27.2.2013 | 11:39
Hræðslan við ofveiðina - 2. Línuveiðar
Handfæra- og línuveiðar eru valkvæðar þ.e. fiskurinn er ekki eltur eða smalað saman, hann ræður því hvort hann bítur á krókana. Hann bítur á sjálfviljugur, og heldur væntanlega að þarna sé um mat að ræða.
Rannsóknir í Færeyjum hafa sýnt að þegar nóg er af mat (vöxtur góður) þá veiðist verr á línu. Ef minna er um fæðu leykst línuafli. Þetta ætti að vera auðskiljanlegt.
Þegar línuveiðar fækka fiski, þá verður væntanlega meira að éta fyrir þá sem eftir eru, þeir hafa minni hvöt til að sækja í beituna og veiðast því verr. Segja má að sókn línunnar í stofninn sé sjálfstýrð af stofnþéttleika og fæðuframboði. Ef afli á línu minnkaði drægi sjálfkrafa úr sókn vegna aukins kostnaðar.
En er línan svo öflugt veiðarfæri að fiskistofnum stafi hætta af henni?
Hér er kvikmynd þar sem fylgst er með hegðun þorsks við línukrókana. Ef myndin lýsir nokkurn veginn raunveruleikanum þá er línan eiginlega hálfónýtt veiðarfæri. Hún virðist vera eins konar fóðurstöð fyrir horfisk sem er aðframkominn af hungri.

Ljósmyndin sýnir magainnihald þorsks sem veiddur var á línu út af Grundarfirði fyrir nokkrum árum. Þar má sjá fjölbreyttan matseðil, sem búinn er til í landi og er serveraður á línukrókum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.2.2013 | 18:49
"Hagkvæmni" kvótakerfisins?
Það hefur tíðkast mjög lengi að togararnir hjóli í kring um landið til að leita að fiski, sem þeir hafa kvóta fyrir.
Í þessari frétt, þar sem kvartað var undan þorski, var hins vegar ekki sagt hvað gert var við þorskinn, sem var til vandræða. Hvert fór hann? Út um lensportið? Lesendur verða að geta í eyðurnar, í ljósi þess að brottkast er ekkert.
En leit að fiski, sem kvóti er fyrir og flótti frá tegundum, sem kvóti er ekki fyrir kallar á miklar siglingar, olíueyðslu eins og sagt er frá í fréttinni.
Nú má fara að skilja hvers vegna sægreifarnir fjárfesta í olíufyrirtækjum: Samherji á 40% í Olís - og Fisk á Sauðárkróki á svipað í Enn Einum.
Já menn vita hvernig á að bjarga sér, þeir eiga líka hlut í bönkum. Er ekki næst að fjárfesta í lögmannafyrirtækjum? Því ekki það, - þeir eru búnir að "fjárfesta" í dómurum og stjórnmálaflokkum.
![]() |
Þorskurinn til vandræða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.2.2013 | 19:31
Hræðslan við ofveiðina - 1. Handfæraveiðar
Ég hef þá skoðun, og byggi hana á heilli starfsæfi, að allir fiskstofnar við Ísland séu vannýttir, sumir stórlega.
Því er ekki úr vegi að taka smá rispu til höfuðs ofveiðidraugnum. Fyrsta greinin fjallar um hinar stórhættulegu handfæraveiðar.
Þegar talað er um vannýtingu má minna á að vertíðarveiðar hafa næstum lagst af. Allur hrygningarstofn þorsksins, Grænlandsþorskurinn meðtalinn, syndir hjá (næstum því) án þess að vera veiddur.
Ástæðan er sú að verið er að reyna að byggja upp hrygningarstofninn í þeirri trú að því stærri sem hann er þeim mun meiri verði nýliðunin. Þessi hugsun er röng og í blóra við þekkingu og reynslu.
Uppbygging hrygningarstofns síldar finnst nú á lyktinni í Kolgrafarfirði, skítafnykur og grútarhaugar, nokkuð sem mun standa í nokkur ár miðað við reynslu frá Noregi.
Þegar verið var að ýta strandveiðunum úr vör varð strax vart við hræðslu á að veiðarnar myndu ganga nærri fiskstofnunum. Krafa var um að veiðar yrðu gefnar frjálsar 5 daga í viku, 5 mánuði á ári og hverjum báti leyft að vera með 2 rúllur. Það myndi ekki skaðað fiskstofna. En því einungis tvær rúllur?
Hér lá að baki að baki sú hugsun að fleiri rúllur gætu verið skaðlegar fiskstofnum?
Þegar kerfið var svo sett á var það miklum takmörkunum háð, ekki mátti veiða um helgar, dagsafli mátti ekki fara yfir 900 kg og sett var þak á veiðarnar, heildaraflinn mátti ekki fara yfir 8 þús. tonn á árinu.
Hér er fróðleg mynd um handfæraveiðar, sem gerir allt tal um ofveiði af þeirra völdum hlægilegt, enda spyr þulurinn hvort sé unnt að lifa af slíkum veiðum!
Næst mun ég fjalla um "skaðsemi" línuveiða.
Vísindi og fræði | Breytt 15.6.2022 kl. 12:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.2.2013 | 20:05
Loðnumælingar: Upp og niður, út og suður
Nú mæla þeir hjá Hafró meiri loðnu en í leiðangri sem farinn var í október, þá mældist hrygningarstofninn 720 þús. tonn en núna í febrúar byrjun mælast 920 þús. tonn. Seinni partinn í janúar komu niðurstöður úr mælingu, hrygningarstofn upp á 320 þús. tonn og útlitið því dökkt, mældur stofn hafði minnkað mikið frá í október. Ef menn hefðu verið sjálfum sér samkvæmir hefði átt að banna loðnuveiðar, en það var ekki gert, menn töldu að það þyrfti að mæla "betur".
Nú í byrjun febrúar kemur aftur ný mæling: Hrygningarstofninn mælist þrisvar sinnum stærri en í janúar og kvótinn er hækkaður um 150 þús. tonn!
Hvaða mæling er rétt? Eru þær ekki allar vitlausar? Allar bergmálsmælingar eru lágmarksmælingar. Það sem tækin mæla vegur í mælingunni en það sem ekki mælist kemur ekki fram. Ef siglt er fram hjá torfu þá mælist hún ekki. Hafið er stórt og miklar líkur eru á að siglt sé fram hjá stórum torfum, sem þá "eru ekki til".
Annar þáttur í stjórn loðnuveiða er að alltaf skal skilja eftir 400 þús. tonn til hrygningar. Þetta hefur verið gert í rúm 30 ár, en mér vitanlega hefur aldrei hefur verið gerð úttekt á því hvort þetta hafi skilað árangri. Loðnustofninn hefur sveiflast upp og niður án nokkurs sjáanlegs samhengis við stærð hrygningarstofnsins.
Hrognamagn 400 þúsunda tonna hrygningarstofns er ógurlegt, svo mikið að væri hrognunum raðað upp í perlufesti næði sú festi 7000 sinnum í kring um jörðina. Hrognin mynduðu 7 m breiðan trefil í kring um hnöttinn. Er það ekki meira en nóg? Er eiginlega ekki komið alveg nóg - af vitleysunni?
![]() |
Kvótinn aukinn um 150 þúsund tonn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 6.2.2013 kl. 18:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)