Ákvörðun aflaheimilda: Er verið að grínast?

Í Fréttablaði dagsins mátti lesa eftirfarandi:

Tillögum Hafrannsóknastofnunar um ráðlagðan heildarafla í öllum tegundum er fylgt í þaula eins og undanfarin ár. Þetta er ákvörðun Gunnars Braga Sveinssonar sjávarútvegsráðherra eftir samráð í ríkisstjórn.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að Gunnar Bragi ítrekaði nauðsyn þess að stórauka fjármagn til hafrannsókna, þar sem ráðgjöf er að margra mati viss vonbrigði miðað við væntingar, eins og ráðherra tekur fram. Svara verði lykilspurningum um til dæmis hvers vegna nokkrir árgangar þorsksins eru að léttast, en kvótinn í þorski var aðeins aukinn um 5.000 tonn – í 244.000 tonn.

Er eitthvað verið að fíflast í okkur? Til hvers þurfum við sjávarútvegsráðherrra ef hann gerir ekki annað en að áframsenda tillögur Hafró athugasemdalaust?

Og í þokkabót vill hann auka fjárframlög til stofnunarinnar sem hefur einokun á rannsóknum og reyndar túlkun fyrirliggjandi gagna, svo þeir, með frekari rannsóknum, megi svara lykilspurningum um hvers vegna þorskur sé að léttast, horast.

Þeirri spurningu er einfalt að svara og alveg ókeypis: Það vantar mat!

Hvers vegna skyldi það vera? Jú, það hefur verið dregið úr sókn um nærri helming frá því sem hún var í áratugi þegar voru tekinn 400 þús. tonn úr þorskstofninum. Hrygningarstofninn hefir þrefaldast frá árinu 2000 og þó hann hafi sig allan við við að éta upp yngri árganga vantar þá enn fóður. Þetta er heldur ekki gratís því þarna er verið að láta eiga sig að veiða um 200 þús þorsktonn. Árlega er verið er að kasta á glæ öllum aflaverðmætum núverandi þorskafla!

Við þetta er að bæta að í nýjustu skýrslu Hafró hafa töflur um þyngd eftir aldri verið felldar niður og er í skýrslunni vísað í ICES pappír sem ekki finnst á netinu. Nýjasta skýrslan frá þeim er frá í fyrra. Því er ekki hægt að finna hvaða árgangar hafa verið að horast og þá hve mikið.

Erða nú!

 

VeiðihlutfallHér er mynd sem sýnir hvernig sóknin í þorskstofninn hefur minnkað, hlutfallið sem tekið er úr stofninum, svarta línan, hefur minnkað um helming. Það þýðir, með sama áframhaldi, að stofnstærðin verður að tvöfaldast ef við eigum að komast í 450 þús. tonn. Það gerist aldrei. Með óbreyttri nýtingarstefnu hjökkum við þarna og reyndar er stór hætta á að stofninn geti "hrunið".


Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn í afneitun

Nýlega kynnti ég enn einu sinni þá tilgátu að sveiflurnar í lífríki vatnsins tengdust ofmergð fiskjar, hornsíla og stundum bleikju. Fiskurinn raskaði jafnvægi fæðupýramídans með því að ofbeita krabbadýrin, sem nærast á grænþörungum þannig bláþörungarnir gætu tekið yfir og vatnið lægi golgrænt eftir. Skýrði ég þetta einnig í sjónvarpsviðtali á Stöð 2 og á Vísi.is þann 26. maí s.l.

Daginn eftir birtist þetta á fésbókarssíðu Rannsóknarstöðvarinnar en stöðinni er stjórnað af Árni Einarssyni:

"Í Mývatni verða miklar sveiflukenndar breytingar á mýflugustofnum á um 5-7 ára fresti. Þessar sveiflur bergmála um allt vistkerfið og hafa verið mjög til umræðu. Þær eru náttúrulegar í grunninn en virðast hafa magnast um 1970. Þegar lægðir eru komast andarungar ekki á legg og silungur sveltur. Þrjár kenningar eru um drifkraft sveiflnanna. Í fyrst lagi að sveiflur í veðurfari knýi þær, í öðru lagi að fiskar ráði þeim með því að éta upp mýið og í þriðja lagi að mýið sjálft ráði örlögum sínum með því að mýlirfurnar éta upp fæðu sína, kísilþörunga og lífrænar leifar á vatnsbotninum. Við getum nefnt þær veðurtilgátuna, fiskatilgátuna og mýlirfutilgátuna. Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu og enn hefur ekkert komið fram sem styður veður- og fiskatilgáturnar. Hins vegar eru eindregnar vísbendingar um að mýlirfutilgátan sé málið. En það er önnur þróun í gangi. Hér er súlurit sem sýnir tærleika Mývatns (Syðriflóa, meðaltal júlí og ágúst) frá 1973 til 2015 (hvítu súlurnar). Takið eftir að mælikvarði lóðrétta ássins er öfugur. Tíðni "bjartra" ára (með meira en 3ja metra rýni, en þá sést til botns) virðist fara minnkandi. Þetta er langtíma þróun sem líklega tengist breytingum á næringarefnaframboði í Mývatni, köfnunarefni og /eða fosfór. Ekkert bendir sérstaklega til að þessa þróun megi rekja til breytinga á fiskstofnum vatnsins." Sjá nánar hér

Enn er þverneitað þeirri tilgátu að fiskurinn komi nokkuð við sögu. Ekki hef ég séð neinar rannsóknaniðurstöður frá Ramý, sem hafna fiskitilgátunni. Eina sem lagt er á borðið eru "mér finnst" rök.

Í skýrslu erlendu sérfræðinganna sem fengnir voru til leiks varðandi Mývatn um síðustu aldamót voru nefndar tvær tilgátur til að skýra sveiflurnar:

"Rannsóknir í Mývatni hafa ekki verið fólgnar í tilraunum. Þess vegna er einungis unnt að byggja tilgátur um orsakir sveiflna í fæðukeðjunni, miðað við núverandi þekkingu, á fræðilegum grunni, og tilrauna er þörf til að prófa gildi mismunandi þátta sem koma við sögu. Til skýringar á sveiflunum munum við hér á eftir ræða tvær andstæðar tilgátur og það sem annaðhvort styður þær eða veikir miðað við þau gögn sem til eru. Fjallað verður um rannsóknir og tilraunir sem gera þyrfti til að meta á gagnrýninn hátt hugsanlegar orsakir sveiflnanna í verkefni 4 hér á eftir.

Ekki er gert ráð fyrir að önnur tilgátan útiloki hina, enda margt sameiginlegt með þeim, en með því að gera ráð fyrir því er hins vegar unnt að setja fram skýrari spurningar um það en ella hvað stjórni hverju. Einnig munum við, jafnframt því sem við fjöllum um tilgáturnar tvær, benda á helstu og alvarlegustu eyðurnar í þá þekkingu sem nú er fyrir hendi.

Fyrri tilgátan byggist á þeirri hugmynd að stofnsveiflur í Tanytarsus stjórnist af gagnkvæmu sambandi dýranna og því sem þau hafa úr að moða og að útkoman úr því samspili hafi áhrif á aðra þætti fæðukeðjunnar.

Seinni tilgátan byggist á þeirri hugmynd að sveiflurnar séu tengdar stofnsveiflum efst í fæðukeðjunni (hjá bleikju og hornsílum), sem aftur hafi áhrif á aðra þætti neðar í fæðukeðjunni."

Í framhaldinu er lagt til að rannsóknum verði beint sérstaklega að þessum þáttum. Þó bent sé á "helstu og alvarlegustu eyðurnar í þá þekkingu sem nú er fyrir hendi" er mér ekki kunnugt um neitt sérstakt átak, utan þess að skrá hornsílaafla úr stöðluðum veiðigildrum. Þá hefur Veiðimálastofnun ekki breytt neinu í sínum áherslum við vöktun á silungi, og ekki er mér kunnugt um að sá sem þar stjórnar hafi neinn skilning á fiskatilgátunni. 

Mér finnst það alvarlegur hlutur þegar stofnanir sem kenna sig við vísindi, Ramý, Líffræðistofnun HÍ og Veiðimálastofnun, neita að taka tillit til allra sjónarmiða og tilgáta sem fram koma og gefa þeim jafnt vægi í rannsóknaráherslum og hafna ákveðnum kenningum án fullnægjandi rannsókna og neita að ræða þær.

Nú fundar nefnd umhverfisráðherra um vandamál Mývatns og á að skila aðgerðaráætlun á þjóðhátíðardaginn. - Sjáum hvað þeim leggst til. 

Hornsíli Mývatn 1988      --------------------------

Árið 1988 var ástandið slæmt í Mývatni. Vatnið var fullt af hornsílum allt að 10 cm löngum. Mikill þörungablómi og vatnið grænt.

Bleikjan var mjög horuð og þessar að dauða komnar. Svona fiskar hafa ekki afl til að festast í netum og koma því ekki fram sem skyldi í rannsóknaveiðum. Þessar voru veiddar í nót. 

Skömmu eftir þetta yfirgáfu hornsílin Mývatn í stórum torfum.Bleikja Mývatn 1988


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband