30.3.2009 | 22:23
Síldin í höfninni
Vegna síldarinnar í Vestmannaeyjahöfn, og reyndar fleiri síldarævintýra og sjúkdóma, er ekki úr vegi að segja frá síldardauða í Noregi snemma á síðustu öld.
Í Eidfirði í Vesteraalen sýndist mönnum, sem óveður væri í mynni fjarðarins. Þarna var á ferðinni síld, sem sullaðist inn fjörðinn og fljótlega sauð fjörðurinn af síld. Magnið var gífurlegt og menn komu með landnætur til að króa af síldina. Stóð þar nót við nót inn allan fjörð með tugum þúsunda tonna af síld.
Allir drifu síg í að veiða og salta. Söltunarplön voru settar upp, skip komu með salt og tunnur, fóru út fulllestuð og önnur komu í staðinn. Skipaumferðin var gífurleg og vinnslan á fullu. - En svo gerðist það.
Síldin drapst úr súrefnisskorti og steinsökk til botns. Hún lagðist í þykk lög á botninn og fljótlega fór að gerja í massanum. Gasmyndun varð í rotnandi síldinni og hún lyfti sér eins og brauðdeig sem hefast.
Loks sprengdi gasið upp síldarkekkina, rotnandi síldin flaut upp eins og grautur og hana rak í stórum flekum um fjörðinn. Vindur og alda skoluðu þessu á land og allar fjörur urðu þaktar af úldinni drullu, sem bændurnir sóttu og notuðu sem áburð í mörg ár.
En úti á firðinum ríkti kyrrð. Grúturinn úr rotnandi síldinni lá á firðinum eins og olía svo þar hreyfði ekki öldu, jafnvel vetrarstormar náðu ekki að vinna á brákinni. Fjörðurinn var lygn í mörg ár.
Smám saman varð fitan að vaxi sem rak á fjörur í stórum klumpum. Fólk safnaði þeim saman, steypti úr þeim kerti eða seldu vaxið í sápuverksmiðjur. - Fullnýting?
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:31 | Facebook
Athugasemdir
Frábær saga.
Hér megum við almúginn ekki snerta þessa einkasíld LÍÚ sem flæðir um allt og er að drepast.
Níels A. Ársælsson., 30.3.2009 kl. 22:37
Fróðleg og skemmtileg saga.
Sigurður Þórðarson, 30.3.2009 kl. 22:40
Fróðleg að vísu Sigurður en lítið skemmtileg. Ég sé nú fyrir mér að eitthvað hafi fuglalífið t.d. greitt í toll af þessu atviki.
Það er ekki einfalt núna þegar atferli okkar í umgegni við náttúruna er farið að verða jafn ógnandi og raun ber vitni að úrskurða hvort- og hvernig við getum kennt okkur um þegar röskun á sér stað. Ekki verður séð að þarna hafi maðurinn átt sök á atburðum.
Ekki verður heldur einfalt að kenna ofveiði mannsins um fiskileysisár á fyrri öldum og áður en stórvirkari veiðarfæri en handfæri úr hampi og línustubbur voru tengd "rányrkju" á miðum Íslandinga.
Fátt sýnist mér ógna sjávarnytjum þjóðarinnar í dag jafn mikið og undarleg heimska og vanþekking fiskifræðinga og sjávarlíffræðinga okkar á náttúrulegum sveiflum.
Árni Gunnarsson, 31.3.2009 kl. 08:16
Sæll Jón, þetta fannst mér skemttileg saga. Ég hef verið með annan fótinn við veiðarnar hér í höfninni í Eyjum frá upphafi. Ég er einnig við nám í Stýrimannaskólanum hér í Eyjum og er að vinna að verkefni tengt síldinni í höfninni hér. Ég hafði mjög gaman af þessari sögu um síldina í Norska firðinum og mér vænt um það að fá aðeins meiri upplýsingar um þetta atvik. Get ég einhversstaðar nálgast þær ? Emailið hjá mér er hér fyrir ofan.
MBK, Þorbjörn Víglundsson .
Þorbjörn Víglundsson (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 12:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.