1.8.2008 | 19:09
Stöðugleiki náttúrunnar?
Það berast fréttir af óhemju laxveiði þessa dagana, sem engan óraði fyrir.
Hvað er nú í gangi, allt fullt af fiski, stórum laxi, feitri bleikju, sandsíli, maður veit ekki hvaðan stendur á sig veðrið!
Var ekki allt að fara til fjandans í fyrra og síðustu ár? Stórlaxinn, var ekki búið að veiða upp erfðaefnið? Í Breiðdalsá um daginn rak ég augun í plakatið frá Veiðimálastofnun: "Verndum stórlaxinn": Sleppa öllum stórum laxi til að endurheimta erfðaefnið! Er þessi aðgerð farin að skila stórlaxi strax?
Nei þekkingin var ekki meiri en svo að menn héldu að dvalartími laxa í sjó væri beinlínis erfðabundinn: Laxar sem dveldu tvö ár í sjó gæfu af sér laxa sem væru tvö ár í sjó, eða þannig. Þetta er nú ekki svona beintengt. Það sem er hins vegar erfðabundið er hæfileikinn til að svara breytingum í náttúrunni. Ef skilyrði eru góð, má vera úti í 2 ár, ef vaxtarskilyrði eru slæm, þá er að drífa sig heim eftir fyrsta árið og auka kyn sitt, ekki risikera því að drepast seinna árið.
Árum saman var reynt að búa til stórlax í Kollafirði, stórir laxar kreistir alla tíð. Ekkert gekk, því smálaxahlutfallið var þrátt fyrir kynbæturnar mjög hátt og breyttist ekki. Eitt sinn voru seiði úr Kollafirði flutt norður í Miðfjarðará. Í fyllingu tímans kom megnið úr hafi sem stórlaxar. Hlutfallið hafði snúist við. Þetta var á þeim árum þegar stórlaxinn var um helmingur veiðinnar á Norðurlandi.
Þá gleyma menn því að stór hluti seiðanna er getinn af dverghængum, (sjá myndina hér að ofan) sem verða kynþroska án þess að ganga til sjávar. Árnar eru á haustin fullar af kynþroska smáhængum, sem veiðimenn kalla afætur.
Bleikjan, var hún ekki að hverfa vegna hlýnunar jarðar? Það hef ég heyrt margan snillinginn segja lengi. Bæði vatnableikjan og sjóbleikjan. Margir halda að svona breytingar séu af OKKAR völdum en svo þarf ekki að vera. Þetta eru breytingar og sviftingar í náttúrunni sem verða hvort sem við kolefnisjöfnum eða ekki.
Að lokum, til gamans um sandsíli: Eftir nokkura ára skort á sandsíli í Norðursjó, vegna "ofveiði", er nú allt orðið aftur eins og í gamla daga. Stofninn hefur aldrei mælst stærri og löndunarbið er í Danmörku. Miðað við það magn sem vísindamenn halda að sé á ferðinni er fjöldinn það mikill að ef hann lifði, myndi hann geta staðið undir núverandi kvóta, 400 þús tonn, í 76 ár! Var verið að tala um að veiðin hefði áhrif?
Sagt er að vanti smásíli handa lundanum, sílin séu of stór fyrir pysjuna. En stóru sílin, voru þau ekki lítil í fyrra eða hittiðfyrra? Þá vantaði líka síli.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:44 | Facebook
Athugasemdir
Jón, það er engu við þessa áhugaverðu samantekt hjá þér að bæta nema ef vera skildi nokkrum górillum sem taldar voru í bullandi útrýmingarhættu. Árið 2007 töldu margir vísindamenn að aðeins væru 50 þúsund górillur i Kongó eftir stjórnlaust dráp villi- og veiðimanna á síðustu árum. Nú berast hins vegar fréttir af skyndilegri fjölgun þeirra - eða 125 þúsund til viðbótar við "stofnmatið" frá því í fyrra. Af stærð dýranna má ráða að þetta eru ekki allt "nýliðun" eða "klak" frá því í vor. Svo eitthvað hefur klikkað í górillu - rallinu hjá þeim blessuðum.
Atli Hermannsson., 8.8.2008 kl. 19:31
Tek undir þetta með þér Atli.
Hafró ætti að snúa sér að einhverjum þeim tegundum sem þeir kunna betri skil á en sjávarlifverum.
Árni Gunnarsson, 10.8.2008 kl. 22:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.