Svindlið og subbuskapurinn í kvótakerfinu

Loksins tók sjónvarpið sig saman, rauf þöggunina um kvótakerfið og gerði ágætan þátt um brottkastið. Tíu ár eru liðin síðan Kompásþátturinn, sem fjallaði um sama efni, var gerður. Þá urðu viðbrögð undir væntingum og hefur lítið verið fjallað um málið í fjölmiðlum undanfarinn áratug. Umgengnin og subbuskapurinn hefur lítið hefur breyst frá því að Kompásþátturinn var gerður.

Viðbrögð við þættinum núna eru af ýmsum toga. Talsmenn útgerðar segja að þetta sé ekki lengur svona, menn umgangist fiskimiðin af virðingu. Guðmundur í Brimi var tekinn í bólinu eftir að hann sagði að löngu væri búið að kippa málunum í liðinn, myndböndin væru gömul og nú væri allt komið í lag. Þá dró Helgi Seljan, sem nú getur gleymt því að komast í skipsrúm, upp ársgamalt myndband um brottkast úr Kleifaberginu og mátaði Guðmund. Hann bregst við með því að biðja um lögreglurannsókn á því hvernig myndbandið hafi orðið til og hver sé svikarinn.

Ráðherra sagði að það þyrfti að efla Fiskistofu svo hún gæti hert eftirlit. Reyndar sýndi umfjöllun sjónvarpsins að stjóri Fiskistofu reynist vera algjör auli og vanrækir starf sitt vegna þrýstings utan frá, af yfirvöldum eða hagsmunaaðilum, sægreifunum. Framburður fyrrverandi starfsmanna benti til þess að umkvartanir þeirra hefðu ekki fengið mikil viðbrögð frá stjóranum eða hærri yfirvöldum. Spurning er hver sé undir hælnum á hverjum og hver ráði málunum í raun.

Ráðandi aðilar halda áfram að dásama kvótakerfið, afneita öllum göllum þess og segja að það þurfi að laga það, herða tökin í eftirlitinu. Ekkert er rætt um aðalatriðið:

Fiskveiðikerfi sem byggist á því að hámarka verð þess afla sem komið er með að landi og magn þess sem veiða má er takmarkað, leiðir alltaf til þess að verðmætasti fiskurinn er valinn úr og afganginum hent. Eina lausnin á vandamálinu er að taka upp sóknarkerfi þar sem úthlutað er ákveðinn sókn, veiðidögum, þar sem menn mega landa öllum veiddum afla án tillits til magns eða tegunda. Þá hverfur brottkastið og skráning afla verður rétt. Til þessa þarf hugarfarsbreytingu hjá þeim aðila sem sjaldan er minnst á, Hafró.

Þeim er haldið utan við umræðuna er þeir eru fylgjandi þessu kerfi vegna þess hve það er þægilegt: Fara á sjó í rall, mæla stofninn, með réttu eða röngu, og gefa svo út ákveðna prósentu af þessum mælda stofni sem aflaheimild eða kvóta.

Sá sem ekki skilur að kvótakerfi þar sem aflaheimildir eru takmarkaðar og útgerðarmaðurinn gerir allt til að hámarka verðmæti þeirra leiðir til brottkast, sorteringar og svindls, hann er ekki hæfur til að stjórna nýtingu fiskstofna. Þegar heil stofnun með öllum sínum starfsmönnum leggur blessun sína yfir kvótakerfið er eitthvað mikið að og krefst rannsóknar.

Enn er svo ótalið að á meðan landsmönnum flestum er óheimilt að sækja sjó og þurfa að búa við skert kjör og fallandi fasteignaverð leyfist nokkrum útvöldum, sægreifum, að ganga um eins og sóðar og svindlarar, henda og stela fiski, sem öðrum er ekki heimilað að veiða. Þar að auki lifa starfsmenn þessara greifa við stöðuga ógn um brottrekstur ef þeir voga sér að segja frá, sbr. kæru Guðmundar í Brimi, sem minnst er hér að ofan.

Er ekki kominn tími til að taka á þessu máli af alvöru?


Bloggfærslur 23. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband