3.4.2011 | 15:59
Sorglegt
Netin stífluð af fiski en í landi stendur horaður almúginn og horfir á. Vertíðarfiskur virðist vera með mesta móti um allt land en nánast ekkert má veiða. Netaflotinn er nánast horfinn og þeir fáu sem enn eru eftir mega sig ekki hræra vegna kvótaleysis.
Hér áður voru um 100 bátar í Eyjum og aflinn var 1500-2600 tonn á dag skv. nýlegum fréttum sjónvarpsins. Einnig sagði í fréttinni að nú væri aflinn 500 tonn á viku og bátana mætti telja á fingrum annarrar handar. Vetrarvertíðir áður fyrr skiluðu um 150 þúsund tonnum af þorski auk ufsans. Þessar aflatakmarkanir undanfarna áratugi eru sagðar í þágu "uppbyggingar", gera stofninn enn stærri! Bara að það fari nú ekki með þetta eins og spilaborgina: Eitt spil í viðbót - og pomm!
Það er sorglegt að láta þennan fisk ganga hjá, sérstaklega þar sem mæld hrygningar- og veiðiafföll þorsks eru allt að 80%, sjá kafla 2.3 í þessari grein. Það er því að mestu "nýr fiskur" sem kemur á hverju ári. Þetta var mælt á árunum 1948-1969, þegar sótt var á fullu í hrygningarstofninn.
Þeir sem keyra svona dellu- fiskveiðistjórn áfram áratug eftir áratug eru hryðjuverkamenn. - Ætlar þessu aldrei að linna?
Á myndinni má sjá hvernig endurheimtum fækkar með tíma. Því lengur sem líður frá merkingu þeim mun færri fiskar skila sér. Þetta er byggt á endurheimtu 1126 merkja af 7772 árin 1948-1969. Heildarheimtur voru aðeins 14.5%, sem má túlka þannig að afföll vegna hrygningarinnar séu miklu meiri en vegna veiðanna, enda sýndu rannsóknir Jóns Jónssonar frá þessum tíma að flestir þorskanna voru að koma til hrygningar í fyrsta sinn. (Skalinn á myndinni er veldisskali, log skali)
Ævintýraleg byrjun á netaralli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 5.2.2016 kl. 16:38 | Facebook
Athugasemdir
Og þjóðin stendur á öndinni kerfið titrar stafnanna á milli vegna ómerkilegra dægurmála. En þetta lykilatriði efnahagslegs sjálfstæðis þjóðarinnar er í gíslingu nokkurra ómerkilegra lukkdýra spilltra pólitíkusa.
Mér var sagt af vönduðum manni að meðalþyngd línuþorsks á útileguskipi hefði verið um 10 kg. fyrir og eftir síðustu áramót og aflabrögð óhemju góð.
Frá verstöðvum allt umhverfis land berast fregnir af mokfiskiríi og óvenju vænum þorski.
Nú velta margir því fyrir sér hvort þjóðin eigi engin tæki til að losa sig við þessar stofnanir sem eru hennar helst þröskuldur á leiðinni út úr kreppunni sem starfsmenn þeirra áttu svo sannarlega stóran þátt í að skapa.
Árni Gunnarsson, 3.4.2011 kl. 17:36
Í verstöðinni Grindavík ber öllum viðmælendum mínum saman um að sjórinn sé yfirfullur af fiski sem ekki má veiða nema að mjög litlu leyti.
Þetta ástand er fyrir löngu orðið algjörlega óþolandi fyrir þjóð í neyð.
Björn Birgisson, 3.4.2011 kl. 17:56
Já Árni
Þessir menn í turninum á Skúlagötunni þurfa bara að segja þrjú lausnarorð til að leysa málið: Hættum að friða!
En nei ekki það: Heyrast nú raddir frá Noregi að ekki sé rétt að friða sýkta síld. Vorum við ekki búnir að nefna það? Ætli þeir á Skúlaskeiði noti flöskupóst?
Jón Kristjánsson, 3.4.2011 kl. 17:57
Er ekki kominn tími til að skoða hvaða strærð og tegund skipa skilar mestu til þjóðarbúsins og líka til fólks i formi vinnulauna. Er ekki viss um að Líúarar vilji að það sé gert, ekki víst að stórútgerðin skili nógu góðu úr slíkri úttekt..
Pétur Guðmundsson (IP-tala skráð) 3.4.2011 kl. 19:00
Manni finnst skömm af því hvernig SA hlustar eingöngu á grátkórinn í LÍÚ mafíunni og vill ekki taka þátt í samningaviðræðum nema mafían haldi nánast öllu óbreyttu.Hvað halda þessir menn að þeir séu,alræðisvaldið er svo ofarlega í huga þeirra að skömm er af þeim, mér finnst að kjósa hefði átt um afstöðu þjóðarinnar til núverandi kvótakerfis um leið og kosningar um Icsavemálið.Það ætti að gefa handfæraveiðar frjálsar með takmörkunum á hámarksafla t.d. 50 tonn á bát og afla væri landað í heimabyggð,slíkt myndi lyfta upp öllu atvinnulífi í landinu og ekki veitir af því.Allaveganna má ekki láta mafíuna fá meiri kvóta til að braska með eins og þeir hafa gert til þessa, þar ráða menn sem eru ekkert nema frekjan og eigingirnin, sama um land og þjóð.
Sigurgeir Árnason. (IP-tala skráð) 3.4.2011 kl. 19:48
Samkvæmt aflafréttir.com eru 40 netabátar sem lönduðu í mars. þar af 4 í Vestmannaeyjum og 4 frá Höfn sem hafa mokfiskað í 5 trossur en hafa fækkað í 3 trossur síðustu daga. Mok hjá Haldóri NS Frá bakkafirði, allstaðar mok afli í netinn.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 3.4.2011 kl. 22:50
Gaman væri að reiknisglöggur maður eins og þú Jón, reiknaðir út hvaða þýðingu auking afla uppí 500.000 tonn á ari hefði að segja fyrir þjóðarbúið.
Björn Emilsson, 3.4.2011 kl. 22:55
Bara trossufjöldinn einn og sér segir frá því hversu óhemju miklum verðmætum er sóað með því að auka ekki við aflaheimildirnar. Og það er ekki annað hægt en að fordæma svona vinnubrögð sem breitt er yfir með vísindalegum kjaftagangi.
En til lítils er að lýsa ábyrgð á hendur þessum mönnum sem vinna þjóðarbúinu tjón af ómældri stærð og þiggja síðan laun frá þjóðinni fyrir.
Árni Gunnarsson, 3.4.2011 kl. 23:14
Heill og sæll Jón, þetta eru merkilegar staðreyndir sem þú kemur með þarna, og það er merkilegt að það skuli ekki meiga veiða meira af þorski. Sjálfur var maður á þessum vertíðum í Eyjum þegar svona vel fiskaðist vertíð eftir vertíð.
Í samtölum við sjómenn ber þeim öllum saman um það, að mikið magn sé af fiski hér með allri suðurstöndinni. Þarf bara ekki að skipta um mann í brúnni á Skúlagötunni ?
Kær kveðja
Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 3.4.2011 kl. 23:15
Sannarlega vekjandi pistill (þótt ég hafi ekki verið að vakna núna!), nafni.
Þurfa hrópendur í eyðimörk fáfræði og þrjózku að öskra áratugum saman?
Fyrir rúmri öld gengu bændur í mótmælaaðgerð gegn vísindaframförum til Reykjavíkur og höfðu rangt fyrir sér.
Hvenær rekur að því, að sjómenn fylki liði gegn gervivísindum og taki hús á Hafrannsóknastofnun?
Segðu mér svo: Ertu sammála manninum sem talaði á eftir mér á Útvarpi Sögu nú í vikunni, þar sem ég hafði hvatt til þess, að loðnuveiðum yrði hætt eða þær takmarkaðar – einnig hafði ég minnzt á, að þorskveiðar hefðu verið margfaldaðar í Barentshafi. Nefndur maður sagði, að loðnuveiðum hefði verið hætt í Barentshafi fyrir mörgum árum, og aukning þorskstofnins hefði haldizt í hendur við aukningu loðnustofnsins (nú sé hins vegar lítillega byrjað að veiða úr loðnustofninum þar).
Jón minn, við ætlum ekki að þola 10 ár í viðbót af þessari vitleysu.
Eða ætla menn svo að láta ESB-ríki hirða eins og þeim sýnist af allri þeirri aflaaukningu, sem hér á eftir að verða, til viðbótar við harða samkeppni um núverandi afla?
Eða eigum við að borga leiðandi Hafrómönnum stórfé fyrir að skila ríkisborgararéttinum?
Hvað er eiginlega til ráða, þegar hjátrúarfullir ráðamenn taka ekki mark á vitneskju þjóðar sinnar um fullan sjó af fiski?
Það vantar ekki gorgeirinn í ráðamenn, en í raun eru þeir hlálega ragir og bugta sig fyrir þessum hjávísindamönnum.
Jón Valur Jensson, 4.4.2011 kl. 03:55
Og hjávísindi er svo sannarlega orðið sem þarna á við.
Árni Gunnarsson, 4.4.2011 kl. 08:02
Björn
Lauslega má ætla að hvert kg af þorski leggi 700 kr inn í þjóðarbúið, fiskverð + afleiddar tekur. Viðbót upp á 250 þús tonn, sem hífir okkur upp í 400 þús. tonna meðaltalið, sem veitt var áratugum saman og lofað var að myndi aukast um 50 þús. tonn ef við "hlýddum", gæfi 175 milljarða miðað við ofangreindar forsendur. Er þá óreiknuð aukning í öðrum tegundum, sem kæmu í land, minnkað atvinnuleysi og aðrir þættir.
Ef vertíðin núna væri stunduð eins og áður mætti áætla um 120 þús tonna aflaaukningu. Á 100 daga vertíð erum við þannig að kasta frá okkur um milljarði á dag.
Rík þjóð Íslendingar sagði Geir Haarde þegar þorskvótinn var skorinn um 60 þús. tonn
Jón Valur
Ég tel ekki að loðnuveiðar okkar standi þorskstofninum fyrir þrifum. Málið tel ég vera alveg öfugt, of lítil þorskveiði leiðir til meira áts á ungloðnu,1-2 ára, þannig að minna gengur til hrygningar af 3 ára loðnu, sem drepst svo eftir hrygningu.
Um friðun loðnu í Barentshafi bulla menn án þess að hafa kynnt sér gögn. Ég skrifaði ítarlegan pistil um loðnu og þorsk í Barentshafi og ég er með sérstaka Barentshafssíðu í Fiskikassanum. Á forsíðunni í "Fiskikassanum" er einnig að finna slóð sem heitir Loðna+Fugl. Þar er m.a. fjallað um lífsferil og göngur loðnu, sandsíli, lunda og fleiri svartfugla og samspil þessara tegunda.
Jón Kristjánsson, 4.4.2011 kl. 11:27
Sælir allir fiskispjallarar.
Var að koma af bryggjunni. Maggi á Drangavík og hans menn voru að koma úr 22 tíma túr með 80 tonn. Maggi segir ver óvenju mikið magn af fiski mjög víða. Magnús talar nú yfirleitt mjög varlega. En skipstjórar hér í Eyjum eru mjög sammála um meiri fiskgengd og þá mun meiri þorsk en undanfarin ár og þótti þó nóg um í fyrra.
Valmundur Valmundsson, 4.4.2011 kl. 16:17
Ps. er ekki kvótaverðið að hækka???
Valmundur Valmundsson, 4.4.2011 kl. 16:18
Kærar þakkir fyrir skýr svör, nafni, og vefsíður sem ég þarf að kynna mér.
Sláandi eru svo þessar tölur þínar um verðmætaaukninguna við eðlilega aukningu þorskveiða!
Jón Valur Jensson, 4.4.2011 kl. 23:48
Eftir að menn med fulde fem komast svo að völdum hér á landi, í stað rögu flokkanna, setjum við þorskinn aftur í skjaldarmerkið.
Jón Valur Jensson, 4.4.2011 kl. 23:50
Ég held að við ættum frekar að auka aflaheimildir um milljarð á dag en greiða ólögvarðar skuldir Landsbankans í útlöndum.
Hvað sem því nú líður þá er ástandið orðið grafalvarlegt þegar Vilhjálmur í SA er farinn að setja ríkisstjórninni stólinn fyrir dyrnar ef kröfum LÍÚ verði ekki sinnt.
Árni Gunnarsson, 5.4.2011 kl. 20:58
Vilhjálmur ætti nú bara að dveljast sem mest suður í Miðjarðarhafi.
Jón Valur Jensson, 6.4.2011 kl. 04:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.