Hvar eru 500 þúsund tonnin?

Þegar kvótakerfið var sett á 1984 stóð ég á fertugu og rétt búinn að öðlast nægjanlega reynslu í fiskifræði og fiskveiðistjórn til að hrökkva við þegar Hafró lagði til að draga úr veiðum á sveltandi fiskstofni til rétta hann við, nokkuð sem var algerlega andstætt þeirri vinnu sem ég var í, að grisja veiðivötn til að auka vöxt fiska og afrakstur vatna.

Þeir sem nú standa á fimmtugu voru rétt um fermingu þegar kvótakerfið var sett á og umræðan um kosti þess og galla fór fram. Það fólk þekkti lítið til útgerðar á Íslandi fyrir upptöku kerfisins, en eru nú margir að tjá sig að þá hafi allt verið rekið með tapi og að allt hafi verið á hausnum. Því er ekki úr vegi að rifja upp þau loforð sem þá voru gefin um hver yrði afrakstur auðlindarinnar ef farið yrði að ráðleggingum sérfræðinga Hafró. Þorskafli yrði árvisst stöðugur 500 þús. tonn. Yrði það gert með því að friða ungfisk og leyfa honum að að vaxa þar til hann yrði stór. Hafró lagði nú til 6% niðurskurð á þorskkvóta og er aflinn nú um helmingur af loforðinu góða og þörf á því að rifja upp söguna í ljósi reynslunnar.

Arthur Bogason skrifaði grein í sjómannadagsblað Brimfaxa í fyrra þar sem hann spyr um hvað hafa orðið um 500 þús. tonnin af þorski sem Hafró lofaði að unnt yrði að veiða árlega um aldur og ævi, yrði farið að þeirra ráðum. Arthur gaf mér góðfúslegt leyfi til að endurbirta þessa grein:

Hvar eru 500 þúsund tonnin?

Það fer varla fram hjá neinum sem fylgst hafa með málefnum sjávarútvegsins að Hafrannsóknastofnun lítur á verndun smáfisks sem eitt af lykilatriðum starfsemi sinnar. Á hverjum einasta degi eru lesnar tilkynningar í ríkisútvarpinu frá stofnuninni um skyndilokanir og nýverið skilaði nefnd, skipuð af sjávarútvegsráðherra, af sér skýrslu þar sem lagðar eru til stækkanir á svæðum þar sem smáfisks verður vart. Helst um að ræða svæði sem handfærabátar stunda veiðar, rétt eins og þær veiðar skipti máli í þessu sambandi.

Þessi heilagi bikar stofnunarinnar rekur uppruna sinn til 200 mílna útfærslu landhelginnar árið 1975. Þá var ein af megin röksemdunum fyrir hinni einhliða útfærslu gegndarlaust smáfiskadráp Breta allt upp í fjörusteina. Fáir andmæltu þessu á sínum tíma. Hið rökrétta hlyti að vera að geyma smáfiskinn í sjónum og veiða hann síðar. þ.e. sleppa að veiða.

Kvótakerfið var innleitt árið 1984 (til bráðabirgða, svo því sé haldið til haga). Fyrstu árin var það reyndar blanda af aflamarki og sóknarmarki. Ráðgjöf Hafró var 200 þúsund tonn af þorski fyrir árið 1984 – fyrsta „kvótaárið".

Ráðuneytið gaf á endanum út leyfi fyrir 243 þúsund tonnum en aflinn varð 284 þúsund tonn. Það hindraði stofnunina ekki í því að gefa út sömu ráðgjöf fyrir árið 1985 (200 þús. tonn), þrátt fyrir að veiðin hafi farið 42% framúr ráðgjöf ársins á undan. Raunar er það svo að ráðgjöf stofnunarinnar virtist elta aflann árið áður. Svo rammt kvað að þessu að á skrifstofu LS var fyrirbærið skýrt –„Eltilíkanið". Ekki varð vart mikilla undirtekta við þá gagnrýni, utan örfárra einstaklinga.

Árið 1988 rann upp og smáfiskamantran hafði þá verið kveðin linnulaust í einn og hálfan áratug.

Það er ekkert við það að athuga að skörpustu hnífarnir í skúffunni hafi verið Hafrannsóknastofnun í einu og öllu sammála. Á þessum árum var gefið út tímarit tvisvar á ári sem hét Sjávarfréttir. Þær voru gefnar út af sama fyrirtæki og gaf út Fiskifréttir, vandaðasta rit sem sjávarútvegurinn hefur búið að hérlendis – fyrr og síðar - og að mínu mati á heimsvísu.

Í 2. tbl. Sjávarfrétta 1988 var forsíðan lögð undir fyrirsögnina –„Græddur er geymdur þorskur". Hryggstykkið í þessu tölublaði er hversu gríðarlega þjóðin myndi græða á því að „vernda smáfiskinn". Messan hefst í ritstjórnargreininni. Mér er hreint djöfullega við að nefna hana fyrst til sögunnar, því þáverandi ritstjóri Fiskifrétta (og þar með Sjávarfrétta) er án nokkurs vafa besti blaðamaður sem ég átti samskipti við þau tæpu 30 ár sem ég gegndi formennsku Landssambands smábátaeigenda. En hann skrifaði þetta á sínum tíma í bestu trú. Hvort hann er enn sömu skoðunar veit ég ekkert um og skiptir í engu máli.

Í þessari ritstjórnargrein dregur hann saman það sem allt snerist um. Því er best að birta hana hér í fullri lengd:

–„Ein af röksemdum Íslendinga fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar á sínum tíma var sú, að stöðva þyrfti gegndarlaust smáfiskadráp breskra togara á Íslandsmiðum. Ætla mætti, að eftir að Íslendingar fengu einir yfirráð yfir fiskimiðunum umhverfis landið hefði allt færst í betra horf í þessu efni. En er þá allt í góðu lagi núna? Varla, ef marka má ummæli forstjóra Hafrannsóknastofnunar, sem jafnar nýtingu þorskstofnsins nú við versta smafiskadráp Bretanna fyrir hálfum öðrum áratug við Ísland.

Samkvæmt útreikningi Hafrannsóknastofnunar sem birtur er hér í SJÁVARFRÉTTUM, gefur stór þorskárgangur (eins og t.d. 1983 og 1984 árgangarnir sem nú eru mest í veiðinni) af sér 100 þúsund tonnum meira, sé hann friðaður sem smafiskur, í stað þess að vera veiddur í þeim mæli sem nú stefnir í. Meðalárgangur þorsks gefur af sér tæp 90 þúsund tonnum meira, fái hann frið sem smáfiskur. Þá hefur Ragnar Árnason doktor í fiskihagfræði reiknað út fyrir SJÁVARFRÉTTIR fjárhagslegan ávinning af því að friða 3ja og 4ra ára þorsk. Kemst hann að þeirri niðurstöðu að með slíkri friðun megi auka árlegan þorskafla til frambúðar um 50-60 þúsund tonn og jafngildi aflaaukningin ríflega þremur milljörðum króna í aukinni þjóðarframleiðslu.

En hvers vegna er smáfiskurinn ekki friðaður, úr því ávinningurinn er svona mikill? Ætli svarsins sé ekki að leita í hugsunarhætti þjóðarinnar. Hún telur sig ekki hafa efni á að láta þessa auðlind í hafinu ávaxta sig sjálfa, jafnvel þegar ytri skilyrði í þjóðarbúinu eru hvað hagstæðust, hvað þá þegar harðnar á dalnum. Stjórnmálamenn koma og fara og þeir treysta sér ekki til að standa fyrir nauðsynlegum samdrætti í veiðum svo hægt sé að byggja upp þorskstofninn með langtímasjónarmið í huga.

Reynar draga sumir menn í efa að hægt sé að geyma fisk í sjó meðan hann sé að vaxa upp,- grípa þurfi hvern ugga þegar hann gefst. Þessir menn benda gjarnan á, máli sínu til stuðnings, að á árunum kringum 1980 hafi reynst mun meiri fiskur í sjónum en fiskifræðingar töldu. Þarna var um að ræða göngur frá Grænlandi sem fiskifræðingar gerðu ekki ráð fyrir,- sem reyndar sýnir að hægt er að geyma fisk í sjónum við Grænland með góðum árangri og því þá ekki við Ísland þar sem skilyrði eru mun betri?

Með friðun smáfisks vinnst tvennt. Annars vegar er fiskurinn veiddur stærri og hins vegar mun veiðin smám saman byggjast á fleiri árgöngum og sveiflur í afla frá ári til árs verða minni en árgangastærð gefur til kynna, eins og Jakob Jakobsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar bendir á í viðtali hér í blaðinu. Þetta hefur í för með sér aukinn afla á sóknareiningu og minni tilkostnað við veiðarnar.

Þegar þetta er skrifað er Hafrannsóknastofnun að undirbúa tillögur sínar til stjórnvalda um hámarksafla á næsta ári. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvaða afgreiðslu þær fá."

Pistillinn er kjarnyrtur og stærstu kanónurnar dregnar fram og hleypt af þeim: þáverandi forstjóri Hafró og þá- og núverandi fiskihagfræðingi Háskóla íslands. Það sorglega er að nú, rúmum 30 árum síðar hefur aldrei verið augljósara að það stendur ekki steinn yfir steini í þessum málflutningi. Enn dapurlega er að áhugaleysi fjölmiðla og stjórnmálamanna á því að kynna sér þessar staðreyndir er algert.

Loforðin um stóraukinn þorskafla voru endalaus. Hér er ráðgjöf Hafró fyrir árið 1981:

"Verði aflinn takmarkaður við 400 þús. tonn, fer þorskstofninn vaxandi næstu ár, einkum hrygningarstofninn, ef forsendur um stærðir árganga eru nærri réttu lagi.” "Hafrannsóknastofnunin leggur áherslu á, að þorskstofninn verði byggður enn frekar upp á næstu árum og veiðar því takmarkaðar á árinu 1981 við 400 þús. tonn.”

Aflinn á árinu 1981 varð 469 þúsund tonn. Hvað sem því leið, þá stendur þetta í 24. hefti Hafrannsóknastofnunar, gefið út árið 1982:

Hér eru tekin tvö dæmi, en þau eru margfalt fleiri. Það er engin ástæða til að efast um að mönnum gekk gott eitt til. Þeir trúðu því sem þeir settu fram. Dómur sögunnar er hinsvegar beiskur. Smáfiskaverndinni hefur svo sannarlega verið fylgt eftir. Risastórum svæðum hefur verið lokað á Íslandsmiðum í því augnamiði og hin síðari misseri er hamast við að loka svæðum þar sem fyrst og fremst handfærabátar drepa niður færi.

Aftur að Sjávarfréttum frá árinu 1988: Þar er að finna ítarlega umfjöllun undir fyrirsögninni:

„Milljarða ávinningur af friðun smáfisks!" Að vandlega íhuguðu máli komst ég að þeirri niðurstöðu að óhjákvæmilegt væri að endurrita textann í þessari stórmerkilegu umfjöllun, eins og í ritstjórnargreininni.

Svona hljómar boðskapurinn frá árinu 1988:

–„Er eitthvað vit í því að moka þorskinum upp smáum, þetta innan við tveggja kílóa þungum að meðaltali, þegar hægt er að geyma hann í sjónum í tvö til þrjú ár og fá þá helmingi þyngri fisk? Er þetta ekki svipað því að bændur myndu slátra lömbum sínum að vori í stað hausts? Eða er kannski ekki hægt að geyma fisk í sjó? Er sá fiskur sem ekki er veiddur þegar hann gefst, glataður að eilífu?"

Fiskifræðingar eru ekki í vafa um að hægt er að geyma fisk í sjónum með góðum árangri. En hversu mikill er fjárhagslegur ávinningur þjóðarbúsins að veiða fiskinn stærri en nú er gert?

SJÁVARFRÉTTIR báðu Ragnar Árnason dósent við Háskóla Íslands og doktor í fiskihagfræði að slá á þá tölu, en Ragnar hefur velt þessum málum nokkuð fyrir sér. Í stuttu máli telur Ragnar, að með því að friða þriggja og fjögurra ára þorsk í tvö ár megi auka árlegan þorskafla að jafnaði um 50-60 þúsund tonn að friðunartímabilinu loknu og það jafngildi þriggja milljarða króna ávinningi á ári hverju upp frá því. Þessi ályktun er byggð á ákveðnum forsendum sem í stórum dráttum má útskýra sem hér segir:

Nærri lætur að hver 10 þúsund tonn af þorski samsvari tæplega 600 milljónum króna í þjóðarframleiðslu á gildandi verðlagi (1988). Sé gert ráð fyrir að algjör friðun þriggja og fjögurra ára þorsks auki árlegan þorskafla til frambúðar um 55 þúsund tonn að jafnaði, samsvarar sú aflaaukning því ríflega þremur milljörðum króna í aukinni þjóðarframleiðslu, eins og áður sagði.

Þrátt fyrir þennan ávinning má ekki gleyma því, að friðun þriggja og fjögurra ára þorsks skilar ekki aflaaukningu fyrr en tveimur árum eftir að hún hefst. Í millitíðinni verður aflaminnkun, mest á fyrsta árinu. Ragnar telur, að miðað við núverandi sókn í smáfisk láti nærri, að friðun hans dragi úr þorskaflanum um 60-70 þúsund tonn á fyrsta árinu og e.t.v. 15-20 þúsund tonn á öðru áru. Á þriðja ári, þegar þorskur, sem hefði verið alfriðaður frá upphafi, kæmi inn í veiðina sem 5 ára fiskur, yrði hinsvegar varanleg aflaaukning upp á þetta 50-60 þúsund tonn árlega að jafnaði.

Friðun smáfisks má skoða sem hverja aðra fjárfestingu, segir Ragnar, og það er ljóst að sú aukning framtíðarafla, sem ofangreind friðun hefur í för með sér borgar upphaflegu fjáfestinguna margfalt til baka. Öðru máli gegnir um friðun 5 ára fisks að áliti Ragnars. Athuganir hans benda ekki til þess, að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að friða 5 ára þorsk. „Nú ber að taka það skýrt fram segir Ragnar, „að auðvitað er ekki framkvæmanlegt að friða þriggja og fjögurra ára þorsk algjörlega. Smáfiskur er innan um stóran fisk á sömu miðunum og þá verður ekki komist hjá því að veiða einhvern smáfisk. Þessar tölur gefa hins vegar vísbendingu um ávinninginn af því að friða smáfisk. Besta leiðin til að vernda smáfiskinn er að draga úr heildarsókn.

Áfram er fabúlerað um gróðann af friðun smáfisksins og reiknað út hver hann er í tonnum talið. Þetta er orðrétt úr þeim vangaveltum:

–„Sé gert ráð fyrir stórum árgangi þorsks með 300 milljónum nýliða (eins og árgangarnir frá 1983 og 1984 eru), gefur hann af sér 551 þúsund tonn miðað við mikla verndun..en 437 þúsund tonnum miðað við það sóknarmynstur..sem nú stefnir í með mikilli smáfiskaveiði. Mismunurinn er 114 þúsund tonn. Sé hinsvegar miðað við meðalárgang sem telur um 230 milljónir nýliða, gefur hann 423 þúsund tonn miðað við mikla friðun..en 335 þúsund tonn miðað við núverandi sóknarmynstur. Mismunurinn er 88 þúsund tonn."

Allar þessar tölur eru stjarnfræðilega langt frá því sem leyft hefur verið að veiða til fjölda ára. Sé t.d. að því hugað að á þessum árum var smábátaflotinn að veiða 20-30 þúsund tonn af þorski og segjum sem svo að 10-15% aflans hafi verið smáfiskur, þá var hann að veiða á bilinu 2 - 4,5 þúsund tonn af smáfiski. Þetta er svo lágt hlutfall af heildaraflanum að það tekur því ekki að reikna það.

Engu að síður klingja í eyrum landsmanna dag hvern tilkynningar frá stofnuninni um skyndilokanir, að uppistöðu á handfæraveiðar. Í jólahefti Brimfaxa var sýnt fram á fáranleika þessa eltingarleiks við skakmenn Íslands, en ef eitthvað er, hefur stofnunin bætt í síðan þá.

Það er 31 ár síðan þessi grein birtist í Sjávarfréttum, grein sem endurspeglar þá stefnu sem mörkuð var og er enn keyrð af hörku, bæði af hendi stjórnvalda og Hafrannsóknastofnunar. Aldrei á öllum þessum árum, sem telja orðið að lágmarki 6-7 kynslóðir þorsks, hefur hin minnsta athugun farið fram á því hvort hún hafi skilað einhverjum árangri.

Á þessum tíma var ítrekað hamrað á því að ef ráðum Hafró yrði hlýtt, gæti þjóðin átt von á hámarks afrakstri þorskstofnsins, sem stofnunin mat sjálf að væri 500 – 550 þúsund tonn. (Sjá skýrslu Sigfúsar Shopka 1996, Fjölrit Hafró nr. 133). Það vantar lítið uppá að stofnuninni hafi verið hlýtt: til margra ára hefur þorskaflinn verið mjög nálægt ráðgjöfinni og látlausar skyndilokanir undanfarin ár bera því rækilegt vitni. Árangurinn? Leyfilegur heildarafli á yfirstandandi fiskveiðiári er á svipuðu róli og árið 1984, þegar kvótakerfið var innleitt. Staðreyndin er sú að öll smáfiskafriðunin og svokallað hrygningarstopp (sem er hinn heilagi kaleikur stofnunarinnar) hafa nákvæmlega engu skilað í auknum aflaheimildum.

Það er löngu kominn tími til að stjórnvöld grípi her inní og fari að krefjast svara. Í raun tel ég að stofna þurfi opinbera rannsóknarnefnd vísindamanna og leikmanna (sem eru oft á pari við vísindamenn, hafandi starfað á vettvangi til áratuga) sem hafa engin tengsl við það ferli sem ráðgjöf Hafró er föst í og fer á sjálfstýringu í gegnum ráðuneyti og Alþingi.

Stjórnmálamenn eiga hér sína sök. Hræðslan við að andmæla vísindamönnum hefur þaggað niður í mörgum (ég þekki dæmi, alltof mörg) vel meinandi stjórnmálamönnum. Jafnframt er sláandi hvernig jafnvel öflugustu blaða- og fréttamenn þjóðarinnar virðast hafa ákveðið að skauta framhjá gagnrýninni umfjöllun á vinnubrögð Hafró.

Miðað við fjölmargar yfirlýsingar Hafrannsóknastofnunar hér á árum áður um afrakstur þorskstofnsins, væri farið að hennar tillögum, og þess sem blasað hefur við til fjölmargra ára, er ljóst að útreikningar og aðferðir stofnunarinnar hafa mistekist hrapallega.

Svo illa, að hægt er að reikna tekjutap þjóðarbúsins í hundruðum milljarða króna frá árinu 1984. Ekki þremur milljörðum króna á ári í gróða, eins og Ragnar Árnason reiknaði.

Ég er nokkuð viss um að það fríspil sem Hafró hefur haft á hendi í áratugi, er dýrasta vísindatilraun sögunnar hjá nokkurri þjóð og þarf þar ekki að nota höfðatölu í því sambandi.

Það væri eitthvað sagt ef framkvæmdastjóri stórfyrirtækis gæfi út slíka framtíðarsýn og útkoman yrði svo í þessum dúr.

Arthur Bogason, Brimfaxi sjómannadagsblað 2019


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Þvlík steypa og þvílíkt bull.

Nú ganga veiðiheimildir að erfðum. Þær verða þeim mun verðmætari sem þær eru ávísanir á minni afla.og verða meira veðandlag í bankanum. Hefur bara ekker að gera með líffræðina.

Allsherjar samsæri gegn þjóðinni og með sægreifnunm

How stupid can you get?.

Auka veiðar um 20% á ári og selja á markaði næstu 5 ár.Er einhverju að tapa?

Halldór Jónsson, 20.6.2020 kl. 02:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband