Fyrir stuttu birtust þær fréttir að grjótkrabbi sem er nýbúi vari búinn að dreifa sér um allt vestanvert landið allt austur í Eyjafjörð. Sagt var að hann gæti verið öðrum tegundum mikill skaðvaldur, án þess að tekið væri fram hverjar þær væru. Tegundin ætti sér fá náttúrulega óvini hér við land og fjölgaði þess vegna mjög hratt. Á aðeins áratug hefur krabbinn farið frá Hvalfirði og breiðst út í Breiðafirði og hefur veiðst á Vestfjörðum, í Húnaflóa, Skagafirði og í Eyjafirði. Ef áfram heldur sem horfir mun grjótkrabbinn nema allt norðausturhornið og austanvert landið á næstu árum.
Vísindamenn eru búnir að fá vinnu
Sindri Gíslason, forstöðumaður Náttúrustofu Suðvesturlands, sér um rannsóknir á útbreiðslu grjótkrabbans. Hann segir þetta framandi lífveru í vistkerfi okkar og því sé fylgst náið með framvindunni.
„Grjótkrabbinn er alæta og ræðst á allt sem að kjafti kemur. Á meðan hann er mjög lítill er hann étinn af botnfiski og öðrum dýrum en þegar hann er kominn yfir vissa stærð hefur ekkert dýr hér við strendur roð við honum,“ bætir Sindri við að lokum.
En hvað með sjómenn, sem eru þeir einu sem geta veitt þessum hættulega krabba viðspyrnu og haft af því góðar tekjur? Þá vandast nú aldeilis málið:
Allar veiðar á kröbbum í gildrur í fiskveiðilandhelgi Íslands eru óheimilar. Ráðuneytinu er þó heimilt að veita tímabundin leyfi til tilraunaveiða á kröbbum samkvæmt 13. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands með síðari breytingum (úr reglugerð nr. 611/ 2007)
Nýlega auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um 3 leyfi til veiða á kröbbum í Faxaflóa fiskveiðiárin 2017/2018, 2018/2019, 2019/2020 sbr. reglugerð nr. 1070/2015, um veiðar á kröbbum í innanverðum Faxaflóa. En það er vandlifað og hér eru smá glefsur úr reglugerðinni:
Aðeins þeir bátar, sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni eiga kost á leyfi til krabbaveiða í gildrur. Heimilt er að binda útgáfu leyfa til veiða ákveðnum skilyrðum, m.a. skýrsluskilum um veiðarnar, hámarksstærð báta, stærð og gerð veiðarfæris, veiðitímabil o.s.frv.
Leyfi til veiða eru bundin við svæði innan línu sem dregin er milli Straumsvíkur og Skógarness (sem er við ósa Haffjarðarár. Línan liggur nálægt landi og þar með er nær allur flóinn friðaður, J.K. )
Óheimilt er að hafa önnur veiðarfæri um borð en gildrur meðan á krabbaveiðum stendur eða meðan gildrur eru lagðar eða þeirra vitjað.
Ekki er heimilt að koma með að landi karlkyns trjónukrabba sem eru undir 60 mm skjaldarbreidd, karlkyns grjótkrabba undir 100 mm skjaldarbreidd eða karlkyns gaddakrabba undir 90 mm skjaldarbreidd. Ekki er heimilt að koma með að landi lifandi kvenkynskrabba af öllum tegundum.
Það er greinilega komið fram af mikilli kurteisi við þessa tegund þar sem sleppa skal öllum kvendýrum svo tegundin hafi meiri möguleika á að fjölga sér. Eru menn alveg stein(grjót)runnir?
Þessi tegund er mjög verðmæt vara og gæti gefið sjómönnum og fleirum miklar tekjur. Er þar að auki, að sögn, mjög ágeng og þarf viðspyrnu við. Í hvers þágu er svona ofstjórnunar vitleysa? Því eru krabbaveiðar ekki gefnar alveg frjálsar?
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:16 | Facebook
Athugasemdir
Þeir eru hvorugt, þeir eru Beurokratar, úrkynjaðar mannskepnur sem ekki hugsa sjálfstætt og lifa í fílabeinsturni einhversstaðar langt langt í burtu frá raunveruleikanum.
Hrossabrestur, 5.10.2017 kl. 19:08
"Ekki er heimilt að koma með að landi lifandi kvenkynskrabba af öllum tegundum"
Þessi setning, ein og sér, er svo galin, en þó svo lýsandi, um reglugerðabjálfa í opinbera geiranum. Hvað ætli séu margir aðilar innan Sjávarútvegsráðuneytisins, sem vita yfir höfuð eitthvað um krabba, eða krabbaveiðar? Fullyrði að þar finnst ekki einn einasti maður, eða kona, sem veit neitt í sinn haus um þessi mál. Krabbaveiðar í gildrur hafa lítið verið stundaðar hér við land. Það er nokkuð merkilegt, ef litið er til nágrannaþjóða okkar og víðar. Krabbi og humar sem veiddur er í gildru er besta hráefni sem hægt er að fá. Óbrotinn, sprellifandi og óskemmdur, því ekkert farg dregur úr gæðunum. Að auki er hægt að sleppa því sem er annaðhvort of smátt, eða af öðrum tegundum aftur í hafið. Umhverfisvænasta veiðiaðferð sem til er.
Magnús Sigurðsson fékk á sínum tíma leyfi til að stunda humarveiðar í gildrur. Áratugir síðan. Einyrki fullur eldmóðs, sem fékk lítið annað en hindranir á vegi sínum og þá helst frá hinu opinbera, með allskyns andskotans regluverk og höft, sem að lokum settu hann á hliðina. Frumherji sem hið opinbera gekk frá með bjúrókrati sínu.
Sú staðreynd að Grjótkrabbi hafi undanfarin ár gert sig heimakominn á miðunum er býsna alvarleg. Að yfirvöld fiskveiðimála skuli ekki skilja þetta, er kristaltær sönnun þess að kerfisbullurnar og reglugerðabjálfarnir í ráðuneytinu eru til lítils annars nothæfir, en að naga blýanta og láta frá sér dauðans dellu, sem skaðar meira en byggja upp og halda utan um vistkerfið við strendur landsins, með aðstoð Hafró.
Upphafssetningin í þessu rausi mínu er skínandi dæmi um heimsku. Það á sér stað innrás í vistkerfið. Hið opinbera veit af því, en virðist andskotans sama. Það ætti að sjálfsögðu að gefa veiðar frjálsar á þetta kvikyndi. Það er nóg til af bátum og duglegu fólki, sem er reiðubúið að grisja þennan ófögnuð og hafa jafnvel ágætt upp úr því fjárhagslega. Starfandi Sjávar og Landbúnaðarráðherra veit náttúrulega ekkert um þetta mál og því ekki neinu frá þeirri mannvitsbrekku að ætlast. Vonandi verður næsti ráðherra þessara mála betur upplýstur og viljugri til að taka á vandanum. Vandinn er mikill og mun að lokum, ef ekkert verður að gert, rústa vistkerfinu meðfram ströndum Íslands.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan og afsakaðu langlokuna Jón minn;-)
Halldór Egill Guðnason, 6.10.2017 kl. 02:13
Takk fyrir innleggið Dóri. Engin langloka, bara fræðandi. Það var séstakur maður í Sjávarútvegsráðuneytini til þess að bægja frá "alls konar fólki", sem vildi gera tilraunir með hitt og þetta. Allt skíkt var kæft í fæðingu.
Kveðja úr norðrinu
Jón Kristjánsson, 6.10.2017 kl. 11:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.