Færsluflokkur: Vísindi og fræði
20.4.2009 | 12:46
Kvótar og Franskmenn
Finnst ykkur fréttamönnum ekkert merkilegt, og ástæða til að kanna nánar, að sjómenn segja að nóg sé af fiski, kvóti 6 mánaða klárist á 1 og hálfum, en vísindamenn segja nær alla stofna ofveidda og að draga þurfi úr veiðum? Segja sjómenn alltaf ósatt?
Hér heima segja sjómenn gnótt fiskjar vera á miðunum en Hafró segir þorskinn ofveiddan, þrátt fyrir að dreginn sé á land tæpur þriðjungur þess afla sem veiddur var á hverju ári í rúma hálfa öld.
Í Speglinum sagði: "Kvótar hafa minnkað verulega undanfarna þrjá áratugi vegna rányrkju. Franskur útgerðarmaður segir að nú megi veiða fimmtung þess sem mátti veiða árið 2002."
Hvernig kemur það heim og saman að enn sé ofveiði þrátt fyrir að farið hafi verið að ráðum vísindamanna og dregið úr veiðum um 80% m. v. 2002? Svona fréttir eru fluttar gagnrýnislaust, enginn segir: - Ha?
"Kvótar eru ófullkomið stjórntæki. Þeir miðast ekki við veiddan fisk heldur við landaðan fisk. Kvótar stöðva ekki brottkast. Í sumum tilvikum ýta þeir undir það", að sögn Spegilsins. En aflakvótar virðast virka hér heima og ekki má tala um að neinu sé hent!
Meira úr Speglinum: "En sérfræðingar segja að það sé ofveiði, það verði að minnka veiðar til þess að stofnar jafni sig, fiskveiðiflotinn sé allt of stór miðað við kvóta í boði. Það verði að afskrá skip og greiða sjómönnum og útgerðarmönnum bætur fyrir að hætta veiðum og snúa sér að öðru."
Flotinn er ekki nema svipur hjá sjón frá því sem hann var, Breski flotinn (Englendingar, Skotar, N-Írar) hefur minnkað um 70% frá 2001 og kvótarnir á stöðugri niðurleið. Vísindamenn segja ofveiði, meiri bátabrennur! Hvernig geta svona öfugmæli gengið upp. Fyrir hverja eru "vísindamenn" að vinna? Varla fyrir sjómenn og þá sem lifa af sjávarútvegi.
Í útrásarmálinu var sagt að fréttamenn hafi verið meðvirkir. Hvað með eyðingu sjávarútvegs undir vísindalegu eftirliti og hlutverk fréttamanna, eru þeir líka meðvirkir þar líka? Verður einhven tíma sagt um þessi vísindi, - "eftir á að hyggja"?
Til fróðleiks er hér rannsóknarskýrlsa mín úr Norðursjó 2003
Hér er meira um fisk og Norðursjó.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.4.2009 | 17:37
Sterkan þorskstofn, hm?
Mikil ónákvæmni er í svona mælingum og aðferðin misklukkuð. Þessi "mæling" núna er langt undir þeim væntingunum, sem mælingin gaf í fyrra haust, þá var um 60% aukning í haustrallinu en aðeins 9% núna! Hvað varð um mismuninn?
Lítil von er að liðkað verði til með heimildir núna, enda Einar Kristinn búinn að taka 30 þús. tonn út á krít.
![]() |
Vísbendingar um sterkan þorskstofn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2009 | 15:22
Kosningatrikk?
Skyldi Steingrímur hafa fengið pata af síðasta ralli Hafró sem löngu er lokið, en ekkert hefur frést af? En gamanlaust, þetta er gríðargott hjá Steingrími því þó þetta virðist ekki stórt skref, þá er það þó mesta áfallið sem kvótakerfið hefur fengið, mér er nær að halda frá upphafi. Nú tryllast sægreifarnir, sannið þið til.
Þetta mun leiða í ljós að það er nægur fiskur á miðunum og vonandi verður skrefið stigið til fulls, frjálsar veiðar smábáta þar til reynslan sýnir hvort það sé hættulegt. Svo þarf að hætta smáfiskalokunum.
![]() |
Strandveiðar í stað byggðakvóta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.4.2009 | 17:59
Smásíldardráp Norðmanna - ofveiðin sem drap síldarstofninn?
Þegar ég var við nám í Noregi 1965 -70 hlustaði ég alltaf á fiskifréttir í útvarpinu. Eins og hér heima áður fyrr, var sagt frá bátum sem komu til löndunar. Yfir vetrartímann voru alltaf fréttir af bátum sem lönduðu svo og svo mörg þúsund hektólítrum (100 kg) af "mossa". Mossa er smásíld, tæplega árs gömul og um 10 cm löng. Hún fór aðallega í bræðslu en var einnig soðin niður í dósir sem "sardínur".
Óhemju mikið var veitt af mossa með allri Noregsströndinni fyrri hluta síðustu aldar. Ársaflinn var tugir þúsunda tonna og 200 þúsund tonn þegar mest var, eða um 2 milljarðar sílda. Eftir 1914 voru reistar margar síldarbræðslur og um svipað leiti kom herpinótin til sögunnar. Þetta leiddi til mikillar aukningar í veiðum á smásíld, en áður en bræðslurnar komu hafði eftirspurn eftir smárri síld verið tiltölulega lítil.
Margir héldu því fram að svona miklar veiðar á smásíld væru ekki gæfulegar, betra væri að lofa henni að stækka og veiða hana seinna. Ef þessu yrði haldið áfram gæti það leitt til eyðingar síldarstofnsins.
Upphófst mikil barátta til þess að fá veiðarnar bannaðar. Ríkisstjórnin og faglegir ráðgjafar hennar stóðu frammi fyrir miklum vanda, því þá var ekki eins mikið um síldina vitað eins og síðar varð. Tveir til þrír milljarðar sílda virtist vera gífurlegt magn en spurningin var sú, hvort þessi afli væri verulegur hluti þess sem í sjónum var og hverjar líkurnar væru á að síldin veiddist þegar hún yrði stærri.
Það eru ekki einungis mennirnir sem veiða síld því hún á fjölmarga óvini í hafinu, fisk, fugl, hval og sel. Spurningin um "gegndarlausar veiðar á smásíld" var miklu flóknari en friðunarsinnar gerðu sér grein fyrir og það tók áratug að koma sér saman um skynsamlega lausn. Óþolinmæðin jókst eftir því em tíminn leið, en umræðan fór nokkuð róast þegar hægt var að sýna fram á að ekki gæti verið að eyðileggja neitt, því alltaf virtist vera nóg af síld til að hrygna og halda við stofninum. Magn smásíldar virtist vera botnlaust. Tjónið, sem friðun smásíldarinnar hefði leitt til var augljóst: Bræðslunar fengju ekki hráefni, sjómenn myndu missa af miklum afla og tekjum, en engin vissa var fyrir aflaaukningu seinna. Málið endaði með eins konar samkomulagi um að draga úr þessum veiðum, samkomulag sem í raun hafði engin áhrif. Í ljósi þeirrar þekkingar sem við nú höfum, skrifar Einar Lea í bók sinni um síldina 1958, má fullyrða að síldarstofnarnir þoli þetta álag sem "smásíldardrápið" er.
Seinni tíma fiskifræðingar íslenskir hafa hins vegar kennt þessari veiði um síldarhrunið 1967-8. Enn hafa menn samt ekki fundið ásættanlega skýringu á því hvers vegna síldin hvarf, en hentugt þykir að kenna offveiði um. Merkilegt hvað síldin hvarf skyndilega því hún þoldi "ofveiðina" um hálfrar aldar skeið.
Stofnstærð Íslandssíldar í 87 ár og spá um þróun stofnsins, rauða línan. Sveiflutíminn, toppur í topp, er 65 ár. Síldarstofninn í hámarki sem stendur, ef fer nú að minnka (Klyasthorin o.fl. 2009).
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2009 | 11:35
Allir að veiða - nema við
Allt dýraríkið er að veiða síld í höfnum landsins nema við mennirnir. Við erum að byggja upp stofninn með friðun, svo við getum veitt meira - seinna. Vonandi drepst hún ekki í höfninni, þá gæti farið illa.
![]() |
Síldin veður í höfninni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.3.2009 | 22:23
Síldin í höfninni
Vegna síldarinnar í Vestmannaeyjahöfn, og reyndar fleiri síldarævintýra og sjúkdóma, er ekki úr vegi að segja frá síldardauða í Noregi snemma á síðustu öld.
Í Eidfirði í Vesteraalen sýndist mönnum, sem óveður væri í mynni fjarðarins. Þarna var á ferðinni síld, sem sullaðist inn fjörðinn og fljótlega sauð fjörðurinn af síld. Magnið var gífurlegt og menn komu með landnætur til að króa af síldina. Stóð þar nót við nót inn allan fjörð með tugum þúsunda tonna af síld.
Allir drifu síg í að veiða og salta. Söltunarplön voru settar upp, skip komu með salt og tunnur, fóru út fulllestuð og önnur komu í staðinn. Skipaumferðin var gífurleg og vinnslan á fullu. - En svo gerðist það.
Síldin drapst úr súrefnisskorti og steinsökk til botns. Hún lagðist í þykk lög á botninn og fljótlega fór að gerja í massanum. Gasmyndun varð í rotnandi síldinni og hún lyfti sér eins og brauðdeig sem hefast.
Loks sprengdi gasið upp síldarkekkina, rotnandi síldin flaut upp eins og grautur og hana rak í stórum flekum um fjörðinn. Vindur og alda skoluðu þessu á land og allar fjörur urðu þaktar af úldinni drullu, sem bændurnir sóttu og notuðu sem áburð í mörg ár.
En úti á firðinum ríkti kyrrð. Grúturinn úr rotnandi síldinni lá á firðinum eins og olía svo þar hreyfði ekki öldu, jafnvel vetrarstormar náðu ekki að vinna á brákinni. Fjörðurinn var lygn í mörg ár.
Smám saman varð fitan að vaxi sem rak á fjörur í stórum klumpum. Fólk safnaði þeim saman, steypti úr þeim kerti eða seldu vaxið í sápuverksmiðjur. - Fullnýting?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.3.2009 | 20:15
Skarfarnir á hafnargarðinum
23.3.2009 | 10:50
Á ekkert að fara að veiða?
Það er svo sem gott og blessað að veiða hvali en þessum stjórnmálamönnum virðist alveg fyrirmunað að minnast á hvað eigi að gera í fiskveiðimálum. Á ekkert að fara að liðka til í kreppunni? Eru menn svona hræddir við sægreifana? Ekki þurfa handhafar veiðiheimilda að vera hræddir því lausnin er ekki að svifta þá veiðiheimildum, heldur hleypa öðrum að.
Þá kemur að Hafró. Þeir standa á því fastar en fótunum að þorskstofninn sé ofveiddur og því þurfi að takmarka veiðar og draga úr þeim.
Einar sagði að búið sé að sýna fram á að hvalurinn éti óhemju magn af fiski, hann sé í beinni samkeppni við nytjastofna okkar um fæðu og að reiknað hafi verið út af okkar færustu sérfræðingum að ef við stunduðum hvalveiðar væri hægt að auka þorskveiðar! Væntanlegar hvalveiðar eru svo smávægilegar að þær hafa engin áhrif til fækkunar hvala, enda notuð sú röksemd að þær séu sjálfbærar!
Þetta skyldu þó ekki vera sömu færustu sérfræðingar sem ,,reiknuðu út" árið 1994 að ef fylgt væri 22% aflareglu myndi þorskafli vera kominn í um 300 þús. tonn 2003 og fara vaxandi til 2023?
Þetta át hvala á nytjafiski sýnir hversu glórulaust það er að ætla sér að byggja upp þorskstofninn með friðun. Það sem við ekki veiðum fer beint í hundskjaftinn.
Sú aðferð að byggja upp þorskstofna með samdrætti í veiðum hefur hvergi tekist. Niðurskurður hefur alltaf, alls staðar, leitt til varanlegrar minnkunar á afla.
Aukinn þorskafli fæst aðeins með auknum þorskveiðum og það er hafið yfir allan vafa að í fæðuskorti, þegar fiskur er horaður og vex illa, er nauðsynlegt að auka veiðar. Auknar veiðar skapa verðmæti og vinnu. - En þá kemur að Hafró. Þorskstofninn er að þeirra áliti ofveiddur, það má ekki auka veiðar, frekar skal draga enn úr þeim til "byggja upp stofninn".
Sú stofnun virðist ekki læra neitt af reynslunni og hefur hundsað allar líffræðilegar ábendingar sérfræðinga utan stofnunarinnar.
Það mætti láta sér detta í hug að stofnunin sé notuð til að skapa skortstöðu til þess að halda uppi verði á aflaheimildum og laga "eignastöðu" kvótahafanna.
En er ekki kominn tími til að fólkið í landinu geti veitt sér í soðið? Það var Bjarni Benediktsson, sá gamli, sem sagði að það gagnaði lítið að friða fiskinn en drepa fólkið.
17.3.2009 | 17:18
Landburður af ufsa í Færeyjum
Mjög góð ufsaveiði er í Færeyjum, togararnir koma lunningafullir eftir skamma útiveru. Enginn kvóti er í Færeyjum en skipin fá úthlutað veiðidögum og mega veiða eins og þau geta af hvaða tegund sem er.
Þorskurinn virðist vera að ná sér úr lægðinni, aflinn er að vaxa og nýlega varð að grípa til skyndilokana vegna smáfisks í afla togara. Það er mjög óvenjulegt. Metafli var á þorski 2002 - 2003, síðan minnkaði hann mjög.
Þá gerðist það um daginn að sjónvarpið fór í "rallið" með rannsóknaskipinu Magnúsi Heinasyni, nokkuð sem aldrei hefur gerst á Íslandi þar sem rallið er "leyndó" þar til það er löngu afstaðið.
Í þessari mynd frá Færeyska sjónvarpinu tönnlast fiskifræðingar á því að þorskurinn sé búinn, nokkuð sem er nánast skyldu- umræða. En viti menn, - allt í einu fæst 26 tonna hal af þorski - í þennan bleðil, sem kastað er á fyrirfram ákveðinn stað. Stæsta hal sem þeir hafa fengið í 6 ár! Það er yndislegt að sjá hvernig það vöðlast fyrir leiðangursstjóranum að skýra það út. Filmubúturinn um rallið byrjar eftir 3.25 mínútur á klippinu.
Sjá má á myndinni hér til hliðar að þorskurinn er vel haldinn, hnöttóttur af spiki. Það þýðir að stofninn er að springa út.
Vert er að minna á Kompásþáttinn um Færeyska kerfið frá 2007. Hann er eins og vínið, batnar með árunum.
Vísindi og fræði | Breytt 18.3.2009 kl. 08:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.2.2009 | 16:59
Á ekkert að fara að veiða?
Karl V. Mattíasson skrifar grein í Fréttablaðið í dag, 19/2, þar sem hann hvetur til frjálsra krókaveiða. Ég er því sammála og þakka honum fyrir greinina. Ég veit ekki betur að hann sé eini þingmaður sjórnarflokkanna sem talar fyrir því að þjóðin endurheimti veiðiréttinn og menn geti farið að róa án þess að vera leiguliðar sægreifanna. Þetta er nokkuð merkilegt í ljósi þess að s.k.v. nýrri skoðanakönnun MMR er mikill meirihluti landsmanna á móti kvótakerfinu. Þar kom fram að: "Af þeim sem styðja núverandi ríkisstjórn sögðust 74,3% hlynnt því að stjórnvöld afturkalli með einum eða öðrum hætti gildandi fiskveiðiheimildir og úthluti þeim að nýju með breyttum reglum."
Samt heyrist ekkert í ráðherrum ríkisstjórnarinnar, öðrum þingmönnum hennar, aðeins Kalla. Hvað er í gangi er búið að læsa öllu endanlega? Líffræðingurinn og ráðherrann Össur gerir ekkert, en hann sagði í þingræðu 2005:
"Það eru ekki mörg ár síðan, ætli það sé ekki áratugur, að ég hélt hér miklar ræður um gagnsemi þessarar aðferðar við að vernda þorskinn í hafinu. Ég taldi þá að þessi vísindi væru miklu nákvæmari en reynslan hefur svo sýnt. Við höfum hins vegar horft upp á það á síðustu árum að stöðugt eru að koma fram nýjar upplýsingar sem benda til þess að þær aðferðir sem við höfum notað séu ekki nægilega traustar. Við höfum horft framan í ár þar sem tapast hefur nánast helmingurinn af áætluðum stofni í hafinu. Við höfum séð fram á það að upplýsingar sem hafa komið fram úr t.d. veiðiröllum hafa ekki reynst réttar. Ég minnist þess sérstaklega þegar ég skrifaði á árum fyrr grein í Morgunblaðið og benti á að ósamræmi væri milli þess sem Hafrannsóknastofnun gaf út í lok þess árs sem æskilegt aflamark og þeirrar niðurstöðu sem kom fram í rallinu. Ég fékk aldrei skýringar á þessu misræmi, mér var einungis sagt að ákveðin aðlögun hefði átt sér stað."
Og áfram hélt hann:
"Þetta er ekki traustvekjandi og það er heldur ekki traustvekjandi þegar Hafrannsóknastofnunin slær um sig þéttan varnarmúr og hleypir ekki að þeim aðilum sem gagnrýna kerfið. Ef menn geta fundið eitthvað að þeim aðferðum sem Hafró beitir á það að koma fram. Það hlýtur að vera í þágu vísindanna og þágu greinarinnar að einmitt gagnrýnendunum sé lyft. Við höfum hins vegar séð það aftur og aftur að þeim er kerfisbundið bægt frá."
"Ég er þeirrar skoðunar að innan Hafrannsóknastofnunarinnar ríki kreddur. Alls staðar skapast kreddubundið andrúmsloft þar sem frjálsir vindar rökræðu og gagnrýni fá ekki að leika um. Ég er þeirrar skoðunar að með einhverjum hætti verði að skapa umhverfi þar sem samkeppni hugmynda á þessu sviði ríkir. Ég er þeirrar skoðunar að það væri ákaflega farsælt í fyrsta lagi að brjóta upp þetta kerfi sem við höfum í dag, þ.e. að á sömu hendi í sama ráðuneyti séu bæði eftirlit og rannsóknir með auðlindinni og hins vegar ákvörðunartaka um hversu mikið megi taka af henni. Þetta eru andstæðir hagsmunir sem vegast á og það er ekki farsælt."
Hann sagði líka: "Ég er þeirrar skoðunar að það sé orðið mjög óheillavænlegt hvað þessi umræða er lokuð innan veggja Hafró. Við ræddum það fyrr í dag í þessari umræðu hvernig maður hefur stundum á tilfinningunni að öðrum og gagnrýnni skoðunum sé skipulega haldið frá. Annað birtingarform á þessari skoðanaeinokun Hafrannsóknastofnunar birtist í því að við þingmenn getum ekkert lengur hringt í fiskifræðinga og fengið upplýsingar. Við fáum bara upplýsingar sem við þurfum á að halda í gegnum forstjóra stofnunarinnar. Þannig er verið að straumlínulaga skoðanir Hafró og koma þeim á framfæri bara í gegnum einn munn, (Gripið fram í: Einn kanal.) einn farveg, og fyrir vikið verður þetta ákaflega einsleitt. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi hömluleysi hinnar frjálsu hugsunar sem ríkir við háskóla og þar sem samkeppni hugmyndanna er við lýði til þess að brjótast út úr þessum farvegi. Eitt örstutt dæmi: Hv. þingmaður Jóhann Ársælsson nefndi hér 25% aflaregluna. Enginn maður á Íslandi getur sýnt fram á hvernig hún var fundin. Ég hef farið í gegnum það. Ég barðist í gegnum það og skildi ekki. Ég fór og spurði sérfræðingana og þeir sýndu mér útreikninga sem leiddu að annarri niðurstöðu."
Nú virðist hann vera búinn að gleyma öllu. Össur skildi ekki aflaregluna þá, nú þegar hún er komin niður í 20% segir hann ekkert, kannski er hann farinn að skilja hana núna.
Steingrímur er orðinn sjávarútvegsráðherra. Margir héldu að hann myndi gera fólkinu í landinu kleift að róa til fiskjar. En nei! Þó það hafi aldrei verið brýnna en nú þá tafsar hann og talar út og suður, sbr. fundinn í Háskólabíói.
Ekki verður annað séð en að Steingrímur sé kvótasinni. Merkilegt, í ljósi þess að grasrót VG er mjög andstæð kvótakerfinu og vill færa veiðiheimildirnar til þjóðarinnar. Ætlar Steingrímur virkilega að ganga erinda sægreifanna? Hann virðist heldur ekki hafa neitt að athuga við 25 ára tilraunastarfssemi Hafró, sem leitt hefur til eyðingar þorskafla og á endanum þjóðargjaldþrots. Hafró er dýr(keypt)asta stofnun landsins.
Ekki efaðist hann heldur um Hafrófræðin þegar hann leyfði ekki loðnuveiðar. Þessi reynsla sem þeir tala um Hafróliðarnir, að fara varlega, hefur ekki skilað öðru en lélegum vertíðum og þjóðin orðið af miklum afla á meðan þeir sátu sveittir við að telja, - einn, tveir, þrír,......
Það eru aðrir og sterkari kraftar sem virka þarna heldur en stærð hrygningarstofnsins, en talan 400 þúsund tonn var dregin upp úr töfrahatti fyrir liðlega 20 árum og hefur verið notuð hugsunarlaust síðan. Losnum við aldrei við þessa vitleysu?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)