Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Væntanlegar breytingar á fiskveiðistefnu ESB

Komið er út fréttabréf frá ESB, þar sem fyrirhugaðar breytingar á fiskveiðistefnunni, CFP, eru útskýrðar. Breytingarnar fela í sér að taka upp framseljanlegt kvótakerfi og innleiða bann við brottkasti (!).

Þeir telja að flotarnir séu enn of stórir, að enn þurfi að skera þá niður til að forðast ofveiði. Þetta er nokkuð sérstakt þar sem td. botnfiskfloti Breta hefur minnkað um 70-80% sl. 10 ár og sóknin í Norðursjó hafi dregist gríðarlega saman. Samt er enn ofveiði.

Þetta er nokkuð klassiskt, menn halda að öll vandamál megi leysa með samdrætti í veiðum. Búið er að reyna þetta hér heima í 30 ár með skelfilegum árangri. Enn vilja menn þó bæta um betur; alfriða svartfugl og margir halda að galdurinn sé að friða loðnu.
ND Haddock

Bretar eru með framseljanlega kvóta en þegar (bolfisk eða humar) kvótar losna eru þeir keyptir upp af ríku uppsjávarútgerðunum, jafnvel þó þeir veiði ekki þorsk og ýsu. Þeir eru að fjárfesta í kvótum, engar hefðbundnar botnfiskútgerðir hafa neinn séns til að bjóða á mót þeim, segja mér vinir mínir í Skotlandi. Þetta er skuggaleg þróun, sem við köllum yfir okkur með inngöngu í ESB. Greinilegt er af fréttabréfinu að ekki er gert ráð fyrir neinum undanþágum til einstakra ríkja. Það verður eitt fyrir alla.

Ég hef rannsakað fisk úr Norðursjó en þar er smáfiskur yfirgnæfandi. Þetta er ekki ungviði heldur fullorðinn (kynþroska) hægvaxta smáfiskur. Þorskurinn fer ekki að vaxa fyrr en hann gerist fiskæta, éta ýsu eða bræður sína.NS Cod

 

Efri myndin sýnir kynþroska 5 ára ýsa í smásíldarstærð, sú neðri horaðan þorsk um 35 sm að lengd, enn að keppa við ýsuna um fæði. 

Lítið gagn í að friða svona fisk.
 


1000 störf, lægra fiskverð til neytenda og "penger i lommen" : Hafnar Steingrímur tilboðinu?

Samtök íslenskra fiskimanna sendu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu tilboð upp á ríflega einn og hálfan milljarð króna fyrir aflaheimildir á þorski, ýsu og ufsa.

Jón Bjarnason hafnaði þessu tilboði á síðasta degi sínum í embætti. Nú vill sambandið freista þess að nýr ráðherra sjái málið í öðru ljósi og sendi aftur inn sama tilboðið.

„Gangi ríkið að þessu tilboði má búast við því að um þúsund ný störf verði til og það kostar ríkið ekki neitt, heldur þvert á móti fær ríkið greitt fyrir að skapa þessi störf. Ég veit ekki til þess að þessari ríkisstjórn hafi verið boðið slíkt tilboð áður,“ sagði Jón Gunnar Björgvinsson formaður Samtaka íslenskra fiskimanna.

Hann telur einnig miklar líkur á að fiskverð til íslenskra neytenda lækki með auknu framboði á innlendum fiskmörkuðum.

Þetta er úr frétt Rúv, sem  fór í loftið fyrsta frétt fimmtudaginn 19. janúar. Merkilegt nokk var hún aldrei lesin aftur, en venjulega er athyglisverðum fréttum gerð betri skil síðar, í sex fréttum útvarps eða fréttum sjónvarps, því fjögur fréttir fara framhjá mörgum.

Mig grunar að þarna hafi verið kippt í spotta, málið væri óþægilegt fyrir "eigendur" kvótans. 

Bláa höndin? 
 


Aukinn þorskkvóti í vor?

Steingrímur fullyrðir að þorskkvótinn verði aukinn í vor. Annað hvort trúir hann blint á það sem Hafró sagði sl. vor eða hann hefur nýjar upplýsingar. Ekki var farið í stofnrannsókn í haust vegna verkfalls og engar opinberar upplýsingar hafa komið um ástand stofnsins. Ég vona að Steingrími bregði ekki í vor, ef í ljós kemur að stofninn hafi ekki aukist.

4+ 

Ég skrifaði um þetta í maí í fyrra og sagði þá: "Það eru líkur á lækkun þorskvísitölu vegna þess að hlutfall stærri og eldri fisks er hátt og hann virðist þrífast vel á yngri bræðrum sínum, sem fer fækkandi og eru illa haldnir. Þar sem fiskur hefur ekki eilíft líf, mun stærri fiski fara fækkandi. Enn er beðið eftir nýliðun, sem lætur standa á sér vegna hungurs hjá ungfiski, sem eins og áður sagði, fer aðallega í fóður hjá þeim stærri".

Myndin sýnir hvernig vísitalan rís alltaf í 4 ár en fellur svo. Er komið að því? 


mbl.is 20-25 milljarða loðnuvertíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húrra fyrir nýrri þekkingu í náttúrufræði!

Það á ekki af okkur að ganga Íslendingum. Búið er að skammta þorskafla í tæp 30 ár til í von um það að stofninn stækki. Árangurinn er minni en enginn, minnkandi stofn og horaður fiskur. Nú á að beita sömu aðferð á sveltandi fugla:

"Starfshópur, sem Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra skipaði í september um verndun og endurreisn svartfuglastofna, leggur m.a. til að fimm tegundir sjófugla af svartfuglaætt verði friðaðar fyrir öllum veiðum og nýtingu næstu fimm árin", segir í fréttinni.

"Starfshópurinn telur helstu orsakir hnignunar stofnanna vera fæðuskort en telur að tímabundið bann við veiðum og nýtingu muni flýta fyrir endurreisn þeirra".

Þessar tillögur ganga í berhögg við alla núverandi þekkingu og reynslu í vistfræði og almennum búskap. Ef búfénaður og önnur dýr svelta er einungis hægt að laga ástand þeirra á tvennan hátt. Annað hvort með því að auka fóðurgjöf eða fækka á fóðrum.

Vitlausasta sem hægt er að gera er að friða sveltandi dýrastofn, fugl eða fisk, í þeirri von að þeir braggist.

Sennilega myndi ekki hjálpa að slátra fuglum kerfisbundið til að bæta ástandið því fiskurinn hefur meiri áhrif á sandsílið en fuglinn. En gagnslaust og ástæðulaust er að friða fugla, sem er að fækka "af sjálfu sér"

Hvernig væri að friða fæðu fuglana, sandsílið, frá áti þorsksins með því að veiða meiri þorsk?

Það verður ekki gert, því eins og amma skáldsins sagði: Heimskan er eins og eilífðin, hún á sér engan endi.

Meira um fugl, þorsk, sandsíli og loðnu.


mbl.is Vilja friða 5 tegundir af svartfugli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar ESB að nota ónýtu íslensku lausnina við fiskveiðistjórnun?

Eitt af markmiðum með væntanlegum breytingu á fiskveiðistefnu ESB er að stækka fiskistofna þannig að þeir skili hámarks-jafnstöðuafla (á ensku MSY), sem við á íslensku getum skammstafað HJA.
Nýlega var haldinn kynningarfundur til að skýra út í hverju HJA fælist og hvernig ætti að ná markmiðinu.

Jú það var að draga úr veiðum og hvíla miðin þannig að fiskurinn fengi að taka út vöxt áður en hann væri veiddur. Nú væri veiðin allt of mikil, stofnarnir gætu ekki byggt sig upp. Ef unnt væri að stjórna Evrópuveiðinni með HJA yrði aflinn 13 miljónir tonna en væri nú aðeins 6 milljónir tonna. Þyrfti því að tvöfalda stofnana til að ná markmiðinu um hámarks-jafnstöðuafla, HJA. Best væri að gera þetta á sem stystum tíma; helst að hætta veiðum alveg í 3 ár og veita sjómönnum hagstæð lán á meðan. Að þessum tíma liðnum hefðu stofnarnir þrefaldast ....

Þetta hef ég heyrt áður, fyrst 1983 frá Ragnari Árnasyni, sem sagði að stöðvun veiða væri besta fjárfestingin, sem til væri og aftur 2007, þegar Geir Haarde sagði að við værum svo rík þjóð að við hefðum efni á að hætta veiðum meðan verið væri að byggja upp stofnana.

Fyrir þá sem ekki vita það þá hefur hvergi tekist að byggja upp stofna með friðun því það er ekki veiðin sem hefur mest áhrif á stærð fiskstofna, heldur fæðuframboð, samkeppni, afrán og fjölmargir aðrir þættir.

Fiskibankar hafa nefnilega þann eiginleika innistæðan vex og vextirnir hækka þegar tekið er út úr þeim.

Þetta plan ESB er hreint ótrúlegt og ég á erfitt með því að trúa að jafnvel tölvufiskifræðingar séu svona vitlausir. Þeir hljóta að gera þetta gegn betri vitund, - og þó.


Blogg ESBHér er að finna slóð á kynningu þessara ótrúlegu áætlana.

Verð að bæta því við að Össur sagði hróðugur að ESB væri að stefna að kerfi eins og okkar. Í orðunum lá að okkar kvótakerfi væri gott og til eftiröpunar.

Einn þátturinn í því eru skyndilokanir til að vernda smáfisk, svo hann megi stækka. Myndin sýnir eina þá síðustu, Faxaflóinn lokaður upp í fjörur að norðan!


Sveigjanlegra fiskveiðikerfi kemur öllum til góða

Í Færeyjum er notast við dagakerfi til að stjórna fiskveiðum. Skipin mega vera úti í ákveðið marga og mega þá veiða eins mikið og þau geta af hvaða tegund sem er. Uppsjávarfiskur er undanskilinn en á honum er kvóti svipað og hér.

LifurMyndSkortur hefur verið á lifur í Færeyjum, en einungis 8 togarar og einn línubátur hafa lagt upp lifur, sem fer  til vinnslu hjá Biotec á Eiði.

Bæði útgerðir og sjómenn hafa hag af því að landa lifur því mannskapurinn fær lifrarpeninga og útgerðin fleiri fiskidaga. Lifrarkílóið selst á 135 kr ísl. og ráðuneytið úthlutar togurunum samtals 167 auka fiskidaga fyrir að hirða lifur. 

Allir ánægðir.

Þetta er nokkuð snjallari lausn en á Íslandi, þar sem menn eru skyldaðir með lagaboði til að "koma með allt í land".

Vert er að geta þess að Lýsi h.f. verður að flytur inn lifur - frá Færeyjum m.a.


Sandsílið, lundinn og týnda kynslóðin - Bottom-up?

Titillinn vísar til þeirrar hugmyndafræði að dýrastofnum sé stjórnað neðan frá, þ.e. að fæðan ákvarði velgengni stofnanna (bottom-up).

Þetta er andstaðan við ofan frá-niður, að dýrastofnum sé stjórnað með því að þeir séu veiddir eða étnir, (top-down).

Í kvöld var á Rúvinu viðtal við Arnþór Garðarsson prófessor í dýrafræði um ástæður fækkuna sjófugla og kríu hér við land, stofna sem háðir eru sandsíli eða loðnu sér og unga sinna til viðurværis. Arnþór var eindregið þeirrar skoðunar að stofnar sjófugla stjórnuðust af fæðu og að "eitthvað hefði komið fyrir hana" en rannsóknir á grunnsævi, sem skýrt gætu brotthvarf átu sandsíla, skorti algjörlega, rannsóknaskipin flytu ekki svona grunnt.

Ekki nefndi hann einu orði að brotthvarf sandsíla gæti verið vegna þess að þau hafi verið étin af þorski. ýsu eða öðrum ránfiskum. Það má alls ekki nefna þennan möguleika!

Það þarf ekki að vera þannig að fiskar hafi ofétið sandsílin, en því má ekki ræða þennan möguleika?

Merkilegt er að fræðimenn telja að eina rándýrið sem hafi áhrif á dýrastofna sé maðurinn, en yfirleitt eru allar breytingar á fiskstofnum raktar til ofveiði manna og einu stjórnunaraðgerðirnar beinast að því að draga úr veiðum!

Flateyingar sögðu að sandsílið hefði horfið þegar risaganga af þorski gekk inn í fjörðinn

Margt fleira bendir til þess að fiskur éti upp bæði sandsíli og loðnu. Hvers vegna þessi feluleikur? Því má ekki ræða þetta.

Ég hef áður skrifað um þetta,  en það virðist alls ekki mögulegt að fá að ræða þessi mál. 
Útvarpið sá ekki ástæðu til tala við fleiri sérfræðinga hvað þá að að velta upp fleiri hugmyndum um rýrnun sjófuglastofnanna. Þvílík "fréttamennska", ekki má ræða neitt sem gæti sett spurningamerki við fiskveiðistefnu Hafró, sem er að vernda fisk til að geta (kannski) veitt meira seinna.

Íslenska þjóðin hefur mátt súpa seyðið af þerri stefnu í aldarfjórðung og er þar ekkert lát á. 


Sjávarútvegsmál - Er vitlaust gefið?

Aðalfundur Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda – SFÚ verður haldinn n.k. laugardag 12. nóvember á Icelandair Hótel Natura (áður Loftleiðir)

Í tengslum við aðalfundinn verður haldinn opinn fundur um sjávarútvegsmál er ber yfirskriftina „Samkeppni og fiskvinnsla – er vitlaust gefið?“ hefst fundurinn kl 14:30

Titill þessa fundar um sjávarútvegsmál minnti mig á grein sem ég skrifaði 1991(Sjómannablaðið Víkingur no. 8, september 1991) og hófst á tilvitnun í Stein Steinar :

Er vitlaust gefið?

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.
(Og allt með glöðu geði
er gjarna sett að veði).
Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,
því það er nefnilega vitlaust gefið.


Svört skýrsla

Svört skýrsla Hafró hefur enn einu sinni kynt undir umræðuna um fiskveiðistjórnun. Svo virðist sem það hafi komið mönnum að óvörum að enn skyldi lagt til að dregið yrði úr þorskafla. Þetta finnst mér einkennilegt því Hafró hefur alltaf sagt að það séu stöðugt að bætast í stofninn "lélegir árgangar". Það sem er öllu alvarlegra er sú staðreynd að með núverandi nýtingarstefnu mun verða dregið úr leyfilegum afla á hverju ári allt þar til tilviljuninni þóknast að fæða af sér "sterkan" árgang og skila honum inn í veiðina. Ef það verður 1991 árgangurinn, fer hann fyrst að skila einhverjum afla 1995, fjögurra ára gamall. Með sama niðurskurði og verið hefur síðastliðin þrjú ár, um 10% á ári, verður aflinn 1995 kominn niður í 180 þúsund tonn. Fari svo að 91 árgangurinn verði stór, og það er fyrsti batinn sem við getum vænst skv. Hafró, er viðbúið að hann verði friðaður til þess að nota megi hann í uppbyggingu stofnsins. Svo gæti það eins gerst að 91 árgangurinn og þeir sem á eftir koma verði einnig lélegir. Hvað á þá að gera?

AflaþróunÞað sem sagt var í greininni 1991 reyndist 100% rétt, en ég leit yfir þróunina 10 árum seinna, árið 2001: Myndin sýnir þorskaflann 1991-2001.

Þorskveiðin 1995 varð 169 þúsund tonn, reyndar minni en spáð var.

Alla greinina má finna hér

Árið 1998 sagði ég fyrir um það fall sem varð í þorskstofninum 2001 en þá var gömlu "ofmati" kennt um. Aftur fengum við stóran skell 2007 þegar aflamarkið var sett á 130 þús. tonn. Enn erum við að hjakka í sama farinu, 160 þús. tonnum og ýmislegt bendir til þess að þorskstofninn fari að mælast minnkandi.

Þó ég hafi alltaf haft rétt fyrir mér um þróun stofnsins í rúm 20 ár, hefur enginn sjávarútvegsráðherra séð ástæðu til að leita til mín eða viljað þiggja frá mér neinar ábendingar.

Það er sorglegt þegar menn vilja ekki nota alla þekkingu og reynslu til að auka aflann. - Mitt innsæi byggist ekki á tilviljunum, heldur þekkingu og reynslu.  


Fiskveiðistefna ESB - "GAME OVER"

Í Waterford á Írlandi var ég fenginn til að flytja erindi um skoðun mína á þeim breytingum sem ESB hyggst gera á fiskveiðistefnu sinni. Sumir stjórnmálamenn á Íslandi eru ánægðir með að ESB sé að teygja síg í áttina að hinu íslenska kvótakerfi, sem hefur af áróðursöflunum verið hælt upp í hástert.

Um 70 manns mættu á fundinn, flestir sjómenn. Ég sagði þeim sannleikann: Hvernið kerfið hefur farið með byggðir landsins og rústað efnahagi þjóðarinnar og hvernig handhafar kvótans halda stjórnvöldum í heljar greipum. Og ekki síst því að verndunastefna Hafróanna, veiða minna núna til að geta veitt meira seinna, hefur beðið afhroð. Eftir 30 ára tilraunastarfssem, þar sem útkomann er alltaf neikvæð, er kominn tími til að enda tölvuleikinn: "GAME OVER"waterford

Andstaða fundarins við breytingarnar, sem felast í því að taka upp framseljanlega kvóta og banna brottkast, var algjör. Framsalið leiddi til að þeir veikar yrðu keyptir upp og skipin myndu verða hættuleg ef ætti að hirða allt sem kemur á dekk, draslið og úrgaqnginn. Í lestinni myndi það úldna og skemma annan afla, væri það geymt á dekki breytti það stöðugleika skipsins. Ekki væri vitað að nein þjóð hefði beðið um svona kerfi, sennilega kæmi þetta beint frá Brussel.

Írar hafa misst miklar veiðiheimildir til annara ESB þjóða og reyna árangurslaust að fá þær til baka. Þeir ráða einungis yfir 18 % aflaheimilda í sinni eigin landhelgi. 


Er nú rækjan orðin hryggdýr?

Og líka orðin að fiski? - Rækja er krabbadýr.

Stjórn rækjuveiða er eitthvað það fíflalegasta sem stofnunin á Skúlagötunni hefur tekið sér fyrir hendur. Rækjustofnar sveiflast ógurlega án þess að unnt sé að tengja það veiðum á nokkurn hátt. Rækjan hefur pomsast niður þó veitt hafi verið eftir ráðgjöf og virðist svo risa að nýju upp úr þurru. Mælingar sveiflast frá ári til árs sem sýna óvissu mælinganna.

Til að kóróna delluna eru rækjuveiðar stöðvaðar ef þorskur er á svæðinu, væntanlega að éta rækju. Væri ekki nær að breyta honum í peninga og veiða svo rækjuna sem hann hefði étið.

Mætti ekki skera niður þessar rækjumælingar og setja peningana í (geð) heilbrigðiskerfið?


mbl.is Rækju vex fiskur um hrygg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband