Ráðherra framselur vald sitt til sértrúarsöfnuðar

Hér er ráðherra býsna ánægður með ástand mála og hælir Hafró á hvert reipi, stofnun sem margir líkja við sértrúarsöfnuð sem engin rökstudd gagnrýni virðist bíta á en hefur tekist að halda þorskaflanum í minna en helmingi þess sem hann var áður en þeir fengu fullt vald til þess að stjórna, nú á síðustu árum með því að halda sóknarþunganum í 20% (aflaregla) miðað við 40% á velgengnisáratugunum. Hér er glefsa úr viðtalinu:

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um aflaheimildir nýhafins fiskveiðiárs var ekki langan tíma á borði ráðherrans áður en hann afgreiddi hana án breytinga. Spurður hvort til greina hafi komið að víkja frá ráðgjöfinni segir hann að það komi alltaf til greina hverju sinni. „En þessi ráðgjöf er mjög vel rökstudd og við höfum fylgt ráðum okkar færasta fólks á þessu sviði í nokkuð langan tíma. Við gefum okkur út fyrir það að nýta með sjálfbærum hætti fiskistofnana í hafinu í kringum landið og sú stefna sem við höfum haft hefur skilað okkur á þann stað sem við erum á í dag. Ég sé því enga ástæðu til að hvika nokkuð frá henni.“

Það setur að manni ónot við svona yfirlýsingu. Ráðherrann, sem á að stjórna fiskveiðum framselur öll völd í hendur Hafró. Það er ekki að sjá að hann hafi spurt spurninga eða leitað umsagnar eða ráðgjafar frá sjómönnum eða óháðum sérfræðingum, hann bara rennir blint í sjóinn. Og ekki gerir hann sér grein fyrir því að fiskveiðistjórn snýst ekki bara um fiskifræði, hún snýst einnig um tekjur fólks og þjóðarinnar af sjávarauðlindinni svo og búsetu og byggðamál.

Þekkir ráðherra ekkert til aflabragða fyrri ára? Veit hann ekki að Hafró hefur sætt mikilli gagnrýni í áratugi? Veit hann ekki að Hafró hefur haft alla gagnrýni að engu? Veit hann ekki að fiskifræði Hafró má flokka undir trúarbrögð? Hefur hann ekki lesið skýrslu Tuma Tómassonar um ytri og innri gagnrýni á vinnubrögð og hugmyndafræði Hafró? Er honum ekki kunnugt um að HANN á að stjórna fiskveiðunum og að það er ráðherra óheimilt að framselja stjórnvald til annarra? Sennilega er honum ekki kunnugt um neitt af þessu svo ég taki nú ekki dýpra í árinni.

Ég bendi honum á að lesa "Fiskleysisguðinn" eftir Ásgeir heitinn Jakobsson, hann finnst í bókasafninu neðar í húsinu.

Þessu til skýringar er rétt að benda á að hér við land voru í áratugi veidd 4-500 þús tonn af þorski, í nær óheftri veiði með hjálp útlendinga, aðallega Breta.

Þegar við höfðum fengið full yfirráð yfir landhelginni 1976 lofaði Hafró að árlegur afli á Íslandsmiðum yrði að jafnaði um 500 þús. tonn, - væri farið að þeirra ráðum. Það var gert og árangurinn er sá að við erum að skríða í 260 þús tonn.

Sem sagt: Svikin loforð. Fákunnáttumennirnir skulu svo verðlaunaðir með því að láta þá taka alveg við stjórninni.

1. Ísland

Hér má sjá línurit yfir þorskveiði á Íslandsmiðum 1945-2015. Það skýrir sig sjálft.


mbl.is Hyggur á nýtt frumvarp um veiðigjöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Það virðist enginn munur á ráðherrum í dag, hvaða flokki sem þeir tilheyra. Aulaháttur þeirra virðist ganga jafnt yfir línuna. Flestöllum er stjórnað af embættismönnum, stofnunum eða fyrirskipunum frá Brussel. Núverandi heilbrigðisráðherra sker sig hinsvegar aðeins úr, því hún fer ekki leynt með þann ásetning sinn að rústa þeim málaflokki sem hún á að hafa umsjón með og stjórna, en það er annað mál.

 Taldi núverandi sjávarútvegsráðherra svona í skynsamari kantinum, miðað við ráðherra almennt, en nú er fullljóst að hann er við sama heygarðshornið og annað ráðherfulið. Tekur við tilskipunum frá undirsátum sínum og blessar þær í bak og fyrir, án svo mikils sem snefils af þekkingu á málaflokknum eða tilliti til annara hugsanlegra sjónarmiða. Með þeim ummælum sem að ofan eru eftir honum höfð, setur hann sjálfan sig í ruslflokk. Er ekki hætishót undrandi á síðuhafa að hafa orðið fyrir ónotum við lestur þessarar þvælu.

 Þakka góðan pistil. Línuritið ætti að líma á andlitið á núverandi sjávarútvegsráðherra.

 Góðar stundir, með kærri kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 7.9.2018 kl. 19:53

2 Smámynd: Örn Einar Hansen

Gaman að sjá þessa mynd, þarna var ég að dorga þegar ég var lítill ... enginn þorskur, en nóg af kola, svolítill steinbítur og einn og annar ufsi.

Örn Einar Hansen, 7.9.2018 kl. 21:38

3 Smámynd: Þórir Kjartansson

Mér sýnist á þessu línuriti að ógæfan byrji um það leyti sem farið var að moka upp loðnunni. Enda þrífst engin dýrategund vel án þess að hafa nóg að éta. Friðun er verri en ekki ef æti vantar.

Þórir Kjartansson, 9.9.2018 kl. 09:09

4 Smámynd: Jón Kristjánsson

Ekki kannski alveg svo einfalt Þórir. Ef veitt er mikið af loðnu þarf að veiða meira af þorski. Að veiða stöðugt minna af þorski er ekki skynsamlegt: http://jonkr.mmedia.is/lodna/lodna.html

Jón Kristjánsson, 9.9.2018 kl. 18:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband