25.7.2013 | 11:21
Rækjuveiðibann - Moskva svarar ekki
Veiðar á úthafsrækju voru bannaðar fyrsta júlí s.l. en þær höfðu verið frjálsar. Eina röksemdin var að veiðarnar væru farnar fram úr ráðgjöf Hafró. Ég bloggaði um málið og gagnrýndi stjórn veiða á úthafsrækju enda hefði hún engan árangur borið.
Fram kom að ráðherra myndi endurskoða fyrirkomulag rækjuveiða og kveða til hagsmunaaðila og sérfræðinga.
Ekki er um auðugan garð að gresja í því efni, Unnur Skúladóttir rækjusérfæðingur til áratuga hefur látið af störfum og nýr sérfræðingur, sem er að byrja að öðlast reynslu, hefur tekið við.
Ég sendi því sjávarútvegs- (atvinnuvega) ráðherra eftirfarandi tölvubréf þann 10 júlí:
Hæstvirti ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson.
Ég er sérfræðingur í rækju og rækjuveiðum. - Ég stundaði rækjurannsóknir 1995- 2003, aðallega á Flæmska hattinum en einnig innfjarða m.a. í Arnarfirði og Skagafirði, á vegum Rækjuvers og Dögunar. Fór ég í nokkra rannsóknaleiðangra með Dröfn RE, sem var gerð út af Hafró. Hér er að finna ýmis skrif mín um rækju bæði á ensku, sem birt hafa verið á vegum NAFO, og íslensku.
Ég hef séð í fréttum að skipulag rækjuveiða sé í endurskoðun, fyrirkomulag og veiðimagn sé ekki enn ákveðið en að samband verði haft við hagsmunaaðila og sérfræðinga í því sambandi.
Hér með óska ég eftir því að verða til kallaður í sambandi við það mál.
Virðingarfyllst,
Þegar ekkert svar hafði borist eftir rúma viku sendi ég ítrekunarpóst. Svar er ekki komið enn og ég veit reyndar ekki hvort pósturinn hafi borist ráðherra. Ef menn vilja ekki þiggja framboðna aðstoð, er lágmarks kurteisi að afþakka hana. - En það heyrist ekkert frá Skúlagötu 4 fremur en endranær.
Vísindi og fræði | Breytt 5.2.2016 kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)