Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Hvað gera snillingarnir nú?

Ef rollur drepast af pest er allt skorið niður, líka á bæjunum í kring. Ef sama gerist í sjónum er hægt að ljúga endalaust að okkur því það sést ekki hvað er á seiði.
Nú þarf að gefa veiðarnar frjálsar til að draga úr frekari sýkingu og "bjarga" síldinni áður en hún drepst af sjálfu sér. Síldarstofninn er sýktur af óværu sem löngu er þekkt, breiðist út með rauðátu og hefur valdið dauða í síldarstofnum annars staðar. Viðbrögðin nú voru að loka svæðum þar sem eitthvað veiddist af smásíld s.s. í Stakksfirði undan Keflavík. Sníkjudýr breiðast hraðar út þeim mun meiri sem þéttleiki fiskanna er og ef þeir eru undir álagi. Þetta er algengt í fiskedisstöðvumm þar er ráðið að rýmka um stofninn. Þeir þarna á Hafró virðast ekki gera sér ljót að viðbrögðin ættu að vera að veiða meira af síld og gefa veiðarnar frjálsar, a.m.k. í bili.

Fyrir nokkrum árum gerði Hafró mikil mistök: Þegar hörpudiskur fór að drepast í Breiðafirði stöðvuðu þeir veiðarnar til að reyna að bjarga stofninum og ollu þannig gífurlegum erfiðleikum á norðanverðu Snæfellsnesi. Ekki vissu þeir hvað olli dauða skeljanna, en töldusamt vísast að fara þessa leið. 
Við gagnrýnendur töldum að auka ætti veiðarnar til að " óþekkta fárið" breiddist ekki út. Þó ungskeljarnar dræpust í minna mæli kveikti Hafró ekki á perunni. Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna, nú í vor, að það uppgötvaðist á Keldum að þarna væri sníkjudýr á ferðinni, sem staðfesti að réttast hefði verið að auka veiðarnar á sínum tíma! Og nýleg stofnmæling Hafró leiddi í ljós - að ástandið var hvað best á svæðum sem mest hafði verið veitt á!
Er nú hægt að vaða meiri reyk?


mbl.is 60-70% síldarinnar sýkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þvílík vitleysa

Það eru alltaf snjíkjudýr í fiski alls staðar en það er ekki víst að þeir beri einkennin utan á sér og því þarf að gá að þeim og þá finnst nú ýmislegt. Ef fiskurnn verður fyrir álagi eða stressi blossa einkennin oft upp. Gísli virðist vita lítið um það að innri Faxaflói, Kollafjörður og Hvalfjörður eru fullir af hægvaxta smáýsu. Skýringin með að hún sé að sækja í ferskvatnið er dásamleg. - Ekki hef ég séð ýsuna á ferð í ferskvatnslaginu ofan á brimseltunni og því síður í Elliðaánum. Kannski maður ætti... 
mbl.is Ýsa greindist með sömu sýki og síld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfðingsskapur Færeyinga

Gott boð, en höfum við hingað til komið þannig fram við Færeyinga að við eigum þeirra höfðingsskap skilið?

Á hverju ári semja þjóðirnar um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir og eru Íslendingar grimmir í þeim samningum þó ekki stæði alltaf vel hjá frændum vorum. Hér hafa útgerðarmenn séð ofsjónum yfir þeirra heimildum.

Þá hefur það oft vakið furðu mína þegar við höfum verið að brenna inni með loðnukvótann vegna veðurs og tímaskorts, að ekki skuli hafa verið kallað í Færeyinga til þess að hjálpa okkur að ná kvótanum. Nei, heldur skyldi missa af gullinu en fara að biðja þá um aðstoð. Erum við menn til að þiggja af þeim rentulaust lán?

 

Færeyingar hafa þurft að berjast við aðra grýlu, Alþjóða hafrannsóknaráðið, ICES, sem stöðugt hefur verið að leggja til skerðingu í fiskveiðum. Þess ber að geta að í ICES mætast færeyskir og íslenskir ríkisreknir fiskifræðingar, sem láta líta svo út þegar þeir koma heim frá Kaupmannahöfn að ICES sé eitthvert "annað" batterí, sem þeir þurfi að glíma við.

Árið 2001 fengu Færeyingar tilskipun frá ráðinu um þriðjungs niðurskurð í veiðum, sem hefði þýtt mikið hallæri. Árið eftir fengu þeir svipuð fyrirmæli, en í hvorugt skiptið var þeim hlýtt og afli náði hæstu hæðum þvert á spár. Ég kom að þessu máli þá og tókst að sannfæra stjórnvöld um að ráðgjöfin væri röng. Það voru færeyskir og íslenskir fiskifræðingar, ríkisreknir, sem komu að þessari ráðgjöf. Þessir sömu menn réðust síðar að mér þegar þorskur fór í fyrirsjáanlega hefðbundna niðursveiflu, og kenndu mér um að hafa látið veiða of mikið. Sannleikurinn var hins vegar sá að þorskstofninn féll úr hungri en hungursástand skapast aldrei af ofveiði á þeim stofni sem er að horfalla.

Áfram hafa fræðingarnir róið og fyrirskipað samdrátt á hverju ári og helsta barátta stjórnvalda og sjómanna í Færeyjum er "bardaginn um fiskidagana". Með tímanum guggna sumir, líkt og hér þar sem menn hafa hreinlega gefist upp gegn "fræðingunum", óvinum fiskveiðanna, enda landið komið í þrot.

Nú vilja Færeyingar rétta okkur hjálparhönd, okkur sem reynum að skera niður veiðiheimildir þeirra hér, og leggjum til "fræðinga" sem einnig vilja láta þá skera niður afla heima fyrir. Förum við ekki að losna við þá menn? 


mbl.is Býður Færeyingum ókeypis nám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beðið eftir nýliðun (Godot)

Alltaf er verið að bíða eftir nýliðun í þorskstofninn. Nýlega bárust þær góðu fréttir úr Grímsey að þar væri allur fiskur úttroðinn af þorskseiðum. Þá væru fjörur fullar af seiðum og sögðust sjómenn aldrei hafa séð annað eins. Frá Siglufirði bárust fréttir um að ýsan væri úttroðin af seiðum.
Ekki er að furða að fiskurinn fái sér í svanginn, enda búinn að vera lengi í svelti. Þegar svo maturinn kemur skiptir ekki máli þó hann sé í formi eigin afkvæma.
Oft má sjá stóran urriða í lækjum á heiðum uppi, svo stóran að ómögulegt er að verða svona stór í litlum læk með því að éta flugur og smádýr eingöngu. Enda brúkar hann aðra aðferð. Hann hrygnir í lækjunum og þar klekjast seiði hans út. Þau safna svo fóðri allt sumarið og þegar þau eru orðin orðin stór þá éta pabbi og mamma þau. Ekki galin aðferð.
Þorskurinn étur eigin afkvæmi hikstalaust ef hann nær í þau auðveldar en annan mat. Þetta er aðferð náttúrunnar til að halda stofninum innan skynsamlegra marka í harðæri.
Og duglegur er hann: Segjum að milljón fiskar éti hver um sig 30 seiði á dag. Þá éta þeir að fjölda til góða meðalnýliðun á viku. En auðvitað hefðu ekki öll lifað, m.a. vegna þess - að þau eru étin.
Svo felast allar aðgerðir í að reyna að stækka hrygningarstofninn, og bíða með að veiða fiskinn sem étur upp útsæðið. Skynsamlegt?
Nei, eina rétta er að veiða af fullum krafti til að koma í veg fyrir hungurdauða og sjálfát og skapa gjaldeyri með því að selja fisk. Það er búið að segja þetta oft áður en hvenær skyldu stjórnendur og stjórnmálamenn fara að skilja?


Drapst lundinn örugglega úr hungri?

Þegar horaður fugl sést drepast deyr hann úr hungri en þegar horaður fiskur sést ekki drepast þá deyr hann vegna ofveiði og bátar eru brenndir til að stöðva ósómann.
Fyrir nokkrum dögum var skýrt frá því í Fréttablaðinu að mikil afföll hefðu orðið á lundapysjum (ungum) í hreiðrum í sumar. Pysjur sem enn væri lifandi væru horaðar og illa á sig komnar svo líklega ættu þær ekki framtíðina fyrir sér. Fram kom að um 80% afföll hefðu verið á pysjum í hreiðrum í sumar.
dsc00012_jpg_676257.jpgÞetta er nokkuð merkileg ályktun hjá náttúrufræðingum í Eyjum og virðast þeir lítið hafa lært af kollegum sínum, fiskifræðingum Hafró. Þó virtist að fyrr í sumar hefðu þeir tekið nokkuð mark á þeim því þegar fullorðinn fugl átti í mesta basli við að ná sér í matinn og fóðra unga sína gripu þeir til þess ráðs að leggja til friðun "hrygningarstofnsins". Veiðimenn í Eyjum voru ekki sammála og veiddu sér til matar en fóru að sögn varlegar í sakirnar en áður.
Menn eru sammála um að pysjurnar hafi dáið úr hor, - ekki verið veiddar. Hér er fuglinn greinilega að minnka stofninn og aðlaga hann að nýjum aðstæðum, fæðuskorti.
Er ekki einkennilegt að þegar sömu horeinkenni sjást hjá fiski, þá er hann friðaður til að koma í veg fyrir ofveiði. - Mæld afföll eru sögð vera vegna ofveiði! - Þarf ekki einhver að fara að læra eitthvað hjá einhverjum?

Þræðir Hafró liggja víða

Útvarpið hefur nú tvisvar talað við sjávarlíffræðing á Akureyri. Annars vegar um fisktegundir sem sjást hér í meira mæli en áður, og hins vegar um andarnefjur, sem eru inni á Akureyrarpolli mönnum til skemmtunar. Skýringarnar vöfðust fyrir sérfræðingnum, sem er ekkert merkilegt enda ómögulegt að vita alla hluti og ekki er hægt að spyrja hvalina hvað þeir séu að vilja á Pollinum, eða makrílinn um hvort honum hafi leiðst í Norðursjónum.
Það sem mér þótti hins vegar merkilegt var að sjávarlíffræðingurinn var lektor við Háskólann á Akureyri, OG - sérfræðingur hjá Hafró! Ég hefði haldið að hvort um sig væri fullt starf. Varla er þessi maður fær um að stunda svo sjálfstæðar rannsóknir sem gætu gengið í blóra við hugmyndafræði Hafró eða hvað? Það er ekki mikið sjálfstæði í fiskirannsóknum, Hafró stendur vörð um sitt.
Þetta minnir mig á að fyrir nokkrum árum vildu nemendur við sjávarútvegsbraut skólans fá mig til að flytja fyrir þá fyrirlestur. Ég kvaðst tilbúinn í það en kennararnir vildu ekki að ég kæmi, og ég er enn fyrir sunnan. Nemendur höfðu marg spurt hvað hæft væri í gagnrýni minni á hugmyndafræðina að baki fiskveiðistjórnunarinnar, en þeir gerðu jafnan lítið úr henni og túlkuðu mitt mál eftir sínu höfði. Nemendur vildu ekki sætta sig við þetta og vildu fá mig norður. Það fékkst ekki.
Kennararnir voru allir starfsmenn Hafró enda hefur stofnunin plantað sínu fólki um allt menntakerfið og hún tengist flestum rannsóknasviðum með "samvinnu".


Stöðugleiki náttúrunnar?

Það berast fréttir af óhemju laxveiði þessa dagana, sem engan óraði fyrir.

Hvað er nú í gangi, allt fullt af fiski, stórum laxi, feitri bleikju, sandsíli, maður veit ekki hvaðan stendur á sig veðrið!

Var ekki allt að fara til fjandans í fyrra og síðustu ár? Stórlaxinn, var ekki búið að veiða upp erfðaefnið? Í Breiðdalsá um daginn rak ég augun í plakatið frá Veiðimálastofnun: "Verndum stórlaxinn": Sleppa öllum stórum laxi til að endurheimta erfðaefnið! Er þessi aðgerð farin að skila stórlaxi strax?

dverghaengur_623609.jpgNei þekkingin var ekki meiri en svo að menn héldu að dvalartími laxa í sjó væri beinlínis erfðabundinn: Laxar sem dveldu tvö ár í sjó gæfu af sér laxa sem væru tvö ár í sjó, eða þannig. Þetta er nú ekki svona beintengt. Það sem er hins vegar erfðabundið er hæfileikinn til að svara breytingum í náttúrunni. Ef skilyrði eru góð, má vera úti í 2 ár, ef vaxtarskilyrði eru slæm, þá er að drífa sig heim eftir fyrsta árið og auka kyn sitt, ekki risikera því að drepast seinna árið.


Árum saman var reynt að búa til stórlax í Kollafirði, stórir laxar kreistir alla tíð. Ekkert gekk, því smálaxahlutfallið var þrátt fyrir kynbæturnar mjög hátt og breyttist ekki. Eitt sinn voru seiði úr Kollafirði flutt norður í Miðfjarðará. Í fyllingu tímans kom megnið úr hafi sem stórlaxar. Hlutfallið hafði snúist við. Þetta var á þeim árum þegar stórlaxinn var um helmingur veiðinnar á Norðurlandi.
Þá gleyma menn því að stór hluti seiðanna er getinn af dverghængum, (sjá myndina hér að ofan) sem verða kynþroska án þess að ganga til sjávar. Árnar eru á haustin fullar af kynþroska smáhængum, sem veiðimenn kalla afætur.


Bleikjan, var hún ekki að hverfa vegna hlýnunar jarðar? Það hef ég heyrt margan snillinginn segja lengi. Bæði vatnableikjan og sjóbleikjan. Margir halda að svona breytingar séu af OKKAR völdum en svo þarf ekki að vera. Þetta eru breytingar og sviftingar í náttúrunni sem verða hvort sem við kolefnisjöfnum eða ekki.


Að lokum, til gamans um sandsíli: Eftir nokkura ára skort á sandsíli í Norðursjó, vegna "ofveiði", er nú allt orðið aftur eins og í gamla daga. Stofninn hefur aldrei mælst stærri og löndunarbið er í Danmörku. Miðað við það magn sem vísindamenn halda að sé á ferðinni er fjöldinn það mikill að ef hann lifði, myndi hann geta staðið undir núverandi kvóta, 400 þús tonn, í 76 ár! Var verið að tala um að veiðin hefði áhrif?


Sagt er að vanti smásíli handa lundanum, sílin séu of stór fyrir pysjuna. En stóru sílin, voru þau ekki lítil í fyrra eða hittiðfyrra? Þá vantaði líka síli.


Virkjum fiskimiðin

Grein sem ég skrifaði í Fréttablaðið:

Í Fréttablaðinu 17. júlí s.l. var sagt frá því að skipa ætti nefnd, sem skila á af sér á kjörtímabilinu, til þess að kanna áhrif kvótakerfisins á landsbyggðina, þrátt fyrir að fyrir liggi skýrsla um málið frá 2001, og allir nema ráðamenn geri sér grein fyrir að kerfið hafi nú þegar lagt mörg sjávarpláss í rúst. Neikvæð áhrif kvótakerfisins á landsbyggðina hafa verið öllum ljós, nema sægreifum og ráðamönnum.
Ég átti erindi á Breiðdalsvík um daginn, þar voru fáir á ferli nema ferðamenn að fylla á bifreiðar sínar - úr sjálfssala. Tvær trillur voru við bryggju en enginn var á ferli við höfnina. Enginn bátur sást á hafinu svo langt sem augað eygði. Þaðan ók ég norður um til Egilsstaða, yfir Hellisheiði eystri og norður fyrir Sléttu til Akureyrar.
Ofan af Hellisheiði eystri var engan bát að sjá til hafs á Héraðsflóa og engan heldur á Vopnafirði. Í kauptúninu var lítið um að vera og ekkert líf við höfnina. Á Bakkaflóa sáust 2 trillur undan Langanesi. 
Á Þórshöfn var sama sagan, örfáir bátar við bryggju en ekkert fólk að vinna, enginn fiskur og enginn bátur sást á sjó á Þistilsfirði.
Af veginum við Súlur sunnan Raufarhafnar sást enginn bátur á sjó. Raufarhöfn er varla skugginn af sjálfri sér, örfáar trillur en engin virtist vera í veiðiskap og engin sála var við höfnina. Þarna sá ég Kúbueinkennin, sem ég kalla svo: Húsum ekki haldið við, þau ekki máluð en látin grotna niður. Ein búð, opin fáa tíma á dag, engin dagblöð um helgar og eldsneyti aðeins úr sjálfssala. Þegar ekið var fyrir Melrakkasléttu var heldur engan bát að sjá, ekki heldur í Öxarfirði og á Kópaskeri voru fáir bátar við bryggju og enginn umgangur. 
Annð sem einkenndi þessi sjávarþorp var að þar var nær engan fugl að sjá, örfáa hettumáva og fáeinar kríur, það var allt. Þetta var öðruvísi meðan með stunduðu sjó á Íslandi, þá iðuðu allar hafnir af fugli, sem var að fá sér í gogginn.
Út af Tjörnesi var engan bát að sjá, það ver ekki fyrr en kom að Húsavík að einn hvalskoðunarbátur sást á leið í land með ferðamenn. Talsvert var af trillum í höfninni en lítið um að vera, flestar í biðstöðu vegna kvótaleysis. 
Í öllu krepputalinu núna leggja menn til að taka erlent lán til að auka gjaldeyrisforðann. Engum virðist detta í hug að fara í sjóinn og sækja gullið þaðan. Þjóðinni er haldið í kreppu vegna þess að Hafró heldur því fram að það þurfi að "byggja upp þorskstofninn" með friðun, helst veiða ekki neitt. Ráðamenn gleypa ráðlegginganar hráar þó löngu hafi verið sýnt fram á að þetta sé líffræðilega ómögulegt. Vitnar þar best um 30 ára árangursleysi þessarar "tilraunar".
Það er á færi sjávarútvegsráðherra að bregða töfrasprota yfir sjávarþorpin og landið allt með því að auka aflaheimildir, stokka allt kerfið upp - og reka þjálfarann. Fyrir hverja er annars verið að reyna að byggja upp fiskstofnana? Það verða brátt engir eftir til þess að veiða.

Birt í Fréttablaðinu 24. júlí 2008


Færeysk stjórnvöld vilja fækka fiskidögum um helming

Í dag, Ólavsvökudag kunngerði Sjávarútvegsráðherra Færeyja að veiðidögum hjá krókabátum og trollbátum skuli skert um 50% og um 20% hjá ufsatogurum, en met ufsaveiði hefur verið undanfarin ár, 60-70 þús tonn.
Þetta er sama og segja við þjóðina að nú skulu allir fara að vinna hálfan daginn. Ráðherrann gerir þetta að kröfu ríkisrekinna fiskifræðinga sinna sem aldrei hafa haft rétt fyrir sér varðandi þróun fiskistofna.
Ljóst var árið 2002 að þorskstofninn væri að fara í niðursveiflu því fiskurinn var farinn að horast og lítið var í maga fiskanna. Að mínu mati var það vegna fæðuskorts og versta, sem menn gætu gert í slíku ástandi væri að draga úr veiði. Ég taldi að hann myndi fara minnkandi í nokkur ár og ekki fara að rétta við fyrr en 2006-2007. Það reyndist ekki alveg rétt, nú er 2008, en mér er sagt að afli sé að aukast og ástand fisksins að lagast.
Færeyska Hafró er nýkomin úr túr, - og niðurstaðan er að nú sé allt á blússandi uppleið, mikið af átu og seiðum allra tegunda, m.a. sandsílis þorsks.  http://www.frs.fo


Hér er fiskveiðráðgjöf mín í Færeyjum frá 2004, ráðgjöf sem ekki var farið eftir:

Ég var í Færeyjum 13.-20. júní 2004 á vegum sjómanna og útgerðarmanna að vinna að því að meta fiskveiðiráðgjöf ársins eins og hún birtist frá færeyskum fiskifræðingum og ICES, Alþjóða hafrannsóknaráðinu. Ég setti fram eigin tillögur en samtök sjómanna og útgerðarmanna sendu sjávarútvegsráðherra bréf með tillögum sem byggðust á mínu áliti. 

Þorskur
Samkvæmt tölum ICES, sem er það eina sem til er til að styðjast við, fer þorskstofninn minnkandi og því er lagt til að draga úr veiðum til að "spara" þorskinn. Tillögur ICES fólust í að byggja þorskstofninn upp eins hratt og unnt væri og stöðva þorskveiðar. Til vara, byggja upp aðeins hægar og skera aflann um 2/3. Kannast einhver við þetta?  
Ég lagðist eindregið gegn niðurskurði, vegna þess að þorskstofninn er að minnka vegna fæðuskorts. Þorskur var horaður í fyrra og hann er ekki búinn að ná sér enn og því var að mínu mati rangt að draga úr veiðum. Ég gerði ráð fyrir því að þorskafli myndi minnka áfram í 2-3 ár og við því væri ekkert að gera.
Stofnar þorsks, ufsa, og ýsu hefðu verið í miklum vexti undanfarin ár, veiðarnar ekki megnað að halda aftur af stækkun stofnanna og draga mætti þá ályktun að sóknin hefði verið og lítil. Þorskstofninn hefði vaxið sér yfir höfuð og væri nú að minnka og aðlaga sig að minna fæðuframboði.

Ýsa
Jafnframt álitu þeir að ýsustofninn væri stór og í góðu standi, en samt skyldi draga úr veiðum um 17% vegna þess að veiðiálag til langs tíma væri of mikið skv. varúðarreglunni. Þetta væri athyglisvert vegna þess að ýsustofninn hefði verið í stöðugum vexti frá 2001.

Ufsi
ICES taldi að ufsastofninn væri í góðu lagi, en samt lögðu þeir til 30% samdrátt í ufsaveiðum, vegna þessarar varúðarreglu.
Færeyingar áttu ákaflega erfitt með að skilja þessa ráðgjöf, sérstaklega vegna þess að veiðarnar væru blandaðar og ekki hægt að stjórna afla einnar tegundar án þess að henda öðrum. Það væri eins og fiskifræðingar héldu að verið væri að veiða í kvótakerfi en ekki sóknarkerfi, sögðu þeir.


Í ljósi þessa lagði ég til að fiskidögum yrði fjölgað um 10-15%: http://www.fiski.com/faero/rapp04.pdf

Sama hafði ég gert árið áður, lagði til 10-15 fjölgun daga og minnkun möskva í ufsatrolli til að mæta mikilli fjölgun smáufsa: http://www.fiski.com/skrar/rapp03.pdf  Í hvorugt skiptið var farið eftir minni ráðgjöf.

Nú er að sjá hvað gerist þegar þetta fer fyrir þingið. Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Jörgen Niclasen formaður Fólkaflokksins, segir þetta "óðamannaverk".  


Ja hérna, - enda er Kísiliðjan farin

Það er ekki langt síðan að birtist grein í Nature þar sem "vísindamenn" sögðust hafa módellerað sveiflurnar í lífríkinu og sökudólgurinn væri Kísiliðjan, sem grafið hafði gryfjur, sem komu í veg fyrir "setflutninga" í vatninu. Ríkisútvarpið flutti frétt um málið.

Nú virðist allt annað uppi á teningnum. Lífríkið er í hámarki, náttúruundur, náttúrulegar stofnsveiflur, - hvar er nú Kísiliðjan og gryfjurnar? Kísiliðjan er hætt, vegna áralangra árása Árna og líffræðinga hjá HÍ.

Árni segist hafa rannsakað mýið í 30 ár, fylgt sveiflunum og reynt að finna skýringar á þeim. Kennir svo mýinu um að tortíma sjálfu sér! Já, mikil er viskan.

Fram kemur einnig að viðtalið við Árna fór fram "úti í móa" í Syðri Neslöndum. Það er gott að vera "úti í móa."

Miklu líklegra er að fiskurinn í Mývatni, fyrst og fremst hornsílið, valdi sveiflunum:

Nú er gott fæðuástand í vatninu, fiski fjölgar hratt, hornsílið er á undan bleikjunni, étur undan henni, viðkoma bleikjunnar brestur og hún sveltur. Hornsílið fyllir vatnið, yfirgefur það, beitinni á mýið og aðra fæðu léttir og hringnum er lokað. - Einfaldleikinn... er hann ekki bestur?


mbl.is Rykmýið í Mývatni í hámarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband