Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Steingrímur telur makrílinn ofveiddan. - Gott nesti í samningaviðræður?

Í bréfi til Intrafish, sem birtist í Fishing News nýlega, segir Steingrímur að "strandríkin beri sameiginlega ábyrgð á að koma í veg fyrir áframhaldandi ofveiði á makríl og að sjá til þess að veiðarnar verði sjálfbærar".

Svona yfirlýsing er hreinn afleikur í samningaviðræðum. Hvaðan fékk Steingrímur þessar upplýsingar? Frá Hafró?

Steingrímur-Makríll 2 

Það er áhyggjuefni að í samninganefndinni er Jóhann Hafróforstjóri, sem er með langvarandi ofveiði á heilanum en líta má hann sem fulltrúa ICES, sem vill skammta allar veiðar við nögl.

 
Ég hef áður bent á að stofnmæling á makríl sé hrein vitleysa og matið á stofninum eftir því. Þess vegna er ekki nokkur leið að ákveða kvóta á makríl en sú leið er alltaf valin að veiða minna en meira því náttúran (vanþekkingin ) verður að fá að njóta vafans.


mbl.is Reynt að leysa makríldeiluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný þekking á atferli fiska; - Södd sandsíli synda lengur

 

Södd sandsíli synda lengur

Danskar rannsóknir á atferli sandsíla sýna að sandsílum með fullan í maga er hættara við að lenda í trolli vegna þess að þegar þau eru södd synda þau meira upp í sjó og eru þar óvarin fyrir trollveiðum.

Þegar sandsílin eru búin að éta svifkrabba leysast torfurnar upp og leita til botns þar sem þau grafa sig niður og bíða þar til næsta dags. Í sandinum eru þau óhult fyrir óvinum. Í köldustu mánuðum ársins eru flest sandsíli niðurgrafin í sandinn allan sólarhringinn.

Að sílin skuli grafa sig niður gerir allar stofnmælingar erfiðar en Danir veiða mikið af sandsíli til bræðslu, nokkur hundruð þúsund tonn á ári, og þá tilheyrir víst að mæla þurfi stofninn svo unnt sé að gefa út kvóta.

Stofnmælingar vafasamar

Stofnmælingar, sem Danska Hafró framkvæmir, byggjast á því hve mikið flotinn veiðir á degi hverjum, auk eigin rallveiða þar sem togað er með sandsílatrolli.
Vandinn er að veiðin er mjög breytileg vegna þess að einungis er unnt að veiða þau síli sem ekki eru niðurgrafin í sandinn. En ekki er vitað hve mikill hluti þeirra er uppi í sjó og veiðanleg.
Það er Mikael van Deurs frá DTU Aqua í Danmörku, sem ásamt sínum samstarfsmönnum hefur verið að rannsaka hvaða þættir ráða því hve langan tíma sílin eru uppi í sjó og þar með veiðanleg.

Rannsóknirnar sýna að því meira sem sílin hafa að éta, þeim mun lengri tími líður þar til þau grafa sig aftur niður í sandinn í skjól fyrir veiðum og óvinum. Tíminn, sem þau eyða uppi í sjó ákvarðast einnig af því hversu mikinn mat þau hafa fengið síðustu daga. Hafi verið lítið hefur um mat eru sílin í sandinum allan daginn.

Fela sig fyrir óvinum, fugli og fiski

TobisTalið er að þetta sé aðlögun til að koma í veg fyrir að verða étin meðan þau bíða betri tíma. Tilraunir í rannsóknakerjum sýna að eftir að hafa legið hreyfingarlaus niðri í sandinum í lengri tíma fóru litlar sílistorfur að koma upp úr sandinum. Þau voru gá að því hvort meiri matur hefði borist inn á svæðið.

Sandsílin virðast ekki taka mið af hitabreytingum eða hversu mikið af mat sé til staðar. Atferli þeirra virðast ákvarðast af því hve mikið þau hafa étið sama dag, hversu södd þau eru. Því saddari sem þau eru þeim mun meira eru þau á ferðinni, og er því mun hættara að lenda í kjafti óvina.

Hver er staða rannsókna hér heima? 

Þessar dönsku rannsóknir vekja upp þá spurningu hvort rannsóknarmenn hér heima, sem eru að athuga "hvað hafi komið fyrir sandsílið", hafi gert sér grein fyrir því hve mikil áhrif fæðan hefur á atferli þeirra.

Hefur vöxtur sandsíla verið rannsakaður, eða fæðuframboð þeirra? Hefur beitarálag á fæðu sandsíla, dýrasvif og fleiri uppsjávar lífverur, verið rannsakað? Ekki er mér kunnugt um það, einu upplýsingar sem berast eru úr sérstöku sandsílaralli Hafró þar sem reynt er að meta fjölda sandsíla.

Í ljósi dönsku rannsóknanna, er þá ekki þörf að gera betur?


Friðun á sveltandi stofnum gengur í berhögg við vistfræðiþekkingu og reynslu

Nokkuð hefur verið fjallað um svartfugl að undanförnu vegna tillagna starfshóps umhverfisráðherra, sem lagði til að fimm tegundir svartfugla skyldu alfriðaðar í 5 ár til þess að byggja upp stofninn. Þessir stofnar eru sagður á undanhaldi vegna fæðuskorts.

Bændablaðið, 1. tbl. 19. janúar, gerði málinu góð skil og hafði m.a. viðtal við bloggskrifara. Fleiri greinar eru um þessar friðunaráætlanir en blaðið er að finna hér. (Sjá leiðara bls. 6, viðtöl og greinar bls.18 og 19, lesendabréf bls. 32 og 33). 

 Viðtalið:

Jón Kristjánsson fiskifræðingur er síður en svo sammála þeim friðunaráformum á fimm tegundum sjófugla af svartfuglaætt sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur boðað í samræmi við niðurstöður starfshóps sem hún skipaði í september. Telur hann það andstætt öllum lögmálum náttúrunnar að ætla sér að byggja upp sveltandi stofn með friðun.

Barnalegar ályktanir
Gagnrýnir Jón ýmislegt í skýrslu starfshóps umhverfisráðherra um verndun og endurreisn svartfuglastofna. Þar spyr hann m.a. um áreiðanleika fuglatalninga í björgum og órökstuddar fullyrðingar um stofnana. Þá komi ýmislegt fram í skýrslunni sem hreki fyrri fullyrðingar og hljóti að varpa efasemdum um þann grunn sem byggt er á. Meirihluti starfshópsins dregur í efa að stofnarnir séu sjálfbærir án þess að rökstyðja það frekar. Bendir Jón á að í sömu skýrslu komi fram að veiðarnar nemi aðeins um 1,7% af stofnunum. Barnaskapur sé að halda að stöðvun svo lítilla veiða hafi nokkur áhrif á stofnbreytingu sem að auki eru raktar til of lítils fæðuframboðs. 
Jón gagnrýndi einnig þessar friðunaráætlanir á bloggsíðu sinni og sagði þar m.a:
„Það á ekki af okkur að ganga Íslendingum. Búið er að skammta þorskafla í tæp 30 ár til í von um það að stofninn stækki. Árangurinn er minni en enginn, minnkandi stofn og horaður fiskur. Nú á að beita sömu aðferð á sveltandi fugla.“

Í berhögg við vistfræðiþekkingu og reynslu
Starfshópurinn telur helstu orsakir hnignunar stofnanna vera fæðuskort en telur að tímabundið bann við veiðum og nýtingu muni flýta fyrir endurreisn þeirra.
„Þessar tillögur ganga í berhögg við alla núverandi þekkingu og reynslu í vistfræði og almennum búskap. Það er líffræðilega rangt að friða dýrastofn sem er í svelti. Það gerir illt verra. Ef búfénaður og önnur dýr svelta er einungis hægt að laga ástand þeirra á tvennan hátt. Annað hvort með því að auka fóðurgjöf eða fækka á fóðrum.
Vitlausasta sem hægt er að gera er að friða sveltandi dýrastofn, fugl eða fisk, í þeirri von að þeir braggist.“
Björn í Bæ um flekaveiði
Reynslan ólygnust
Í samtali við Bændablaðið bendir Jón á að í Drangey einni hafi menn á síðustu öld veitt um mjög langt árabil um 100 til 200 þúsund geldfugla á hverju vori. Þessu lýsir Björn heitinn í Bæ í Skagafirði ágætlega í grein sem hann ritaði í Morgunblaðið 7. apríl 1972 þar sem hann gagnrýnir bann við flekaveiðum á fugli við Drangey og Grímsey. Segir hann að ekki hafi séð högg á vatni þrátt fyrir þessa veiði. 
Jón segist hafa þekkt vel til Björns og þegar veiðin lagðist af í Drangey hafi fugli farið að fækka í eyjunni. Svipuðum reynslusögum hafa menn einnig lýst af nýtingu á fugli í björgum víðar á landinu.

Gengur ekki að friða sveltandi stofn
„Þarna er verið að tala um að friða sveltandi fugl þar sem veiðiálagið er ekki nema kannski um 1%. Bjargfuglar, álka, langvía og stuttnefja eru taldir vera tæpar 3 milljónir einstaklinga og lundinn um 5 milljónir til viðbótar. Það er því alls ekki verið að drepa síðasta lundann. Allstaðar þar sem hætt hefur verið að nytja varp, fuglabjörg, rjúpu eða annað, þá hefur framleiðslan dottið niður og fugli fækkað. Það gengur ekki að friða sveltandi dýrastofna.“

Kerfið reynir að viðhalda sjálfu sér
Segir Jón að sama eigi við um fiskstofnana og fuglastofna eins og reynslan hafi sannað um allan heim. Hann segir að það sé orðið vandamál í heiminum í dag að kenningar sérfræðinga hjá eftirlits- rannsókna- og stjórnvaldstofnunum gangi út á að fá styrki til að viðhalda sjálfum sér fremur en að leiða endilega sannleikann í ljós eða skila áþreifanlegum árangri.

Þorskurinn og ýsan aféta fuglinn
Segir hann að hnignun sandsílastofnsins megi rekja til vaxandi fæðuþarfar þorskfiska, en stefna stjórnvalda er að draga úr veiðum í því skyni „byggja upp“ stofnana. Þyngd þorska eftir aldri hefur verið lágmarki lengi sem sýnir að þeir svelta. 
Það gerðist í Barentshafi 1989-90 að 70% langvíustofnsins féll úr hungri.
Í dagblaðinu Bergens Tidende 6. janúar 1990 var haft eftir Odd Nakken, forstjóra norsku Hafró:

"Niðurstöður úr fjölstofna rannsóknum benda til þess að fæðuþörf hins mjög svo vaxandi þorskstofns hafi tvöfaldast frá 1984 til 1986. Þetta kom mest niður á loðnunni. Loðnuát þorsksins þrefaldaðist frá 1984 til 1985 með þeim afleiðingum að loðnustofninn nær kláraðist. Jafnframt át þorskurinn stöðugt meiri síld, smáþorsk og ýsu. Árið 1985 og 1986 át þorskurinn um 500 þúsund tonn af síld, og trúlega er þetta meginskýringin á því að þessir tveir síldarárgangar eru horfnir."
"Þrátt fyrir að þorskurinn æti upp loðnu og síld og seinna bæði ýsu og þorsk, fékk hann samt ekki nóg æti. Frá 1986 hefur þorskurinn vaxið miklu hægar en hann gerði áður. Meðalþyngd 5 ára þorska var 1.8 kg veturinn 1986 en meðalþyngd 5 ára fiska árið 1988 var einungis 0.7 kg."


Í skýrslunni sem nú er lögð til grundvallar friðun á fugli sé talað um að makríll geti átt þátt í hnignun sandsílastofnsins. Makríllinn komi samt ekki til sem neinu nemur fyrr en löngu eftir að sandsílastofninum var farið að hnigna.
„Væri ekki nær að friða fæðu fuglana, sandsílið, frá áti þorsksins með því að veiða meiri þorsk?
Árið 2002 skrifaði ég fyrst um sjófugladauða fyrir norðan. Þar var bæði hungraður fugl og horaður farinn að reka í land. Ástæðan var fæðuskortur, sennilega þorskurinn og ýsan sem var að aféta fuglinn.“

Þorskurinn þarf 1000 tonn á klukkutíma
„Þorskstofninn við Ísland þarf um 24 þúsund tonn af fæðu á sólarhring til að viðhalda sér, eða um þúsund tonn á klukkutíma. Þá étur ýsan sandsílið á botninum þegar það er niðri í sandinum. Samt má ekki einu sinni ræða þann möguleika að það sé fiskurinn sem hafi komið við sögu varðandi minnandi æti fyrir sjófugl.“

Náttúruverndarvitleysa byggð á þekkingarskorti
„Maður skilur þetta ekki. Þetta er alheims náttúruverndarvitleysa sem þarna er í gangi sem byggir á því að náttúran eigi að njóta vafans. Þá spyr ég hvaða vafa? Þessi vafi er það sem ég kalla þekkingarskort. Þar að auki er þetta stjórnarskrárbrot. Þarna er engin bráð hætta. Það má ekki svifta menn atvinnuréttindum og hlunnindum nema brýn ástæða sé til og þá komi fullar bætur í staðinn.“
 

 


Væntanlegar breytingar á fiskveiðistefnu ESB

Komið er út fréttabréf frá ESB, þar sem fyrirhugaðar breytingar á fiskveiðistefnunni, CFP, eru útskýrðar. Breytingarnar fela í sér að taka upp framseljanlegt kvótakerfi og innleiða bann við brottkasti (!).

Þeir telja að flotarnir séu enn of stórir, að enn þurfi að skera þá niður til að forðast ofveiði. Þetta er nokkuð sérstakt þar sem td. botnfiskfloti Breta hefur minnkað um 70-80% sl. 10 ár og sóknin í Norðursjó hafi dregist gríðarlega saman. Samt er enn ofveiði.

Þetta er nokkuð klassiskt, menn halda að öll vandamál megi leysa með samdrætti í veiðum. Búið er að reyna þetta hér heima í 30 ár með skelfilegum árangri. Enn vilja menn þó bæta um betur; alfriða svartfugl og margir halda að galdurinn sé að friða loðnu.
ND Haddock

Bretar eru með framseljanlega kvóta en þegar (bolfisk eða humar) kvótar losna eru þeir keyptir upp af ríku uppsjávarútgerðunum, jafnvel þó þeir veiði ekki þorsk og ýsu. Þeir eru að fjárfesta í kvótum, engar hefðbundnar botnfiskútgerðir hafa neinn séns til að bjóða á mót þeim, segja mér vinir mínir í Skotlandi. Þetta er skuggaleg þróun, sem við köllum yfir okkur með inngöngu í ESB. Greinilegt er af fréttabréfinu að ekki er gert ráð fyrir neinum undanþágum til einstakra ríkja. Það verður eitt fyrir alla.

Ég hef rannsakað fisk úr Norðursjó en þar er smáfiskur yfirgnæfandi. Þetta er ekki ungviði heldur fullorðinn (kynþroska) hægvaxta smáfiskur. Þorskurinn fer ekki að vaxa fyrr en hann gerist fiskæta, éta ýsu eða bræður sína.NS Cod

 

Efri myndin sýnir kynþroska 5 ára ýsa í smásíldarstærð, sú neðri horaðan þorsk um 35 sm að lengd, enn að keppa við ýsuna um fæði. 

Lítið gagn í að friða svona fisk.
 


1000 störf, lægra fiskverð til neytenda og "penger i lommen" : Hafnar Steingrímur tilboðinu?

Samtök íslenskra fiskimanna sendu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu tilboð upp á ríflega einn og hálfan milljarð króna fyrir aflaheimildir á þorski, ýsu og ufsa.

Jón Bjarnason hafnaði þessu tilboði á síðasta degi sínum í embætti. Nú vill sambandið freista þess að nýr ráðherra sjái málið í öðru ljósi og sendi aftur inn sama tilboðið.

„Gangi ríkið að þessu tilboði má búast við því að um þúsund ný störf verði til og það kostar ríkið ekki neitt, heldur þvert á móti fær ríkið greitt fyrir að skapa þessi störf. Ég veit ekki til þess að þessari ríkisstjórn hafi verið boðið slíkt tilboð áður,“ sagði Jón Gunnar Björgvinsson formaður Samtaka íslenskra fiskimanna.

Hann telur einnig miklar líkur á að fiskverð til íslenskra neytenda lækki með auknu framboði á innlendum fiskmörkuðum.

Þetta er úr frétt Rúv, sem  fór í loftið fyrsta frétt fimmtudaginn 19. janúar. Merkilegt nokk var hún aldrei lesin aftur, en venjulega er athyglisverðum fréttum gerð betri skil síðar, í sex fréttum útvarps eða fréttum sjónvarps, því fjögur fréttir fara framhjá mörgum.

Mig grunar að þarna hafi verið kippt í spotta, málið væri óþægilegt fyrir "eigendur" kvótans. 

Bláa höndin? 
 


Aukinn þorskkvóti í vor?

Steingrímur fullyrðir að þorskkvótinn verði aukinn í vor. Annað hvort trúir hann blint á það sem Hafró sagði sl. vor eða hann hefur nýjar upplýsingar. Ekki var farið í stofnrannsókn í haust vegna verkfalls og engar opinberar upplýsingar hafa komið um ástand stofnsins. Ég vona að Steingrími bregði ekki í vor, ef í ljós kemur að stofninn hafi ekki aukist.

4+ 

Ég skrifaði um þetta í maí í fyrra og sagði þá: "Það eru líkur á lækkun þorskvísitölu vegna þess að hlutfall stærri og eldri fisks er hátt og hann virðist þrífast vel á yngri bræðrum sínum, sem fer fækkandi og eru illa haldnir. Þar sem fiskur hefur ekki eilíft líf, mun stærri fiski fara fækkandi. Enn er beðið eftir nýliðun, sem lætur standa á sér vegna hungurs hjá ungfiski, sem eins og áður sagði, fer aðallega í fóður hjá þeim stærri".

Myndin sýnir hvernig vísitalan rís alltaf í 4 ár en fellur svo. Er komið að því? 


mbl.is 20-25 milljarða loðnuvertíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húrra fyrir nýrri þekkingu í náttúrufræði!

Það á ekki af okkur að ganga Íslendingum. Búið er að skammta þorskafla í tæp 30 ár til í von um það að stofninn stækki. Árangurinn er minni en enginn, minnkandi stofn og horaður fiskur. Nú á að beita sömu aðferð á sveltandi fugla:

"Starfshópur, sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra skipaði í september um verndun og endurreisn svartfuglastofna, leggur m.a. til að fimm tegundir sjófugla af svartfuglaætt verði friðaðar fyrir öllum veiðum og nýtingu næstu fimm árin", segir í fréttinni.

"Starfshópurinn telur helstu orsakir hnignunar stofnanna vera fæðuskort en telur að tímabundið bann við veiðum og nýtingu muni flýta fyrir endurreisn þeirra".

Þessar tillögur ganga í berhögg við alla núverandi þekkingu og reynslu í vistfræði og almennum búskap. Ef búfénaður og önnur dýr svelta er einungis hægt að laga ástand þeirra á tvennan hátt. Annað hvort með því að auka fóðurgjöf eða fækka á fóðrum.

Vitlausasta sem hægt er að gera er að friða sveltandi dýrastofn, fugl eða fisk, í þeirri von að þeir braggist.

Sennilega myndi ekki hjálpa að slátra fuglum kerfisbundið til að bæta ástandið því fiskurinn hefur meiri áhrif á sandsílið en fuglinn. En gagnslaust og ástæðulaust er að friða fugla, sem er að fækka "af sjálfu sér"

Hvernig væri að friða fæðu fuglana, sandsílið, frá áti þorsksins með því að veiða meiri þorsk?

Það verður ekki gert, því eins og amma skáldsins sagði: Heimskan er eins og eilífðin, hún á sér engan endi.

Meira um fugl, þorsk, sandsíli og loðnu.


mbl.is Vilja friða 5 tegundir af svartfugli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar ESB að nota ónýtu íslensku lausnina við fiskveiðistjórnun?

Eitt af markmiðum með væntanlegum breytingu á fiskveiðistefnu ESB er að stækka fiskistofna þannig að þeir skili hámarks-jafnstöðuafla (á ensku MSY), sem við á íslensku getum skammstafað HJA.
Nýlega var haldinn kynningarfundur til að skýra út í hverju HJA fælist og hvernig ætti að ná markmiðinu.

Jú það var að draga úr veiðum og hvíla miðin þannig að fiskurinn fengi að taka út vöxt áður en hann væri veiddur. Nú væri veiðin allt of mikil, stofnarnir gætu ekki byggt sig upp. Ef unnt væri að stjórna Evrópuveiðinni með HJA yrði aflinn 13 miljónir tonna en væri nú aðeins 6 milljónir tonna. Þyrfti því að tvöfalda stofnana til að ná markmiðinu um hámarks-jafnstöðuafla, HJA. Best væri að gera þetta á sem stystum tíma; helst að hætta veiðum alveg í 3 ár og veita sjómönnum hagstæð lán á meðan. Að þessum tíma liðnum hefðu stofnarnir þrefaldast ....

Þetta hef ég heyrt áður, fyrst 1983 frá Ragnari Árnasyni, sem sagði að stöðvun veiða væri besta fjárfestingin, sem til væri og aftur 2007, þegar Geir Haarde sagði að við værum svo rík þjóð að við hefðum efni á að hætta veiðum meðan verið væri að byggja upp stofnana.

Fyrir þá sem ekki vita það þá hefur hvergi tekist að byggja upp stofna með friðun því það er ekki veiðin sem hefur mest áhrif á stærð fiskstofna, heldur fæðuframboð, samkeppni, afrán og fjölmargir aðrir þættir.

Fiskibankar hafa nefnilega þann eiginleika innistæðan vex og vextirnir hækka þegar tekið er út úr þeim.

Þetta plan ESB er hreint ótrúlegt og ég á erfitt með því að trúa að jafnvel tölvufiskifræðingar séu svona vitlausir. Þeir hljóta að gera þetta gegn betri vitund, - og þó.


Blogg ESBHér er að finna slóð á kynningu þessara ótrúlegu áætlana.

Verð að bæta því við að Össur sagði hróðugur að ESB væri að stefna að kerfi eins og okkar. Í orðunum lá að okkar kvótakerfi væri gott og til eftiröpunar.

Einn þátturinn í því eru skyndilokanir til að vernda smáfisk, svo hann megi stækka. Myndin sýnir eina þá síðustu, Faxaflóinn lokaður upp í fjörur að norðan!


Sveigjanlegra fiskveiðikerfi kemur öllum til góða

Í Færeyjum er notast við dagakerfi til að stjórna fiskveiðum. Skipin mega vera úti í ákveðið marga og mega þá veiða eins mikið og þau geta af hvaða tegund sem er. Uppsjávarfiskur er undanskilinn en á honum er kvóti svipað og hér.

LifurMyndSkortur hefur verið á lifur í Færeyjum, en einungis 8 togarar og einn línubátur hafa lagt upp lifur, sem fer  til vinnslu hjá Biotec á Eiði.

Bæði útgerðir og sjómenn hafa hag af því að landa lifur því mannskapurinn fær lifrarpeninga og útgerðin fleiri fiskidaga. Lifrarkílóið selst á 135 kr ísl. og ráðuneytið úthlutar togurunum samtals 167 auka fiskidaga fyrir að hirða lifur. 

Allir ánægðir.

Þetta er nokkuð snjallari lausn en á Íslandi, þar sem menn eru skyldaðir með lagaboði til að "koma með allt í land".

Vert er að geta þess að Lýsi h.f. verður að flytur inn lifur - frá Færeyjum m.a.


Sandsílið, lundinn og týnda kynslóðin - Bottom-up?

Titillinn vísar til þeirrar hugmyndafræði að dýrastofnum sé stjórnað neðan frá, þ.e. að fæðan ákvarði velgengni stofnanna (bottom-up).

Þetta er andstaðan við ofan frá-niður, að dýrastofnum sé stjórnað með því að þeir séu veiddir eða étnir, (top-down).

Í kvöld var á Rúvinu viðtal við Arnþór Garðarsson prófessor í dýrafræði um ástæður fækkuna sjófugla og kríu hér við land, stofna sem háðir eru sandsíli eða loðnu sér og unga sinna til viðurværis. Arnþór var eindregið þeirrar skoðunar að stofnar sjófugla stjórnuðust af fæðu og að "eitthvað hefði komið fyrir hana" en rannsóknir á grunnsævi, sem skýrt gætu brotthvarf átu sandsíla, skorti algjörlega, rannsóknaskipin flytu ekki svona grunnt.

Ekki nefndi hann einu orði að brotthvarf sandsíla gæti verið vegna þess að þau hafi verið étin af þorski. ýsu eða öðrum ránfiskum. Það má alls ekki nefna þennan möguleika!

Það þarf ekki að vera þannig að fiskar hafi ofétið sandsílin, en því má ekki ræða þennan möguleika?

Merkilegt er að fræðimenn telja að eina rándýrið sem hafi áhrif á dýrastofna sé maðurinn, en yfirleitt eru allar breytingar á fiskstofnum raktar til ofveiði manna og einu stjórnunaraðgerðirnar beinast að því að draga úr veiðum!

Flateyingar sögðu að sandsílið hefði horfið þegar risaganga af þorski gekk inn í fjörðinn

Margt fleira bendir til þess að fiskur éti upp bæði sandsíli og loðnu. Hvers vegna þessi feluleikur? Því má ekki ræða þetta.

Ég hef áður skrifað um þetta,  en það virðist alls ekki mögulegt að fá að ræða þessi mál. 
Útvarpið sá ekki ástæðu til tala við fleiri sérfræðinga hvað þá að að velta upp fleiri hugmyndum um rýrnun sjófuglastofnanna. Þvílík "fréttamennska", ekki má ræða neitt sem gæti sett spurningamerki við fiskveiðistefnu Hafró, sem er að vernda fisk til að geta (kannski) veitt meira seinna.

Íslenska þjóðin hefur mátt súpa seyðið af þerri stefnu í aldarfjórðung og er þar ekkert lát á. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband