23.11.2017 | 19:02
Svindlið og subbuskapurinn í kvótakerfinu
Loksins tók sjónvarpið sig saman, rauf þöggunina um kvótakerfið og gerði ágætan þátt um brottkastið. Tíu ár eru liðin síðan Kompásþátturinn, sem fjallaði um sama efni, var gerður. Þá urðu viðbrögð undir væntingum og hefur lítið verið fjallað um málið í fjölmiðlum undanfarinn áratug. Umgengnin og subbuskapurinn hefur lítið hefur breyst frá því að Kompásþátturinn var gerður.
Viðbrögð við þættinum núna eru af ýmsum toga. Talsmenn útgerðar segja að þetta sé ekki lengur svona, menn umgangist fiskimiðin af virðingu. Guðmundur í Brimi var tekinn í bólinu eftir að hann sagði að löngu væri búið að kippa málunum í liðinn, myndböndin væru gömul og nú væri allt komið í lag. Þá dró Helgi Seljan, sem nú getur gleymt því að komast í skipsrúm, upp ársgamalt myndband um brottkast úr Kleifaberginu og mátaði Guðmund. Hann bregst við með því að biðja um lögreglurannsókn á því hvernig myndbandið hafi orðið til og hver sé svikarinn.
Ráðherra sagði að það þyrfti að efla Fiskistofu svo hún gæti hert eftirlit. Reyndar sýndi umfjöllun sjónvarpsins að stjóri Fiskistofu reynist vera algjör auli og vanrækir starf sitt vegna þrýstings utan frá, af yfirvöldum eða hagsmunaaðilum, sægreifunum. Framburður fyrrverandi starfsmanna benti til þess að umkvartanir þeirra hefðu ekki fengið mikil viðbrögð frá stjóranum eða hærri yfirvöldum. Spurning er hver sé undir hælnum á hverjum og hver ráði málunum í raun.
Ráðandi aðilar halda áfram að dásama kvótakerfið, afneita öllum göllum þess og segja að það þurfi að laga það, herða tökin í eftirlitinu. Ekkert er rætt um aðalatriðið:
Fiskveiðikerfi sem byggist á því að hámarka verð þess afla sem komið er með að landi og magn þess sem veiða má er takmarkað, leiðir alltaf til þess að verðmætasti fiskurinn er valinn úr og afganginum hent. Eina lausnin á vandamálinu er að taka upp sóknarkerfi þar sem úthlutað er ákveðinn sókn, veiðidögum, þar sem menn mega landa öllum veiddum afla án tillits til magns eða tegunda. Þá hverfur brottkastið og skráning afla verður rétt. Til þessa þarf hugarfarsbreytingu hjá þeim aðila sem sjaldan er minnst á, Hafró.
Þeim er haldið utan við umræðuna er þeir eru fylgjandi þessu kerfi vegna þess hve það er þægilegt: Fara á sjó í rall, mæla stofninn, með réttu eða röngu, og gefa svo út ákveðna prósentu af þessum mælda stofni sem aflaheimild eða kvóta.
Sá sem ekki skilur að kvótakerfi þar sem aflaheimildir eru takmarkaðar og útgerðarmaðurinn gerir allt til að hámarka verðmæti þeirra leiðir til brottkast, sorteringar og svindls, hann er ekki hæfur til að stjórna nýtingu fiskstofna. Þegar heil stofnun með öllum sínum starfsmönnum leggur blessun sína yfir kvótakerfið er eitthvað mikið að og krefst rannsóknar.
Enn er svo ótalið að á meðan landsmönnum flestum er óheimilt að sækja sjó og þurfa að búa við skert kjör og fallandi fasteignaverð leyfist nokkrum útvöldum, sægreifum, að ganga um eins og sóðar og svindlarar, henda og stela fiski, sem öðrum er ekki heimilað að veiða. Þar að auki lifa starfsmenn þessara greifa við stöðuga ógn um brottrekstur ef þeir voga sér að segja frá, sbr. kæru Guðmundar í Brimi, sem minnst er hér að ofan.
Er ekki kominn tími til að taka á þessu máli af alvöru?
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:24 | Facebook
Athugasemdir
Mjög athyglisverður pistill, nafni, þótt efast megi um, að brottkastið sé jafn-umfangsmikið og sumir tala um, reyndar bæði sumir sjómenn og landkrabbar, en þetta fer líka ugglaust eftir skipum og skipstjórum. Niður með kvótakerfið og oftrúna á Hafró!
Jón Valur Jensson, 23.11.2017 kl. 20:10
Takk nafni, en ef leiguverð kvótans er svipað og markaðsverð í það og það skiptið, henda menn fiskinum. Ég veit til þess að slíkt gerist stundum hjá minni bátum á landstíminu, ef markaðsverðið er of lágt, er heilum förmun af fiski. Miklu eða litlu hent, það á ekki að nota kerfi sem hefur í sér hvata til sorteringar, brottkasts eða viktarsvindls.
Jón Kristjánsson, 23.11.2017 kl. 21:19
Ræddi nýlega við mann sem rifjaði upp ufsatúr frá Smuguárunum.
Meðafli reyndist vera væn ýsa að næstum því 50% og fór ÖLL samstundis fyrir borð vegna þess að ýsukvótinn var enginn og ufsinn einvörðungu hirtur.
Eit það raunalegasta í þessari umræðu er að þurfa að hlusta á gildishlaðnar yfirlýsingar hagsmunaaðilja og stjórnmálamanna, ásamt fullyrðinghm sem enginn fótur er fyrir, enda dagljóst að þetta mikilvæga hagsmunamál hefur einvörðungu pólitíska skírskotun og umfjöllun samkvæmt því.
Einungis örfáir alþingismenn hafa lágmarksþekkingu á málinu og fjalla þar af leiðandi um það eftir pólitískum flokkslínum, en af óþarflegum myndugleika.
Þess vegna er mikilvægt að allir þeir sem sýnt hafa viðleitni til að koma
nýtingu þessarar auðlindar í viðunandi horf til lífsnauðsynlegra hagsbóta
fyrir strandbyggðirnar og þjóðarbúið að hamra járnið núna.
Ekki síst með hliðsjón af því að nú mun ný ríkisstjórn taka til við að móta pólitíska stefnu Alþingis í auðlindastjórnun.
Árni Gunnarsson, 23.11.2017 kl. 21:52
Þú deilir á kvótakerfið og kennir því um brottkastið. Þetta er réttmætt þegar það er skoðað að þegar útgerðin er með takmarkaðan kvóta segir það sig sjálft að tilhneiging er að koma með verðmætastan afla að landi og henda hinu í sjóinn. En það eru fleiri hvatar: Það hlýtur alltaf að vera keppikefli hjá útgerðum að koma með verðmætan afla að landi og sem kostar minna að vinna til að hámarka hagnað. Þessi hvati er óháður því hvað fiskstjórnunarkerfi er við lýði. Ég efast ekki um að kvótakerfið hefur galla en kostirnir eru líka til staðar. Ef á að afnema það með öllu verður að koma til kerfi sem stendur sig betur, er minna gallað og meiri kosti. Hinn kosturinn er að laga þetta kerfi. Það hlýtur að vera t.d hægt að skylda menn til að koma fyrir eftirlitsmyndavélum í skipunum sem gera mönnum erfiðara að henda afla. En þá er líka nauðsynlegt að auka kvóta á móti því brottkastið hlýtur að skekkja stöðuna í sjónum. Annar galli sem rakið er til þessa kerfið er löndun framhjá vikt . Það hljóta að vera til leiðir með aukinni tækni til að fyrirbyggja slíkt.
Jósef Smári Ásmundsson, 24.11.2017 kl. 12:35
Skilurðu ekki um hvað málið snýst Jósef Smári?
Þú talar um að það hljóti alltaf að vera hvati til að koma með verðmætasta fiskinn að landi og kasta hinu þegar kvótinn sé takmarkaður!
Auðvitað, og um það snýst málið.
Þess vegna bendir Jón- og við flestir sem gagnrýnum kerfið - á að taka upp sóknarmark - dagakerfi - , en þá hverfur ALLUR HVATINN til brottkastains.
Þetta er náttúrlega auðskilið.
Árni Gunnarsson, 24.11.2017 kl. 15:47
Auðvitað skil ég það Árni, enda var ég að taka undir það, ekk isatt? En varðandi sóknarmarks- dagakerfi þá er það bara svo að þessi hvati til brottkasts hverfur ekkert. Það verður eftir sem áður hvati fyrir útgerðina að bátarnir komi með að landi verðmætasta aflann sem skila mestum hagnaði, eins og ég var að benda á. Og eftir situr að það er alveg ósvarað hvort þetta kerfi sé ekki með meiri ágöllum en núverandi kerfi. Það er bráðnauðsynlegt þegar fjallað er um þessi mál að menn noti rökin frekar en að þykjast alvitrir sem slilja alla hluti betur en aðrir.
Jósef Smári Ásmundsson, 24.11.2017 kl. 17:02
Þessi umfjöllun er vonandi merki þess að fréttaskýrendur séu að rumska af sínum Þyrnirósarsvefni og fari að efast um klisjuna ,,besta fiskveiðistjórnunarkerfi í víðri veröld". Og ef þeir opna annað augað og líta á þetta gæri verið veik von til að þeir opni hitt og skoði líka ,,besta lífeyrissjóðakerfið í víðri veröld"
Þórir Kjartansson, 24.11.2017 kl. 17:25
Það er alltaf hættulegt að stæra sig af besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heiminum. Eða besta lífeyrissjóðskerfi. að þarf alltaf að verá átánum að betrumbæta hlutina. En það á ekki að breyta breytinganna vegna. En ég vil benda á orð Þorgerðar Katrínar þar sem hún upplýsir að hún hafi fengið ábendingar um brottkast- en gerir ekki neitt í því. Er bjóðandi að hafa ráðherra sem gerir ekkert og segir svo að þetta sé skemmtilegasta starf sem hún hefur verið í. Og yfirlýsingar um að brottkast hafi minnkað undanfarin ár nægja bara ekki. Brottkast er ólöglegt og á í engum tilfellum að líðast.
Jósef Smári Ásmundsson, 24.11.2017 kl. 17:39
Það er greinilegt af orðum þínum Jósef Smári að þú skilur ALLS EKKI muninn á
þessum kerfum. Auðvitað vilja allir ná sem verðmætustum fiski, en sá
skipstjóri sem í dagakerfinu fleygir fiski sem ekki er verðmætur er bara að
skerða laun sín og hagnað útgerðarinnar sem nemur verðmæti brottkastsins.
Af því að hann hefur bara tiltekinn dagafjölda fær hann engin tækifæri til að
bæta sér upp kílóin eða tonnin sem hann fleygði. Þau eru töpuð vegna þess að
þetta er ekki aflamark. Kapphlaupið er að nýta tímann til að ná sem mestum
afla af því að allur afli er verðmæti og verðlítill fiskur skilar meiri
arði en enginn fiskur - eða hvað?
Er þér fyrirmunað að skilja að það er ENGINN hvati til brottkasts í dagakerfinu?
Árni Gunnarsson, 24.11.2017 kl. 22:20
Árni. Segjum að togari sé staddur á veiðum út í ballarhafi í dagróðrarkerfi ( langt stím í land)og það er mok fiskerí. Hann er að fylla bátinn og það kemur kast með undirmálsfiski að stórum hluta. Ertu að halda því fram að það sé ekki hvati hjá skipstjóranum að að henda þessum undirmálsfiski til að rýma fyrir verðmætari afla? Eða er ég að misskilja þetta kerfi svona hrapalega?
Jósef Smári Ásmundsson, 25.11.2017 kl. 13:31
Nei, nei. Þú ert áreiðanlega ekki að misskilja dagakerfið. Þú hefur bara tekið
þá bjargföstu ákvörðun að skilja það ekki.
Árni Gunnarsson, 26.11.2017 kl. 19:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.