Höfum við gengið til góðs? - 20 ára afmæli greinar um vanþekkingu

Alltaf gott að halda upp á afmæli, jafnvel þó ekkert hafi breyst.

Hér er grein sem ég skrifaði í Sjómannablaðið Víking fyrir 20 árum (Víkingur, Júní 1992, 6. tbl. bls. 27):

"Þótt alkunna sé að sveiflur eru meira einkennandi fyrir dýrastofna en stöðugleiki, virðast breytingar á fiskgengd alltaf koma mönnum jafn mikið á óvart. Og enn heldur maðurinn, æðsta dýr jarðarinnar, að það hafi verið honum að kenna og að hann geti breytt þar um. Nægir þar tal um meinta ofveiði á þorski og að kenna veiðum á hrygningarstöðvum þorsks um nýliðunarbrest, svo sem friðunaraðgerðir á þessum vetri hafa staðfest. Þetta er ekki nýtt af nálinni eins og sést á eftirfarandi úrklippu úr formála að "Fiskunum" eftir Bjarna Sæmundsson frá árinu 1926. Eftir lesturinn hvarflar hugurinn að því hvort þekkingunni hafi virkilega ekkert miðað og hversu lengi við eigum eftir að ræða á sömu nótum".

Gefum Bjarna Sæmundssyni orðið, í formála að Fiskunum 1926:

FiskarnirAnnars hygg ég, að einmitt þetta atriði: að fá því svarað, hvernig fiskigöngur haga sér, verði i framtíðinni eitt af aðal verkefnum fiskirannsóknanna og er líka það, sem fiskimenn fýsir einna mest að vita, enda er það skiljanlegt, því að á því veltur að jafnaði fyrst og fremst öll útkoma fiskveiðanna í það og það skiftið, hvort fiskurinn kemur á hinar vanalegu stöðvar, þar sem menn eiga von á honum. Það er þvi næsta skiljanlegt, að fiskimenn hafi frá alda öðli reynt að reikna út fiskigöngurnar eða spá um þær. En um þessa útreikninga manna á fiskigöngunum er það því miður að segja, að þeir hafa ekki ætíð reynst réttir, sem ekki er að furða, þegar reiknað hefir verið með óþektunm stærðum, eða menn ímynda sér það sem nauðsynlegt var að vita. Þess vegna var mönnum (og er jafnvel enn) oft hætt við því að grípa það sem hendinni var næst sem orsakir til þess, að útreikningarnir reyndust skakkir, þ. e. að fiskurinn kom ekki á sínar vanalegu stöðvar. Og orsakirnar voru (og eru oft enn) að þeirra dómi tíðast mennirnir og þeirra athafnir. Oftast voru það ill áhrif frá aðkomuskipum, útlendum eða innlendum; þau drógu fiskinn á djúpið og héldu honum þar við niðurburðinn eða veiddu fiskinn upp, svo að ekkert varð eftir handa heimamönnum; eða það var tálbeita, sem allir gátu ekki aflað sér, moldrök í sjóinn, sem fældi fiskinn o. s. frv.

Á síðustu öld bættist askan frá gufuskipunum og vélaskröltið (og á þessari öld jafnvel mótorskellirnir) við. En ekkert hefir þó líklega gefið mönnum jafn illan grun á sér í þessu sambandi og hvalveiðarnar og botnvörpuveiðarnar. Hvalveiðarnar áttu að hafa sérstaklega óheppileg áhrif á göngur síldarinnar að landi og inn á firði, en botnvörpuveiðarnar á aðrar fiskigöngur og fiskveiðar. Varpan átti að umróta botninum og eyða um leið öllum gróðri hans og hrognum fiska, jafnvel þeim sem aldrei eru í botni (eins og þorsksins), drepa alt ungviði unnvörpum og flæma allan fisk af miðunum. Hér skal ekki farið að ræða um það, við hve mikil rök ýmis af þessum atriðum höfðu að styðjast, því að sum þeirra koma til tals í bókinni. Þó skal það tekið fram hér, að nægar upplýsingar eru til um það, að fiskur hefir oft brugðist áður eins og líka ber við enn án þess að auðið væri um að kenna neinu af því, sem hér hefir verið minst á, og að mönnum hættir oft mjög við því, að vitna aðeins i síðustu ára reynslu, en gleyma öllu því sem áður hefir komið fyrir.

En tímarnir breytast, og það hygg ég óhætt að segja, að mjög eru nú skoðanir fiskimanna farnar að breytast í þessu tilliti, stafar það sumpart af fenginni reynslu, sumpart af ýmsu þvi, sem sjó- og fiskirannsóknirnar hafa leitt í ljós. Þó að þær séu aðeins skamt á veg komnar enn, þá hafa þær þó ótvírætt sýnt fram á, að fiskarnir eru í göngum sínum eins og í öðrum lífsháttum, fyrst og fremst háðir ástandi sjávarins og þeim skilyrðum, sem það skapar, hvað fæðu og hrygningu snertir, og munu þess verða nefnd ýmis dæmi i bókinni.

Hefur umræðan eitthvað breyst? - Ó nei.

Fleiri afmælisgreinar verða dregnar fram á næstunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Sæll Jón.

Eitt sinn tók ég þátt í söfnun hjá Rauða Krossinum til að safna fyrir sundruðum fjölskyldum í Kongó.

Stuttu áður háði ég baráttu við íslenska félagsmálakerfið, til að fá son móður aftur á sitt rétta óska-heimili drengsins. Það læddist óneitanlega að mér sá grunur í göngunni, að hér væri um gríðarlega sýndarmennsku-baráttu að ræða, frá Íslands-Rauða-Krossinum. Hvenær fara íbúar Íslands, og Rauði Krossinn að berjast fyrir raunveruleikanum, og ganga til góðs fyrir sína nágranna og sitt samfélag, og ekki síst fyrir réttlæti barnanna á Íslandi framtíðarinnar?

Það er margt ósagt af minni hálfu um svikin í stjórnmála-mannréttindabrota-kerfinu á Íslandi og víðar í vestræna heiminum, enda er ég ekki nálægt því að hætta baráttunni gegn óréttlætinu í heims-stjórnsýslukerfinu.

Það er til einskis gengið, ef maður hættir að ganga til góðs fyrir mannréttindin í veröldinni, sama hver á í hlut. Mannréttindi er það sem allir þurfa að berjast fyrir á þessari jörð.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 12.5.2012 kl. 20:06

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ótrúlegt síðan 1926,,,,,,en Það ótrúlega gerðist á okkar tímum, að gullkarfi veiddist í miklu magni,en var sagður horfinn,hjá hafrannsóknarstofnun. Mb.Kv.til famelie.

Helga Kristjánsdóttir, 12.5.2012 kl. 23:34

3 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Þetta er frábær grein hjá Bjarna og sýnir að hann var langt á undan sinni samtíð. Verst að menn virðast ekki skilja sannleikann sem hann fjallar um. Þessi grein gæti í raun verið skrifuð í dag.

Lestur greinarinnar minnir mig á að í 20 ár reyndi ég að "kortleggja" hegðun fisks hringinn í kringum landið og á minni heimaslóð. Ég skrifaði niður hvar og hvenær fiskur gaf sig til. Hvernig veður og hvernig stóð á straum. Hélt jafnvel að þetta væri nokkuð vísindalegt hjá mér. 

En aldrei öll þessi 20 ár gat ég gengið að fiski uppá dag eða beðið eftir fiski. Að sjálfsögðu er munstur í veiðinni. Fiskur kemur "sennilega" til hrygningar og leitar að fæðu hér eða þar. Þar enda vísindin og veiði-heppnin tekur við. 

Ólafur Örn Jónsson, 13.5.2012 kl. 00:19

4 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Manni verður illt við að horfa upp á umræðuna um lagafrumvörp um "stjórn fiskveiða" en deilan virðist ekki vera um að festa ónýtt kerfi í sessi heldur hvort að það eigi að gera það með eða án skattlagningar.

Sigurjón Þórðarson, 13.5.2012 kl. 01:52

5 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Já Sigurjón Það er það slæma við alla þessa umræðu. Það er verið að fara frá aðal skaðanum af kvótakerfinu sem virkar ekki til að hámarka afraksturinn. í staðinn er verið að dreifa athyglinni út um víðan völl með skattlagnigu og potta-úthlutunum sem stjórnmálamenn ætla að hafa í hendi sér.

Það er eins og stjórnmálamenn séu haldnir einhverri "detailed" drotnunar áráttu og þurfi að hafa nammi handa "sínu" fólki. Holding the key to Heavens Gate.  

Afnám kvótkerfisins hefur aldrei verið nauðsynlegri en núna þegar ringulreiðin í kringum þessi tvö kvótafrumvörp eru að eyðileggja fyrir þjóðinni að ná rétti sínum. 

Ólafur Örn Jónsson, 13.5.2012 kl. 09:54

6 Smámynd: Jón Kristjánsson

Athyglisvert er að þetta er ennþá í umræðunni: 

"Varpan átti að umróta botninum og eyða um leið öllum gróðri hans og hrognum fiska, jafnvel þeim sem aldrei eru í botni (eins og þorsksins), drepa alt ungviði unnvörpum og flæma allan fisk af miðunum".

Enn hafa menn ekki áttað sig á að þorsk- og flatfiskar hrygna ekki við botn og bölva snurvoð og trolli í sand og ösku!

Jón Kristjánsson, 13.5.2012 kl. 11:37

7 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Þeir sem ekki hafa hugsjóna-barátuvilja til að verja mannréttindi heiðarlegs verkafólks og allra barna í heiminum, þeir eru að sinna auðjöfra-misréttis-framgangi heimsins. Misrétti í heiminum er stærsta vandamál í "velferðar"-pólitíska og falsaka samfélagi heimskeðjunnar.

Góða ferð, er eina ráðið sem ég get gefið sundraðri þjóð og sundruðu heimssamfélagi.

Það er ekki í mannlegu valdi einu saman, að hjálpa fólki sem ekki vill hlusta á óflokkað réttlætið í hjarta sínu og sál.

Peningar/sérhagmuna-hagnaður framkallar ekki réttlæti, jöfnuð og frið í heiminum. Einungis hugarfars-breyting með skilyrðislausan náungakærleika að leiðarljósi, getur skapað frið og velferð í heiminum.

M.v.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 13.5.2012 kl. 14:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband