Líffræðileg della

Í Morgunblaðinu í dag, 26. febrúar, er fjallað um ráðstefnu Hafró um aflareglu, en þar er átt við hversu mörg prósent skuli veiða úr þorskstofninum, en stærð hans er að mestu leyti ágiskun. Og hvort skuli innleiða aflareglu hjá fleiri stofnum svo sem ýsu, ufsa og fleiri stofnum eins og segir í fréttinni. 

Þó ágiskun stofnstærðar þorsks sé mikilli óvissu háð er stærð ufsastofnsins enn óvissari. Menn vita hreinlega ekkert um ufsa, hvaðan hann kemur, hvenær, eða hvert hann fer. Mætti þess vegna kasta pílu í töflu, það gæti ekki verið verri ágiskun.


Skúli Skúlason rektor við Hólaskóla var af Jóni Bjarnasyni skipaður til að endurskoða aflaregluna.
Ég hafði samband við Skúla og spurði hann hvort hann ætlaði ekki að kalla gagnrýnendur hinnar tölfræðilegu fiskveiðistefnu á sinn fund. Sendi ég honum gögn, sem sýna að ekki er hægt að setja það fast að ákveðna prósentu skuli veiða úr fiskstofni, ekki væri hægt að geyma fisk í sjónum, veiða minna núna til að veiða meira seinna því allt aðrir og stærri kraftar réðu stærð fiskstofna en veiðar mannsins. Nýtingarhlutfallið verði að fara eftir umhverfisaðstæðum og viðgangi stofnanna hverju sinni. Þar væri vöxtur og viðgangur fiskanna mikilvægasti mælikvarðinn, ekki væri ráðlegt að friða fisk, sem yxi illa og hefði það skítt.


Hann þakkaði fyrir, sagði þetta áhugavert, en - hann gerði ekki neitt. Ekki var ég eða aðrir gagnrýnendur kallaðir á fund til þess að kynna okkar líffræðilegu sjónarmið, sem byggjast á tilraunum og viðurkenndum vistfræðilögmálum, en ekki á formúlum reiknistokkamannanna, sem eru búnir að prófa sínar kenningar í aldarþriðjung, án árangurs, og vilja nú halda því áfram. Á umræddri ráðstefnu kynnti Skúli stefnu sína:


"Svo virðist sem mikilvægi nýtingarstefnu til lengri tíma sé óumdeilt, en það verður að vanda þá vinnu og viðhafa samráðsstjórnun",sagði Skúli í gær."Sátt verður að ríkja um slíka stefnu með sameiginlega ábyrgð þjóðarinnar á auðlindinni í huga. Vísindamenn, stjórnvöld og fulltrúar hagsmunaaðila þurfa á öllum stigum að koma að ákvörðun nýtingarstefnu.

"Við leggjum mikla áherslu á að þessi vinna leiði til betri skilnings og þekkingar á nýtingarstefnu sjávarauðlindarinnar. Við höfum umboð til að koma með tillögur um hvernig á að standa að þessum málum til lengri tíma litið og teljum afar áríðandi að móta nýtingarstefnu fyrir ýsu, ufsa og fleiri tegundir hið allra fyrsta", segir Skúli.

Aflaregla í sinni einföldustu mynd tengir saman mat á stofnstærð og leyfilegan heildarafla. Nú er leyfilegur þorskafli miðaður við 20% af stærð þorskstofnsins, þ.e. fjögurra ára fiskur og eldri, og helming af aflamarki síðasta fiskveiðiárs á undan til sveiflujöfnunar. Síðan er deilt í þá niðurstöðu með tveimur.

Skúli var spurður hvað hann vildi segja um kröfur um aukinn þorskkvóta: "Hvað varðar slíkar kröfur þá koma þær að hluta til fyrst fram vegna efnahagsástandsins. Mér finnst þær ekki sannfærandi því við megum ekki spilla auðlindum þjóðarinnar til að bjarga efnahagnum til skamms tíma. Ég tek hins vegar af heilum hug undir sjónarmið sjómanna og byggðanna og þekking og reynsla skipstjóra og sjómanna þarf að skila sér betur inn í umræðuna. Það er því ánægjulegt að fulltrúar sjómanna koma að starfi samráðsvettvangsins," sagði Skúli.


Skúli þessi er sem sagt þeirrar skoðunar að hægt sé að setja stýrið fast og sigla beint að markinu, án tillit til sjólags og skerja. Þessi skoðun er brot á allri náttúrufræði og misvirðing við þau vísindi. Algjör steypa, án nokkurra raka, étin upp eftir reiknimeisturum Hafró. -Krydduð með samráði við sjómenn, sem aldrei hefur verið, en þeir hins vegar sífellt sakaðir um ofveiði og rányrkju.


Menn sem eru meðvirkir reiknistefnu Hafró eru svikarar og hafa það á samviskunni að hafa vannýtt fiskstofna á röngum forsendum, komið landsbyggðinni í eyði og gert eignir íbúanna verðlausar. Slæmt er að ekki skuli vera til neinn dómstóll, sem krefur þessa menn um rök og reynslu fyrir stefnu sinni. Reynandi er þó að leita til Líffræðifélagsins og spyrja að því hvort það félag leggi faglega blessun sína yfir gerðir þessara manna.


Að mínu mati eru þessir reiknimeistarar loddarar, líkt og vefararnir í "Nýju fötum keisarans".


Vonir þessara manna um stækkun stofnsins eru falsvonir. Mér segir svo hugur um að þorskurinn sé að fara í niðursveiflu, ég hef sagt þetta áður því margt bendir til þess. - Bíðum og sjáum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Vinstrigrænir fjósamenn á Hólum eru greinilega þóknanlegri en þú Jón minn til að reikna út fiskinn í sjónum.

Halldór Jónsson, 26.2.2011 kl. 23:33

2 Smámynd: Björn Emilsson

Jón, Eg er algerlega sammála þér. Eg trúi því að auka megi aflamarkið margfalt. Líka að fara að hætti grænlendinga að engar takmarkanir eru á veiðum báta 60 lestir og minni innan landhelginnar. Veðrið sér um takmarkarninar. Hvað færeyinga varðar, er það hið besta mál að leyfa þeim að vera með okkur á ballinu. Sem þeir hafa verið lengi, ekki satt?

Björn Emilsson, 27.2.2011 kl. 03:04

3 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Baráttan virðist algjörlega töpuð, þeir koma okkur endanlega til helvítis.

Rótækra aðferða og áður óþekktra er þörf til að stoppa þessa menn af.

Það hefur allt verið sagt í bókinni og öll rök notuð en ekkert þokast í rétta og skynsmlega átt.

Þarna er LÍÚað verki á bak við tjöldin, búa til skort og stunda viðskipti sín á milli með kvótana og viðhalda upplognu eigin fé gjaldþrota fyrirtækja.

Allir vita hvernig þessi aðferð endaði hjá Enon.

Níels A. Ársælsson., 27.2.2011 kl. 12:14

4 identicon

Ég tek undir með Níels, baráttan er að tapast. Það er verið að dæma þessa þjóð til fátæktar á grunni vísinda sem standa á vægast sagt veikum, ef nokkrum, grunni. Þetta er orðið grátlegt.

Þjóðníðingar, það er orðið sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um hafrannsóknarstofnun íslands. Ég hef aldrei tekið mér þetta orð áður í munn og átti satt best að segja ekki von á því að ég myndi nokkurn tímann nota slíkt orð. Maður er orðinn hryggur og sár og úrkula vonar. Hér (í Breiðafirði) er allt stíflað af fiski. Bátarnir eyða orðið meiri olíu í að forðast fisk en að veiða hann. Það er landburður í öll veiðarfæri af feitum og fallegum fisk. Og við horfum á þetta og öfundum mávinn, hnísuna og höfrungana sem liggja hér í veislu fyrir framan nefið á okkur. Á sama tíma er kreppa á íslandi! Það vantar víst gjaldeyri er okkur sagt! Ömurlegt.

Þórður Áskell Magnússon (IP-tala skráð) 27.2.2011 kl. 13:58

5 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Já Jón þetta er bara orðin sýndarmennska til að festa hér í sessi kvótakefið og engu á að breyta varðandi "eigendur" kvótans. Það er greinilega í gangi einhvert makk á þinginu um hvernig eigi að hafa þetta til að blekkja þjóðina.

Það verður að koma þessu í þjóðaratkvæði ef á að vera einhver von til að losna við kvótann öðru vísi verður þetta ekki gert. Alþingismenn eru í einhverjum klava og enginn þorir að fara gegn útgerðamönnum.

Ef menn lýta til dæmis á glærur Þorsteis Má þá sést hvernig hann er búinn að koma sér upp þvílíku valdakerfi og fyrir eru menn út um allt í þjóðfélaginu sem svara til hans. Búið er að hreinsa til á skipunum þar kemst enginn upp með að breyta gegn kvótkerfinu.

Ég veit að þetta hljómar eins og skáldsaga en þegar maður er búinn að hafa þetta markmið í yfir 15 ár og ótakmarkað fjármagn  þá virðist vera hægt að koma sér upp svona neti. Því miður skal enginn efa að hann beytir sér gegn fólki ef hann telur sig þurfa. Ekki veit ég um aðra útgerðamenn hvort þeir taka þátt í þessu plotti af eins mikilli áfergju og Þorsteinn en markmið þeirra margra er það sama "að fá kvótann festan í sessi til eilífðar". 

Ólafur Örn Jónsson, 27.2.2011 kl. 20:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband