Sjávarútvegsmál - Er vitlaust gefið?

Aðalfundur Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda – SFÚ verður haldinn n.k. laugardag 12. nóvember á Icelandair Hótel Natura (áður Loftleiðir)

Í tengslum við aðalfundinn verður haldinn opinn fundur um sjávarútvegsmál er ber yfirskriftina „Samkeppni og fiskvinnsla – er vitlaust gefið?“ hefst fundurinn kl 14:30

Titill þessa fundar um sjávarútvegsmál minnti mig á grein sem ég skrifaði 1991(Sjómannablaðið Víkingur no. 8, september 1991) og hófst á tilvitnun í Stein Steinar :

Er vitlaust gefið?

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.
(Og allt með glöðu geði
er gjarna sett að veði).
Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,
því það er nefnilega vitlaust gefið.


Svört skýrsla

Svört skýrsla Hafró hefur enn einu sinni kynt undir umræðuna um fiskveiðistjórnun. Svo virðist sem það hafi komið mönnum að óvörum að enn skyldi lagt til að dregið yrði úr þorskafla. Þetta finnst mér einkennilegt því Hafró hefur alltaf sagt að það séu stöðugt að bætast í stofninn "lélegir árgangar". Það sem er öllu alvarlegra er sú staðreynd að með núverandi nýtingarstefnu mun verða dregið úr leyfilegum afla á hverju ári allt þar til tilviljuninni þóknast að fæða af sér "sterkan" árgang og skila honum inn í veiðina. Ef það verður 1991 árgangurinn, fer hann fyrst að skila einhverjum afla 1995, fjögurra ára gamall. Með sama niðurskurði og verið hefur síðastliðin þrjú ár, um 10% á ári, verður aflinn 1995 kominn niður í 180 þúsund tonn. Fari svo að 91 árgangurinn verði stór, og það er fyrsti batinn sem við getum vænst skv. Hafró, er viðbúið að hann verði friðaður til þess að nota megi hann í uppbyggingu stofnsins. Svo gæti það eins gerst að 91 árgangurinn og þeir sem á eftir koma verði einnig lélegir. Hvað á þá að gera?

AflaþróunÞað sem sagt var í greininni 1991 reyndist 100% rétt, en ég leit yfir þróunina 10 árum seinna, árið 2001: Myndin sýnir þorskaflann 1991-2001.

Þorskveiðin 1995 varð 169 þúsund tonn, reyndar minni en spáð var.

Alla greinina má finna hér

Árið 1998 sagði ég fyrir um það fall sem varð í þorskstofninum 2001 en þá var gömlu "ofmati" kennt um. Aftur fengum við stóran skell 2007 þegar aflamarkið var sett á 130 þús. tonn. Enn erum við að hjakka í sama farinu, 160 þús. tonnum og ýmislegt bendir til þess að þorskstofninn fari að mælast minnkandi.

Þó ég hafi alltaf haft rétt fyrir mér um þróun stofnsins í rúm 20 ár, hefur enginn sjávarútvegsráðherra séð ástæðu til að leita til mín eða viljað þiggja frá mér neinar ábendingar.

Það er sorglegt þegar menn vilja ekki nota alla þekkingu og reynslu til að auka aflann. - Mitt innsæi byggist ekki á tilviljunum, heldur þekkingu og reynslu.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Jón þetta er góð grein hjá þér í Vikingnum. En maður spyr sig aftur og aftur: Hvað veldur því að ekki er hlustað á menn sem hafa verið með aðrar skoðanir á þessum fiskverndunarsjónarmiðum??

kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 10.11.2011 kl. 23:19

2 identicon

Við erum nokkuð margir sem erum þeirrar skoðunar að það eigi alveg að banna togveiðar innan landhelginnar. Reyndar eigi líka að setja ströng takmörk á netaveiðar, þ.e. bæði í tíma og netalengd pr. bát. Ef þetta er gert, þarf engan kvóta og menn geta hætt að rífast um hann. Svo á að skilja alveg milli veiða og vinnslu, það er mikið hagsmunamál sjómanna. Einnig verður að hætta öllum takmörkunum á útflutningi á ferskum fiski. Það tryggir okkur hæsta verð, sem sækjum fiskinn í sjóinn. Það er einfaldlega þannig, að Evrópumarkaðurinn lítur á frystan fisk sem annars flokks vöru. Við breytum þeim fjanda ekki.

Trillukarl (IP-tala skráð) 11.11.2011 kl. 05:59

3 Smámynd: Jón Kristjánsson

Sigmar
Ég veit ekki hvað veldur en það gæti verið að rétttrúnaðarvísindunum finnist sér ógnað.
Rauði þráðurinn í gagnrýni minni er að það þurfi að veiða meira svo ekki verði hungur vegna ofbeitar og að veiða þurfi jafnt stóran sem smán fisk. Sé þetta rétt þarf ekki að vera með allar þessar takmarkanir og þá er bæði kvótakerfið og atvinna vísindamanna í hættu.
Gagnrýni á sértrúarstefnuna í hefðbundinni fiskifræði fer nú vaxandi um allan. Bendi ég þér á nýjar greinar þessa eðlis á vefnum hjá mér, enska hluta Fiskikassans. Nýjustu greinarnar þessa eðlis eru í rauðu kössunum.

Trillukarl
Ef þú hefur fylgst með því sem ég hef skrifað þá tel ég að ofveiði standi fiskstofnum ekki fyrir þrifum, heldur hið gagnstæða. Þess vegna álít ég að ekki þurfi að takmarka veiðar eins og staðan er nú. Vera má að það komi að því síðar að takmarkana sé þörf en nú bera fiskstofnar okkar, og reyndar víðar, öll einkenni vanveiði, þ.e að vöxtur er minni nú en þegar sóknin (og aflinn) var miklu meiri. Togara munum við alltaf þurfa til að nýta djúpslóðina og netaveiðina til að taka vertíðarfiskinn, en sjálfsagt er að setja umferðarreglur svo menn séu ekki að flækjast hver fyrir öðrum.

Jón Kristjánsson, 11.11.2011 kl. 11:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband