27.1.2017 | 13:28
Loðnutalning í hafinu. - Dæmalausir útreikningar Hafró
Sem kunnugt er verður leyfður loðnuafli í ár með minnsta móti , eða 57 þúsund tonn, þar af koma 11 þús. tonn í hlut íslendinga. Hafró mældi loðnustofninn, gaf út kvóta sem ráðherra samþykkti athugasemdalaust sama sólarhringinn.
Mældu loðnustofninn, það er nú það. Lítum á heimasíðu Hafró þar sem segir frá þessu:
"Gerðar voru 2 mælingar á veiðistofninum. Sú fyrri fór fram dagana 12. 15. janúar og fannst loðna frá sunnanverðum Vestfjörðum norður um og austur að Kolbeinseyjarhrygg (mynd 1). Þar fyrir austan varð ekki vart við fullorðna loðnu. Þar sem veður var slæmt þegar mælingunni lauk biðu skipin á Siglufirði þar til veður batnaði. Síðari yfirferðin fór fram dagana 17. 20. janúar á svæðinu frá Kolbeinseyjarhrygg og vestur um (mynd 2). Veður var viðunandi en ís hafði færst yfir hluta mælingasvæðisins í seinni yfirferðinni.
Um 398 þúsund tonn af kynþroska loðnu mældust í fyrri yfirferðinni og mæliskekkja (CV) var metin 0.2. Í síðari yfirferðinni mældust um 493 þúsund tonn og mæliskekkjan metin 0.23. Meðaltal þessara mælinga, 446 þúsund tonn, er mat á stærð veiðistofns."
Þetta er vægast sagt skrítið, ef ekki met í vitleysu. Fyrst eru mæld 398 þús. tonn, í seinni túrnum mælist meira eða 493 þús. tonn. Svo er tekið meðaltal af báðum tölunum!
Hvað ef hefðu mælst 7 þús. tonn í fyrstu mælingu? Hefði niðurstaðan þá orðið meðaltalið 250 þús. tonn? Takið einnig eftir því að þarna er talað um slæmt veður og að ís sé yfir hluta svæðisins.
Þetta er sambærilegt við að ég teldi 10 skarfa á Elliðavatni í þoku, færi svo daginn eftir í sólskini og teldi 30 og gæfi út niðurstöðuna:
Það eru 20 skarfar á Elliðavatni núna.
Var verið að gefa út aflaheimildir á vísindalegum grunni?