Fiskveiðistjórnunarkerfin hafa hvergi leitt til aukins afla. - Eru þau svikin vara?

Birt í Brimfaxa 2. tbl 2016, desember 2016

Flestum er kunnugt um að á Íslandi, eftir 40 ára veiðistjórnun, er verið að veiða um helming þess þorskafla sem dreginn var á land áður en þessi stjórn veiðanna hófst. Svipuð minnkun er í öðrum botnfisktegundum. Þegar vegferðin hófst lofuðu fræðingar Hafró 500 þús. tonna jafnstöðuafla í þorski, yrði farið eftir tillögum þeirra. Það hefur að mestu verið gert, sérstaklega síðari hluta tímabilsins.

Eftir að fiskveiðilandhelgi varð almennt 200 sjómílur um miðjan áttunda áratuginn gátu þjóðir farið að stjórna eigin fiskveiðum en fram að því hafði verið erfiðara að stjórna vegna þess að útlendingar voru upp í kálgörðum og hirtu afrakstur af heimalöndunum. Loks var hægt að framkvæma það sem fiskifræðingar höfðu sagt árum saman en það var að koma þyrfti í veg fyrir ofveiði, ekki mætti veiða fiskinn of ungan hann þyrfti að fá að dafna, þá myndi afli aukast og hrygningarstofninn stækka, sem aftur þýddi að nýliðun ykist.

Dregið skyldi úr sókn í smáfisk og farið varlega í að veiða hrygningarfisk. Var það gert með stækkun möskva í veiðarfærum og lokun svæða til lengri eða skemmri tíma. Síðar voru almennt tekin upp kvótakerfi til að tryggja að ekki væri veitt of mikið. Eru þau nú alls ráðandi. Og enn ríkir þessi stefna, draga úr veiðum til þess að geta veitt meira seinna. En hver skyldi árangurinn vera? Það má sjá með því að skoða aflaþróun frá því að veiðar voru nokkurn veginn frjálsar og einu stjórntækin voru landhelgislínur og gerð veiðarfæra.

Ísland

1. ÍslandÞegar sókn var frjáls var þorskafli gjarnan 400-450 þús tonn. Virk stjórnun hófst 1976 þegar trollmöskvi var stækkaður úr 120 í 155 mm og skrapdagakerfi var innleitt. Árið 1983 féll aflinn í 300 þús. tonn, þá hafði fiskur lést eftir aldri vegna fæðuskorts, sem varð eftir að 3 ára þorskur hvarf að mestu úr veiðinni og bættist á jötuna. Það hafði ekki verið fæðugrundvöllur fyrir þessar friðun smáfisks. Í kjölfarið var sett á kvótakerfi til að auðvelda takmörkun veiða. Ellefu árum síðar, 1995, fór þorskaflinn í 169 þús. tonn og í 147 þús. tonn árið 2008. Nú er hann að skríða í 230 þús. tonn og Hafró hreykir sér af árangri. Það veiðist nú um helmingi minni þorskur eftir að virk stjórnun veiða hófst.

Eystrasalt

2. EystrasaltÞorskstofninn er í slæmu ástandi. Þyngd 3 ára fiska hefur fallið úr 1,7 kg 1997 í um 300 g 2015. Pólverjar voru löngum sakaðir um ofveiði og eftir að þeir gengu í Evrópusambandið var hægt að koma böndum á þá. Sett var á kvótakerfi og flotinn skorinn mikið niður undir mottóinu "Færri bátar meiri fiskur?" Nú þrífst þorskurinn ekki vegna hungurs, sem stafar af vanveiði en ráðgjöf vísindanna er að skera meira niður. Kvótinn var skorinn niður 56% fyrir komandi fiskveiðiár.

 

Norðursjór

6. NorðursjórBotnfiskafli í Norðursjó hefur dregist saman úr um milljón tonnum í 300 þús. tonn frá því farið var að stjórna. Á sama tíma hefur verið dregið gríðarlega úr sókn en árið 1991 var skoski botnfiskflotinn 590 skip en var kominn niður í 207 skip 2011. Svipað má segja um enska flotann en gríðarlegu fé hefur verið varið í að rífa skip, aðallega nýleg skip til að draga úr veiðigetu flotans.

 

Írska hafið

3. Írska hafiðÞar hefur verið stjórnað með kvótakerfi frá 1988. Þorskaflinn minnkaði stöðugt því kvótinn var sífellt skorinn niður og nú er þar veiðibann. Ég fór í túr með togara frá Kilkeel á N. Írlandi árið 2003 en þá voru 30-40 togarar á þorsk, ýsu og lýsuveiðum, hvítfiskveiðum sem þeir kalla. Nú eru þeir allir farnir. Svokallað "Cod saving plan" hefur verið í gildi frá árinu 2000 en það snérist eingöngu um verndun og niðurskurð með fyrrgreindum árangri.

 Færeyjamið

4. FæreyjarÞað sem hefur einkennt þorskaflann við Færeyjar eru miklar sveiflur. Fyrir fyrra stríð sveiflaðist aflinn frá 15-45 þúsundum tonna. Hann féll í 5000 tonn í síðari heimstyrjöld vegna brotthvarfs erlendra togara. Ekki er að sjá afli hafi aukist eftir friðunina í stríðinu. Það sem ekki hafði verið veitt tapaðist, það er óvarlegt að geyma fisk í sjó. Eftir því sem landhelgin fer að stækka, um miðjan sjötta áratuginn, fara sveiflur að dýpka og vara lengur. Kvótakerfi var sett á 1994 en breytt var yfir í dagakerfi 1996. Síðasta aflaárið var 2002, þá veiddust 38 þús. tonn. Árið eftir féll þorskaflinn í 24 þús. tonn en þá var ég við ráðgjöf í Færeyjum. Ég sá að þorskur var mjög farinn að horast og vaxtarrannsóknir sýndu að stóri fiskurinn, 60 cm og stærri var að mestu hættur að vaxa. Jafnframt fór að veiðast miklu meira af smáum ufsa. Ég lagði til að veiðidögum yrði fjölgað um 15% og að trollmöskvi við ufsaveiðar yrði smækkaður. Ekki var farið eftir þessu en dögum fækkað um 1%. Síðan hefur aflinn farið niður á við og ekki að sjá betri tíð fram undan. Þorskaflinn 1915 var 8 þús. tonn. Hér á landi hafa hagsmunaðilar kvótakerfisins haldið fram að Færeyingar hafi rústað fiskstofnum sínum með dagakerfinu. En er það svo?

5. Færeyjar dagarEins og áður sagði lagði ég til sóknaraukningu þegar ég sá að fiskur var að horast vegna ætisskorts. Færeyskir fiskifræðingar lögðu hins vegar til samdrátt og hafa gert það allar götur síðan. Er svo komið að veiðidögum hefur fækkað úr 41 þús. árið 2002 í 22 þús. 2016. Þetta er helmings niðurskurður á dögum. Þar með er ekki öll sagan sögð varðandi sóknina því margir eru komnir með svo fáa daga að þeir hafa tekið þann kost að leggja skipunum. Skipum hefur einnig fækkað á Færeyjamiðum. Árið 2008 voru 247 skip og bátar með veiðileyfi. Árið 2016 voru gefin út 102 leyfi en aðeins 72 þeirra notuð. Á venjulegum degi eru 26 skip og bátar við veiðar.

Stór hluti Færeyjamiða er friðaður. Færeyjabanki, sem gaf nokkur þúsund tonn af þorski, hefur verið lokaður fyrir togveiðum í 25 ár og fyrir öllum veiðum síðan 2008. Könnun í rallinu sýnir að þar er nú lítið annað en geirnyt, gulllax, urrari, skrápflúra og annar skítfiskur, en reyndar fékkst vel af ýsu í ár. Um 70% af heimamiðum eru lokuð hluta árs eða allt árið. Engar togveiðar eru leyfðar innan 12 mílna utan þess að litlir togbátar, sem eru 6 talsins, en voru 17 fyrir 8 árum, fá að fara inn að 6 mílum á sumrin til að veiða kola en mega ekki vera með meira en um 30% af ýsu og þorski sem meðafla. Stórir línubátar mega ekki fara inn fyrir 12 mílna mörkin. Og enn tala fiskifræðingar um ofveiði og samþykkt var í þinginu nýlega að fækka dögum um 15% næsta ár.

Ráðandi fræðimenn trúa því að friðun sé alltaf af því góða. En vanveiði getur oft verið hættulegri en ofveiði. Einkenni ofveiði eru mjög skýr: Þá er smáfiskur ríkjandi en hann er vel haldinn og vex vel, stærri fiskur einnig. Í vanveiði er ástandið þannig að fiskur er horaður og þrífst illa vegna fæðuskorts vegna þess að fiskafjöldinn er of mikill m.v. fæðuframboðið. Þetta er að vísu flóknara þar sem margar tegundir eru saman að bítast um fæðuna og sótt er meira í eina tegund en aðra. En við slíkar aðstæður vanþrífast oft allir. Mín skoðun er að færeyskir fiskifræðingar hafi stórskaðað fiskimiðin við Færeyjar með vanveiði.

Kolakassinn (e. Plaice Box)

Plaice Box Cut (Copy)Svo nefnist 38 þús. ferkílómetra svæði undan ströndum Hollands og Danmerkur. Þar voru bestu kolamið í Norðursjó en mikið veiddist af smáum kola og miklu var hent. Vísindamönnum fannst snjallræði að loka svæðinu svo smái kolinn fengi að vaxa og synda út fyrir svæðið þegar hann væri orðinn stór. Svæðinu var að mestu lokað fyrir veiðum 1994. Síðan hefur sigið á ógæfuhliðina. Fyrir lokun svæðisins var skarkolaafli í Norðursjó 170 þús. tonn en var kominn niður í 50 þús. tonn 2008. Nú hafa rannsóknir sýnt að skarkola hefur fækkað og hann smækkað á þessu friðaða svæði. Stofninn stækkaði ekki heldur minnkaði vöxtur kolans vegna fæðuskorts, sem væntanlega stafaði af ofbeit, því hann óx ágætlega á veiðislóðinni utan friðaða svæðisins og þar hefur veiði verið góð. Lítið fannst af fæðudýrum inni á lokaða svæðinu en miklu meira fyrir utan þar sem skipin voru að skarka. Sumir vildu túlka það þannig að veiðarfærin utan friðaða svæðisins rótuðu upp fóðrinu svo fiskurinn næði því. Ein skýring sem líka heyrðist var að hiti hefði hækkað og mengun aukist. Niðurstöður rannsóknanna voru sendar Evrópusambandinu árið 2010 til úrvinnslu og ákvörðunar um framhaldið. Nýjustu fréttir frá hollenskum sjómönnum herma að þar sé enn lokað og þar sé lítið af fiski en opinberlega sé þagað um þetta klúður.

Af þessar upptalningu má ráða að stjórn fiskveiða hefur hvergi leitt til þess að þorskafli hafi aukist. Sama má raunar segja um flestar aðrar tegundir botnfiska þó ekki sé farið nánar út í það hér.

Ráðandi vísindamenn eiga ákaflega erfitt með að sætta sig við það minna veiðiálag leiði ekki einungis til minnkandi afla heldur líka til minnkunar fiskstofna. En það er ekki erfitt að skýra það út. Þegar veitt er mikið er fiskstofni haldið í skefjum þannig að hann gengur ekki nærri fæðudýrunum, þau fá að vaxa og tímgast eðlilega og jafnvægi ríkir milli fiskanna og fæðudýranna. Þeir þrífast vel og afföll eru tiltölulega lítil. Vel haldinn fiskur hefur meiri mótstöðu gegn sjúkdómum og sníkjudýrum og á auðveldara með að flýja undan óvinum.

Sé dregið úr veiðum fjölgar fiski og samkeppni um fæðuna eykst. Fiski fjölgar, meira er étið, samkeppni eykst og afföll verða meiri. Fæðuframboð minnkar vegna þess að fæðudýrin eru upp étin og lífmassi fiska minnkar. Þegar svo er komið þarf miklu færri fiska til að viðhalda ástandinu svo stofninn helst áfram lítill. Svona atburðarás verður auðskilin ef hún er flutt upp á land:

Ákveðinn túnblettur þolir tíu kindur án þess að ganga nærri gróðri og allar þrífast vel. Sé kindunum fjölgað í 50 éta þær upp grasið og svörðurinn verður ber. Þó kindunum sé fækkað þarf ekki nema eina til tvær til þess að halda ástandinu við.

Kvótakerfi er ríkjandi sjórnunaraðgerð fiskveiða. Áhangandur þess eru tregir til að ræða ókostina svo ég lýk þessari grein með smá reynslusögu skosks sjómanns:

ArchieveÉg er á tveggja trolla 25 m togara sagði hann. Á veturna erum við með tvöfalt troll að veiða skötusel, stórkjöftu, smávegis ufsa, löngu og ýsu ef hún gefur sig. Við verðum að henda öllum þorski því við höfum ekki kvóta. Við höfum aðeins 15 tonna kvóta af löngu og 15 af ufsa á mánuði. Öllum smáfiski er hent, öllum smáum skötusel líka. Á sumrin þegar botnfiskkvótinn er búinn og fiskverð er lægra förum við á humar og frystum um borð. Við hendum nær öllum fiski í tveggja vikna túr þar sem fiskverð er lágt á sumrin og spörum kvótann þar til verðið hækkar á ný.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Sæll Jón og takk fyrir enn einn góða pistilinn um ófarir ofstjórnunarinnar. Þetta með túnblettinn ætti að vera auðskilið, en samt er haldið áfram með þessa vitleysu. 

Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 5.7.2017 kl. 20:19

2 Smámynd: Jón Kristjánsson

Takk fyrir Dóri og bestu kveðjur í suðrið.

Jón Kristjánsson, 5.7.2017 kl. 21:49

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta er góð og þörf áminning Jón.

En mér er þó til efs að sú ályktun þín sé rétt, að flestum sé kunnugt að

40 ára stjórn Hafró til STYRKINGAR botnfiskstofnunum hafi engu skilað og að

aflaheimildir séu í dag innan við helmingur þess sem við veiddum í óheftri

sókn, áratug eftir áratug.

Ég hef heyrt sjávarútvegsráðherra segja þjóðinni það í beinni útsendingu

ríkisútvarpsins að þessi fiskveiðistjórnun hafi reynst okkur svo vel við að

byggja upp fiskistofnana okkar.

Staðreyndin er auðvitað sú, að þessi vannýting heldur uppi verði á

aflaheimildum vegna eftirspurnar.

Sáralítill hluti þjóðarinnar býr yfir þeirri þekkingu sem til þarf, ef

hreyfa á efasemdum við staðhæfingum fiskifræðinga og húsbænda þeirra úr

röðum útgerðarmanna sem mér sýnist að hafi stærstan hluta Alþingis í

vasanum.

Og þessi fiskveiðistjórnun er auðvitað gulls ígildi fyrir útgerðirnar sem

geta selt sig út úr rekstrinum til nýrra eigenda með ofurverði á sameign

þjóðarinnar og stungið ábatanum í vasann.

Niðurstaða:

Fiskveiðistjórnunin (kvótakerfið) er lífsnauðsyn ef tilgangurinn er að gera

ríkustu fjölskyldur þjóðarinnar ríkari.

En þá kostar það byggðaeyðingu og árlegt tugmilljarðatap fyrir þjóðarbúið.

Og jafnstöðuafli er hugtak sem auðvitað stenst enga rökræðu þegar um er að

ræða villta fiskistofna á opnum hafsvæðum.

Nema tilgangurinn sé sá sem ég lýsi hér í þessari athugasemd. 

Árni Gunnarsson, 6.7.2017 kl. 08:44

4 Smámynd: Jón Þórhallsson

Nú hefur Hafró ákveðið að það megi veiða 257.572 þorsk-tonn á næsta ári 2018.

Ef að þú Jón Kristjánsson fengir að vera alvaldur í landinu;

myndir þú vilja að veitt yrði meira eða minna en hafró ráðleggur í þessu sambandi eða ertu sáttur við þessa fiskveiðiráðgjöf?

Jón Þórhallsson, 6.7.2017 kl. 09:50

5 Smámynd: Jón Kristjánsson

Ég myndi breyta veiðistjórninni á botnfisku yfir í sóknarkerfi án aflahámarks til að koma í veg fyrir flokkun og brottkast.

Mín skoðun er að það þurfi, og verði, að veiða helmingi meira af þorski en nú er gert. Svipað gildir um annan botnfisk.

Jón Kristjánsson, 6.7.2017 kl. 10:55

6 Smámynd: Jón Þórhallsson

Þannig að þú myndir ekki hika við að leyfa                                    500.000 tonna þorsk-veiðikvóta árið 2018?

Veistu um fleiri fiskifræðinga sem að gætu tekið undir með þér?

Væri það æskilegt á sama tíma og verðið á þorski er oftast bara 200kr/kg. á íslenskum uppboðs-mörkuðum?

Jón Þórhallsson, 6.7.2017 kl. 12:09

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Gerirðu þér grein fyrir því Jón Þórhallsson að verð á þorski er líffræði sjávar

og veiðiþoli þorskstofnsins óviðkomandi?

Það er ætlast til þess af Hafrannsóknarstofnun að þar sé framkvæmt vísindalegt

mat á stofnstærð eftir þeim bestu gögnum sem tiltæk eru hverju sinni.

Það er svo hlutverk einhverra annara að álykta um viðskiptaþáttinn og sjá

um markaðsráðgjöf. 

Árni Gunnarsson, 6.7.2017 kl. 15:10

8 Smámynd: Jón Þórhallsson

Ef að þessi 500.000 þorsk-tonn yrðu veidd, gæti þá ekki orðið ákveðið verðhrun á þorski vegna of mikils framboðs?

Jón Þórhallsson, 6.7.2017 kl. 16:37

9 Smámynd: Jón Kristjánsson

Jón Þórhallsson. Verðspekúlasjónir eru fiskveiðistjórn óviðkomandi. Þar fyrir utan eru það stóru kvótahafarnir sem stjórna markaðinum og hafa drepið marga duglega og hæfa útflytjendur með skortsölunni.

Halldór heitinn Ásgrímsson sagði við mig 1984 að það hefði verið hyggilegt að skera niður aflann, því það hefði hvort sem er ekki verið hægt að selja miklu meira. 

Jón Kristjánsson, 6.7.2017 kl. 16:48

10 Smámynd: Jón Þórhallsson

"hyggilegt að skera niður aflann, því það hefði hvort sem er ekki verið hægt að selja miklu meira". 

Það er margt til í þessu.

Jón Þórhallsson, 6.7.2017 kl. 17:41

11 Smámynd: Árni Gunnarsson

Jón Þórhallsson. Mestu varðar að þjóðin skilji hversu sjúklegt allt umhverfi

þessa mikilvæga atvinnuvegar er orðið.

Hann var orðinn gamall og þreyttur húsgangurinn um hann lata Láka sem dó úr

þorsta á lækjarbakkanum.

En nú hefur þessi húsgangur gengið í endurnýjun lífdaganna með vísun í

ástandið í ,,brothættum byggðum" á Íslandi, þar sem fólkið í gamalgrónum

byggðum við sjávarsíðuna er að flosna upp frá óseljanlegum húseignum vegna

þess að það er refsivert að bjarga sér með sjósókn sem var þó bjargræðið sem

í upphafi var forsenda búsetunnar!

Og ástæðan er auðvitað sú að það er búið að festa aflaheimildir við

tilgreindar kennitölur.

Það er okkur til ævarandi vansæmdar að enn skuli vaxa upp kynslóðir sem trúa

þessum blekkingum um ofveiðiháskann.

Og sjávarlíffræðingar segja að helstu nytjastofnarnir þoli ekki meiri sókn.

Það ástand kallast skortstaða og er gamalkunn aðferð til að viðhalda

eftirspurn, sem dregur með sér hækkun á leigu-og söluverði eins og við öll vitum.

Árni Gunnarsson, 6.7.2017 kl. 18:17

12 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ath. Síðasta málsgreinin í (þrem línum) hér að ofan hefur lent á röngum stað

vegna einhvers óhapps sem ég tók ekki eftir fyrr en of seint. 

Árni Gunnarsson, 6.7.2017 kl. 18:22

13 Smámynd: Jón Þórhallsson

Það hlýtur alltaf að vera sitthvort; hvort að við séum að tala um togaraflotann eða smábátaflotann.

Væri ekki allt í lagi að leyfa smábátaflotanum að veiða ótakmarkað á handfæri þessa fáu góðvirðisdaga sem að sumarið gefur?

Það gætu gilt önnur lögmál um togaraflotann.

Jón Þórhallsson, 6.7.2017 kl. 18:22

14 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ótakmarkaðar handfæraveiðar eru auðvitað lágmarkskrafa; um það getum við í það

minnsta verið sammála.

Árni Gunnarsson, 6.7.2017 kl. 18:51

15 Smámynd: Jón Kristjánsson

Togarar eða bátar, handfæri eða troll. Það snýst ekki um það heldur að það er nauðsynlegt að VEIÐA MEIRA til að halda þrifum og rækt í fiskstofnunum. Fyrir utan það verðmætatap sem felst í því að láta fiskinn drepast af sjálfu sér eða að éta hvern annann.

Jón Kristjánsson, 6.7.2017 kl. 21:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband