Barentshafið, haf breytinganna

Miklar stofnsveiflur hafa verið hjá þorski í Barentshafi. Þróun stofnsins hefur alltaf verið á skjön við ráðgjöf og spár. Á níunda áratugnum var gert ráð fyrir mikilli aukningu stofnsins í kjölfar góðrar nýliðunar, en stofninn hrundi úr hor. Undanfarin ár hefur verið veitt langt umfram ráðgjöf, stofninn er samt í góðu standi, sennilega vegna þessara "umframveiða".


BarCodAflNú sem stendur er þorskveiði með eindæmum góð í Barentshafi og stofninn stendur vel. Þrátt fyrir "umframveiðina" hefur stofninn verið að stækka. En sé aflinn skoðaður aftur í tímann sést að hann var mun meiri áður fyrr, meðan sóknin var frjáls. Á sjöunda áratugnum voru 3000 erlend skip að veiðum í Barentshafi auk þeirra norsku. Útlendingarnir fóru svo af miðunum eftir miðjan áttunda áratuginn og 1987 var farið að stjórna veiðum með hámarksafla og síðar kvótum. 

Veiði langt umfram ráðgjöf

Eftir hrunið mikla var farið að leggja til hærri kvóta en vísindamennirnir ráðlögðu, auk þess fór veiðin einnig talsvert fram úr kvótunum. Ekki má heldur gleyma að Rússarnir hafa veitt langt umfram heimildir, jafnvel svo skiptir hundruðum þúsunda tonna á ári. Þá er stór hluti rússneska togaraflotans með klæddar vörpur til að veiða smáþorsk, sem góður markaður er fyrir í Rússlandi. Mest er veitt í troll og þarna er búið að skafa botninn í hundrað ár, sem virðist í góðu lagi. Hér á Íslandi er því haldið fram að togveiðar og jafnvel snurvoð eyðileggi botninn og eigi mikinn þátt í minnkandi þorskstofni.

BarCodAdvMyndin sýnir hvernig aflinn hefur fram úr ráðgjöfinni frá 1991, öll árin nema 1997 en þá virðast vísindamenn hafa verið of bjartsýnir . Samtals er framúrkeyrslan frá 1990 2,6 milljónir tonna eða 30%. Og aflinn vex. 

Þetta verður að túlka sem svo að veiðarnar örvi framleiðsluna í stofninum, stækki hann, sem er þvert á kenningar hinna hefðbundnu vísindamanna hjá ICES. Ekkert er hægt að segja um hvort stofninn stækki áfram eða hvort hann fari að detta aftur. Af fréttum að dæma er mikið af stórum fiski í Barentshafi en ég hef ekki kynnt mér það sérstaklega. Hann gæti farið að verða ellidauður og það gæti valdið mikilli aukningu í nýliðun og þar með ætisþörf. -  Það kemur í ljós.....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Já Jón það verður aldrei komist hjá sveiflum í þorskgöngum. Fiskurinn er viðkomu mikill í góðæri og eins og sést hefur hér hjá okkur koma ár þar sem fiskur er um allan sjó og næsta ár á eftir þrátt fyrir mjög takmarkaða veiði hverfur þessi fiskur og sést ekki aftur hér.

Ef okkur bæri gæfa til að taka upp sóknarmark núna fengjum við stóraukinn afla strax og gætum hugsanlega komið í veg fyrir að þessi fiskur sem virðist vera víða núna hyrfi ekki af miðunum í fæðuleit.

Eins ættu að sjálfsögðu að vera frjálsar krókaveiðar þannig að einn maður með 3 eða 4 rúllur og stopp dagar innan skynsamlegra marka. Slíkar veiðar gæfu góða vísbendingu um ástand stofnsins og jafnvel fleiri stofna eins og ýsu og ufsa. 

En það er víst ekki hætta á því. Það mátti fara hér inní gott skilvirkt fiskveiðistjórnunar kerfi og taka upp fyrirvaralaust kvótakerfi til reynslu í eitt ár. Síðan þrátt fyrir mjög slæma reynslu þetta eina ár og miklar kvartanir fékkst stuðningur til að halda áfram með þetta kerfi!

Nú eftir helför kvótakerfisins í 27 ár og mjög slæma reynslu ætlar Alþingi sér að hundsa  vilja þjóðarinnar og halda þessu áfram. Hver stjórnar þessu landi er orðin áleitin spurning og þarf þjóðin að gera sér grein fyrir að á Alþingi situr fólk sem gerir sér ekki grein fyrir í hvers umboði það situr. Það er skýlaus krafa þjóðarinnar að fá Kvótakerfið  í þjóðaratkvæðagreiðslu. Af hverju er ekki einn aðili inni á þingi sem þorir styðja það opinberlega?

Ólafur Örn Jónsson, 28.2.2011 kl. 11:59

2 Smámynd: Kristinn Pétursson

Þarna er kjarni málsins.

Öfgarnar sem beitt hefur verið hérlendis - virðast allar hafa verið til stórskaða

Kristinn Pétursson, 28.2.2011 kl. 13:18

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Látum okkur ekki til hugar koma drengir góðir að þetta sé allt saman mistök í útreikningum. Þetta eru einfaldar hagstjórnaraðgerðir eftir pöntun frá sægreifunum svonefndum.

Árni Gunnarsson, 28.2.2011 kl. 17:29

4 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Þetta er það sorgleg við það sem búið er að vera í gangi síðan framsalið var sett á Árni. LÍÚ hefur stjórnað leyfilegu afla magni í tvennum tilgangi. Fyrst í stað gekk þetta út á að fækka smærri kvótahöfum en núna hin seinni ár gengur þetta út á að halda uppi verði á kvóta.

Í góðærum sem komið hafa (en ekki verið veidd) hefði skilyrðislaust átt að úthluta kvóta jafnvel umfram veiðigetu sem hefði þýtt að kvótaverð bæði til leigu og framsals hefði stór lækkað í verði og jafnvel orðið verðlaus á leigumarkaði. 

Hvað yrði um veðin í bönkunum ef kvótaverð lækkar??? Þetta mátti ekki ske.

Þetta er sannleikurinn í hnotskurn. Þetta gengur allt út á veðið í hugtakinu "kvóti". En hefur ekkert með fiskveiðistjórnun eða hag þjóðarinnar að gera.

Ólafur Örn Jónsson, 1.3.2011 kl. 09:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband