Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Spillt meingallað og ranglátt kvótakerfi - bréf til alþingismanna

Við fjórir félagar skrifuðum bréf til allra alþingismanna þar sem við bentum á galla kvótakerfisins og hröktum ýmsar fullyrðingar um ágæti þess og hvernig sú fiskveiðistefna sem Hafró hefur fylgt undanfarin 30 ár hefur brugðist. Bentum við þeim á að um eitt mikilvægasta efnahagsmál þjóðarinnar væri að ræða og báðum þá að kynna sér gaumgæfilega samantekt okkar.

Engin efnisleg svör hafa borist, enda virðast þingmenn vera uppteknir af því að biðja hvern annan að þegja:

 

Til allra alþingismanna:

Innihaldslausar fullyrðingar og ósannindi um kvótakerfið og árangur fiskveiðistjórnunar.

Bakgrunnur kerfisins  er að  Hafrannsóknastofnun hafði lofað í mörg ár að með vísindalegri stjórn veiðanna væri unnt að hámarka afrakstur fiskimiðanna, afli yrði hámark þess sem miðin gæfu af sér og yrði jafn og stöðugur.  Í upphafi, þegar talað var fyrir vísindalegri stjórn veiða,  var því lofað að jafnstöðuafli þorsks yrði 500 þús tonn á ári.

Þegar útlendingar hurfu af miðunum 1976  var svo hægt að hefjast handa við að stjórna veiðunum og fiskifræðingar Hafró lögðu línuna:  Draga úr veiðum á smáfiski svo hann fengi að vaxa og dafna og veiðast stærri.

Þessi hugmyndafræði gekk ekki upp, fiskur fór að léttast og afli minnkaði. Þorskaflinn árið 1983 datt niður í  300 þús tonn, sem þótti þá algjört hrun í afla. Tækifærið var notað til að setja kvótakerfið á. Vísindamenn reyndu ekki að skýra hvers vegna þetta hafði gerst en börðu hausnum við steininn og héldu áfram að reyna að byggja upp þorskstofninn án árangurs.  Nú er þorskafli um 200 þús. Tonn, en var 300 þús tonn 1983 þegar menn héldu að stofninn væri hruninn og kerfið var sett á. Aflinn var  4-500 þús tonn í frjálsri sókn áður en landhelgin var færð út.

Hér á eftir eru teknar fyrir ýmsar fullyrðingar,  sem hafa verið hafðar í frammi og athugað í ljósi reynslunnar hvort þær eigi sér einhverja stoð:

1. Íslenska kvótakerfið er besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi. Þetta er algeng ályktun kvótasinna og viðtekinn sannleikur í áróðri LÍÚ.

Rangt. Þetta aflamarkskerfi svokallað ber í sér alla þá galla, sóðaskap og spillingu sem þekkt er í útgerð og fiskveiðum: A. Brottkast. B. Tegundasvik. C. Undanskot frá vigtun.

2. Á íslandi er best rekni sjávarútvegur í heimi.

Rangt. Milljarðatap og afskriftir eru fastir þættir í fréttum af útgerðum. Endurnýjun hæg og nánast engin utan smábátaútgerðar sem á í vök að verjast vegna skorts á aflaheimildum. Útgerðir leigja frá sér aflaheimildir (sameign þjóðarinnar) fyrir okurverð;  mörg dæmi um að mestur hluti afurðaverðs gangi til seljanda aflaheimildanna. Áróður LÍÚ gegn veiðigjöldum er að þau séu of íþyngjandi og séu að - eða búin að - setja útgerðir í rekstrarþrot. Fréttir af rekstrarþröng smábátaútgerða nær óþekktar. Hér er lagt til og talið utan allrar áhættu að gefa handfæraveiðar frjálsar með þeirri varkárni þó að smábátum sé ekki att til veiða í illviðrum.

 

3. Haldið er fram að hagkvæmara sé að sækja fisk með fáum skipum og stórum en mörgum og smáum.

Rangt. Það er margsannað og allir útreikningar sýna að kostnaður pr. rekstrareiningu á stærri skip (togara) er MARGFALDUR í samanburði við smábátaútgerðir.

Auk þess er ekki alltaf spursmál um  það sem hagfræðingar kalla hagræðingu eða gróða við fiskveiðar heldur hve marga fiskveiðarnar geta brauðfætt, og er þá t.d. átt við að margar fjölskyldur geta haft lifibrauð sitt af útgerð og styðja samfélagið með sköttum sínum og gjöldum auk þess að skapa veltu í samfélaginu.

5. Því er haldið fram af fiskifræðingum Hafrannsóknastofnunar að botnfiskstofnar við Kanada og Nýfundnaland hafi horfið vegna OFVEIÐI.

Þessi kenning stenst varla í ljósi þess að mælingar fyrir hrun sýndu til muna sterkari stofn en skilaði sér í veiddum fiski. Það er mjög lítið rætt um að lækkað hitastig breytti ætisskilyrðum á veiðislóðum á þessum tíma, nokkuð sem olli hægari vexti og aukinni dánartölu. Gögn sýna greinilega að fiskurinn veslaðist upp af hungri. Friðun á smáfiski skilar ekki sterkari veiðistofni nema því aðeins að nægt fæðuframboð sé fyrir hendi. Það er líffræðileg staðreynd sem öllum á að vera vel skiljanleg.

 

Árangur af verndarstefnu Hafrannsóknastofnunar er minni en  ENGINN því nú fiskum við minna en við veiddum fyrir daga kvótakerfisins og fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar úr 6 mílum í 12.

Afskipti og verndun Hafró virðist hafa orðið að stórslysi í öllum samanburði við fyrra ástand. Helstu nytjastofnar okkar í botnfiski skila ekki nema hluta þess sem áður veiddist. Þrátt fyrir þetta og margar rökréttar og faglegar ábendingar heldur Hafró áfram sinni stefnu og neitar að ræða hvað fari úrskeiðis. Eina svarið sem fæst er að fara þurfi varlega til að koma í veg fyrir ofveiði.

Færeyingar tóku upp íslenska kerfið undir lok síðustu aldar og notuðu það í tvö ár. Eftir þá reynslu lögðu þeir það niður og gefa því falleinkunn í öllum efnum.

Færeyingar hafa engar auðlindir aðrar en fiskveiðar svo þetta segir mikla sögu. Þeir nota sóknarkerfi þar sem því verður við komið og tryggja með því að allur veiddur fiskur kemur á land. Eru líkur á því að við getum talist hafa stöðu til að segja Færeyinga ófæra um að hafa vit fyrir sér í tengslum við sjósókn?

Ef sú kenning fiskifræðinga er rétt að fiskistofnar við Ísland séu í lægð vegna ofveiði og þoli ekki að veitt sé í líkum mæli og áratugum fyrir vísindalega verndun er ástæða til að staldra við nokkur atriði.

Þegar afli brást í verstöðvum á Suðurnesjum og allt umhverfis Ísland eins og oft gerðist á miðöldum (fólk féll úr hungri) er útilokað að kenna ofveiði um. Ef "meint lægðarástand" þorsk-og ýsustofna við Ísland má rekja til ofveiði undangenginna 30 ára, ÞRJÁTÍU ára, af hverju var ekki traustur jafnstöðuafli á miðum okkar allt fram á tíma stórvirkra botnvörpunga? Svarið við þessu er auðvitað að þetta tal um ofveiði er stórlega ýkt og líklega þó öllu heldur hreint bull.

Vöxtur þorsks og ýsu hefur lengi lélegur, nokkuð sem bendir til takmarkaðrar fæðu en í ofveiddum fiskstofni er fæða í yfirmagni og vöxtur góður. Sveiflur í fiskstofnum eru eðlilegar og ef viðhöfð er jöfn aflaráðgjöf ár eftir ár er það vísbending um vannýtingu fiskistofna.

Úthlutun aflaheimilda er frá 1. september til eins árs í senn og úthlutun myndar ekki eign.

Samt sem áður hefur útgerðum verið heimilað að nota aflaheimildir til andlags/veðsetningar við lántökur. Þetta hefur leitt af sér skýlaust brot á lögunum með því að útgerðir hafa selt skip og aflaheimildir aðskilið eftir geðþótta. Þetta ákvæði er því markleysa í framkvæmd og engar breytingar þar í augsýn. Þar við bætist að þrátt fyrir að kvótinn sé þjóðareign samkv. lögum, leyfist útgerðum hindrunarlaust að leigja frá sér aflaheimildir allt að 50% úthlutunar á opinberum uppboðsmörkuðum!

Norðmenn hafa áttað sig á því að fiskveiðar á að stunda í hlutfalli við fiskgengd á mið og að hættulegt geti verið að veiða of lítið.

Í Barentshafi hefur verið veitt langt umfram tillögur fiskifræðinga í mörg ár og stofninn hefur sífellt stækkað og nú eru veidd þar um ein milljón tonna af þorski. Þeir hafa þeir gefið frjálsar veiðar öllum bátum að 11 metrum. Og þetta á við um veiða á öll þau veiðarfæri sem hefð er fyrir. Af hverju eru handfæraveiðar ekki frjálsar hjá okkur? Er virkilega talin hætta á að handfæri ógni fiskistofnum? Það getur varla verið satt.

Er það pólitískt markmið að nota öll tækifæri til að banna fólki að bjarga sér? Í meira en þúsund ár fiskuðu íbúar sjávarþorpanna umhverfi Ísland í sátt við náttúru lands og sjávar. Og þorpin umhverfis landið byggðust upp kringum útgerð og vinnslu aflans. Í dag er mannlíf margra þessara sjávarþorpa nánast svipur hjá sjón, enda  í nokkrum skilningi komið á uppboðsmarkaði kvótagreifa LÍÚ.

 

Að lokum

Í byrjun apríl s.l. birtust  niðurstöður úr nýjasta ralli Hafró en það er þeirra mæling á stærð fiskstofna og er notuð  til að ákvarða aflamark næsta árs.

Þar kemur fram að vísitala þorsks hefur  lækkað 2 ár í röð, samtals um 25% frá 2012, og lítil von sé um betri nýliðun.  Um nokkurt skeið hefur verið dregið úr sókn til að stofninn muni stækka en það gengur ekki eftir, þvert á móti. Með þessari litlu sókn, 20%,  miðað við 35% fyrir kvótakerfi, hafa tapast gríðarleg verðmæti.

 

Virðingarfyllst:

Árni Gunnarsson f.v.  ferskfiskmatsmaður   -   arnireykur@hive.is

Grétar Mar jónsson skipstjóri  -  sími 8451546

Jón Kristjánsson fiskifræðingur   -   jonkr@mmedia.is

Sigurjón Þórðarson líffræðingur  -  sigurjon@sigurjon.is


Þorskurinn á niðurleið. Hvað gera 20% aflareglumennirnir nú?

Nú er að koma fram það sem ég hef bent á sl. 2 ár, að þorskstofninn myndi fara niður.
Þó allt sé logandi af stórþorski allt í kring um landið virðist svo að niðursveiflan sem mælingin gefur til kynna liggi í vöntun á smáfiski. Þrátt fyrir að hrygningarstofninn sé nú sá stærsti í áratugi hefur verið nýliðunarbrestur undanfarin ár. Stór hrygningarstofn skilar ekki þeim árangri sem Hafró hefur stefnt að enda er það öfugt við náttúrulögmálin. Þegar stofn verður of stór grípur náttúran til sinna ráða. Helmingi minna er nú tekið úr stofninum en þegar við vorum að veiða 450 þús. tonn, eða 20% nú í stað 35% áður. Það eru ansi margir milljarðatugir, sem tapast árlega með því að veiða ekki meira - með þessum líka fína árangri sem nú liggur fyrir.

En skýringar Hafró á lækkun vísitölunnar vantar ekki, ef einhver skilur þá þessa samsuðu:

"Minna fékkst af mörgum tegundum en undanfarin tvö ár, hugsanlega vegna áhrifa annarra þátta en stofnstærðar. Árin 2005-2013 hækkaði vísitala þorsks í vorralli mun meira en stærð viðmiðunarstofns í stofnmati. Að sama skapi eru líkur á að vísitalan í ár sem er nokkru lægri en í fyrra, vegi aðeins að hluta til lækkunar áætlaðrar stærðar viðmiðunarstofns þorsks".
mbl.is 2013 árgangurinn lítill
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Makrílviðræður - þversum Íslendingar skildir eftir

Makrílviðræðurnar slitnuðu vegna þess að Íslendingar stóðu fast á að veiða skyldi eftir vísindalegri ráðgjöf. Ráðherrann SIJ vildi ríghalda í "vísindaráðgjöf" ICES, sem ekki var vísindalegri en svo að afli síðustu þriggja ára var lagður saman og deilt í með þremur. Sá afli var um 50% meiri en ráðgjöf ICES öll árin en samt stækkaði stofninn, nokkuð sem sýnir að ráðgjöfin hafði verið snar vitlaus. Stofninn er nú talinn helmingi stærri en áður var talið. ICES hefur viðurkennt vitleysuna og nú sitja menn þar sveittir við að undirbúa nýja veiðiráðgjöf, sem væntanleg er í maí. Í ljósi þessa má velta fyrir sér hvers vegna ráðherra hélt svona fast í veiða miklu minna en hin ríkin kröfðust.

Sú skoðun hefur heyrst að auknar veiðar úr stofninum yrðu til þess að minnka líkur á göngu hans á Íslandsmið. En þá má spyrja, inni í samningsdrögunum var að allir mættu veiða hjá öllum, a.m.k. að hluta til, þannig að ekki hefði afli tapast vegna þess að makríll gengi ekki lengur í íslenska landhelgi. Hvað lá þá að baki? Hræðsla við verðlækkun? Er í uppsiglingu bann ESB á Rússa, sem vísar á enn frekari verðlækkun? Framkvæmdastjóri LÍÚ var í samninganefndinni, etv. eru það hagsmunir þeirra að ekki sé veitt meira. Spyr sá sem ekki veit. 

Miklar deilur um stærð stofnsins

Deilur eru um stærð stofnsins innan ICES. Takast þar á tvö sjónarmið, þeirra sem vilja nota aflatölur síðustu áratuga við stofnmatið, og hinna sem vilja nota stofnmælingar sem eru óháðar afla. Að sögn norska fiskifræðingsins Leif Nöttestad eru allar aflatölur fyrir 2005 hrein della. Sé della sett inn í stofnlíkan verður útkoman della. Talið er að aflinn fyrir 2005 hafi verið 2-4 sinnum meiri en gefið var upp. Stofnmat byggt á slíkum aflatölum er því tvöfalt til ferfalt vanmat. Þess vegna verði að byggja stofnmat á mælingum, sem eru óháðar lönduðum afla og nefnir hann þar merkingar og togveiðirall og jafnvel hinar umdeildu hrognatalningar

Ekki má svo gleyma þeim mælikvarða sem Jens Christian Holst notaði þegar hann sagði að veiða þyrfti 10 milljónir tonna af uppsjávarfiski - strax. Hann sagði að hafið milli Íslands og Noregs væri ofbeitt, átan væri niður étin og síldarstofninn væri að horfalla. Makríllinn er sunnar en síldin á veturna en veður upp allt Norskahafið og keppir við síldina, auk þess sem hann veður yfir til Íslands og keppir þar við síld og sandsíli. 

Með því að fylgjast með átumagni og stærðardreifingu átu jafnframt því að fylgjast með holdafari og einstaklingsvexti uppsjávarfiska fæst óbein mæling á stofnstærð, þ.e. hvort stofn sé stór eða lítill í hlutfalli við fæðuframboðið. Sé lítið æti og fiskur horaður eins og nú er þarf að veiða meira, óháð því hvað tölulegar mælingar (stofnstærð í tonnum) sýna.

"Vísindaleiðangur" Íslendinga í makrílveiðum

Makrílviðræðum strandríkja var slitið í gær eftir mikið þref og marga árangurslaus fundi þar á undan.

Ráðherra íslands hefur kennt óbilgengni Norðmanna um samningaslitin, þeir hafi vilja veiða langt umfram ráðgjöf ICES, en Íslendingar hafi vilja sýna ábyrgð og fara eftir vísindalegum ráðleggingum. Hann hefur samt látið margt ósagt um hvað olli viðræðuslitum annað en að Norðmenn séu ljótu karlarnir. 

"Við Íslendingar viljum sýna að við séum ábyrg fiskveiðiþjóð og viljum ekki veiða meira en ICES leggur til" segir ráðherrann Sigurður Ingi:

- Vi er fortsatt villige til å forhandle frem en løsning basert på vitenskapelig forskning og rådgivning. Her på Island er vi stolte av vårt omdømme som en ansvarlig fiskerinasjon , og vi er ikke villig til å sette det på spill, sier Johannsson.

Rétt er að skjóta því hér inn að sú ráðgjöf er ekki vísindalegri en svo að tillagan byggir á meðalveiði síðustu þriggja ára, þó svo að menn telji makrílstofninn miklu stærri en áður var álitið auk þess sem hann sé enn í miklum vexti. Norðmenn telja að veiða þurfi miklu mera vegna þess að makríllinn sé að éta og aféta aðra fiskistofna.

Fróðlegt er að kíkja í færeyska og norska fréttamiðla til að fá fleiri sjónarhorn á makríldeilunni.

"Við vorum ánægðir með samninginn sem lá borðinu, við vorum ekki vandamálið og eiginlega vorum við í stöðu sáttasemjara", sagði sjávarútvegsráðherra Færeyinga, Jacob Vestergaard. Meðal þess sem greindi á voru veiðar Íslendinga í landhelgi Grænlands auk kröfu ESB um að fá 50% af grænlenska kvótanum. Samningsslit þýða að hvert land úthlutar eigin kvóta og við munum sennilega hafa hann um 23% af ráðgjöfinni. Við höfum verið á því róli gagnvart hinum þjóðunum undanfarin ár og munum halda okkur þar sagði Jacob.

Haft var eftir Auðun Maarok í norsku samninganefndinni að ástæðan fyrir því að samningar tókust ekki um makrílinn hafi verið sú að Íslendingar og Evrópusambandið vildu ekki gefa frá sér að veiða úr þeim kvótum sem Grænlendingar hafa sett sér. Hann segir að það sé fáheyrt að Íslendingar og ESB vilji veiða makríl bæði innan og utan eigin landhelgi.
"Þeir grafa undan samningum strandríkjanna með því að að viðurkenna kvótaúthlutun Grænlendinga. Fyrst lofar ESB Íslendingum kvótahlutdeild, svo Færeyingum og að lokum Grænlendingum. Þetta gera þeir án þess að hafa nefnt þetta áður við okkur" sagði Audun.

Norski sjávarútvegsráðherrann, Elisabet Aspager, segir að það gangi ekki að bæði ESB og Ísland vilji fá að veiða kvóta sína bæði innan eigin landhelgi og utan hennar. Noregur sætti sig ekki við að ESB og Ísland fái sína kvóta og geri einnig samning við Grænlendinga, sem ekki eru þátttakendur í viðræðunum.

Færeyingar eru eina þjóðin sem ekki fær skömm í hattinn að loknum þessum viðræðum.
mbl.is Slitnaði upp úr makrílviðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar leggjast gegn aukningu makrílaflans!

Samningaveiðunum um makríl hefur verið slitið í bili. Ágreiningsefnin eru þrenn, aflahlutdeild hvers lands, tímalengd samningsins og hversu mikið skuli veiða á komandi ári. Íslendingar vilja halda sig við ráðgjöf ICES en aðrir, sennilega Norðmenn og Færeyingar, vilja auka þann afla um 40-60%, upp í nær eina og hálfa milljón tonna.  

Nú hefur það verið svo að undanfarin fjögur ár hafa Færeyingar og Íslendingar verið ljótu karlarnir, þeirra veiði hefur bæst við úthlutaðar aflaheimildir frá ICES, og þjóðirnar sakaðar um grófa ofveiði, sem myndi ganga nærri makrílstofninum.

Stofninn var "mældur" 2010 með því að telja hrogn í hafinu frá Biskayaflóa út fyrir Írland og norður eftir öllu Atlantshafi. Á þessum hrognatalningum byggðist kvótinn 2010-13. Næst voru hrognin svo talin í fyrra en það er gert á þriggja ára fresti, og þá voru niðurstöður þær að stofninn var orðinn tvöfalt stærri þrátt fyrir gegndarlausa ofveiði okkar og Færeyinga!

Þá var illt í efni. ICES virðist ekki hafa þorað að gefa út veiðiráðgjöf í takt við eigin mælingar heldur miðuðu þeir ráðgjöfina við meðalafla þriggja síðustu ára, að ofveiðinni meðtalinni. Ráðgjöfin fyrir 2013 var 520 þús. tonn. Ef þeir hefðu trúað eigin mælingu hefði þeir orðið að þrefalda sig. En það má ekki koma allt of berlega í ljós að stofnmælingin var (og er) della og að "ofveiðin" hafi stækkað stofninn. 

En nú vilja Íslendingar fara að vísindaráðgjöfinni, sem alltaf hefur verið röng, og hafa milljarðatugi af veiðiþjóðunum, okkur þar með.

Ekki er öll vitleysan eins en spennandi verður að sjá hverju Íslendingar úthluta sjálfum sér verði ekki af samningum. Kannski að stöðva eigin veiðar til að sýna ábyrgð?
mbl.is Makrílfundi lauk án niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gáfumannafélagið

Já einmitt, - passa að sjómenn valdi ekki óróleika í síldarstofninum svo geyma megi hana hana til að veiða seinna, segja snillingarnir á Skúlagötunni:

"Jafnframt er síldin komin í vetrardvala og allt óþarfa skark í stofninum veldur því að síldin þarf sífellt að eyða meiri orku en ella sem getur haft áhrif á möguleika hennar að lifa af veturinn. "

Eru menn ekki með heilli há?
mbl.is Stöðva veiðar í Kolgrafafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stofnmælingarnar voru þá rangar!

Já einmitt. - Nú er viðurkennt að fyrri stofnmælingar hafi verið rangar, stofninn sé um tvöfalt stærri en haldið var áður. Íslendingum og Færeyingum hafði verið kennt um ofveiði sem myndi skaða stofninn. Í sumar bættust svo Grænlendingar í hópinn, makka krílið komið þangað líka. Við þessa ofveiði virðist stofninn hafa stækkað, - eða þannig.

Ég skrifaði um þetta fyrir einu og hálfu ári og sagði að stofnmælingar á makríl væru hrein della og við ættum ekki að semja við ESB um makrílveiðar.

Nú virðist vera kominn ótti í íslensk stjórnvöld, þau ætla að sætta sig við einhvern lúsarhlut. Ein rök sem hafa verið sett fram eru að makríllinn gæti horfið aftur af Íslandsmiðum og þá gætum við sótt umsaminn lúsarhlut niður í Norðursjó! - Miklir menn erum vér. 


mbl.is Mikið ber á milli í makrílnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síldin í Kolgrafarkrukkunni. - Seint í rassinn gripið

Í dag bað sjávarútvegs-  trillukarla fyrir vestan að hjálpa sér. Hann hefur verið að halda þeim frá vinnu, sletta í þá 100 tonnum af og til á meðan stóru skipin, sem "eiga" kvóta dæla upp leyfilegum afla trillukarlanna á einum klukkutíma- beint fyrir framan nefið á þeim.

Nú biður sjávarútvegs- trillukarlana um hjálp; þeim er öllum er frjálst að veiða í Kolgrafarfirði, svo framarlega sem þeir brjóta ekki möstrin við að fara undir brúna!

Í gær eða í fyrradag var ljóst að síldin var að þétta sig í Grundarfirði. Búið var að leita að síld án árangurs í nokkrar vikur en svo kom hún allt í einu. Hvaðan kom hún? Hafró heldur að þeir viti allt um fisk, en þeir fundu enga síld, hún mætti sjálf á sviðið.

Sá möguleiki var fyrir hendi að síldin, sem fyllti Grundarfjörðinn í fyrradag færi inn í Kolgrafarfjörð, og menn biðu, spáðu, báðu til guðs og vonuðu, en gerðu ekkert.

Hvers vegna var ekki opnað fyrir frjálsar veiðar allra báta UTAN við fjörðinn, svo sem í einnar mílu radíus frá brúnni, strax í fyrradag eða jafnvel fyrr? Hugsanlega hefði skarkalinn frá veiðum og mikilli umferð báta getað haldið síldinni frá því að fara undir brúna. Nei ekkert var gert, ekki mátti færa afla frá sægreifum til annarra landsmanna.

Minna má á að í fyrra þegar síldin fór þarna inn var Hafróliðið tvær vikur að spá í hvað hefði valdið síldardauðanum. Nefndu þeir kulda og aðra þætti, þótt morgunljóst hefði verið að síldin hefði kafnað. 

Væri ég trillukarl fyrir norðan Snæfellsnes, hefði ég ekki geð í mér til þess að hjálpa þessum auma ráðherra til þess "bjarga" síld, sem leitað hefði skjóls í Kolgrafarfirði. 


mbl.is Síldveiðar gefnar frjálsar innan brúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú má tala um vanveiði, þegar hentar vegna milliríkjadeilna, en ekki hér heima

Ég og fleiri höfum skrifað um það í mörg ár að vanveiði sé hættuleg, fugli og fiski til skaða auk þess sem það leiðir til minni tekna af fiskveiðum, allt fyrir daufum eyrum, sjá hér t.d.  

Nú má tala, þegar átt er í deilum við útlendinga. Hvað segja Hafró og stjórnvöld nú? Munu fjölmiðlamenn ganga á þá? Ekki hefur það verið raunin hingað til.


mbl.is Vill svara ESB með meiri veiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rækjuveiðibann - Moskva svarar ekki

Veiðar á úthafsrækju voru bannaðar fyrsta júlí s.l. en þær höfðu verið frjálsar. Eina röksemdin var að veiðarnar væru farnar fram úr ráðgjöf Hafró. Ég bloggaði um málið og gagnrýndi stjórn veiða á úthafsrækju enda hefði hún engan árangur borið.
Fram kom að ráðherra myndi endurskoða fyrirkomulag rækjuveiða og kveða til hagsmunaaðila og sérfræðinga.
Ekki er um auðugan garð að gresja í því efni, Unnur Skúladóttir rækjusérfæðingur til áratuga hefur látið af störfum og nýr sérfræðingur, sem er að byrja að öðlast reynslu, hefur tekið við.
Ég sendi því sjávarútvegs- (atvinnuvega) ráðherra eftirfarandi tölvubréf þann 10 júlí:

Hæstvirti ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ég er sérfræðingur í rækju og rækjuveiðum. - Ég stundaði rækjurannsóknir 1995- 2003, aðallega á Flæmska hattinum en einnig innfjarða m.a. í Arnarfirði og Skagafirði, á vegum Rækjuvers og Dögunar. Fór ég í nokkra rannsóknaleiðangra með Dröfn RE, sem var gerð út af Hafró. Hér er að finna ýmis skrif mín um rækju bæði á ensku, sem birt hafa verið á vegum NAFO, og íslensku. 

Ég hef séð í fréttum að skipulag rækjuveiða sé í endurskoðun, fyrirkomulag og veiðimagn sé ekki enn ákveðið en að samband verði haft við hagsmunaaðila og sérfræðinga í því sambandi.

Hér með óska ég eftir því að verða til kallaður í sambandi við það mál.

Virðingarfyllst,
 

Þegar ekkert svar hafði borist eftir rúma viku sendi ég ítrekunarpóst. Svar er ekki komið enn og ég veit reyndar ekki hvort pósturinn hafi borist ráðherra. Ef menn vilja ekki þiggja framboðna aðstoð, er lágmarks kurteisi að afþakka hana. - En það heyrist ekkert frá Skúlagötu 4 fremur en endranær.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband