veslist upp úr hor eins og hann gerði eftir 2004. Menn munu því missa af uppsveiflunni fyrir þversumhátt og vankunnáttu "fræðimannanna". Sjá nánar hér:


mbl.is Veiða aðeins lítinn hluta á heimamiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú telja vísindamenn að N-A Atlantshaf sé alvarlega vanveitt.-"Bitte nú" sagði amma mín!

Hópur alþjóðlegra fiskifræðinga er nú að athuga hvort fiskstofnar á N. Atlanshafi séu nú alvarlega vanveiddir. Dr. Henrik Sparholt, sem var í áhrifastöðu innan ICES í mörg ár, kynnti nýlega rannsóknarverkefni sem miðar að því að skilja þessa þróun betur í ráðgjafanefnd um Norðursjó. Það er meiri skilningur á því hvernig vistkerfin starfa og hvernig sú nýja þekking er farin að síast inn í fiskveiðiráðgjöfina, sem hafa valdið þessari nýju nálgun. Ekkert af þessu skipti máli á meðan stofnarnir voru ofveiddir, en aðstæður hafa breyst mikið s.l. áratug.

Ég get nú ekki alveg fallist á þessa skýringu því ég benti á það árið 2003 að Norðursjórinn væri stórlega vanveiddur, en hið almenna álit var þá að hann væri ofveiddur. Ég fór þá til Skotlands til að kynna mér ofveiðina af eigin raun. Hér er viðtal við mig í Fishing News frá þessum tíma.

FN2013

"Við höfum lengi vitað að samspil og samkeppni tegunda sé mikilvægt og að ekki hafi verið tekið tillit til hennar í stjórn fiskveiða", segir Barrie Deas formaður NFFO sjómannasamtakanna.

"Þegar veiðiálag var hátt skipti það ekki máli en þetta verkefni nú bendir til þess að það þurfi að hefjast handa sem fyrst og að jafnframt sé þetta spurning að vera ekki að tapa fiski sem gæti skapað tekjur og mat handa fólki.

Aftur verð ég að gera athugasemd: Ég kynntist Barrie Deas 2003 og hef oft hitt hann síðan og haldið fyrir hann fyrirlestra. Þau samskipti voru öll á þeim nótum að ég taldi Norðursjóinn vanveiddan, engin væri ofveiðin, að halda slíku fram væri skilningsskortur í fiskalíffræði. En ekki vildi hann trúa mér og studdi ekki mínar skoðanir. Svo má einnig segja um fleiri frammámenn í samtökum sjómanna. Þeir voru, eins og kollegar þeirra hér, meira hallir undir fjármálaöfl, stóra kvótaeigendur og að vera í fínni stöðu hafa góð laun og aka um á fínum bílum.

Vísindamenn og sjávarútvegurinn eru þegar farnir að skoða hvernig uppbygging þorskstofnsins í Norðursjó hefur áhrif á verðmæta krabbastofna, humar og rækju sem hafa verið í góðu standi á meðan botnfiskstofnarnir voru þurrausnir af ofveiði.

Hér geri ég einnig athugasemd: Stofnarnir voru ekki ofveiddir heldur vanveiddir. Ýsa og þorskur uxu ekki vegna vanveiði og hungurástand ríkti á miðunum. Við þessu var brugðist með samdrætti í veiðum. Það leiddi til þess, að mínu mati, að fiskar sem lögðust á bræður sína fengu vernd, stofn þeirra stækkaði og grisjaði smáfiskinn. Meira varð um stórvaxinn fisk, sem var frekur til fóðursins svo smáfiski fækkaði. Þá, loksins þá virðast fræðingarnir hafa vaknað og farið að sjá ljósið.

Fróðlegt verður að fylgjast með framvindunni. Verður farið eftir þessu eða reynir vísindamafían enn að slá þetta niður og kæfa umræðuna?


Eru tréhestarnir í Sjávarútvegsráðuneytinu landkrabbar eða bara grjótkrabbar ?

Fyrir stuttu birtust þær fréttir að grjótkrabbi sem er nýbúi vari búinn að dreifa sér um allt vestanvert landið allt austur í Eyjafjörð. Sagt var að hann gæti verið öðrum tegundum mikill skaðvaldur, án þess að tekið væri fram hverjar þær væru. Tegundin ætti sér fá náttúrulega óvini hér við land og fjölgaði þess vegna mjög hratt. Á aðeins áratug hefur krabbinn farið frá Hvalfirði og breiðst út í Breiðafirði og hefur veiðst á Vestfjörðum, í Húnaflóa, Skagafirði og í Eyjafirði. Ef áfram heldur sem horfir mun grjótkrabbinn nema allt norðausturhornið og austanvert landið á næstu árum.

Vísindamenn eru búnir að fá vinnu

Sindri Gíslason, forstöðumaður Náttúrustofu Suðvesturlands, sér um rannsóknir á útbreiðslu grjótkrabbans. Hann segir þetta framandi lífveru í vistkerfi okkar og því sé fylgst náið með framvindunni.Grjótkrabbi

„Grjótkrabbinn er alæta og ræðst á allt sem að kjafti kemur. Á meðan hann er mjög lítill er hann étinn af botnfiski og öðrum dýrum en þegar hann er kominn yfir vissa stærð hefur ekkert dýr hér við strendur roð við honum,“ bætir Sindri við að lokum.

En hvað með sjómenn, sem eru þeir einu sem geta veitt þessum hættulega krabba viðspyrnu og haft af því góðar tekjur? Þá vandast nú aldeilis málið:

Allar veiðar á kröbbum í gildrur í fiskveiðilandhelgi Íslands eru óheimilar. Ráðuneytinu er þó heimilt að veita tímabundin leyfi til tilraunaveiða á kröbbum samkvæmt 13. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands með síðari breytingum (úr reglugerð nr. 611/ 2007)

Nýlega auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um 3 leyfi til veiða á kröbbum í Faxaflóa fiskveiðiárin 2017/2018, 2018/2019, 2019/2020 sbr. reglugerð nr. 1070/2015, um veiðar á kröbbum í innanverðum Faxaflóa. En það er vandlifað og hér eru smá glefsur úr reglugerðinni:

Aðeins þeir bátar, sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni eiga kost á leyfi til krabbaveiða í gildrur. Heimilt er að binda útgáfu leyfa til veiða ákveðnum skilyrðum, m.a. skýrsluskilum um veiðarnar, hámarksstærð báta, stærð og gerð veiðarfæris, veiðitímabil o.s.frv.

Leyfi til veiða eru bundin við svæði innan línu sem dregin er milli Straumsvíkur og Skógarness (sem er við ósa Haffjarðarár. Línan liggur nálægt landi og þar með er nær allur flóinn friðaður, J.K. )

Óheimilt er að hafa önnur veiðarfæri um borð en gildrur meðan á krabbaveiðum stendur eða meðan gildrur eru lagðar eða þeirra vitjað.

Ekki er heimilt að koma með að landi karlkyns trjónukrabba sem eru undir 60 mm skjaldarbreidd, karlkyns grjótkrabba undir 100 mm skjaldarbreidd eða karlkyns gaddakrabba undir 90 mm skjaldarbreidd. Ekki er heimilt að koma með að landi lifandi kvenkynskrabba af öllum tegundum.

Það er greinilega komið fram af mikilli kurteisi við þessa tegund þar sem sleppa skal öllum kvendýrum svo tegundin hafi meiri möguleika á að fjölga sér. Eru menn alveg stein(grjót)runnir?

Þessi tegund er mjög verðmæt vara og gæti gefið sjómönnum og fleirum miklar tekjur. Er þar að auki, að sögn, mjög ágeng og þarf viðspyrnu við. Í hvers þágu er svona ofstjórnunar vitleysa? Því eru krabbaveiðar ekki gefnar alveg frjálsar?


Breskir sjómenn undirbúa sóknarstjórn í fiskveiðum eftir Brexit

Breskir sjómenn í samtökum sem kalla sig "Fishing for leave" eru að vinna í að móta nýja fiskveiðistefnu eftir Brexit. Hún byggist á sóknarkerfi sem á að koma í veg fyrir brottkast og að ekki þurfi að hætta að veiða vegna tegunda sem þeir hafa ekki kvóta fyrir.

Haldi kvótakerfi sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB áfram eftir úrsögn verður sjómönnum og fiskiþorpum kastað fyrir úlfana. Kvótaleiga eins og nú tíðkast er ekkert annað en að menn séu að borga fyrir að fá að vinna.

Fbrexit

Stjórnvöld eru ekki að móta neina fiskveiðistefnu eftir Brexit og sjómenn ætla vera á undan

Sjá nánar í skránni hér að neðan:


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Skýrsla Hafró um erfðablöndun laxastofna. - Miklar ályktanir dregnar af fátæklegum gögnum

Mikil umræða hefur sprottið upp vegna fiskeldsisáforma víða um land. Takast þar á veiðiréttareigendur og stangveiðimenn annars vegar og fiskeldismenn hins vegar. Nýlega kom úr skýrsla frá Hafró um hættu af erfðamengun:

"Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi"

Þessi skýrsla hefur síðan verið notuð af báðum deiluaðilum til að styðja sitt mál. Minnir þetta mig á á deilur um smábátahöfn við Elliðaárósa á áttunda áratugnum. Veiðimálastjóri gaf umsögn um áhrif hafnarinnar á Elliðaárlaxinn og umsögnin var svo loðin að báðir deiluaðilar, sem voru annað hvort með eða á móti höfninni, notuðu umsögnina máli sínu til framdráttar. Höfnin var svo byggð en ekkert skelfilegt gerðist.

En aftur að skýrslu Hafró en þar segir:
"Í yfirstandandi rannsókn á vegum Hafrannsóknastofnunar (Leó Alexander Guðmundsson o.fl., óbirt gögn) hafa í fyrsta sinn fundist vísbendingar um erfðablöndun úr eldisfiski af norskum uppruna yfir í náttúrulega íslenska laxastofna. Verið er að vinna að skýrslu um þessar rannsóknir en helstu bráðabirgðaniðurstöður eru birtar hér með góðfúslegu leyfi höfunda. Í rannsókninni voru erfðagreind sýni úr 701 laxaseiði úr 16 vatnsföllum á tímabilunum ágúst 2015 og ágúst/október 2016. Auk þess voru erfðagreind sýni úr tveimur kynþroska eldislöxum sem veiddust í Mjólká í ágúst 2016."

Hér segir að verið sé að vinna úr rannsóknargögnum, 701 laxaseiði úr 16 ám, að meðaltali 43 seiðum frá hverri á, en ekki er getið í hvaða ám sýnin eru tekin, niðurstöður enn óbirtar, en ástæða þykir til að birta helstu niðurstöður, sem gefa sterkar vísbendingar um erfðablöndun norskra laxa og íslenskra. Það sem Hafró finnst bitastæðast birtist í kaflanum hér að neðan:

"Bráðabirgðaniðurstöður gefa sterkar vísbendingar um að strokulaxar af norskum eldisuppruna hafi sloppið úr eldiskvíum, hrygnt og blandast villtum löxum í nágrenni eldissvæða. Skýr merki um erfðablöndun mátti sjá í tveimur laxastofnum, í Botnsá í Tálknafirði og í Sunndalsá í Trostansfirði, sem er einn af innfjörðum Arnarfjarðar. Í Botnsá fundust fjórir blendingar og tvö hrein eldisseiði, öll af árgangi 2014. Sýnatakan var ekki umfangsmikil en það er athyglisvert að helmingur greindra seiða úr Botnsá reyndist vera af eldisuppruna. Höfundar skýra blendingana með því að eldislax hafi hrygnt í ánni og æxlast með villtum löxum (sennilega eldishrygnur og villtir hængar). Hrein eldisseiði hafa hugsanlega verið afrakstur innbyrðis æxlunar strokulaxa en einnig er mögulegt að þarna hafi verið um að ræða strokuseiði úr seiðastöðinni í botni Tálknafjarðar. Höfundar leiða að því líkur að þarna hafi verið um að ræða afkvæmi strokulaxa úr slysasleppingunni í Patreksfirði í nóvember 2013".

Hér eru miklar ályktanir dregnar af ákaflega takmörkuðum gögnum og það láist að geta aðstæðna við Botnsá.Svo virðist sem greind hafi verið 12 laxaseiði en enginn fullorðinn lax.

Botnsá er innst í Tálknafirði, stutt, köld, næringarsnauð með kvikulum malarbotni og ákaflega illa fallin, jafnvel óhæf, til uppeldis laxaseiða og viðhalds sérstaks laxastofns. Í ánni var ekki lax áður fyrr en í seinni tíð hafa veiðst í henni 5-6 laxar á ári. Í ósi árinnar hefur verið starfræk fiskeldisstöð í um 30 ár og þar framleitt laxaseiði ásamt eldi á regnbogasilungi í innikerjum og útitjörnum. Þar gætir flóðs og fjöru og óhjákvæmilega lekur fiskur út úr eldisstöðum.

Því verður að telja líklegt að seiðin sem fundust í Botnsá hafi komið úr eldisstöðinni og að þeir örfáu laxar sem þar hafa veiðst séu af svipuðum uppruna. Það er því nokkuð víst að í Botnsá hefur ekki verið neinn sérstakur laxastofn, sem hafi erfðablandast norskum laxi.

Enn fráleitari eru getgátur Hafró um að fjórir blendingar og tvö hrein eldisseiði séu afkvæmi strokulaxa úr slysasleppingunni í Patreksfirði í nóvember 2013. Þetta er ævintýraleg túlkun á fátæklegum gögnum og hrein ágiskun.

Þá er óskiljanlegt og óleyfilegt að höfundar þessara getgáta hafi ekki greint frá því að eldisstöð, með norskum seiðum, hafi verið staðsett í ósi Botnsár í 30 ár. Einnig gleyma þeir því að seiðaeldisstöð, og áframeldisstöð hefur verið starfrækt á Gileyri, um 2 km frá Botnsá í áratugi og þaðan hafa vafalaust lekið seiði. Þá voru kvíar í firðinum á níunda áratugnum auk þess sem laxeldisstöðin Sveinseyrarlax var fyrir utan oddann.

Að mínu mati er þessi rannsókn ákaflega rýr og miklar ályktanir dregnar af fátæklegum gögnum. Vaknar því sú spurning hvaða tilgangi slík vinnubrögð eiga að þjóna.

Botnsá

 

Hér er yfirlitsmynd af ósi Botnsár og fiskeldisstöðinni, sem nú er orðin miklu stærri en þegar myndin var tekin. 


Fiskveiðistjórnunarkerfin hafa hvergi leitt til aukins afla. - Eru þau svikin vara?

Birt í Brimfaxa 2. tbl 2016, desember 2016

Flestum er kunnugt um að á Íslandi, eftir 40 ára veiðistjórnun, er verið að veiða um helming þess þorskafla sem dreginn var á land áður en þessi stjórn veiðanna hófst. Svipuð minnkun er í öðrum botnfisktegundum. Þegar vegferðin hófst lofuðu fræðingar Hafró 500 þús. tonna jafnstöðuafla í þorski, yrði farið eftir tillögum þeirra. Það hefur að mestu verið gert, sérstaklega síðari hluta tímabilsins.

Eftir að fiskveiðilandhelgi varð almennt 200 sjómílur um miðjan áttunda áratuginn gátu þjóðir farið að stjórna eigin fiskveiðum en fram að því hafði verið erfiðara að stjórna vegna þess að útlendingar voru upp í kálgörðum og hirtu afrakstur af heimalöndunum. Loks var hægt að framkvæma það sem fiskifræðingar höfðu sagt árum saman en það var að koma þyrfti í veg fyrir ofveiði, ekki mætti veiða fiskinn of ungan hann þyrfti að fá að dafna, þá myndi afli aukast og hrygningarstofninn stækka, sem aftur þýddi að nýliðun ykist.

Dregið skyldi úr sókn í smáfisk og farið varlega í að veiða hrygningarfisk. Var það gert með stækkun möskva í veiðarfærum og lokun svæða til lengri eða skemmri tíma. Síðar voru almennt tekin upp kvótakerfi til að tryggja að ekki væri veitt of mikið. Eru þau nú alls ráðandi. Og enn ríkir þessi stefna, draga úr veiðum til þess að geta veitt meira seinna. En hver skyldi árangurinn vera? Það má sjá með því að skoða aflaþróun frá því að veiðar voru nokkurn veginn frjálsar og einu stjórntækin voru landhelgislínur og gerð veiðarfæra.

Ísland

1. ÍslandÞegar sókn var frjáls var þorskafli gjarnan 400-450 þús tonn. Virk stjórnun hófst 1976 þegar trollmöskvi var stækkaður úr 120 í 155 mm og skrapdagakerfi var innleitt. Árið 1983 féll aflinn í 300 þús. tonn, þá hafði fiskur lést eftir aldri vegna fæðuskorts, sem varð eftir að 3 ára þorskur hvarf að mestu úr veiðinni og bættist á jötuna. Það hafði ekki verið fæðugrundvöllur fyrir þessar friðun smáfisks. Í kjölfarið var sett á kvótakerfi til að auðvelda takmörkun veiða. Ellefu árum síðar, 1995, fór þorskaflinn í 169 þús. tonn og í 147 þús. tonn árið 2008. Nú er hann að skríða í 230 þús. tonn og Hafró hreykir sér af árangri. Það veiðist nú um helmingi minni þorskur eftir að virk stjórnun veiða hófst.

Eystrasalt

2. EystrasaltÞorskstofninn er í slæmu ástandi. Þyngd 3 ára fiska hefur fallið úr 1,7 kg 1997 í um 300 g 2015. Pólverjar voru löngum sakaðir um ofveiði og eftir að þeir gengu í Evrópusambandið var hægt að koma böndum á þá. Sett var á kvótakerfi og flotinn skorinn mikið niður undir mottóinu "Færri bátar meiri fiskur?" Nú þrífst þorskurinn ekki vegna hungurs, sem stafar af vanveiði en ráðgjöf vísindanna er að skera meira niður. Kvótinn var skorinn niður 56% fyrir komandi fiskveiðiár.

 

Norðursjór

6. NorðursjórBotnfiskafli í Norðursjó hefur dregist saman úr um milljón tonnum í 300 þús. tonn frá því farið var að stjórna. Á sama tíma hefur verið dregið gríðarlega úr sókn en árið 1991 var skoski botnfiskflotinn 590 skip en var kominn niður í 207 skip 2011. Svipað má segja um enska flotann en gríðarlegu fé hefur verið varið í að rífa skip, aðallega nýleg skip til að draga úr veiðigetu flotans.

 

Írska hafið

3. Írska hafiðÞar hefur verið stjórnað með kvótakerfi frá 1988. Þorskaflinn minnkaði stöðugt því kvótinn var sífellt skorinn niður og nú er þar veiðibann. Ég fór í túr með togara frá Kilkeel á N. Írlandi árið 2003 en þá voru 30-40 togarar á þorsk, ýsu og lýsuveiðum, hvítfiskveiðum sem þeir kalla. Nú eru þeir allir farnir. Svokallað "Cod saving plan" hefur verið í gildi frá árinu 2000 en það snérist eingöngu um verndun og niðurskurð með fyrrgreindum árangri.

 Færeyjamið

4. FæreyjarÞað sem hefur einkennt þorskaflann við Færeyjar eru miklar sveiflur. Fyrir fyrra stríð sveiflaðist aflinn frá 15-45 þúsundum tonna. Hann féll í 5000 tonn í síðari heimstyrjöld vegna brotthvarfs erlendra togara. Ekki er að sjá afli hafi aukist eftir friðunina í stríðinu. Það sem ekki hafði verið veitt tapaðist, það er óvarlegt að geyma fisk í sjó. Eftir því sem landhelgin fer að stækka, um miðjan sjötta áratuginn, fara sveiflur að dýpka og vara lengur. Kvótakerfi var sett á 1994 en breytt var yfir í dagakerfi 1996. Síðasta aflaárið var 2002, þá veiddust 38 þús. tonn. Árið eftir féll þorskaflinn í 24 þús. tonn en þá var ég við ráðgjöf í Færeyjum. Ég sá að þorskur var mjög farinn að horast og vaxtarrannsóknir sýndu að stóri fiskurinn, 60 cm og stærri var að mestu hættur að vaxa. Jafnframt fór að veiðast miklu meira af smáum ufsa. Ég lagði til að veiðidögum yrði fjölgað um 15% og að trollmöskvi við ufsaveiðar yrði smækkaður. Ekki var farið eftir þessu en dögum fækkað um 1%. Síðan hefur aflinn farið niður á við og ekki að sjá betri tíð fram undan. Þorskaflinn 1915 var 8 þús. tonn. Hér á landi hafa hagsmunaðilar kvótakerfisins haldið fram að Færeyingar hafi rústað fiskstofnum sínum með dagakerfinu. En er það svo?

5. Færeyjar dagarEins og áður sagði lagði ég til sóknaraukningu þegar ég sá að fiskur var að horast vegna ætisskorts. Færeyskir fiskifræðingar lögðu hins vegar til samdrátt og hafa gert það allar götur síðan. Er svo komið að veiðidögum hefur fækkað úr 41 þús. árið 2002 í 22 þús. 2016. Þetta er helmings niðurskurður á dögum. Þar með er ekki öll sagan sögð varðandi sóknina því margir eru komnir með svo fáa daga að þeir hafa tekið þann kost að leggja skipunum. Skipum hefur einnig fækkað á Færeyjamiðum. Árið 2008 voru 247 skip og bátar með veiðileyfi. Árið 2016 voru gefin út 102 leyfi en aðeins 72 þeirra notuð. Á venjulegum degi eru 26 skip og bátar við veiðar.

Stór hluti Færeyjamiða er friðaður. Færeyjabanki, sem gaf nokkur þúsund tonn af þorski, hefur verið lokaður fyrir togveiðum í 25 ár og fyrir öllum veiðum síðan 2008. Könnun í rallinu sýnir að þar er nú lítið annað en geirnyt, gulllax, urrari, skrápflúra og annar skítfiskur, en reyndar fékkst vel af ýsu í ár. Um 70% af heimamiðum eru lokuð hluta árs eða allt árið. Engar togveiðar eru leyfðar innan 12 mílna utan þess að litlir togbátar, sem eru 6 talsins, en voru 17 fyrir 8 árum, fá að fara inn að 6 mílum á sumrin til að veiða kola en mega ekki vera með meira en um 30% af ýsu og þorski sem meðafla. Stórir línubátar mega ekki fara inn fyrir 12 mílna mörkin. Og enn tala fiskifræðingar um ofveiði og samþykkt var í þinginu nýlega að fækka dögum um 15% næsta ár.

Ráðandi fræðimenn trúa því að friðun sé alltaf af því góða. En vanveiði getur oft verið hættulegri en ofveiði. Einkenni ofveiði eru mjög skýr: Þá er smáfiskur ríkjandi en hann er vel haldinn og vex vel, stærri fiskur einnig. Í vanveiði er ástandið þannig að fiskur er horaður og þrífst illa vegna fæðuskorts vegna þess að fiskafjöldinn er of mikill m.v. fæðuframboðið. Þetta er að vísu flóknara þar sem margar tegundir eru saman að bítast um fæðuna og sótt er meira í eina tegund en aðra. En við slíkar aðstæður vanþrífast oft allir. Mín skoðun er að færeyskir fiskifræðingar hafi stórskaðað fiskimiðin við Færeyjar með vanveiði.

Kolakassinn (e. Plaice Box)

Plaice Box Cut (Copy)Svo nefnist 38 þús. ferkílómetra svæði undan ströndum Hollands og Danmerkur. Þar voru bestu kolamið í Norðursjó en mikið veiddist af smáum kola og miklu var hent. Vísindamönnum fannst snjallræði að loka svæðinu svo smái kolinn fengi að vaxa og synda út fyrir svæðið þegar hann væri orðinn stór. Svæðinu var að mestu lokað fyrir veiðum 1994. Síðan hefur sigið á ógæfuhliðina. Fyrir lokun svæðisins var skarkolaafli í Norðursjó 170 þús. tonn en var kominn niður í 50 þús. tonn 2008. Nú hafa rannsóknir sýnt að skarkola hefur fækkað og hann smækkað á þessu friðaða svæði. Stofninn stækkaði ekki heldur minnkaði vöxtur kolans vegna fæðuskorts, sem væntanlega stafaði af ofbeit, því hann óx ágætlega á veiðislóðinni utan friðaða svæðisins og þar hefur veiði verið góð. Lítið fannst af fæðudýrum inni á lokaða svæðinu en miklu meira fyrir utan þar sem skipin voru að skarka. Sumir vildu túlka það þannig að veiðarfærin utan friðaða svæðisins rótuðu upp fóðrinu svo fiskurinn næði því. Ein skýring sem líka heyrðist var að hiti hefði hækkað og mengun aukist. Niðurstöður rannsóknanna voru sendar Evrópusambandinu árið 2010 til úrvinnslu og ákvörðunar um framhaldið. Nýjustu fréttir frá hollenskum sjómönnum herma að þar sé enn lokað og þar sé lítið af fiski en opinberlega sé þagað um þetta klúður.

Af þessar upptalningu má ráða að stjórn fiskveiða hefur hvergi leitt til þess að þorskafli hafi aukist. Sama má raunar segja um flestar aðrar tegundir botnfiska þó ekki sé farið nánar út í það hér.

Ráðandi vísindamenn eiga ákaflega erfitt með að sætta sig við það minna veiðiálag leiði ekki einungis til minnkandi afla heldur líka til minnkunar fiskstofna. En það er ekki erfitt að skýra það út. Þegar veitt er mikið er fiskstofni haldið í skefjum þannig að hann gengur ekki nærri fæðudýrunum, þau fá að vaxa og tímgast eðlilega og jafnvægi ríkir milli fiskanna og fæðudýranna. Þeir þrífast vel og afföll eru tiltölulega lítil. Vel haldinn fiskur hefur meiri mótstöðu gegn sjúkdómum og sníkjudýrum og á auðveldara með að flýja undan óvinum.

Sé dregið úr veiðum fjölgar fiski og samkeppni um fæðuna eykst. Fiski fjölgar, meira er étið, samkeppni eykst og afföll verða meiri. Fæðuframboð minnkar vegna þess að fæðudýrin eru upp étin og lífmassi fiska minnkar. Þegar svo er komið þarf miklu færri fiska til að viðhalda ástandinu svo stofninn helst áfram lítill. Svona atburðarás verður auðskilin ef hún er flutt upp á land:

Ákveðinn túnblettur þolir tíu kindur án þess að ganga nærri gróðri og allar þrífast vel. Sé kindunum fjölgað í 50 éta þær upp grasið og svörðurinn verður ber. Þó kindunum sé fækkað þarf ekki nema eina til tvær til þess að halda ástandinu við.

Kvótakerfi er ríkjandi sjórnunaraðgerð fiskveiða. Áhangandur þess eru tregir til að ræða ókostina svo ég lýk þessari grein með smá reynslusögu skosks sjómanns:

ArchieveÉg er á tveggja trolla 25 m togara sagði hann. Á veturna erum við með tvöfalt troll að veiða skötusel, stórkjöftu, smávegis ufsa, löngu og ýsu ef hún gefur sig. Við verðum að henda öllum þorski því við höfum ekki kvóta. Við höfum aðeins 15 tonna kvóta af löngu og 15 af ufsa á mánuði. Öllum smáfiski er hent, öllum smáum skötusel líka. Á sumrin þegar botnfiskkvótinn er búinn og fiskverð er lægra förum við á humar og frystum um borð. Við hendum nær öllum fiski í tveggja vikna túr þar sem fiskverð er lágt á sumrin og spörum kvótann þar til verðið hækkar á ný.


Söguskoðun: Ástand og horfur í íslensku matfiskeldi árið 2001

Í ljósi þeirra miklu áætlana sem eru í sjókvíaeldi er við hæfi að rifja upp hvernig staðan var árið 2001, en þá tók ég saman stöðuskýrslu fyrir Sjóvá Almennar tryggingar. Þá var ný bylgja að rísa og mikil ásókn var í að tryggja væntanlegt sjókvíaeldi.

Segja má að mikil bjartsýni hafi ríkt á þessum tíma, menn búnir að gleyma fyrra tímabili þar sem allt fór á hausinn. Nú átti að gera betur, búnaður var sagður orðinn betri, menn hefðu lært af reynslunni o.s. frv. Virtust menn búnir að gleyma að í fyrstu bylgjunni í kring um 1990 urðu stórfelld tjón vegna undirkælingar sjávar og stórviðra. Fiskur drapst vegna undirkælingar í Hvalfirði, Patreksfirði og Grundarfirði og mikið óveðurstjón varð í Vestmannseyjum, sundunum við Reykjavík, við Vatnleysuströnd og fleiri stöðum.

Tryggingarfélög urðu fyrir miklum áföllum og kusu að fara varlega í sakirnar varðandi þessa nýju áætlanir. Ein sú stærsta var í Mjóafirði en eftir nokkurra ára eldi þar fór allt á hliðina.

Nú eru enn komnar fram stórvaxnar eldisáætlanir á mörgum stöðum við landið. Eitt hefur breyst. Tíðarfar er almennt hagstæðara en það var um 1990. Þetta hefur orðið til þess að eldismenn hafa gleymt því að það geta komið harðir vetur þó svo að hitinn sé enn að dansa í kring um frostmarkið. Lítið má út af bera svo ekki verði stórtjón.

Hér fer á eftir samantekt skýrslunnar frá 2001, en skýrsluna í heild er að finna í skránni sem tengd er þessari færslu, sjá neðst á síðunni.

   Niðurstöður og samantekt úr stöðuskýrslu 2001

Fiskeldi það sem hafið var á níunda áratugnum gekk ekki sem skyldi. Allt eldi í sjókvíum, utan það sem enn er stundað í Eyjafirði, lagðist af. Ein kvíaeldisstöð, Rifós, er enn starfrækt í stöðuvatni.

Ein strandeldisstöð með kerjum á landi, Ísþór við Þorlákshöfn, er nú notuð til lúðueldis á vegum Fiskeldis Eyjafjarðar, önnur, Miklilax í Fljótum, hefur að hluta verið tekin til eldis á barra sem er hlýsjávarfiskur ættaður úr Miðjarðarhafi. Lax er enn alinn í þremur landstöðvum, Íslandslaxi á Stað við Grindavík, Silungi á Vatnsleysi og Silfurstjörnunni í Öxarfirði. Allar aðrar matfiskeldisstöðvar fyrir lax hafa verið lagðar niður.

Nokkrar seiðaeldisstöðvar starfa enn og þá í tengslum við matfiskstöðvar. Hólalax að Hólum í Hjaltadal, Norðurlax Laxamýri og Laxeyri að Hvítársíðu í Borgarfirði framleiða seiði til fiskræktar í laxveiðiám. Þá er seiðaeldisstöð Vogalax í Vogum á Vatnsleysuströnd notuð til eldis á sæeyra sem er snigill sem selst sem sælkerafæða.

Aðrar seiðastöðvar sem framleiddu hafbeitarseiði lögðust af þegar allri hafbeit var hætt fyrir um þremur árum.

Ástæður þess að áðurnefnum rekstri var hætt á sínum tíma voru annað hvort þær að laxeldið gekk ekki eða skilaði ekki arði.

Spurt hefur verið hvort áætlanir sem nú hafa verið gerðar séu raunhæfar. Því er að nokkru svarað í þessari skýrslu en almennt má segja að hæpið er að matfiskeldi á laxi verði arðbært. Sagt er að menn hafi lært af fyrri reynslu og að allur búnaður sé nú betri en hann var þá.

Náttúrulegar aðstæður við Ísland hafa hins vegar ekki breyst. Flestir staðir þar sem sjávarhiti er þolanlegur eru opnir fyrir veðrum. Þó búnaður sé nú orðinn það góður að hann standist verstu veður verður ekki það sama sagt um fiskinn, fiskur sem er í kvíum og getur ekki kafað niður úr öldurótinu lemst oft til bana í miklum sjógangi eða særist og getur verið lengi að ná sér. Þetta gerðist t.d. í stóru úthafskvíunum á Vatnsleysuvík um 1990. Kvíarnar héldu, en fiskurinn lamdist til bana.

Annars staðar, t.d. á Vesturlandi er hætta á undirkælingu á vetrum. Þar sem meira skjól er, eins og á fjörðunum fyrir austan, er hitabúskapur þess eðlis að gera verður ráð fyrir hægari vexti en í samkeppnislöndum eins og Færeyjum og Noregi. Þetta eru framleiðendur sem íslenskt laxeldi verður að keppa við og má því ætla að það geti orðið þungur róður. Þá er hér hætta á hafís, aðallega frá Norðurlandi suður til Austfjarða.

Skoða verður aðkomu Tryggingarfélaga með tilliti til allra þessara þátta. Margar núverandi fiskeldisstöðvar eru vel reknar og virðast ganga viðskiptalega séð. Ekkert er til fyrirstöðu að tryggja slíkar stöðvar.

Hvað varðar væntanlegar stöðvar, verður að skoða áhættuþætti og meta hvaða skilyrði þarf að uppfylla í hverju tilfelli og taka þá tillit til stærðar, staðarvals og þeirrar sérstöku áhættu sem fylgir hverjum stað. Líklegt er að ef ekki fáist tryggingar innanlands verði leitað annað. Rétt er því fyrir tryggingafélög hér að fylgjast með og undirbúa hvaða tryggingar verði hægt að bjóða væntalegum eldisstöðvum, með hvaða kjörum hvaða skilyrðum. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Er ráðgjöf um humarveiðar kolröng? Gæti verið.

Fróðlegt er að lesa ráðgjöf Hafró um humarveiðar á komandi fiskveiðiári. Aflinn hefur mest orðið um 2500 tonn, síðast árið 2010. Í fyrra var ráðlagt að veiða 1300 tonn en lækkað í 1150 tonn nú.

Í skýrslunni, sem var að koma út segir: "Veiðidánartala hefur verið metin lág undanfarin ár og er undir skilgreindum gátmörkum. Nýliðun hefur minnkað síðan 2005 og hefur aldrei verið metin eins lítil og nú. Viðmiðunarstofn hefur minnkað hratt undanfarin ár og hefur ekki verið lægri frá 1980. Hlutfall stórhumars er enn hátt en hefur minnkað frá 2009."

Humarnýliðun

Hér má sjá hvernig nýliðun hefur hrunið frá árinu 2008 en um það leiti var sett á 20% aflaregla í þorski og hrygningarstofninn stækkaði, vegna innkomu makríls og síldar og beitarálag á humar og fleiri fæðudýr jókst.

Hvað er að gerast?

Alþekkt er frá Skotlandi og Írlandi að humar étur undan sér. Tilraunir með að friða svæði í þeim tilgangi að stækka stofninn hafa reynst afar illa. Þegar svæði voru opnuð aftur eftir nokkurra ára friðun gripu menn í tómt, einungis veiddust nokkrir stórir humrar. Þar hafa menn lært að miðin þurfa stöðuga áníðslu til að hindra sjálfát en þessi mikla sókn leiðir auðvitað til þess að humarinn er almennt smærri en menn velja að sjálfsögðu marga smærri en örfáa stærri. Við bætist að mikið er af stórþorski, sem þekktur er fyrir að háma í sig humarinn. Humarinn er þannig sjálfur að éta upp ungviðið sitt og þorskurinn humarinn.

Ráðgjöfin

humarmassiRáðgjöfin er svo að veiða lítið af þorski til að hafa stóran fóðurfrekan hrygningarstofn og draga úr veiðum á humri. Já það verður víst að fara varlega segja þeir Hafróarnir.

Hér má sjá hvernig stórhumars jókst, væntanlega vegna samdráttar í leyfðum afla. Fjölgun stórra humra þýðir meira beitarálag á smáhumar, sjálfát. Hvort tveggja, aukning stórra þorska og stórra humra, minnkar nýliðun.

Mörg dæmi eru um að sóknarbreytingar hafi leitt til minnkandi afla þrátt fyrir að kvótar hefðu verið nægir. Veiðin á Fladen banka, SA af Shetlandseyjum í Norðursjó, hefur dregist saman úr 13.000 tonnum árið 2010 í 2.000 tonn 2015. Kvótinn 2015 var um 11.000 tonn en einungis 2.000 tonn voru veidd. Breytingar urðu á sókninni árið 2010 þegar möskvi var stækkaður úr 80-85 mm í meira en 100 mm til að vernda smáhumar. Auk þess var trollum breytt til þess að forðast meðveiði af þorski. Það þýðir að hætt var að veiða þorsk, sem var að andskotast í humrinum.

Ekki hef ég nægar upplýsingar til að tengja veiðimynstrið við aflaminnkunina en þetta virðist á þekktum nótum, sóknarminnkun leiðir til sjálfáts, aukinnar samkeppni og aflaminnkunar.

En það þarf að spyrja þeirrar spurningar hvort sóknarminnkun leiði til stofnaukningar. Við vitum að samdráttur leiðir til aflaminnkunar en hann kann einnig að hafa mun alvarlegri afleiðingar.

Ætla þessir ráðgefendur aldrei að skilja að sóknarminnkun gefur ekki aukinn afla, hvorki í bráð né lengd. Veiðarnar eru ekki það sem ákveður stærð og viðgang fiskstofna. Samkeppni og fæðuframboð ráða þar mun meiru. Sóknarminnkun þýðir einungis minni tekjur.

En ráðgjafarnir bregðast, enda er munurinn á manninum og hundinum sá að hundurinn lærir af reynslunni en maðurinn ekki.


Færeyski fiskiskipaflotinn siglir til Hafnar. Hundruð sjómanna mótmæla framan við þinghúsið

Hvað er nú í gangi? Ég spurði sundfélagana í morgun hvers vegna þetta væri, hvort þeir hefðu heyrt eitthvað um þetta. Enginn vissi neitt, engar fréttir hafa komið um þetta í fjölmiðlum hér.

Ástæða þess að siglt er í land er sú að þeir eru að mótmæla tillögu að nýjum fiskveiðstjórnarlögum, sem kemur til fyrstu umræðu Lögþingsins í dag.

Tillagan felur í sér að taka upp kvótakerfi í öllum veiðum, leggja þar með af dagakerfið, sem allir hafa verið ánægðir með og hefja uppboð á aflakvótum. Færeysku miðlarnir hafa verið fullir af fréttum um þessi mál í langan tíma þar sem m.a. er sagt frá því að gervöll fiskvinnslan frá veiðum til vinslu, sjómönnum til verkafólks er mjög á móti þessum breytingum.

Algjör þöggun ríkir um þetta í íslenskum fjölmiðlum. Það getur ekki verið tilviljun. Það ættu að þykja fréttir í nágrannaríkinu Íslandi að nær öll færeyska þjóðin mótmælir því fiskveiðikerfi, sem íslenskir ráðamenn hæla sem mest. Hverjir stjórna fjölmiðlum?

Nánari upplýsingar má m.a. finna hér 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband