Hvað er til ráða í Mývatni? Setja út regnbogasilung

Umræðan um Mývatn er einsleit, og einskorðast við að skolpmengun og áburðarnotkun eigi sök á því að vatnið hafi verið golgrænt af þörungum undanfarin ár. Þó nýjar rannsóknir sýni að einungis 1-2% af innstreymi næringarefna komi frá athöfnum mannsins, skal eyða miklum fjármunum í að endurnýja fráveitukerfi og minnka áburðarnotkun. Engar tilraunir eru gerðar til að skýra orsakasamhengi þess sem hefur verið að gerast í vatninu undanfarna áratugi og jafnvel enn lengur.

Í Fréttablaðinu á laugardaginn (21/5) var mikil grein um Mývatn. Þar sagði m.a:

"Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn (RAMÝ), hefur sagt að leirlosið sé ein stærsta óleysta gátan í Mývatni." og einnig:

"Í raun er því aðeins um eitt að ræða til að stemma stigu við þessari þróun, og það er að tryggja að sem allra minnst af næringarefnum frá mannabyggð (köfnunarefni og fosfór) berist í grunnvatnið og þannig í Mývatn."

Þá var í Fréttablaðinu í gær (23/5) grein eftir Guðmund Andra Thorsson, sem hefur þessa einföldu lausn: "Það þarf að skrúfa fyrir flæði næringarefna í vatnið undireins – bæði frá byggð og atvinnurekstri. Það er lágmark og þegar búið er að gera það má fara að velta fyrir sér ástæðunum."

Þó ástæðurnar fyrir þörungablómanum séu óþekktar þarf samt að gera eitthvað strax, þó svo menn séu ekki vissir um að það lagi ástandið eða skilji hvað veldur. Þörungablómi verður í Mývatni með reglulegu millibili, vatnið verður grænt, því fylgir mýleysi og fuglar og fiskar svelta. Á milli virðist allt vera í lagi, vatnið tært, næg áta fyrir fugl og fisk og allt í blóma. Minna má á að alltaf rennur jafn mikið af áburðarefnum í vatnið svo varla er lausnar á vandamálinu að leita þar, það er eitthvað annað sem veldur þessu.

Þörungablómi hefur verið þekktur í vötnum um allan heim og tengist hann oft aukinni ákomu næringarefna af manna völdum. Reynt var að lækna vandann með því að útiloka allt aðstreymi skolps en yfirleitt dugði það ekki til. Líklega vegna þess að vötnin eru orðin mettuð af næringarefnum í botnseti og það fer svo aftur í umferð t.d. vegna uppgruggunar, rotnunar eða áhrifa frá dýrasamfélögum. Rannsóknir og tilraunir sýndu að ofmergð smáfisks átti mestan þátt í að viðhalda þörungablómanum. Með því að fækka fiski tókst að lækna mörg vötn af þörungaplágunni.

Ég skrifaði um þetta 1986 í kjölfar mikillar þörungaplágu, og setti fram tillögur til úrbóta. Þær fólu í sér að sporna við offjölgun bleikju og hornsíla.  

Í fyrra kom út sænsk skýrsla um árangur þess að fjarlægja fisk úr 123 vötnum. Í samantekt segir:

Our results indicate that removal of planktivorous and benthivorous fish is a useful means of improving water quality in eutrophic lakes. Biomanipulation tends to be particularly successful in relatively small lakes with short retention times and high phosphorus levels. More thorough fish removal increases the efficacy of biomanipulation. Nonetheless successes and failures have occurred across a wide range of conditions.

Þó Rannsakendum Mývatns hafi verið marg bent á þetta láta sem þeir viti þetta ekki og hafa þar af leiðandi ekki bent á aðrar lausnir en að laga klóak. Er hlaupin einhver pólitík í vísindin líkt og gerðist á tíma Kísiliðjunnar?

Hvað er hægt að gera?

Erlendis, við sams konar aðstæður, hefur verið brugðist við með því að fækka fiski. Annað hvort með veiðum eða að settur er út ránfiskur til þess að halda smáfiskinum í skefjum. Í Mývatni eru hornsílin vandamálið, en þau virðast þau nú að mestu horfin úr vatninu. Sé það rétt lagast ástandið næsta sumar, vatnið verður tærara og áta fer vaxandi. Það er góð staða til að grípa til aðgerða.

Þar sem útilokað er að halda hornsílunum niðri með veiðum í Mývatni er aðeins ein leið fær. Hún er a nota ránfisk til að halda aftur af sílunum. Urriði étur hornsíli en bleikja ekki fyrr en hún er orðin stór, 37 cm eða stærri. Reynt var að setja út urriðaseiði fyrir um 25 árum með litlum árangri, enda voru seiðin fá og smá og tilraunin stóð mjög stutt.

Regnbogasilungur er mjög öflug hornsílaæta og hefur víða verið notaður. Hann hefur þann kost að geta ekki tímgast við náttúrulegar aðstæður hér á landi og reyndar hvergi í Evrópu þrátt fyrir að vera mikið notaður í fiskeldi. Þess vegna væri tilraun sem fæli í sér sleppingu á regnbogasilungi afturkræf. Kæmi eitthvað óæskilegt í ljós væri hægt að bakka út úr tilrauninni.

Ég tel að rétt væri að gera þá tilraun að sleppa regnbogasilungi í vatnið til að halda aftur af fjölgun hornsíla. Sleppa þyrfti um 100 þúsund fiskum um 10 cm löngum. Þetta tilsvarar 30 fiskum /ha. Kaupverð er sennilega um 20 milljónir, en á móti kæmi nokkurra tuga tonna afli. Fylgst yrði náið með framvindunni og nýjar ákvarðanir teknar í framhaldinu.

Ég hef reyndar stungið upp á þessu áður svo mér er full ljóst að margir munu hoppa hæð sína yfir svona tillögu. Setja framandi fisk í vatnið! En þá verða þeir að sitja uppi með það að eftir örfá þokkaleg ár fer allt í sama farið og umræðan fer aftur í sömu blindgötuna.

Ég stundaði rannsóknir í Laxá og Mývatni samfellt frá 1974 til 1986, var í sérfræðinganefnd um Mývatnsrannsóknir í mörg ár og var í stýrihópi um rannsóknir erlendu sérfræðinganna 1998 og 1999. Ég hef sett upp síðu um Mývatn þar sem ítarlega er fjallað um þessi mál.

Skýringarmynd. Ástand vatns fyrir (efri hlutinn) og eftir vistfræðistjórnun (biomanipulation)Biomanipulation

 

Fyrir stjórnun; Mikið af þörungum, lítið af dýrasvifi, sem étur þörunga og mikið af fiskum sem éta dýrasvif. Gruggugt grænt vatn

 

 

 

 

Eftir meðhöndlun; Hóflegt þörungamagn, mikið af dýrasvif, fáir fiskar sem éta dýrasvif. Tært vatn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Afhverju dettur engum í hug að dýpka vatnið. Fyrir x árum rann svipað magn af næringarefnum í vatnið og þá var vatnið 4-5 metra djúpt,  nú er vatnið talið vera 2-3 metra djúpt og því er hlutfall næringarefna væntanlega umtalsvert meira. Hvernig er staðan á svæðinu þar sem dælt var úr því versus suður svæðið? Bara vangaveltur almennings asna.

Þórður Birgisson (IP-tala skráð) 25.5.2016 kl. 19:20

2 Smámynd: Jón Þórhallsson

1.er vitað hvar helstu hrygningarstöðvarnar eru?

-Silungar vilja helst hrygna nærri lækjum en okki í einhverjum þörungagróðri eð  botnleðju.

2.Væri hægt að auka innstreymi nýs ferskvatns inn í vatnið t.d. með því að beina einhverjum nýjum árfarvegi inn í vatnið?

=hefur súrefni og sýrustig verið mælt eitthvða nýlega?

3.Er útstreymið úr vatninu nægt? Ef ekki að þá er hætta á því að vatnið verði eins og stórt klósett þar sem að aldrei er sturtað niður.

4.Það gæti einnig verið ráð að dýpka vatnið.

5.Það gæti verið ráð að sleppa síla/ránbleykju úr Þingvallavatni í Mývatn til þess að fækka hornsílum; það gilda væntanlega alveg sömu lögmál í báðum vötnunnum og enginn skaði sem að gæti gerst.

6.Hugsanlega gæti Mývatn farið að vanta ný gen í sinn stofn; annars er hætta á innræktun:

http://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/2172563/

Jón Þórhallsson, 26.5.2016 kl. 08:43

3 Smámynd: Stefán Þ Ingólfsson

Hefur eitthvað verið athugað hvort öskufall frá eldgosinu í Holuhrauni hafi eitthvað með málið að gera. Vera kann að ekki séu öll kurl komin til grafar með áhrif eldossins á vatnið þar sem Mývatn er á áhrifasvæði gossins. 

Stefán Þ Ingólfsson, 26.5.2016 kl. 11:37

4 Smámynd: Jón Kristjánsson

Þórður. Það er ekki vinnandi vegur að dýpka vatnið. Kísiliðjan er farin en hún dýpkaði Ytri flóann umtalsvert og hann lagaðist.

Jón, hrygningarstöðvar eru þekktar, þær eru í lagi en það vantar fæðu fyrir smáseiði, hornsílin sjá um að halda henni í lágmarki.

Alltaf verið að mæla, streymið er nægilegt, Mývatn endurnýjar sig á mánuði. Einfaldast að nota regnboga.

Þekki ekki áhrif öskufalla, vandamálið liggur í ójafnvægi lífkeðjunnar eins og ég skýri í blogginu. Skoðið endilega Mývatnssíðuna, slóð á blogginu.  

Jón Kristjánsson, 26.5.2016 kl. 12:54

5 identicon

Það er arfa vitlaust að stinga uppá að sleppa regnbogasilung í vatnið. Slíkar hugmyndir eru úreltar og eiga ekki við um nátturuperlur eins og Mývatn. Sama má segja um að sleppa bleikju úr Þingvallavatni það eru alls ekki sömu bleikjurnar og eru í Mývatni. Væri ekki nær að rækta bleikjur úr vatninu til þess að sleppa síðar aftur í vatnið?

Goddi (IP-tala skráð) 26.5.2016 kl. 16:27

6 Smámynd: Jón Kristjánsson

Arfavitlaust Goddi? Það þarf að ræða allar hugmyndir. Þetta er ekki úrelt, regnboginn er notaður víða erlendis til að lækna svona bláþörungablóma eins og hefur verið í Mývatni undanfarið. Þó Mývatns sé náttúruperla (þegar það er í lagi) er það ekki heilagt, geri menn ekkert verður þessi perla svört með reglulegu millibili.

Vilja menn laga ástandið eða ekki? Ræktun bleikju er út úr kortinu, bleikjan þerna hefur aldei étið hornsíli að neinu gagni. Tilgangur skrifa minna er að upplýsa og koma umræðunni upp úr mengunarhjólfarinu.

Jón Kristjánsson, 26.5.2016 kl. 17:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband