Stafar lítill þorskafli í Færeyjum af ofveiði?

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 10. desember 2016.

Því hefur mjög verið haldið á lofti undanfarið að Færeyingar hafi rústað sínum fiskstofnum með ofveiði. Étur þar hver upp eftir öðrum. Þar sé um að kenna sóknarkerfi þeirra, dagakerfinu, og fiskifræði höfundar þessa pistils.

Mér þykir rétt að benda á nokkrar staðreyndir málsins. Sóknarkerfið byggir á því að skipaflotanum er úthlutað veiðidögum eftir ákveðnu kerfi. Mega menn þá veiða að vild hvaða tegundir sem er án aflatakmarkana. Enginn heildarkvóti er heldur á flotanum. Tilgangurinn er að stjórna veiðiálaginu en ekki aflanum. Kosturinn er að þá verða skjótari viðbrögð við breytingum á fiskgegnd og enginn akkur er í brottkasti og menn koma með að landi allt sem kemur á dekk og er nýtanlegt.

Ég var kallaður til Færeyja 2001 af þáverandi sjávarútvegsráðherra sem óháður ráðgjafi en hann hafði þá fengið ráðgjöf frá færeysku Hafró um að fækka fiskidögum um 25% á þremur árum. Ég lagði til að fjöldi fiskidaga yrði óbreyttur. Aflinn jókst og þorskstofninn stækkaði. Næsta ár var lagði Hafró til að dögum yrði fækkað um 30%. Enn lagði ég til óbreytta daga og farið var eftir því. Aflinn jókst enn og stofninn stækkaði þrátt fyrir að veitt hafði verið mjög mikið umfram tillögur ríkisfiskifræðinganna.horthorskur_faereyjum.jpg

Árið 2003 var þorskur orðinn horaður og farið að hægja á vexti hans. Þá lagði ég til að fjöldi veiðidaga yrði aukinn um 15%. Rökstuddi það með því að þar sem stofninn hefði stækkað undanfarin ár hefði sóknin ekki verið næg, flotinn hefði ekki megnað að halda aftur af aukningunni og nú væri stofninn orðinn svo stór að komið væri hungurástand. Allar líkur væru á að þorskur væri farinn að drepast úr hor og því þyrfti að bæta í sóknina. Stofninn væri farinn að minnka, ekki vegna ofveiði heldur vegna fæðuskorts og þá gerði illt verra að draga úr sókn.

FærÞorskafliBlEkki var farið eftir ráðum mínum um fjölgun daga. Árið 2004 hafði dregið úr afla og enn lagði ég til aukningu á sókn. Þá sást út frá merkingum að 60 cm þorskar höfðu einungis lengst um 1 cm milli ára og hreistursrannsóknir sýndu vaxtarstöðnun við 60 cm. Ekki var farið eftir mínum ráðleggingum heldur var dregið lítillega úr sókn. Þetta var síðasta árið mitt í Færeyjum. Þorskaflinn hélt áfram að minnka og er enn lélegur.

Þegar kerfið var sett á voru veiðidagar um 50 þúsund. Árið 2001 voru þeir 41 þúsund. Þegar afli fór að minnka eftir 2003 jókst ofveiðisöngur færeyskra fiskifræðinga. Dögum var smám saman fækkað og eru þeir nú komnir niður í 19 þúsund, rúmlega helmings minnkun frá árinu 2003 þegar ég vildi bæta í. Ekki furða þótt aflinn hafi minnkað, bara af þessum sökum.

Færeyjabanki, sem er stórt grunn SV af Færeyjum hefur verið lokaður fyrir togveiðum í 25 ár og öllum veiðum frá 2008. Stór svæði á landgrunninu eru lokuð meir og minna allt árið, 10% 1990 en 50% 2015. Togveiðar eru bannaðar innan 12 mílna, aðeins litlir togbátar mega fara inn að 6 mílum til að veiða kola og annan flatfisk í þrjá mánuði á sumrin. Stór hluti grunnslóðarinnar innan 12 mílna er friðaður fyrir krókaveiði hluta ársins.

Flotinn hefur minnkað mikið. Árið 2007 voru 247 fiskiskip með veiðileyfi (tómstundabátar undanskildir) . Í ár voru gefin út 102 veiðileyfi en aðeins 72 þeirra eru notuð, um 60% fækkun skipa sem stunda veiðar á botnfiski á 8 árum. Árið 2008 voru 17 litlir trollbátar við veiðar en nú eru þeir aðeins fimm. Og enn segja fiskifræðingarnir að draga þurfi úr sókn vegna ofveiði. Þeirra orð eru svo lapin upp hér heima, og talað um að Færeyingar hafi rústað sínum fiskistofnum með ofveiði án þess að menn kynni sér allar hliðar málsins eða hafi hugmynd um þá miklu sóknarminnkun, sem orðin er frá því að dagakerfið var tekið upp.

Minna veiðiálag leiðir ekki einungis til minnkandi afla heldur líka til minnkunar fiskstofna. Þegar veitt er mikið er fiskstofni haldið í skefjum þannig að hann gengur ekki nærri fæðudýrunum, þau fá að vaxa og tímgast eðlilega og jafnvægi ríkir milli fiskanna og fæðudýranna. Þeir þrífast vel og afföll eru tiltölulega lítil. Vel haldinn fiskur hefur meiri mótstöðu gegn sjúkdómum og sníkjudýrum og á auðveldara með að flýja undan óvinum. Sé dregið úr veiðum fjölgar fiski og samkeppni um fæðuna eykst. Fiski fjölgar, meira er étið, samkeppni eykst og afföll verða meiri. Fæðuframboð minnkar vegna þess að fæðudýrin eru upp étin og lífmassi fiska minnkar. Þegar svo er komið þarf miklu færri fiska til að viðhalda ástandinu svo stofninn helst áfram lítill. Aukin afföll skrifast svo á veiðar því náttúruleg afföll eru fasti í útreikningum, 18%.

Ég er þeirrar skoðunar að engin ofveiði sé á Færeyjamiðum heldur hafi færeyskir fiskifræðingar og alþjóða hafrannsóknaráðið eyðilagt miðin með vanveiði. Og áfram skal haldið því nýlega var samþykkt 15% fækkun veiðidaga.

Togslóðir 115

Veiðislóðir togara á Færeyjamiðum, innsti hringurinn markar 12 sjómílur. Færeyjabanki SV af eyjunum.Hann er alfriðaður niður á 200 m dýpi. Þarna komu íslenskir togarar oft við í siglingum til að "bæta á".

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Mjög ítarleg og vel rökstudd grein hjá þér.  Ég held að það sama sé að gerast hér við land.  Skipstjórar hér tala um að þorskurinn sé orðinn svo stór, þeir veiði ekki lengur þorsk sem er í meðallagi og minni, þetta bendi til þess að stórþorskurinn sé farinn að éta undan sér vegna skorts á fæðu í hafinu.  Þetta rímar líka vel við það að ekki finnist loðna...

Jóhann Elíasson, 11.12.2016 kl. 14:27

2 Smámynd: Jón Kristjánsson

Rétt Jóhann. Við erum 4 sinnum búnir að gera svona friðunaræfingar og fengið skelli,  1983, 1994, 2000 og 2007. Síðasta friðun, 20% reglan, skilar meiru af stærri fiski vegna þess að hér kom makríll, sem er fóður fyrir stóran fisk, en þegar hann fer burt á haustin leggst hann á eigin afkvæmi og annara nytjafiska. Við töpum gríðarlegum afla og spurning hvenær næsti skellur kemur. Það þarf eins og Ásgeir heitinn Jak sagði: Það þarf stöðugt að erja miðin.

Jón Kristjánsson, 11.12.2016 kl. 15:18

3 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Það væri gaman að reikna út afla á veiðidag, í gengnum árin í Færeyjum.

og sjá útkomuna.

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 11.12.2016 kl. 17:51

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Slátra ánum á haustin og láta lömbin lifa. Allir vita hvernig það færi að nokkrum árum liðnum, hvað þá áratugum.

Þetta er grunnhugsunin að baki vitleysisfiskveiðistjórnun nútímans og á bæði við um Ísland og Færeyjar, auk annara landa. Þessi stjórnun er ekki byggð á vísindum, heldur getgátum, exelreiknilíkönum og hagsmunagæslu þeirra sem kvótann eiga. Svo einfalt er það og ekki orð um það meir.

Gleðileg jól Jón og bestu kveðjur úr suðurhöfum, þar sem orðið kvóti þvælist ekki fyrir nokkrum manni. Hér veiða menn eins og þeir geta, með hæfilegum fjölda skipa og aflinn vex ár frá ári, frá Magellansundið og alveg suður fyrir Cape Horn og suður úr Malvinaseyjum.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 11.12.2016 kl. 20:10

5 Smámynd: Jón Kristjánsson

Sæll Dóri

Gaman að heyra frá þér. Hvað eruð þið að veiða, botn eða uppsjávarfisk? Er ekki sumar þarna núna og blíðu veður? Kveðja, ekki af klakanum heldur arfagarðinum, þarf að fara að reyta.

Jón Kristjánsson, 11.12.2016 kl. 22:25

6 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Heill og sæll Jón. Við erum aðallega að veiða hoki og kolmunna (Southern Blue Whiting) Tökum megnið af þessu í flottroll, bæði uppi í sjó og á botninum. Einnig erum við að eltast við hake, löngu og savorin, sem er að mestu tekið í botntroll. Geiri á Tai An (stærra skipinu, 105metrar) var að koma í land með 1200tonn af frosnum afurðum, aðallega surimi eftir rétt rúman mánuð, þar af 100 tonn af tannfiski. Það gera um 4500 tonn upp úr sjó. Við á minna skipinu (65metrar)búnir að vera úti í rúma viku og búnir að fá um 550tonn upp úr sjó, 180tonn af afurðum, aðallega hokiflökum, svo hér er bara gaman. Komið hásumar, þó snjói af og til. Sæljón leika við hvurn sinn fingur og mörgæsir fljúga um loftin blá ;-).

 Ætli maður fari ekki líka í arfatýnslu, þegar heim verður komið, ef ekki fer að kólna á næstunni. Þetta er nú meira tíðarfarið.

 Góðar stundir, með bestu kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 11.12.2016 kl. 23:43

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ekki er hann skaðbrennandi áhuginn hjá stjórnmálamönnum þótt fiskifræðingur leiði fram rök sem sýna tugmilljarðatap vegna vannýttra nytjastofna þjóðarinnar.

Telja þeir sig ekki þurfa að hafa skoðun á svona smámunum?

Viðræðum um stjórnarmyndun var að ljúka án árangurs vegna þess að ekki fundust 30 milljarðar til að fullnægja brýnustu samfélagsverkefnum!

Tók ég ekki rétt eftir?

Árni Gunnarsson, 12.12.2016 kl. 23:07

8 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég er nokkuð sannfærður um að þessar kenningar þínar Jón, eru ekki staðbundnar við Færeyjar, enda styðjast þær við einföld rök af líffræðilegum toga.

Árni Gunnarsson, 12.12.2016 kl. 23:10

9 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Takk fyrir rökvissa og snarpa grein.

Guðjón E. Hreinberg, 12.12.2016 kl. 23:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband