Færsluflokkur: Vísindi og fræði
27.5.2009 | 07:49
Ofveiði sem stjórntæki
Ég var að koma frá því að hitta skoska og írska sjómenn á ráðstefnu í Skotlandi þar sem fjallað var um ástandið í greininni, ný útgefnar reglur EB og framtíðina.
Þungt hljóð var í mönnum, eina sem gerist er að boðaður er meiri niðurskurður, og ef ekki eru til gögn um ástand fiskstofna skal samt skera niður 10-25% árlega. Uppbygging þorsksins í Írska hafinu hófst fyrir 9 árum, með því að takmarka veiðar almenn og loka hrygningarstöðvum. Árangurinn er enn verri en enginn. Enn er sögð vera þarna ofveiði. Þegar ég fór þar út á togara 2003 voru 30-40 togarar, gamlir og um 200 tonn að stærð, að veiða þorsk, ýsu og lýsu, eða hvítfisk eins og þeir samnefna það. Nú eru 4 eftir og enn er ofveiði og þeim er gert að draga 25% úr veiðum í ár.
Stórþorskur úr Írska hafinu (the last cod).
Þessi meinta ofveiði stafar af því að rannsóknarskipið fær engan fisk, meðan önnur skip lifa á útgerð. Þeir eru með botntroll 2 m hátt, meðan aðrir veiða í flottroll sem nær 25 m upp frá botni. Enda þorskurinn m.a. að éta síld uppi í sjó. Rannsóknarskipið fær engan fisk eldri en 2 ára, það er sá smái sem er við botninn. Af því álykta þeir að búið sé að veiða allan eldri fisk. Þá vakti það fádæma furðu mína að rannsóknaskipið vann ekki á nóttinni og um helgar! Fyrsta kast var 7 að morgni og það síðasta kl 17, mennirnir urðu að komast í upp dekkað borð og svo heim um helgar. "Ofveiðin" mælist eingöngu af rannsóknarskipi, ekki er hlustað á sjómenn flotinn er kominn í 4 skip og mér er til efs að útgerð þarna endist lengur en í 2 ár eða svo.
Svipað er í Norðursjó, mjög fá skip eftir, nær bannað að veiða þorsk og honum nær öllum hent fyrir borð. Ekki er þar fisklaust, hann er eins og silungatjörn, fullur af smáfiski, 5-7 ára ýsa er þar 32-35 m löng og í gríðarlegu magni, mestu hent vegna smæðar.
Já ofveiðin lætur ekki að sér hæða. Enda er hún notuð sem stjórntæki bæði hér heima og erlendis. Litlu sjómennirnir og þorpin skulu deyja, sægreifarnir skulu njóta vafans.
Einhuga um tilgang en ekki aðferðirnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 08:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.5.2009 | 12:59
Einföld leið út úr kvótakerfinu: Leggja það niður
Sent Fréttablaðinu 3. maí 2009, birt 18. maí sama ár.
Stjórn fiskveiða með því að ákveða fyrir fram hve mikið skuli veiða af hverri tegund, kvótakerfið, hefur ekki skilað þeim árangri sem til var ætlast, þ.e. að auka afrakstur fiskstofna. Eftir aldar fjórðungs tilraun er þorskafli í sögulegu lágmarki og vöxtur fiskanna er lélegri en nokkru sinni fyrr. Menn greinir á um hvers vegna þetta sé, Hafrannsókn kennir um ofveiði, að ekki hafi verið farið hárfínt eftir ráðleggingum þeirra. Aðrir vilja meina að þær líffræðilegu forsendur sem lagðar voru til grundvallar hafi ekki staðist. Þegar dregið var úr veiðum dró úr vexti einstaklinganna. Næg fæða var ekki fyrir hendi til að standa undir stærri stofni.
Þegar úthlutað er afla til kvótahafa reyna þeir skiljanlega að fá út úr honum sem mest veðmæti. Þeir reyna að ná sem verðmestum fiski og sé ekki kvóti fyrir því sem veiðist fer það í sjóinn aftur.
Þar sem kvótakerfið hefur í sér innbyggðan hvata til sóunar, þá þarf að leggja það af. Einnig er vafasamt að úthluta afla ár fram í tímann, ómögulegt er að telja fiskinn í sjónum og ekki er unnt að sjá fyrir breytingar á fiskgegnd eða aflabrögðum þegar kvótar eru ákveðnir. Sóknarkerfi eins og notað er í Færeyjum nemur breytingarnar strax og er laust við brottkast.
Nú tala menn um að breyta þurfi kerfinu og bæta það en fyrning, innköllun á kvóta, uppboð eða hvað það nú heitir viðheldur kerfinu en kemur ekki í veg fyrir galla þess.
Það hefur vafist fyrir mönnum hvort unnt sé að innkalla aflaheimildir án þess að ríkið eigi yfir höfði sér skaðabótamál. Margir útgerðarmenn halda því fram að verði aflaheimildir af þeim teknar smám saman og boðnar upp fari fyrirtæki þeirra á hausinn. Þeir sem hafa tekið lán til kvótakaupa séu stórskuldugir og þurfi tekjur til að borga af lánunum.
Krafa er um að aflaheimildir verði boðnar út hæstbjóðendum til að fá tekjurnar af auðlindinni í ríkiskassann. Þá myndu menn bjóða hver í kapp annan svipað og við lóðauppboð á höfuðborgarsvæðinu, sem endaði með skelfingu. Innkoman fór beint í aukna eyðslu sveitarfélaganna til að kynda undir brjálæðinu.
Hafa verður í huga að kvótinn sem slíkur er einskis virði, verðmætin liggja í fiskinum sem kemur að landi og það mun skila sér til þjóðarinna eftir sínum leiðum. Kvótauppboð myndu aðeins auka rekstrarkostnað, sem kæmi fram í auknu fiskverði, erfiðari samkeppnisaðstöðu og taprekstri. Auk þess færi afgjaldið af kvótanum svipaða leið og bensíngjaldið, í ríkishítina.
Það er ekki flóknara að stíga út úr þessu kerfi en það var að fara inn í það. Það gæti t.d.hafist með eftirfarandi tilkynningu frá Sjávarútvegsráðherra:
Við endurskoðun gagna og endurmat á líffræðilegum forsendum þykir ekki þörf á að vernda þorsk og aðrar botnfisktegundir sérstaklega.
Eftirfarandi tegundir eru því teknar út úr kvóta: Þorskur, ýsa, ufsi, skarkoli, steinbítur, karfi, úthafsækja .... Skipum með gilt veiðileyfi er heimilt að stunda veiðar á þessum tegundum. Settar verða nánari reglur um umgengni til að koma í veg fyrir árekstra veiðarfæra og skipaflokka. Ákvörðun þessi gildir til eins árs í senn.
Með þessu er ekki verið að taka aflaheimildir frá neinum og því ekki um neina bótaskyldu að ræða. Svona breytingar myndu þýða aflaukningu, nokkuð sem er gagnstætt friðunarstefnu Hafrannsóknar, en í ljósi ömurlegrar reynslu ættu stjórnmálamenn varla að þurfa mikinn kjark til að taka af þeim ráðin. Sýna má fram á með vísindalegum rökum að það er ekki einungis í stakasta lagi, heldur blátt áfram nauðsynlegt að auka veiðar til að bæta vaxtarskilyrði einstaklinganna og koma í veg fyrir sjálfát svo góðir árgangar verði ekki étnir upp áður en þeir geta tekið út vöxt. Einn slíkur er að sögn á leiðinni og myndi muna um að hann yrði að gjaldeyri en færi ekki á matseðilinn hjá horþorskinum.
Vísindi og fræði | Breytt 20.9.2018 kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.5.2009 | 14:56
Draumalandið?
Ég hef lengi furðað mig á því hvers vegna Hafró og móðurstofnanir, ICES í Evrópu, NAFO og NOOA í Ameríku og fleiri s.k. "vísindastofnanir" leggja stöðugt til niðurskurð á aflaheimildum. Fyrst var komið á kvótakerfi með aflakvótum og eftir það var auðvelt að minnka veiðiheimildir með því að ráðleggja niðurskurð. Þetta var gert í nafni stofnuppbyggingar, auðvelt var að telja fólki trú um að með því að taka minna núna mætti taka meira seinna. Þetta seinna hefur hins vegar ekki orðið. Hin háu markmið breyttust fljótlega í að drepa niður fiskveiðarnar. En hvers vegna?
Ég hef fengist við fiskirannsóknir og veiðráðleggingu í 35 ár, og ég veit að þessar ráðleggingar eru rangar. Það er marg sannað að ef vöxtur er minnkandi gerir illt verra að draga úr veiðum, það þarf að auka þær. Minnumst þess að fyrir daga stjórnunar, en 1976 gátu þjóðirnar farið að stjórna veiðum eftir að landhelgin varð 200 sjómílur, voru engin fiskveiðivandamál: Ekkert stofnhrun, engin ofveiði eða rányrkja, sem við þekkjum svo vel í dag og orðið "vistvænn" var ekki til í málinu. Menn einfaldlega veiddu meðan eitthvað var að hafa, fóru þá annað og komu aftur þegar veiðin tók sig upp aftur. En þó þessa vísindastofnanir viti að stefna þeirra sé röng, reynslan hefur sýnt það, þá breyta þeir ekki um aðferðir, sem td. gætu falist í að veiða meira og beina sókn meira í smáfisk. Alls ekki, áfram með niðurskurðinn. Helst er að fyrir kosningar, að þeir bæti aðeins í af pólitískum ástæðum svo allt líti betur út. Davíð fann 30 þús. tonn á sínum tíma og EKG 30 þús. til viðbótar í fyrra.
Eftir að ég sá Draumalandið og viðtalið við Sigurð Gísla Pálmason rann ástæðan allt í einu upp fyrir mér:
Veiðisamdráttur er til þess gerður að plægja jarðveginn fyrir stóriðju auðhringanna. Kárahnjúkar handa aflalausum Austfirðingum, Vestfirðinga sviftir fiskinum fyrir olíuraffínerí, Suðurnesjamenn, sem fast sóttu sjóinn, þeir biðja um álver, gagnaver, virkjanir og allt það. Húsvíkingar, þeir heimta álver, fisklausir.
Tími er kominn til að svifta sérfræðingana völdum og fara að nýta fiskimiðin í þágu þjóðarinnar - aftur.
20.4.2009 | 12:46
Kvótar og Franskmenn
Finnst ykkur fréttamönnum ekkert merkilegt, og ástæða til að kanna nánar, að sjómenn segja að nóg sé af fiski, kvóti 6 mánaða klárist á 1 og hálfum, en vísindamenn segja nær alla stofna ofveidda og að draga þurfi úr veiðum? Segja sjómenn alltaf ósatt?
Hér heima segja sjómenn gnótt fiskjar vera á miðunum en Hafró segir þorskinn ofveiddan, þrátt fyrir að dreginn sé á land tæpur þriðjungur þess afla sem veiddur var á hverju ári í rúma hálfa öld.
Í Speglinum sagði: "Kvótar hafa minnkað verulega undanfarna þrjá áratugi vegna rányrkju. Franskur útgerðarmaður segir að nú megi veiða fimmtung þess sem mátti veiða árið 2002."
Hvernig kemur það heim og saman að enn sé ofveiði þrátt fyrir að farið hafi verið að ráðum vísindamanna og dregið úr veiðum um 80% m. v. 2002? Svona fréttir eru fluttar gagnrýnislaust, enginn segir: - Ha?
"Kvótar eru ófullkomið stjórntæki. Þeir miðast ekki við veiddan fisk heldur við landaðan fisk. Kvótar stöðva ekki brottkast. Í sumum tilvikum ýta þeir undir það", að sögn Spegilsins. En aflakvótar virðast virka hér heima og ekki má tala um að neinu sé hent!
Meira úr Speglinum: "En sérfræðingar segja að það sé ofveiði, það verði að minnka veiðar til þess að stofnar jafni sig, fiskveiðiflotinn sé allt of stór miðað við kvóta í boði. Það verði að afskrá skip og greiða sjómönnum og útgerðarmönnum bætur fyrir að hætta veiðum og snúa sér að öðru."
Flotinn er ekki nema svipur hjá sjón frá því sem hann var, Breski flotinn (Englendingar, Skotar, N-Írar) hefur minnkað um 70% frá 2001 og kvótarnir á stöðugri niðurleið. Vísindamenn segja ofveiði, meiri bátabrennur! Hvernig geta svona öfugmæli gengið upp. Fyrir hverja eru "vísindamenn" að vinna? Varla fyrir sjómenn og þá sem lifa af sjávarútvegi.
Í útrásarmálinu var sagt að fréttamenn hafi verið meðvirkir. Hvað með eyðingu sjávarútvegs undir vísindalegu eftirliti og hlutverk fréttamanna, eru þeir líka meðvirkir þar líka? Verður einhven tíma sagt um þessi vísindi, - "eftir á að hyggja"?
Til fróðleiks er hér rannsóknarskýrlsa mín úr Norðursjó 2003
Hér er meira um fisk og Norðursjó.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.4.2009 | 17:37
Sterkan þorskstofn, hm?
Mikil ónákvæmni er í svona mælingum og aðferðin misklukkuð. Þessi "mæling" núna er langt undir þeim væntingunum, sem mælingin gaf í fyrra haust, þá var um 60% aukning í haustrallinu en aðeins 9% núna! Hvað varð um mismuninn?
Lítil von er að liðkað verði til með heimildir núna, enda Einar Kristinn búinn að taka 30 þús. tonn út á krít.
Vísbendingar um sterkan þorskstofn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2009 | 15:22
Kosningatrikk?
Skyldi Steingrímur hafa fengið pata af síðasta ralli Hafró sem löngu er lokið, en ekkert hefur frést af? En gamanlaust, þetta er gríðargott hjá Steingrími því þó þetta virðist ekki stórt skref, þá er það þó mesta áfallið sem kvótakerfið hefur fengið, mér er nær að halda frá upphafi. Nú tryllast sægreifarnir, sannið þið til.
Þetta mun leiða í ljós að það er nægur fiskur á miðunum og vonandi verður skrefið stigið til fulls, frjálsar veiðar smábáta þar til reynslan sýnir hvort það sé hættulegt. Svo þarf að hætta smáfiskalokunum.
Strandveiðar í stað byggðakvóta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.4.2009 | 17:59
Smásíldardráp Norðmanna - ofveiðin sem drap síldarstofninn?
Þegar ég var við nám í Noregi 1965 -70 hlustaði ég alltaf á fiskifréttir í útvarpinu. Eins og hér heima áður fyrr, var sagt frá bátum sem komu til löndunar. Yfir vetrartímann voru alltaf fréttir af bátum sem lönduðu svo og svo mörg þúsund hektólítrum (100 kg) af "mossa". Mossa er smásíld, tæplega árs gömul og um 10 cm löng. Hún fór aðallega í bræðslu en var einnig soðin niður í dósir sem "sardínur".
Óhemju mikið var veitt af mossa með allri Noregsströndinni fyrri hluta síðustu aldar. Ársaflinn var tugir þúsunda tonna og 200 þúsund tonn þegar mest var, eða um 2 milljarðar sílda. Eftir 1914 voru reistar margar síldarbræðslur og um svipað leiti kom herpinótin til sögunnar. Þetta leiddi til mikillar aukningar í veiðum á smásíld, en áður en bræðslurnar komu hafði eftirspurn eftir smárri síld verið tiltölulega lítil.
Margir héldu því fram að svona miklar veiðar á smásíld væru ekki gæfulegar, betra væri að lofa henni að stækka og veiða hana seinna. Ef þessu yrði haldið áfram gæti það leitt til eyðingar síldarstofnsins.
Upphófst mikil barátta til þess að fá veiðarnar bannaðar. Ríkisstjórnin og faglegir ráðgjafar hennar stóðu frammi fyrir miklum vanda, því þá var ekki eins mikið um síldina vitað eins og síðar varð. Tveir til þrír milljarðar sílda virtist vera gífurlegt magn en spurningin var sú, hvort þessi afli væri verulegur hluti þess sem í sjónum var og hverjar líkurnar væru á að síldin veiddist þegar hún yrði stærri.
Það eru ekki einungis mennirnir sem veiða síld því hún á fjölmarga óvini í hafinu, fisk, fugl, hval og sel. Spurningin um "gegndarlausar veiðar á smásíld" var miklu flóknari en friðunarsinnar gerðu sér grein fyrir og það tók áratug að koma sér saman um skynsamlega lausn. Óþolinmæðin jókst eftir því em tíminn leið, en umræðan fór nokkuð róast þegar hægt var að sýna fram á að ekki gæti verið að eyðileggja neitt, því alltaf virtist vera nóg af síld til að hrygna og halda við stofninum. Magn smásíldar virtist vera botnlaust. Tjónið, sem friðun smásíldarinnar hefði leitt til var augljóst: Bræðslunar fengju ekki hráefni, sjómenn myndu missa af miklum afla og tekjum, en engin vissa var fyrir aflaaukningu seinna. Málið endaði með eins konar samkomulagi um að draga úr þessum veiðum, samkomulag sem í raun hafði engin áhrif. Í ljósi þeirrar þekkingar sem við nú höfum, skrifar Einar Lea í bók sinni um síldina 1958, má fullyrða að síldarstofnarnir þoli þetta álag sem "smásíldardrápið" er.
Seinni tíma fiskifræðingar íslenskir hafa hins vegar kennt þessari veiði um síldarhrunið 1967-8. Enn hafa menn samt ekki fundið ásættanlega skýringu á því hvers vegna síldin hvarf, en hentugt þykir að kenna offveiði um. Merkilegt hvað síldin hvarf skyndilega því hún þoldi "ofveiðina" um hálfrar aldar skeið.
Stofnstærð Íslandssíldar í 87 ár og spá um þróun stofnsins, rauða línan. Sveiflutíminn, toppur í topp, er 65 ár. Síldarstofninn í hámarki sem stendur, ef fer nú að minnka (Klyasthorin o.fl. 2009).
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2009 | 11:35
Allir að veiða - nema við
Allt dýraríkið er að veiða síld í höfnum landsins nema við mennirnir. Við erum að byggja upp stofninn með friðun, svo við getum veitt meira - seinna. Vonandi drepst hún ekki í höfninni, þá gæti farið illa.
Síldin veður í höfninni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.3.2009 | 22:23
Síldin í höfninni
Vegna síldarinnar í Vestmannaeyjahöfn, og reyndar fleiri síldarævintýra og sjúkdóma, er ekki úr vegi að segja frá síldardauða í Noregi snemma á síðustu öld.
Í Eidfirði í Vesteraalen sýndist mönnum, sem óveður væri í mynni fjarðarins. Þarna var á ferðinni síld, sem sullaðist inn fjörðinn og fljótlega sauð fjörðurinn af síld. Magnið var gífurlegt og menn komu með landnætur til að króa af síldina. Stóð þar nót við nót inn allan fjörð með tugum þúsunda tonna af síld.
Allir drifu síg í að veiða og salta. Söltunarplön voru settar upp, skip komu með salt og tunnur, fóru út fulllestuð og önnur komu í staðinn. Skipaumferðin var gífurleg og vinnslan á fullu. - En svo gerðist það.
Síldin drapst úr súrefnisskorti og steinsökk til botns. Hún lagðist í þykk lög á botninn og fljótlega fór að gerja í massanum. Gasmyndun varð í rotnandi síldinni og hún lyfti sér eins og brauðdeig sem hefast.
Loks sprengdi gasið upp síldarkekkina, rotnandi síldin flaut upp eins og grautur og hana rak í stórum flekum um fjörðinn. Vindur og alda skoluðu þessu á land og allar fjörur urðu þaktar af úldinni drullu, sem bændurnir sóttu og notuðu sem áburð í mörg ár.
En úti á firðinum ríkti kyrrð. Grúturinn úr rotnandi síldinni lá á firðinum eins og olía svo þar hreyfði ekki öldu, jafnvel vetrarstormar náðu ekki að vinna á brákinni. Fjörðurinn var lygn í mörg ár.
Smám saman varð fitan að vaxi sem rak á fjörur í stórum klumpum. Fólk safnaði þeim saman, steypti úr þeim kerti eða seldu vaxið í sápuverksmiðjur. - Fullnýting?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.3.2009 | 20:15