28.7.2010 | 19:02
Aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra?
Ég bauð sjávarútvegsráðherra aðstoð í fiskveiðimálum. Hann hefur ekki svarað erindinu enda hefur hann sjálfsagt nógu að sinna eða er ekki mjög klár á tölvupóstinn. Má vera að ég ofmeti sjálfan mig en það myndi ekki skaða að ræða málin. Hann mannaði sig þó í það karlinn að gefa rækjuveiðarnar frjálsar.
Bréfið til Jóns fer hér á eftir, sjálfur er ég að fara í frí í tvær vikur, ætla að spjalla við "sjómenn" á Winnipegvatni.
Bréfið til Jóns fer hér á eftir, sjálfur er ég að fara í frí í tvær vikur, ætla að spjalla við "sjómenn" á Winnipegvatni.
Reykjavík 15. júlí 2010.
Sæll vertu Jón Bjarnason ráðherra sjávarútvegsmála
Þær gleðifréttir bárust í dag að leyfa skyldi strandveiðibátum að veiða makríl á öngla. Þetta er mjög jákvætt, þó ég skilji ekki 3000 tonna aflamarkið. Við getum jú ráðið sjálfir hvað við veiðum.
Nú fer að koma að því að þú ákveðir aflamark ársins, því sendi ég þér þessar línur.
Ég býð þér hér með hér með aðstoð mína til að meta gögn og ákveða aflamark. Ég fer ekki fram á að fá greitt fyrir þá hjálp.
Ég hef gagnrýnt fiskveiðistjórnunina með faglegum rökum í 27 ár. Enginn ráðamanna hefur viljað hlusta, hvað þá að gera eitthvað í málinu. Ég hef boðið sjávarútvegsráðherrum og flestum stjórnmálaflokkum að skýra mína gagnrýni og tillögur að betri veiðistjórnun með fyrirlestrum byggðum á vísindalegum rökum. Einungs Frjálslyndi flokkurinn tók þessu tilboði. Ég hef setið 3 fundi með sjávarútvegsnefnd Alþingis, í öll skiptin voru fulltrúar Hafró boðaðir til fundar næstir á eftir mér. Þeir hafa væntanlega verið spurðir álits á því sem ég var að segja. Viðbrögð í framhaldi fundunum hafa engin verið (www.fiski.com/raduneyti.html).
Sinnuleysi ráðamanna við að skoða til hlítar hvort hvort gagnrýni á fiskveiðistjórnunina hafi við rök að styðjast varðar við lög, sbr. skýrslu Rannsóknarnefndar. Fiskveiðistjórn varðar almannaheill á Íslandi, þorskstofninn hefir verið kallaður "fjöregg" þjóðarinnar og á sínum tíma var honum komið í vörslu þeirrar stofnunar, sem nú kallast Hafró.
Fjöreggið hefur í vörslu Hafró rýrnað um tvo þriðju. Í stað þess að bregðast við, með því að sannreyna hvort eitthvað sé til í gagnrýninni líða ráðherrar og alþingismenn Hafróliðinu að afvegaleiða gagnrýnina og kasta skít í gagnrýnendur á tímum sem þjóðin þarf mest á fiskinum sínum að halda.

Ekki hefur gagnrýni minni verið hnekkt með haldbærum rökum eða hún verið afsönnuð með tilraunum. Ég hef oft stungið upp á við ráðamenn að gera tilraun með að afmarka ákveðið svæði, leyfa þar frjálsar veiðar til að sjá hvað myndi gerast, en megin þunginn í gagnrýni minni hefur verið að það þurfi að veiða meira, sérstaklega af smáfiski, svipað og gert var hér áratugum saman.
Með þessu ætti að vera einfalt að sýna fram á að ég hefði rangt fyrir mér. Engin slík tilraun hefur enn verið gerð.
Sem búfræðingur hlýtur þú að vita að fæða og fóður skipta höfuðmáli fyrir viðgang búpenings hverju nafni sem hann nefnist. Forðagæslumenn í sveitum voru til að sjá til þess. Þegar vöxtur þorsks er í lágmarki eins og nú hlýtur lykillinn að viðgangi og aukinni framleiðni þorskstofnsins að liggja í auknum aðgangi að fóðri. Slíkt fæst eingöngu með grisjun stofnsins og breyttu veiðimynstri.
Þá má nefna að yfirleitt er sýktu búfé slátrað til að koma í veg fyrir frekari sýkingu, en nú fær dauðvona síld að ganga með annarri þannig að stofninn tærist niður engum til gagns.
Að lokum vil ég endurtaka að ér er reiðubúinn að veita ráðuneytinu alla þá faglegu aðstoð sem ég get.
Bestu kveðjur, Jón Kristjánsson
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)