Fiskveiðistjórn - vöxtur sjávarfiska er háður þéttleika

Vöxtur fiska ræðst ekki einungis af þeirri fæðu sem er fyrir hendi hverju sinni, það skiptir máli hve margir þurfa að deila henni á milli sín. Flest silungsvötn eru það sem kallað er ofsetin, fiskur þrífst ekki sem skyldi vegna þess hve margir þeir eru. Þetta má laga með grisjun, veiða mikið og ef vatnið er ekki of stórt kemur árangurinn fljótt í ljós. Fiskurinn stækkar og fitnar.

Til þess að viðhalda ástandinu verður að halda áfram að veiða mikið, sérstaklega af smáfiski. Reynslan hefur sýnt að þegar farið er að grisja vötn eykst nýliðun verulega. Þetta má skýra með því að þegar einstaklingarnir fá meiri fæðu fer hún ekki eingöngu í vöxt heldur einnig í aukna framleiðslu á ungviði. Smáfiskarnir, sílin, fá nú meira af mat og komast betur áfram í lífinu.

Því hefur löngum verið haldið fram af þeim, sem stjórna hér nýtingu, sjávarfiska að þessi lögmál gildi ekki í sjó. Stefnan hefur verið að draga úr veiðum á flestum tegundum til þess að geta veitt meira seinna, menn hafa talið að vandamál fiskveiðanna væri ofveiði. Árangurinn hefur látið á sér standa, þoirskafli hefur minnkað verulega, þyngd þorsks eftir aldri hefur verið í lágmarki lengi og beðið hefur verið eftir góðri nýliðun í tæp 30 ár. Þetta er í fullkomnu samræmi við reynsluna úr vötnunum, en einhvern veginn vilja þeir sem ráða ferðinni ekki horfast í augu við það. En víst er að nýliðun eykst ekki þótt reynt sé að auka hrygningu með friðun hrygningarfiska á vertíðinni. Það er rökrétt því reynslan sýnir að það er ekki pláss fyrir ungviði í fiskstofni, sem býr við fæðuskort.

En vísindamenn vissu betur hér áður fyrr. Í "Fiskunum" , sem komu út 1926 segir Bjarni Sæmundsson frá því að kolinn vaxi ekki sé stofninn of þéttur. Gefum Bjarna orðið:
Skarkoli0001
Aldur skarkolans og annara fiska af flyðrurættinni, má best sjá á kvörnunum. Vöxtur hans og þroski er, eins og margra annara fiska, æði ólíkur, eftir því hvar er, og hefir hitinn þar mikil áhrif : hann er seinn i köldum sjó, en örvast með hitanum. Skarkolar úr Barentshafi hafa t. d. verið fluttir suður í Norðursjó, mældir og merktir og slept þar og sýnt miklu örari vöxt, endurveiddir. Eins hefir verið sýnt hér við land, með merkingu, að hann vex tvöfalt hraðara i hlýja, en í kalda sjónum, Einnig hefir fæðan mikið að segja.

Það getur stundum farið svo, að meira safnist saman af ungviði á einhverju svæði, en það, að fæða verði nægileg; kemur þá kyrkingur i stóðið, svo að það vex mjög seint og þrifst illa; en fiskurinn er mjög staðbundinn á þessu reki og leitar lítið burtu, i betra "haglendi". En ef menn veiða hann og flytja þangað, sem betra er, braggast hann fljótt og stækkar.

Þetta hafa Danir fært sér í nyt síðan um síðustu aldamót; þeir hafa tekið skarkolaseiði í stórhópum af óhentugum svæðum í Limafirði, og flutt þau á betri svæði i firðinum og fengið ómakið margborgað, eins og áður er sagt frá.

Þannig var það.....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Hugmyndasnauðir stjórnmálamenn sjá enga aðrar leiðir en að taka lán og hækka skatta til að fóðra  sérfræðinga- og stofnanaveldið, sem vill komast í ESB til að geta haldið áfram að vaxa í ósjálfbærni, svo enginn þurfi framar að afla tekna.

Sigurður Þórðarson, 13.3.2012 kl. 19:33

2 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Jón góð grein hjá þér, hvenær skyldi þögguninni vera aflétt af hugmyndum þínum og skoðunum. En því miður er þessi þöggun á miklu fleiri sviðum í okkar þjóðfélagi það er ég löngu búinn að sjá.

Kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 13.3.2012 kl. 20:56

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæll! Áhugaverð og lærdómsrík grein,takk mb.kv.

Helga Kristjánsdóttir, 14.3.2012 kl. 02:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband