Ekki semja um makrílinn!

Makríldeilan er aftur komin á dagskrá. Norðmenn og ESB reyna enn að þvinga okkur Íslendinga og Færeyinga til að semja um aflahlutdeild, sem í raun þýðir að þeir eru að ræna okkur fiskveiðum í eigin lögsögu. Með sömu rökum gætum við bannað Norðmönnum Bretum og Írum að veiða lax í sínum eigin ám því hluti laxastofna þeirra elst upp í íslenskri, færeyskri og grænlenskri lögsögu.

Fiskveiðistjóri ESB segir að nauðsyn sé á að semja (taka af okkur veiðiréttinn) því makríll sé ofveiddur og koma verði í veg fyrir útrýmingu stofnsins. - Ofveiddur?

Það er veitt meira en ICES (Alþjóða hafrannsóknaráðið) leggur til, en er eitthvað að marka þeirra ráðgjöf? Farið hefur verið groddalega fram úr henni í Barentshafi, þorskstofninn stækkar og ICES eltir og hækkar ráðgjöfina, þvert ofan í það sem þeir ættu að gera ef þeirra ráðgjöf hefði verið rétt og framúrkeyrslan valdið ofnýtingu stofnsins.

Stofnæling á makríl er tóm vitleysa, hún er gerð á 3 ára fresti og þá með því að telja hrogn í hafinu. Ráðgjöfin er í samræmi við það, auk þess sem hún byggist á því að veiða lítið svo stofninn stækki. Þeir halda nefnilega að það sér best sé að veiða sem minnst svo stofninn stækki. Þeir hugsa ekkert um að fæðan takmarkar stærð fiskstofna og stór stofn getur étið sig út á gaddinn.  

Norskir fræðingar sjá merki um ofbeit á átu í Norðurhafi, það sé einfaldlega ekki nóg fóður fyrir þessa stóru síldar-, makríl- og kolmunnastofna. Þetta getur verið ein ástæða þess að makríllinn sækir á Íslandsmið, það er að verða lítið að éta heima fyrir, - vegna of lítillar veiði.

Við eigum að halda okkar striki og láta ekki hræða okkur til hlýðni. Ef við veiðum sem áður, og þeir líka kemur væntanlega í ljós að stofninn þolir það enda er það eðli fiskstofna að bregðast við aukinni nýtingu með aukinni framleiðslu. Þarna kemur fæðan til sögunnar: Aukin veiði eykur framboð handa þeim sem eftir lifa, vöxturninn eykst svo og nýliðun. Stofninn fer jafnvel stækkandi (Barentshaf) vegna þess að fæðan nýtist betur.

Ekki semja, lærum af kolmunna samningunum!

KolmunniMeðan ósamið var um hann var veitt langt umfram ráðgjöf og stofninn stækkað i stöðugt. Þegar búið var að koma böndum á veiðarnar með samningum 2005 var lögð til minni veiði og aflinn minnkaði. Sagt var að "gömul" ofveiði hefði valdið því.


Er eitthvað vit í stofnmælingu á makríl?

Í Morgunblaðinu 30. september 2010 skýrir Þorsteinn Sigurðsson hjá Hafró vankantana á stofnmælingu makríls:"Mælingar á makrílstofninum eru ýmsum vandkvæðum háðar. Í fyrsta lagi er fiskurinn ekki með sundmaga og því næst ekki endurkast með bergmálsmælingum frá makrílnum. Við bergmálsmælingar á öðrum fiskum kemur endurvarp hljóðsins að 95% frá sundmaganum. Norðmenn hafa unnið að þróun tækni til að bergmálsmæla makríl, en sú aðferð hefur ekki hlotið alþjóðlega viðurkenningu".


"Í öðru lagi er makríll mjög ofarlega í sjónum og yfir sumarmánuðina er hann ofar en botnstykki skipanna. Þessi staðreynd torveldar enn frekar bergmálsmælingar á makríl. Það er helst á haustin sem makríll leitar neðar í sjónum, en á þeim tíma er makríll lítið eða ekki í íslenskri lögsögu. "

„Þar sem bergmálsmælingar hafa ekki dugað til að fínstilla stofnmatslíkön makríls þá hefur frá árinu 1977 verið beitt eggja- eða hrognatalningu,“ segir Þorsteinn. „Í slíka leiðangra er farið þriðja hvert ár og tóku Íslendingar þátt í þeim í fyrsta skipti í ár. Leiðangrarnir stóðu frá janúar og fram í miðjan júní. Egg voru talin syðst og austast í íslensku lögsögunni í lok leiðangursins og alla leið suður í Bisqaya-flóa síðastliðinn vetur. Í eggjatalningunni eru tekin sýni með háfi úr yfirborðslögum sjávar og síðan er reiknað út miðað við fjölda eggja í hverju kasti hversu margir fiskar hrygndu það árið. Til grundvallar liggja fyrir margvíslegar upplýsingar, meðal annars úr fyrri leiðöngrum auk frjósemismælinga, þ.e. heildarfjölda hrogna í hverri hrygnu".


Þetta er nú svo mikil della að maður verður að halda um höfuðið. Hafró hætti áratuga þorskseiða talningum fyrir nokkrum árum vegna þess að ekkert vitlegt fékkst út úr þeim. Sennilega skynsamlegasta ákvörðun þeirra til þessa.

Makríllfoto2Nú telja þeir (og ICES) makrílhrogn frá Biskayjaflóa norður til Færeyja og reikna út stærð hrygningarstofnsins. Talningin stendur í 4-5 mánuði, janúar - maí. Ætla má að við upphaf talninga sé aðeins lítill hluti stofnsins farinn að hrygna og í lok tímabilsins hlýtur mestur hluti eggjanna að vera upp étinn og dauður!

Makrílegg eru talin þriðja hvert ár á skástrikaða svæðinu. Vottur af hrognum fannst þar sem krossarnir eru, árið 2002.

Svona vinnubrögð hljóta að vera heimsmet í ágiskunum, en enginn segir neitt. Stjórnmálamenn trúa "vísindamönnunum" blint og reyna ekki einu sinni að kafa ofan í áreiðanleika ráðgjafarinnar eða reynsluna af henni í fortíðinni.

En, - Ekki semja um makrílinn!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Svo hjartanlega sammála hverju einasta orði í þessari grein.  En ég er hræddur um að Gunnarsstaða Móri eigi að fórna hagsmunum Íslands í makríldeilunni fyrir INNLIMUNARUMSÓKNINA.......

Jóhann Elíasson, 6.7.2012 kl. 15:03

2 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Það er miklu betra að veiða hvern einasta sporð þangað til að stofnin hrynur, og þá þannig að ekki verður hægt að veiða úr honum næstu 20 árin. Það er miklu betra heldur en að semja um veiðanar.

Jón Frímann Jónsson, 6.7.2012 kl. 18:45

3 Smámynd: Jón Kristjánsson

Jón Frímann

Þú skilur greinilega ekkert.

Það er ekki hægt að veiða upp makríl, hann myndar ekki torfur í sama mæli og síld, finnst ekki á fiskleitartækjum  og er aðallega veiddur í flottroll, vegna þess að hann er dreifður, ef þú veist hvað það þýðir. 

Jón Kristjánsson, 6.7.2012 kl. 19:13

4 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Það er alveg hægt að veiða upp þessa fiskitegund eins og aðrar fiskitegundir. Ofveiði á Marík er ástæðan fyrir stöðu mála í dag. Um þetta er talað t.d hérna.

http://www.worldfishingtoday.com/news/default.asp?nyId=6118

Jón Frímann Jónsson, 6.7.2012 kl. 19:32

5 Smámynd: Jón Kristjánsson

Frímann

Þú vitnar í grein þar sem segir: 

"Overfishing could end mackerel fisheries MSC accreditation".

Ekki er vísað í nein gögn um að ofveiði hafi átt sér stað.

Þarna segir "GÆTI leitt" til þess að makríll fái ekki viðurkenningu MSC, sem eru þvingunar og fjáröflunarsamtök, sem sjá ofnýtingu alls staðar, enda lifa samtökin á því. Það er nóg af makríl, og öðrum fisktegundum, í dag, ekkert hefur verið "ofveitt", þetta er einungis hræðsluáróður og lygi. 

Jón Kristjánsson, 6.7.2012 kl. 20:01

6 Smámynd: Jóhann Elíasson

Jón Frímann er með skít á milli eyrnanna og svo er hann alveg ótrúlegur þverhaus þannig að það er ekki hægt að ætlast til þess að frá honum komi nokkuð af viti, eins og reynslan hefur sýnt okkur......

Jóhann Elíasson, 6.7.2012 kl. 20:02

7 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

þetta er náttúrulega alveg ótrúlegt að lesa. Og lærðu menn þetta í fiskifræðinni eða?

Og svo þegar Jón Fr. kemur með skynsemi inn - þá bara, ja eiginlega ekki hægt að lýsa viðbrögðunum.

Svo er LÍÚ-Moggi að vitna í eitthvað svona og segir frétt.

það er þetta sem eg er að tala um. Öfgar vaða uppi á Íslandi í dag. Vaða.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.7.2012 kl. 20:19

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Tek hjartanlega undir hvatningu þína hér og afar upplýsandi umfjöllun málsins alls, Jón fiskifræðingur. Kærar þakkir.

Vegna greinar þinnar hér á undan, Á að útrýma handfæraveiðum?, þar sem þú eðlilega gagnrýnir 23 skyndilokanir Fiskistofu á handfæraveiðar á rúmlega þremur vikum og innir eftir ástæðum, vil ég spyrja: Eiga LÍÚ-stórfurstarnir líka stjórnarmenn í Fiskistofu eins og í Hafró?

PS. Þessum JFJ gengur það eitt til, sýnist mér, að verja sitt heittelskaða Evrópusamband og ekkert síður þótt það veitist að Íslendingum og hóti þeim öllu illu. Þar að auki væri Esb-ríkjunum í lófa lagið að minnka eigin makrílveiði, enda heldur 40% hans sig hér á Íslandsmiðum góðan hluta veiðitímans.

Jón Valur Jensson, 6.7.2012 kl. 20:25

9 identicon

Mér er það hulin ráðgáta, af hverju smærri bátum(skipum) er ekki leyft að veiða makríl í net og hringnót.

Síðan væri fróðlegt að sjá hvað ætlað er, hvað stór hluti makrílstofnsins dvelji langan tíma ársins inn í lögsögu hvers ríkis fyrir sig, það væri mjög fróðlegt að sjá þá skiptingu, og hvernig hún kemur út, og hvort rétt sé að Írar Skotar og Norðmenn noti ekki flottroll á makrílinn.

Halldór Björn (IP-tala skráð) 6.7.2012 kl. 21:04

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Spurning til Jóns Frímanns: Finnst þér líklegt að Færeyingar séu svo miklu heimskari en við þegar kemur að fiskveiðum að það sé ástæðan fyrir því að þeir töldu sig ekki geta notað okkar kerfi? Þeir notuðu það í tvö ár og gáfu því falleinkunn. Þeir gátu notað Jón Kristjánsson fiskifræðing sem okkar vísindastofnun telur ekki eyðandi orðum á.

Hefurðu skoðun á þessu Jón Frímann?

Árni Gunnarsson, 6.7.2012 kl. 21:32

11 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Heill og sæll Jón og takk fyrir góða grein, tek undir með þér að við eigum ekki að semja um makrílinn.

kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 6.7.2012 kl. 21:58

12 Smámynd: Halldór Jónsson

makrillinn rydst hingad til ad afeta okar thorsk.verjum thorskinn,drepum makril og hvali i leidinni

Halldór Jónsson, 6.7.2012 kl. 23:03

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góður Halldór!

Já, við þurfum að koma sem flestum upp á það að éta hval og rengi.

Jón Valur Jensson, 6.7.2012 kl. 23:57

14 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Makríll er ránfiskur og étur allt sem hann kemst í tæri við, versta er að hann nær ekki til Jóns Frímans :)makríll er að éta upp smásílin hér við land og það bitnar bæði á Lunda og fiski og því ber að veiða makríl eins og við getum og það er engin hætta á því að við stundum ofveiði og sama á við um hvali hann er að verða ofvaxinn stofn hér við land og étur mörg hundruð tonn á ári af fiski en þetta vill Jón Frímann ekki skilja eða þá heldur Ómar Bjarki enda báðir heilaþvegnir Brussel sinnar......

Marteinn Unnar Heiðarsson, 7.7.2012 kl. 00:04

15 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Jón,

Ég er nú ekki mikill fiskifræðingur, en ef þú hefur rétt fyrir þér að aukin veiði stækki stofninn, hvar á þessi stækkandi stofn að fá að éta til langframa?  Ég tek það fram fyrir þá sem sjá rautt og blátt þegar minnst er á ESB að ég er algjörlega á móti ESB;)  Heimskuleg röksemdafærsla er ekkert gáfulegri þó hún sé á móti ESB  Mér finnst þessi röksemdafærsla ekki geta gengið upp til lengri tíma litið.  

En segðu mér, hvernig á þá að gera þessar stofnstærðarmælingar, eða á bara að giska á þetta alltsaman?  Mér heyrist þú ekki vera ásáttur við ágiskanir, þannig að ég, sem áhugamaður um vísindi, vildi gjarnan vita hvernig á að gera þetta rétt:) 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 7.7.2012 kl. 01:30

16 identicon

Mér finnst skrýtið hvað umræðan um makríl er mikið á reiki. Ef við gefum okkur að eggja- og hrognatalningaraðferðin sé ekki vísindaleg og niðurstöður þar af leiðandi ómarktækar; hvaða aðferðum er þá hægt að nota til meta stærð makrílstofnsins? Nú eigum við í deilum við Norðmenn og Skota , en esb gætir hagsmunna þeirra. Forystumenn í norskum sjávarútvegi tala um sjóræningjaveiðar Íslendinga. Hvernig ber að skija þetta? Er þetta hreinn áróður eða skoðun byggð á þekkingu? Samningsvilji ræðst auðvitað ekki af mati á fiskifræðilegum kenningum. Stjórnmálamenn verða að meta heildarhagsmuni. Ein spurning í lokin til Jóns kristjánssonar: miðað við það sem vitað er; hversu mikil ætti heildarveiði á makríl að vera og hver ætti að vera hlutur íslenskra útgerða?

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 7.7.2012 kl. 09:30

17 Smámynd: Jón Kristjánsson

Sæll Arnór, ég sagði:
"Þarna kemur fæðan til sögunnar: Aukin veiði eykur framboð handa þeim sem eftir lifa, vöxturninn eykst svo og nýliðun. Stofninn fer jafnvel stækkandi (Barentshaf) vegna þess að fæðan nýtist betur".

Þú spurðir: "Hvar á þessi stækkandi stofn að fá að éta til langframa"? 

Ég nefndi Barentshafið þar sem stofninn hefur stækkað jafnt og þétt, sennileg vegna aukinnar fæðu en ekki síst vegna aukinna smáfiskveiða Rússa. Lámarksstærð hefur verið færð niður í 44 cm til að gera Rússunum lífið léttara. Hvort þetta heldur áfram er óvíst, en þrýstingur er í Noregi að auka veiðar enn meira, til að koma í veg fyrir hrun. Stofninn stækkar ekki endalaust, hann gæti horfallið mjög snögglega.



Ofbeit stafar meira af fjölda munna heldur en heildar lífþyngd. Mergð af smáfiski veldur því að fæðudýrin fá ekki tækifæri til að stækka svo þau nýtist stærri fiski. Annað hvort horast hann niður eða fer að éta undan sér. Fæðukeðjan lengist svo minna af frumframleiðslu hafsins, grænfóðrinu, nær að framleiða fisk.



Stofmælingar á makríl eru ekki mögulegar, og þó menn vissu stofnstærð vita menn ekki hvað á að veiða mikið úr honum. Veiðistjórn ætti að byggjast á reynslu auk vaxtarmælinga, útbreiðslu- og fæðurannsóknum. Það mætti t.d. auka afla um 20% milli ára, sjá hvað gerðist og haga framhaldinu eftir því.

Varðandi reynslu þá hefur verið veitt (miklu?) meira en aflatölur segja. Nýlega voru Skotar staðnir að verki og Hollendingar voru sagðir stunda svarta veiði hér áður fyrr. Það er að mörgu að hyggja og ekki megum við gleyma því að náttúran er síbreytileg.



Hrafn: Ég vísa til þess sem ég sagði að ofan, en hve mikið Íslendingar eigi að veiða er pólitísk ákvörðun háð heildarafla og útbreiðslu.

Jón Kristjánsson, 7.7.2012 kl. 10:44

18 Smámynd: Steinþór Kristjánsson

Bíðum aðeins, þurfum aldrei að semja um hluti, er málið alltaf að við eigum að fá allt fyrir ekkert. Á árunum fyrir 1960-1970, veiddu þýskir og breskir togagar við Íslandsmið, og allir virtust hafa eitthvað fyrir sinn snúð. Eftir að við tókum sjálf við stjórninni hefur allt verið á niðurleið, þorskaflinn minnkar frá ári til árs, en aldrei má minnast á það sem er undirstaða og svarið við þessu öllu, loðnuveiðar.

Steinþór Kristjánsson, 8.7.2012 kl. 02:37

19 Smámynd: Jón Valur Jensson

Alltaf fróðlegt að lesa þín skrif, Jón Kristjánsson, eins og sitthvað í þessu síðasta innleggi þínu.

Jón Valur Jensson, 9.7.2012 kl. 19:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband