29.7.2008 | 20:03
Færeysk stjórnvöld vilja fækka fiskidögum um helming
Í dag, Ólavsvökudag kunngerði Sjávarútvegsráðherra Færeyja að veiðidögum hjá krókabátum og trollbátum skuli skert um 50% og um 20% hjá ufsatogurum, en met ufsaveiði hefur verið undanfarin ár, 60-70 þús tonn.
Þetta er sama og segja við þjóðina að nú skulu allir fara að vinna hálfan daginn. Ráðherrann gerir þetta að kröfu ríkisrekinna fiskifræðinga sinna sem aldrei hafa haft rétt fyrir sér varðandi þróun fiskistofna.
Ljóst var árið 2002 að þorskstofninn væri að fara í niðursveiflu því fiskurinn var farinn að horast og lítið var í maga fiskanna. Að mínu mati var það vegna fæðuskorts og versta, sem menn gætu gert í slíku ástandi væri að draga úr veiði. Ég taldi að hann myndi fara minnkandi í nokkur ár og ekki fara að rétta við fyrr en 2006-2007. Það reyndist ekki alveg rétt, nú er 2008, en mér er sagt að afli sé að aukast og ástand fisksins að lagast.
Færeyska Hafró er nýkomin úr túr, - og niðurstaðan er að nú sé allt á blússandi uppleið, mikið af átu og seiðum allra tegunda, m.a. sandsílis þorsks. http://www.frs.fo
Hér er fiskveiðráðgjöf mín í Færeyjum frá 2004, ráðgjöf sem ekki var farið eftir:
Ég var í Færeyjum 13.-20. júní 2004 á vegum sjómanna og útgerðarmanna að vinna að því að meta fiskveiðiráðgjöf ársins eins og hún birtist frá færeyskum fiskifræðingum og ICES, Alþjóða hafrannsóknaráðinu. Ég setti fram eigin tillögur en samtök sjómanna og útgerðarmanna sendu sjávarútvegsráðherra bréf með tillögum sem byggðust á mínu áliti.
Þorskur
Samkvæmt tölum ICES, sem er það eina sem til er til að styðjast við, fer þorskstofninn minnkandi og því er lagt til að draga úr veiðum til að "spara" þorskinn. Tillögur ICES fólust í að byggja þorskstofninn upp eins hratt og unnt væri og stöðva þorskveiðar. Til vara, byggja upp aðeins hægar og skera aflann um 2/3. Kannast einhver við þetta?
Ég lagðist eindregið gegn niðurskurði, vegna þess að þorskstofninn er að minnka vegna fæðuskorts. Þorskur var horaður í fyrra og hann er ekki búinn að ná sér enn og því var að mínu mati rangt að draga úr veiðum. Ég gerði ráð fyrir því að þorskafli myndi minnka áfram í 2-3 ár og við því væri ekkert að gera.
Stofnar þorsks, ufsa, og ýsu hefðu verið í miklum vexti undanfarin ár, veiðarnar ekki megnað að halda aftur af stækkun stofnanna og draga mætti þá ályktun að sóknin hefði verið og lítil. Þorskstofninn hefði vaxið sér yfir höfuð og væri nú að minnka og aðlaga sig að minna fæðuframboði.
Ýsa
Jafnframt álitu þeir að ýsustofninn væri stór og í góðu standi, en samt skyldi draga úr veiðum um 17% vegna þess að veiðiálag til langs tíma væri of mikið skv. varúðarreglunni. Þetta væri athyglisvert vegna þess að ýsustofninn hefði verið í stöðugum vexti frá 2001.
Ufsi
ICES taldi að ufsastofninn væri í góðu lagi, en samt lögðu þeir til 30% samdrátt í ufsaveiðum, vegna þessarar varúðarreglu.
Færeyingar áttu ákaflega erfitt með að skilja þessa ráðgjöf, sérstaklega vegna þess að veiðarnar væru blandaðar og ekki hægt að stjórna afla einnar tegundar án þess að henda öðrum. Það væri eins og fiskifræðingar héldu að verið væri að veiða í kvótakerfi en ekki sóknarkerfi, sögðu þeir.
Í ljósi þessa lagði ég til að fiskidögum yrði fjölgað um 10-15%: http://www.fiski.com/faero/rapp04.pdf
Sama hafði ég gert árið áður, lagði til 10-15 fjölgun daga og minnkun möskva í ufsatrolli til að mæta mikilli fjölgun smáufsa: http://www.fiski.com/skrar/rapp03.pdf Í hvorugt skiptið var farið eftir minni ráðgjöf.
Nú er að sjá hvað gerist þegar þetta fer fyrir þingið. Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, Jörgen Niclasen formaður Fólkaflokksins, segir þetta "óðamannaverk".
Vísindi og fræði | Breytt 30.7.2008 kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)