Hún er lífseig villukenningin um ofveiði á þorski þrátt fyrir að "ofveiði" hafi aldrei átt sé stað. Í Fréttablaðinu á fimmtudag 15/12 var grein eftir Þórólf Mattíasson hagfræðing úr háskólanum. Þar sagði hann:
"Í kjölfar útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 50 og 200 sjómílur fylgdi mikil fjárfesting í skuttogurum og hafnarmannvirkjum. Afli Íslendinga jókst og gjaldeyrir streymdi til landsins. Gengi krónunnar styrktist og góðæri ríkti. En að því kom að þorskstofninn þoldi ekki ofsóknina og var að hruni kominn upp úr 1982-3."
Staðreyndin er hins vegar sú að vegna friðunar smáfisks, þar sem 3 ára þorskur hvarf að mestu úr aflanum, og annara sóknartakmarkana varð fæðuskortur hjá þorski vegna ofmergðar fiska og hann fór að horast niður. Sjö ára þorskar t.d. léttust úr 5,5 kg í 4,1 kg frá 1978-1983. Sjá frekari gagnrýni sem var sett fram 1984 eftir að þetta gerðist og undirbúningur kvótakerfisins var í fullum gangi.
Í sama Fréttablaði er sagt frá nýrri greiningu þeirra Bjarka Vigfússonar og Hauks Más Gestssonar, hagfræðinga Íslenska sjávarklasans. Í greiningu sinni, Verstöðin Ísland hagfræðileg og landfræðileg samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi 1993 til 2013, segja þeir Bjarki og Haukur Már frá því hvernig miðstýrð offjárfesting í togurum og fiskvinnslum á 8. áratug síðustu aldar leiddi til ósjálfbærrar nýtingar auðlindarinnar og sársaukafullri hagræðingu, eða endurskipulagningu í íslenskum sjávarútvegi. Mér lék forvitni á að athuga þetta nánar og skoðaði frumheimildina. Þar segja þessir kappar eftirfarandi:
"Skuttogaravæðingunni, nýju frystihúsunum og stækkun landhelginnar fylgdi aukin sókn í nytjastofnana. Þannig fór þorskaflinn úr 255 þúsund tonnum árið 1971 í 460 þúsund tonn árið 1981, en það er metár í þorskafla íslenskra skipa. Þessi stóraukna sókn í nytjastofnana kringum landið, og dreifða og mikla fjárfesting í togurum og frystihúsum, var hins vegar ósjálfbær til lengdar og bera fór á alvarlegum brestum á þessu fyrirkomulagi strax um 1980. Þorskstofninn þoldi engan veginn þennan ágang og hagur út gerðarinnar vænkaðist lítið, enda gekk rekstur togaranna og frystihúsanna víða brösuglega. Um miðjan 9. áratuginn var hagræðing í íslenskum sjávarútvegi því nauðsynleg eftir offjárfestingu ára tuganna á undan, útgerðin stóð illa fjárhagslega, umframveiðigeta fiskiskipastólsins var útgerðinni þungur kostnaðarbaggi, sókn var of mikil og þorsk stofninn stefndi í verulegt óefni."
Þá segja þeir félagar: "Slæmt ástand þorskstofnsins og aflasamdráttur á 9. og 10. áratugnum var einnig áhrifamikill drifkraftur sameininga og samþjöppunar. Frá met árinu 1981, þegar þorskaflinn var 460 þúsund tonn, dróst aflinn saman í rúm 300 þúsund tonn árið 1991. Næsta áratuginn á eftir dróst aflinn enn saman, var 240 þúsund tonn árið 2001 og var svo minnstur frá lokum seinni heimsstyrjaldar árið 2008 þegar hann var aðeins 151 þúsund tonn. Síðan þá hefur gengið ágætlega að byggja upp stofninn." (leturbreyting JKr)
Til þess að gefa orðum sínum vægi birta þeir línurit sem þeir segja að sýni þorskafla á Íslandi 1910-2014, þó svo þorskafli sé aldrei "á landi". Undir línuritinu segir í texta: "Sókn í þorskstofninn jókst gríðarlega á 8. áratugnum í kjölfar skuttogaravæðingarinnar". Þegar að er gáð sést að þetta er hrein della, því þeir eru að sýna afla íslenskra skipa en láta hjá líða að sýna eða segja frá afla útlendinga og þar með heildaraflanum. Þegar hann er tekinn með sést að fullyrðing þeirra um gríðarlega sóknaraukningu í þorskstofninn er hrein fölsun. Sóknin ver mest 1955 þegar veidd voru 550 þúsund tonn og fór svo að minnka í kjölfar útfærslu landhelginnar, sem varð 4 sjómílur 1952 og 12 mílur 1958 en talið er að þá hafi togaraflotinn tapað 70% af sínum miðum (Þorleifur Óskarsson 1991, Íslensk togaraútgerð 1945-1970, bls.178).
Það er í hæsta máta óeðlilegt, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, þegar fræðimenn fara með svona staðlausa stafi og birta þar að auki falsað línurit um þorskafla á Íslandsmiðum. Í áratugi hefur þessi vitleysa um ofveiði riðið húsum, þetta er étið upp aftur og aftur og ekkert verið að kynna sé mótrök og svo leyfa menn sér að kenna sig við háskólasamfélag.
Hér fylgir hið rétta línurit af heildar þorskafla við Ísland og er afli heimamanna táknaður með rauðri línu.
Hér má sjá að hámarksaflinn var 1955 og hefur verið fallandi síðan. Nú eru menn að hjakka í rúmum 200 þúsund tonnum, og þó þeir félagar segi að ágætlega hafi gengið að byggja upp stofninn, hefur aflinn, ekki aukist heldur minnkað um helming frá upptöku kvótakerfisins.
En áfram kveða menn öfugmælavísur: Fiskurinn hefur fögur hljóð, finnst hann oft á heiðum...
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 20.12.2016 kl. 10:33 | Facebook
Athugasemdir
Ég var á síðutogurum 58 til 60 en þá var lítið af þorsk svo menn fóru á Nýfundnaland í karfan og uppundir Diskóflóa þar sem lítið var að fá svo einn túr norður undir Bear island þar var heldur ekkert já og húnaflóa.Við tókum dálítið að Ýsu út af Þorlákshöfn og í hrauninu í Faxaflóa. Það sem ég man eftir að hafa heyrt var að Bretarnir söfnuðu alltaf í fötur hrognum og svil og blönduðu vel saman og skiluðu í sjóinn aftur. Hér virðist engin trúa á þessa aðferð en þarna gætu hafa verið hundruð þúsund fiska enda var alltaf mokveiði á þessum árum áður en ég byrjaði með Bjarna á Neptúnus og Júpiter.Minnir einn túr á Marsinum með flottrollið.
Valdimar Samúelsson, 20.12.2016 kl. 11:21
Það er mögulega eitthvað skakkt í hinum ýmsu kenningum um fiskistofna, hátterni þeirra sem og tegunda sem lifa á þeim.
En sé því haldið fram að aldrei hafi átt sér stað ofveiði þá er það villukenning og má í því sambandi og til einföldunar nefna Húnaflóa, en þar áttu ekki endilega Íslendingar stærstan hlut.
Hrólfur Þ Hraundal, 20.12.2016 kl. 12:59
Sögur af fiskveiðum er alltaf gaman og fróðlegt að lesa en þær tala nú fremur lítið inn í umræðuna um fiskvernd og löndunartölur.
Um alla sögu fiskveiða mannkynsins hafa skipst á aflaár og aflaleysisár.
Botnvörpuveiðarnar gefa - þegar afli tregðast - ofveiðikenningum sennilegan blæ í hugum þeirra sem enga reynslu hafa af fiskveiðum.
Þessar skelfilegu ofveiðar hafa þó líklega aldrei verið sannaðar og alls ekki á þeim svæðum sem þær eiga að hafa skaðað mest.
Vannýting er hinsvegar stórhættuleg því hún skapar hungur á beitarsvæðum fiskanna og afleiðingin er svelti og afrán þar sem fullorðinn fiskur étur ungviðin.
Þegar árgangar ungfisks (ungþorsks) eru léttari en meðaltöl segja til um, þá er ástæða til að létta á beitarsvæðum og fiska meira.
Árni Gunnarsson, 20.12.2016 kl. 13:08
Aldrei hef ég séð útskýrðan muninn á ofveiddum fiski og þeim fiski sem veiddur er við "eðlilegar" aðstæður, Hrólfur Hraundal.
Nema - eins og ég get um hér að ofan - að ofveiði mun sjást á þyngdaraukningu ungfisks.
Hvenær kom þessi þyngdaraukning á ungfiski í Húnaflóanum fram ?
Árni Gunnarsson, 20.12.2016 kl. 14:20
Svoleiðis fisk hef é aldrei séð Árni Gunnarsson en mögulega eru ofveiddir fiskar farnir að lífga upp á veiðar á Evrópusambandsmiðum.
Hrólfur Þ Hraundal, 20.12.2016 kl. 17:35
Barentshafið er lýsandi dæmi um rétt viðbrögð við fallandi afla, þá aðalleg vegna mikils þyngdartaps. þar var sóknin aukin og er í dag að gefa af sér yfir miljón tonn af þorski á ári, sem nota bene íslensku útgerðirnar nýta sér til fulls, skip þeirra koma drekkhlaðin eftir oft fáa sólarhringa að veiðum. Þetta sjá útgerðirnar með berum augum, hver er ástæðan fyrir því, að þær séu ekki að berjast fyrir sama móteli á Íslandi? Hentar kannski ekki af prinsipp ástæðum, eða?
Jónas Ómar Snorrason, 21.12.2016 kl. 11:45
Jónas. Þegar svæðin hér í kring um okkur eru skoðuð sést að Barentshafið er eina svæðið þar sem veiðin hefur náð eðlilegum hæðum eftir mislukkaða friðunaraðgerð í kring um 1990, þegar þorskstofninn féll, selurinn gekk upp að ströndinni í fæðuleit og 70% langvíunnar drapst úr hungri vegna þess að loðnustofninn var upp étinn. Ég flutti erindi um þetta í Færeyjum í september og það má finna hér með enskum og dönskum texta: http://jonkr.mmedia.is/english/Runavik2016.pdf
Jón Kristjánsson, 21.12.2016 kl. 20:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.