Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Loðnuspáin mín reyndist þá rétt..

Ég skrifaði smá pistil um loðnu fyrir nokkru og sagði m.a: 

"Í ár mældist hins vegar talsverð loðna og veiðiheimild kom því snemma en allt of lítið og skipin "tímdu ekki að veiða". Ekki er ólíklegt að loðnumökkur gjósi hér upp innan skamms, meira en undanfarin ár. En þá er allt orðið of seint. Ekki verður Hafró tekin í gegn frekar en áður, en það er í lagi að gera bræðslukallana að sökudólgum."

Nú erum við að missa milljarðana út um gluggann vegna aulagangs. Kvótinn að verða búinn en svartur sjór af loðnu! 


mbl.is Góð loðnuveiði út af Garðskaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki Hafró í þetta skipti

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem loðnubrestur yrði af manna völdum. Undanfarin ár hefur Hafró ekki getað "mælt" neina loðnu og því gefið út litlar veiðiheimildir og allt of seint. En það bregst ekki, alltaf gýs hún upp suð- austan við landið á sínum venjulega tíma, þó ekkert hafi fundist áður. Vegna þessa seinagangs hefur skammturinn ekki náðst undanfarin ár. 

Í ár mældist hins vegar talsverð loðna og veiðiheimild kom því snemma en allt of lítið og skipin "tímdu ekki að veiða". Ekki er ólíklegt að loðnumökkur gjósi hér upp innan skamms, meira en undanfarin ár. En þá er allt orðið of seint. Ekki verður Hafró tekin í gegn frekar en áður, en það er í lagi að gera bræðslukallana að sökudólgum.    


mbl.is SA: Loðnubrestur af mannavöldum yfirvofandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðið um fiskimiðin, harka færist í leikinn

Fólkið í landinu vill fá rétt til að veiða fisk en sægreifarnir berjast nú eins og ljón til að halda sínu og koma þannig í veg fyrir að sjávarþorpin geti rétt úr kútnum. Enginn vafi er á að aukning fiskveiða er bjargráð Íslending til að vinna sig út úr kreppunni. En þá verða allir að fá að vera með. Ofveiðistjórn Hafró, þessi sífellda hræðsla við að verið sé að veiða síðasta fiskinn veldur því að haftakerfi, kvótakerfið helst við lýði. Samdráttur og skortstaða eru reyndar forsenda þess að halda uppi háu leiguverði á kvóta, veðsetningu og öllu því drullumalli.
Hvernig væri að gefa veiðarnar frjálsar í dagakerfi eins og gert er í Færeyjum? Allir mættu róa ákveðinn dagafjölda, sægreifarnir líka, landa öllu sem á dekk kæmi og ekkert afla hámark væri í neinni tegund. Hvað myndu greifarnir segja þá þegar þeir ættu að fara að lifa af fiskveiðum í samkeppni við aðra og geta ekki veðsett?
Í allri þeirri umræðu sem átt hefur sér stað kemst enginn upp úr fari Kvótakerfisins. Enginn ræðir um aðrar leiðir. Þó talið sé að sóknin sé of mikil. þá skal stjórna aflanum. Því ekki að stjórna sókninni? Stutt svar við því er að þá myndi apparatið hrynja. Rannsóknamafían, eftirlitsbatteríið og sægreifarnir.

Stöð 2 gerði kvikmynd um fiskveiðistjórnarkerfið í Færeyjum árið 2007. Þar kemur fram mjög sterk gagnrýni á aflamarkskerfi en þau hafi í sér innbyggðan hvata til brottkasts. Jafnframt er rætt um líffræðileg mistök í fiskveiðstjórn á Íslandi, en ráðgjöf Hafró er byggð á vafasömum reiknilíkönum og virðist sem ekki sé tekið neitt tillit til vistfræðilegra þátta. Þannig neita þeir að taka tillit til vaxtar og fæðuframboðs, og geta alls ekki kyngt þeirri staðreynd að eina leiðin til að auka fæðuframboð, sem örvar vöxt og framleiðslu er að veiða meira.

Ég heyri sífellt frá hinum ýmsu aðilum að allt sé hrunið í Færeyjum, þ.e. fiskurinn. Síðast hafði ég spurnir af því að nefndarmaður í endurskoðunarnefnd Jóns Bjarnasonar á aflareglunni hefði haldið þessu fram. Annað hvort eru menn svona illa að sér eða þeir hafa trúað áróðrinum frá hagsmunaðilum kvótakerfisins, sem afskrifa öll önnur kerfi til stjórnunar fiskveiða. 
Þorskur hefur verið í lægð í nokkur ár en er nú á uppleið. Myndin hér sýnir rallvísitölur ú rallinu haustið 2010. Skv. því er þorskurinn á uppleið. En gefum færeysku rannsóknastofnuninni orðið, á færeysku að sjálfssögðu:

HaustrallFo"Fyri tosk hevur lítið verið at fingið síðani 2003, og serliga árini 2006-2008 var lítið at fáa. Men í fjør bragdaði aftur, og úrslitið í ár var uppaftur betri. Hetta stuðlar upp undir framskrivingar, gjørdar í apríl-mai í ár, ið vístu, at toskastovnurin er í góðum vøkstri vegna betri fiskavøkstur og tilgongd (nýliðun); sera lítið varð tó fingið av 0- og 1-ára gomlum toski. 
Úrslitini fyri hýsu hava verið støðugt minkandi síðani 2002, og úrslitið í fjør var tað minsta síðani 1991. Tað kvinkaðist nakað uppeftir í ár, men er enn á sera lítlum støði. Men eisini her eru batar at hóma, tí fiskavøksturin er batnaður, og tilgongdin, ið hevur verið sera lítil seinastu árini, tykist nú at vera betri aftur; serliga 2009-árgangurin tykist góður. Men lítið var av 2010 árganginum".

Við þetta má bæta að mikið berst nú á land af smáfiski í Færeyjum. Einn daginn í síðustu viku voru 134 tonn af fiski á gólfinu í fiskimarkaðnum í Tóftum, þar af voru um 60 tonn af stærðum 4 og 5, sem flokka má sem undirmálsfisk. Raddir eru farnar að heyrast um að loka þurfi svæðum á grunnslóðinni vegna smáfiskagengdar. Menn ætla seint að læra. - Það verður að veiða þennan fisk til að reyna að seinka hungursneyðinni.

 
Meira um fiskveiðar við Færeyjar á Færeyjasíðunni, sem er á heimasíðu minni, Fiskikassanum.


Geyma'nn aðeins lengur - og fara svo að veiða!

Þetta segir Jóhann forstjóri Hafró. Þetta hefur verið reynt áður en þegar átti að fara að veiða gripu menn stundum í tómt. Þorskurinn allt í einu farinn. Þá er farið að afsaka sig, tala um ofmat, vanmat eða hvað þetta allt heitir.
Gamalt máltæki segir: "Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi". Þarna er verið að vísa til þess að "grípa beri gæsina þegar hún gefst". Reynsla mannsins í gegn um aldirnar er sú að ekki sé alveg víst að veiðistofninn verði eins á morgun og hann er í dag. Þess vegna beri að nýta hann strax.
Dýrastofnar, fiskstofnar þar með, eru háðir fæðu. Þegar nóg er að éta fjölga þeir sér uns fæðan setur stofnstækkun takmörk. Þá minnkar stofninn sjálfkrafa vegna fæðuskorts, fiskar drepast úr hor eða þeir stærri éta þá minni til að bjarga sér. Þorskstofninn hér hefur verið í 8-11 ára sveiflu.
En Hafró vill ekki auka veiðar núna, segjast vilja bíða frekari staðfestingar á stækkun stofnsins þar til eftir vorrallið í mars 2011.

                                         Hlutfall fæðu (% þyngd) í maga hjá stórum þorski:
stofnm
Þetta minnir óþægilega á ástandið um síðustu aldamót þegar Hafró barði sér á brjóst og sagði að árangur friðunar væri að koma í ljós, rétt eins og þeir gera nú. Svo fór allt til fjandans og nær milljón tonn hurfu úr stærðfræðibókhaldinu svo aflinn var skorinn um 60 þús tonn á tveimur árum. Þá var tekið viðtal við þá Jóhann og Kristján Ragnarsson, það má finna á www.youtube.com/fiskimyndir og heitir "Brostnar vonir -frá 2001". Þar er einnig viðtal við sjálfan mig sem heitir "Framvinduspá JonKr frá 2001".
Hugsanlega lendum við í því sama að ári, stofninn aftur niður og renturnar tapaðar. Ýmis teikn eru á lofti um þetta þó ekki væri nema að það er að koma tími á niðursveiflu. Hlutfallslega veiðist nú meira af stórum þorski í haustrallinu en áður. Hann hefur minnstu magafyllingu (fæðu) frá upphafi. Hann er svangur og gæti farið að snúa sér að eigin afkvæmum í meira mæli. Þá er hægur vöxtur hjá stórri ýsu, nokkuð sem bendir til fæðuskorts hjá botndýraætum. Ungfiskur á nú í hættu að enda sem fóður. Hvað segja menn þá?

Stofngraf-2

 

 

Hér er mynd frá aldamótum þegar menn höfðu miklar væntingar um betri tíð og blóm í haga. - En það fór á annan veg.  


Árás ESB á breska fiskiðnaðinn

Ég er í góðu sambandi við skoskra sjómenn og sjómannasamtök. Þeir eru miður sín vegna félaga sinna sem hafa gagnrýnt okkur og Færeyinga vegna makrílveiðanna. Þeir segja að þetta sé hagsmunaklíka hinna ríku uppsjávarveiðimanna sem láti svona, en almennt styðji skoskir sjómenn íslendinga.

Hingað hafa komið fulltrúar sjómanna í Skotlandi og N-Írlandi til að vara okkur við að ganga í ESB: Við megum ekki trúa liprum tungum þeirra um sérréttindi handa okkur og hóli þeirra um góða stjórn fiskveiða við Ísland. Þessar lygar eru þeirra aðferð til að komast í okkar fiskimið.

Ég kom fyrst til Skotlands 2003 og hef síðan haft við þá mikil og góð samskipti. Þar kynntist ég miklum heiðursmanni Tom Hay, sem var formaður sjómannasamtakanna FAL. Hann er ný hættur sem formaður vegna aldurs en var skipaður heiðursformaður til lífstíðar. Um daginn minnti hann mig á viðtal sem við Magnús Þór Hafsteinsson tókum við hann í febrúar 2003. Þetta viðtal var aldrei birt opinberlega. 

Ég gróf upp viðtalið og setti það á netið. Hann gefur okkur mjög sterkar viðvaranir við ESB og það er athyglisvert að þó liðin séu 7 ár, þá hvert orð hans Tom erindi til okkar í dag. Geta má þess að frá árinu 2000 hefur breski flotinn minnkað um 80-90%. Og enn er ofveiði í Norðursjó. Þetta, flotaminnkun vegna meintrar ofveiði, var aðferð ESB til að komast yfir bresku fiskimiðin. Viðtalið er hér.

Fleiri kvikmyndir, m.a. veiðitúrum í Norðursjó, Írlandshaf og Elliðavatn, má finna á minni videoslóð: http://www.youtube.com/fiskimyndir

 


Þarf ekki Rannsóknarnefnd fiskveiðistjórnunar?

Sem kunnugt er hefur hvorki gengið né rekið að byggja upp þorskstofninn. Samt er enn haldið áfram á sömu braut og alltaf minnkar aflinn.


Ég hef gagnrýnt þetta í tæp 30 ár, alltaf í grundvallaratriðum á sama hátt, að mikilvægt sé að huga að vexti fiska til að sjá hvort þeir hafi nóg að éta. Vaxi þeir vel er allt í góðu, en sé vöxtur hægur þá vanti mat. Stofninn sé hlutfallslega of stór miðað við fæðuframboðið og því þurfi að veiða meira, grisja stofninn, til að auka þannig vöxt og þar með afrakstur. Stjórnandi uppbyggingarinnar, Hafró hefur með öllu hundsað þessi rök.


Það er kominn tími til að Alþingi setji þessa ráðgjöf í hlutlausa rannsókn því það virðist borin von að Hafró snúi af sinni stefnu. Þeir taka ekki faglegum rökum og ekki virðist unnt að kryfja þessi mál opinberlega Fjölmiðlar eru meðvirkir og leita ekki álits annarra en hinna opinberu ríkisreknu vísindamanna. Því síður skyggnast þeir dýpra í málin og aldrei minna þér talsmenn Hafró á að ekkert af loforðum þeirra hafi staðist.

Þá minnast fréttamenn aldrei á sams konar gagnrýni, sem birtist í erlendum sjávarútvegsblöðum, en gagnrýni á "vísindin" fer ört vaxandi. Þöggunin er algjör.

Í sjónvarpsviðtali 2001, fyrir 10 árum, hélt ég því fram að niðurskurðurinn þá myndi ekki leiða til uppbyggingar stofnsins heldur myndi hann áfram minnka. Þetta var þegar þeir týndu 600 þús. tonnunum.

Þetta viðtal, Framvinduspá JKr 2001, er hér 

Síðdegis sama dag komu þeir í stúdio Kristján Ragnarsson formaður LÍÚ og Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafró til þess að ræða það hvers vegna 600 þús. tonn hefðu "týnst" og hvernig horfurnar væru fram undan.

Þetta viðtal, Brostnar vonir, er hér

Bæði þessi viðtöl eru mjög athyglisverð í ljósi þess sem síðar gerðist. Ég hafði rétt fyrir mér þarna eins og sjá má af meðfylgjandi súluriti. Er ekki kominn tími til að tengja?

 

 AflagrafMyndin sýnir þróun þorskaflans frá 1990. Eftir stöðugan niðurskurð í nokkur ár var skorið ærlega niður 1994 og 95 til að hressa stofninn við. Aflamarkið var aukið fram til 1999 og sögðu menn þá að friðunin væri að bera árangur. Græna súlan sýnir árið sem sjónvarpsviðtalið er tekið og ég held því fram að aflinn muni halda áfram að minnka. Það reyndist rétt, botninum var náð 2008 þegar enn var dregið úr sókn og sett 20% aflaregla. Hvernig skyldi framhaldið verða?

 

Þessar videomyndir og aðrar má finna á

http://www.youtube.com/fiskimyndir

Nýrri síðu, sem ég hef komið upp.  


"Óháða" aflareglunefndin hans Jóns Bjarnasonar

Fyrir nokkru skýrði ráðherra frá því að hann ætlaði skipa óháða nefnd til að fara yfir aflaregluna svonefndu, sem kveður á um það að taka skuli fast hlutfall, 20% af mældum þorskstofni. Jafnframt skyldi athuga hvort beita ætti á fleiri fisktegundir.


Nefndin hefur nú séð dagsins ljós skv. Mbl. í dag. Formaður hennar verður Skúli Skúlason skólastjóri á Hólum, eftirmaður Jóns Bjarnasonar, og tveir aðrir líffræðingar sem telja má óháða. Mér er ekki kunnugt um að nokkur þeirra hafi komið nálægt fiskveiðum eða stjórnun þeirra. Bið ég forláts hafi ég rangt fyrir mér, en ég hef ekkert út á tilnefningu þeirra að setja. Svo kemur snilldin:


Fulltrúar hagsmunaaðila í nefndinni eru Kristján Þórarinsson LÍÚ, Örn Pálsson LS og, haldið ykkur fast, - Jóhann Hafróforstjóri og Einar Hjörleifsson (Guttormssonar) Hafró og ICES.
Halda menn að þetta sé óháð nefnd? Kristján, Jóhann og Einar eru meðhöfundar að aflareglunni!


Þetta gengur ekki, því hvernig í ósköpunum á formaðurinn og hinir að geta staðið í frekjuhundunum Jóhanni og Einari ásamt Kristjáni Þórarinssyni? Þetta er hreinn skrípaleikur.

mbl.is Meta kosti aflareglu og kvótaaukningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súrefnismælirinn

Ekki voru þær burðugar tillögur ríkisstjórnarinnar til hjálpar Suðurnesjamönnum. Er þetta fólk virkilega að stjórna landinu? Tillögurnar felast í því að flytja störf frá einum stað till annars. Gæsluna til Keflavíkur, útibú skuldara til Reykjaness, og byggja skal hermangarasafn á Miðnesheiði, í stjórnartíð Steingríms J. herstöðvarandstæðings!  Á sama tíma þarf að leggja af sjúkrahúsið vegna fjárskorts.

Þetta minnir mig á sanna sögu úr fiskeldinu í stóru bólunni. Fiskeldisstöðin Fjallalax í Grímsnesi var orðin útbólgin af laxaseiðum og bjó við vatns- og plássleysi. Ástæðan var sú að afurðalán voru veitt út á fjölda fiska svo menn freistuðust til að troða í stöðvarnar eins miklu og þeir gátu, burtséð frá afkomumöguleikum seiðanna. Stöðvarstjórinn sendi fyrirspurn til stjórnenda og ráðgjafa í Reykjavík, hvað hann ætti og mætti gera.

Hann fékk sendan súrefnismæli með póstinum næsta dag með þeim orðum að hann skyldi flytja fiska úr kerjum með litlu súrefni í þau ker sem mældust með meira súrefni.


Þetta endaði auðvitað á einn veg, stöðin á hausinn og bankinn tapaði afurðaláninu.

Þessum stjórnarherrum virðist fyrirmunað að láta sér detta í hug að auka fiskveiðar svo aftur megi segja um Suðurnesjamenn: "Fast þeir sóttu sjóinn".

Svo mikil er hræðslan og þjónkunin við Hafró að Steingrímur sagði um daginn, eftir að Jón B. jók þorskkvótann um 12 þús tonn, "hvað skyldi Hafró segja"?   


Kumpánarnir Árni Matt og Össur

Búið er að ráða Árna M. Mathiesen sem aðstoðarframkvæmdastjóra FAO, og heyra fiskveiðar og fiskeldi undir hann. Mun Össur utanríkisráðherra hafa mælt með Árna í stöðuna. Þetta er vægast sagt ógeðfellt en þessir kumpánar voru saman í hrunstjórninni. Ekki einungis það, þeir voru einnig helstu áróðursmeistarar í fiskeldisbólunni, sem sprakk svo með hvelli 1991 og var eins konar forleikur að stóra hruninu núna, hvort tveggja byggt á taumlausri græðgi og pólitískri spillingu.
Auk þess að vera með puttana í fyrirtækjum, sjóðum og sukki stofnuðu þeir félagarnir fiskeldisfélagið Faxalax ásamt Ólafi Skúlasyni á Laxalóni. Þetta var árið 1987.

Ólafur var þá í góðu gengi með sitt fiskeldi, sem byggt var á gömlum merg og rekið með varfærni. Þeir ráku seiðaeldisstöð í Ölfusi og kvíaeldi á regnbogasilungi í Hvalfirði og gekk þokkalega þrátt fyrir ýmis áföll vegna sjávarkulda.

Snillingarnir og sérfræðingarnir Össur og Árni lokkuðu Ólaf í samstarf og hann lagði fram fiskinn sem fór í kvíarnar en Össur og Árni varla meira en "sérþekkingu" eins og algengt var á þessum árum.
Árið 1990 fór fyrirtækið á hausinn, sérfræðingarnir löbbuðu í burt og Ólafur sat uppi með skellinn. Hann missti fyrirtækið í kjölfarið, svo og heimili sitt skömmu síðar og eiginlega allt annað. Hann býr nú á Írlandi.

Á þessum tíma starfaði ég við fiskeldistryggingar, skoðaði stöðvar, mat áættu, gerði upp þrotabú o.fl. Ég var fenginn til að meta eignir í þrotabúi Faxalax í apríl 1990. Aðkoman að fyrirtækinu var ömurleg eins og eftirfarandi glefsur úr skýrslu minni bera með sér: 

FaxakvíarKví nr. 1 
Kafarinn fann 4x1 m gat á botni kvíarinnar og varð ekki var við fisk. Kvíin er að öllum líkindum tóm. Eitt flothylki vantar á kvína. Hoppnet er allt meir og minna rifið og víða eru göt á samskeytum flotkraga og hoppnets. Nótin er orðin gróin. Starfsmenn sögðu að allt hefði virtist með eðlilegum hætti 24/4 þegar slátrað var úr nótinni en þegar reynt var að ná í fisk 26/4 fékkst lítið.


Kví nr. 3
Í kvínni er lax, um 1.5 kg á þyngd og lítur hann þokkalega út. Netið sjálft er gott en skel er að byrja að myndast í því og um þriggja metra breitt belti af meterslöngum þara er í yfirborði nótarinnar. Flothringur er víða rifinn frá og þarfnast viðgerðar. Ekki sáust rifur í yfirborði. Nótin er þung í sjó vegna gróðurs. Eitt flothylki vantar.


Kví nr. 4
Hér eiga að vera um 100 þúsund regnbogasilungar 0.5-1.0 kg. Flothringur er nánast allur laus og nótin hangir uppi á hoppnetinu. Hún er mjög gróin og þung og var við það að súpa í þeirri litlu öldu sem þarna var. Þessi nót hangir á bláþræði og fiskurinn getur sloppið hvenær sem er.

Allar Bridgestone kvíarnar (B1-4) hafa það sameiginlegt að flothringur er víða laus og upphengjur eru víða slitnar. Þetta veldur því að átak er ekki lengur jafnt, strengir myndast í netinu og fjöðrun er orðin lítil og ójöfn. Líklegt er að umrædd rifa stafi af slíku misvægi og eins því hve netið er orðið gamalt.

Ógnvekjandi er að sjá slíkt kæruleysi í viðhaldi á kvíunum með tilliti til þeirra verðmæta og hagsmuna sem eru í húfi. Ekki er hægt að segja að mönnum hafi ekki verið kunnugt um lélegt ástand kvíanna því í skýrslu kafara frá 23. febrúar sl. er ljót lýsing á ástandi þeirra.


Með þessa reynslu að baki má segja að Árni Matt sé vel að starfinu kominn hjá FAO. Össur, sem á þessum árum fór til Sovét að leiðbeina þeim í fiskeldi er líka reynslubolti, þó hefur hann aðeins skipt um kúrs því nú leiðbeinir hann Rússum í nýtingu á jarðvarma.....

Útflutningur á sérþekkingu? 


Hverjir verða kallaðir til? - Hagsmunaaðilarnir eina ferðina enn?

Ráðherra segist ætla að kalla til utanaðkomandi sérfræðinga til að koma að gerð frumvarps um breytingar á stjórn fiskveiða. En það þarf ekki að eins að ræða hvernig kökunni er skipt og togast á um "eignarrétt" á veiðiheimildum. Það þarf að endurskoða hugmyndafræðina um líffræðilega stjórn veiðanna, eftir 30 ára ráðsmennsku tölvukallanna.

Ég hef sent Jóni mörg orð og ábendingar en hann hefur ekki svarað mér. Ég hitti hann á fundi um daginn og spurði hann hvers vegna hann hefði aldrei hringt í mig. Hann svaraði að bragði eins og honum er lagið: "Ég er voða lítið í símanum".

Ég skrifaði smá pistil um að það væri beinlínis hættulegt að veiða svona lítið


mbl.is Skipar vinnuhóp um sjávarútvegsmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband