11.9.2009 | 20:22
Fréttablaðið: Þorskurinn í góðri uppsveiflu
Ummæli mín í Fréttablaðinu 11. september:
Jón Kristjánsson fiskifræðingur furðar sig á málflutningi Hjalta í Jakobsstovu, forstjóra færeysku hafrannsóknastofnunarinnar, á ráðstefnu um fiskveiðistjórnun sem Hagfræðistofnun Háskóla Ísland gekkst fyrir í liðinni viku. Á ráðstefnunni, sem Jón kallar sjálfstyrkingarráðstefnu kvótasinna, hélt Hjalti því fram að sóknarmarkskerfi þeirra Færeyinga hafi reynst illa og sérstaklega sæist það á bágu ástandi mikilvægra nytjastofna, ekki síst þorsks.
Jón hefur aflað gagna úr togararalli þeirra Færeyinga þar sem skýrt kemur fram í bráðabirgðaskýrslu að þorskstofninn sé þvert á móti í uppsveiflu og ungfiskur sé að ryðjast inn í stofninn. Nýliðun sé því afar góð, þvert á það sem Hjalti heldur fram.
"Hjalti hefur verið í andstöðu við sóknarmarkskerfið og kannski vegna þess að ekki hefur verið farið að ráðgjöf hans um mikinn niðurskurð", segir Jón. "Hafró í Fæeyjum gefur alltaf ráðgjöf eins og þeir væru í kvótakerfi en ekki í blönduðum botnfiskveiðum, eða veiðiráðgjöf fyrir hverja tegund fyrir sig. Þeir eru pirraðir vegna þess að þeim hefur ekki verið hlýtt og hrakfallaspár þeirra þar með afsannaðar. Lægðin í þorskinum var fyrirséð 2003 og var vegna hungurs en ekki ofveiði því það getur ekki farið saman. Einungis var tímaspursmál hvenær þorskurinn braggaðist og nú er hann á uppleið úr litlum hrygningarstofni, eins og áratuga reynsla er fyrir."
Vísindi og fræði | Breytt 6.10.2009 kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.9.2009 | 20:05
Gleðitíðindi frá Færeyjum, þorskurinn á uppleið!
Færeyingar voru að koma úr ralli. Ekki er sama leyndin yfir færeyska rallinu og því íslenska því haustrallinu lauk 23. ágúst og bráðabirgðaskýrslan kom samstundis.
Niðurstaðan fyrir þorsk er sú að stofninn er á uppleið og ungfiskur er að ryðjast inn í stofninn (blússandi nýliðun).
"Fyri tosk hevur lítið verið at fingið síðani 2003, og serliga árini 2006-2008 var lítið at fáa.
Men í ár bragdaði aftur, og kom veiðan upp aftur á støðið í 2005. Enn er stovnurin tó ikki væl fyri, men tað gleðiliga er, at tilgongdin sær út til at vera munandi batnað". Þessi færeyska ætti að skiljast hverjum sem er. Vísitalan er byggð á afla í kílóum og aukningin hlýtur að vera í ungfiski, þannig að niðurstaðan er miklu betri en hún var 2005. Ég hafði samband við Hafró í Færeyjum og bað um stærðardreifingu en fékk þau svör að hún væri enn ekki tilbúin en ég fengi hana snimmendis þegar það yrði. Aldrei vandi að fá upplýsingar frá þeim. Þessar niðurstöður eru gleðilegar því undanfarið hefur ofveiði verið kennt um slakt ástand þorsksins. Hrygningarstofninn hefur verið í lágmarki en nú gefur hann vel af sér, eins og alltaf þegar hann er lítill. Þá er orðið "mál" fyrir fjölgun.
Ég var á ráðstefnu fyrir helgina, sjálfstyrkingarráðstefnu kvótasinna, sem haldin var af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Ég fór til að hlusta á Hjalta í Jakobsstovu, sem er forstjóri Hafró í Færeyjum en hann er með ofveiði á heilanum. Hann var neikvæður í sínum fyrirlestri, of mikil sókn of góð skip of duglegir sjómenn hafa að hans sögn ofveitt miðin.
Í kaffihléinu viku sér að mér menn, blimskökkuðu á mig augunum og spurðu hvort ég hefði ekki verið að ráðleggja Færeyingum (um að veiða of mikið). Annar var Ragnar Árnason kvótaboði, hinn var frá LÍÚ. Ekki fór milli mála að hverju þeir voru að hæðast. Þá sagði mér kunningi að Hjalti hefði sagt við sig prívat að þorskurinn væri á uppleið, lagt fingurinn á munninn og sagt að ekki mætti tala um það.
Rúsínan í pylsuendanum:
Hún er sú að Færeyingar hafa ekki notað 25% af úthlutuðum veiðidögum þetta fiskveiðiár! Veiði hefur verð slök, fiskverð í lágmarki og olíuverð hefur verið hátt. Ekki hefur borgað sig að gera út svo segja má að fiskurinn hafi verndað sig sjálfur; þegar ekki borgar sig að róa, draga menn saman. Því má segja að ekki sé nauðsynlegt að stjórna sókninni (veiðunum), er sjálfgert.
Gallinn við dagakerfið, þar sem dagar á sjó eru takmarkaðir er að þeir eru of fáir þegar stofnar eru í uppsveiflu og virkilega þarf að veiða, þannig tapast verðmæti. Ofveiði er ekki til, fiskurinn verndar sig sjálfur: Ef lítið fæst borgar sig ekki að róa og litlir hrygningarstofnar gefa mest af sér því að þá er "mál", það er pláss fyrir ungviði.
Er ekki kominn tími til að tengja?
Vísindi og fræði | Breytt 7.9.2009 kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)