Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Barentshafið, haf breytinganna

Miklar stofnsveiflur hafa verið hjá þorski í Barentshafi. Þróun stofnsins hefur alltaf verið á skjön við ráðgjöf og spár. Á níunda áratugnum var gert ráð fyrir mikilli aukningu stofnsins í kjölfar góðrar nýliðunar, en stofninn hrundi úr hor. Undanfarin ár hefur verið veitt langt umfram ráðgjöf, stofninn er samt í góðu standi, sennilega vegna þessara "umframveiða".


BarCodAflNú sem stendur er þorskveiði með eindæmum góð í Barentshafi og stofninn stendur vel. Þrátt fyrir "umframveiðina" hefur stofninn verið að stækka. En sé aflinn skoðaður aftur í tímann sést að hann var mun meiri áður fyrr, meðan sóknin var frjáls. Á sjöunda áratugnum voru 3000 erlend skip að veiðum í Barentshafi auk þeirra norsku. Útlendingarnir fóru svo af miðunum eftir miðjan áttunda áratuginn og 1987 var farið að stjórna veiðum með hámarksafla og síðar kvótum. 

Veiði langt umfram ráðgjöf

Eftir hrunið mikla var farið að leggja til hærri kvóta en vísindamennirnir ráðlögðu, auk þess fór veiðin einnig talsvert fram úr kvótunum. Ekki má heldur gleyma að Rússarnir hafa veitt langt umfram heimildir, jafnvel svo skiptir hundruðum þúsunda tonna á ári. Þá er stór hluti rússneska togaraflotans með klæddar vörpur til að veiða smáþorsk, sem góður markaður er fyrir í Rússlandi. Mest er veitt í troll og þarna er búið að skafa botninn í hundrað ár, sem virðist í góðu lagi. Hér á Íslandi er því haldið fram að togveiðar og jafnvel snurvoð eyðileggi botninn og eigi mikinn þátt í minnkandi þorskstofni.

BarCodAdvMyndin sýnir hvernig aflinn hefur fram úr ráðgjöfinni frá 1991, öll árin nema 1997 en þá virðast vísindamenn hafa verið of bjartsýnir . Samtals er framúrkeyrslan frá 1990 2,6 milljónir tonna eða 30%. Og aflinn vex. 

Þetta verður að túlka sem svo að veiðarnar örvi framleiðsluna í stofninum, stækki hann, sem er þvert á kenningar hinna hefðbundnu vísindamanna hjá ICES. Ekkert er hægt að segja um hvort stofninn stækki áfram eða hvort hann fari að detta aftur. Af fréttum að dæma er mikið af stórum fiski í Barentshafi en ég hef ekki kynnt mér það sérstaklega. Hann gæti farið að verða ellidauður og það gæti valdið mikilli aukningu í nýliðun og þar með ætisþörf. -  Það kemur í ljós.....


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband