12.6.2012 | 13:04
Hætta að veiða ýsu?
Ekki get ég samt staðist að fara nokkrum orðum um nýjustu fiskveiðiráðgjöfina. Þeir þakka sér og aflareglunni um mælda stækkun þorskstofnsins, en kenna náttúrunni um samdrátt ýsustofnsins. Sem kunnugt er hefir ýsustofninn verið á hraðri niðurleið að sögn Hafró, og ráðlagður afli farið úr 100 þúsund tonnum í liðlega 30, en alltaf hefur verið farið að ráðgjöf stofnunarinnar um afla. Og forstjórinn lét að því liggja í viðtali að jafnvel þyrfti að banna ýsuveiðar!
Um hörmungar ýsunnar segja þeir:
Meðalþyngd eldri aldursflokka er samt enn fremur lág, en þeir yngri eru um eða yfir meðallagi. Meðalþyngdin hefur verið nokkuð breytileg og yfirleitt lægri hjá stórum árgöngum. Árgangur 2003 var mjög stór og í samræmi við það mjög léttur eftir aldri. Yngstu árgangar ýsu eru metnir litlir og í samræmi við það er meðalþyngd þeirra hærri en verið hefur undanfarin ár. Lág meðalþyngd stórra árganga sést strax við tveggja ára aldur en eftir það hefur vöxtur oft verið svipaður og hjá minni árgöngum. Árin 20052009 var vöxtur allra árganga í stofninum hægur, en ýsustofninn var þá mjög stór. Á árunum 2010 og 2011 hefur vaxtarhraði aukist verulega.
Hér tala þeir enn um að vöxtur ýsunnar sé háður stofnstærð, stórir árgangar vaxi hægar o.s. frv. En þeir harðneita því alltaf að þetta geti átt við um þorsk!
Áfram segir um ýsuna: Árgangar 20082011 eru allir metnir mjög slakir, að meðaltali um 20 milljónir tveggja ára nýliða. Sá fjöldi svarar til um 16 þús. tonna heildarafla að hámarki úr hverjum þeirra miðað við að afrakstur á nýliða verði um 800 grömm, líkt og verið hefur úr árgöngum af svipaðri stærð á undanförnum áratugum.
Ýsustofninn mun minnka áfram á komandi árum þegar litlu árgangarnir frá 20082011 koma inn í hrygningarstofninn og líkur eru á að hann verði nálægt sögulegu lágmarki árin 20142015. Til að hættan á slíku verði lítil leggur Hafrannsóknastofnunin til að hámarksaflamark ýsu fiskveiðiárið 2012/2013 verði 32 þús. tonn í samræmi við fyrirliggjandi tillögu að aflareglu.
Þegar vöxtur ýsunnar hægðist hefði átt að auka veiðar, ekki einungis til þess að eftirlifandi fiskar yxu betur heldur til að rýma fyrir nýliðun. Nú eru þer að súpa seyðið af því; nýliðun hefur verið arfaslök frá 2008, væntanlega vegna fæðuskorts og plássleysis fyrir ungviði.Auk þess að vera úti á túni í veiðiráðgjöfinni eru þeir ekki í neinu sambandi við umhverfi fiskveiðanna. Lítill ýsukvóti á þessu fiskveiðiári hefur verið til vandræða og enn versnar það. Vegna skorts á ýsukvóta geta menn ekki veitt aðrar tegundir, nema þá að henda fiski eða gera það sem sjómenn vilja helst ekki, landa aukaafla og láta andvirðið renna í sjóði Hafró.
Í hvaða heimi lifa menn sem vilja banna ýsuveiðar til að vernda ýsustofninn? Er ekki stofnunin annars orðin hagsmunatengd: veiðibann á lúðu, smáfiskafriðun og aukinn niðurskurður færir þeim meiri tekjur í kassann.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 13.6.2012 kl. 10:39 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Jón í baráttunni.
Hefur þú lagt mat á hvað veiða megi/ætti úr ýsustofninum og þorskstofninum næsta fiskveiðiár og í heild á yfirstandandi fiskveiðiári?
Úthlutaðar aflaheimildir m.v. slægðan fisk fiskveiðiárið 2011/2012 voru í þessum tegundum (skv. vefsetri Fiskistofu):
Þorskur: 134.520 tonn
Ýsa: 34.757 tonn
Kristinn Snævar Jónsson, 13.6.2012 kl. 10:57
Kristinn
Við þessu er ekki einfalt svar. Við vitum ekki hve stórir þessir stofnar eru, mælingar Hafró eru ekki réttar, mat þeirra er að öllum líkindum vanmat. Auk þess, þó stofnstærð sé þekkt, er ekki vitað hve mikið má úr þeim veiða eða hvernig.
Ég hef haldið því fram að með því að veiða fiskinn fyrr, yngri, áður en draga fer úr vexti, megi uppskera meiri afla. En þrátt fyrir að rannsóknir hafi sýnt að rangt sé að veiða stærstu fiskana úr stofninum heldur Hafró í smáfiskafriðun, sem reyndar hefur ekki skilað því sem ætlast var til, meiri afla seinna.
Aflamark, kvóti er slæm lausn. Bæði vegna þess að stofnstærð er rangt metin, sem leiðir til rangs aflakvóta, og hvetur menn til að reyna að landa sem verðmestum fiski, nokkuð sem leiðir til brottkasts.
Betra væri að innleiða sóknarmark, úthluta veiðidögum þar sem menn mega veiða að vild án nokkurs tegunda- eða aflakvóta eins og gert er í Færeyjum.
Stæði ég frammi fyrir því að ákveða kvótann myndi ég auka þorskkvótann og setja hann 400 þús. tonn og fara með ýsuna í 70 þús tonn. Ástand þessarra stofna ræður því svo hve mikið veiðist. Segjum nú svo, að aflabrögð í ýsu versni þegar af er tekið, þá mun einfaldlega ekki takast að veiða upp úthlutaðan kvóta. Það er í besta lagi, ef tekið er "of mikið" úr stofninum svarar hann því með meir framleiðslu, auknum vexti og meiri nýliðun.
Aðalatriðið er að menn mega ekki vera hræddir við að veiða. Það er ekki hægt að ganga of nærri botnfiskstofnum með veiðum, þrátt fyrir að Hafró haldi því gagnstæða fram.
Jón Kristjánsson, 13.6.2012 kl. 18:58
Flott grein Jón Já her kæmi t.d. Sóknarmark Matta Bjarna vel að notum sérstakelga þar sem greinilega er meira af ýsu en ráðleggingar segja til um. Sóknarmark öfugt við Kvótakerfi hámarkar afrakstur miðanna en fer ekki duttlungum excel skjala sem aldrei hafa virkað við stjórnun fiskveiða.
Ólafur Örn Jónsson, 13.6.2012 kl. 21:11
Óli
Hafró hefur ekki samband við sjómenn eða kynnir sé ástandið á miðunum, veit td. ekki að nú þegar er skortur á ýsukvóta til að geta veitt aðrar tegundir.
Þetta hafa þeir ekki gert síðan ég var með Jakobi í síldinni 60-68. Hann vissi hvað klukkan sló, en svo hljóp hann í baklás um 1970 þegar hann hélt að hann væri ábyrgur fyrir hnignun síldarstofnsins, hefði látið veiða of mikið. Síðar kom svo í ljós að síldin drapst úr hungri, en það er lengri saga.
Jón Kristjánsson, 13.6.2012 kl. 21:30
Það verður að breyta skipulaginu innan þessarar stofnunar og hætta þessu "samstarfi" með alþjóðlega einokunarhringnum ICES.
Hérna er myndin af því þegar Rússar voru að brjótast út úr einokunarhring ICES - hvernig þeir hundsuðu tillögur skv. "heimskuformúlunni" sem Íslendingar keyra nú eftir með 100% nákvæmni...
Nú er aflinn að komast í eina milljón tonna á ári og fregnir herma um að Rússarnir vilji veiða meira...
Að meðan heldur Hafró áfram að láta smærri sjávarbyggðum blæða til ólífs vegna tilefnislauss skorts á aflaheimildum í þorski og ýsu.
ICES (Alþjóða hafrannsóknarráðið) er á fjárlögum þessa árs með yfir 70 milljón króna fjárveitingu frá Íslenska ríkinu!
Kristinn Pétursson, 13.6.2012 kl. 21:45
Ef ekki verður breyting á núverandi stefnu þá er fyrirsjánlegt framvindan verði sú að dregið verður enn frekar úr veiðum og skattlagning aukin í greininni.
Útgerðarmenn sem vilja halda kerfinu óbreyttu halda því gjarnan fram að það hafi orðið gríðarleg hagkvæmni í kerfinu og að það hafi skilað gríðarlegum árangri. Þetta verður til þess að það verður gríðarlegur þrýstingur á að skattleggja "umfram hagnaðinn" og engin umræða fæst um árangursleysið þ.e. að þorskaflinn sé um það bil þriðjungur af því sem að hann var fyrir daga kerfisins. Auðvitað er góður hagnaður í á útflutningsgreininni eftir að gengið hrundi. Skipin eru hins vegar háöldruð og ég efast um að það sé nokkur atvinnugrein á landinu sem notar jafn gömul atvinnutæki - Til sveita er óalgengt að notaðir séu traktorar á fertugsaldri.
Sigurjón Þórðarson, 13.6.2012 kl. 21:57
Já Jón og stoppuðu svo allar veiðar á síld í 10 ár! ekki 2 ár eða 5 ár nei 10 ár!
Það er vonandi að öfgaframkoma LÍÚ hafi vakið fólk til meðvitundar hve mikilvægt er að við förum að haga okkur skynsamlega í fiskveiðistefnu og við fiskveiðistjórnun. Og að sjálfsögðu verður betra bæði fyrir útgerð og þjóðina ef meira veiðist og þótt við verðum að búa við upp sveiflur ekki eilífðar reyðileysis ár eins og núna.
Ólafur Örn Jónsson, 13.6.2012 kl. 22:27
Það sem þú bendir á Jón virðist ríma vel við hinar “gömlu” kenningar Beverton og Holt (On the Dynamics of Exploited Fish Populations 1957, 3. k), bæði varðandi S-form vaxtarfalls fisks háð aldri hans og samhengið milli stofnstærðar og nýliðunar:
1) Minni vaxtarhraði fisks þegar hann hefur náð tilteknum aldri felur í sér að þá sé að koma tími til að veiða hann þegar hægir á þyngdaraukningunni; Lengri “beit” skili ekki tilsvarandi arði miðað við þann fórnarkostnað að hann tekur þá hlutfallslega meiri fæðu frá yngri hluta stofnsins (og öðrum fisktegundum) og væntur viðbótarafrakstur af biðinni (“fjárfestingunni”) dekki ekki tilsvarandi fórnarkostnað fjárhagslega séð. Auk þess er alls óvíst hversu góðar “heimtur” verði á fiski við lengri “ásetningu”.
2) Magn nýliðunar í stofninum sem fall af stofnstærðinni og tilsvarandi gotmagni vex stiglækkandi (d. degressivt), þannig að eftir að ákveðinni stærð hrygningarstofns er náð eykst fjöldi nýliða hlutfallslega lítið og þá með minnkandi aukningu (sbr. Beverton og Holt Dynamics 1957, 6. k.).
Báðir þessir þættir benda til þess að ekki sé hagkvæmt að láta fiskinn vaxa, þ.e. “setja hann á”, eftir að hann hefur náð ákveðnum aldri og viðleitni til stækkunar á hrygningarstofni umfram ákveðna stærð leiðir ekki til tilsvarandi aukningar í nýliðun og stofnaukningu. Þar ráði umhverfisþættir í vistkerfinu meiru.
Eins og þú heldur fram virðist stefna Hafró og hin opinbera fiskveiðistjórnun ganga í berhögg við þessar kenningar.
Rögnvaldur Hannesson (Economics of Fisheries: Some Problems of Efficiency 1974, 5. k.) leiddi rök að því með simuleringu á Beverton-Holt líkani fyrir íslenska þorskstofninn að mismikil nýliðun milli ára vegna umhverfisáhrifa ylli mun óreglulegri og meiri sveiflum í stofnstærðinni heldur en þegar gert er ráð fyrir því að nýliðun sé stöðug. Þar af leiðandi yrði hagkvæmasti sóknarþungi sömuleiðis breytilegur milli ára.
Eru þessar frumkvöðlakenningar orðnar úreltar, eða hefur einfaldlega ekki verið hægt að hrekja þær með óyggjandi hætti?
Lífríki og vistkerfi sjávar er vissulega flókið og afmarkaðar rannsóknir á tilteknum fiskistofnum út af fyrir sig eru dæmdar til að skila fremur takmarkaðri þekkingu, eðli málsins samkvæmt. Er ekki borðleggjandi að mikið skortir á heildarrannsóknir þar sem gagnvirkni fiskistofna innbyrðis, vegna samkeppni þeirra um fæðumagn og gagnkvæms afáts þeirra á hverjum öðrum, er kortlögð eftir föngum?
Kristinn Snævar Jónsson, 13.6.2012 kl. 22:27
Lífríki sjávar er ekkert "flókið mál"
"Barometið" er vaxtarhraði - eftir aldri.
Skv. kenningu RICKER sem er viðurkenndasta biblían í fiskilíffræði - að því er mér skilst, - þá eru einkenni ofveiði:
Ef um er að ræða minnkandi veiði... samfara fallandi vaxtarhraða... þá er EKKI um ofveiði að ræða - heldur er skýringa að leita í breyttum umhverfisskilyrðum.
Tilvitnun í RICKER (nokkurn vegni svona eftir minni) lýkur hér.
Kjarni málsins er alltaf þessi taugaveiklun þegar afli dregst saman - eins og t.d. 1983, - 1991 - 2001 o.fl. - þá var vaxtarhraði FALLANDI í öll skiptin.
Líklegasta skýringin í ökkum þessum tilfellum er FÆÐUSKORTUR = ofbeit - OFVERND - VANVEIÐI, -...
Hér er t.d fallið í vaxtarhraða 1979-1983...
:arna fullyrti Hafró "ofveiði" og tilefnislausa ofstjórnartímablið - um að þvinga náttúruna til að hlýða vitlausu reiknimódeli með tölfræðilegri fæðu hófst þá...
... og stendur enn...
En í Barentshafinu blómstrar allt við "ofveiðina".
Kristinn Pétursson, 13.6.2012 kl. 22:51
Já, nafni. Það virðist einkar skynsöm og jafnframt innsæislega séð rökrétt ályktun sem Ricker heldur þarna fram, samkvæmt tilvitnun þinni.
Sigurjón: Ein af rökunum fyrir kvótakerfi með hámarks-aflaheimildum eru að koma þar með í veg fyrir væntar offjárfestingar innan sóknarkerfis vegna kapphlaups milli útgerðaraðila um að ná sem mestum afla á sem stytstum tíma áður en heildarkvótinn er uppurinn, eða á þeim sóknardagafjölda sem leyfilegur er, eftir því hvernig kerfið er útfært.
Hins vegar sýnir reynslan hinn öfgann, eins og þú bendir á, að fiskiskipaflotinn hefur elst undanfarin ár að meðaltali og var meðalaldur hans 23 ár árið 2010, en þar undir meðalaldur togaraflotans 26 ár (árið 2011 var meðalaldur hans kominn í 27 ár). Þetta gefur sterka vísbendingu um að í skjóli úthlutaðra kvóta hafa útgerðaraðilar náð í sinn afla úr sjó í "rólegheitunum" með gömlu og líklega að einhverju leyti úreltum tækjabúnaði og tekið út arð í staðinn fyrir að endurfjárfesta.
Kristinn Snævar Jónsson, 14.6.2012 kl. 00:03
Kosturinn við að endurnýja flotann - er.
Gallinn er sá - að eignifjárstaða Íslenska útgerða hefur ekki gert þeim kleift að endurnýja skipin í flestum tilfellum.
Bankakerfið brást svo algerlega fyrir hrun - meða því að spana útgerðir til aðv eðsetja aflaheimildi langt upp fyrir rjáfur - og nota peningana í bólubrask - sem svo allt hrundi.
Nú hefur aftur lagast hjá útgerðinni í rekstri - en skuldirnar eru miklar - og það vantar meira eigið fé - svo endurnýjun flotans geti hafist.
EF veitt væri eðlilega - mætti koma til móts við flest þau sjónarmið sem eru uppi í dag.
Og svo framvegis...
Sáuð þið "samkomulagið" sem fiskveiðistjórn ESB vara að monta sig af í dag - um að "koma í veg fyrir brottkast".
Af hverju er brottkast?
Svar: 100% vegna vanmat á þeirri stofnstærð sem verið er að henda.
Væri fiskurinn ekki til - kæmi hann ekki í veiðarfærið - ekki satt?
Fiskiskip eru að veiða .að sem "þeir segja" (sérfrfræðingar ICES) að sé til.
Svo fer báturinn á sjó - og veið hvað - miklu meira af einhverri fisktegund - sem ekki á að vera til - en er til.
Samsetningin á aflanum sem kemur í veiðarfærið - er auðvitað bara þverskurður af því sem er til í hafinu. En metnaður ICES vitleysinganna er svo mikill - og heimskan svo tröllríðandi - að þeir skilja ekki svona einfalda nálgun.
Það sem kemur í veiðarfærið - er að sem er til í hafinu. Samsetningin af því hvað kemur - er hlutfallið sem er í hafinu.
einfalt - öruggt - hárrétt "live" nálgun á málinu.
En ef eintegundin " er ekki til" í bókhaldi vitleysinganna - þá á nú að senda lögregluna á fiskimenn sem eru að "henda fiski" - sem er til - en má ekki viðurkenna að sé til.
Er þetta ekki hugsanlegt heimsmet í heimsku?
Kristinn Pétursson, 14.6.2012 kl. 00:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.