28.7.2010 | 19:02
Aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra?
Bréfið til Jóns fer hér á eftir, sjálfur er ég að fara í frí í tvær vikur, ætla að spjalla við "sjómenn" á Winnipegvatni.
Þær gleðifréttir bárust í dag að leyfa skyldi strandveiðibátum að veiða makríl á öngla. Þetta er mjög jákvætt, þó ég skilji ekki 3000 tonna aflamarkið. Við getum jú ráðið sjálfir hvað við veiðum.
Nú fer að koma að því að þú ákveðir aflamark ársins, því sendi ég þér þessar línur.
Ég býð þér hér með hér með aðstoð mína til að meta gögn og ákveða aflamark. Ég fer ekki fram á að fá greitt fyrir þá hjálp.
Ég hef gagnrýnt fiskveiðistjórnunina með faglegum rökum í 27 ár. Enginn ráðamanna hefur viljað hlusta, hvað þá að gera eitthvað í málinu. Ég hef boðið sjávarútvegsráðherrum og flestum stjórnmálaflokkum að skýra mína gagnrýni og tillögur að betri veiðistjórnun með fyrirlestrum byggðum á vísindalegum rökum. Einungs Frjálslyndi flokkurinn tók þessu tilboði. Ég hef setið 3 fundi með sjávarútvegsnefnd Alþingis, í öll skiptin voru fulltrúar Hafró boðaðir til fundar næstir á eftir mér. Þeir hafa væntanlega verið spurðir álits á því sem ég var að segja. Viðbrögð í framhaldi fundunum hafa engin verið (www.fiski.com/raduneyti.html).
Sinnuleysi ráðamanna við að skoða til hlítar hvort hvort gagnrýni á fiskveiðistjórnunina hafi við rök að styðjast varðar við lög, sbr. skýrslu Rannsóknarnefndar. Fiskveiðistjórn varðar almannaheill á Íslandi, þorskstofninn hefir verið kallaður "fjöregg" þjóðarinnar og á sínum tíma var honum komið í vörslu þeirrar stofnunar, sem nú kallast Hafró.
Fjöreggið hefur í vörslu Hafró rýrnað um tvo þriðju. Í stað þess að bregðast við, með því að sannreyna hvort eitthvað sé til í gagnrýninni líða ráðherrar og alþingismenn Hafróliðinu að afvegaleiða gagnrýnina og kasta skít í gagnrýnendur á tímum sem þjóðin þarf mest á fiskinum sínum að halda.

Ekki hefur gagnrýni minni verið hnekkt með haldbærum rökum eða hún verið afsönnuð með tilraunum. Ég hef oft stungið upp á við ráðamenn að gera tilraun með að afmarka ákveðið svæði, leyfa þar frjálsar veiðar til að sjá hvað myndi gerast, en megin þunginn í gagnrýni minni hefur verið að það þurfi að veiða meira, sérstaklega af smáfiski, svipað og gert var hér áratugum saman.
Með þessu ætti að vera einfalt að sýna fram á að ég hefði rangt fyrir mér. Engin slík tilraun hefur enn verið gerð.
Sem búfræðingur hlýtur þú að vita að fæða og fóður skipta höfuðmáli fyrir viðgang búpenings hverju nafni sem hann nefnist. Forðagæslumenn í sveitum voru til að sjá til þess. Þegar vöxtur þorsks er í lágmarki eins og nú hlýtur lykillinn að viðgangi og aukinni framleiðni þorskstofnsins að liggja í auknum aðgangi að fóðri. Slíkt fæst eingöngu með grisjun stofnsins og breyttu veiðimynstri.
Þá má nefna að yfirleitt er sýktu búfé slátrað til að koma í veg fyrir frekari sýkingu, en nú fær dauðvona síld að ganga með annarri þannig að stofninn tærist niður engum til gagns.
Að lokum vil ég endurtaka að ér er reiðubúinn að veita ráðuneytinu alla þá faglegu aðstoð sem ég get.
Bestu kveðjur, Jón Kristjánsson
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.7.2010 | 17:57
Misheppnuð stjórn rækjuveiða við Ísland - sorgarsaga
Stjórn rækjuveiða við Ísland er sorglegt dæmi um hvernig fer þegar menn reyna að taka völdin af náttúrunni og reyna að hafa áhrif á framvindu dýrastofna. Menn hafa verið að "spara" stofnana í þeirri trú að þá mætti veiða seinna. Nú er svo komið að rækjuveiðar við landið eru nánast aflagðar. Innfjarða er aðeins leyft að veiða við Snæfellsnes og er tillagan fyrir komandi ár 450 tonn. Þegar best lét, 1996 og 97 var afli innfjarðarækju um 10 þús tonn. Því hefur verið kennt um að þorskur og ýsa hafi étið upp rækjuna. Nú er hvergi veitt svo þetta rækjuát fær að fara fram í friði og ró.
Afli úthafsrækju hefur farið úr liðlega 60 þúsund tonnum 1996 niður í nær ekki neitt í fyrra. Samt hefur verið gefinn út 7 þúsund tonna kvóti í nokkur ár, sem ekki hefur verið veiddur því kvótahafar hafa notað hann í brask. Veiðar á úthafsrækju nú verið gefnar frjálsar, tími til kominn.
Þessar stjórnunartilraunir eru grátlegar vegna þess að vísindamenn í öðrum löndum, Noregi t.d, hafa verið sammála um að rækjuveiðar væru löngu hættar að vera arðbærar áður en stofninn kæmist í hættu. Um nokkurt skeið hafa einungis örfá skip verið á Flæmska hattinum þó nóg sé þar af rækjunni og veiðar nær frjálsar. Með hækkandi olíuverði og fallandi rækjuverði borgar sig ekki lengur að gera út.
Fiskskiljur voru skyldaðar við úthafsrækjuveiðar í kring um 1996. Tilgangurinn var að vernda þorsk. Ég varaði Hafró við þessu á þeim tíma vegna þess að reynslan var slæm frá Noregi:
Fyrst töpuðu sjómenn þriðjungi tekna vegna þess að ekki var lengur neinn meðafli. Þá fór rækjuafli minnkandi og annar þriðjungur tekna tapaðist. Sjómenn kenndu því um að nú fengi fiskurinn, sem þeir áður veiddu að éta rækjuna óáreittur.
Eftir að skiljurnar voru teknar í notkun við Ísland fór afli hratt minnkandi. Hvort þarna sé samhengi á milli er ekki víst, en rækjudeildin á Hafró kenndi afráni þorsks og ýsu um minnkun stofnsins og hefur gert það æ síðan. En áfram fær þorskurinn að éta óáreittur, - það er nefnilega verið að byggja upp þorskstofninn.
Myndin sýnir afla úthafsrækju frá 1987, svarta línan, aflaráðgjöf Hafró, rauða punktalínan og útgefinn kvóta, gula línan. Hér sést að farið hefur verið nákvæmlega eftir ráðgjöfinni allan tímann að frátöldum síðustu árum þegar farið var að braska með kvótann.
Hér eru nokkrar klausur úr ástandsskýrslu Hafró sem sýnir örvæntingu rækjudeildarinnar:
...... "Í líkaninu er gert ráð fyrir að náttúruleg dánartala af völdum þorsks sé í réttu hlutfalli við magn þorsks á rækjusvæðinu. Í líkaninu voru notaðar niðurstöður úr mismunandi stofnmælingum sem mælikvarði á afrán þorsks á rækju.
Niðurstöður stofnmatslíkansins benda til að rækjustofninn sé í mun verra ástandi en stofnmæling úthafsrækju bendir til. Munurinn virðist tengjast nýliðunarvísitölum en eins og sést á mynd 2.27.4 hefur nýliðun rækju undanfarin 5 ár verið mjög lítil. Þessi lélega nýliðun getur engan veginn haldið stofninum í stöðugu ástandi eins og niðurstöður SMR gefa þó til kynna. Samband nýliðunar og nýliðunarvísitalna virðist því flóknara en talið hefur verið og þarfnast það frekari rannsókna. Af þessum ástæðum var ákveðið að byggja ráðgjöf næsta fiskveiðárs ekki að fullu á stofnmatslíkaninu.
Niðurstöður SMR árið 2009 benda til að stofninn sé lítill, afrán þorsks er talið frekar mikið og nýliðun virðist áfram vera léleg eins og verið hefur undanfarin ár. Sókn í stofninn hefur verið mjög lítil undanfarin ár og skýrir það að vísitala kvendýra hefur vaxið og er í meðallagi, þrátt fyrir mikið afrán þorsks. Þó virðist þorskurinn síður éta stóru rækjuna.
Í ljósi ofangreindra upplýsinga telur Hafrannsóknastofnunin að ekki séu forsendur fyrir breytingu á aflamarki og leggur til að heildaraflamark úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2010/2011 verði 7 000 tonn, sem er sama aflamark og lagt var til fyrir síðustu fjögur fiskveiðiár. Náist sá afli mun það verða umtalsverð aflaaukning frá því sem verið hefur undanfarin 5 ár. "......
Þetta er vægast sagt ömurleg lesning. Ég vona að ráðherrann fari ekki að stöðva rækjuveiðar þó þær fari verulega fram úr ráðgjöfinni. Einnig að hann aflétti skyldunni um þorskskiljur og haldi meðafla utan kvóta. Það ætti að verðlauna menn sem veiða þorsk sem étur frá okkur rækjuna.
Hér er meira um rækju.
Vísindi og fræði | Breytt 23.7.2010 kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.7.2010 | 22:29
Fæðuskilyrði í sjó skammta stórlaxinn
Enn er Veiðimálastofnun að ljúga því að fólki að stórlaxinn sé sérstakur "stofn". En kannski vita þeir ekki betur.
En þetta er ekki svoleiðis; stórlaxar og smálaxar tilheyra sama erfðamengi. Litlir og stórir laxar maka sig saman, og stór hluti seiðanna eru feðraðir af dverghængum sem aldrei ganga til sjávar. Hvað stofnuninni gengur til með þessu rugli er mér alveg óskiljanlegt. En þessum vernduðu vinnustöðum virðist ekkert heilagt og fá að komast upp með hvað sem er.
Ég læt hér flakka með mynd af svilfullum dverghæng, og bendi á eldri færslu mína um þetta mál.
![]() |
Veiðifélög banni stórlaxadráp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
16.7.2010 | 19:52
Endurskoða aflaregluna??
Fram kemur að ráðherra ætli að:
setja á laggirnar samráðsvettvang um nýtingarstefnuna sem í eigi sæti m.a. fulltrúar stjórnvalda, atvinnugreinarinnar og fiskifræðinga. Fyrsta verkefni samráðsvettvangsins verður að fara yfir aflaregluna í þorski og meta hvort ástæða er til að leggja til breytingu á henni með tilliti til breyttra aðstæðna og sterkari stöðu stofnsins. Verði lögð til breyting mun verða haft samráð við Alþjóða hafrannsóknaráðið, m.a. með tilliti til sjálfbærni veiðanna.
Aflareglan stangast á við alla líffræði: Ekki er hægt að ákveða fyrirfram hvað má taka úr dýrastofni. Auk þess er ekki sama hvernig er veitt, á að taka 20% af smáfiski, öllum fiski eða stórfiski. Allt fer þetta fram í tölvunum sem örugglega taka ekki með í reikninginn makrílgegndina sem nú er, flökkufiskur sem étur fiskafæðu og seiði og hverfur svo á braut með ránsfenginn eins og víkingarnir".
Svo þetta með sjálfbærni. Hvað er það? Veiða ekki neitt?
Þetta er versta hugtak sem fundið hefur verið upp og þjónar eingöngu málflutningi Græningja.Varðandi þess aflareglu: Það er barnalegt að miða nýtingu, aflahlutfall, við einhver prósent af stofni, sem er örugglega kolvitlaust mældur, stórlega vanmetinn. En ráðherrann vill nú breyta prósentinu, sem nefndir eru búnar að ákveða tvisvar, fyrst 22% svo 18% ! Enn skal reikna sig áfram.
Hvaða fiskifræðingar skyldu nú fá að vera með? Ekki ég, ekki aðrir sjálfstæðir fiskifræðingar sem eru allir sammála um að aflareglan, fasta prósentan af vitlausu stofnmati, sé della. Ég bíð spenntur að til mín verði leitað, eða þannig.
![]() |
160 þúsund tonn af þorski |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 18.7.2010 kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)