Stofnanamafían, blindingsleikurinn og þöggunin

Skýrslan góða er mikið verk og afskaplega vel og fagmannlega unnin. Stjórnvöld, ráðherrar og embættismenn, fá mikla ofanígjöf, falleinkunn, fyrir trassaskap og meðvirkni. Í Skýrslunni er sagt að kæruleysi ráðherra við að taka á málum, sem varða almannaheill varði við lög.


Allar viðvaranir voru hundsaðar, þeir sem vöruðu við verðandi hruni voru sakaðir um vanþekkingu, öfund og gerðir tortryggilegir á allan þátt. Frægt er þegar menntamálaráðherrann, sjálfur á kafi í bankasukki og kúlulánum, viðhafði þau ummæli um sérfræðing sem varaði við hættunni að hann ætti að fara í endurmenntun! Fjölmiðlar og háskólamenn, með örfáum undantekningum sungu kórinn með sigurliðinu. Forsetinn var besti vinur aðal og klappaði með. En nú hefur verið flett ofan af sinnuleysi stjórnmálamanna, hvernig þeir létu hafa sig að fíflum og þjónkuðu við bankaræningja og sægreifa.


Já sægreifa, þeir keyptu sér aðgang að HÍ til að reka sinn áróður, kennarar í hagfræðideild voru á þönum út um heim að breiða út ágæti kvótakerfisins sem reyndar var upphafið á endinum.

Ég hef gagnrýnt fiskveiðistjórnunina með faglegum rökum í 27 ár. Enginn ráðamanna hefur viljað hlusta, hvað þá að gera eitthvað í málinu. Ég hef boðið sjávarútvegsráðherrum, og flestum stjórnmálaflokkum að skýra mína gagnrýni og tillögur að betri veiðistjórnun með fyrirlestrum byggðum á vísindalegum rökum. Einungs Frjálslyndi flokkurinn tók þessu tilboði. Ég hef setið 3 fundi með sjávarútvegsnefnd Alþingis, í öll skiptin voru fulltrúar Hafró boðaðir til fundar næstir á eftir mér. Þeir hafa væntanlega verið spurðir álits á því sem ég var að segja. Viðbrögð í framhaldi fundunum hafa engin verið (www.fiski.com/raduneyti.html).

Sinnuleysi ráðamanna við að skoða til hlítar hvort hvort gagnrýni á fiskveiðistjórnunina hafi við rök að styðjast varðar við lög. Fiskveiðistjórn varðar almannaheill á Íslandi, þorskstofninn hefir verið kallaður "fjöregg" þjóðarinnar og á sínum tíma var honum komið í vörslu þeirrar stofnunar, sem nú kallast Hafró.

Fjöreggið hefur í vörslu Hafró rýrnað um tvo þriðju. Einkaaðilar eru, í samvinnu við vörslumennina, að sjúga út því rauðuna, spæla hana og éta. Man einhver eftir því að LÍÚ keypti skip handa Hafró og hefur nú meirihluta í stjórn stofnunarinnar?
Í stað þess að bregðast við, með því að sannreyna hvort eitthvað sé til í gagnrýninni líða ráðherrar og alþingismenn Hafróliðinu að afvegaleiða gagnrýnina og kasta skít í gagnrýnendur á tímum sem þjóðin þarf mest á fiskinum sínum að halda. Og enn eru fjölmiðlar meðvirkir. Þöggunin á fullu.


Ekki hefur gagnrýni minni verið hnekkt með haldbærum rökum eða hún verið afsönnuð með tilraunum. Ég hef oft stungið upp á við ráðamenn að gera tilraun með að afmarka ákveðið svæði, leyfa þar frjálsar veiðar til að sjá hvað myndi gerast, en megin þunginn í gagnrýni minni hefur verið að það þurfi að veiða meira, sérstaklega af smáfiski, svipað og gert var hér áratugum saman.

Með þessu ætti að vara einfalt að sýna fram á að ég hefði rangt fyrir mér. Þetta hefur enn ekki verið gert. Hvers vegna?


Met í loðmælsku?

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra skrifar grein í Fréttablaðið í dag (1/4) og þar segir hún m.a:


g hef góðar vonir um að atvinnuástand glæðist með vorinu þar sem mikill gangur er í ferðamennsku og tækniiðnaði svo og í sjávarútvegi og áliðnaði. Skortur á aflaheimildum í sumar er áhyggjuefni og hlýtur að verða til þess að gerð verði sérstök athugun á því hvort hægt sé að auka aflaheimildir tímabundið til að kljást við þann vanda innan forsvaranlegra marka".


Þessi - kannski, gæti verið, ef til vill - loðmælska er ótrúleg. Hér er allt vaðandi í fiski, því ekki að veiða verulega meira og það strax? Jón Bjarnason sagði reyndar í viðtali við Fréttablaðið: "Ég ræð þessu". Gaman gaman, ég ræð, um það snýst málið. Einn maður hefur í hendi sér að ráða örlögum fólksins í landinu, og hann þorir ekki að gera neitt. 
Er verið að gæta hagsmuna annarra en þjóðarinnar sem á miðin? Hvers vegna vilja stjórnendur landsins ekki auka aflaheimildir. Mér detta í hug tvær skýringar:


1. Þegar til stóð fyrir nokkrum árum að auka aflaheimildir í þorski um 30 þús. tonn mætti ég hátt settum sægreifa niður við höfn. Hann sagði við mig að vitlausasta sem hægt væri að gera væri að auka aflaheimildir, það myndi einungis leiða til þess að fiskverð (lesist: útleiguverð á kvóta) lækkaði.


2. Ef aflaheimildir yrðu auknar kæmi í ljós að það væri allt í lagi og leiddi jafnvel til enn meiri aukningar síðar. Þar með væri ofveiðistjórnunin sett í voða, og einokunarvald sægreifanna komið í uppnám.


Getuleysi stjórnmálamanna til að brjóta upp ofurvald ofveiðistjórnarinnar er hryðjuverk. Svo segir ráðherrann með stolti: "Ég ræð"! (lesist: ég hef gjaldeyrisöflun þjóðarinnar í hendi mér)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband