Þöggun fiskveiðiumræðunnar

Nýlega sendi Hafró frá sér skýrslu þar sem sagði að fæðuskortur hefði staðið þorskinum fyrir þrifum allt frá 1995. Blaðamaður Mbl. kveikti, hringdi í mig og spurði hvort þetta passaði ekki við það sem ég hefði alltaf haldið fram, að ekki væri unnt að friða fiskstofn sem þjáðist af fæðuskorti.
Mér fannst þetta stórfrétt, enda hefur Hafró þrástagast á að ofveiði stæði stofninum fyrir þrifum og að það þyrfti að byggja hann upp með því að veiða sífellt minna úr honum, þá væri hægt að veiða meira seinna.

Það er náttúrulega grafalvarlegt þegar í ljós kemur að kvótakerfið er byggt á röngum forsendum. Ekki til að friða heldur til að geta deilt og drottnað.

Útvarpið birti svo viðtal við mig þar sem ég sagði að auknar veiðar myndu skila stærri þorskstofni.
En merkilegt nokk hefur enginn haft samband við mig síðan. Engin beiðni komið um að ræða málið, hvorki í útvarpi né sjónvarpi. Málið hefur verið þaggað niður.

Þetta er umhugsunarvert vegna þess að á sama tíma hafa menn verið fullyrða að hlýnun sjávar hefði valdið því að sandssílið "vantaði" og þess vegna væru sjófugar í hremmingum. Engum virðist detta í hug að tengja þetta tvennt; hungursneyð hjá fiskum og vöntun á sandsíli. Er ekki þorskurinn og ýsan búin að éta sig út á gaddinn og þar með aféta sjófuglana?

Þetta má ekki ræða vegna þess að það vegur að fiskveiðistefnunni, sem er að byggja upp fiskstofna með friðun, og þar með að kvótakerfinu, sem á höfuð sitt undir því að takmarka þurfi veiðar.

Þess vegna má ekki ræða þessi mál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Þetta er málið Jón. Það er ÞÖGGUN sem runnin er undan rótum KVÓTAPÚKANS. Þeir félagar í innstu klíku LÍÚ eru búnir að sá sprotum sínum um allan sjávarútvegs geirann og stofnanir sem tengjast honum.

Með tilurð KVÓTAKERFISINS hætti fiskveiðistjórnunin að snúast um uppbyggingu og hámörkun afraksturs af fiskistofnunum. Spillingin og hagsmunapot tók við. Þessi ÞÖGGUN hófst síðan 1993 þegar þetta varð að skipulögðum glæp sem má segja að hafist hafi með "Tvíhöfðanefndinni".

Þarna upphófst með skipulögðum hætti aðför nokkura útgerðaraðila og stjórnmála manna að eignarhaldi á sjávarauðlindinni. Kvóta-veð-RÚLLETTAN fór af stað og var þar með búið að binda "eignina" í veðbönd.

HAG-Álfar H.Í. bjuggu til sýndarveruleika og spunnu lygavef í kringum KVÓTAKERFIÐ þar sem einokun og kvótastýring var nú allt í einu orðin hagfræði framtíðarinnar. HAG-Álfarnir voru eins og skreðararnir í Nýjufötum keisarans og Dabbi gekk um götur á sprellanum og hirðfíflin á eftir slefandi. 

Til að tryggja ÞÖGGUN um GLÆPINN sem átti sér stað og varð strax ljós okkur sem unnum í greininni var farið á eftir öllum sem voguðu sér að fjalla um GLÆPINN. Einn maður úr röðum útgerðarmanna fór offörum á eftir mönnum og stóð fyrir hótunum og lét reka menn úr vinnum sínum ef þeir voðuðu sér að láta í ljós skoðanir sínar.

( Mubarak notaði þessa aðferð gegn andmælendum sínum ) .

Þessi aðili sem ég nefni KVÓTAPÚKANN er enn að og heldur í spottana sem ná alla leið inná Alþingi. Ef einhver opnar kjaftinn er farsími PÚKANS kominn á loft. Dæmi Friðrik upplýsti hvernig verð á Kvóta væri haldið uppi og sást ekki meir. Skyldi hann ekki hafa fengið gusuna? 

FÓLKIÐ í landinu verður að fara að skilja hvað er í gangi í þjóðfélaginu. Það eru vissulega öfl sem eru að taka hér völd og auðævi sem eru í eign þjóðarinnar og ætla sér að halda fyrir sig og sína. Eins og Lilja Mósedóttir sagði réttilega Útgerðin er í startholunum að lögsækja ríkið ef kvóta hlutfall þeirra verður skert á grundvelli eignarhalds.

Eins og þessi ÞÖGGUN sýnir þá svífst Þetta HYSKI einskis og fylgir KVÓTAPÚKANUM í blindni. Allir sem fylgja KVÓTAPÚKANUM að málum eru samsekir honum í þeim glæpum sem hann hefur framið á fólki. 

Ólafur Örn Jónsson, 1.7.2011 kl. 08:20

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jón.

Þöggunin á sér einfalda skýringu, og það er ægivald "sérfræðinga".  Fréttamenn þora ekki í umræðu gegn þeim.  Þó þeir sannarlega hafi haft rangt fyrir sér  í lykilmálum, og það aftur og aftur, þá eru þeir samt "sérfræðingarnir".

Við sjáum þetta til dæmis þegar sérfræðingar OECD voru fengnir til að dásama kvótakerfið.  En sömu menn voru fengnir til að dásama bankana og útrásina, þegar efasemdir komu upp um undirstöðurnar, og þá notuðu þeir alveg sömu röksemdirnar. 

Hagkvæmt, traust, ekki annað betra og svo framvegis.

Og orð þeirra tekin góð og gild. 

Engar efasemdir um forsendurnar sem þeir gáfu sér eða efasemdir um hæfni þeirra við að meta aðstæður.

Og þannig verður þetta á meðan sérfræðingarnir styðja hagsmuni þeirra sem eiga og ráða.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.7.2011 kl. 09:39

3 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Eyjólfur Friðgeirsson líffræðingur skrifar grein í Fréttablaðinu í dag, 1.7.2011, s. 22, "Um sandsíli". Hann reifar þar það álit sitt og tilgátu að orsaka að "hvarfi" sandsíla við strendur Íslands sé að leita í hlýnun sjávar hér við land sem aftur á móti hafi raskað venjubundnum tímasetningum klaks á hrognum sandsíla. Það eigi sér nú stað fyrr en áður og "áður en blómgun og klak átu hefst í sjónum. Lirfurnar finna þá ekki æti og deyja".

Þar með heldur Eyjólfur því óbeint fram að önnur hugsanleg áhrif eins og friðun þorsks og annarra sandsílaæta séu ekki afgerandi fyrir magn sandsíla; Þau séu hreinlega ekki til staðar eins og áður var. Frumorsökin sé hlýnun og ef til vill einnig notkun veiðarfæra manna sem róta í sjávarbotninum þar sem hrogn sandsíla liggja grafin og verða þannig fyrir óæskilegu raski. Gosaska er fellur til botns geti einnig haft slæm áhrif á lífríkið þar.

Hvernig ríma þessar vangaveltur við hugmyndir þínar, Jón, um að friðun sé a.m.k. ein af meginorsökum í hruni ætisstofna þeirra fisktegunda sem friðaðar eru?

Kristinn Snævar Jónsson, 1.7.2011 kl. 22:41

4 Smámynd: Jón Kristjánsson

Sæll Kristinn

Eyjólfur og fleiri mega hafa sínar skýringar en þeir þurfa að hafa rök máli sínu til stuðnings. Það er mjög þægilegt að vera meðvirkur og skýra hlutina með hlýnum, - án gagna, röksemda eða mælinga.

Ég hef ekki lesið grein Eyjólfs, er utan þjónustusvæðis. Bendi þér á komment sem ég sendi á esv.blog.is: 

Sæll Einar
Góðar pælingar en umræðan minnir mig á þegar verið var að skýra sveiflur í laxastofnum með breytingum á sólblettum. Það næsta sem menn komast undir yfirborð sjávar er að kenna makrílnum um en það er leyfilegt vegna þess að hann er útrásarvíkingur, flýjandi fæðuskort heima fyrir.
Þá er það snurvoðin. Sílislaust er í Færeyjum en þar er aldrei notuð snurvoð og lítið um dregin veiðarfæri á grunnsævi. Óhemju veiði var af sandsíli í Norðursjó meðan skítfiskveiðin var stunduð á fullu. Það hvarf svo upp úr 2000 og var ofveiði kennt um, gamalli ofveiði n.b. Allt fylltist svo af síli í Norðursjó fyrir 3 árum, öllum að óvörum, þannig að 400 þúsund tonna kvóti náðist ekki vegna skipaskorts.
Það vantar alveg í umræðuna að svo mikið sem minnast á öflugustu afræningjana, ýsuna og þorskinn. Það er mótfasi á ýsugegnd og sandsíli bæði í Norðursjó og Færeyjum. Hér heima kviknaði óhemja af ýsu um og eftir 2000 og, - sílið hvarf í kjölfarið. Tilviljun?
Ýsan étur sílið upp úr botninum á eggjastigi og fyrsta ári, hún þefar það uppi niðri í sandinum, þegar það svo fer upp í sjó taka þorskurinn, ufsinn og allir hinir óvinirnir við. Við höfum verið að vernda smáfisk í áratugi, byggja upp stofnana með því að veiða bæði þorsk og ýsu mjög "létt". Nýlega kom svo út skýrla eftir ÓKP hjá Hafró þar sem sagt er að fæðuskortur hafi staðið þorskinum fyrir þrifum frá 1995 a.m.k. Hljótt hefur verið um skýrsluna því niðurstöðurnar eru í andstöðu við uppbyggingarstefnuna.
Ef þú lest um sílið í Fiskunum (bls. 292) eftir Bjarna Sæm, muntu sjá að skýringar Kristjáns Lilliendahl o. fl. eru tóm steypa, þó ekki nema vegna þess að sandsílið hrygnir í kring um allt land "frá sumarmálum til jóla .. gæti stafað af því að sílin hrygni tvisvar á ári sbr. síldina" segir sá ágæti Bjarni, sem þeir á Skúlagötunni skírðu skipið eftir. Þá hlýtur þroski ætisins einnig að fara eftir hitastiginu.
Nei það má ekki ýja að því að fiskstofnar okkar séu vanveiddir og éti upp allt sem að kjafti kemur. Auðveldara er að segja að það "vanti" síli. Dýfa svo hendinni í sjóinn og segja með tilþrifum: "Mikið assgoti er hann heitur"!
Bendi þér einnig á; http://www.mmedia.is/~jonkr/lodna/lodna.html - umfjöllun um sílisskort og fugladauða í rauntíma.
Með góðri kveðju.

Jón Kristjánsson, 2.7.2011 kl. 19:20

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jón.

Smá forvitni sem mig hefur lengi langað fá svar við.  

Fyrir margt löngu þá ræddi ég þessi sjónarmið þín við gamlan bekkjarbróður sem hafði kynnst kenningum þínum þegar hann lærði fiskeldi á Hólum.   Við vorum ekki sammála þá enda ég það ungur að mér hætti til að trúa sérfræðingum án þess að spyrja mig hvort rök byggju að baki eða hvort þeir væru að éta upp kenningar eftir hvorum öðrum, án hugsunar, án gagnrýni.

Best að ég taki það fram að mér finnst tíminn hafa unnið með þér en ekki Hafró, sbr. að þínar spár ná raunveruleikanum miklu betur en Hafró.

En spurningin er mjög einföld; "Af hverju voru allir firðir fullir af fiski, og sjófuglar labbandi út um allt, þegar fyrstu landnámsmennirnir komu til Íslands???"

Þá var engin veiði og samkvæmt kenningu  þinni um sílastofninn þá ætti ýsan að hafa haldið honum niðri.  Og allar sveiflur mjög magnaðar því fyrst étur ýsan sílið, svo drepst ýsan úr hungri, þá fer sílið upp, og ýsan í kjölfarið, og svo framvegis.

Reyndar afsannar þetta dæmi hitaskýringuna því hitastigið um 900 var hærra en það er í dag.  Samt allt krökt af lífi.

Ef þú hefðir tíma til að svara þannig að fáfróður lesi sér til ánægju, þá væri það vel þegið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.7.2011 kl. 08:37

6 Smámynd: Jón Kristjánsson

Sæll Ómar

Þú spurðir: "Af hverju voru allir firðir fullir af fiski, og sjófuglar labbandi út um allt, þegar fyrstu landnámsmennirnir komu til Íslands???"

Það er nú þannig að menn tala gjarnan um það sem þeir vilja muna, menn muna góðu árin og gleyma hallærinu á milli. Dýrastofnar eru í stöðugum sveiflum að leita jafnvægis (sem aldrei finnst) við fæðu og afræningja. Reglan er ójafnvægi.

Við getum samt haft áhrif með okkar nýtingu, bændur setja niður kartöflur, reyta arfa og taka allt upp. Plægja síðan að vori og setja niður aftur. Þeir stjórna fjölda búfjártil samræmis við beitarhagana, gerðu þeir það ekki yrðu þeir að upplifa sveiflur og fjöldadauða. Sama er með fiskveiðar, við getum haft áhrif til sveiflujöfnunar með því að stjórna veiðunum rétt. Það sem ég gagnrýni er að það sé ekki notuð nema ein leið: Friða fisk, sama hver tegundin er.

Það voru ekki alltaf jólin þó ekki væri veitt í gamla daga. Bendi þér á færslu mína um þetta efni: http://fiski.blog.is/blog/fiski/entry/1099082/

Jón Kristjánsson, 4.7.2011 kl. 18:08

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir góð svör Jón.

Getur líka hugsast að við mennirnir höfum tekið úr jafnvægi hina "náttúrulegu sveiflujöfnun"??  Til dæmis þegar meira var um stærri fisk þá hann sjálfur um að tempra risaárganga???

Og svo vantar alltaf inní dæmið að fiskur syndir, hann situr ekki og býður eftir fæðunni, hann leitar hana uppi.  Tölfræðin kallar það víst aflabrest vegna ofveiði þó þorskurinn myndi spyrja í forundran hvort við flyttum okkur ekki líka til eftir því hvar vinnu og fæðu væri að fá.

Eins má sjá vitleysuna í hnotskurn hér fyrir austan með innfjarðarþorskinn.  Hann er staðbundinn að mestu, hrygnir hér og allt, og stækkar ekki því hann fær ekkert að éta.  Nema þegar síldin sest hér að, þá breytast tittirnir í risabeljur (á okkar mælikvarða) á stuttum tíma.  Menn sögðu að það væri alltaf fiskur að elta síldina, þetta væru ekki heimatittirnir.  Sjálfsagt eitthvað til í því en þegar menn veiddu smáþorskinn (sem gat verið hundgamall) og settu hann í kvíar, þá óx hann hratt á stuttum tíma og þetta var hinn flottasti fiskur þegar honum var slátrað.

Ergo, breytilegi þátturinn var aðgengi að fæðu.

Síðan þegar fræðingarnir hundsuðu staðreyndir, til dæmis með því að láta loka á smáfisk þegar ljóst er að uppistaðan í honum er hundgamall hrygningarfiskur, þá sá maður að þeir voru bókin en ekki þekkingarleitin.

Og bókin er sú opinbera, sú sem hentar hagsmunaaðilum.

Og það eru ekki vísindi.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 5.7.2011 kl. 07:25

9 Smámynd: Haraldur Baldursson

Þöggun er vopn sem erfitt er að beita nema í samráði. Samráðið felst í gríaðrlegum ítökum LÍÚ í landinu. Það getur haft áhrif á fjölmiðil að fá þetta apparat á móti sér.

Haraldur Baldursson, 12.7.2011 kl. 17:29

10 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Þorsteinn Már Baldvinsson gengur fremstur í flokki þeirra manna sem farið hafa á eftir einstaklingum og með ofbeldi og kúgun hefur hann flæmt menn úr atvinnu sinni og eytt þeim út úr fyrirtækjum.

Af hverju ríkið sem er skuldbundið til að vernda þegnanna gegn mannréttida brotum af hendi þriðja aðila lætur ekki rannsaka athfnir þessa glæpamanns er með öllu óskiljanlegt.  

Ólafur Örn Jónsson, 12.7.2011 kl. 19:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband