11.4.2019 | 20:47
Umsögn um strandveiðifrumvarpið
Við Sigurjón Þórðarson vorum kallaðir fyrir atvinnumálanefnd í tilefni breytinga á lögum um strandveiðar. Í framhaldinu sendum við inn eftirfarandi umsögn til nefndarinnar. Í henni var ekki verið að tala um smáatriði eins og fjölda daga, aflahámark, svæðaskiptingu eða hvort einhver fengi meira en annar. Í stað þess voru færð rök fyrir því að gefa ætti veiðar smábáta frjálsar, það væri ekki hættulegt heldur beinlínis nauðsynlegt:
Það okkar skoðun að það þurfi að auka verulega bolfiskveiðar á grunnslóð og sérstaklega innfjarða, til þess að auka framleiðslugetu nytjastofna landsins. Auk þess myndi aukinn afli vænka hag sjávarbyggðanna.
Nýlega birtist skýrsla frá Hafró um að rækjustofnar innfjarða hefðu gefið eftir samfara fjölgun þorsks og ýsu, en mjög hefur dregið úr sókn á grunnslóð, m.a.vegna þeirra takmarkana sem kvótakerfið setur á veiðar smábáta. Segir þar að áberandi breytingar hafi orðið í lífríkinu í sex fjörðum og flóum á Vestfjörðum og Norðurlandi á tveimur áratugum frá 1995. Rækja hafi átt í vök að verjast vegna vaxandi afráns þorsks og ýsu sem hafi endað með því að rækjustofnarnir inni á þessum fjörðum hafi hrunið. Í Ísafjarðardjúpi gat rækjuafli verið milli tvö og þrjú þúsund tonnum á vertíð fram að aldamótum, en í vetur er heimilt að veiða þar 456 tonn. Þar sem ástandið er verst hafa engar veiðar verið leyfðar frá aldamótum. Sjá má nánari umfjöllun um þessa skýrslu í Morgunblaðinu 21. febrúar 2019 undir titlinum:
Afránið fór illa með rækjuna - Með fjölgun þorsks og ýsu í fjörðum og flóum fyrir vestan og norðan gáfu rækjustofnar eftir.
Forsaga málins er sú að með tilkomu kvótakerfis og mikils niðurskurðar þorskafla til þess að reyna að "byggja upp" stofninn hefur stórlega dregið úr sókn í innfjarðaþorsk með þeim afleiðingum að rækjan er upp étin og reyndar humarinn fyrir Suðurlandinu einnig. Þá er hann líka búinn að grisja vel seiði flatfiska og fleiri tegunda. Rækjudeildin er búin að benda á þetta í áratugi en má sín lítils gegn þorskadeild Hafró. Til að bregðast við þessu ætti að gefa fiskveiðar innfjarða frjálsar, það myndi gefa meiri fisk og meiri rækju. Þorskurinn er langt kominn með að éta upp loðnuna, búinn með rækjuna, humarinn, lúðuna og flatfiska á grunnsævi og ungviði sjálfs síns.
Spurt hefur verið hvort frjálsar veiðar smábáta muni ekki leiða til ofveiði er til að svara að fyrir nokkrum árum var ákveðið að minnka nýtingarhlutfall þorsks frá því að vera 35-40% af stofnstærð áratugum saman niður í 20% til þess að byggja upp stofninn. Þessi 35% nýting gaf 4-500 þús tonna árlegan afla langtímum saman sem sýndi að stofninn þoldi álagið vel. Eftir að nýtingarhlutfallið var lækkað féll aflinn og jafnframt minnkaði nýliðun. Þetta stafar af því að fæðuframboð hafsins leyfði ekki svo stóran stofn og hann fór að éta undan sér. Stofnstærð þorsks hefur náð mögulegu hámarki sínu og stofninn getur ekki stækkað meir. Meðan nýtingarhlutfallið er ekki hækkað fer þorskaflinn ekki mikið yfir 250 þús tonn, helming af því sem hann var í "ofveiðinni" áður fyrr. Að auka afraksturinn með frjálsri veiði smábáta gerið því ekkert nema gagn og veldur fráleitt ofveiði. Bónusinn er auknar tekjur af fiskimiðunum, þeim til gagns.
Tillögur að breytingum á frumvarpinu
Í ljósi framangreinds er lagt til að veiðar smábáta á handfæri verði gefnar frjálsar. Það eru engin fiskifræðileg rök fyrir því að veiðar smábáta hafi einhver áhrif á stærð þorskstofnsins til hins verra.
3. apríl 2019
Jón Kristjánsson fiskifræðingur og Sigurjón Þórðarson líffræðingur
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Ég tek undir þetta Jón. Þeir geta sleppt öllum vísindaveiðum og gefir handfæraveiðar frjálsar og tekið mið af veiðum þeirra á grunnslóð en það segir sig sjálft að þegar lítið veiðist á þeim slóðum þá er einhvað að. Alaska var með frjálsar hand og línuveiðar en mig minnir að það hafi breyst þegar kvótinn kom hjá þeim hér é ég við bolfiskveiðar.
Valdimar Samúelsson, 11.4.2019 kl. 21:27
Frábært hjá ykkur Sigurjóni, nafni!
Ég var að frétta af því, að ykkar Frjálslyndi flokkur er ennþá til.
Þarna eruð þið með vitrænar tillögur, og það sem meira er: Það er nánast engin áhætta í því fólgin að reyna hana í 1-2 ár og skoða jafnóðum hvað kemur út úr því.
Ég las greinina um afránið á rækjunni, sorgarlestur, en þetta rannsóknarfólk veit hvað það er að gera!
Fara menn ekki að losna við þessa þorskfriðunarstefnu úr Hafró og vitlausu 20% regluna? Hrikalegt að meintir vísindamenn skipa fiskinum að éta eigin afkvæmi! -- og ryksuga upp önnur varnarlaus seiði og rækjuna!
Það liggur við að manni detti stríðsglæparéttarhöld í hug eða a.m.k. "sannleiksnefnd" um það sem miður fór og þurfti alls ekki að fara þannig.
Svo hjálpar sízt einokunarfýsn Samherjamanna, og eiga þeir sterkustu í LÍÚ eða arftaka þess ekki fulltrúa í stjórn Hafró? Og vantar ekki nýjan mann í ráðuneytið?!
Jón Valur Jensson, 12.4.2019 kl. 04:11
Góð tillaga sem hefði gríðarlega jákvæð áhrif á fiskistofna, strandbyggðir og þjóðarhag. En undrandi verð ég ef Alþingismenn fara eitthvað eftir þessu. Þykist vita að ,,sérfræðingarnir" hjá Hafró setji sig upp á móti þessum hugmyndum og einhverjir frá,,Djúpríkinu" kippi líka í spottann.
Þórir Kjartansson, 12.4.2019 kl. 08:53
Takk fyrir athugasemdir. Í viðræðum við nefndina fengum við m.a. spurningar um hvort ekki yrði ofveiði og hvort við hefðum haft samband við Hafró. Þeirri fyrri er svarað hér að ofan og hinni að Hafró vildi ekki ræða svona mál en væri helst í því að þagga niður umræðu um fiskifræðileg málefni. Inga Sæland las upp þessa athugsemd í þinginu en engin umræða varð um þennan þátt málsins.
Jón Kristjánsson, 12.4.2019 kl. 13:09
Sammála ykkur !
Snorri Gestsson, 12.4.2019 kl. 14:45
Ad sjálfsögdu á ad gefa krókaveidar frjálsar. Thad er ekki fraedilegur möguleiki ad trillubátar geti höggvid svo stór skörd í thorskstofninn ad hann beri skada af. Mikill thorskur, minni raekja og jafnvel lodna. Kontórlegnir exelbjálfar hafró munu aldrei skilja thetta, enda sömdu their ekki einu sinni skjalid sem reiknar út stofnstaerdir fiskistofna, sem efnahagur thjódarinnar treystir á ad stórum hluta. Milljardatugir hafa glatast árum saman sökum exelruglsins og med eda ómedvitads undirmats.
Umsögn Hafró getur varla talist merkileg, frekar en annad sem thadan kemur. Munadi ekki nema 77% á stofnmati makrílsins, en í stad thess ad maela aftur er krukkad i exelinn! Getur verid ad í exelnum leynist einnig vanmat á fleiri tegundum, svosem thorski og ödrum verdmaetum tegundum? Getur verid ad exelthvaelan sem lekur frá hafró á hverju ári sé bara eintóm steypa og ekkert ad marka?!. Hvernig er samhengi milli thorsks, raekju og lodnu reiknad í exel? Einhver?
Ekki stafkrók ad marka thessa endaleysu. Ávallt liggur opinmynnt stjórnsýslan og fáfródur thingheimur flatur fyrir tillögum hafró og gleypir allt med húd og hári sem thadan kemur. Thad má ad sjálfsögdu ekki rýra verdgildi kvótans, sem vedsettur er upp í mastur, eda gengur kaupum og sölum. Trillurnar gaetu hugsanlega ruggad theim thaegilega bát, svo einhverjir hrykkju vid. Pólitískir amlódar dansa med og studla thar med ad thví ad eyda byggdum, í stad thess ad verja thaer og vernda. Nokkud sem thetta lid sór ad standa vörd um vid setningu í embaetti sín. Lítid leggst fyrir svona frodusnakkara, sem samsinna öllu sem ad theim er beint, en virdast sjaldnast geta hugsad sjálfstaett, hvad thá med gagnrýninni hugsun.
Hafdu thökk fyrir pistilinn Jón. Naudsynlegt ad skýra frá svona lögudu, svo almenningur geti gert sér ljóst hvurslags slugsa hann er med í vinnu. Vaeri thetta almennt fyrirtaeki er haett vid einhverjir hefdu thurft ad taka pokann sinn fyrir margt löngu og taeplega fengju their pláss á trillu.
Afsakadu langlokuna Jón.
Gódar stundir, med kvedju ad sunnan, thar sem kvótinn er ávallt naegur, en aldrei sést rannsóknarskip, hvad thá ormétid exelskjal um stofnstaerdir fiskistofna.
Halldór Egill Guðnason, 12.4.2019 kl. 18:21
Öflugur, skeleggur Halldór Egill rassskellir ráðamenn.
Jón Valur Jensson, 12.4.2019 kl. 20:28
Takk fyrir langlokuna Dóri. Segðu okkur aðeins frá veiðunum suðurfrá.
Jón Kristjánsson, 13.4.2019 kl. 11:17
Sæll Jón. Hér suður frá er veðrið það eina sem þarf að hafa áhyggjur af, oftast nær. Mesta rokrassgat veraldar og sjólag og straumar þannig að ekki er hægt að lýsa því með öðrum orðum en algeru brjálæði á köflum. Vorum t.d. á siglingu um daginn í 8sml meðstraumi og skipið nánast planaði á 23 sml ferð! Þú getur ímyndað þér hvernig væri að ætla að toga á móti svona ósköpum! Þegar síðan vindur og kvika kemur úr gagnstæðri átt við straumana, er eins gott að forða sér hið snarasta, ef ekki á illa að fara.
Það magn af fiski sem við höfum verið að sjá hér suður frá hefur verið hreint ótrúlegt og aðgæslu þörf við veiðarnar, ef ekki á allt að troðfyllast og jafnvel springa. Svona hefur þetta verið undanfarin tvö ár, en aðeins farið að draga úr þessu núna. Ekki óalgengt að fá allt að 100-120 tonn örfáum mínútum, ef kastað er inn í miðjan binginn á stærra skipinu, þar sem ca 250-300 tonn þarf upp úr sjó til að halda fullri vinnslu, en á minna skipinu er reynt að takmarka aflann við ca 35-40 tonn í holi með gluggum á pokanum, enda vinnslugetan þar mun minni, eða um 100-120 upp úr sjó á dag. Veður og straumar spila siðan lykilhlutverk að auki og oft er ekki kastað trolli dögum saman.
Allur afli flakaður, roðflettur og pakkað í öskjur á minna skipinu, en allt unnið í surimi á því stærra. Minna skipið með um 17.500 tonna afla í fyrra, en það stærra með um 35.000 tonn upp úr sjó. Einungis 4skip á veiðum á svæði sem nær fra 50 gráðum suður og alveg suður að Cape Horn, innan lögsögu Argentínu, svo hætta á ofveiði er engin hér um slóðir.
Regla númer eitt, þá menn hefja veiðar hér í fyrsta sinn, er að gleyma öllu sem þeir héldu að þeir vissu um togveiðar. Þetta svæði er engu líkt og fiskurinn ekki heldur. Algerlega óútreiknanlegur og styggur, en okkur hefur tekist alveg bærilega að læra á kvikyndið og aðstæður á undanförnum árum og erum bara sáttir við árangurinn. Þetta er þrælapúl og ekki laust við að oft sé sítt á manni rassgatið, þegar heim til Íslands er komið.
Bestu kveðjur að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 13.4.2019 kl. 21:07
Sæll Dóri, þetta var fróðlegt. Hvaða fiskur er þetta, botn- eða uppsjávarfiskur?
Jón Kristjánsson, 13.4.2019 kl. 22:28
Þetta er mest hokinhali (Hoki, (merlusa cola) ) og southern blue whiting, sem er bara kolmunni, nema mun stærri hér suður frá en fyrir norðan. Allt upp í 7-800 gr fiskur og niður í 3-400gr.
Gríðarlegt magn af hoki hefur verið hér sl þrjú ár og hefur hann verið uppistaðan í veiðinni hjá okkur. Hann er brellinn sá skratti og er ýmist klesstur í botninn, miðsjávar og jafnvel alveg uppi undir ufirborði, á milli þess sem hann er svo dreifður að líkist salti og pipar á dýptarmælinum. Hann er mjögstyggur og ekki þarf einu sinni að láta hvarfla að sér að snúa til baka á góða blettir. Það misheppnast í öllum tilfellum.
Höfum verið að fylla minna skipið af flökum á alveg niður í 27 dögum höfn í höfn, þegar best lætur en það ber 640 tonn í lest (25% nýting ca) Stærra akipið hefur verið alveg niður í 35daga að fylla hjá sér af surimi, en hann ber 1.250tonn í lest(20% nýting ca) svo þetta er búið að vera mikið ævintýri.
Á minna skipinu höfum við einnig verið að eltast við hake og savorin(smakkast eins og besta smálúða) auk löngutegundar sem hér er og er í háum verðflokki.
Mest erum við að nota Gloriu flottroll við þessar veiðar og má segja að það sé mun meira á botninum en uppi í sjó. Botntrollið notum við aðallega til að stemma stigu við veiðinni, því ekki er gott að salla of miklu í vinnsluna.
Þó þetta sé gaman, er ég alltaf mikið meira spenntur að komast í Veiðivötn, eða jafnvel Skorradalinn og standa þar með flugustöngina og bíða eftir því að fá einn fisk. Það þarf ekki meira en það til að redda góðum degi úti í Guðs grænni náttúrunni heima á Íslandi.
Góðar stundir, með bestu kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 14.4.2019 kl. 17:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.