Færsluflokkur: Vísindi og fræði
3.4.2011 | 15:59
Sorglegt
Netin stífluð af fiski en í landi stendur horaður almúginn og horfir á. Vertíðarfiskur virðist vera með mesta móti um allt land en nánast ekkert má veiða. Netaflotinn er nánast horfinn og þeir fáu sem enn eru eftir mega sig ekki hræra vegna kvótaleysis.
Hér áður voru um 100 bátar í Eyjum og aflinn var 1500-2600 tonn á dag skv. nýlegum fréttum sjónvarpsins. Einnig sagði í fréttinni að nú væri aflinn 500 tonn á viku og bátana mætti telja á fingrum annarrar handar. Vetrarvertíðir áður fyrr skiluðu um 150 þúsund tonnum af þorski auk ufsans. Þessar aflatakmarkanir undanfarna áratugi eru sagðar í þágu "uppbyggingar", gera stofninn enn stærri! Bara að það fari nú ekki með þetta eins og spilaborgina: Eitt spil í viðbót - og pomm!
Það er sorglegt að láta þennan fisk ganga hjá, sérstaklega þar sem mæld hrygningar- og veiðiafföll þorsks eru allt að 80%, sjá kafla 2.3 í þessari grein. Það er því að mestu "nýr fiskur" sem kemur á hverju ári. Þetta var mælt á árunum 1948-1969, þegar sótt var á fullu í hrygningarstofninn.
Þeir sem keyra svona dellu- fiskveiðistjórn áfram áratug eftir áratug eru hryðjuverkamenn. - Ætlar þessu aldrei að linna?
Á myndinni má sjá hvernig endurheimtum fækkar með tíma. Því lengur sem líður frá merkingu þeim mun færri fiskar skila sér. Þetta er byggt á endurheimtu 1126 merkja af 7772 árin 1948-1969. Heildarheimtur voru aðeins 14.5%, sem má túlka þannig að afföll vegna hrygningarinnar séu miklu meiri en vegna veiðanna, enda sýndu rannsóknir Jóns Jónssonar frá þessum tíma að flestir þorskanna voru að koma til hrygningar í fyrsta sinn. (Skalinn á myndinni er veldisskali, log skali)
![]() |
Ævintýraleg byrjun á netaralli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 5.2.2016 kl. 16:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
26.3.2011 | 11:03
Því má ekki ræða sóknarstjórn með dagakerfi?
Hvernig væri að gefa veiðarnar frjálsar í dagakerfi eins og gert er í Færeyjum? Allir mættu róa ákveðinn dagafjölda, sægreifarnir líka, landa öllu sem á dekk kæmi og ekkert afla hámark væri í neinni tegund. Hvað myndu greifarnir segja þá þegar þeir ættu að fara að lifa af fiskveiðum í samkeppni við aðra og geta ekki veðsett?
Í allri þeirri umræðu sem átt hefur sér stað kemst enginn upp úr fari Kvótakerfisins. Enginn ræðir um aðrar leiðir. Þó talið sé að sóknin sé of mikil, þá skal stjórna aflanum. Því ekki að stjórna sókninni og losna við brottkastið?
Stutt svar við því er að þá myndi apparatið hrynja. Rannsóknamafían, eftirlitsbatteríið og sægreifarnir.
![]() |
Pattstaða um fiskveiðistjórnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.3.2011 | 20:12
Þorskstofninn stækkar - við Færeyjar
Nýlega lauk fyrri hluta færeyska togararallsins þegar rannsóknaskipið "Magnús Heinason" kom í land eftir að hafa lokið 50 togstöðvum af 100. Merkilegt þótti að þeir fundu eins árs makríl og ufsinn var að gæða sér á þessum makrílseiðum. Makríllinn hrygndi við Færeyjar í fyrra og nú er árangurinn staðfestur: Makríllinn elst einnig upp við Færeyjar. Gott vopn í baráttunni um réttindi til þessara veiða.
Við þetta er að bæta að Spánverjar hafa stöðvað makrílveiðar sinna skipa vegna þess að aflatölur höfðu verið falsaðar, umframveiði var 80%, og þótti ekki annað að gera en að setja veiðibann á flotann.
Í færeyska rallinu kom einnig í ljós að þorskstofninn hafði vaxið frá í fyrra. Mikið berst nú í land af smáum þorski og eru uppi deilur í Færeyjum hvort eigi ekki að friða hann til að veiða hann stærri seinna.
Að mínu mati má alls ekki gera það, en ég er nú fjarri góðu gamni. Stofnþróunin frá því fyrir 10 árum virðist vera að endurtaka sig: Mikil nýliðun, sem veiðarnar náðu ekki að hemja svo draga fór úr vexti og stofninn féll úr hor.
Myndin sýnir afla síðustu 50 ára en hann einkennist af aflatoppum og lægðum á milli. Sveiflurnar eru reglulegar en mis langar og mis djúpar.
Sveiflur hafa lengst og dýpkað síðara hluta tímabilsins en það helst í hendur við aukna fiskvernd, útfærslu landhelgi, stækkun möskva, fjölgun friðaðra svæða og fækkun fiskidaga. Þetta styður tilgátuna um að mikið veiðiálag auki afla og dragi úr sveiflum.
10.3.2011 | 10:37
Étur'ann loðnu í Barentshafi?
Skipstjórinn á Sigurborgu segist hafa þá skoðun að þorskurinn hafi nóg að éta vegna þess að ekki sé allt veitt frá honum .
Hann kvaðst hafa veitt þarna í mörg ár og sjá mikinn mun á fiskinum nú og fyrst þegar hann fór í Barentshafið og sagði að þarna hefði ekki verið veidd loðna í fimm ár.
Ekki kemur fram í fréttinni hvort hann hafi gáð að því hvað fiskurinn væri að éta.
Ástæða þess að ekki hefur verið veidd loðna í Barentshafi í 5 ár er sú að loðnustofninn er þar mikilli lægð og nýtist hvorki mönnum né fiski.
Líklegri ástæða þess hve stofninn er í góðu standi er að veitt hefur verið mikið af þorski, langt umfram ráðgjöf, auk þess sem Rússar skófla upp óþekktu magni af smáþorski. Þessi grisjun kemur í veg fyrir fæðuvandamál vegna offjölgunar.
![]() |
Ævintýralega mikill fiskur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 28.10.2024 kl. 07:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.3.2011 | 18:00
Loðnan og þorskurinn í Barentshafi
Ég heyri stöðugt að orsök þess að þorskstofninn stendur svona vel sé sú að Norðmenn hafi friðað loðnu og þorskurinn notið góðs af því. Þetta er gjarnan fullyrt af þeim sem telja að loðnuveiðar við Ísland séu af hinu vonda því betra sé að þorskurinn fái að njóta hennar. Til eru þeir sem vilja kenna loðnuveiðum um bágt ástand Íslenska þorskstofnsins.
Sannleikurinn er hins vegar sá að þegar loðna er ekki veidd í Barentshafi, þá er stofninn í núlli og ekkert til að veiða. Hér má sjá stærð loðnustofnsins og loðnuaflann frá 1972. Myndin er á margan hátt mjög fróðleg. Loðnustofninn var stór, 7-9 milljón tonn, fram til 1981 og afli mjög mikill, 2-3 milljónir tonna. Eftir 1976 dregur mjög úr þorskafla. Þá voru erlend skip að fara úr landhelginni og virk stjórnun þorskveiða hófst. Í kjölfar samdráttar í veiðum af manna völdum minkar loðnustofninn og hrynur 1985-6. Freistandi er að álykta sem svo að minnkandi veiðiálag á þorsk hafi valdið auknu beitarálagi og hún hreinlega verið étin upp. Þorskurinn horféll í kjölfarið. Þá hefjast hörmungarárin þegar 70% langvíustofnsins féll úr hor og selurinn flykktist upp að norsku ströndinni í leit að æti.
Jakob forstjóri Hafró á þeim tíma sagði að "vistkerfið hefði farið úr skorðum" en kollega hans í Noregi hafði aðra skoðun:
Í dagblaðinu Bergens Tidende laugardaginn 6. janúar 1990 var haft eftir Odd Nakken, forstjóra norsku Hafró:
"Niðurstöður úr fjölstofna rannsóknum benda til þess að fæðuþörf hins mjög svo vaxandi þorskstofns hafi tvöfaldast frá 1984 til 1986." "þetta kom mest niður á loðnunni. Loðnuát þorsksins þrefaldaðist frá 1984 til 1985 með þeim afleiðingum að loðnustofninn nær kláraðist. Jafnframt át þorskurinn stöðugt meiri síld, smáþorsk og ýsu. Árið 1985 og 1986 át þorskurinn um 500 þúsund tonn af síld, og trúlega er þetta meginskýringin á því að þessir tveir síldarárgangar eru horfnir."
"Þrátt fyrir að þorskurinn æti upp loðnu og síld og seinna bæði ýsu og þorsk, fékk hann samt ekki nóg æti. Frá 1986 hefur þorskurinn vaxið miklu hægar en hann gerði áður. Meðalþyngd 5 ára þorska var 1.8 kg veturinn 1986 en meðalþyngd 5 ára fiska árið 1988 var einungis 0.7 kg."
"Auk þessara náttúrulegu orsaka bættist við að miklu af smáfiski var kastað fyrir borð, sérstaklega 1986/7. Þó það sé smáræði samanborið við vaxtarrýrnunina og það sem étið var, má ekki alveg líta fram hjá því."
Odd Nakken sagði ennfremur að ekki hefði verið hægt að komast hjá hruninu í loðnustofninum þótt dregið hefði verið úr loðnuveiðunum, eða þeim næstum hætt, frá árinu 1983. En hrunið hefði etv. ekki orðið eins snöggt. Nú er loðnustofninn að rétta við aftur.
Þetta var 1990, en eins og menn vita rétti þorskurinn fljótlega við og eftir smá sveiflur er stofninn nú í mjög góðu standi. Eina leiðin til að halda honum góðum er að veiða allar stærðir af fiski - og veiða mikið. - Meira um Barentshaf-
Vísindi og fræði | Breytt 19.1.2025 kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
27.2.2011 | 20:49
Barentshafið, haf breytinganna
Miklar stofnsveiflur hafa verið hjá þorski í Barentshafi. Þróun stofnsins hefur alltaf verið á skjön við ráðgjöf og spár. Á níunda áratugnum var gert ráð fyrir mikilli aukningu stofnsins í kjölfar góðrar nýliðunar, en stofninn hrundi úr hor. Undanfarin ár hefur verið veitt langt umfram ráðgjöf, stofninn er samt í góðu standi, sennilega vegna þessara "umframveiða".
Nú sem stendur er þorskveiði með eindæmum góð í Barentshafi og stofninn stendur vel. Þrátt fyrir "umframveiðina" hefur stofninn verið að stækka. En sé aflinn skoðaður aftur í tímann sést að hann var mun meiri áður fyrr, meðan sóknin var frjáls. Á sjöunda áratugnum voru 3000 erlend skip að veiðum í Barentshafi auk þeirra norsku. Útlendingarnir fóru svo af miðunum eftir miðjan áttunda áratuginn og 1987 var farið að stjórna veiðum með hámarksafla og síðar kvótum.
Veiði langt umfram ráðgjöf
Eftir hrunið mikla var farið að leggja til hærri kvóta en vísindamennirnir ráðlögðu, auk þess fór veiðin einnig talsvert fram úr kvótunum. Ekki má heldur gleyma að Rússarnir hafa veitt langt umfram heimildir, jafnvel svo skiptir hundruðum þúsunda tonna á ári. Þá er stór hluti rússneska togaraflotans með klæddar vörpur til að veiða smáþorsk, sem góður markaður er fyrir í Rússlandi. Mest er veitt í troll og þarna er búið að skafa botninn í hundrað ár, sem virðist í góðu lagi. Hér á Íslandi er því haldið fram að togveiðar og jafnvel snurvoð eyðileggi botninn og eigi mikinn þátt í minnkandi þorskstofni.
Myndin sýnir hvernig aflinn hefur fram úr ráðgjöfinni frá 1991, öll árin nema 1997 en þá virðast vísindamenn hafa verið of bjartsýnir . Samtals er framúrkeyrslan frá 1990 2,6 milljónir tonna eða 30%. Og aflinn vex.
Þetta verður að túlka sem svo að veiðarnar örvi framleiðsluna í stofninum, stækki hann, sem er þvert á kenningar hinna hefðbundnu vísindamanna hjá ICES. Ekkert er hægt að segja um hvort stofninn stækki áfram eða hvort hann fari að detta aftur. Af fréttum að dæma er mikið af stórum fiski í Barentshafi en ég hef ekki kynnt mér það sérstaklega. Hann gæti farið að verða ellidauður og það gæti valdið mikilli aukningu í nýliðun og þar með ætisþörf. - Það kemur í ljós.....
Vísindi og fræði | Breytt 31.3.2011 kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.2.2011 | 19:52
Líffræðileg della
Í Morgunblaðinu í dag, 26. febrúar, er fjallað um ráðstefnu Hafró um aflareglu, en þar er átt við hversu mörg prósent skuli veiða úr þorskstofninum, en stærð hans er að mestu leyti ágiskun. Og hvort skuli innleiða aflareglu hjá fleiri stofnum svo sem ýsu, ufsa og fleiri stofnum eins og segir í fréttinni.
Þó ágiskun stofnstærðar þorsks sé mikilli óvissu háð er stærð ufsastofnsins enn óvissari. Menn vita hreinlega ekkert um ufsa, hvaðan hann kemur, hvenær, eða hvert hann fer. Mætti þess vegna kasta pílu í töflu, það gæti ekki verið verri ágiskun.
Skúli Skúlason rektor við Hólaskóla var af Jóni Bjarnasyni skipaður til að endurskoða aflaregluna.
Ég hafði samband við Skúla og spurði hann hvort hann ætlaði ekki að kalla gagnrýnendur hinnar tölfræðilegu fiskveiðistefnu á sinn fund. Sendi ég honum gögn, sem sýna að ekki er hægt að setja það fast að ákveðna prósentu skuli veiða úr fiskstofni, ekki væri hægt að geyma fisk í sjónum, veiða minna núna til að veiða meira seinna því allt aðrir og stærri kraftar réðu stærð fiskstofna en veiðar mannsins. Nýtingarhlutfallið verði að fara eftir umhverfisaðstæðum og viðgangi stofnanna hverju sinni. Þar væri vöxtur og viðgangur fiskanna mikilvægasti mælikvarðinn, ekki væri ráðlegt að friða fisk, sem yxi illa og hefði það skítt.
Hann þakkaði fyrir, sagði þetta áhugavert, en - hann gerði ekki neitt. Ekki var ég eða aðrir gagnrýnendur kallaðir á fund til þess að kynna okkar líffræðilegu sjónarmið, sem byggjast á tilraunum og viðurkenndum vistfræðilögmálum, en ekki á formúlum reiknistokkamannanna, sem eru búnir að prófa sínar kenningar í aldarþriðjung, án árangurs, og vilja nú halda því áfram. Á umræddri ráðstefnu kynnti Skúli stefnu sína:
"Svo virðist sem mikilvægi nýtingarstefnu til lengri tíma sé óumdeilt, en það verður að vanda þá vinnu og viðhafa samráðsstjórnun",sagði Skúli í gær."Sátt verður að ríkja um slíka stefnu með sameiginlega ábyrgð þjóðarinnar á auðlindinni í huga. Vísindamenn, stjórnvöld og fulltrúar hagsmunaaðila þurfa á öllum stigum að koma að ákvörðun nýtingarstefnu.
"Við leggjum mikla áherslu á að þessi vinna leiði til betri skilnings og þekkingar á nýtingarstefnu sjávarauðlindarinnar. Við höfum umboð til að koma með tillögur um hvernig á að standa að þessum málum til lengri tíma litið og teljum afar áríðandi að móta nýtingarstefnu fyrir ýsu, ufsa og fleiri tegundir hið allra fyrsta", segir Skúli.
Aflaregla í sinni einföldustu mynd tengir saman mat á stofnstærð og leyfilegan heildarafla. Nú er leyfilegur þorskafli miðaður við 20% af stærð þorskstofnsins, þ.e. fjögurra ára fiskur og eldri, og helming af aflamarki síðasta fiskveiðiárs á undan til sveiflujöfnunar. Síðan er deilt í þá niðurstöðu með tveimur.
Skúli var spurður hvað hann vildi segja um kröfur um aukinn þorskkvóta: "Hvað varðar slíkar kröfur þá koma þær að hluta til fyrst fram vegna efnahagsástandsins. Mér finnst þær ekki sannfærandi því við megum ekki spilla auðlindum þjóðarinnar til að bjarga efnahagnum til skamms tíma. Ég tek hins vegar af heilum hug undir sjónarmið sjómanna og byggðanna og þekking og reynsla skipstjóra og sjómanna þarf að skila sér betur inn í umræðuna. Það er því ánægjulegt að fulltrúar sjómanna koma að starfi samráðsvettvangsins," sagði Skúli.
Skúli þessi er sem sagt þeirrar skoðunar að hægt sé að setja stýrið fast og sigla beint að markinu, án tillit til sjólags og skerja. Þessi skoðun er brot á allri náttúrufræði og misvirðing við þau vísindi. Algjör steypa, án nokkurra raka, étin upp eftir reiknimeisturum Hafró. -Krydduð með samráði við sjómenn, sem aldrei hefur verið, en þeir hins vegar sífellt sakaðir um ofveiði og rányrkju.
Menn sem eru meðvirkir reiknistefnu Hafró eru svikarar og hafa það á samviskunni að hafa vannýtt fiskstofna á röngum forsendum, komið landsbyggðinni í eyði og gert eignir íbúanna verðlausar. Slæmt er að ekki skuli vera til neinn dómstóll, sem krefur þessa menn um rök og reynslu fyrir stefnu sinni. Reynandi er þó að leita til Líffræðifélagsins og spyrja að því hvort það félag leggi faglega blessun sína yfir gerðir þessara manna.
Að mínu mati eru þessir reiknimeistarar loddarar, líkt og vefararnir í "Nýju fötum keisarans".
Vonir þessara manna um stækkun stofnsins eru falsvonir. Mér segir svo hugur um að þorskurinn sé að fara í niðursveiflu, ég hef sagt þetta áður því margt bendir til þess. - Bíðum og sjáum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.2.2011 | 11:11
Loðnuspáin mín reyndist þá rétt..
Ég skrifaði smá pistil um loðnu fyrir nokkru og sagði m.a:
"Í ár mældist hins vegar talsverð loðna og veiðiheimild kom því snemma en allt of lítið og skipin "tímdu ekki að veiða". Ekki er ólíklegt að loðnumökkur gjósi hér upp innan skamms, meira en undanfarin ár. En þá er allt orðið of seint. Ekki verður Hafró tekin í gegn frekar en áður, en það er í lagi að gera bræðslukallana að sökudólgum."
Nú erum við að missa milljarðana út um gluggann vegna aulagangs. Kvótinn að verða búinn en svartur sjór af loðnu!
![]() |
Góð loðnuveiði út af Garðskaga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.2.2011 | 16:08
Ekki Hafró í þetta skipti
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem loðnubrestur yrði af manna völdum. Undanfarin ár hefur Hafró ekki getað "mælt" neina loðnu og því gefið út litlar veiðiheimildir og allt of seint. En það bregst ekki, alltaf gýs hún upp suð- austan við landið á sínum venjulega tíma, þó ekkert hafi fundist áður. Vegna þessa seinagangs hefur skammturinn ekki náðst undanfarin ár.
Í ár mældist hins vegar talsverð loðna og veiðiheimild kom því snemma en allt of lítið og skipin "tímdu ekki að veiða". Ekki er ólíklegt að loðnumökkur gjósi hér upp innan skamms, meira en undanfarin ár. En þá er allt orðið of seint. Ekki verður Hafró tekin í gegn frekar en áður, en það er í lagi að gera bræðslukallana að sökudólgum.
![]() |
SA: Loðnubrestur af mannavöldum yfirvofandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.2.2011 | 17:20
Stríðið um fiskimiðin, harka færist í leikinn
Fólkið í landinu vill fá rétt til að veiða fisk en sægreifarnir berjast nú eins og ljón til að halda sínu og koma þannig í veg fyrir að sjávarþorpin geti rétt úr kútnum. Enginn vafi er á að aukning fiskveiða er bjargráð Íslending til að vinna sig út úr kreppunni. En þá verða allir að fá að vera með. Ofveiðistjórn Hafró, þessi sífellda hræðsla við að verið sé að veiða síðasta fiskinn veldur því að haftakerfi, kvótakerfið helst við lýði. Samdráttur og skortstaða eru reyndar forsenda þess að halda uppi háu leiguverði á kvóta, veðsetningu og öllu því drullumalli.
Hvernig væri að gefa veiðarnar frjálsar í dagakerfi eins og gert er í Færeyjum? Allir mættu róa ákveðinn dagafjölda, sægreifarnir líka, landa öllu sem á dekk kæmi og ekkert afla hámark væri í neinni tegund. Hvað myndu greifarnir segja þá þegar þeir ættu að fara að lifa af fiskveiðum í samkeppni við aðra og geta ekki veðsett?
Í allri þeirri umræðu sem átt hefur sér stað kemst enginn upp úr fari Kvótakerfisins. Enginn ræðir um aðrar leiðir. Þó talið sé að sóknin sé of mikil. þá skal stjórna aflanum. Því ekki að stjórna sókninni? Stutt svar við því er að þá myndi apparatið hrynja. Rannsóknamafían, eftirlitsbatteríið og sægreifarnir.
Stöð 2 gerði kvikmynd um fiskveiðistjórnarkerfið í Færeyjum árið 2007. Þar kemur fram mjög sterk gagnrýni á aflamarkskerfi en þau hafi í sér innbyggðan hvata til brottkasts. Jafnframt er rætt um líffræðileg mistök í fiskveiðstjórn á Íslandi, en ráðgjöf Hafró er byggð á vafasömum reiknilíkönum og virðist sem ekki sé tekið neitt tillit til vistfræðilegra þátta. Þannig neita þeir að taka tillit til vaxtar og fæðuframboðs, og geta alls ekki kyngt þeirri staðreynd að eina leiðin til að auka fæðuframboð, sem örvar vöxt og framleiðslu er að veiða meira.
Ég heyri sífellt frá hinum ýmsu aðilum að allt sé hrunið í Færeyjum, þ.e. fiskurinn. Síðast hafði ég spurnir af því að nefndarmaður í endurskoðunarnefnd Jóns Bjarnasonar á aflareglunni hefði haldið þessu fram. Annað hvort eru menn svona illa að sér eða þeir hafa trúað áróðrinum frá hagsmunaðilum kvótakerfisins, sem afskrifa öll önnur kerfi til stjórnunar fiskveiða.
Þorskur hefur verið í lægð í nokkur ár en er nú á uppleið. Myndin hér sýnir rallvísitölur ú rallinu haustið 2010. Skv. því er þorskurinn á uppleið. En gefum færeysku rannsóknastofnuninni orðið, á færeysku að sjálfssögðu:"Fyri tosk hevur lítið verið at fingið síðani 2003, og serliga árini 2006-2008 var lítið at fáa. Men í fjør bragdaði aftur, og úrslitið í ár var uppaftur betri. Hetta stuðlar upp undir framskrivingar, gjørdar í apríl-mai í ár, ið vístu, at toskastovnurin er í góðum vøkstri vegna betri fiskavøkstur og tilgongd (nýliðun); sera lítið varð tó fingið av 0- og 1-ára gomlum toski.
Úrslitini fyri hýsu hava verið støðugt minkandi síðani 2002, og úrslitið í fjør var tað minsta síðani 1991. Tað kvinkaðist nakað uppeftir í ár, men er enn á sera lítlum støði. Men eisini her eru batar at hóma, tí fiskavøksturin er batnaður, og tilgongdin, ið hevur verið sera lítil seinastu árini, tykist nú at vera betri aftur; serliga 2009-árgangurin tykist góður. Men lítið var av 2010 árganginum".
Við þetta má bæta að mikið berst nú á land af smáfiski í Færeyjum. Einn daginn í síðustu viku voru 134 tonn af fiski á gólfinu í fiskimarkaðnum í Tóftum, þar af voru um 60 tonn af stærðum 4 og 5, sem flokka má sem undirmálsfisk. Raddir eru farnar að heyrast um að loka þurfi svæðum á grunnslóðinni vegna smáfiskagengdar. Menn ætla seint að læra. - Það verður að veiða þennan fisk til að reyna að seinka hungursneyðinni.
Meira um fiskveiðar við Færeyjar á Færeyjasíðunni, sem er á heimasíðu minni, Fiskikassanum.
Vísindi og fræði | Breytt 3.2.2011 kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)