Færsluflokkur: Vísindi og fræði
27.6.2016 | 16:46
Ákvörðun aflaheimilda: Er verið að grínast?
Í Fréttablaði dagsins mátti lesa eftirfarandi:
Tillögum Hafrannsóknastofnunar um ráðlagðan heildarafla í öllum tegundum er fylgt í þaula eins og undanfarin ár. Þetta er ákvörðun Gunnars Braga Sveinssonar sjávarútvegsráðherra eftir samráð í ríkisstjórn.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að Gunnar Bragi ítrekaði nauðsyn þess að stórauka fjármagn til hafrannsókna, þar sem ráðgjöf er að margra mati viss vonbrigði miðað við væntingar, eins og ráðherra tekur fram. Svara verði lykilspurningum um til dæmis hvers vegna nokkrir árgangar þorsksins eru að léttast, en kvótinn í þorski var aðeins aukinn um 5.000 tonn í 244.000 tonn.
Er eitthvað verið að fíflast í okkur? Til hvers þurfum við sjávarútvegsráðherrra ef hann gerir ekki annað en að áframsenda tillögur Hafró athugasemdalaust?
Og í þokkabót vill hann auka fjárframlög til stofnunarinnar sem hefur einokun á rannsóknum og reyndar túlkun fyrirliggjandi gagna, svo þeir, með frekari rannsóknum, megi svara lykilspurningum um hvers vegna þorskur sé að léttast, horast.
Þeirri spurningu er einfalt að svara og alveg ókeypis: Það vantar mat!
Hvers vegna skyldi það vera? Jú, það hefur verið dregið úr sókn um nærri helming frá því sem hún var í áratugi þegar voru tekinn 400 þús. tonn úr þorskstofninum. Hrygningarstofninn hefir þrefaldast frá árinu 2000 og þó hann hafi sig allan við við að éta upp yngri árganga vantar þá enn fóður. Þetta er heldur ekki gratís því þarna er verið að láta eiga sig að veiða um 200 þús þorsktonn. Árlega er verið er að kasta á glæ öllum aflaverðmætum núverandi þorskafla!
Við þetta er að bæta að í nýjustu skýrslu Hafró hafa töflur um þyngd eftir aldri verið felldar niður og er í skýrslunni vísað í ICES pappír sem ekki finnst á netinu. Nýjasta skýrslan frá þeim er frá í fyrra. Því er ekki hægt að finna hvaða árgangar hafa verið að horast og þá hve mikið.
Erða nú!
Hér er mynd sem sýnir hvernig sóknin í þorskstofninn hefur minnkað, hlutfallið sem tekið er úr stofninum, svarta línan, hefur minnkað um helming. Það þýðir, með sama áframhaldi, að stofnstærðin verður að tvöfaldast ef við eigum að komast í 450 þús. tonn. Það gerist aldrei. Með óbreyttri nýtingarstefnu hjökkum við þarna og reyndar er stór hætta á að stofninn geti "hrunið".
12.6.2016 | 20:02
Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn í afneitun
Nýlega kynnti ég enn einu sinni þá tilgátu að sveiflurnar í lífríki vatnsins tengdust ofmergð fiskjar, hornsíla og stundum bleikju. Fiskurinn raskaði jafnvægi fæðupýramídans með því að ofbeita krabbadýrin, sem nærast á grænþörungum þannig bláþörungarnir gætu tekið yfir og vatnið lægi golgrænt eftir. Skýrði ég þetta einnig í sjónvarpsviðtali á Stöð 2 og á Vísi.is þann 26. maí s.l.
Daginn eftir birtist þetta á fésbókarssíðu Rannsóknarstöðvarinnar en stöðinni er stjórnað af Árni Einarssyni:
"Í Mývatni verða miklar sveiflukenndar breytingar á mýflugustofnum á um 5-7 ára fresti. Þessar sveiflur bergmála um allt vistkerfið og hafa verið mjög til umræðu. Þær eru náttúrulegar í grunninn en virðast hafa magnast um 1970. Þegar lægðir eru komast andarungar ekki á legg og silungur sveltur. Þrjár kenningar eru um drifkraft sveiflnanna. Í fyrst lagi að sveiflur í veðurfari knýi þær, í öðru lagi að fiskar ráði þeim með því að éta upp mýið og í þriðja lagi að mýið sjálft ráði örlögum sínum með því að mýlirfurnar éta upp fæðu sína, kísilþörunga og lífrænar leifar á vatnsbotninum. Við getum nefnt þær veðurtilgátuna, fiskatilgátuna og mýlirfutilgátuna. Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu og enn hefur ekkert komið fram sem styður veður- og fiskatilgáturnar. Hins vegar eru eindregnar vísbendingar um að mýlirfutilgátan sé málið. En það er önnur þróun í gangi. Hér er súlurit sem sýnir tærleika Mývatns (Syðriflóa, meðaltal júlí og ágúst) frá 1973 til 2015 (hvítu súlurnar). Takið eftir að mælikvarði lóðrétta ássins er öfugur. Tíðni "bjartra" ára (með meira en 3ja metra rýni, en þá sést til botns) virðist fara minnkandi. Þetta er langtíma þróun sem líklega tengist breytingum á næringarefnaframboði í Mývatni, köfnunarefni og /eða fosfór. Ekkert bendir sérstaklega til að þessa þróun megi rekja til breytinga á fiskstofnum vatnsins." Sjá nánar hér
Enn er þverneitað þeirri tilgátu að fiskurinn komi nokkuð við sögu. Ekki hef ég séð neinar rannsóknaniðurstöður frá Ramý, sem hafna fiskitilgátunni. Eina sem lagt er á borðið eru "mér finnst" rök.
Í skýrslu erlendu sérfræðinganna sem fengnir voru til leiks varðandi Mývatn um síðustu aldamót voru nefndar tvær tilgátur til að skýra sveiflurnar:
"Rannsóknir í Mývatni hafa ekki verið fólgnar í tilraunum. Þess vegna er einungis unnt að byggja tilgátur um orsakir sveiflna í fæðukeðjunni, miðað við núverandi þekkingu, á fræðilegum grunni, og tilrauna er þörf til að prófa gildi mismunandi þátta sem koma við sögu. Til skýringar á sveiflunum munum við hér á eftir ræða tvær andstæðar tilgátur og það sem annaðhvort styður þær eða veikir miðað við þau gögn sem til eru. Fjallað verður um rannsóknir og tilraunir sem gera þyrfti til að meta á gagnrýninn hátt hugsanlegar orsakir sveiflnanna í verkefni 4 hér á eftir.
Ekki er gert ráð fyrir að önnur tilgátan útiloki hina, enda margt sameiginlegt með þeim, en með því að gera ráð fyrir því er hins vegar unnt að setja fram skýrari spurningar um það en ella hvað stjórni hverju. Einnig munum við, jafnframt því sem við fjöllum um tilgáturnar tvær, benda á helstu og alvarlegustu eyðurnar í þá þekkingu sem nú er fyrir hendi.
Fyrri tilgátan byggist á þeirri hugmynd að stofnsveiflur í Tanytarsus stjórnist af gagnkvæmu sambandi dýranna og því sem þau hafa úr að moða og að útkoman úr því samspili hafi áhrif á aðra þætti fæðukeðjunnar.
Seinni tilgátan byggist á þeirri hugmynd að sveiflurnar séu tengdar stofnsveiflum efst í fæðukeðjunni (hjá bleikju og hornsílum), sem aftur hafi áhrif á aðra þætti neðar í fæðukeðjunni."
Í framhaldinu er lagt til að rannsóknum verði beint sérstaklega að þessum þáttum. Þó bent sé á "helstu og alvarlegustu eyðurnar í þá þekkingu sem nú er fyrir hendi" er mér ekki kunnugt um neitt sérstakt átak, utan þess að skrá hornsílaafla úr stöðluðum veiðigildrum. Þá hefur Veiðimálastofnun ekki breytt neinu í sínum áherslum við vöktun á silungi, og ekki er mér kunnugt um að sá sem þar stjórnar hafi neinn skilning á fiskatilgátunni.
Mér finnst það alvarlegur hlutur þegar stofnanir sem kenna sig við vísindi, Ramý, Líffræðistofnun HÍ og Veiðimálastofnun, neita að taka tillit til allra sjónarmiða og tilgáta sem fram koma og gefa þeim jafnt vægi í rannsóknaráherslum og hafna ákveðnum kenningum án fullnægjandi rannsókna og neita að ræða þær.
Nú fundar nefnd umhverfisráðherra um vandamál Mývatns og á að skila aðgerðaráætlun á þjóðhátíðardaginn. - Sjáum hvað þeim leggst til.
Árið 1988 var ástandið slæmt í Mývatni. Vatnið var fullt af hornsílum allt að 10 cm löngum. Mikill þörungablómi og vatnið grænt.
Bleikjan var mjög horuð og þessar að dauða komnar. Svona fiskar hafa ekki afl til að festast í netum og koma því ekki fram sem skyldi í rannsóknaveiðum. Þessar voru veiddar í nót.
Skömmu eftir þetta yfirgáfu hornsílin Mývatn í stórum torfum.
Vísindi og fræði | Breytt 18.7.2022 kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.5.2016 | 13:29
Hvað er til ráða í Mývatni? Setja út regnbogasilung
Umræðan um Mývatn er einsleit, og einskorðast við að skolpmengun og áburðarnotkun eigi sök á því að vatnið hafi verið golgrænt af þörungum undanfarin ár. Þó nýjar rannsóknir sýni að einungis 1-2% af innstreymi næringarefna komi frá athöfnum mannsins, skal eyða miklum fjármunum í að endurnýja fráveitukerfi og minnka áburðarnotkun. Engar tilraunir eru gerðar til að skýra orsakasamhengi þess sem hefur verið að gerast í vatninu undanfarna áratugi og jafnvel enn lengur.
Í Fréttablaðinu á laugardaginn (21/5) var mikil grein um Mývatn. Þar sagði m.a:
"Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn (RAMÝ), hefur sagt að leirlosið sé ein stærsta óleysta gátan í Mývatni." og einnig:
"Í raun er því aðeins um eitt að ræða til að stemma stigu við þessari þróun, og það er að tryggja að sem allra minnst af næringarefnum frá mannabyggð (köfnunarefni og fosfór) berist í grunnvatnið og þannig í Mývatn."
Þá var í Fréttablaðinu í gær (23/5) grein eftir Guðmund Andra Thorsson, sem hefur þessa einföldu lausn: "Það þarf að skrúfa fyrir flæði næringarefna í vatnið undireins bæði frá byggð og atvinnurekstri. Það er lágmark og þegar búið er að gera það má fara að velta fyrir sér ástæðunum."
Þó ástæðurnar fyrir þörungablómanum séu óþekktar þarf samt að gera eitthvað strax, þó svo menn séu ekki vissir um að það lagi ástandið eða skilji hvað veldur. Þörungablómi verður í Mývatni með reglulegu millibili, vatnið verður grænt, því fylgir mýleysi og fuglar og fiskar svelta. Á milli virðist allt vera í lagi, vatnið tært, næg áta fyrir fugl og fisk og allt í blóma. Minna má á að alltaf rennur jafn mikið af áburðarefnum í vatnið svo varla er lausnar á vandamálinu að leita þar, það er eitthvað annað sem veldur þessu.
Þörungablómi hefur verið þekktur í vötnum um allan heim og tengist hann oft aukinni ákomu næringarefna af manna völdum. Reynt var að lækna vandann með því að útiloka allt aðstreymi skolps en yfirleitt dugði það ekki til. Líklega vegna þess að vötnin eru orðin mettuð af næringarefnum í botnseti og það fer svo aftur í umferð t.d. vegna uppgruggunar, rotnunar eða áhrifa frá dýrasamfélögum. Rannsóknir og tilraunir sýndu að ofmergð smáfisks átti mestan þátt í að viðhalda þörungablómanum. Með því að fækka fiski tókst að lækna mörg vötn af þörungaplágunni.
Ég skrifaði um þetta 1986 í kjölfar mikillar þörungaplágu, og setti fram tillögur til úrbóta. Þær fólu í sér að sporna við offjölgun bleikju og hornsíla.
Í fyrra kom út sænsk skýrsla um árangur þess að fjarlægja fisk úr 123 vötnum. Í samantekt segir:
Our results indicate that removal of planktivorous and benthivorous fish is a useful means of improving water quality in eutrophic lakes. Biomanipulation tends to be particularly successful in relatively small lakes with short retention times and high phosphorus levels. More thorough fish removal increases the efficacy of biomanipulation. Nonetheless successes and failures have occurred across a wide range of conditions.
Þó Rannsakendum Mývatns hafi verið marg bent á þetta láta sem þeir viti þetta ekki og hafa þar af leiðandi ekki bent á aðrar lausnir en að laga klóak. Er hlaupin einhver pólitík í vísindin líkt og gerðist á tíma Kísiliðjunnar?
Hvað er hægt að gera?
Erlendis, við sams konar aðstæður, hefur verið brugðist við með því að fækka fiski. Annað hvort með veiðum eða að settur er út ránfiskur til þess að halda smáfiskinum í skefjum. Í Mývatni eru hornsílin vandamálið, en þau virðast þau nú að mestu horfin úr vatninu. Sé það rétt lagast ástandið næsta sumar, vatnið verður tærara og áta fer vaxandi. Það er góð staða til að grípa til aðgerða.
Þar sem útilokað er að halda hornsílunum niðri með veiðum í Mývatni er aðeins ein leið fær. Hún er a nota ránfisk til að halda aftur af sílunum. Urriði étur hornsíli en bleikja ekki fyrr en hún er orðin stór, 37 cm eða stærri. Reynt var að setja út urriðaseiði fyrir um 25 árum með litlum árangri, enda voru seiðin fá og smá og tilraunin stóð mjög stutt.
Regnbogasilungur er mjög öflug hornsílaæta og hefur víða verið notaður. Hann hefur þann kost að geta ekki tímgast við náttúrulegar aðstæður hér á landi og reyndar hvergi í Evrópu þrátt fyrir að vera mikið notaður í fiskeldi. Þess vegna væri tilraun sem fæli í sér sleppingu á regnbogasilungi afturkræf. Kæmi eitthvað óæskilegt í ljós væri hægt að bakka út úr tilrauninni.
Ég tel að rétt væri að gera þá tilraun að sleppa regnbogasilungi í vatnið til að halda aftur af fjölgun hornsíla. Sleppa þyrfti um 100 þúsund fiskum um 10 cm löngum. Þetta tilsvarar 30 fiskum /ha. Kaupverð er sennilega um 20 milljónir, en á móti kæmi nokkurra tuga tonna afli. Fylgst yrði náið með framvindunni og nýjar ákvarðanir teknar í framhaldinu.
Ég hef reyndar stungið upp á þessu áður svo mér er full ljóst að margir munu hoppa hæð sína yfir svona tillögu. Setja framandi fisk í vatnið! En þá verða þeir að sitja uppi með það að eftir örfá þokkaleg ár fer allt í sama farið og umræðan fer aftur í sömu blindgötuna.
Ég stundaði rannsóknir í Laxá og Mývatni samfellt frá 1974 til 1986, var í sérfræðinganefnd um Mývatnsrannsóknir í mörg ár og var í stýrihópi um rannsóknir erlendu sérfræðinganna 1998 og 1999. Ég hef sett upp síðu um Mývatn þar sem ítarlega er fjallað um þessi mál.
Skýringarmynd. Ástand vatns fyrir (efri hlutinn) og eftir vistfræðistjórnun (biomanipulation)
Fyrir stjórnun; Mikið af þörungum, lítið af dýrasvifi, sem étur þörunga og mikið af fiskum sem éta dýrasvif. Gruggugt grænt vatn
Eftir meðhöndlun; Hóflegt þörungamagn, mikið af dýrasvif, fáir fiskar sem éta dýrasvif. Tært vatn.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.5.2016 | 20:11
Vandamál Mývatns, hvernig væri að gá undir stólinn?
Fyrirsögnin höfðar til þess að á umliðnum árum virðist sem mörgum tillögum að skýringum á þörungaplágunni í Mývatni hafi verið stungið undir stól.
Mikil þörungaplága ríkir í vatninu, kúluskíturinn horfinn, botninn eins og eyðimörk og hornsílin horfin, er niðursoðin lýsing á ástandinu. Ekki eru menn vissir um hvað valdi en bent er á aukin umsvif mannsins og aukna ákomu næringarefna af þeim sökum. Sem dæmi um hugmyndafátæktina hafa menn miklar áhyggjur af því að hornsílin séu horfin, en eins og síðar verður bent á leika þau afar mikið hlutverk í vatninu og gætu jafnvel verið höfundar og stjórnendur atburðarrásarinnar.
Sveiflur hafa verið í lífríki Mývatns í marga áratugi og deilt hefur verið um orsakirnar. Löngum var Kísiliðjunni kennt um svo og mengun af mannavöldum. Nú er Kísiliðjan löngu farin og á er þá kennt um gömlum áhrifum svo og mengun af manna völdum þó nýútkomin skýrsla sýni að hún sé ekki nema um 1% af heildar ákomunni. Öðrum tilgátum sem skýra mættu sveiflurnar hafa verið hafnað af rannsóknaraðilum, RAMÝ og líffræðistofnun HÍ.
Árið 1998, í tengslum við endurnýjun námaleyfis Kísiliðjunnar, fékk ríkisstjórnin þrjá viðurkennda óháða erlenda vísindamenn til að fara yfir tiltæk rannsóknargögn og ræða við þá sem tengdust rannsóknum svo og heimamenn. Skýrslu var skilað í ársbyrjun 2000. Í henni kom m.a. fram að hvorki væri hægt að kenna Kísiliðjunni né mengun af mannavöldum um sveiflurnar í lífríkinu á neinn afgerandi hátt. Skýringa yrði að leita annars staðar. Niðurstaðan var túlkuð á mismunandi hátt og voru sumir afar óánægðir.
Þremenningarnir settu fram fleiri kenningar og lögðu fram tillögur að rannsóknaráætlunum sem myndu svara ýmsum spurningum og leiða til meiri skilnings á eðli sveiflanna. Ekki hef ég orðið var við að farið hafi verið eftir tillögunum og skýrslan virðist nú grafin og gleymd.
Ein möguleg skýring er sú að magn bláþörunga stjórnist af samspili fiska, krabbadýra og þörunga. Það má hugsa sér lausnina á gátunni um úlfinn, lambið og heypokann, sem ferja skal yfir ána, eitt stykki í einu. Hún byggir á því að lambið myndi éta heyið, úlfurinn gæti étið lambið en ekki heypokann. Hugsum okkur gróinn landskika sem beittur er af kindum. Úlfaflokkur kemur á svæðið, étur féð, þrífst vel og fjölgar sér. Kemur þar að úlfarnir hafa étið upp kindurnar svo enginn er til að bíta grasið og úlfarnir einir eftir sveltandi, í grasi upp að öxlum.
Stundum hefur þetta verið svipað í Mývatni. Byrjum með hreint borð:
1. Vatnið er tært að vori, mikið af krabbaflóm í vatninu, mikið mý, nóg fæða fyrir silung sem þrífst vel, engin hornsíli.
2. 1-2 árum síðar, hornsílum fjölgar, krabbaflóm fækkar og vatnið fer að gruggast, dregur úr vexti silunga.
3. Vatnið grænt, fullt af hornsílum, krabbinn horfinn, silungur horaður. Allt fiskafóður upp étið og það endar með því að hornsílin yfirgefa vatnið. Ég hef séð þau synda úr vatninu niður Laxá í milljónatali.
4. Aftur á byrjunarreit, hornsílin farin, krabbaflær komnar aftur og vatnið tært. Þessi hringrás endurtekur sig á 5-7 árum.
Sé rétt að hornsílin séu nú horfin úr Mývatni (stofninn hruninn eins og sagt er) þá er vatnið að færast yfir á stig 4 hér að ofan og verða tært næsta sumar. Sjáum hvað setur.
Kúluskítur og annar botngróður er horfinn vegna þess að bláþörungasúpan kemur í veg fyrir að ljósið nái niður á botninn. Vandamálið er því bláþörungurinn, hvað veldur því að hann blossar svona upp? Þekkt er að það hafa skipst á tímabil með u.þ.b. 7 ára millibili, þar sem vatnið skiptist á að vera tært og gruggugt af þörungum. Alltaf er samt sama innstreymi af næringarefnum. Hvernig má vera að stundum valdi þau þörungablóma og stundum ekki? Það hljóta að vera aðrir líf- og vistfræðilegir þættir sem þarna eru að verki. Samt er það eina sem mönnum dettur í hug núna er að ráðast í að lagfæra klóak, sem aðeins stendur fyrir um 1% af innstreymi næringarefna ef marka má nýútkomna rannsóknaskýrslu. Ráðherrann vitnar í skýrsluna og telur að ástand vatnsins sé ekki af manna völdum. Samt á að ráðast í dýrar framkvæmdir því "það er það eina sem við getum gert. Hvernig væri nú að skyggnast í hugmyndir og tillögur sem stungið hefur verið undir stólinn?
Ég stundaði rannsóknir í Laxá og Mývatni samfellt frá 1974 til 1986, var í sérfræðinganefnd um Mývatnsrannsóknir í mörg ár og var í stýrihópi um rannsóknir erlendu sérfræðinganna 1998 og 1999. Ég hef sett upp síðu um Mývatnsmál hér. Þar eru slóðir, m.a. á skýrslu erlendu sérfræðinganna.
![]() |
Mývatn að hruni komið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 13.2.2019 kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
28.1.2016 | 19:03
Er fiskurinn í sjónum að ganga til þurrðar vegna ofveiði?
Þann 19. janúar s.l. birtist grein í The Guardian þar sem því var haldið fram að vegna ofveiði væri fiskafli heimsins að minnka þrisvar sinnum hraðar en áður hefði verið talið. Því til staðfestingar var vitnað í nýbirta rannsókn í Nature Communication.
Höfundar eru Daniel Pauly og Dirc Zeller og rannsóknin var styrkt af Pew Charitable Trust sem styrkir ýmis samtök sem beita sér gegn fiskveiðum, m.a. Greenpeace og WWF. Pauli er löngu dottinn úr stól sínum sem trúverðugur fiskifræðingur vegna fjárhagslegra tengsla sinna við PEW. Tilkynningar um svona greinar gegn fiskveiðum eru gjarnan sendar á flesta fjölmiðla, sem birta "vísindin" gagnrýnislaust.
Morgunblaðið var einn þeirra sem gleypti beituna hráa, birti hálfsíðu frétt 21. janúar s.l. á bls 46 þar sem sagði í undirfyrirsögn:".. afli minnkar hraðar en opinberar tölur segja til um. Bendir til að ástand fiskstofna sé verra en áður var talið".
Í stuttu máli gekk rannsókn Pauly og félaga út á að sýna fram á að tölur FAO um heimsafla væru of lágar, aflinn væri miklu meiri en þar kæmi fram. Þá hefði hann fallið hraðar en fram kæmi hjá FAO. Þetta gerðu þeir með því að bæta við afla úr stöðuvötnum, frumbyggja- og sportveiðum, ólöglegum veiðum og brottkasti. Í þessu skyni notuðu þeir m.a. innkaupanótur frá hótelum og tölur um fiskneyslu í ýmsum löndum. Tölur þær sem FAO vinnur með eru að heimsaflinn 1996 hafi verið 86 milljónir tonna en hafi síðan þá minnkað í 80 milljónir tonna. Skýrsluhöfundar finna það síðan út með ofangreindum pælingum að aflinn hafi verið rúmum 40 milljón tonnum meiri og minnkað hraðar en FAO hefur gert ráð fyrir. Höfundarnir hafa miklar áhyggjur af því að heimsaflinn sé meiri en áður hafði verið talið.
Erfitt að skilja hvers vegna það ættu að vera slæmar fréttir. Aðalatriðið er að heimsaflinn hefur haldist svipaður sl. 30 ár eins og sjá má af meðfylgjandi mynd, en þar má sjá tölur frá FAO , neðri línan, og nýju áætlunina, efri línan.
Ástæða þess að hann hefur minnkað eilítið undanfarið, ef það má þá kalla þetta minnkun, telja höfundar að megi rekja til ofveiði. Það er nokkuð frjálsleg túlkun í ljósi þess að sífellt er verið að þrengja að fiskimönnum og fiskveiðum. Vegna áróðurs um meinta ofveiði hefur sífellt verið að draga úr veiðum á stórum hafsvæðum. Má þar m.a. nefna alla lögsögu ESB þar sem heilu flotarnir hafa verið þurrkaðir út "til að koma í veg fyrir ofveiði". Þó Íslandsmið séu full af þorski er veiðiálagið haft lágt, í "varúðarskyni", og er þar komin skýringin á að þorskaflinn er nú einungis tæpur helmingur af því sem hann var áratugum saman í frjálsri sókn.
Pew er skuggasjóður sem hefur styrkt prívatsamtök, stofnað og kostað rannsóknastofnanir sem vinna gegn fiskveiðum. Stöðugt er talað um ofveiði og leitina að síðasta þorskinum. Gefnar eru út skýrslur þar sem talað er um verndun hafsins, sjálfbærni, vistvænar veiðar og nauðsyn þess að sporna við ofveiði. Pew hefur sett á stofn rannsóknastofnanir austan hafs og vestan, en yfirleitt halda þeir sig í bakgrunninum sjálfir. Einnig hafa þeir tök á mörgum fjölmiðlum í gegn um fjárstuðning, Le Monde og The Guardian t.d. Hér er ágætis úttekt á PEW skrifuð af Menakhem Ben-Yami, Ísraelsmanni sem vann lengi hjá FAO.
Heimsendaspárnar tengdar fiskveiðum koma með reglulegu millibili. Og alltaf láta fjölmiðlar plata sig, enda er það tilgangur áróðursaflanna. Fjölmiðlar mættu alveg fara að standa sig betur.
Vísindi og fræði | Breytt 29.1.2016 kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.9.2015 | 19:04
Veiða og sleppa fiski - ótrúleg græðgisþróun
Þá er liðið enn eitt tímabil með veiða-sleppa. Veiðin var með eindæmum í sumar og hafa opinberir vísindamenn enga skýringu á því hvers vegna veiðin sveiflast svona milli ára, hörmungarveiði í fyrra og metveiði núna. Látum það liggja milli hluta.
En nú er ný staða miðað við það sem áður var: Menn sleppa nær öllum fiski í dýrustu ánum. Þetta skekkir alla tölfræði, enginn veit hve margir veiddust aftur og aftur og sumir veiðimenn bóka fisk sem var á í fimm sekúndur sem veiddan - og slepptan. Þá er mikil freisting fyrir veiðimenn til þess að búa til fiska til að standast samanburð við aðra í hollinu. Þá hefur oft verið ýjað að því að veiðilaeyfasalar prenti fisk. Allt er þetta auðvelt ef menn þurfa ekki að sýna aflann.
Þetta byrjaði allt í Grímsá fyrir nokkrum áratugum þegar amerískum veiðimönnum var uppálagt að sleppa öllum hrygnum í þeim tilgangi að auka seiðaframleðslu árinnar. Í sárabætur fengu þeir heim með sér reyktan lax. Þótti þeim mikið til um þessa rækrun. En þeim var ekki sagt að reykti laxinn hefði verið veiddur í net neðar í vatnakerfinu. Nú fá menn engan reyktan lax lengur í stað þeirra sem sleppt er, fara heim með öngulinn í rassinum eins og sagt var hér áður fyrr.
Stóra stökkið kom svo 1998 þegar veiðimönnum í Vatndsalsá var bannað að drepa lax. Sagt var að svona að gerð myndi verða ánni til góðs og stuðla að betri og jafnari veiði. Reynslan sýndi annað. Veiðin í Vatnsdalsá hélst svipuð og í nágrannaánum, þrátt fyrir að hluti veiðinnar væri tvítalin.
Að ekki verður meiri ræktunarárangur af þessu skýrist af tvennu: Laxinn gengur aðeins einu sinni í ána, einungis um 5% lifa af hrygninguna til þess að ganga í annað sinn og hrygna. Það er því ekki hægt að safna upp fiski milli ára.
Hrygning í flestum ám er yfirleitt yfirdrifin. Á mínum langa ferli við seiðaveiðar hef ég aldrei orðið var við skort á fyrsta árs seiðum, fjöldi þeirra er oftast langt umfram þarfir. Fjöldi stærri seiða er oft hverfandi og ekki í neinu hlutfalli við fjölda fyrsta árs seiða. Vegna mikillar samkeppni eru fyrsta árs seiðin illa undirbúin undir veturinn og afföll því mikil, auk þess sem þau veita eldri seiðum samkeppni. Aukning hrygningarstofns er því oftast til skaða.
Margir veiðimenn fara ekki til veiða þar sem skylt er að sleppa öllum fiski, þeir fara á mis við þá ánægju að matbúa hann handa sér og sínum, nokkuð sem þeir telja vera endapunktinn á góðri veiðiferð.
Þá þykir mönnum það ekki heyra undir eðlilega veiðmennsku og umgengni við náttúruna að veiða þreyta og landa fiski til þess eins að henda honum aftur í ána.
Þá má minna á að í lögum um dýravernd segir:
"Skylt er að fara vel með öll dýr. Óheimilt er að hrekkja dýr eða meiða. Forðast skal að ofbjóða kröftum þeirra og þoli".
Í lögum um dýraveiðar stendur:
"Ávallt skal staðið að veiðum þannig að það valdi dýrunum sem minnstum sársauka. Skylt er veiðimönnum að gera það sem í þeirra valdi stendur til að aflífa dýr sem þeir hafa veitt áverka".
Berum virðingu fyrir bráðinni og náttúrunni og göngum til veiða með því hugarfari að við séum að veiða okkur til matar og huggulegheita. Fátt er eins skemmtilegt og að halda veislu með sjálfs aflaðs matar.
Vísindi og fræði | Breytt 6.8.2024 kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
9.9.2015 | 18:59
Þöggunin um kvótakerfið
Lengi hefur verið áberandi hve flestir fjölmiðlamenn eru iðnir við að draga taum kvótakerfisins, velja sér viðmælendur og hafna öðrum í þeim tilgangi.
Fyrr í vor hlustaði ég á Sprengisand þar sem Sigurjón Már Egilsson ræddi við tvo þingmenn um sjávarútvegsmál og hafði sér til fulltingis Kolbein Árnason framkvæmdastjóra SFS (LÍÚ). Því að fá Kolbein en ekki einhvern fórnarlamba kerfisins?
SME hefur alla tíð dregið taum kvótakerfisins. Hann tók við ritstjórn sjómannablaðsins Víkings, eftir að Sigurjóni Valdemarssyni ritstjóra og mér sem fiskifræðiskríbent var bolað út árið 1993. Þetta var að sögn gert í nafni hagræðingar. Við höfðum verið með mjög sterka gagnrýni á Hafró og kvótakerfið í um 4 ár og faðir Halldórs Ásgrímssonar og fleiri höfðu sagt um áskriftinni. Á þessum tíma var Guðjón Arnar Kristjánson forseti FFSÍ, sem gaf út Sjómannablaðið Víking.
Skrif okkar ullu miklu fjaðrafoki í herbúðum Hafró en þeir biðu samt alltaf spenntir eftir blaðinu: Á bókasafninu þar var miði sem sagði að bannað væri að fara með "Víkinginn" út af safninu en mönnum bent á að ljósrita. Eftir að SME tók við ritstjórn "Víkingsins" urðu sjómannabrandarar og annað léttmeti ráðandi. Þöggunin byrja snemma og stendur enn.
Hér er ein af síðustu greinunum sem við Sigurjón skrifuðum saman í Víkinginn árið 1992, ekki skafið af því, en greinin gæti hafa verið skrifuð í gær.
Nú, aldarfjórðungi síðar, hjakka Hafró og stjórnvöld í sama farinu og aflinn er enn lítill eftir margar dýfur. Þorskaflinn 1992 var 270 þús. tonn, en stefnir í að vera 240 þús. tonn á þessu ári. Á ekkert að fara að læra af reynslunni?
2.1.2015 | 20:22
Ýsuseiðin eru sýnd veiði en ekki gefin
Hafró flaggaði því að loknu haustralli að ýsuárgangur ársins væri mjög stór. Þetta var aðalfréttin, svona til að auka bjartsýni landsmanna. En - þetta eru fingurlöng ýsuseiði, nýbúin að taka sér bólfestu á botni. Þeirra bíður hættulegt líf í umhverfi þar sem þeir smærri eru étnir af þeim stóru. Heil fjögur ár eru í að þessi árgangur komi að ráði fram í veiði, ef hann kemst í gegn um hremmingarnar.
Þetta er einkennileg ánægja Hafró, segja við þjóðina að von sé á aukinni ýsugegnd eftir fjögur ár, á sama tíma og sjómenn, sem eyða stórum hluta æfi sinnar á hafinu, segja sjóinn fullan af fiski og að ýsa sé til sérstakra vandræða vegna þess að ekki sé til kvóti fyrir henni. Dásamlega kvótakerfið enn á ferðinni.
Í Fréttablaðinu 18. desember 2014 sagði að stór ýsuárgangur kæmi á óvart og að haldbærar skýringar á því af hverju stór ýsuárgangur mældist í haustralli Hafrannsóknastofnunar lægju ekki á lausu. Eina sem sé í hendi er eðli ýsustofnsins hér og annarra í Norður-Atlantshafi. Áfram segir:
"Eins og greint hefur verið frá bendir fyrsta mæling á 2014-árgangi ýsu til að nú sé sex ára hrinu af mjög lélegum árgöngum lokið. Mældist 2014-árgangurinn sá næststærsti síðan haustrall hófst árið 1996 og einungis stóri árgangurinn frá 2003 mældist stærri í fyrstu mælingu árgangsins á sínum tíma. Vísbendingar eru því um að 2014-árgangur ýsu geti orðið stór eftir langvarandi lélega nýliðun".
"Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar segja í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins að eðli allra ýsustofna, sem reyndar finnast bara í Norður-Atlantshafi, sé að viðkoma þeirra er ætíð háð miklum sveiflum og orsökin fyrir því er óljós; umhverfisþættir allra þessara ýsustofna eru eðli málsins samkvæmt næsta ólíkir og þá er einnig ljóst að stærð hrygningarstofns hefur lítið með þessar sveiflur að gera. Þannig kom stóri árgangurinn frá 2003 upp af hrygningarstofni sem var í meðallagi stór eða jafnvel minni en það eftir því hversu meðaltal er tekið af mörgum árum".
Ja hérna. Nú er viðurkennt að menn viti ekkert um, þrátt fyrir allar rannsóknir, hvers vegna ýsan allt í einu tekur við sér, en sagt er að "stærð hrygningarstofns hafi lítið með þessar sveiflur að gera". Þetta eru nokkur tíðindi, Hafró er búin um langt árabil að predika stækkun hrygningarstofna svo þeir gefi meira af sér. Sérstaklega á þetta við um þorskinn; búið er að vernda og vernda, setja hrygningarstopp til að hann fái að "gera það í friði", en menn eru enn að bíða eftir Godot; lélegir þorskárgangar koma ár eftir ár þrátt fyrir stærsta hrygningarstofn allra tíma! En stærð hrygningarstofns ýsunnar skiptir ekki máli, segja þeir en hafa ekki hugmynd um hvers vegna klakið heppnast. Voru menn kannski í rauðu peysunni með fiskihúfuna á höfðinu?
Fleira var áhugavert í fréttum af þessu haustralli, eins og segir í tilkynningu Hafró:
"Meira fékkst af flestum tegundum í stofnmælingu að hausti árið 2014 en undanfarin ár og eru vísitölur sumra tegunda þær hæstu frá upphafi haustrallsins árið 1996. Vísitala þorsks er sú hæsta síðan mælingar hófust árið 1996".
Getur verið að aðrir þættir spili inn? Til rannsóknirnar voru leigðir togararnir Jón Vídalín VE og Ljósafell SU en undanfarin ár hafa rannsóknaskip Hafró séð um rallið. Meira veiddist af öllum tegundum í rallinu segir í fréttatilkynningunni.
Þá má spyrja hvort það sé að þakka "nýju" skipunum ? Ætli að sjómenn viti ekki að veiðiskip, áhafnir og veiðiaðferðir skipti máli. Jafnvel þó sé reynt að hafa allt eins frá ári til árs.
13.12.2014 | 20:31
Enn láta menn plata sig: Samherji kaupir 22% í norsku sjávarútvegsfyrirtæki
Skv. "Fiskifréttum" kaupir Samherji 22% í norsku sjávarútvegsfyrirtæki, en dótturfyrirtæki Samherja, Cuxhavener Rederei og Icefresh, munu kaupa 22% hlut í norska sjávarútvegsfyrirtækinu Nergård. Ætlunin er að fyrirtækin vinni náið saman í framleiðslu og sölu á ferskum, frystum og þurrkuðum afurðum, að því fram kemur í fréttatilkynningu frá Nergård.
Kaupin eru hluti af viðleitni beggja fyrirtækjanna til þess að auka áherslu á ferskar afurðir, segir Tommy Torvanger forstjóri Nergård í samtali við sjávarútvegsvefinn Undercurrentnews.com, en hann vildi ekki upplýsa um kaupverðið.
Fyrirtækið, sem er með aðalskrifstofu í Tromsö í Norður-Noregi, gerir út fimm togara og starfrækir fiskvinnsluhús og sölufyrirtæki. Hjá því starfa 440 manns. Velta Nergaard hefur verið nálægt 35 milljörðum króna á ári og hafa vinnslur félagsins á undanförnum árum tekið á móti nálægt 50.000 tonnum af bolfiski og um 100.000 tonnum af uppsjávarfiski.
Vegna þessara kaupa er fróðlegt að rifja upp hvernig Samherji komst yfir allan úthafskvóta Breta.
"Guggan verður alltaf gul". Þetta sögðu Samherjamenn þegar þeir "keyptu" Gugguna frá Ísafirði þegar útgerðin var í fjárhagskröggum. Áður en hægt var að snýta sér var það brotið og Guggan hvarf til Þýskalands, DFFU hét fyrirtækið þar. En þeir hafa víðar leikið sama leikinn. Fróðlegt er að skoða hvernig þeir hafa náð öllum úthafsveiðikvóta Breta í Barentshafi með uppkaupum skipa hjá fyrirtækjum í kröggum. Lítum á þessa úttekt sem ég aflaði mér með viðtölum í Skotlandi og af heimasíðu Samherja:
Samherji í Evrópu
Samherji keypti Onward Fishing Co í Aberdeen. Því fyrirtæki gekk vel með sína togara, Dorothhy Gray, Glenrose I og Challanger. Eigandinn, Terry Taylor, var þá uþb. að panta 60 metra langan frystitogara og lagði til að keyptur yrði færeyski togarinn Artic Eagle. Þá hafði norska stjórnin stöðvað fyrirgreiðslu Statoil við Færeyinga og refsað þeim þannig fyrir veiðar þeirra í Smugunni. Togarinn, Artic Eagle, sem keyptur var fyrir lítið, þurfti endurnýjunar og breytinga við fyrir 2 milljónir punda. Hann var endurskírður Glen Eagle. Þetta olli fjárhagserfiðleikum hjá fyrirtækinu.
Páll Sveinsson hjá Icebrit í Grimsby frétti af vandræðum fyrirtækisins og lét Þorstein Má Baldvinsson vita. Samherji keypti fyrirtækið og breytti rekstri Onward Fishing. Togarinn Altjerin var tekinn inn í fyrirtækið og allur kvóti þess í Barentshafi fluttur yfir. Nafni fyrirtækisins var breytt í Artic Highlander. Önnur skip fyrirtækisins voru seld til Noregs til þjónustu við olíuborpalla. Íslenskur skipstjóri var fenginn á Highlander og áhöfnin, 25 manns, var til helminga skosk og íslensk.
Highlander landaði frystum flökum í Aberdeen í 2 ár en var skipt út fyrir Snæfugl sem leigður var frá öðru íslensku útgerðarfyrirtæki og skírður Norma Mary. Þetta var frystitogari, sem veiddi kvóta úr Barentshafi, en áhöfnin var nú að mestu íslensk.
Haraldur Grétarsson stjórnaði fyrirtækinu en fyrrverandi forstjóri gerði lítið annað en að fá bresk yfirvöld til að samþykkja íslensk skjöl og vottorð, og vera milligöngumaður Samherja og stjórnvalda. Hann sá einnig um þýska togara og vinnslustöðvar ásamt Finnboga Baldvinssyni.
ÚA hafði keypt "Boyd Line Management Services Ltd." í Hull haustið 2002. Boyd Line var gamalgróið fyrirtæki, stofnað árið 1936, og hjá því störfuðu 10 starfsmenn í landi og um 60 sjómenn. Velta félagsins var um 950 milljónir króna 2002. Félagið réð yfir um 40% af þorskkvóta Bretlands í Barentshafi, sem var úthlutað af Evrópusambandinu. Aflaheimildir Boyd Line voru við kaupin um 3.900 tonn af þorski, rösk 500 tonn af ýsu auk nokkurra tuga tonna í öðrum tegundum. Boyd Line gerði út tvö sjófrystiskip; Arctic Warrior, skráð í Bretlandi og nýtti kvóta félagsins í Barentshafi, og Arctic Corsair, skráð í Rússlandi og nýtti rússneskar veiðiheimildir. Fyrrnefnda skipið var mannað breskri áhöfn en á Arctic Corsair, sem var gert út í samvinnu við Rússa og undir rússnesku flaggi, voru flestir í áhöfn frá Rússlandi.
Samherji keypti árið 2004 Boyd Line og togara þeirra Arctic Warrior af Brimi, áður ÚA. Hollenska sjávarútvegsfyrirtækið Parlevliet Van der Plas B.V. tók þátt í þessum kaupum að hálfu. Félag þeirra fékk nafnið UK Fisheries Ltd.
Brim fékk rúm 13 milljónir punda fyrir Boyd Line, liðlega 2 milljarða á núvirði. Samherji greiddi með hlutabréfum í Íslandsbanka.
Árið 2006 keypti Samherji J. Marr og þeirra stóru togara, einn frystitogara með heimildir í Barentshafi og þrjá ísfisktogara með aflaheimildir í EU, á Grænlandi og við Ísland.
Þar með var Samherji kominn með allan kvóta Bretlands í Barentshafi í gegn um Onward, Boyd Line og J Marr. Þetta jafngildti um 80% af kvótanum við Ísland.
Samantekt á starfssemi Samherja 1994-2007
1994, keyptu frystitogarann Akrabergi í gegn um Framherja í Færeyjum sem var í þriðjungs eigu Samherja.
1995, keyptu 49.5% af Deutsche Fishfang Union (DFU).
1996, keyptu Onward Fishing með 4 togurum.
1996, stofnuðu Seagold í Hull til að selja eigin afurðir, frosinn fisk. Dótturfélag Seagold er Ice Fresh Seafood, Grimsby.
1997, Altherjerin endurskráður í Aberdeen til að veiða kvóta Onward. Endurskírður Onward Highlander
2000, Snæfugl endurskírður Normay Mary leigður til að koma í stað Altherjerin (Onward Highlander)
2001, keyptu fiskvinnslu Hussman and Manh GMBH í Þýskalandi, forstjóri Finnbogi Baldvinsson.
2001, Baldvin Þorsteinsson seldur til DFU.
2001 leigan á Snæfugli rann út og honum skilað til Íslands. Í stað hans kom Akureyrin, sem skírð var Norma Mary. Þegar skipið var búið að veiða kvóta Breta í Barentshafi var því flaggað til Íslands og sent á rækjuveiðar við Grænland. Skipinu var svo flaggað aftur til Bretlands til að veiða kvótann í Barentshafinu.
2003, keyptu hlut í norska laxeldisfyrirtækinu Fjord Seafood .
2003, keyptu hlut í Berg Frost, Færeyjum.
2004, keyptu Boyd Line með Arctic Warrior, íslenskir yfirmenn.
2006, keyptu J Marr í Hull.
2006, keyptu uppsjávartogarann Serene frá Shetlandseyjum.
2006, fóru inn í pólska útgerð, Atlaantex, með togarann Wiesbaden í gegn um DFFU, sem keypti 51% í félaginu, til að ná sér í ESB kvóta.
2007 keyptu erlenda starfssemi Sjólaskipa hf. og stofnuðu Katla Seafood, sem rekur sjö risatogara og tvö þjónustuskip við Máritaníu og Marokkó.
Samherji ræður nú yfir öllum úthafskvóta Breta, - í boði íslenskra banka.
Vísindi og fræði | Breytt 14.12.2014 kl. 20:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
26.10.2014 | 18:36
Hungurástand á þorski í Eystrasalti

Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)