Á ekkert að fara að veiða?

Karl V. Mattíasson skrifar grein í Fréttablaðið í dag, 19/2, þar sem hann hvetur til frjálsra krókaveiða. Ég er því sammála og þakka honum fyrir greinina. Ég veit ekki betur að hann sé eini þingmaður sjórnarflokkanna sem talar fyrir því að þjóðin endurheimti veiðiréttinn og menn geti farið að róa án þess að vera leiguliðar sægreifanna. Þetta er nokkuð merkilegt í ljósi þess að s.k.v. nýrri skoðanakönnun MMR er mikill meirihluti landsmanna á móti kvótakerfinu. Þar kom fram að: "Af þeim sem styðja núverandi ríkisstjórn sögðust 74,3% hlynnt því að stjórnvöld afturkalli með einum eða öðrum hætti gildandi fiskveiðiheimildir og úthluti þeim að nýju með breyttum reglum." 

Samt heyrist ekkert í ráðherrum ríkisstjórnarinnar, öðrum þingmönnum hennar, aðeins Kalla. Hvað er í gangi er búið að læsa öllu endanlega? Líffræðingurinn og ráðherrann Össur gerir ekkert, en hann sagði í þingræðu 2005:

"Það eru ekki mörg ár síðan, ætli það sé ekki áratugur, að ég hélt hér miklar ræður um gagnsemi þessarar aðferðar við að vernda þorskinn í hafinu. Ég taldi þá að þessi vísindi væru miklu nákvæmari en reynslan hefur svo sýnt. Við höfum hins vegar horft upp á það á síðustu árum að stöðugt eru að koma fram nýjar upplýsingar sem benda til þess að þær aðferðir sem við höfum notað séu ekki nægilega traustar. Við höfum horft framan í ár þar sem tapast hefur nánast helmingurinn af áætluðum stofni í hafinu. Við höfum séð fram á það að upplýsingar sem hafa komið fram úr t.d. veiðiröllum hafa ekki reynst réttar. Ég minnist þess sérstaklega þegar ég skrifaði á árum fyrr grein í Morgunblaðið og benti á að ósamræmi væri milli þess sem Hafrannsóknastofnun gaf út í lok þess árs sem æskilegt aflamark og þeirrar niðurstöðu sem kom fram í rallinu. Ég fékk aldrei skýringar á þessu misræmi, mér var einungis sagt að ákveðin aðlögun hefði átt sér stað."

Og áfram hélt hann:

"Þetta er ekki traustvekjandi og það er heldur ekki traustvekjandi þegar Hafrannsóknastofnunin slær um sig þéttan varnarmúr og hleypir ekki að þeim aðilum sem gagnrýna kerfið. Ef menn geta fundið eitthvað að þeim aðferðum sem Hafró beitir á það að koma fram. Það hlýtur að vera í þágu vísindanna og þágu greinarinnar að einmitt gagnrýnendunum sé lyft. Við höfum hins vegar séð það aftur og aftur að þeim er kerfisbundið bægt frá."

"Ég er þeirrar skoðunar að innan Hafrannsóknastofnunarinnar ríki kreddur. Alls staðar skapast kreddubundið andrúmsloft þar sem frjálsir vindar rökræðu og gagnrýni fá ekki að leika um. Ég er þeirrar skoðunar að með einhverjum hætti verði að skapa umhverfi þar sem samkeppni hugmynda á þessu sviði ríkir. Ég er þeirrar skoðunar að það væri ákaflega farsælt í fyrsta lagi að brjóta upp þetta kerfi sem við höfum í dag, þ.e. að á sömu hendi í sama ráðuneyti séu bæði eftirlit og rannsóknir með auðlindinni og hins vegar ákvörðunartaka um hversu mikið megi taka af henni. Þetta eru andstæðir hagsmunir sem vegast á og það er ekki farsælt."


Hann sagði líka: "Ég er þeirrar skoðunar að það sé orðið mjög óheillavænlegt hvað þessi umræða er lokuð innan veggja Hafró. Við ræddum það fyrr í dag í þessari umræðu hvernig maður hefur stundum á tilfinningunni að öðrum og gagnrýnni skoðunum sé skipulega haldið frá. Annað birtingarform á þessari skoðanaeinokun Hafrannsóknastofnunar birtist í því að við þingmenn getum ekkert lengur hringt í fiskifræðinga og fengið upplýsingar. Við fáum bara upplýsingar sem við þurfum á að halda í gegnum forstjóra stofnunarinnar. Þannig er verið að straumlínulaga skoðanir Hafró og koma þeim á framfæri bara í gegnum einn munn, (Gripið fram í: Einn kanal.) einn farveg, og fyrir vikið verður þetta ákaflega einsleitt. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi hömluleysi hinnar frjálsu hugsunar sem ríkir við háskóla og þar sem samkeppni hugmyndanna er við lýði til þess að brjótast út úr þessum farvegi. Eitt örstutt dæmi: Hv. þingmaður Jóhann Ársælsson nefndi hér 25% aflaregluna. Enginn maður á Íslandi getur sýnt fram á hvernig hún var fundin. Ég hef farið í gegnum það. Ég barðist í gegnum það og skildi ekki. Ég fór og spurði sérfræðingana og þeir sýndu mér útreikninga sem leiddu að annarri niðurstöðu."

Nú virðist hann vera búinn að gleyma öllu. Össur skildi ekki aflaregluna þá, nú þegar hún er komin niður í 20% segir hann ekkert, kannski er hann farinn að skilja hana núna.

Steingrímur er orðinn sjávarútvegsráðherra. Margir héldu að hann myndi gera fólkinu í landinu kleift að róa til fiskjar. En nei!  Þó það hafi aldrei verið brýnna en nú þá tafsar hann og talar út og suður, sbr. fundinn í Háskólabíói. 
Ekki verður annað séð en að Steingrímur sé kvótasinni. Merkilegt, í ljósi þess að grasrót VG er mjög andstæð kvótakerfinu og vill færa veiðiheimildirnar til þjóðarinnar. Ætlar Steingrímur virkilega að ganga erinda sægreifanna? Hann virðist heldur ekki hafa neitt að athuga við 25 ára tilraunastarfssemi Hafró, sem leitt hefur til eyðingar þorskafla og á endanum þjóðargjaldþrots. Hafró er dýr(keypt)asta stofnun landsins.

Ekki efaðist hann heldur um Hafrófræðin þegar hann leyfði ekki loðnuveiðar. Þessi reynsla sem þeir tala um Hafróliðarnir, að fara varlega, hefur ekki skilað öðru en lélegum vertíðum og þjóðin orðið af miklum afla á meðan þeir sátu sveittir við að telja, - einn, tveir, þrír,......

Það eru aðrir og sterkari kraftar sem virka þarna heldur en stærð hrygningarstofnsins, en talan 400 þúsund tonn var dregin upp úr töfrahatti fyrir liðlega 20 árum og hefur verið notuð hugsunarlaust síðan. Losnum við aldrei við þessa vitleysu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Ég sá greinina hans Karls og gladdist við. Hinsvegar er sama rassgatið undir liðinu þegar það fær ylinn úr stjórnarstólsetunni uppí gegnu hryggstykkið. Steingrímur er því miður tækifærissinni dauðans, Össur á svipuðum slóðum. Það er eins og þetta lið muni ekki nema rétt út daginn hvað það lét út úr sér. Það heitir vís R - syndrom(Reykás syndrom) Ekki við góðu að búast af þessum köllum fyrir íslenska þjóð í veseni. En auðvitað ættu allir að fara á sjóinn án þess að spyrja kóng eða prest. Lögin sem færðu kvótaverðbréfamiðlurunum afnot af sameigninni eru bastarður sem hver einasti íslendingur ætti að hundsa.

Pálmi Gunnarsson, 19.2.2009 kl. 17:24

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Svo helfrosinn sem Steingrímur J. er í súluritaspeki Hafró eru næsta litlar líkur til að hann opni á auknar aflaheimildir. Einhver sagði mér í dag að kannanir á viðhorfum alþingismanna til núverandi fiskveiðstjórnunar hefðu sýnt mikinn meirihluta þeirra sem voru andvígir. Þetta vekur vonir. Og ef framboð í næstu kosningum hamra á þessum efnahags- og atvinnulausnum og sýna góðar viðtökur í skoðanakönnunum vil ég leyfa mér ofurlitla bjartsýni. Heyrst hefur að von sé á 10.000 tonna kvóta handa smábátaútgerð á næstu dögum. Fróðlegt verður þá að sjá útfærslu á því.

En alltaf hallast ég æ meira að því að trúa þeirri ályktun Hriflu- Jónasar að heimska sé ólæknandi.

En svo er auðvitað spurningin um kjarkinn til að velja leiðina sem Pálmi bendir á hér að ofan!

Árni Gunnarsson, 19.2.2009 kl. 20:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband