31.3.2009 | 11:35
Allir að veiða - nema við
Allt dýraríkið er að veiða síld í höfnum landsins nema við mennirnir. Við erum að byggja upp stofninn með friðun, svo við getum veitt meira - seinna. Vonandi drepst hún ekki í höfninni, þá gæti farið illa.
![]() |
Síldin veður í höfninni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.3.2009 | 22:23
Síldin í höfninni
Vegna síldarinnar í Vestmannaeyjahöfn, og reyndar fleiri síldarævintýra og sjúkdóma, er ekki úr vegi að segja frá síldardauða í Noregi snemma á síðustu öld.
Í Eidfirði í Vesteraalen sýndist mönnum, sem óveður væri í mynni fjarðarins. Þarna var á ferðinni síld, sem sullaðist inn fjörðinn og fljótlega sauð fjörðurinn af síld. Magnið var gífurlegt og menn komu með landnætur til að króa af síldina. Stóð þar nót við nót inn allan fjörð með tugum þúsunda tonna af síld.
Allir drifu síg í að veiða og salta. Söltunarplön voru settar upp, skip komu með salt og tunnur, fóru út fulllestuð og önnur komu í staðinn. Skipaumferðin var gífurleg og vinnslan á fullu. - En svo gerðist það.
Síldin drapst úr súrefnisskorti og steinsökk til botns. Hún lagðist í þykk lög á botninn og fljótlega fór að gerja í massanum. Gasmyndun varð í rotnandi síldinni og hún lyfti sér eins og brauðdeig sem hefast.
Loks sprengdi gasið upp síldarkekkina, rotnandi síldin flaut upp eins og grautur og hana rak í stórum flekum um fjörðinn. Vindur og alda skoluðu þessu á land og allar fjörur urðu þaktar af úldinni drullu, sem bændurnir sóttu og notuðu sem áburð í mörg ár.
En úti á firðinum ríkti kyrrð. Grúturinn úr rotnandi síldinni lá á firðinum eins og olía svo þar hreyfði ekki öldu, jafnvel vetrarstormar náðu ekki að vinna á brákinni. Fjörðurinn var lygn í mörg ár.
Smám saman varð fitan að vaxi sem rak á fjörur í stórum klumpum. Fólk safnaði þeim saman, steypti úr þeim kerti eða seldu vaxið í sápuverksmiðjur. - Fullnýting?
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.3.2009 | 20:15
Skarfarnir á hafnargarðinum
23.3.2009 | 10:50
Á ekkert að fara að veiða?
Það er svo sem gott og blessað að veiða hvali en þessum stjórnmálamönnum virðist alveg fyrirmunað að minnast á hvað eigi að gera í fiskveiðimálum. Á ekkert að fara að liðka til í kreppunni? Eru menn svona hræddir við sægreifana? Ekki þurfa handhafar veiðiheimilda að vera hræddir því lausnin er ekki að svifta þá veiðiheimildum, heldur hleypa öðrum að.
Þá kemur að Hafró. Þeir standa á því fastar en fótunum að þorskstofninn sé ofveiddur og því þurfi að takmarka veiðar og draga úr þeim.
Einar sagði að búið sé að sýna fram á að hvalurinn éti óhemju magn af fiski, hann sé í beinni samkeppni við nytjastofna okkar um fæðu og að reiknað hafi verið út af okkar færustu sérfræðingum að ef við stunduðum hvalveiðar væri hægt að auka þorskveiðar! Væntanlegar hvalveiðar eru svo smávægilegar að þær hafa engin áhrif til fækkunar hvala, enda notuð sú röksemd að þær séu sjálfbærar!
Þetta skyldu þó ekki vera sömu færustu sérfræðingar sem ,,reiknuðu út" árið 1994 að ef fylgt væri 22% aflareglu myndi þorskafli vera kominn í um 300 þús. tonn 2003 og fara vaxandi til 2023?
Þetta át hvala á nytjafiski sýnir hversu glórulaust það er að ætla sér að byggja upp þorskstofninn með friðun. Það sem við ekki veiðum fer beint í hundskjaftinn.
Sú aðferð að byggja upp þorskstofna með samdrætti í veiðum hefur hvergi tekist. Niðurskurður hefur alltaf, alls staðar, leitt til varanlegrar minnkunar á afla.
Aukinn þorskafli fæst aðeins með auknum þorskveiðum og það er hafið yfir allan vafa að í fæðuskorti, þegar fiskur er horaður og vex illa, er nauðsynlegt að auka veiðar. Auknar veiðar skapa verðmæti og vinnu. - En þá kemur að Hafró. Þorskstofninn er að þeirra áliti ofveiddur, það má ekki auka veiðar, frekar skal draga enn úr þeim til "byggja upp stofninn".
Sú stofnun virðist ekki læra neitt af reynslunni og hefur hundsað allar líffræðilegar ábendingar sérfræðinga utan stofnunarinnar.
Það mætti láta sér detta í hug að stofnunin sé notuð til að skapa skortstöðu til þess að halda uppi verði á aflaheimildum og laga "eignastöðu" kvótahafanna.
En er ekki kominn tími til að fólkið í landinu geti veitt sér í soðið? Það var Bjarni Benediktsson, sá gamli, sem sagði að það gagnaði lítið að friða fiskinn en drepa fólkið.
17.3.2009 | 17:18
Landburður af ufsa í Færeyjum
Mjög góð ufsaveiði er í Færeyjum, togararnir koma lunningafullir eftir skamma útiveru. Enginn kvóti er í Færeyjum en skipin fá úthlutað veiðidögum og mega veiða eins og þau geta af hvaða tegund sem er.
Þorskurinn virðist vera að ná sér úr lægðinni, aflinn er að vaxa og nýlega varð að grípa til skyndilokana vegna smáfisks í afla togara. Það er mjög óvenjulegt. Metafli var á þorski 2002 - 2003, síðan minnkaði hann mjög.
Þá gerðist það um daginn að sjónvarpið fór í "rallið" með rannsóknaskipinu Magnúsi Heinasyni, nokkuð sem aldrei hefur gerst á Íslandi þar sem rallið er "leyndó" þar til það er löngu afstaðið.
Í þessari mynd frá Færeyska sjónvarpinu tönnlast fiskifræðingar á því að þorskurinn sé búinn, nokkuð sem er nánast skyldu- umræða. En viti menn, - allt í einu fæst 26 tonna hal af þorski - í þennan bleðil, sem kastað er á fyrirfram ákveðinn stað. Stæsta hal sem þeir hafa fengið í 6 ár! Það er yndislegt að sjá hvernig það vöðlast fyrir leiðangursstjóranum að skýra það út. Filmubúturinn um rallið byrjar eftir 3.25 mínútur á klippinu.
Sjá má á myndinni hér til hliðar að þorskurinn er vel haldinn, hnöttóttur af spiki. Það þýðir að stofninn er að springa út.
Vert er að minna á Kompásþáttinn um Færeyska kerfið frá 2007. Hann er eins og vínið, batnar með árunum.
Vísindi og fræði | Breytt 18.3.2009 kl. 08:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)