Lífseig villukenning um ofveiði - réttlæting kvótakerfisins - fölsun staðreynda

Hún er lífseig villukenningin um ofveiði á þorski þrátt fyrir að "ofveiði" hafi aldrei átt sé stað. Í Fréttablaðinu á fimmtudag 15/12 var grein eftir Þórólf Mattíasson hagfræðing úr háskólanum. Þar sagði hann:

"Í kjölfar útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 50 og 200 sjómílur fylgdi mikil fjárfesting í skuttogurum og hafnarmannvirkjum. Afli Íslendinga jókst og gjaldeyrir streymdi til landsins. Gengi krónunnar styrktist og góðæri ríkti. En að því kom að þorskstofninn þoldi ekki ofsóknina og var að hruni kominn upp úr 1982-3."

Staðreyndin er hins vegar sú að vegna friðunar smáfisks, þar sem 3 ára þorskur hvarf að mestu úr aflanum, og annara sóknartakmarkana varð fæðuskortur hjá þorski vegna ofmergðar fiska og hann fór að horast niður. Sjö ára þorskar t.d. léttust úr 5,5 kg í 4,1 kg frá 1978-1983. Sjá frekari gagnrýni sem var sett fram 1984 eftir að þetta gerðist og undirbúningur kvótakerfisins var í fullum gangi.

Í sama Fréttablaði er sagt frá nýrri greiningu þeirra Bjarka Vigfússonar og Hauks Más Gestssonar, hagfræðinga Íslenska sjávarklasans. Í greiningu sinni, Verstöðin Ísland – hagfræðileg og landfræðileg samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi 1993 til 2013, segja þeir Bjarki og Haukur Már frá því hvernig miðstýrð offjárfesting í togurum og fiskvinnslum á 8. áratug síðustu aldar leiddi til ósjálfbærrar nýtingar auðlindarinnar og sársaukafullri hagræðingu, eða endurskipulagningu í íslenskum sjávarútvegi. Mér lék forvitni á að athuga þetta nánar og skoðaði frumheimildina. Þar segja þessir kappar eftirfarandi:

"Skuttogaravæðingunni, nýju frystihúsunum og stækkun landhelginnar fylgdi aukin sókn í nytjastofnana. Þannig fór þorskaflinn úr 255 þúsund tonnum árið 1971 í 460 þúsund tonn árið 1981, en það er metár í þorskafla íslenskra skipa. Þessi stóraukna sókn í nytjastofnana kringum landið, og dreifða og mikla fjárfesting í togurum og frystihúsum, var hins vegar ósjálfbær til lengdar og bera fór á alvarlegum brestum á þessu fyrirkomulagi strax um 1980. Þorskstofninn þoldi engan veginn þennan ágang og hagur út gerðarinnar vænkaðist lítið, enda gekk rekstur togaranna og frystihúsanna víða brösuglega. Um miðjan 9. áratuginn var hagræðing í íslenskum sjávarútvegi því nauðsynleg eftir offjárfestingu ára tuganna á undan, útgerðin stóð illa fjárhagslega, umframveiðigeta fiskiskipastólsins var útgerðinni þungur kostnaðarbaggi, sókn var of mikil og þorsk stofninn stefndi í verulegt óefni."

Þá segja þeir félagar: "Slæmt ástand þorskstofnsins og aflasamdráttur á 9. og 10. áratugnum var einnig áhrifamikill drifkraftur sameininga og samþjöppunar. Frá met árinu 1981, þegar þorskaflinn var 460 þúsund tonn, dróst aflinn saman í rúm 300 þúsund tonn árið 1991. Næsta áratuginn á eftir dróst aflinn enn saman, var 240 þúsund tonn árið 2001 og var svo minnstur frá lokum seinni heimsstyrjaldar árið 2008 þegar hann var aðeins 151 þúsund tonn. Síðan þá hefur gengið ágætlega að byggja upp stofninn." (leturbreyting JKr)

Þorskafli skv VerstöðinTil þess að gefa orðum sínum vægi birta þeir línurit sem þeir segja að sýni þorskafla á Íslandi 1910-2014, þó svo þorskafli sé aldrei "á landi". Undir línuritinu segir í texta: "Sókn í þorskstofninn jókst gríðarlega á 8. áratugnum í kjölfar skuttogaravæðingarinnar". Þegar að er gáð sést að þetta er hrein della, því þeir eru að sýna afla íslenskra skipa en láta hjá líða að sýna eða segja frá afla útlendinga og þar með heildaraflanum. Þegar hann er tekinn með sést að fullyrðing þeirra um gríðarlega sóknaraukningu í þorskstofninn er hrein fölsun. Sóknin ver mest 1955 þegar veidd voru 550 þúsund tonn og fór svo að minnka í kjölfar útfærslu landhelginnar, sem varð 4 sjómílur 1952 og 12 mílur 1958 en talið er að þá hafi togaraflotinn tapað 70% af sínum miðum (Þorleifur Óskarsson 1991, Íslensk togaraútgerð 1945-1970, bls.178).

Það er í hæsta máta óeðlilegt, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, þegar fræðimenn fara með svona staðlausa stafi og birta þar að auki falsað línurit um þorskafla á Íslandsmiðum. Í áratugi hefur þessi vitleysa um ofveiði riðið húsum, þetta er étið upp aftur og aftur og ekkert verið að kynna sé mótrök og svo leyfa menn sér að kenna sig við háskólasamfélag.

ÞorskafliHér fylgir hið rétta línurit af heildar þorskafla við Ísland og er afli heimamanna táknaður með rauðri línu.

Hér má sjá að hámarksaflinn var 1955 og hefur verið fallandi síðan. Nú eru menn að hjakka í rúmum 200 þúsund tonnum, og þó þeir félagar segi að ágætlega hafi gengið að byggja upp stofninn, hefur aflinn, ekki aukist heldur minnkað um helming frá upptöku kvótakerfisins.

En áfram kveða menn öfugmælavísur: Fiskurinn hefur fögur hljóð, finnst hann oft á heiðum...


Þorskurinn á niðurleið. 20% aflareglan farin að segja til sín.

Loksins kom hún, skýrslan úr haustrallinu. Um þorskinn segir:

Mynd 2"Heildarvísitala þorsks lækkaði talsvert frá árunum 2014 og 2015 og er nú svipuð og árið 2013. Hluta lækkunarinnar má rekja til lítils árgangs frá 2013 og að meðalþyngdir sumra árganga hafa lækkað frá fyrra ári. Líklegt er að lækkunin sé að mestu vegna mæliskekkju líkt og var í vorralli milli áranna 2013 og 2014."


Já einmitt, lækkunin er vegna mæliskekkju. Hér að ofan má sjá vísitölurnar og að haustvísitalan hefur verið að stíga allt frá 2008 en nú snarfellur hún.

 

Mynd 3Hér má sjá lengdardreifingu þorsks síðustu 3 ára. Í ár (svarta línan) vantar miðstykkið í stofninn miðað við í fyrra (rauða línan), fisk frá 40-70 cm. Ekki hefur hann verið veiddur markvisst umfram aðrar stæðir og skyndilokunarkerfið á að vernda allan fisk undir 55 cm. Hann virðist hafa horfið úr stofninum engum til gagns. Auðvitað kemur að því að að sóknarminnkun úr 35% í 20% komi niður á fæðu þorsksins, enda mun nú öll loðna upp étin og uppsjávarskipin verkefnalaus í vetur.

Smá ljós punktur er í þessu: Lúðuvísitalan orðin hærri en hún var 1996. Greinilegt að þetta veiða sleppa er að bera árangur þó það skili sér ekki í lúðusúpunni.


Stafar lítill þorskafli í Færeyjum af ofveiði?

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 10. desember 2016.

Því hefur mjög verið haldið á lofti undanfarið að Færeyingar hafi rústað sínum fiskstofnum með ofveiði. Étur þar hver upp eftir öðrum. Þar sé um að kenna sóknarkerfi þeirra, dagakerfinu, og fiskifræði höfundar þessa pistils.

Mér þykir rétt að benda á nokkrar staðreyndir málsins. Sóknarkerfið byggir á því að skipaflotanum er úthlutað veiðidögum eftir ákveðnu kerfi. Mega menn þá veiða að vild hvaða tegundir sem er án aflatakmarkana. Enginn heildarkvóti er heldur á flotanum. Tilgangurinn er að stjórna veiðiálaginu en ekki aflanum. Kosturinn er að þá verða skjótari viðbrögð við breytingum á fiskgegnd og enginn akkur er í brottkasti og menn koma með að landi allt sem kemur á dekk og er nýtanlegt.

Ég var kallaður til Færeyja 2001 af þáverandi sjávarútvegsráðherra sem óháður ráðgjafi en hann hafði þá fengið ráðgjöf frá færeysku Hafró um að fækka fiskidögum um 25% á þremur árum. Ég lagði til að fjöldi fiskidaga yrði óbreyttur. Aflinn jókst og þorskstofninn stækkaði. Næsta ár var lagði Hafró til að dögum yrði fækkað um 30%. Enn lagði ég til óbreytta daga og farið var eftir því. Aflinn jókst enn og stofninn stækkaði þrátt fyrir að veitt hafði verið mjög mikið umfram tillögur ríkisfiskifræðinganna.horthorskur_faereyjum.jpg

Árið 2003 var þorskur orðinn horaður og farið að hægja á vexti hans. Þá lagði ég til að fjöldi veiðidaga yrði aukinn um 15%. Rökstuddi það með því að þar sem stofninn hefði stækkað undanfarin ár hefði sóknin ekki verið næg, flotinn hefði ekki megnað að halda aftur af aukningunni og nú væri stofninn orðinn svo stór að komið væri hungurástand. Allar líkur væru á að þorskur væri farinn að drepast úr hor og því þyrfti að bæta í sóknina. Stofninn væri farinn að minnka, ekki vegna ofveiði heldur vegna fæðuskorts og þá gerði illt verra að draga úr sókn.

FærÞorskafliBlEkki var farið eftir ráðum mínum um fjölgun daga. Árið 2004 hafði dregið úr afla og enn lagði ég til aukningu á sókn. Þá sást út frá merkingum að 60 cm þorskar höfðu einungis lengst um 1 cm milli ára og hreistursrannsóknir sýndu vaxtarstöðnun við 60 cm. Ekki var farið eftir mínum ráðleggingum heldur var dregið lítillega úr sókn. Þetta var síðasta árið mitt í Færeyjum. Þorskaflinn hélt áfram að minnka og er enn lélegur.

Þegar kerfið var sett á voru veiðidagar um 50 þúsund. Árið 2001 voru þeir 41 þúsund. Þegar afli fór að minnka eftir 2003 jókst ofveiðisöngur færeyskra fiskifræðinga. Dögum var smám saman fækkað og eru þeir nú komnir niður í 19 þúsund, rúmlega helmings minnkun frá árinu 2003 þegar ég vildi bæta í. Ekki furða þótt aflinn hafi minnkað, bara af þessum sökum.

Færeyjabanki, sem er stórt grunn SV af Færeyjum hefur verið lokaður fyrir togveiðum í 25 ár og öllum veiðum frá 2008. Stór svæði á landgrunninu eru lokuð meir og minna allt árið, 10% 1990 en 50% 2015. Togveiðar eru bannaðar innan 12 mílna, aðeins litlir togbátar mega fara inn að 6 mílum til að veiða kola og annan flatfisk í þrjá mánuði á sumrin. Stór hluti grunnslóðarinnar innan 12 mílna er friðaður fyrir krókaveiði hluta ársins.

Flotinn hefur minnkað mikið. Árið 2007 voru 247 fiskiskip með veiðileyfi (tómstundabátar undanskildir) . Í ár voru gefin út 102 veiðileyfi en aðeins 72 þeirra eru notuð, um 60% fækkun skipa sem stunda veiðar á botnfiski á 8 árum. Árið 2008 voru 17 litlir trollbátar við veiðar en nú eru þeir aðeins fimm. Og enn segja fiskifræðingarnir að draga þurfi úr sókn vegna ofveiði. Þeirra orð eru svo lapin upp hér heima, og talað um að Færeyingar hafi rústað sínum fiskistofnum með ofveiði án þess að menn kynni sér allar hliðar málsins eða hafi hugmynd um þá miklu sóknarminnkun, sem orðin er frá því að dagakerfið var tekið upp.

Minna veiðiálag leiðir ekki einungis til minnkandi afla heldur líka til minnkunar fiskstofna. Þegar veitt er mikið er fiskstofni haldið í skefjum þannig að hann gengur ekki nærri fæðudýrunum, þau fá að vaxa og tímgast eðlilega og jafnvægi ríkir milli fiskanna og fæðudýranna. Þeir þrífast vel og afföll eru tiltölulega lítil. Vel haldinn fiskur hefur meiri mótstöðu gegn sjúkdómum og sníkjudýrum og á auðveldara með að flýja undan óvinum. Sé dregið úr veiðum fjölgar fiski og samkeppni um fæðuna eykst. Fiski fjölgar, meira er étið, samkeppni eykst og afföll verða meiri. Fæðuframboð minnkar vegna þess að fæðudýrin eru upp étin og lífmassi fiska minnkar. Þegar svo er komið þarf miklu færri fiska til að viðhalda ástandinu svo stofninn helst áfram lítill. Aukin afföll skrifast svo á veiðar því náttúruleg afföll eru fasti í útreikningum, 18%.

Ég er þeirrar skoðunar að engin ofveiði sé á Færeyjamiðum heldur hafi færeyskir fiskifræðingar og alþjóða hafrannsóknaráðið eyðilagt miðin með vanveiði. Og áfram skal haldið því nýlega var samþykkt 15% fækkun veiðidaga.

Togslóðir 115

Veiðislóðir togara á Færeyjamiðum, innsti hringurinn markar 12 sjómílur. Færeyjabanki SV af eyjunum.Hann er alfriðaður niður á 200 m dýpi. Þarna komu íslenskir togarar oft við í siglingum til að "bæta á".

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband