Endalausar skyndilokanir, en engar rannsóknir á árangri

Þegar við höfðum náð fullum yfirráðum yfir landhelginni 1976 var sú stefna tekin upp að draga úr sókn í smáfisk til að hann mætti stækka og gefa meiri afla seinna. Miðað var við að létta sem mest á sókn í þriggja ára þorsk. Það var gert með því að stækka möskva í trollpoka úr 120 í 155 mm og loka svæðum, þar sem mikið var um smáfisk, í tiltekinn tíma. Þetta voru kallaðar skyndilokanir og stóðu yfirleitt í eina viku.

Þessar aðgerðir höfðu mikil áhrif á aldursamsetningu aflans. Á árunum 1971-1975, þegar möskvastærð í botnvörpum hér við land var 120 mm var landað 20,7 milljónum þriggja ára þorski að meðaltali á ári. Árin 1977-1981 en þá var möskvastærð 155 mm, var árlegur meðalfjöldi landaðra þriggja ára þorska einungis 4.4 milljónir, hafði minnkað um nær 80%. Hafrómenn voru mjög ánægðir með þessa þróun.

Í kjölfarið fór að draga úr vexti þorsks þannig að 1983 var þorskurinn ári lengur að ná fjórum kílóum og 7 ára þorskar voru nær tveimur kílóum léttari 1983 en þeir voru 1979. Þar sem gera má ráð fyrir auknum afföllum með hægari vexti var ekki að undra þótt afli hefði verið orðið tregur. Ég og fleiri skýrðu þetta með því að fæðubúrið hefði ekki þolað þá stækkun stofnsins sem varð vegna samdráttar í afla á smáfiski og reyndar mikilla takmarkana á þorskveiðum. Hafró keypti ekki þessa skýringu, taldi þetta hafa verið ofveiði og lagði til mikinn samdrátt í veiðum og kvótakerfið varð til.

Þarna hefðu menn átt að staldra við og skoða rækilega hvort rétt hefði verið rétt gera þessar róttæku breytingar á sókn í þorskinn. En það var ekki gert heldur var hert á. Skyndilokanir og smáfiskavernd héldu áfram og smám sama tíndust fleiri tegundir inn í kerfið, ýsa og ufsi t.d. Og nú, 43 árum seinna, er þetta kerfi enn við lýði nánast óbreytt, nema lokanir nú standa í tvær vikur og svo bætast við reglugerðalokanir, þegar svæðum er lokað til lengri tíma.

Í apríl s.l. birti Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið drög að reglugerð um tímabundnar lokanir á veiðisvæðum á grunnslóð við Ísland til umsagnar og var gefinn 6 daga frestur til að senda inn athugasemdir. Samkvæmt reglugerðinni er lagt til að 16 veiðisvæðum verði lokað tímabundið til tveggja til þriggja ára.

Settur hafði verið upp starfshópur en hann hafði m.a. lagt til að tilteknum svæðum, þar sem mest væri um skyndilokanir eða smáfisk, yrði lokað með reglugerð.

Kemur nú að aðalefni þessarar greinar að spyrja þess hvort gagn hafi verið af þessari smáfiskafriðun.

Það er sláandi að árlegur þorskafli í friðunarkerfinu er um 200 þús. tonnum minni en hann var áður en gripið var til annara aðgerða en útfærslu landhelginnar. Margir fræðimenn hafa gagnrýnt veljandi veiði, það að skafa stóra fiskinn ofan af stofninum, m.a. Jeppe Kolding Háskólanum í Bergen.

Starfshópurinn óskaði eftir greinargerð frá Hafrannsóknastofnun um gildi lokana veiðisvæða. Í greinargerðinni kemur m.a. fram að þrátt fyrir að langtíma lokanir veiðisvæða (friðunarsvæði) hafi verið veigamikill þáttur í stjórnkerfi fiskveiða á Íslandsmiðum í áratugi, þá er lítið um mæligögn sem staðfesta áhrif þeirra aðgerða á afrakstur fiskistofna. Það þýði samt ekki að aðgerðirnar hafi ekki skilað árangri, vilja þeir álíta.

Þó áhrif friðunaraðgerða hafi ekki verið könnuð skal þeim samt haldið áfram!

Í greinargerð Hafró má finna eftirfarandi glefsur:

"Svæðalokunum við Ísland hefur aldrei verið fylgt úr hlaði með rannsóknaáætlunum um það hvernig meta skuli áhrif aðgerðanna. Það hefur frekar verið tekið sem gefið að sú aðgerð að beina fiskiskipum frá smáfiski/hrygningarfiski hljóti að hafa jákvæð áhrif og auka afrakstur.

Rannsóknir sem gerðar hafa verið á friðunarsvæðum hafa m.a. beinst að því að meta hvað verður um þann fisk sem nýtur friðunar innan svæðanna. Merkingar á þorski á friðunarsvæðum og veiðislóð fyrir norðvestan land árin 1994-1995 þóttu benda til að svæðin kæmu að gagni sem verndarsvæði fyrir smáþorsk <55 cm."

Niðurstöður bentu til að lokun á Digranesflaki hefði haft jákvæð áhrif á ýsu og skrápflúru á Digranesflaki og í umræðukaflanum segir m.a.

"Þessi samantekt sýnr að þrátt fyrir að langtíma lokanir veiðisvæða (friðunarsvæði) hafi verið veigamikill þáttur í stjórnkerfi fiskveiða á Íslandsmiðum í áratugi, þá er lítið um mæligögn sem staðfesta áhrif þeirra aðgerða á afrakstur fiskistofna. Það þýðir samt ekki að aðgerðirnar hafi ekki skilað árangri og spyrja má: Af hverju að laga eitthvað sem ekki er bilað og sæmileg sátt er um?

Miðað við umfang og eðli botnvörpuveiða og dreifingu fiskungviðis verður að teljast mjög líklegt að sú friðunaraðgerð hafi skilað miklum árangri, þótt rannsóknir vanti.

Almennt séð virðist góð sátt ríkja um þær aðgerðir sem nú gilda um friðun hrygningarfisks, þ.e. þorsks, steinbíts, skarkola og blálöngu, en engar beinar rannsóknir hafi þó verið gerðar á áhrifum af friðun hrygningarsvæða. Með friðun er hrygningarfiskur látinn njóta vafans, enda friðun líkleg til að gefa næði til hrygningar (og umönnunar hrogna þar sem það á við). Því er mælt með því hér að friðun hrygningarsvæða verði áfram í gildi".

Hængur Grund

Hvergi í þessari greinargerð Hafró um skyndilokanir er minnst á það hvort áhrif skyndilokana geti verið neikvæð, vinni gegn ætlun sinni. Oft er lokað á smáþorsk, sem eru miklu eldri en tommustokkurinn segir til um. Má nefna Fljótagrunn og mörg svæði í Breiðafirði í þessu sambandi.

 

Árið 2005 aldursgreindi ég þorsk sem landað var í Grundarfirði en til stóð að loka veiðisvæði þar utan við með reglugerð. Skemmst er frá því að segja að smáfiskurinn sem sífellt var verið að loka á var gamall og hægvaxta. Þriggja ára þorskar voru að meðaltali 46 cm, 4 ára 47cm, 5 ára 49 cm, 6 ára 52 cm og 7 ára þorskar voru 54 cm að meðaltali. Viðmiðunarmörkin voru 55 cm! Niðurstöðurnar voru kynntar á fundi í Ólafsvík að viðstöddum fræðingum frá Hafró.

50 cm hrygna kominn á steypirinn

Hrygna Grund

Ég taldi að hinn hægi vöxtur stafaði af fæðuskorti, sem væri afleiðing vanveiði. Síðar frétti ég að þessi fiskur óx ágætlega þegar hann var settur í sjókvíar og fóðraður. Þrátt fyrir svona upplýsingar hefur Hafró aldrei gefið þeim gaum en haldið áfram smáfiskafriðun í blindri trú. Friðun hrygningarfisks, allt frá 1992, er enn einn kafli en rannsóknir á árangri vantar. Og það sem einnig vantar, og alltaf er verið að bíða eftir, er nýlilðun. Þar er staðreyndin sú að fyrir kvótakerfi (1964-1984) var meðalnýliðun um 212 milljónir einstaklinga en frá 1985-2014 er hún 140 milljónir einstaklinga. Miðað er við fæðingarár árganganna. Nýjustu rallniðurstöður benda til þess að enginn góður árgangur á leiðinni. Um þetta sagði leiðangursstjóri Hafró í nýlegu blaðaviðtali:

"Það virðist hafa vera mikil hrygning í gangi og því er ekki að neita að við hefðum viljað sjá þennan stóra hrygningarstofn skila meiri nýliðun. Hún hefur ekki verið í réttu hlutfalli við stærð hrygningarstofnsins, sem segir manni þá að einhverjir aðrir þættir hafa áhrif á árgangastærð. Á næstu árum verður væntanlega lögð aukin áhersla á rannsóknir á nýliðun til að reyna að átta sig betur á stöðunni".

Þessi umfjöllun ætti að sýna að það hafi nú ekki verið neitt óðagot á mönnum í rannsóknum svona yfirleitt og fróðlegt verður að fylgjast með hvort ráðherrann samþykki þessa nýjustu lokunartillögur snillinganna.

Birt í sjómannadagsblaði Brimfaxa 2019
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þetta er tapað stríð Jón. Í fiskifræði Hafró þurfa fiskar ekkert æti.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 5.6.2019 kl. 22:08

2 Smámynd: Jón Kristjánsson

Það verður að halda áfram að tuða, þetta tekur einhvern tíma enda.

Jón Kristjánsson, 6.6.2019 kl. 12:29

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Sem löggiltur tuðari tek ég undir hvert einasta orð þitt Jón. Hafðu miklar þakkir fyrir enn einn pistilinn um fáránleika fiskveiðistjórnunar á Íslandsmiðum, undanfarna áratugi. Fiskveiðistjórnunar sem byggir að mestu á exel, en tæpast agnarögn af vísindalegum niðurstöðum, eða rökum.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 7.6.2019 kl. 00:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband