Vandamál Mývatns, hvernig væri að gá undir stólinn?

Fyrirsögnin höfðar til þess að á umliðnum árum virðist sem mörgum tillögum að skýringum á þörungaplágunni í Mývatni hafi verið stungið undir stól.

Mikil þörungaplága ríkir í vatninu, kúluskíturinn horfinn, botninn eins og eyðimörk og hornsílin horfin, er niðursoðin lýsing á ástandinu. Ekki eru menn vissir um hvað valdi en bent er á aukin umsvif mannsins og aukna ákomu næringarefna af þeim sökum. Sem dæmi um hugmyndafátæktina hafa menn miklar áhyggjur af því að hornsílin séu horfin, en eins og síðar verður bent á leika þau afar mikið hlutverk í vatninu og gætu jafnvel verið höfundar og stjórnendur atburðarrásarinnar.

Sveiflur hafa verið í lífríki Mývatns í marga áratugi og deilt hefur verið um orsakirnar. Löngum var Kísiliðjunni kennt um svo og mengun af mannavöldum. Nú er Kísiliðjan löngu farin og á er þá kennt um gömlum áhrifum svo og mengun af manna völdum þó nýútkomin skýrsla sýni að hún sé ekki nema um 1% af heildar ákomunni. Öðrum tilgátum sem skýra mættu sveiflurnar hafa verið hafnað af rannsóknaraðilum, RAMÝ og líffræðistofnun HÍ.

Árið 1998, í tengslum við endurnýjun námaleyfis Kísiliðjunnar, fékk ríkisstjórnin þrjá viðurkennda óháða erlenda vísindamenn til að fara yfir tiltæk rannsóknargögn og ræða við þá sem tengdust rannsóknum svo og heimamenn. Skýrslu var skilað í ársbyrjun 2000. Í henni kom m.a. fram að hvorki væri hægt að kenna Kísiliðjunni né mengun af mannavöldum um sveiflurnar í lífríkinu á neinn afgerandi hátt. Skýringa yrði að leita annars staðar. Niðurstaðan var túlkuð á mismunandi hátt og voru sumir afar óánægðir.

Þremenningarnir settu fram fleiri kenningar og lögðu fram tillögur að rannsóknaráætlunum sem myndu svara ýmsum spurningum og leiða til meiri skilnings á eðli sveiflanna. Ekki hef ég orðið var við að farið hafi verið eftir tillögunum og skýrslan virðist nú grafin og gleymd.

Ein möguleg skýring er sú að magn bláþörunga stjórnist af samspili fiska, krabbadýra og þörunga. Það má hugsa sér lausnina á gátunni um úlfinn, lambið og heypokann, sem ferja skal yfir ána, eitt stykki í einu. Hún byggir á því að lambið myndi éta heyið, úlfurinn gæti étið lambið en ekki heypokann. Hugsum okkur gróinn landskika sem beittur er af kindum. Úlfaflokkur kemur á svæðið, étur féð, þrífst vel og fjölgar sér. Kemur þar að úlfarnir hafa étið upp kindurnar svo enginn er til að bíta grasið og úlfarnir einir eftir sveltandi, í grasi upp að öxlum.

Stundum hefur þetta verið svipað í Mývatni. Byrjum með hreint borð:

1. Vatnið er tært að vori, mikið af krabbaflóm í vatninu, mikið mý, nóg fæða fyrir silung sem þrífst vel, engin hornsíli.

2. 1-2 árum síðar, hornsílum fjölgar, krabbaflóm fækkar og vatnið fer að gruggast, dregur úr vexti silunga.

3. Vatnið grænt, fullt af hornsílum, krabbinn horfinn, silungur horaður. Allt fiskafóður upp étið og það endar með því að hornsílin yfirgefa vatnið. Ég hef séð þau synda úr vatninu niður Laxá í milljónatali.

4. Aftur á byrjunarreit, hornsílin farin, krabbaflær komnar aftur og vatnið tært. Þessi hringrás endurtekur sig á 5-7 árum.

Sé rétt að hornsílin séu nú horfin úr Mývatni (stofninn hruninn eins og sagt er) þá er vatnið að færast yfir á stig 4 hér að ofan og verða tært næsta sumar. Sjáum hvað setur.

Kúluskítur og annar botngróður er horfinn vegna þess að bláþörungasúpan kemur í veg fyrir að ljósið nái niður á botninn. Vandamálið er því bláþörungurinn, hvað veldur því að hann blossar svona upp? Þekkt er að það hafa skipst á tímabil með u.þ.b. 7 ára millibili, þar sem vatnið skiptist á að vera tært og gruggugt af þörungum. Alltaf er samt sama innstreymi af næringarefnum. Hvernig má vera að stundum valdi þau þörungablóma og stundum ekki? Það hljóta að vera aðrir líf- og vistfræðilegir þættir sem þarna eru að verki. Samt er það eina sem mönnum dettur í hug núna er að ráðast í að lagfæra klóak, sem aðeins stendur fyrir um 1% af innstreymi næringarefna ef marka má nýútkomna rannsóknaskýrslu. Ráðherrann vitnar í skýrsluna og telur að ástand vatnsins sé ekki af manna völdum. Samt á að ráðast í dýrar framkvæmdir því "það er það eina sem við getum gert. Hvernig væri nú að skyggnast í hugmyndir og tillögur sem stungið hefur verið undir stólinn?

Ég stundaði rannsóknir í Laxá og Mývatni samfellt frá 1974 til 1986, var í sérfræðinganefnd um Mývatnsrannsóknir í mörg ár og var í stýrihópi um rannsóknir erlendu sérfræðinganna 1998 og 1999. Ég hef sett upp síðu um Mývatnsmál hér. Þar eru slóðir, m.a. á skýrslu erlendu sérfræðinganna.


mbl.is Mývatn að hruni komið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Er ekki aðal skaðvaldurinn á endanum misvitrir embættis og stjórnmálamenn?

Jónas Ómar Snorrason, 11.5.2016 kl. 21:54

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þakka pistilinn. Var búinn að kenna Mývetningum um allan ósómann og hvetja þá til rotþrórgerðar! Bændur til að hætta notkun tilbúins áburðar og helst að láta alla túrista míga og skíta, áður en þeir kæmu inn í sýsluna. Hvernig má það vera að upplýsingar sem lagðar hafa verið fram, hljóta ekki hljómgrunn þeirra, sem um málin eiga að fjalla. Mikið er stjórnvaldið illa að sér um flesta hluti., en það er nú sennilega eitthvað sem þú þekkir manna best, kæri Jón.

 Góðar stundir og með bestu kveðjum að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 12.5.2016 kl. 01:55

3 Smámynd: Jón Kristjánsson

Sæll Halldór. Mér hefur alltaf þótt þessi einstefna fræðimanna við Mývatn verið einkennileg. Meira er ekki hægt að segja. Svo er spurning hvort eitthvað sé hægt að gera en ljóst er að aðgerðir þurfa að beinast að því að halda hornsílum í skefjum. Tek það fyrir næst. Hafðu það gott á Suðurhveli.

Jón Kristjánsson, 12.5.2016 kl. 10:58

4 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Jón Flott greinagerð og gott að skilja.Þetta er eins og þú segir en það er oft jafnvel alltaf rokið í aðgerðir án þess að hugsa hvað sé að. Er búið að send hana til Umhverfisráðherra eða á Alþingismenn allmennt.

Valdimar Samúelsson, 12.5.2016 kl. 17:18

5 Smámynd: Jón Kristjánsson

Takk Valdimar. Sendi þetta á umhverfis. Tek svo fyrir fljótlega hvað sé unnt að gera til að reyna að hamla á móti sveiflunum.

Jón Kristjánsson, 12.5.2016 kl. 18:00

6 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Það vantar fleiri fólk sem reynir að taka hlutunum með skynsemi en þetta á líka við græn húsar áráttuna en þar eru allir með heimsenda spár.  

Valdimar Samúelsson, 12.5.2016 kl. 19:26

7 Smámynd: Jón Kristjánsson

Það er nú eitt stóra svindlið, en ég hef nóg með fiskinn. Ég heyrði í fréttunum áðan að því er einnig kennt um Mývatnsstandið. Það var nú reyndar ömurleg fréttum alltaf það sama, klóak, klóak...

Jón Kristjánsson, 12.5.2016 kl. 19:50

8 identicon

 Sæll Jón.

Takk fyrir góða og skýra grein. Nú hefur veiði í vatninu skipt miklu máli fyrir Mývetninga á undanförnum öldum. Hefur eitthvað verið kannað hvort heimildir séu um sveiflur í vatninu á fyrri öldum.

Annað sem mig langar til að spyrja þig um. Er vitað hvaða áhrif þessar sveiflur hafi á urriðastofninn í Laxá.

Bestu kveðjur

Rögnvaldur

Rögnvaldur Ingólfsson (IP-tala skráð) 12.5.2016 kl. 21:34

9 Smámynd: Jón Kristjánsson

Röggi. Þegar átuskortur er í Mývatni, er gósentíð í Laxá. Þörungurinn úr Mývatni er fæða bitmýsins, sem er aðal fæða urriðans. En veiðimenn kvarta um gruggið. Þegar Mývatn er tært, er lítið af bitmýi og urriðinn sveltur. Þekki ekki fyrri alda veiði, en veiðin í vatninu hefur verið tiltölulega lítil miðað við framleiðslu vatnsins. Síðustu ár hefur verið lítil veiði enda veiðibann til að "byggja upp stofninn"!

Jón Kristjánsson, 13.5.2016 kl. 18:15

10 identicon

Það er auðvelt að vera með tilgátur sérlega ef engin göng eru til að styja hana. Hvenig væri að þú sýndir framá þetta með tölum, eða er þetta bara enn önnur sagan?

Goddi (IP-tala skráð) 14.5.2016 kl. 19:36

11 identicon

 Sæll Jón,

Þetta er mjög athyglisverð tilgáta sem þú setur fram enda hef ég eins og þú séð milljónir hornsíla hörfa úr vatninu niður í Laxá. Ef tilgátan er rétt er það ekki rétt skilið hjá mér að urriðinn í Laxá hljóti þá að vera troðfullur af hornsílum um þessar mundir? Ef svo reynist ekki vera nú þegar veiðar hefjast í ánni og fiskur jafnvel í rýrum holdum myndi það afsanna kenninguna eða eru enn aðrir skýringarþættir sem þá gætu komið til sögunnar?

Góð kveðja,

Bragi

Bragi Gudbrandsson (IP-tala skráð) 15.5.2016 kl. 14:47

12 Smámynd: Jón Kristjánsson

Goddi. Það er mjög mikið til af gögnum, sjá t.d. bókina Náttúru Mývatns frá 1991. Fylgstu með síðunni um Mývatnsmál, sem slóð er á í þessu bloggi. Þar verður bætt við upplýsingum um "biomanipulasjon" sem er hvernig þörungavandamál eru leyst með því að stjórna fiskstofnum.

Bragi, gott að fleiri hafi séð þetta. Laxá var þá full af hornsílum niður í sjó, það kom fram í seiðaveiðum. En urriðinn er alveg fastur í að éta mý, varglirfur. Ég hef aldrei fundið hornsíli í maga Laxárurriða þó hann sé troðinn af þeim í Mývatni. Hann virðist þurfa að læra að éta þau meðan þau eru smá. Reyndi einu sinni að sleppa stórum klakurriða í smábleikjuvatn til að grisja það. Það gekk ekki. Þeir sem veiddust voru með tóman maga, svo hvarf hann. Uppeldið skiptir máli.

Jón Kristjánsson, 16.5.2016 kl. 12:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband