Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Ráðherra framselur vald sitt til sértrúarsöfnuðar

Hér er ráðherra býsna ánægður með ástand mála og hælir Hafró á hvert reipi, stofnun sem margir líkja við sértrúarsöfnuð sem engin rökstudd gagnrýni virðist bíta á en hefur tekist að halda þorskaflanum í minna en helmingi þess sem hann var áður en þeir fengu fullt vald til þess að stjórna, nú á síðustu árum með því að halda sóknarþunganum í 20% (aflaregla) miðað við 40% á velgengnisáratugunum. Hér er glefsa úr viðtalinu:

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um aflaheimildir nýhafins fiskveiðiárs var ekki langan tíma á borði ráðherrans áður en hann afgreiddi hana án breytinga. Spurður hvort til greina hafi komið að víkja frá ráðgjöfinni segir hann að það komi alltaf til greina hverju sinni. „En þessi ráðgjöf er mjög vel rökstudd og við höfum fylgt ráðum okkar færasta fólks á þessu sviði í nokkuð langan tíma. Við gefum okkur út fyrir það að nýta með sjálfbærum hætti fiskistofnana í hafinu í kringum landið og sú stefna sem við höfum haft hefur skilað okkur á þann stað sem við erum á í dag. Ég sé því enga ástæðu til að hvika nokkuð frá henni.“

Það setur að manni ónot við svona yfirlýsingu. Ráðherrann, sem á að stjórna fiskveiðum framselur öll völd í hendur Hafró. Það er ekki að sjá að hann hafi spurt spurninga eða leitað umsagnar eða ráðgjafar frá sjómönnum eða óháðum sérfræðingum, hann bara rennir blint í sjóinn. Og ekki gerir hann sér grein fyrir því að fiskveiðistjórn snýst ekki bara um fiskifræði, hún snýst einnig um tekjur fólks og þjóðarinnar af sjávarauðlindinni svo og búsetu og byggðamál.

Þekkir ráðherra ekkert til aflabragða fyrri ára? Veit hann ekki að Hafró hefur sætt mikilli gagnrýni í áratugi? Veit hann ekki að Hafró hefur haft alla gagnrýni að engu? Veit hann ekki að fiskifræði Hafró má flokka undir trúarbrögð? Hefur hann ekki lesið skýrslu Tuma Tómassonar um ytri og innri gagnrýni á vinnubrögð og hugmyndafræði Hafró? Er honum ekki kunnugt um að HANN á að stjórna fiskveiðunum og að það er ráðherra óheimilt að framselja stjórnvald til annarra? Sennilega er honum ekki kunnugt um neitt af þessu svo ég taki nú ekki dýpra í árinni.

Ég bendi honum á að lesa "Fiskleysisguðinn" eftir Ásgeir heitinn Jakobsson, hann finnst í bókasafninu neðar í húsinu.

Þessu til skýringar er rétt að benda á að hér við land voru í áratugi veidd 4-500 þús tonn af þorski, í nær óheftri veiði með hjálp útlendinga, aðallega Breta.

Þegar við höfðum fengið full yfirráð yfir landhelginni 1976 lofaði Hafró að árlegur afli á Íslandsmiðum yrði að jafnaði um 500 þús. tonn, - væri farið að þeirra ráðum. Það var gert og árangurinn er sá að við erum að skríða í 260 þús tonn.

Sem sagt: Svikin loforð. Fákunnáttumennirnir skulu svo verðlaunaðir með því að láta þá taka alveg við stjórninni.

1. Ísland

Hér má sjá línurit yfir þorskveiði á Íslandsmiðum 1945-2015. Það skýrir sig sjálft.


mbl.is Hyggur á nýtt frumvarp um veiðigjöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafró "leiðréttir" lélegt vorrall með ársgömlum gögnum og bætir í þorskkvótann.

Ég var búinn að spá samdrætti í þorskafla vegna þess að vísitalan úr vorrallinu lækkaði milli ára (sjá síðustu færslu). En nú bætir Hafró 3% við þorskkvótann. Hvað lá þar til grundvallar? Skýringin fannst í vinnuskýrslu Norð- vestur vinnuhópsins.

Þar segir að tölfræði úr vorralli gefi til kynna breytingar í veiðanleika (hm!). Því er farið í að nota niðurstöður úr haustralli ásamt VP greiningu á afla ársins 2017 til að reikna út stofnstærðina. Sem sagt, nota ársgömul gögn til að "leiðrétta" nýjasta vorrall. Ef vorrallið hefði verið notað eingöngu hefði það gefið 1162 þús. tonna stofn, haustrallli í fyrra eitt sér mat stofninn 1428 þús. tonn, sameinuð niðurstaða varð svo 1356.509 tonn.

Það vantar nú ekki upp á nákvæmnina.

Hér er klipp úr skýrslunni:

Diagnostics: The tuning with both the spring and the fall survey show similar diagnostics as that observed in previous years (see Tables 9.8, 9.9 and 9.10 and Figure 9.6 for the residuals). A negative residual block for spring survey indices age groups 2 to 5 in recent years may indicate that there may have been some change in catchability.

Results: The detailed result from the assessment are provided in Tables 9.11, 9.12 and the stock summary in Table 9.13} and Figure 9.7. The reference biomass is estimated to be 1356.509 kt in 2018 and the fishing mortality 0.26 in 2017.

Alternatives: Assessment based on tuning with the spring and the fall survey separately have in recent years shown that the fall survey gives a higher estimate than the spring survey (Figure 9.8). Tuning with spring survey only this year resulted in a reference biomass of 1162 kt in 2018 and a fishing mortality of 0.3 in 2017. An assessment based on the fall survey only gave reference biomass of 1428 kt in 2018 and fishing mortality of 0.25 in 2017. Mohn’s rho: One of the ToR for this year was to evaluate the retrospective pattern of the assessment (Figure 9.9) by calculating the Mohn’s rho values.
 

 


Er ekki komið nóg af mistökum við stjórn fiskveiða?

Birt í Morgunblaðinu 9. júní 2018  

Hafró kom nýlega úr ralli, en rallið þeirra aðferð við að mæla stærð fiskstofna, svo gefa megi út veiðiráðgjöf, sem byggist nú á aflareglu, þar sem fyrirfram ákveðið hlutfall skal veitt úr hverjum stofni. Veiða skal 20% af áætluðum veiðistofni þorsks.

Hafró tilkynnti að stofnvísitala þorsks "væri 5% lægri en meðaltal áranna 2012-2017, þegar vísitölur voru háar." En þegar skoðað er nánar má sjá að vísitalan hefur lækkað um 21% frá í fyrra, svo einkennilegt er að miða hana við meðaltal fyrri ára. Niðurstaða rallsins varðandi þorsk er þvert á það sem Hafrómenn héldu í fyrra, en þá bjuggust þeir við að veiðistofninn myndi stækka nokkuð milli 2017-18.

Aflaráðgjöfin er nokkuð beintengd vísitölunni svo vænta má tilsvarandi lækkunar á aflamarki eða um 50 þús. tonn en líklega gildir enn sú regla að kvóti megi ekki breytast meira en 30 þús. tonn milli ára.

Ráðamenn hafa keppst um að mæra okkar fiskveiðistjórnarkerfi, segja það besta kerfi sem völ er á, það tryggi stöðugleika og að deilur um það séu mjög á undanhaldi. Svo virðist sem markmið laganna hafi gleymst en þar segir: "Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra (nytjastofnanna) og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu".

Segja má að tekist hafi að vernda stofnana því þorskaflinn nú er ekki nema helmingur þess sem hann var áður en farið var að stjórna með kvótakerfinu. En markmiðið um hagkvæma nýtingu til að treysta byggð og atvinnu í landinu hefur brugðist og flest sjávarþorp flokkast nú undir brothættar byggðir.

Undirstaðan kvótakerfisins er fiskveiðiráðgjöf Hafró. Stofnunin ákveður aflamark og mótar þær reglur um hámarksafla sem hún telur að gefi mesta nýtingu. Á áttunda áratugnum trúði Hafró því að þorskstofninn væri ofveiddur og draga yrði úr veiðum. Stofnunin fullyrti þá að ef farið yrði að þeirra ráðum væri hægt að veiða 500 þús. tonn af þorski árlega. Ráð þeirra var í megin atriðum að draga úr veiði, sérstaklega á smáfiski svo hann fengi að vaxa, stofninn að stækka og þá fengist meiri afli seinna.

Þegar við höfðum fengið full yfirráð yfir landhelginni var hægt að hefjast handa. Möskvi var stækkaður í trolli og farið var að loka svæðum þar sem mikið veiddist af smáþorski. Þetta bar þann árangur að verulega dró úr afla á smáfiski. Þegar hann svo fór að stækka og banka á dyrnar var sett á skrapdagakerfi til að takmarka þorskaflann. Það dugði skammt og 1981 veiddust 470 þús. tonn af þorski. Aflinn féll svo í 300 þús. tonn árið 1983, sem þótti skelfilegt og þurfti að leita aftur til stríðsáranna til að finna svo lítinn afla. Fiskur var orðinn léttari eftir aldri vegna ónógrar fæðu og stofninn féll.

Í stað þess að endurskoða stefnuna í ljósi þeirrar niðurstöðu að fæðuframboðið stóð ekki undir stækkun stofnsins héldu menn áfram að friða. Árið 1994 varð nýr skellur og gripið var til enn frekari friðunaraðgerða. Sett var á 25% aflaregla. Annar skellur varð 2001 og þá var haldið tveggja daga fyrirspurnaþing, þar sem stefna Hafró var krufin til mergjar, en stefnunni í engu breytt.

Enn kom skellur 2007 og þá kom aflareglunefnd saman og lét tölvuna reikna út að það ætti að taka 20% úr stofninum. Til samanburðar má geta þess að áður fyrr þegar aflinn var 4-500 þús. tonn árum saman voru 35-40% tekin úr stofninum án þess að valda nokkrum skaða. Í öll þau skipti sem aflinn féll var undanfari þess horaður fiskur og sjálfát. Fæðubúrið þoldi ekki friðun og tilraunirnar til stækkunar stofnsins.

En eftir að 20% aflareglan var sett fór friðunin að bera þann árangur meira varð af stórum fiski. Ástæðan er líklega sú að skyndilega varð til fæða fyrir stóran fisk en árið 2006 fór makríll, og síðar síld að ganga á Íslandsmið á sumrin. Stór fiskur fór skyndilega að veiðast fyrir Norðurlandi og var hann fullur af makríl og síld. En þegar makríllinn fer héðan á haustin er stórþorskurinn enn svangur og leggst í sjálfát og ræðst einnig á aðra nytjafiska. Nýliðun þorsks hefur verið léleg frá 1986 vegna þessara þátta, fæðuskorts og sjálfáts, en hrygningarstofninn hefur verið óvenju stór undanfarin ár, það þarf að leita aftur til 1964 til að finna eitthvað svipað.

Það er ekki bjart framundan í þorskveiðum og fyrirsjáanlegt að afli mun ekki aukast frá því sem nú er nema aflareglu og sóknarmynstri verði breytt þannig að veitt verði meira úr stofninum og hætt að friða smáfisk. Þorskstofninn er að mínu mati kominn í hámark og mun því aðeins geta minnkað. Þá bendi ég á að með óbreyttri aflareglu yrði stofninn að tvöfaldast til að gefa 500 þús. tonn. Það er ómöguleiki.

1. Ísland

Myndin sýnir þróun þorskaflans frá stríðslokum, tímasetningar á útfærslu landhelginnar og hvernig aflatakmörkunum hefur verið háttað. Miðað við loforð Hafró um 500 þús. tonna jafnstöðuafla hafa tapast árlega um 200 þús. þorsktonn í 20 ár eða 4 milljónir tonna. Það hefði mátt gera mikið fyrir þá peninga. (Moggi sleppti að birta þessa mynd með greininni)

Svo er hér smá viðbót, mynd tekin um borð í togara:

Þorskurinn er gráðugur og hikar ekki við að éta undan sér. 

Bannfærði


Til Hamingju Hafró! - Grein eftir Sveinbjörn Jónsson

Ég tel ástæðu til að endurbirta hér grein eftir Sveinbjörn Jónsson trillukarl en hún birtist í síðasta tbl. Brimfaxa, málgagni smábátaeigenda. Alvöru greinar um mistökin í stjórnun fiskveiða eru orðnar sjaldgæfar og ég þakka Sveinbirni fyrir þessa grein. Hann mætti gjarnan skrifa fleiri, ekki veitir af. 

Til Hamingju Hafró!

Er ekki dásamlegt að eiga svona stóran þorskstofn í hafinu. Tilfinningin hlýtur að vera stórkostleg að hafa fengið að ala upp miklu stærri þorskstofn en við áttum, til að geta veitt miklu stærri þorska með miklu minni fyrirhöfn.

Að vísu vex aflinn lítið í samanburði við stofninn en eru það ekki bara góð búhyggindi að eiga nóg af fiski í hafinu? Hvernig lítur annars fóðurhliðin á dæminu út? Hve mikið fóður skyldi liggja að baki hverju tonni af afla af 7-10 ára fiski samanborið við 4-7 ára fisk? Dæmið er að vísu svolítið loðið vegna margbreytilegrar aldurs/afla dreyfingar en það ætti ekki að standa í sérfræðingum Hafrannsóknarstofnunar að velja sér tvö ár til samanburðar.

Mín skoðun er sú að flutningur sóknar upp eftir stofni hafi kostað lífríkið að minnsta kosti þreföldun af fóðri vegna þeirra einstaklinga sem eru í samanburðinum.

En það þarf líka að fóðra stofninn allan og til þess að geta framkvæmt breytinguna þurfti að lágmarki að tvöfalda stofnstærðina. Þetta þýðir að fóðurdæmi aflans er þegar orðið sexföldun. Og auðvitað vex samkeppnin við stærri stofn og stöðugt meiri orka fer í lífsbaráttu í stað vaxtar. Ég vil því álykta að Hafrannsóknarstofnun hafi tekist að tífalda fóðurþörf afla íslenska þorskstofnsins og tel því við hæfi að óska þeim til hamingju með árangurinn.

Þar sem margir íslendingar hafa betri innsýn í búskap en lífríki hafsins vil ég leyfa mér að gera tilraun til að færa afrekið milli greina svo menn átti sig á stærð þess.

Segjum að Rannsóknarstofnun landbúnaðarins fengi Alþingi til að setja í lög að ekki mætti slátra sauðfé yngra en 5 ára og reynum svo að gera okkur grein fyrir hvað það mundi kosta af fóðri að viðhalda sömu kjötframleiðslu og núverandi sumarlambaslátrun leiðir af sér. Húsakostur og grasrækt þyrfti að margfaldast á nokkrum árum en það mundi ekki duga til þannig að Eimskip og Samskip þyrftu að fylla öll sín skip og skemmur af innfluttu heyi ef viðhalda ætti sömu kjötframleiðslunni. Það er ekki sérfræðingum landbúnaðarins að kenna að ég treysti mér ekki til að óska þeim til hamingju eins og Hafró. Þeir fá aldrei að gera slíka tilraun og jafnvel þó þeir reyndu er víst að hún mundi mistakast.

Afrek Hafrannsóknarstofnunar verður enn stórkostlegra þegar tekið er tillit til þeirra umhverfisaðstæðna sem það er unnið við. Fyrir tæpum áratug hrundi íslenska hagkerfið með skelfilegum afleiðingum fyrir suma. Um svipað leyti hafði Hafró tekist að þegja af sér alla gagnrýni og með stuðningi erlendra vísindamanna, sem líka eiga sama heiður skilinn, tekist að fá stjórnvöld til að samþykkja lækkun aflareglunnar í 20%.

Stjórnvöld sem fljótlega stóðu frammi fyrir uppsögnum starfsfólks í heilbrigðisþjónustu og niðurskurði flestra velferðarmála samþykktu að takmarka árlegan afla úr þorskstofni við 20% af stofnstærð til að þóknast snillingunum og hjálpa þeim að flytja sóknina ofar í þorskstofninn. Þeir sem þekkja veiðisögu íslenska þorskstofnsins vita að hann bar langtímum saman 30-40% sókn og svaraði henni oft með mjög hárri nýliðun.

Ég vil leyfa mér að álykta að 100 þúsund tonna árlegur viðbótarafli undanfarin 10 ár hefði eingöngu virkað sem heilbrigð grisjun og haft sáralítil áhrif á núverandi stofnstærð. Ljóst er að þau milljón tonn af þorski sem þannig hefði mátt bæta við aflann mun aldrei verða til vegna þess að þau voru ekki veidd. Veiðar búa til fisk á sama hátt og skógarhögg býr til timbur. Í tilfelli fiskanna getur bíómassi afla orðið margföld stofnstærð á nokkrum áratugum. Ég tel því enn ríkari ástæðu til að óska Hafrannsóknarstofnun til hamingju með árangurinn síðastliðna þrjá áratugina þar sem aflaskerðingar þeirra á tímabilinu eru líklega orðnar stærri en þorskstofninn getur nokkurn tíma orðið. TIL HAMINGJU HAFRÓ!

Sveinbjörn Jónsson
 


Getur ekki besta fiskveiðistjórnarkerfið haldið fiskinum á miðunum?

Hún er athyglisverð þessi frétt: "Þorskveiði togara HB Granda hefur verið slök í haust og það sem af er vetri, eða fram að síðustu helgi þegar skipin fengu mjög góðan þorskafla. Fara þarf tíu ár aftur í tímann, eða aftur til þess tíma þegar þorskkvótinn var skertur verulega, til að finna dæmi um jafn slaka þorskveiði á þessum tíma árs".

Fram kemur að afli hafi verið mjög tregur í allt haust og upp á síðkastið hafi ekki fengist nema eitt tonn af þorski á togtíma á nóttunni er ekkert á daginn og að Halamiðin hefðu verið steindauð.

Um síðustu helgi breyttist þetta snögglega og varð mokafli hjá um 30 togurum á Vestfjarðamiðum. Ekkert er sagt hvernig sá fiskur leit út og ekki er spáð í hvaðan hann kom. Líklega er þetta ganga frá Grænlandi en hennar verður oft vart í desember þegar fiskur þaðan er að ganga til hrygningar við V og SV land. Auðvelt ætti að vera að greina hvort þetta sé Grænlendingur, ef einhver áhugi væri á því.

Miðin virðast eitthvað vera að þorna upp og nú gæti að vera að hefjast niðursveifla. Sé svo þá höfum við tapað óhemju afla. Fiskgengd hefur alltaf sveiflast upp og niður og því meira sem minna er veitt.

Og enn halda menn að hægt sé að geyma fiskinn í sjónum.


mbl.is Þorskveiði ekki slakari í tíu ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svindlið og subbuskapurinn í kvótakerfinu

Loksins tók sjónvarpið sig saman, rauf þöggunina um kvótakerfið og gerði ágætan þátt um brottkastið. Tíu ár eru liðin síðan Kompásþátturinn, sem fjallaði um sama efni, var gerður. Þá urðu viðbrögð undir væntingum og hefur lítið verið fjallað um málið í fjölmiðlum undanfarinn áratug. Umgengnin og subbuskapurinn hefur lítið hefur breyst frá því að Kompásþátturinn var gerður.

Viðbrögð við þættinum núna eru af ýmsum toga. Talsmenn útgerðar segja að þetta sé ekki lengur svona, menn umgangist fiskimiðin af virðingu. Guðmundur í Brimi var tekinn í bólinu eftir að hann sagði að löngu væri búið að kippa málunum í liðinn, myndböndin væru gömul og nú væri allt komið í lag. Þá dró Helgi Seljan, sem nú getur gleymt því að komast í skipsrúm, upp ársgamalt myndband um brottkast úr Kleifaberginu og mátaði Guðmund. Hann bregst við með því að biðja um lögreglurannsókn á því hvernig myndbandið hafi orðið til og hver sé svikarinn.

Ráðherra sagði að það þyrfti að efla Fiskistofu svo hún gæti hert eftirlit. Reyndar sýndi umfjöllun sjónvarpsins að stjóri Fiskistofu reynist vera algjör auli og vanrækir starf sitt vegna þrýstings utan frá, af yfirvöldum eða hagsmunaaðilum, sægreifunum. Framburður fyrrverandi starfsmanna benti til þess að umkvartanir þeirra hefðu ekki fengið mikil viðbrögð frá stjóranum eða hærri yfirvöldum. Spurning er hver sé undir hælnum á hverjum og hver ráði málunum í raun.

Ráðandi aðilar halda áfram að dásama kvótakerfið, afneita öllum göllum þess og segja að það þurfi að laga það, herða tökin í eftirlitinu. Ekkert er rætt um aðalatriðið:

Fiskveiðikerfi sem byggist á því að hámarka verð þess afla sem komið er með að landi og magn þess sem veiða má er takmarkað, leiðir alltaf til þess að verðmætasti fiskurinn er valinn úr og afganginum hent. Eina lausnin á vandamálinu er að taka upp sóknarkerfi þar sem úthlutað er ákveðinn sókn, veiðidögum, þar sem menn mega landa öllum veiddum afla án tillits til magns eða tegunda. Þá hverfur brottkastið og skráning afla verður rétt. Til þessa þarf hugarfarsbreytingu hjá þeim aðila sem sjaldan er minnst á, Hafró.

Þeim er haldið utan við umræðuna er þeir eru fylgjandi þessu kerfi vegna þess hve það er þægilegt: Fara á sjó í rall, mæla stofninn, með réttu eða röngu, og gefa svo út ákveðna prósentu af þessum mælda stofni sem aflaheimild eða kvóta.

Sá sem ekki skilur að kvótakerfi þar sem aflaheimildir eru takmarkaðar og útgerðarmaðurinn gerir allt til að hámarka verðmæti þeirra leiðir til brottkast, sorteringar og svindls, hann er ekki hæfur til að stjórna nýtingu fiskstofna. Þegar heil stofnun með öllum sínum starfsmönnum leggur blessun sína yfir kvótakerfið er eitthvað mikið að og krefst rannsóknar.

Enn er svo ótalið að á meðan landsmönnum flestum er óheimilt að sækja sjó og þurfa að búa við skert kjör og fallandi fasteignaverð leyfist nokkrum útvöldum, sægreifum, að ganga um eins og sóðar og svindlarar, henda og stela fiski, sem öðrum er ekki heimilað að veiða. Þar að auki lifa starfsmenn þessara greifa við stöðuga ógn um brottrekstur ef þeir voga sér að segja frá, sbr. kæru Guðmundar í Brimi, sem minnst er hér að ofan.

Er ekki kominn tími til að taka á þessu máli af alvöru?


Það sem ekki var sagt frá í umfjöllun um veiðar Færeyinga

Ekkert minntist Höskuldur á að fiskidögum hefur verið fækkað úr 40.000 í 18.000 frá 2003, né heldur að skipum sem haldið er út til veiða hefur fækkað um 60% á 8 árum, úr 247 í 72. Litlum trollbátum hefur fækkað úr 17 niður í 5.

Ekki minntist hann heldur á að 60% af landgrunninu eru lokuð fyrir veiðum meir og minna allt árið og að Færeyjabanki, sem áður var ein besta togslóðin, hefur verið lokuð togurum í 25 ár og öllum veiðum frá 2008. Væntanlega er þessum staðreyndum leynt til fá lesandann til að halda að minnkandi afli stafi af ofveiði - og lélegu fiskveiðistjórnarkerfi.

Þá er honum alveg ókunnugt um núverandi ástand á Færeyjamiðum en það er þannig að mjög mikið finnst af ýsuseiðum og mikill uppgangur er í þorski. Afli er góður í troll en lélegur á línu enda fiskurinn í góðu fóðri og í góðum holdum. Ekki er samt slakað á friðun og veiðitakmörkunum og því hætta á að þorskurinn éti sig út á gaddinn og veslist upp úr hor eins og hann gerði eftir 2004. Menn munu því missa af uppsveiflunni fyrir þversumhátt og vankunnáttu "fræðimannanna". Sjá nánar hér:


mbl.is Veiða aðeins lítinn hluta á heimamiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú telja vísindamenn að N-A Atlantshaf sé alvarlega vanveitt.-"Bitte nú" sagði amma mín!

Hópur alþjóðlegra fiskifræðinga er nú að athuga hvort fiskstofnar á N. Atlanshafi séu nú alvarlega vanveiddir. Dr. Henrik Sparholt, sem var í áhrifastöðu innan ICES í mörg ár, kynnti nýlega rannsóknarverkefni sem miðar að því að skilja þessa þróun betur í ráðgjafanefnd um Norðursjó. Það er meiri skilningur á því hvernig vistkerfin starfa og hvernig sú nýja þekking er farin að síast inn í fiskveiðiráðgjöfina, sem hafa valdið þessari nýju nálgun. Ekkert af þessu skipti máli á meðan stofnarnir voru ofveiddir, en aðstæður hafa breyst mikið s.l. áratug.

Ég get nú ekki alveg fallist á þessa skýringu því ég benti á það árið 2003 að Norðursjórinn væri stórlega vanveiddur, en hið almenna álit var þá að hann væri ofveiddur. Ég fór þá til Skotlands til að kynna mér ofveiðina af eigin raun. Hér er viðtal við mig í Fishing News frá þessum tíma.

FN2013

"Við höfum lengi vitað að samspil og samkeppni tegunda sé mikilvægt og að ekki hafi verið tekið tillit til hennar í stjórn fiskveiða", segir Barrie Deas formaður NFFO sjómannasamtakanna.

"Þegar veiðiálag var hátt skipti það ekki máli en þetta verkefni nú bendir til þess að það þurfi að hefjast handa sem fyrst og að jafnframt sé þetta spurning að vera ekki að tapa fiski sem gæti skapað tekjur og mat handa fólki.

Aftur verð ég að gera athugasemd: Ég kynntist Barrie Deas 2003 og hef oft hitt hann síðan og haldið fyrir hann fyrirlestra. Þau samskipti voru öll á þeim nótum að ég taldi Norðursjóinn vanveiddan, engin væri ofveiðin, að halda slíku fram væri skilningsskortur í fiskalíffræði. En ekki vildi hann trúa mér og studdi ekki mínar skoðanir. Svo má einnig segja um fleiri frammámenn í samtökum sjómanna. Þeir voru, eins og kollegar þeirra hér, meira hallir undir fjármálaöfl, stóra kvótaeigendur og að vera í fínni stöðu hafa góð laun og aka um á fínum bílum.

Vísindamenn og sjávarútvegurinn eru þegar farnir að skoða hvernig uppbygging þorskstofnsins í Norðursjó hefur áhrif á verðmæta krabbastofna, humar og rækju sem hafa verið í góðu standi á meðan botnfiskstofnarnir voru þurrausnir af ofveiði.

Hér geri ég einnig athugasemd: Stofnarnir voru ekki ofveiddir heldur vanveiddir. Ýsa og þorskur uxu ekki vegna vanveiði og hungurástand ríkti á miðunum. Við þessu var brugðist með samdrætti í veiðum. Það leiddi til þess, að mínu mati, að fiskar sem lögðust á bræður sína fengu vernd, stofn þeirra stækkaði og grisjaði smáfiskinn. Meira varð um stórvaxinn fisk, sem var frekur til fóðursins svo smáfiski fækkaði. Þá, loksins þá virðast fræðingarnir hafa vaknað og farið að sjá ljósið.

Fróðlegt verður að fylgjast með framvindunni. Verður farið eftir þessu eða reynir vísindamafían enn að slá þetta niður og kæfa umræðuna?


Eru tréhestarnir í Sjávarútvegsráðuneytinu landkrabbar eða bara grjótkrabbar ?

Fyrir stuttu birtust þær fréttir að grjótkrabbi sem er nýbúi vari búinn að dreifa sér um allt vestanvert landið allt austur í Eyjafjörð. Sagt var að hann gæti verið öðrum tegundum mikill skaðvaldur, án þess að tekið væri fram hverjar þær væru. Tegundin ætti sér fá náttúrulega óvini hér við land og fjölgaði þess vegna mjög hratt. Á aðeins áratug hefur krabbinn farið frá Hvalfirði og breiðst út í Breiðafirði og hefur veiðst á Vestfjörðum, í Húnaflóa, Skagafirði og í Eyjafirði. Ef áfram heldur sem horfir mun grjótkrabbinn nema allt norðausturhornið og austanvert landið á næstu árum.

Vísindamenn eru búnir að fá vinnu

Sindri Gíslason, forstöðumaður Náttúrustofu Suðvesturlands, sér um rannsóknir á útbreiðslu grjótkrabbans. Hann segir þetta framandi lífveru í vistkerfi okkar og því sé fylgst náið með framvindunni.Grjótkrabbi

„Grjótkrabbinn er alæta og ræðst á allt sem að kjafti kemur. Á meðan hann er mjög lítill er hann étinn af botnfiski og öðrum dýrum en þegar hann er kominn yfir vissa stærð hefur ekkert dýr hér við strendur roð við honum,“ bætir Sindri við að lokum.

En hvað með sjómenn, sem eru þeir einu sem geta veitt þessum hættulega krabba viðspyrnu og haft af því góðar tekjur? Þá vandast nú aldeilis málið:

Allar veiðar á kröbbum í gildrur í fiskveiðilandhelgi Íslands eru óheimilar. Ráðuneytinu er þó heimilt að veita tímabundin leyfi til tilraunaveiða á kröbbum samkvæmt 13. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands með síðari breytingum (úr reglugerð nr. 611/ 2007)

Nýlega auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um 3 leyfi til veiða á kröbbum í Faxaflóa fiskveiðiárin 2017/2018, 2018/2019, 2019/2020 sbr. reglugerð nr. 1070/2015, um veiðar á kröbbum í innanverðum Faxaflóa. En það er vandlifað og hér eru smá glefsur úr reglugerðinni:

Aðeins þeir bátar, sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni eiga kost á leyfi til krabbaveiða í gildrur. Heimilt er að binda útgáfu leyfa til veiða ákveðnum skilyrðum, m.a. skýrsluskilum um veiðarnar, hámarksstærð báta, stærð og gerð veiðarfæris, veiðitímabil o.s.frv.

Leyfi til veiða eru bundin við svæði innan línu sem dregin er milli Straumsvíkur og Skógarness (sem er við ósa Haffjarðarár. Línan liggur nálægt landi og þar með er nær allur flóinn friðaður, J.K. )

Óheimilt er að hafa önnur veiðarfæri um borð en gildrur meðan á krabbaveiðum stendur eða meðan gildrur eru lagðar eða þeirra vitjað.

Ekki er heimilt að koma með að landi karlkyns trjónukrabba sem eru undir 60 mm skjaldarbreidd, karlkyns grjótkrabba undir 100 mm skjaldarbreidd eða karlkyns gaddakrabba undir 90 mm skjaldarbreidd. Ekki er heimilt að koma með að landi lifandi kvenkynskrabba af öllum tegundum.

Það er greinilega komið fram af mikilli kurteisi við þessa tegund þar sem sleppa skal öllum kvendýrum svo tegundin hafi meiri möguleika á að fjölga sér. Eru menn alveg stein(grjót)runnir?

Þessi tegund er mjög verðmæt vara og gæti gefið sjómönnum og fleirum miklar tekjur. Er þar að auki, að sögn, mjög ágeng og þarf viðspyrnu við. Í hvers þágu er svona ofstjórnunar vitleysa? Því eru krabbaveiðar ekki gefnar alveg frjálsar?


Breskir sjómenn undirbúa sóknarstjórn í fiskveiðum eftir Brexit

Breskir sjómenn í samtökum sem kalla sig "Fishing for leave" eru að vinna í að móta nýja fiskveiðistefnu eftir Brexit. Hún byggist á sóknarkerfi sem á að koma í veg fyrir brottkast og að ekki þurfi að hætta að veiða vegna tegunda sem þeir hafa ekki kvóta fyrir.

Haldi kvótakerfi sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB áfram eftir úrsögn verður sjómönnum og fiskiþorpum kastað fyrir úlfana. Kvótaleiga eins og nú tíðkast er ekkert annað en að menn séu að borga fyrir að fá að vinna.

Fbrexit

Stjórnvöld eru ekki að móta neina fiskveiðistefnu eftir Brexit og sjómenn ætla vera á undan

Sjá nánar í skránni hér að neðan:


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband