Færsluflokkur: Vísindi og fræði
14.12.2012 | 11:43
Kafnaði síldin í Kolgrafarfirði?
"Vísindamenn" segjast ekki hafa skýringar á ástæðum þess að síld gengur á land og drepst í Kolgrafarfirði á Snæfellsnesi.
Menn eru ekki enn farnir að sjá það sem liggur á botni fjarðarins, en síldin er líklega að drepast úr súrefnisskorti. Hún er að kafna. Þarna var megnið af stofninum saman komið. Fjörðurinn er þröngur, nánast lokaður við brúna, lítil endurnýjun vatns og engin súrefnisframleiðsla frá plöntusvifi um miðjan vetur. Síldin hefur því að öllum líkindum klárað súrefnið og drepist. Svipaður síldardauði varð í Noregi snemma á síðustu öld eins og lesa má hér að neðan:
Í Eidfirði í Vesterålen sýndist mönnum, sem óveður væri í mynni fjarðarins. Þarna var á ferðinni síld, sem sullaðist inn fjörðinn og fljótlega sauð fjörðurinn af síld. Magnið var gífurlegt og menn komu með landnætur til að króa af síldina. Stóð þar nót við nót inn allan fjörð með tugum þúsunda tonna af síld.
Allir drifu síg í að veiða og salta. Söltunarplön voru settar upp, skip komu með salt og tunnur, fóru út fulllestuð og önnur komu í staðinn. Skipaumferðin var gífurleg og vinnslan á fullu. - En svo gerðist það.
Síldin drapst úr súrefnisskorti og steinsökk til botns. Hún lagðist í þykk lög á botninn og fljótlega fór að gerja í massanum. Gasmyndun varð í rotnandi síldinni og hún lyfti sér eins og brauðdeig sem hefast.
Loks sprengdi gasið upp síldarkekkina, rotnandi síldin flaut upp eins og grautur og hana rak í stórum flekum um fjörðinn. Vindur og alda skoluðu þessu á land og allar fjörur þöktust af úldinni drullu, sem bændurnir sóttu og notuðu sem áburð í mörg ár.
En úti á firðinum ríkti kyrrð. Grúturinn úr rotnandi síldinni lá á firðinum eins og olía svo þar hreyfði ekki öldu, jafnvel vetrarstormar náðu ekki að vinna á brákinni. Fjörðurinn var lygn í mörg ár.
Smám saman varð fitan að vaxi sem rak á fjörur í stórum klumpum. Fólk safnaði þeim saman, steypti úr þeim kerti eða seldu vaxið í sápuverksmiðjur. - Fullnýting?
![]() |
Síldin syndir upp í fjöru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.11.2012 | 17:13
Horþorskur leiðir til minni kvóta - í Eystrasalti
Í júlí birtist grein í Fiskerbladet þar sem sérfræðingur frá hafrannsóknastofnun í Danmörku segir frá því að minnka þurfi þorskveiðar í Eystrasalti vegna þess að fiskurinn sé orðinn svo horaður. Þetta minnti mig óþægilega á Ísland 1983 þegar okkar þorskur féll úr hor og ráðlagður var samdráttur í veiðum til að byggja upp stofninn, eða þannig. Síðan höfum við spólað í sama hjólfarinu og tapað gífurlegum fjármunum og lagt sjávarþorpin í rúst. Ég þýddi greinina og fer hún hér á eftir:
Þrátt fyrir að þorskstofninn í Eystrasalti hafi verið í vexti frá 2007 þá ráðleggur ICES, Alþjóða hafrannsóknaráðið, að þorskkvótinn verði minnkaður um 11% á næsta ári. Þetta er vegna þess að meðalþyngs eldri þorska hefur hrapað, sennilega vegna fæðuskorts í Borgundarhólms djúpinu, þar sem megnið af þorskinum heldur sig. Eftir að þorskstofninn fór að stækka hefur þyngd flestra aldursflokka fallið. Reyndar er það svo að þyngd 4 ára og eldri þorska er sú minnsta síðan mælingar hófust á sjötta áratuginum.
Danska Hafró (DTU Aqua) hefur mælt þorsk- síldar- og brislings- stofna í öllu Eystrasalti og komist að því að megnið af þorskinum er á Borgundarhólms svæðinu (no. 25). Þar er fjöldi eldri þorska sá mesti síðan mælingar hófust, um 1960. Þó þorskstofninn hafi verið miklu stærri á níunda áratugnum, þegar metveiði var í Eystrasalti, 450 þús. tonn, var þorskurinn þá dreifður um allt svæðið og lítið var við Borgundarhólm.
Því miður fyrir þorskinn (!) eru síld og brislingur (smávaxin síldartegund) utan þess svæðis sem þorskurinn heldur sig á, en þau eru í norður- og austurhluta Eystrasalts (28 og enn norðar). Aldrei hefur verið minna af síld og brislingi, miðað við fjölda þorska á svæðinu. Þetta er væntanlega ástæðan fyrir vaxtarhrapinu hjá eldri þorski og fæðuskorturinn staðfestist enn frekar með hækkandi hlutfalli þorska með tóman maga.
Í Eystrasalti eru einungis fáar fisktegundir sem þorskurinn getur nýtt sér til fæðu , og þess vegna er að litlu að hverfa þegar ekki er nóg af síld og brislingi. Yngri þorskur er ekki eins illa staddur eins og sá stærri þar sem hann nærist aðallega á botndýrum og smákröbbum.
Þorskkvótinn hefur verið að aukast frá 2008 vegna stækkunar stofnsins og minna veiðiálags. Nýjasta stofnmæling ICES sýnir að fiskveiðidánartala sé innan settra markmiða (0,3), og að stofninn haldi áfram að stækka. Samt eru tilmælin frá ICES þau að minnka kvótann um 11% á næsta ári, til þess að halda sömu veiðidánartölu. Þetta er vegna þess að veiðidánartalan er miðuð við fjölda fiska en kvótinn er settur í tonnum.
Þó tonnakvótinn lækki verða samt veiddir fleiri fiskar vegna þess hvað þeir hafa horast mikið síðustu ár.
Þegar fiskurinn er horaður þarf fleiri stykki í kílóið, hann fellur í verði og afkoman af fiskveiðunum minnkar.
Nýtingaráætlun ESB fyrir þorsk Í Eystrasalti gerir ekki ráð fyrir visttfræðilegum þáttum eins og fæðu og útbreiðslumynstri þorsksins. ICES leggur til að gerð verði ný áætlun sem tekur tillit til þessara þátta.
Höfundar: Margit Eero og Marie Storr-Paulsen, DTU Aqua
Eftir að hafa lesið þetta fannst mér ekki annað hægt en að skrifa höfundinum og benda vinsamlega á að það væri nú ekki góð leið að friða sveltandi horþorsk í þeirri von að hann braggaðist - seinna.
Ég sendi afrit til danska sjómannasambandsins og "Fiskerbladet", en fékk engin viðbrögð frá neinum þrátt fyrir ítrekanir. Nýlega sendi ég þetta til fréttavefs á Borgundarhólmi og spurði hvað þeim fyndist um þetta en fékk þau svör frá ritstjóranum að þeir hefðu ekki skoðanir, þeir flyttu bara fréttir! Svo má líka halda því til haga að ekkert hefur birst í íslenskum fjölmiðlum um málið nema smá klausa á mbl.is, þar sem sagt var frá niðurskurði, en ekki ástæðu hans.
Hér er bréfið til Margit:
Kæra Margit
Eftir að hafa lesið greinina sem þú skrifaðir og birtist í Fiskeritidende 7. júní s.l. finnst mér það skylda mín að gera við hana faglegar athugasemdir.
Ef fiskstofn sveltur vegna þess að ekki er til nóg fæða handa öllum, þá er sóknarminnkun það versta sem gert er. Þvert á móti skal auka sóknina til að grisja stofninn þannig að meiri fæða verði eftir handa þeim sem eftir lifa. Þá eykst vöxturinn og þar með framleiðslan
Eins og segir í ráðleggingum ICES þá er gert ráð fyrir að afföllin (dánartalan) aukist vegna fæðuskortsins. Það eina sem hægt er að gera til að minnka afföll af vegum hungurs er að veiða meira. Ekki einungis fæst meiri afli heldur eykst vöxtur eftirlifandi fiska og það dregur úr afföllum vegna fæðuskorts.
Þetta er vel þekkt almenn vistfræði og hefur verið notuð við nýtingu stöðuvatna. Norski fiskifræðingurinn Knut Dahl sýndi fram á fyrir 100 árum að grisjun fiskstofna leiddi til betri vaxtar og meiri fiskgæða.
Ráðgjöfin um að minnka þorskkvóta í Eystrasalti vegna þess að þorskurinn sveltur er í andstöðu við almenna þekking í vistfræði og heilbrigð búvísindi
Svo virðist sem líffræðingar nútímans sé fastir í tölvlíkunum án þess að taka tillit til þess sem gerist í náttúrunni. Það er ekki í valdi manna að gera neitt við því að þorskurinn haldi sig á fæðurýru svæði. Ástæða þess að lítið er af síld og brislingi getur einfaldlega verið sú að þorskurinn sé langt kominn með að éta upp þessar tegundir. Lítið gagn er í að minnka veiðar á síld og brislingi, henn hefur þegar hesthúsað því sem hann nær í. Það eina rétta í þessari stöðu er að veiða meiri þorsk, það ætti að auka kvótana og smækka netmöskva.
Í nýrri grein í tímaritinu Science halda þekktir vísindamenn því fram að veljandi veiði (að veiða bara stærstu fiskana) eyðileggi fiskstofnana. Sagt var frá þessu í sjávarútvegsblaðinu Fishing News og í því tilefni skrifaði ég gein í blaðið um það hvernig veljandi veiði hefði farið illa með íslenska þorskstofninn. Hana má lesa hér
Ég bendi einnig á skýrslu mína "Aeging of Baltic Cod" en þar sem fram kemur að auðvelt er að ákvarða aldur þorska í Eystrasali og reikna út vöxt þeirra fyrr á æfinni með því að notast við hreistur. Svo virðist sem vöxtur sé mjög hægur og stöðvist að mestu við 50 cm lengd. http://www.mmedia.is/~jonkr/english/BalticAge1.pdf
Í skýrslunni sem ég skrifaði 2010 segi ég að stækkun möskva í þorskanetum muni hafa neikvæð áhrif á stofninn og leiða til lægri aflahemilda:
"Mesh sizes in fishing gear have been increased in recent years to increase selectivity that is let more small fish escape from he fishery and increase pressure, relatively of big fish. If the results from the age reading are near to be correct, this is wrong management policy that will lead to less catch and poor state of the stock in the long run. This will (as history shows) lead to further restrictions in the fishery".
Ég vona að þú gefir þér tíma til að taka þessar ábendingar mínar til athugunar.
Vinsamlegast,
JonKr.
Vísindi og fræði | Breytt 5.2.2016 kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2012 | 20:12
Grænlendingar og makríllinn. - LÍÚ stjórnar utanríkismálunum!
Ég hélt í minni einfeldni að það væri styrkur fyrir okkur Íslendinga að makríllinn væri kominn til Grænlands, fleiri rök fyrir því að makríllinn væri búinn að færa sig hingað austur og væri ekki lengur "hrein eign" ESB og Norðmanna. Ég fékk þetta ekki til að koma heim og saman, hvað var eiginlega að Steingrími? Skýringin birtist í Fréttablaðinu 13. ágúst sl. þar sem sagði:
Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdarstjóri LÍÚ, segir að eftir því sem Grænlendingar afli sér meiri veiðireynslu á makríl verði samningsstaða íslendinga erfiðari þegar kemur að því að semja um makrílveiðar úr sameiginlegum stofni. Afstaðan byggist því eingöngu á að tryggja hagsmuni Íslands.
Þar höfum við það: "Afstaðan byggist því eingöngu á að tryggja hagsmuni Íslands", sagði LÍÚ! Þeir ráða, eða virðast segja Steingrími hvað hann á að gera. Ekki þarf lengur að velkjast í vafa um hver sé handbendi hvers.
Þetta rifjar upp að þegar ég var við rækjurannsóknir á Flæmska hattinum 1995 um borð í Dalborgu EA, fór ég fram á, eftir að hafa rannsakað rækjuna á Hattinum í 4 vikur, að fá sem rannsóknaskip að taka nokkur höl á "Nefinu" á Miklabanka, en það er utan landhelgi Kanada. Tilgangurinn var að kanna hvort samstofna rækja væri í næsta nágrenni. Snorri heitinn Snorrason útgerðarmaður rak erindið við sjávarútvegsráðuneytið en Þorsteinn Pálsson var þá ráðherra. Eftir 10 daga þref fengum við neitun, og ég frétti síðar að eftir skeytasendingar milli kanadísku og íslensku Hafró, hefðu "vísindamennirnir" komist að því að þarna væri engin rækja!Ári síðar var ég þarna og þá birtist færeyskur togari, Háifossur, með leyfi til tilraunaveiða á svæðinu, sem kallað er L3. Er ekki að orðlengja það að hann fann þar mikla rækju og Færeyingar fengu að launum leyfi til rækjuveiða þarna í mörg ár. - Þar misstum við af feitum bita.
30.7.2012 | 19:29
Forstjóri Hafró kennir öðrum um hnignun ýsustofnsins
Ýsuafli hefur farið ört lækkandi undanfarin ár, í samræmi við ráðgjöf Hafró, en stofnunin leggur til ársaflann, með réttu eða röngu, og eftir því er farið. Forstjóri stofnunarinnar sagði nýlega (14/7/2012) í sjónvarpsviðtali að farið hefði verið fram úr ráðgjöf stofnunarinnar, og því hefði lendingin orðið brattari en ella.
En var farið fram úr ráðgjöfinni, eða var forstjórinn hreinlega að segja ósatt? Lítum á það.
Atburðarás afla og ráðgjafar í ýsuveiðum frá 1999 var þessi: Árið 1999 fór aflinn hressilega fram úr ráðgjöfinni eða um 30%. Árið 2000 var farið 17% fram úr, 30% 2001 og 47% árið 2002, að meðaltali
Eftir þessa framúrkeyrslu stökk ráðgjöfin fyrir árið 2002 upp um nær helming og aflinn fylgir á eftir. Aflinn óx svo í 110 þús tonn 2008, en síðan hefur hann farið hratt minnkandi, talað er um nýliðunarbrest og að til gæti komið að stöðva þurfi ýsuveiðar á Suðurlandi. Svona er komið þótt ráðgjöfinni hafi verið fylgt 100 %
Í frétt stöðvar 2 þann 14. júlí 2012, sagði forstjóri Hafró m.a:
...."við lögðum til töluvert, hvað eigum við að segja, vægari sókn svo þessir árgangar myndu endst í fleiri ár, það var okkar tillaga, en það var ekki farið fyllilega eftir því þannig að við teljum að það hefði mátt gera það skynsamlegar þannig að skellurinn hefði orðið heldur mýkri, en það breytir nú kannski ekki því að við hefðum setið uppi með þessa fjóra lélegu árganga, sem við erum núna að sjá hérna í farvatninu".Þá sagði Jóhann að erfitt væri að segja til um hvaða skýringar væru á hinni lélegu nýliðun kenningar væru um að það hafi sitt að segja að ýsan hefði tekið að færa sig í miklum mæli norður fyrir land samhliða hlýnun í sjónum, en áður var hún að mestu fyrir sunnan og vestan.
Og ekki vantaði frá honum góð ráð:
..."að ýsunni takist ekki eins vel að koma afkvæmum á legg eins og hún hefur gert á hefðbundinni slóð.... þegar tiltekið magn væri komið á land af ýsu sunnan við landið, þá yrði sókninni beint norður fyrir land."
Já einmitt, skýringin er að það hafi hlýnað. - Hvernig fer ýsan að í Norðursjónum? Mætti ekki sækja hitaþolinn ýsustofn þangað??
Það er auvirðilegt að kenna öðrum ranglega um hvernig komið er fyrir ýsunni og ömurlegt að menn með svona takmarkaða þekkingu á líffræði skulu stjórna aðal atvinnuvegi þjóðarinnar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.7.2012 | 14:43
Ekki semja um makrílinn!
Fiskveiðistjóri ESB segir að nauðsyn sé á að semja (taka af okkur veiðiréttinn) því makríll sé ofveiddur og koma verði í veg fyrir útrýmingu stofnsins. - Ofveiddur?
Það er veitt meira en ICES (Alþjóða hafrannsóknaráðið) leggur til, en er eitthvað að marka þeirra ráðgjöf? Farið hefur verið groddalega fram úr henni í Barentshafi, þorskstofninn stækkar og ICES eltir og hækkar ráðgjöfina, þvert ofan í það sem þeir ættu að gera ef þeirra ráðgjöf hefði verið rétt og framúrkeyrslan valdið ofnýtingu stofnsins.
Stofnæling á makríl er tóm vitleysa, hún er gerð á 3 ára fresti og þá með því að telja hrogn í hafinu. Ráðgjöfin er í samræmi við það, auk þess sem hún byggist á því að veiða lítið svo stofninn stækki. Þeir halda nefnilega að það sér best sé að veiða sem minnst svo stofninn stækki. Þeir hugsa ekkert um að fæðan takmarkar stærð fiskstofna og stór stofn getur étið sig út á gaddinn.
Norskir fræðingar sjá merki um ofbeit á átu í Norðurhafi, það sé einfaldlega ekki nóg fóður fyrir þessa stóru síldar-, makríl- og kolmunnastofna. Þetta getur verið ein ástæða þess að makríllinn sækir á Íslandsmið, það er að verða lítið að éta heima fyrir, - vegna of lítillar veiði.
Við eigum að halda okkar striki og láta ekki hræða okkur til hlýðni. Ef við veiðum sem áður, og þeir líka kemur væntanlega í ljós að stofninn þolir það enda er það eðli fiskstofna að bregðast við aukinni nýtingu með aukinni framleiðslu. Þarna kemur fæðan til sögunnar: Aukin veiði eykur framboð handa þeim sem eftir lifa, vöxturninn eykst svo og nýliðun. Stofninn fer jafnvel stækkandi (Barentshaf) vegna þess að fæðan nýtist betur.
Ekki semja, lærum af kolmunna samningunum!
Meðan ósamið var um hann var veitt langt umfram ráðgjöf og stofninn stækkað i stöðugt. Þegar búið var að koma böndum á veiðarnar með samningum 2005 var lögð til minni veiði og aflinn minnkaði. Sagt var að "gömul" ofveiði hefði valdið því.
Er eitthvað vit í stofnmælingu á makríl?
Í Morgunblaðinu 30. september 2010 skýrir Þorsteinn Sigurðsson hjá Hafró vankantana á stofnmælingu makríls:"Mælingar á makrílstofninum eru ýmsum vandkvæðum háðar. Í fyrsta lagi er fiskurinn ekki með sundmaga og því næst ekki endurkast með bergmálsmælingum frá makrílnum. Við bergmálsmælingar á öðrum fiskum kemur endurvarp hljóðsins að 95% frá sundmaganum. Norðmenn hafa unnið að þróun tækni til að bergmálsmæla makríl, en sú aðferð hefur ekki hlotið alþjóðlega viðurkenningu".
"Í öðru lagi er makríll mjög ofarlega í sjónum og yfir sumarmánuðina er hann ofar en botnstykki skipanna. Þessi staðreynd torveldar enn frekar bergmálsmælingar á makríl. Það er helst á haustin sem makríll leitar neðar í sjónum, en á þeim tíma er makríll lítið eða ekki í íslenskri lögsögu. "
„Þar sem bergmálsmælingar hafa ekki dugað til að fínstilla stofnmatslíkön makríls þá hefur frá árinu 1977 verið beitt eggja- eða hrognatalningu,“ segir Þorsteinn. „Í slíka leiðangra er farið þriðja hvert ár og tóku Íslendingar þátt í þeim í fyrsta skipti í ár. Leiðangrarnir stóðu frá janúar og fram í miðjan júní. Egg voru talin syðst og austast í íslensku lögsögunni í lok leiðangursins og alla leið suður í Bisqaya-flóa síðastliðinn vetur. Í eggjatalningunni eru tekin sýni með háfi úr yfirborðslögum sjávar og síðan er reiknað út miðað við fjölda eggja í hverju kasti hversu margir fiskar hrygndu það árið. Til grundvallar liggja fyrir margvíslegar upplýsingar, meðal annars úr fyrri leiðöngrum auk frjósemismælinga, þ.e. heildarfjölda hrogna í hverri hrygnu".
Þetta er nú svo mikil della að maður verður að halda um höfuðið. Hafró hætti áratuga þorskseiða talningum fyrir nokkrum árum vegna þess að ekkert vitlegt fékkst út úr þeim. Sennilega skynsamlegasta ákvörðun þeirra til þessa.

Makrílegg eru talin þriðja hvert ár á skástrikaða svæðinu. Vottur af hrognum fannst þar sem krossarnir eru, árið 2002.
Svona vinnubrögð hljóta að vera heimsmet í ágiskunum, en enginn segir neitt. Stjórnmálamenn trúa "vísindamönnunum" blint og reyna ekki einu sinni að kafa ofan í áreiðanleika ráðgjafarinnar eða reynsluna af henni í fortíðinni.
En, - Ekki semja um makrílinn!
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
14.6.2012 | 19:57
Á að útrýma handfæraveiðum?
Fiskistofa virðist vera lögst í sérstakt átak til að hindra handfæraveiðar. Frá 22. maí til dagsins í dag hefur verið beitt 23 skyndilokunum á handfæraveiðar, vegna of hás hlutfalls smáfisks í afla. Fyrir þann tíma hafði hvergi verið lokað á handfærabáta, en það sem af er ári eru skyndilokanir alls orðnar 68.
Hvað er í gangi? Er Hafró að reyna með ofurafli að vernda smáfisk til að veiða seinna, eða eru "hagsmunaaðilar" á ferðinni, sem vilja handfærin út?
Reynslan hefur sýnt og rannsóknir staðfesta að friðun smáfisks gerir aðeins ógagn. Byggist það á því að ofmergð smáfiskjar gengur hart að fæðunni, nokkuð sem leiðir til hægari vaxtar og hindrar að fæðudýrin gagnist stærri fiski því þau eru étin upp áður en þau ná að stækka. Stærri fiskar hafa því lítið val og fara að éta ungviðið.
Hér til hliðar er lýsing Bjarna Sæmundssonar á fyrirbrigðinu, skrifuð 1929 þegar hann var á síldveiðum á "Skallagrími" í Ísafjarðardjúpi.
(Smella á mynd til að stækka)
Tíðar skyndilokanir benda til þess að mikið sé af smáfiski á miðunum, svo mikið að ekki er hægt að stunda eðlilegar veiðar meðan þorskur undir 55 cm er friðaður- til að hann geti veiðst stærri seinna. Í afla handfærabáta er er hlutfall fisks undir 55 cm 65-85%.
Ég skrifaði grein um samband skyndilokana og þorskafla árið 2001 og sagði m.a:
Ætla má að fjöldi skyndilokana sé til marks um mergð smáþorks hverju sinni og mætti því ætla að í kjölfar tíðra lokana kæmi tímabil aukins afla, í takt við hugmyndafræðina um að hann muni stækka og gefa af sér meiri afla -síðar. Samræmi virðist milli fjölda skyndilokana og afla. lokanir og afli eru í sama takti en tveimur árum eftir að fjöldi skyndilokana nær hámarki minnkar aflinn (-síðar)! Greinilega ekki það sem ætlast var til.
Vísindi og fræði | Breytt 25.1.2016 kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.6.2012 | 13:04
Hætta að veiða ýsu?
Ekki get ég samt staðist að fara nokkrum orðum um nýjustu fiskveiðiráðgjöfina. Þeir þakka sér og aflareglunni um mælda stækkun þorskstofnsins, en kenna náttúrunni um samdrátt ýsustofnsins. Sem kunnugt er hefir ýsustofninn verið á hraðri niðurleið að sögn Hafró, og ráðlagður afli farið úr 100 þúsund tonnum í liðlega 30, en alltaf hefur verið farið að ráðgjöf stofnunarinnar um afla. Og forstjórinn lét að því liggja í viðtali að jafnvel þyrfti að banna ýsuveiðar!
Um hörmungar ýsunnar segja þeir:
Meðalþyngd eldri aldursflokka er samt enn fremur lág, en þeir yngri eru um eða yfir meðallagi. Meðalþyngdin hefur verið nokkuð breytileg og yfirleitt lægri hjá stórum árgöngum. Árgangur 2003 var mjög stór og í samræmi við það mjög léttur eftir aldri. Yngstu árgangar ýsu eru metnir litlir og í samræmi við það er meðalþyngd þeirra hærri en verið hefur undanfarin ár. Lág meðalþyngd stórra árganga sést strax við tveggja ára aldur en eftir það hefur vöxtur oft verið svipaður og hjá minni árgöngum. Árin 2005–2009 var vöxtur allra árganga í stofninum hægur, en ýsustofninn var þá mjög stór. Á árunum 2010 og 2011 hefur vaxtarhraði aukist verulega.
Hér tala þeir enn um að vöxtur ýsunnar sé háður stofnstærð, stórir árgangar vaxi hægar o.s. frv. En þeir harðneita því alltaf að þetta geti átt við um þorsk!
Áfram segir um ýsuna: Árgangar 2008–2011 eru allir metnir mjög slakir, að meðaltali um 20 milljónir tveggja ára nýliða. Sá fjöldi svarar til um 16 þús. tonna heildarafla að hámarki úr hverjum þeirra miðað við að afrakstur á nýliða verði um 800 grömm, líkt og verið hefur úr árgöngum af svipaðri stærð á undanförnum áratugum.
Ýsustofninn mun minnka áfram á komandi árum þegar litlu árgangarnir frá 2008–2011 koma inn í hrygningarstofninn og líkur eru á að hann verði nálægt sögulegu lágmarki árin 2014–2015. Til að hættan á slíku verði lítil leggur Hafrannsóknastofnunin til að hámarksaflamark ýsu fiskveiðiárið 2012/2013 verði 32 þús. tonn í samræmi við fyrirliggjandi tillögu að aflareglu.
Þegar vöxtur ýsunnar hægðist hefði átt að auka veiðar, ekki einungis til þess að eftirlifandi fiskar yxu betur heldur til að rýma fyrir nýliðun. Nú eru þer að súpa seyðið af því; nýliðun hefur verið arfaslök frá 2008, væntanlega vegna fæðuskorts og plássleysis fyrir ungviði.Auk þess að vera úti á túni í veiðiráðgjöfinni eru þeir ekki í neinu sambandi við umhverfi fiskveiðanna. Lítill ýsukvóti á þessu fiskveiðiári hefur verið til vandræða og enn versnar það. Vegna skorts á ýsukvóta geta menn ekki veitt aðrar tegundir, nema þá að henda fiski eða gera það sem sjómenn vilja helst ekki, landa aukaafla og láta andvirðið renna í sjóði Hafró.
Í hvaða heimi lifa menn sem vilja banna ýsuveiðar til að vernda ýsustofninn? Er ekki stofnunin annars orðin hagsmunatengd: veiðibann á lúðu, smáfiskafriðun og aukinn niðurskurður færir þeim meiri tekjur í kassann.
Vísindi og fræði | Breytt 13.6.2012 kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
26.5.2012 | 14:29
Vistarbandið og einokunin - kreppa fiskveiðanna
Á síðari hluta miðalda fór þjóðinni að hnigna vegna einokunarinnar og vistarbandsins. Frjáls verslun var afnumin og fólk mátti ekki flytja úr sveitum í þéttbýli og var þetta m.a. gert til að koma í veg fyrir að menn gætu haft fiskveiðar að aðalatvinnu.
Nú erum við að sigla inn í sama ástand, einokunin er komin aftur, Bogesen einn má gera út, allir vinna hjá honum og vei þeim sem segir eitthvað ljótt um vinnuveitandann.Vistarbandið er einnig komið aftur, fólk getur ekki flutt af landsbyggðinni vegna þess að eignir þar hafa fallið í verði og fólk getur heldur ekki flutt úr þéttbýlinu á landsbyggðina því þar er ekki vinnu að hafa - nema hjá Bogesen.
Auk þessa eru Íslendingar aftur komnir í sjálfsstæðisbaráttu eftir um 100 ára frelsi.- Nú við ESB og Kína.Sagan endurtekur sig
Í pistli á vísindavef háskólans eftir Gunnar Karlsson segir svo um vistarbandið:
Það er sagt vera algengt í vanþróuðum landbúnaðarsamfélögum að fólk leitist við að takmarka aðra atvinnuvegi, svo sem verslun, og loka þá úti frá samfélaginu.
Á Íslandi kemur andúð á verslun fram strax í Íslendingasögum, einkum verslun sem er stunduð í ábataskyni. Á sama tíma er líka tekið að takmarka leyfi fólks til að stofna heimili án þess að hafa jarðnæði og búfé til að lifa á, og hefur því banni einkum verið stefnt gegn því að hafa fiskveiðar að aðalatvinnu.
Slíkar takmarkanir á öðrum búskap en sveitabúskap ganga í gegnum Íslandssöguna í dálítið ólíkum og misströngum myndum. Svo seint sem árið 1887 samþykkti Alþingi lög, sem gengu í gildi árið eftir, þar sem mönnum var bannað að setjast að í þurrabúð nema með skriflegu leyfi hreppsnefndar, eftir að hafa sannað með vottorðum tveggja skilríkra manna að þeir væru reglumenn og ráðdeildarsamir.
Tvennt gat einkum vakað fyrir þeim sem vildu takmarka þéttbýlismyndun. Annars vegar var því trúað, með réttu eða röngu, að fiskveiðar væru stopulli atvinnuvegur en landbúnaður. Því væri meiri hætta á að fólk sem lifði á fiskveiðum yrði bjargþrota og lenti á ómagaframfæri hjá bændum. Þessi ótti endurspeglast í lagaákvæðum um að búðseta sé háð leyfi hreppsbúa eða fyrirliða þeirra og hreppsbændur ábyrgir ef búðsetumenn gætu ekki bjargað sér sjálfir.
Hins vegar gera sagnfræðingar nú jafnan ráð fyrir að það hafi ráðið miklu um afstöðu efnaðra bænda, þeirra á meðal flestra embættismanna landsins, að þeir hafi óttast að missa vinnuafl til sjávarsíðunnar og að þurfa að keppa við sjávarútveg um vinnufólk. Bak við umhyggju löggjafans fyrir óforsjálu fólki sem elti svipulan sjávarafla út úr öryggi sveitanna þykjast fræðimenn greina ágjarna tilhneigingu til að einoka vinnuafl landsmanna í þágu landbúnaðar.
Að vísu gerðu margir auðugir bændur og embættismenn út fiskibáta á vertíðum, en þá gátu þeir notað vistarbandið til að láta vinnumenn sína róa á sjó, draga húsbændum sínum afla og fá aðeins brot af verðmæti hans greitt í laun (kannast einhver við þetta?). Aldrei verður skorið úr því með vissu hvort þessara tveggja sjónarmiða réði meiru um andúð ráðandi afla í samfélaginu á þéttbýlismyndun í sjávarþorpum. Um það verður hver að hafa þá skoðun sem honum þykir sennilegust.
----------------------------
Athyglisverð lesning með beina tengingu í nútímann. Sagan er að endurtaka sig:
Ef við skiptum "auðugum bændum og embættismönnum" út með "stórútgerðarmönnum" erum við að lýsa ástandi dagsins í dag eins og það birtist í auglýsingum frá stórútgerðinni og tómthúsmönnum hennar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.5.2012 | 18:21
Höfum við gengið til góðs? - 20 ára afmæli greinar um vanþekkingu
Alltaf gott að halda upp á afmæli, jafnvel þó ekkert hafi breyst.
Hér er grein sem ég skrifaði í Sjómannablaðið Víking fyrir 20 árum (Víkingur, Júní 1992, 6. tbl. bls. 27):
"Þótt alkunna sé að sveiflur eru meira einkennandi fyrir dýrastofna en stöðugleiki, virðast breytingar á fiskgengd alltaf koma mönnum jafn mikið á óvart. Og enn heldur maðurinn, æðsta dýr jarðarinnar, að það hafi verið honum að kenna og að hann geti breytt þar um. Nægir þar tal um meinta ofveiði á þorski og að kenna veiðum á hrygningarstöðvum þorsks um nýliðunarbrest, svo sem friðunaraðgerðir á þessum vetri hafa staðfest. Þetta er ekki nýtt af nálinni eins og sést á eftirfarandi úrklippu úr formála að "Fiskunum" eftir Bjarna Sæmundsson frá árinu 1926. Eftir lesturinn hvarflar hugurinn að því hvort þekkingunni hafi virkilega ekkert miðað og hversu lengi við eigum eftir að ræða á sömu nótum".
Gefum Bjarna Sæmundssyni orðið, í formála að Fiskunum 1926:Annars hygg ég, að einmitt þetta atriði: að fá því svarað, hvernig fiskigöngur haga sér, verði i framtíðinni eitt af aðal verkefnum fiskirannsóknanna og er líka það, sem fiskimenn fýsir einna mest að vita, enda er það skiljanlegt, því að á því veltur að jafnaði fyrst og fremst öll útkoma fiskveiðanna í það og það skiftið, hvort fiskurinn kemur á hinar vanalegu stöðvar, þar sem menn eiga von á honum. Það er þvi næsta skiljanlegt, að fiskimenn hafi frá alda öðli reynt að reikna út fiskigöngurnar eða spá um þær. En um þessa útreikninga manna á fiskigöngunum er það því miður að segja, að þeir hafa ekki ætíð reynst réttir, sem ekki er að furða, þegar reiknað hefir verið með óþektunm stærðum, eða menn ímynda sér það sem nauðsynlegt var að vita. Þess vegna var mönnum (og er jafnvel enn) oft hætt við því að grípa það sem hendinni var næst sem orsakir til þess, að útreikningarnir reyndust skakkir, þ. e. að fiskurinn kom ekki á sínar vanalegu stöðvar. Og orsakirnar voru (og eru oft enn) að þeirra dómi tíðast mennirnir og þeirra athafnir. Oftast voru það ill áhrif frá aðkomuskipum, útlendum eða innlendum; þau drógu fiskinn á djúpið og héldu honum þar við niðurburðinn eða veiddu fiskinn upp, svo að ekkert varð eftir handa heimamönnum; eða það var tálbeita, sem allir gátu ekki aflað sér, moldrök í sjóinn, sem fældi fiskinn o. s. frv.
Á síðustu öld bættist askan frá gufuskipunum og vélaskröltið (og á þessari öld jafnvel mótorskellirnir) við. En ekkert hefir þó líklega gefið mönnum jafn illan grun á sér í þessu sambandi og hvalveiðarnar og botnvörpuveiðarnar. Hvalveiðarnar áttu að hafa sérstaklega óheppileg áhrif á göngur síldarinnar að landi og inn á firði, en botnvörpuveiðarnar á aðrar fiskigöngur og fiskveiðar. Varpan átti að umróta botninum og eyða um leið öllum gróðri hans og hrognum fiska, jafnvel þeim sem aldrei eru í botni (eins og þorsksins), drepa alt ungviði unnvörpum og flæma allan fisk af miðunum. Hér skal ekki farið að ræða um það, við hve mikil rök ýmis af þessum atriðum höfðu að styðjast, því að sum þeirra koma til tals í bókinni. Þó skal það tekið fram hér, að nægar upplýsingar eru til um það, að fiskur hefir oft brugðist áður eins og líka ber við enn án þess að auðið væri um að kenna neinu af því, sem hér hefir verið minst á, og að mönnum hættir oft mjög við því, að vitna aðeins i síðustu ára reynslu, en gleyma öllu því sem áður hefir komið fyrir.
En tímarnir breytast, og það hygg ég óhætt að segja, að mjög eru nú skoðanir fiskimanna farnar að breytast í þessu tilliti, stafar það sumpart af fenginni reynslu, sumpart af ýmsu þvi, sem sjó- og fiskirannsóknirnar hafa leitt í ljós. Þó að þær séu aðeins skamt á veg komnar enn, þá hafa þær þó ótvírætt sýnt fram á, að fiskarnir eru í göngum sínum eins og í öðrum lífsháttum, fyrst og fremst háðir ástandi sjávarins og þeim skilyrðum, sem það skapar, hvað fæðu og hrygningu snertir, og munu þess verða nefnd ýmis dæmi i bókinni.
Hefur umræðan eitthvað breyst? - Ó nei.
Fleiri afmælisgreinar verða dregnar fram á næstunni.
Vísindi og fræði | Breytt 5.5.2017 kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.5.2012 | 13:59
Reynslan af Íslandsmiðum rakin í grein í Fishing News
Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu í dag, 9. maí 2012:
Reynslan af stjórnun þorskveiða við Island frá 1976 styður niðurstöður rannsóknar sem nýlega var greint frá í vísindatímaritinu Science. Þetta er mat Jóns Kristjánssonar, fiskifræðings, sem kemur fram í nýjasta hefti Fishing News (FN). Fjallað var um greinina úr Science í Morgunblaðinu 25. apríl síðastliðinn (Vilja veiða og hirða allt sem hafið gefur). Þar setti hópur 18 vísindamanna víða að úr heiminum fram þá skoðun að valbundnar fiskveiðar, þar sem mið sé sótt í fáar tegundir og fiska af tiltekinni stærð, auki hvorki framleiðni né dragi úr áhrifum af fiskveiðum á vistkerfi hafsins.
Í greininni í Fishing News er haft eftir Jóni að niðurstöður vísindamannanna sem skrifuðu greinina í Science ættu að ýta við yfirvöldum fiskveiða í Evrópusambandinu og eins vísindamönnum Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES. Þær ættu að hvetja til þess að fallið verði frá viðteknum viðhorfum í fiskveiðistjórnun og tekið upp „afslappaðra" fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar.Tilraunin á Íslandsmiðum
Fishing News segir að umfangsmikil tilraun hafi hafist á Íslandsmiðum þegar erlendir fiskiskipaflotar yfírgáfu miðin 1976. Við hafi tekið róttækar breytingar. Möskvastærð botnvarpa hafi verið stækkuð úr 120 mm í 155 mm til að vernda smáþorsk. Þetta hafi valdið þvi að veiðin færðist upp í aldursröð þorsksins. Þessu hafi fylgt að dregið hafi úr vexti fiskanna miðað við aldur, sem benti til fæðuskorts, og þyngd sex ára þorska farið úr fjórum í þrjú kíló. Landaður afli minnkaði og 1984 var tekið upp kvótakerfi, aflamarkskerfí. Blaðið segir að fram að þessu hafi meðal þorskafli á Íslandsmiðum verið um 450.000 tonn á ári um langa hríð. Eftir breytingarnar hafi þorskveiðin minnkað niður í um 150.000 tonn á ári og nú sé þorskkvótinn 170.000 tonn á ári. Í stað þess að fara aftur til fyrra fyrirkomulags hafi verið hert á fiskveiðistjórnuninni og smáfiskavernd aukin með svæðalokunum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)