Færsluflokkur: Vísindi og fræði
4.1.2017 | 17:36
Uppbygging þorskstofnsins með niðurskurði hefur leitt til aflaleysis
Árið 1975 lofaði Hafró árlegum 500 þús. tonna þorskafla yrði farið að þeirra ráðum. Þeir vildu draga úr veiðum, sérstaklega á smáfiski, svo fiskurinn fengi að stækka og gefa meira af sér. Það var farið eftir þerra ráðum í góðri trú. Þorskaflinn var minnkaður en óx aftur og fór í 480 þús. tonn 1982 og komst þá næst loforðinu. Svo féll aflinn snögglega í 300 000 tonn 1983. Fiskurinn hafði horast niður sennilega vegna offjölgunar og fæðuskorts. Þyngd sex ára fiska féll úr 4 kílóum í 3 eftir að smáfiskur var friðaður. Niðurstaða tilraunarinnar var sú að það var ekki fæðugrundvöllur fyrir stækkun stofnsins. Þarna hefði á að endurskoða þessa friðunartilraun en það var ekki gert. Í stað þess var sett var á kvótakerfi svo betur gengi að hemja aflann.
Síðan hefur gengið á ýmsu. Eftir nokkra aflaaukningu eftir botnárið 1983 fór að halla mjög undan fæti 1990 og aflinn fór í sögulegt lágmark 1994 og 95, 170 þús tonn. Þá var gripið til þess ráðs að setja aflareglu, nú skyldu veidd 25% af mældum veiðistofni. Aflinn jókst í 235 þús. tonn árið 2000 en féll svo í um 200 þús tonn 2002 og var sú skýring gefin að veiðistofninn hefði áður verið ofmetinn. Hin raunverulega ástæða var sú að fiskur hafði verið að horast frá 1998 vegna vanveiði, sem leiddi til aukinnar samkeppni og fæðuskorts. Var mikil rekistefna út af því á þeim tíma.
Enn hallaði undan fæti og 2007 gripu menn til þess ráðs að lækka aflaregluna og veiða einungis 20% úr stofninum. Þorskaflinn fór í nýtt sögulegt lágmark 2008, 146 þús. tonn. Síðan hefur hann þokast upp á við og er nú að skríða yfir 220 þús. tonnin. Að sögn Hafró er stofninn að stækka og sérstaklega er mikil aukning í stórum og gömlum þorski. Nýliðun er enn lítil þrátt fyrir að hrygningarstofninn hafi ekki verið stærri síðan 1964. Kvótatillögur urðu miklu minni fyrir fiskveiðiárið 2016/17 en menn höfðu vonast til og olli það miklum vonbrigðum. Ástæðan var sögð sú að fiskurinn væri farinn að léttast eftir aldri. Ekki eru það góðar fréttir.
Líklega er þorskstofninn að nálgast sín efri mörk eina ferðina enn og engar líkur til þess að þorskafli verði aukinn meðan haldið er í 20% aflaregluna. Á árum áður, þegar aflinn var 4-500 þús tonn, voru tekin 35-40% úr stofninum. Það er því fyrirséð að aflinn mun ekki aukast nema aflareglunni verði breytt. Aflaregla þjónar tölvunum vel en á lítið skylt við heilbrigða nýtingu dýrastofna. Hún er einföld í framkvæmd: Rallað á miðunum, stofninn "mældur" með óþekktri ónákvæmni, slegið inn í tölvu og kvótinn kominn. Ekkert tekið tillit til álits sjómanna á fiskgengd. Rallið gildir og ekkert rövl.
Síðustu árin hefur sú breyting orðið á að stofninn hefur stækkað langt umfram það sem hann var 1998 og hungrið fór að sverfa að vegna offjölgunar. Hvað hefur breyst sem leyfir stækkun stofnsins ? Jú, makríll fór að ganga á Íslandsmið upp úr 2006. Þá varð til aukin fæða fyrir stóran fisk. Þá hafa síldargöngur farið vaxandi svo enn hefur bæst í matarbúrið fyrir stóra fiskinn. Stór þorskur er miklu algengari í afla færabáta norðanlands en áður var, og hann er fullur af síld og makríl. Þetta er góð viðbótarfæða handa stórþorskinum yfir sumarið en makrílinn og síldin fara af okkar miðum þegar haustar. Þá er golþorskurinn enn svangur og leggst þá á stálpaðan fisk og fer að éta bæði undan sjálfum sér og öðrum tegundum.
Kemur þá að næsta kafla í röngum vísindum:
Ein af vísdómssetningunum í banka Hafró hefur löngum verið að stór hrygningarstofn gefi meiri nýliðun en lítill, þess vegna sé um að gera að hafa hann sem stærstan. Fyrir um 10 árum fór hrygningarstofn þorsks að stækka, þökk sé makrílnum. Og hann stækkaði og stækkaði. Árið 2015 var hann orðinn stærri en hann hafði verið frá 1963. Hann var um þrisvar sinnum stærri en hann var löngum á níunda og tíunda áratugnum. En nýliðunin lét standa á sér. Hvernig mátti það vera? Til þess að ungviðið komist upp verða að vera til þess skilyrði. Ef stofninn er stór er orðið þröngt á þingi og mikil samkeppni um mat. Þess vegna er erfitt fyrir ungviðið að komast á legg.
Taka má sem dæmi að auðvelt er að fylla vatnstunnu þegar hún er tóm með því að dæla í hana (nýliðun). Þegar hún er orðin full er ekki hægt að dæla meiru í hana nema tappað sé úr henni að neðan (veiða meira). Það verður því áfram léleg nýliðun í þorskstofninum þar til farið er að veiða svo mikið að þörf sé á ungviði til að fylla í skarðið. Þetta virðast fræðingar Hafró og móðurklíkunnar ICES eiga ákaflega erfitt með að skilja. En þeir hafa fengið svo mikil völd að enginn stjórnmálamaður þorir að taka sjálfstæðar ákvarðanir. ICES liðið ræður öllu, og engin breyting í sjónmáli.
Nú berast þær fréttir að svo lítið finnist af loðnu að veiðar verði ekki leyfðar á komandi vertíð. Það fylgir sögunni að sl. 10 ár hefði verið miklu minna af loðnu en þar á undan. Þar sem loðnan telst vera aðalfæða þorsksins er leyfilegt að álykta að samdráttur í þorskveiðum eftir tilkomu 20% aflareglunnar eigi þátt í fækkun loðnu. Þorskurinn étur loðnu þar til hún er 2 ára og heldur norður í ætisgönguna miklu til þess svo að ganga aftur heim til hrygningar 3 ára gömul. Með áti sínu skammtar hann það magn sem fer í þessa göngu.
Ég er þeirrar skoðunar að það verði að fara að brjóta á bak aftur trúarbrögð Hafró áður en stórslys verður vegna vanveiði á þorski. Nóg er nú allt tekjutapið, sem þessi friðunarstefna hefur haft í för með sér þó svo að framtíðinni sé ekki einnig stefnt í hættu.
Þessi skopmynd birtist í Morgunblaðinu 1. júní 2013. Hún á enn jafn mikinn rétt á sér og þá, það sem hefur bæst við er að farið er að draga úr vexti þorsks og loðnustofninn er upp étinn.
Hún er lífseig villukenningin um ofveiði á þorski þrátt fyrir að "ofveiði" hafi aldrei átt sé stað. Í Fréttablaðinu á fimmtudag 15/12 var grein eftir Þórólf Mattíasson hagfræðing úr háskólanum. Þar sagði hann:
"Í kjölfar útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 50 og 200 sjómílur fylgdi mikil fjárfesting í skuttogurum og hafnarmannvirkjum. Afli Íslendinga jókst og gjaldeyrir streymdi til landsins. Gengi krónunnar styrktist og góðæri ríkti. En að því kom að þorskstofninn þoldi ekki ofsóknina og var að hruni kominn upp úr 1982-3."
Staðreyndin er hins vegar sú að vegna friðunar smáfisks, þar sem 3 ára þorskur hvarf að mestu úr aflanum, og annara sóknartakmarkana varð fæðuskortur hjá þorski vegna ofmergðar fiska og hann fór að horast niður. Sjö ára þorskar t.d. léttust úr 5,5 kg í 4,1 kg frá 1978-1983. Sjá frekari gagnrýni sem var sett fram 1984 eftir að þetta gerðist og undirbúningur kvótakerfisins var í fullum gangi.
Í sama Fréttablaði er sagt frá nýrri greiningu þeirra Bjarka Vigfússonar og Hauks Más Gestssonar, hagfræðinga Íslenska sjávarklasans. Í greiningu sinni, Verstöðin Ísland hagfræðileg og landfræðileg samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi 1993 til 2013, segja þeir Bjarki og Haukur Már frá því hvernig miðstýrð offjárfesting í togurum og fiskvinnslum á 8. áratug síðustu aldar leiddi til ósjálfbærrar nýtingar auðlindarinnar og sársaukafullri hagræðingu, eða endurskipulagningu í íslenskum sjávarútvegi. Mér lék forvitni á að athuga þetta nánar og skoðaði frumheimildina. Þar segja þessir kappar eftirfarandi:
"Skuttogaravæðingunni, nýju frystihúsunum og stækkun landhelginnar fylgdi aukin sókn í nytjastofnana. Þannig fór þorskaflinn úr 255 þúsund tonnum árið 1971 í 460 þúsund tonn árið 1981, en það er metár í þorskafla íslenskra skipa. Þessi stóraukna sókn í nytjastofnana kringum landið, og dreifða og mikla fjárfesting í togurum og frystihúsum, var hins vegar ósjálfbær til lengdar og bera fór á alvarlegum brestum á þessu fyrirkomulagi strax um 1980. Þorskstofninn þoldi engan veginn þennan ágang og hagur út gerðarinnar vænkaðist lítið, enda gekk rekstur togaranna og frystihúsanna víða brösuglega. Um miðjan 9. áratuginn var hagræðing í íslenskum sjávarútvegi því nauðsynleg eftir offjárfestingu ára tuganna á undan, útgerðin stóð illa fjárhagslega, umframveiðigeta fiskiskipastólsins var útgerðinni þungur kostnaðarbaggi, sókn var of mikil og þorsk stofninn stefndi í verulegt óefni."
Þá segja þeir félagar: "Slæmt ástand þorskstofnsins og aflasamdráttur á 9. og 10. áratugnum var einnig áhrifamikill drifkraftur sameininga og samþjöppunar. Frá met árinu 1981, þegar þorskaflinn var 460 þúsund tonn, dróst aflinn saman í rúm 300 þúsund tonn árið 1991. Næsta áratuginn á eftir dróst aflinn enn saman, var 240 þúsund tonn árið 2001 og var svo minnstur frá lokum seinni heimsstyrjaldar árið 2008 þegar hann var aðeins 151 þúsund tonn. Síðan þá hefur gengið ágætlega að byggja upp stofninn." (leturbreyting JKr)
Til þess að gefa orðum sínum vægi birta þeir línurit sem þeir segja að sýni þorskafla á Íslandi 1910-2014, þó svo þorskafli sé aldrei "á landi". Undir línuritinu segir í texta: "Sókn í þorskstofninn jókst gríðarlega á 8. áratugnum í kjölfar skuttogaravæðingarinnar". Þegar að er gáð sést að þetta er hrein della, því þeir eru að sýna afla íslenskra skipa en láta hjá líða að sýna eða segja frá afla útlendinga og þar með heildaraflanum. Þegar hann er tekinn með sést að fullyrðing þeirra um gríðarlega sóknaraukningu í þorskstofninn er hrein fölsun. Sóknin ver mest 1955 þegar veidd voru 550 þúsund tonn og fór svo að minnka í kjölfar útfærslu landhelginnar, sem varð 4 sjómílur 1952 og 12 mílur 1958 en talið er að þá hafi togaraflotinn tapað 70% af sínum miðum (Þorleifur Óskarsson 1991, Íslensk togaraútgerð 1945-1970, bls.178).
Það er í hæsta máta óeðlilegt, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, þegar fræðimenn fara með svona staðlausa stafi og birta þar að auki falsað línurit um þorskafla á Íslandsmiðum. Í áratugi hefur þessi vitleysa um ofveiði riðið húsum, þetta er étið upp aftur og aftur og ekkert verið að kynna sé mótrök og svo leyfa menn sér að kenna sig við háskólasamfélag.
Hér fylgir hið rétta línurit af heildar þorskafla við Ísland og er afli heimamanna táknaður með rauðri línu.
Hér má sjá að hámarksaflinn var 1955 og hefur verið fallandi síðan. Nú eru menn að hjakka í rúmum 200 þúsund tonnum, og þó þeir félagar segi að ágætlega hafi gengið að byggja upp stofninn, hefur aflinn, ekki aukist heldur minnkað um helming frá upptöku kvótakerfisins.
En áfram kveða menn öfugmælavísur: Fiskurinn hefur fögur hljóð, finnst hann oft á heiðum...
Vísindi og fræði | Breytt 20.12.2016 kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.12.2016 | 16:45
Þorskurinn á niðurleið. 20% aflareglan farin að segja til sín.
Loksins kom hún, skýrslan úr haustrallinu. Um þorskinn segir:
"Heildarvísitala þorsks lækkaði talsvert frá árunum 2014 og 2015 og er nú svipuð og árið 2013. Hluta lækkunarinnar má rekja til lítils árgangs frá 2013 og að meðalþyngdir sumra árganga hafa lækkað frá fyrra ári. Líklegt er að lækkunin sé að mestu vegna mæliskekkju líkt og var í vorralli milli áranna 2013 og 2014."
Já einmitt, lækkunin er vegna mæliskekkju. Hér að ofan má sjá vísitölurnar og að haustvísitalan hefur verið að stíga allt frá 2008 en nú snarfellur hún.
Hér má sjá lengdardreifingu þorsks síðustu 3 ára. Í ár (svarta línan) vantar miðstykkið í stofninn miðað við í fyrra (rauða línan), fisk frá 40-70 cm. Ekki hefur hann verið veiddur markvisst umfram aðrar stæðir og skyndilokunarkerfið á að vernda allan fisk undir 55 cm. Hann virðist hafa horfið úr stofninum engum til gagns. Auðvitað kemur að því að að sóknarminnkun úr 35% í 20% komi niður á fæðu þorsksins, enda mun nú öll loðna upp étin og uppsjávarskipin verkefnalaus í vetur.
Smá ljós punktur er í þessu: Lúðuvísitalan orðin hærri en hún var 1996. Greinilegt að þetta veiða sleppa er að bera árangur þó það skili sér ekki í lúðusúpunni.
11.12.2016 | 13:53
Stafar lítill þorskafli í Færeyjum af ofveiði?
Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 10. desember 2016.
Því hefur mjög verið haldið á lofti undanfarið að Færeyingar hafi rústað sínum fiskstofnum með ofveiði. Étur þar hver upp eftir öðrum. Þar sé um að kenna sóknarkerfi þeirra, dagakerfinu, og fiskifræði höfundar þessa pistils.
Mér þykir rétt að benda á nokkrar staðreyndir málsins. Sóknarkerfið byggir á því að skipaflotanum er úthlutað veiðidögum eftir ákveðnu kerfi. Mega menn þá veiða að vild hvaða tegundir sem er án aflatakmarkana. Enginn heildarkvóti er heldur á flotanum. Tilgangurinn er að stjórna veiðiálaginu en ekki aflanum. Kosturinn er að þá verða skjótari viðbrögð við breytingum á fiskgegnd og enginn akkur er í brottkasti og menn koma með að landi allt sem kemur á dekk og er nýtanlegt.
Ég var kallaður til Færeyja 2001 af þáverandi sjávarútvegsráðherra sem óháður ráðgjafi en hann hafði þá fengið ráðgjöf frá færeysku Hafró um að fækka fiskidögum um 25% á þremur árum. Ég lagði til að fjöldi fiskidaga yrði óbreyttur. Aflinn jókst og þorskstofninn stækkaði. Næsta ár var lagði Hafró til að dögum yrði fækkað um 30%. Enn lagði ég til óbreytta daga og farið var eftir því. Aflinn jókst enn og stofninn stækkaði þrátt fyrir að veitt hafði verið mjög mikið umfram tillögur ríkisfiskifræðinganna.
Árið 2003 var þorskur orðinn horaður og farið að hægja á vexti hans. Þá lagði ég til að fjöldi veiðidaga yrði aukinn um 15%. Rökstuddi það með því að þar sem stofninn hefði stækkað undanfarin ár hefði sóknin ekki verið næg, flotinn hefði ekki megnað að halda aftur af aukningunni og nú væri stofninn orðinn svo stór að komið væri hungurástand. Allar líkur væru á að þorskur væri farinn að drepast úr hor og því þyrfti að bæta í sóknina. Stofninn væri farinn að minnka, ekki vegna ofveiði heldur vegna fæðuskorts og þá gerði illt verra að draga úr sókn.
Ekki var farið eftir ráðum mínum um fjölgun daga. Árið 2004 hafði dregið úr afla og enn lagði ég til aukningu á sókn. Þá sást út frá merkingum að 60 cm þorskar höfðu einungis lengst um 1 cm milli ára og hreistursrannsóknir sýndu vaxtarstöðnun við 60 cm. Ekki var farið eftir mínum ráðleggingum heldur var dregið lítillega úr sókn. Þetta var síðasta árið mitt í Færeyjum. Þorskaflinn hélt áfram að minnka og er enn lélegur.
Þegar kerfið var sett á voru veiðidagar um 50 þúsund. Árið 2001 voru þeir 41 þúsund. Þegar afli fór að minnka eftir 2003 jókst ofveiðisöngur færeyskra fiskifræðinga. Dögum var smám saman fækkað og eru þeir nú komnir niður í 19 þúsund, rúmlega helmings minnkun frá árinu 2003 þegar ég vildi bæta í. Ekki furða þótt aflinn hafi minnkað, bara af þessum sökum.
Færeyjabanki, sem er stórt grunn SV af Færeyjum hefur verið lokaður fyrir togveiðum í 25 ár og öllum veiðum frá 2008. Stór svæði á landgrunninu eru lokuð meir og minna allt árið, 10% 1990 en 50% 2015. Togveiðar eru bannaðar innan 12 mílna, aðeins litlir togbátar mega fara inn að 6 mílum til að veiða kola og annan flatfisk í þrjá mánuði á sumrin. Stór hluti grunnslóðarinnar innan 12 mílna er friðaður fyrir krókaveiði hluta ársins.
Flotinn hefur minnkað mikið. Árið 2007 voru 247 fiskiskip með veiðileyfi (tómstundabátar undanskildir) . Í ár voru gefin út 102 veiðileyfi en aðeins 72 þeirra eru notuð, um 60% fækkun skipa sem stunda veiðar á botnfiski á 8 árum. Árið 2008 voru 17 litlir trollbátar við veiðar en nú eru þeir aðeins fimm. Og enn segja fiskifræðingarnir að draga þurfi úr sókn vegna ofveiði. Þeirra orð eru svo lapin upp hér heima, og talað um að Færeyingar hafi rústað sínum fiskistofnum með ofveiði án þess að menn kynni sér allar hliðar málsins eða hafi hugmynd um þá miklu sóknarminnkun, sem orðin er frá því að dagakerfið var tekið upp.
Minna veiðiálag leiðir ekki einungis til minnkandi afla heldur líka til minnkunar fiskstofna. Þegar veitt er mikið er fiskstofni haldið í skefjum þannig að hann gengur ekki nærri fæðudýrunum, þau fá að vaxa og tímgast eðlilega og jafnvægi ríkir milli fiskanna og fæðudýranna. Þeir þrífast vel og afföll eru tiltölulega lítil. Vel haldinn fiskur hefur meiri mótstöðu gegn sjúkdómum og sníkjudýrum og á auðveldara með að flýja undan óvinum. Sé dregið úr veiðum fjölgar fiski og samkeppni um fæðuna eykst. Fiski fjölgar, meira er étið, samkeppni eykst og afföll verða meiri. Fæðuframboð minnkar vegna þess að fæðudýrin eru upp étin og lífmassi fiska minnkar. Þegar svo er komið þarf miklu færri fiska til að viðhalda ástandinu svo stofninn helst áfram lítill. Aukin afföll skrifast svo á veiðar því náttúruleg afföll eru fasti í útreikningum, 18%.
Ég er þeirrar skoðunar að engin ofveiði sé á Færeyjamiðum heldur hafi færeyskir fiskifræðingar og alþjóða hafrannsóknaráðið eyðilagt miðin með vanveiði. Og áfram skal haldið því nýlega var samþykkt 15% fækkun veiðidaga.
Veiðislóðir togara á Færeyjamiðum, innsti hringurinn markar 12 sjómílur. Færeyjabanki SV af eyjunum.Hann er alfriðaður niður á 200 m dýpi. Þarna komu íslenskir togarar oft við í siglingum til að "bæta á".
Vísindi og fræði | Breytt 26.1.2025 kl. 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
5.9.2016 | 17:19
Mývatn orðið tært og lífríkið í stuði. Hvernig skyldi standa á því?
Já það var einmitt það. Niðursveiflunni í Mývatni lokið. Engar skýringar gefnar aðrar að sveiflan sé þekkt. Hvar er nú klóakkmengunin sem allt var að drepa í fyrra? Er hún horfin? Snemma í vor spáði ég því, að væru hornsílin horfin, yrði vatnið tært í sumar:
"Sé rétt að hornsílin séu nú horfin úr Mývatni (stofninn hruninn eins og sagt er) þá er vatnið að færast yfir á stig 4 hér að ofan og verða tært næsta sumar. Sjáum hvað setur."
Vatnið er nú komið á stig 1 í atburðarásinni sem ég lýsti fyrr í vor og gaf skýringar á.
1. Vatnið er tært að vori, mikið af krabbaflóm í vatninu, mikið mý, nóg fæða fyrir silung sem þrífst vel, engin hornsíli.
2. 1-2 árum síðar, hornsílum fjölgar, krabbaflóm fækkar og vatnið fer að gruggast, dregur úr vexti silunga.
3. Vatnið grænt, fullt af hornsílum, krabbinn horfinn, silungur horaður. Allt fiskafóður upp étið og það endar með því að hornsílin yfirgefa vatnið. Ég hef séð þau synda úr vatninu niður Laxá í milljónatali.
4. Aftur á byrjunarreit, hornsílin farin, krabbaflær komnar aftur og vatnið tært. Þessi hringrás endurtekur sig á 5-7 árum.
Í sumar, þegar vatnið var tært lék mér hugur á að vita um ástand krabbaflónna, en skv. ofansögðu átti að vera mikið af þeim. Sendi ég ítrekað fyrirspurnir um það til Árna Einarssona forstöðumanns RAMÝ en hann forðaðist að svara öðru en að það ætti að eftir að telja úr sýnunum.
Þó ég segði honum að ekki þyrfti að telja til að sjá hvort mikið, lítið eða ekkert væri af krabbbaflóm, það sæist við sýnatöku, svarað hann ekki. Lítill áhugi þar á bæ til samvinnu eða skoðana annara.
En iðinn var hann við að telja blábakteríur í útrennsli vatnsins og í lok ágúst birtust nær daglega upplýsingar um fjölda þeirra, eins og beðið væri í ofvæni eftir blómanum. Í gær rættist úr og þetta stóð á feisbókarsíðu RAMÝ: "Blábakteríublóminn í Mývatni þýtur upp og vatnið orðið brúnlitað". Greinilega ánægður með að ræst hefði úr.
Í vor setti ég einnig fram tillögu um hvað mætti gera til að koma í veg fyrir þörungablómann en þeim hefur í engu verið svarað.
Um miðjan júni sá ég svo ástæðu til að spyrja hvort rannsóknastöðin væri komin í afneitun.
Og enn má spyrja: Fá menn endalaust leyfi til að vera í rugli og afneitun á kostnað skattborgara?
----------
Ég stundaði rannsóknir í Mývatni í rúm 10 ár, sat lengi í sérfræðinganefnd um Mývatnsrannsóknir og var í stýrihópi um aðkomu erlendra sérfræðinga að Mývatnsmálum, svo ég þekki nokkuð vel til.
![]() |
Lífríki Mývatns tekur við sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 18.7.2022 kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.6.2016 | 16:46
Ákvörðun aflaheimilda: Er verið að grínast?
Í Fréttablaði dagsins mátti lesa eftirfarandi:
Tillögum Hafrannsóknastofnunar um ráðlagðan heildarafla í öllum tegundum er fylgt í þaula eins og undanfarin ár. Þetta er ákvörðun Gunnars Braga Sveinssonar sjávarútvegsráðherra eftir samráð í ríkisstjórn.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að Gunnar Bragi ítrekaði nauðsyn þess að stórauka fjármagn til hafrannsókna, þar sem ráðgjöf er að margra mati viss vonbrigði miðað við væntingar, eins og ráðherra tekur fram. Svara verði lykilspurningum um til dæmis hvers vegna nokkrir árgangar þorsksins eru að léttast, en kvótinn í þorski var aðeins aukinn um 5.000 tonn í 244.000 tonn.
Er eitthvað verið að fíflast í okkur? Til hvers þurfum við sjávarútvegsráðherrra ef hann gerir ekki annað en að áframsenda tillögur Hafró athugasemdalaust?
Og í þokkabót vill hann auka fjárframlög til stofnunarinnar sem hefur einokun á rannsóknum og reyndar túlkun fyrirliggjandi gagna, svo þeir, með frekari rannsóknum, megi svara lykilspurningum um hvers vegna þorskur sé að léttast, horast.
Þeirri spurningu er einfalt að svara og alveg ókeypis: Það vantar mat!
Hvers vegna skyldi það vera? Jú, það hefur verið dregið úr sókn um nærri helming frá því sem hún var í áratugi þegar voru tekinn 400 þús. tonn úr þorskstofninum. Hrygningarstofninn hefir þrefaldast frá árinu 2000 og þó hann hafi sig allan við við að éta upp yngri árganga vantar þá enn fóður. Þetta er heldur ekki gratís því þarna er verið að láta eiga sig að veiða um 200 þús þorsktonn. Árlega er verið er að kasta á glæ öllum aflaverðmætum núverandi þorskafla!
Við þetta er að bæta að í nýjustu skýrslu Hafró hafa töflur um þyngd eftir aldri verið felldar niður og er í skýrslunni vísað í ICES pappír sem ekki finnst á netinu. Nýjasta skýrslan frá þeim er frá í fyrra. Því er ekki hægt að finna hvaða árgangar hafa verið að horast og þá hve mikið.
Erða nú!
Hér er mynd sem sýnir hvernig sóknin í þorskstofninn hefur minnkað, hlutfallið sem tekið er úr stofninum, svarta línan, hefur minnkað um helming. Það þýðir, með sama áframhaldi, að stofnstærðin verður að tvöfaldast ef við eigum að komast í 450 þús. tonn. Það gerist aldrei. Með óbreyttri nýtingarstefnu hjökkum við þarna og reyndar er stór hætta á að stofninn geti "hrunið".
12.6.2016 | 20:02
Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn í afneitun
Nýlega kynnti ég enn einu sinni þá tilgátu að sveiflurnar í lífríki vatnsins tengdust ofmergð fiskjar, hornsíla og stundum bleikju. Fiskurinn raskaði jafnvægi fæðupýramídans með því að ofbeita krabbadýrin, sem nærast á grænþörungum þannig bláþörungarnir gætu tekið yfir og vatnið lægi golgrænt eftir. Skýrði ég þetta einnig í sjónvarpsviðtali á Stöð 2 og á Vísi.is þann 26. maí s.l.
Daginn eftir birtist þetta á fésbókarssíðu Rannsóknarstöðvarinnar en stöðinni er stjórnað af Árni Einarssyni:
"Í Mývatni verða miklar sveiflukenndar breytingar á mýflugustofnum á um 5-7 ára fresti. Þessar sveiflur bergmála um allt vistkerfið og hafa verið mjög til umræðu. Þær eru náttúrulegar í grunninn en virðast hafa magnast um 1970. Þegar lægðir eru komast andarungar ekki á legg og silungur sveltur. Þrjár kenningar eru um drifkraft sveiflnanna. Í fyrst lagi að sveiflur í veðurfari knýi þær, í öðru lagi að fiskar ráði þeim með því að éta upp mýið og í þriðja lagi að mýið sjálft ráði örlögum sínum með því að mýlirfurnar éta upp fæðu sína, kísilþörunga og lífrænar leifar á vatnsbotninum. Við getum nefnt þær veðurtilgátuna, fiskatilgátuna og mýlirfutilgátuna. Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu og enn hefur ekkert komið fram sem styður veður- og fiskatilgáturnar. Hins vegar eru eindregnar vísbendingar um að mýlirfutilgátan sé málið. En það er önnur þróun í gangi. Hér er súlurit sem sýnir tærleika Mývatns (Syðriflóa, meðaltal júlí og ágúst) frá 1973 til 2015 (hvítu súlurnar). Takið eftir að mælikvarði lóðrétta ássins er öfugur. Tíðni "bjartra" ára (með meira en 3ja metra rýni, en þá sést til botns) virðist fara minnkandi. Þetta er langtíma þróun sem líklega tengist breytingum á næringarefnaframboði í Mývatni, köfnunarefni og /eða fosfór. Ekkert bendir sérstaklega til að þessa þróun megi rekja til breytinga á fiskstofnum vatnsins." Sjá nánar hér
Enn er þverneitað þeirri tilgátu að fiskurinn komi nokkuð við sögu. Ekki hef ég séð neinar rannsóknaniðurstöður frá Ramý, sem hafna fiskitilgátunni. Eina sem lagt er á borðið eru "mér finnst" rök.
Í skýrslu erlendu sérfræðinganna sem fengnir voru til leiks varðandi Mývatn um síðustu aldamót voru nefndar tvær tilgátur til að skýra sveiflurnar:
"Rannsóknir í Mývatni hafa ekki verið fólgnar í tilraunum. Þess vegna er einungis unnt að byggja tilgátur um orsakir sveiflna í fæðukeðjunni, miðað við núverandi þekkingu, á fræðilegum grunni, og tilrauna er þörf til að prófa gildi mismunandi þátta sem koma við sögu. Til skýringar á sveiflunum munum við hér á eftir ræða tvær andstæðar tilgátur og það sem annaðhvort styður þær eða veikir miðað við þau gögn sem til eru. Fjallað verður um rannsóknir og tilraunir sem gera þyrfti til að meta á gagnrýninn hátt hugsanlegar orsakir sveiflnanna í verkefni 4 hér á eftir.
Ekki er gert ráð fyrir að önnur tilgátan útiloki hina, enda margt sameiginlegt með þeim, en með því að gera ráð fyrir því er hins vegar unnt að setja fram skýrari spurningar um það en ella hvað stjórni hverju. Einnig munum við, jafnframt því sem við fjöllum um tilgáturnar tvær, benda á helstu og alvarlegustu eyðurnar í þá þekkingu sem nú er fyrir hendi.
Fyrri tilgátan byggist á þeirri hugmynd að stofnsveiflur í Tanytarsus stjórnist af gagnkvæmu sambandi dýranna og því sem þau hafa úr að moða og að útkoman úr því samspili hafi áhrif á aðra þætti fæðukeðjunnar.
Seinni tilgátan byggist á þeirri hugmynd að sveiflurnar séu tengdar stofnsveiflum efst í fæðukeðjunni (hjá bleikju og hornsílum), sem aftur hafi áhrif á aðra þætti neðar í fæðukeðjunni."
Í framhaldinu er lagt til að rannsóknum verði beint sérstaklega að þessum þáttum. Þó bent sé á "helstu og alvarlegustu eyðurnar í þá þekkingu sem nú er fyrir hendi" er mér ekki kunnugt um neitt sérstakt átak, utan þess að skrá hornsílaafla úr stöðluðum veiðigildrum. Þá hefur Veiðimálastofnun ekki breytt neinu í sínum áherslum við vöktun á silungi, og ekki er mér kunnugt um að sá sem þar stjórnar hafi neinn skilning á fiskatilgátunni.
Mér finnst það alvarlegur hlutur þegar stofnanir sem kenna sig við vísindi, Ramý, Líffræðistofnun HÍ og Veiðimálastofnun, neita að taka tillit til allra sjónarmiða og tilgáta sem fram koma og gefa þeim jafnt vægi í rannsóknaráherslum og hafna ákveðnum kenningum án fullnægjandi rannsókna og neita að ræða þær.
Nú fundar nefnd umhverfisráðherra um vandamál Mývatns og á að skila aðgerðaráætlun á þjóðhátíðardaginn. - Sjáum hvað þeim leggst til.
Árið 1988 var ástandið slæmt í Mývatni. Vatnið var fullt af hornsílum allt að 10 cm löngum. Mikill þörungablómi og vatnið grænt.
Bleikjan var mjög horuð og þessar að dauða komnar. Svona fiskar hafa ekki afl til að festast í netum og koma því ekki fram sem skyldi í rannsóknaveiðum. Þessar voru veiddar í nót.
Skömmu eftir þetta yfirgáfu hornsílin Mývatn í stórum torfum.
Vísindi og fræði | Breytt 18.7.2022 kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.5.2016 | 13:29
Hvað er til ráða í Mývatni? Setja út regnbogasilung
Umræðan um Mývatn er einsleit, og einskorðast við að skolpmengun og áburðarnotkun eigi sök á því að vatnið hafi verið golgrænt af þörungum undanfarin ár. Þó nýjar rannsóknir sýni að einungis 1-2% af innstreymi næringarefna komi frá athöfnum mannsins, skal eyða miklum fjármunum í að endurnýja fráveitukerfi og minnka áburðarnotkun. Engar tilraunir eru gerðar til að skýra orsakasamhengi þess sem hefur verið að gerast í vatninu undanfarna áratugi og jafnvel enn lengur.
Í Fréttablaðinu á laugardaginn (21/5) var mikil grein um Mývatn. Þar sagði m.a:
"Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn (RAMÝ), hefur sagt að leirlosið sé ein stærsta óleysta gátan í Mývatni." og einnig:
"Í raun er því aðeins um eitt að ræða til að stemma stigu við þessari þróun, og það er að tryggja að sem allra minnst af næringarefnum frá mannabyggð (köfnunarefni og fosfór) berist í grunnvatnið og þannig í Mývatn."
Þá var í Fréttablaðinu í gær (23/5) grein eftir Guðmund Andra Thorsson, sem hefur þessa einföldu lausn: "Það þarf að skrúfa fyrir flæði næringarefna í vatnið undireins bæði frá byggð og atvinnurekstri. Það er lágmark og þegar búið er að gera það má fara að velta fyrir sér ástæðunum."
Þó ástæðurnar fyrir þörungablómanum séu óþekktar þarf samt að gera eitthvað strax, þó svo menn séu ekki vissir um að það lagi ástandið eða skilji hvað veldur. Þörungablómi verður í Mývatni með reglulegu millibili, vatnið verður grænt, því fylgir mýleysi og fuglar og fiskar svelta. Á milli virðist allt vera í lagi, vatnið tært, næg áta fyrir fugl og fisk og allt í blóma. Minna má á að alltaf rennur jafn mikið af áburðarefnum í vatnið svo varla er lausnar á vandamálinu að leita þar, það er eitthvað annað sem veldur þessu.
Þörungablómi hefur verið þekktur í vötnum um allan heim og tengist hann oft aukinni ákomu næringarefna af manna völdum. Reynt var að lækna vandann með því að útiloka allt aðstreymi skolps en yfirleitt dugði það ekki til. Líklega vegna þess að vötnin eru orðin mettuð af næringarefnum í botnseti og það fer svo aftur í umferð t.d. vegna uppgruggunar, rotnunar eða áhrifa frá dýrasamfélögum. Rannsóknir og tilraunir sýndu að ofmergð smáfisks átti mestan þátt í að viðhalda þörungablómanum. Með því að fækka fiski tókst að lækna mörg vötn af þörungaplágunni.
Ég skrifaði um þetta 1986 í kjölfar mikillar þörungaplágu, og setti fram tillögur til úrbóta. Þær fólu í sér að sporna við offjölgun bleikju og hornsíla.
Í fyrra kom út sænsk skýrsla um árangur þess að fjarlægja fisk úr 123 vötnum. Í samantekt segir:
Our results indicate that removal of planktivorous and benthivorous fish is a useful means of improving water quality in eutrophic lakes. Biomanipulation tends to be particularly successful in relatively small lakes with short retention times and high phosphorus levels. More thorough fish removal increases the efficacy of biomanipulation. Nonetheless successes and failures have occurred across a wide range of conditions.
Þó Rannsakendum Mývatns hafi verið marg bent á þetta láta sem þeir viti þetta ekki og hafa þar af leiðandi ekki bent á aðrar lausnir en að laga klóak. Er hlaupin einhver pólitík í vísindin líkt og gerðist á tíma Kísiliðjunnar?
Hvað er hægt að gera?
Erlendis, við sams konar aðstæður, hefur verið brugðist við með því að fækka fiski. Annað hvort með veiðum eða að settur er út ránfiskur til þess að halda smáfiskinum í skefjum. Í Mývatni eru hornsílin vandamálið, en þau virðast þau nú að mestu horfin úr vatninu. Sé það rétt lagast ástandið næsta sumar, vatnið verður tærara og áta fer vaxandi. Það er góð staða til að grípa til aðgerða.
Þar sem útilokað er að halda hornsílunum niðri með veiðum í Mývatni er aðeins ein leið fær. Hún er a nota ránfisk til að halda aftur af sílunum. Urriði étur hornsíli en bleikja ekki fyrr en hún er orðin stór, 37 cm eða stærri. Reynt var að setja út urriðaseiði fyrir um 25 árum með litlum árangri, enda voru seiðin fá og smá og tilraunin stóð mjög stutt.
Regnbogasilungur er mjög öflug hornsílaæta og hefur víða verið notaður. Hann hefur þann kost að geta ekki tímgast við náttúrulegar aðstæður hér á landi og reyndar hvergi í Evrópu þrátt fyrir að vera mikið notaður í fiskeldi. Þess vegna væri tilraun sem fæli í sér sleppingu á regnbogasilungi afturkræf. Kæmi eitthvað óæskilegt í ljós væri hægt að bakka út úr tilrauninni.
Ég tel að rétt væri að gera þá tilraun að sleppa regnbogasilungi í vatnið til að halda aftur af fjölgun hornsíla. Sleppa þyrfti um 100 þúsund fiskum um 10 cm löngum. Þetta tilsvarar 30 fiskum /ha. Kaupverð er sennilega um 20 milljónir, en á móti kæmi nokkurra tuga tonna afli. Fylgst yrði náið með framvindunni og nýjar ákvarðanir teknar í framhaldinu.
Ég hef reyndar stungið upp á þessu áður svo mér er full ljóst að margir munu hoppa hæð sína yfir svona tillögu. Setja framandi fisk í vatnið! En þá verða þeir að sitja uppi með það að eftir örfá þokkaleg ár fer allt í sama farið og umræðan fer aftur í sömu blindgötuna.
Ég stundaði rannsóknir í Laxá og Mývatni samfellt frá 1974 til 1986, var í sérfræðinganefnd um Mývatnsrannsóknir í mörg ár og var í stýrihópi um rannsóknir erlendu sérfræðinganna 1998 og 1999. Ég hef sett upp síðu um Mývatn þar sem ítarlega er fjallað um þessi mál.
Skýringarmynd. Ástand vatns fyrir (efri hlutinn) og eftir vistfræðistjórnun (biomanipulation)
Fyrir stjórnun; Mikið af þörungum, lítið af dýrasvifi, sem étur þörunga og mikið af fiskum sem éta dýrasvif. Gruggugt grænt vatn
Eftir meðhöndlun; Hóflegt þörungamagn, mikið af dýrasvif, fáir fiskar sem éta dýrasvif. Tært vatn.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.5.2016 | 20:11
Vandamál Mývatns, hvernig væri að gá undir stólinn?
Fyrirsögnin höfðar til þess að á umliðnum árum virðist sem mörgum tillögum að skýringum á þörungaplágunni í Mývatni hafi verið stungið undir stól.
Mikil þörungaplága ríkir í vatninu, kúluskíturinn horfinn, botninn eins og eyðimörk og hornsílin horfin, er niðursoðin lýsing á ástandinu. Ekki eru menn vissir um hvað valdi en bent er á aukin umsvif mannsins og aukna ákomu næringarefna af þeim sökum. Sem dæmi um hugmyndafátæktina hafa menn miklar áhyggjur af því að hornsílin séu horfin, en eins og síðar verður bent á leika þau afar mikið hlutverk í vatninu og gætu jafnvel verið höfundar og stjórnendur atburðarrásarinnar.
Sveiflur hafa verið í lífríki Mývatns í marga áratugi og deilt hefur verið um orsakirnar. Löngum var Kísiliðjunni kennt um svo og mengun af mannavöldum. Nú er Kísiliðjan löngu farin og á er þá kennt um gömlum áhrifum svo og mengun af manna völdum þó nýútkomin skýrsla sýni að hún sé ekki nema um 1% af heildar ákomunni. Öðrum tilgátum sem skýra mættu sveiflurnar hafa verið hafnað af rannsóknaraðilum, RAMÝ og líffræðistofnun HÍ.
Árið 1998, í tengslum við endurnýjun námaleyfis Kísiliðjunnar, fékk ríkisstjórnin þrjá viðurkennda óháða erlenda vísindamenn til að fara yfir tiltæk rannsóknargögn og ræða við þá sem tengdust rannsóknum svo og heimamenn. Skýrslu var skilað í ársbyrjun 2000. Í henni kom m.a. fram að hvorki væri hægt að kenna Kísiliðjunni né mengun af mannavöldum um sveiflurnar í lífríkinu á neinn afgerandi hátt. Skýringa yrði að leita annars staðar. Niðurstaðan var túlkuð á mismunandi hátt og voru sumir afar óánægðir.
Þremenningarnir settu fram fleiri kenningar og lögðu fram tillögur að rannsóknaráætlunum sem myndu svara ýmsum spurningum og leiða til meiri skilnings á eðli sveiflanna. Ekki hef ég orðið var við að farið hafi verið eftir tillögunum og skýrslan virðist nú grafin og gleymd.
Ein möguleg skýring er sú að magn bláþörunga stjórnist af samspili fiska, krabbadýra og þörunga. Það má hugsa sér lausnina á gátunni um úlfinn, lambið og heypokann, sem ferja skal yfir ána, eitt stykki í einu. Hún byggir á því að lambið myndi éta heyið, úlfurinn gæti étið lambið en ekki heypokann. Hugsum okkur gróinn landskika sem beittur er af kindum. Úlfaflokkur kemur á svæðið, étur féð, þrífst vel og fjölgar sér. Kemur þar að úlfarnir hafa étið upp kindurnar svo enginn er til að bíta grasið og úlfarnir einir eftir sveltandi, í grasi upp að öxlum.
Stundum hefur þetta verið svipað í Mývatni. Byrjum með hreint borð:
1. Vatnið er tært að vori, mikið af krabbaflóm í vatninu, mikið mý, nóg fæða fyrir silung sem þrífst vel, engin hornsíli.
2. 1-2 árum síðar, hornsílum fjölgar, krabbaflóm fækkar og vatnið fer að gruggast, dregur úr vexti silunga.
3. Vatnið grænt, fullt af hornsílum, krabbinn horfinn, silungur horaður. Allt fiskafóður upp étið og það endar með því að hornsílin yfirgefa vatnið. Ég hef séð þau synda úr vatninu niður Laxá í milljónatali.
4. Aftur á byrjunarreit, hornsílin farin, krabbaflær komnar aftur og vatnið tært. Þessi hringrás endurtekur sig á 5-7 árum.
Sé rétt að hornsílin séu nú horfin úr Mývatni (stofninn hruninn eins og sagt er) þá er vatnið að færast yfir á stig 4 hér að ofan og verða tært næsta sumar. Sjáum hvað setur.
Kúluskítur og annar botngróður er horfinn vegna þess að bláþörungasúpan kemur í veg fyrir að ljósið nái niður á botninn. Vandamálið er því bláþörungurinn, hvað veldur því að hann blossar svona upp? Þekkt er að það hafa skipst á tímabil með u.þ.b. 7 ára millibili, þar sem vatnið skiptist á að vera tært og gruggugt af þörungum. Alltaf er samt sama innstreymi af næringarefnum. Hvernig má vera að stundum valdi þau þörungablóma og stundum ekki? Það hljóta að vera aðrir líf- og vistfræðilegir þættir sem þarna eru að verki. Samt er það eina sem mönnum dettur í hug núna er að ráðast í að lagfæra klóak, sem aðeins stendur fyrir um 1% af innstreymi næringarefna ef marka má nýútkomna rannsóknaskýrslu. Ráðherrann vitnar í skýrsluna og telur að ástand vatnsins sé ekki af manna völdum. Samt á að ráðast í dýrar framkvæmdir því "það er það eina sem við getum gert. Hvernig væri nú að skyggnast í hugmyndir og tillögur sem stungið hefur verið undir stólinn?
Ég stundaði rannsóknir í Laxá og Mývatni samfellt frá 1974 til 1986, var í sérfræðinganefnd um Mývatnsrannsóknir í mörg ár og var í stýrihópi um rannsóknir erlendu sérfræðinganna 1998 og 1999. Ég hef sett upp síðu um Mývatnsmál hér. Þar eru slóðir, m.a. á skýrslu erlendu sérfræðinganna.
![]() |
Mývatn að hruni komið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 13.2.2019 kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
28.1.2016 | 19:03
Er fiskurinn í sjónum að ganga til þurrðar vegna ofveiði?
Þann 19. janúar s.l. birtist grein í The Guardian þar sem því var haldið fram að vegna ofveiði væri fiskafli heimsins að minnka þrisvar sinnum hraðar en áður hefði verið talið. Því til staðfestingar var vitnað í nýbirta rannsókn í Nature Communication.
Höfundar eru Daniel Pauly og Dirc Zeller og rannsóknin var styrkt af Pew Charitable Trust sem styrkir ýmis samtök sem beita sér gegn fiskveiðum, m.a. Greenpeace og WWF. Pauli er löngu dottinn úr stól sínum sem trúverðugur fiskifræðingur vegna fjárhagslegra tengsla sinna við PEW. Tilkynningar um svona greinar gegn fiskveiðum eru gjarnan sendar á flesta fjölmiðla, sem birta "vísindin" gagnrýnislaust.
Morgunblaðið var einn þeirra sem gleypti beituna hráa, birti hálfsíðu frétt 21. janúar s.l. á bls 46 þar sem sagði í undirfyrirsögn:".. afli minnkar hraðar en opinberar tölur segja til um. Bendir til að ástand fiskstofna sé verra en áður var talið".
Í stuttu máli gekk rannsókn Pauly og félaga út á að sýna fram á að tölur FAO um heimsafla væru of lágar, aflinn væri miklu meiri en þar kæmi fram. Þá hefði hann fallið hraðar en fram kæmi hjá FAO. Þetta gerðu þeir með því að bæta við afla úr stöðuvötnum, frumbyggja- og sportveiðum, ólöglegum veiðum og brottkasti. Í þessu skyni notuðu þeir m.a. innkaupanótur frá hótelum og tölur um fiskneyslu í ýmsum löndum. Tölur þær sem FAO vinnur með eru að heimsaflinn 1996 hafi verið 86 milljónir tonna en hafi síðan þá minnkað í 80 milljónir tonna. Skýrsluhöfundar finna það síðan út með ofangreindum pælingum að aflinn hafi verið rúmum 40 milljón tonnum meiri og minnkað hraðar en FAO hefur gert ráð fyrir. Höfundarnir hafa miklar áhyggjur af því að heimsaflinn sé meiri en áður hafði verið talið.
Erfitt að skilja hvers vegna það ættu að vera slæmar fréttir. Aðalatriðið er að heimsaflinn hefur haldist svipaður sl. 30 ár eins og sjá má af meðfylgjandi mynd, en þar má sjá tölur frá FAO , neðri línan, og nýju áætlunina, efri línan.
Ástæða þess að hann hefur minnkað eilítið undanfarið, ef það má þá kalla þetta minnkun, telja höfundar að megi rekja til ofveiði. Það er nokkuð frjálsleg túlkun í ljósi þess að sífellt er verið að þrengja að fiskimönnum og fiskveiðum. Vegna áróðurs um meinta ofveiði hefur sífellt verið að draga úr veiðum á stórum hafsvæðum. Má þar m.a. nefna alla lögsögu ESB þar sem heilu flotarnir hafa verið þurrkaðir út "til að koma í veg fyrir ofveiði". Þó Íslandsmið séu full af þorski er veiðiálagið haft lágt, í "varúðarskyni", og er þar komin skýringin á að þorskaflinn er nú einungis tæpur helmingur af því sem hann var áratugum saman í frjálsri sókn.
Pew er skuggasjóður sem hefur styrkt prívatsamtök, stofnað og kostað rannsóknastofnanir sem vinna gegn fiskveiðum. Stöðugt er talað um ofveiði og leitina að síðasta þorskinum. Gefnar eru út skýrslur þar sem talað er um verndun hafsins, sjálfbærni, vistvænar veiðar og nauðsyn þess að sporna við ofveiði. Pew hefur sett á stofn rannsóknastofnanir austan hafs og vestan, en yfirleitt halda þeir sig í bakgrunninum sjálfir. Einnig hafa þeir tök á mörgum fjölmiðlum í gegn um fjárstuðning, Le Monde og The Guardian t.d. Hér er ágætis úttekt á PEW skrifuð af Menakhem Ben-Yami, Ísraelsmanni sem vann lengi hjá FAO.
Heimsendaspárnar tengdar fiskveiðum koma með reglulegu millibili. Og alltaf láta fjölmiðlar plata sig, enda er það tilgangur áróðursaflanna. Fjölmiðlar mættu alveg fara að standa sig betur.
Vísindi og fræði | Breytt 29.1.2016 kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)